Reykjanes — Reykjanesskagi; Guðmundur A. Finnbogason
Í Morgunblaðinu 1985 vitnar Guðmundur A. Finnbogason í grein Björns Stefánssonar í sama blaði skömmu áður undir yfirskriftinni „Reykjanes – hvað?„. Í tilvitnun Guðmundar til Velvakanda, sem ber fyrirsögnina „Reykjanes – Reykjanesskagi“ vill hann undirstrika mikilvægi þess að umfjöllun um Reykjanes sé ekki sú sama og væri hún um Reykjanesskagann:.
„Velvakandi góður.
Í Morgunblaðinu, föstudaginn 31. maí sl., er á blaðsíðu 15 dálítil grein eftir Björn Stefánsson skrifstofumann í Keflavík, heitir sú grein „Reykjanes — hvað?“. Þar segir Björn réttilega frá þeirri afbökun sem orðin er í fjölmiðlum, dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi á fornu heiti Reykjanesskagans, sem ber nafn sitt af litlu nesi er skerst út úr skaganum lengst suð-vestur og heitir Reykjanes frá fornu fari og á sitt sér heiti án þess að önnur byggðarlög á Reykjanesskaganum væru nefnd því nafni. Þau eru á Reykjanesskaganum en ekki á sjálfu Reykjanesinu er skaginn ber nafn af. Það er ekki fyrr en nú á síðustu árum að í mörgum fjölmiðlum hafa allir Suðurnesjamenn er búa á skaganum verið nefndir Reyknesingar og það hefi ég heyrt vel fullorðinn þingmann kjördæmisins kalla þá, eins hefi ég heyrt þul í útvarpinu segja að engir bátar á Reykjanesi væru á sjó í dag vegna veðurs. Ég hefi aldrei heyrt talað um bátaútgerð frá Reykjanesi. Þegar þingmenn tala um Reyknesinga á sínu pólitíska máli er þá engu að síður átt við þá er innar eru en Reykjanesskaginn nær, og það alla leið upp í Hvalfjarðarbotn.
Svipað hefur gerst með veginn er liggur frá Hafnarfirði suður með sjó til Suðurnesja, hann er í fjölmiðlunum að missa sitt forna nafn Suðurnesjavegur og er nú oftast kallaður Keflavíkurvegur þó svo að hann sé vegur til allra byggðarlaganna á Suðurnesjum eins nú sem áður, og á því með réttu að hafa sitt forna heiti hvernig sem nútíma byggðaþróun er eða verður þar sem Suðurnesjavegurinn liggur nærri.
Ég vil þessu næst láta kvæðið Reykjanes fylgja þessum línum. Kvæðið er ort af Grími Thomsen Þorgrímssyni skrifstofustjóra og skáldi á Bessastöðum. Hann var þar fæddur 15. mars 1820, dó 27. nóvember 1896. Grímur skáld hefir án efa miðað kvæði sitt við hið rétta Reykjanes en ekki Reykjanesskagann í heild.
Hvers í djúpum bullar brunni
beljar sjór í hranna flesi
sjóða jafnvel svalar unnir
suður undan Reykjanesi
skelf eru kröppu Skinnaköstin
skeflir móti vindi röstin.
Undir bruna áin rennur
útí mar hjá Valahnjúki
undir hrönnum eldur brennur
ekki er kyn þótt drjúpum rjúki
hafs í ólgu og hvera eimi
hvirflast bólgið öfugstreymi.
Óþreytandi elds er kraftur
ár og sið í djúpi starfar
stingur sér og upp þar aftur
eyjar koma líkt og skarfar
á skerin geta fuglar farið
fyrr en kannski nokkurn varir.“
Sjá einnig „Reykjanes – hvað?“
Heimild:
-Morgunblaðið, 169. tbl. 31.07.1985, Reykjanes – Reykjanesskagi, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 50.












