Rauðhólar – friðlýsing
Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti á árinu 1961 vegna jarðminja en einnig landsslags, lífríkis og útivistargildis, og sem fólkvangur frá árinu 1974.
Stærð hins friðlýsta svæðis er um 45 ha og er afmörkun þess sýnd á uppdrættinum. Fólkvangar eru útivistarsvæði í umsjón sveitarfélaga þar sem reynt er að auðvelda aðgang almennings án þess að náttúran bíði tjón af. Efnisnámi hefur verið hætt í Rauðhólum, nema til að snyrta efnistökusvæðið. Um helmingur hólanna er raskaður og þar er jafnframt víða hægt að skoða innviði rofinna gervigíga.
Í „Stj.tíð. B, nr. 185/1974“ segir í „Auglýsingu um fólkvang í Rauðhólum“:
„[Umhverfisstofnun] hefur fyrir sitt leyti samþykkt stofnun fólkvangs í Rauðhólum við Reykjavík og tjáð ráðuneytinu, að frestur til að gera athugasemdir við stofnun fólkvangsins sé útrunninn, og hafi engar athugasemdir borist.
Ráðuneytið er samþykkt ákvörðun [Umhverfisstofnunar] og með skírskotun til laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, tekur stofnun fólkvangsins gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. Reglur um fólkvanginn eru í meðfylgjandi fylgiskjali.“ – Í menntamálaráðuneytinu, 12. mars 1974; Magnús T. Ólafsson.
Fylgiskjal – Auglýsing frá [Umhverfisstofnun] um fólkvang í Rauðhólum.
„Að tillögu náttúruverndarnefndar Reykjavíkur og að fengnu samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að lýsa Rauðhóla og nágrenni þeirra fólkvang, samkvæmt 26.gr. laga nr. 47/1971.
Takmörk þess svæðis, sem náttúruverndarnefnd Reykjavíkur ákvarðar til fólkvangsfriðunar á, eru sem hér segir, sbr. meðfylgjandi uppdrátt:
Brotin lína frá punkti 1 í miðri Hólmsá, þar sem brúin á gamla veginum var, ákvarðast hún af punktunum 1-2-3-4 og 5, frá punkti 5 ræður miður farvegur lækjar þess, sem rennur úr Hrauntúnstjörn í Helluvatn að punkti 6, þaðan brotna línan sem ákvarðast af punktunum 6-7 og 8, þaðan bogin lína, sem ákvarðast af punktunum 9-10-11-12-13-14 og 15, þaðan bogin lína, sem liggur fyrst um 5 m frá norðurbrún vegar að vesturenda Sundhóls og og þaðan áfram vestan sumarbústaða (Litla-Hvamms) suðvestan í Sundhól, sem uppdráttur sýnir, að punkti 16, þaðan brotin lína, sem ákvarðast af punktunum 16-17-18 og 19, þaðan miður farvegur Hólmsár að punkti 1.
Reglur þessar gildi um fólkvanginn
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allr svæðið og óheimilt er að reisa þar girðingar eða annars konar tálmanir, á þann veg að umferð fólks torveldist.
2. Óheimilt er að gera á svæðinu mannvirki né gera jarðrask, nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.
Eftirlit með fólkvanginum er í höndum náttúruverndarnefndar Reykjavíkur.“









ferlir.is


