Reykjanes – yst
„Reykjanesið er undarlegur skapnaður“, sagði Jón Trausti. En þrátt fyrir svartsýni hafa miklar vonir verið bundnar í gegnum tíðina við þennan útskaga, nýjasta hluta landsins.
Gengið var frá Sandvík. Mikill reki er á sandorpnum köflum með ströndinni. Innan um rekann ber margt forvitnilegt fyrir augu. M.a. var þarna hluti úr síðu gamals árabáts. Byrðingurinn var negldur saman með koparnöglum.
Hátt bergið gapið við. „Það er eitthvað hrikalegt og seiðmagnað yfir þessari strönd sem enginn mun gleyma“, sagði séra Gísli Brynjólfsson þegar hann hafði gengið leiðina um 1980. Austast í urðinni undir Háleyjarbungu fannst lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði. Það var vorið eftir Skúlastrandið fógeta á Staðarmölum.
Í norðurhlíð Skálafells og þar norður af er hverasvæði það sem gefið hefur nesinu öllu nafn. Einn hveranna mun áður hafa verið nefndur Reykjanes-Geysir, en hann var breytilegur, hvarf um lengri tíma en tók sig upp á ný sem goshver 1918. Þá var hverinn einfaldlega nefndur 1918. Í kringum 1960 varð hann hreyfingarlítill, en við jarðskjálftann haustið 1967 tók hann að gjósa ákaflega, en það stóð ekki lengi. Nú er hann tær atkvæðalítill vatnshver með söltu vatni.
Rétt norðan við Reykjanestána, sem er 78 metra há, skerts smávík inn í bergið, Blásíðubás. Þetta er falleg náttúrusmíð. Oftar en einu sinni hefur lífum sjómanna verið borgið í Blásíðubás þótt þar sé alldrei kyrr sjór.
Vestar er Valahnjúkamölin. Þar fyrir utan strandaði Clam 28. febrúar 1950.
Á skipinu voru 50 manna áhöfn. Af þeim fórst um helmingur er þeir reyndu að komast á land á skipsbátum. Hinum náðu björgunarsveitir.
Á syðri Valahnjúknum var reistur fyrsti viti landsins árið 1878. Hann skemmdist í jarðskjálfta 10 árum síðar. Leifar hans sjást nú neðan við hnúkinn.
Árið 1908 var núverandi Reykjanesviti byggður á Bæjarfelli. Hann blasti nú við göngufólkinu frá Valbjargargjá, en þaðan séð er hann eins og klipptur út úr landslagsmálverki.
Endað var með því að skoða hlaðna sundlaug í sprungu skammt ofan við Valahnjúkamalir. Þar lærðu Grindavíkurbörn sund um og í kringum 1930. Þá rann volgt vatn um gjána er blandaðist köldum sjónum. Mannvirkið er enn nokkuð heillegt.