Reykjanesfólkvangur – yfirlit

Reykjanesfólkvangur

Það mun hafa verið Dr. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur sem átti hugmyndina að stofnum fólkvangs á Reykjanesi. Þegar hann fór eitt sinn um Krýsuvíkursvæðið og var að skoða verksumerki eftir fjósbygginguna í Krýsuvík 1948 Reykjanesfólkvangur - kortblöskraði honum að sjá hvernig hluta af uppgreftrinum hafði verið ýtt fram af brún Grænavatns, sem er bæði merkilegur og fallegur sprengigígur. Honum fannst að bregðast þyrfti við. Að hans mati virtist fólk ekki gera sér grein fyrir hverskonar náttúrufyrirbæri gígurinn væri. Hann taldi að kominn væri tími til að vernda náttúruna á svæðinu fyrir framkvæmdagleði mannanna.
Náttúruverndarlög, sem sett voru 1956, gerðu ráð fyrir að sveitarfélög gætu stofnað fólkvanga og að þjóðvangar yrðu í ríkiseign. Um málefni Reykjanesfólkvangs hafði verið fjallað, en árið 1968 voru þau tekin upp að nýju þegar skipulagsstjóri boðaði fulltrúa Náttúruverndarráða á Stór-Reykjavíkursvæðinu til samráðsfundar. Í framhaldi af því var skipuð samstarfsnefnd, sem átti að gera tillögu um hvaða náttúruvætti bæri nauðsyn til að friða á svæðinu.

Sigurður Þórarinsson

Sigurður Þórarinsson.

Dr. Sigurður Þórarinsson varð formaður samstarfsnefndarinnar og í október 1969 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur samhljóða hugmynd um að stofnun Reykjanesfólkvangs, sem átti að ná frá Elliðavatni að Krýsuvíkurbergi. Ætlunin var að sameina Heiðmörk, Bláfjallasvæðið, Krýsuvíkurland og Herdísarvíkurland.
Eftir langan meðgöngutíma og margskonar hræringar var ákveðið að einskorða Reykjanesfólkvang við núverandi mörk. Ástæðan var sú að ekki náðist full samstaða um svo stórt svæði innan þeirra sveitarfélaga sem tengdust málinu, enda sveitarstjórnarfólk jafnan illu heilli haft litla innsýn í þau miklu varanlegu verðmæti, sem þar er að finna. Þó var ákveðið að fólkvangurinn spannaði um 300 km2 landsvæði. Það er stærð fólkvangsins í dag, rúmum 30 árum seinna, og er hann enn sem komið er langstærsta friðlýsta svæði sinnar tegundar hér á landi. Hinsvegar er Undir NorðlingahálsiReykjanessvæðið allt um 1700 ferkílómetrar og spannar það þó ekki allt hið forna landnáms Ingólfs.
Reykjanesfólkvangur var stofnaður með reglugerð sem tók gildi  1. desember 1975. Sveitarfélögin sem stóðu að fólkvangnum voru: Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær. Stjórn fólkvangsins er enn í höndum þessara sveitafélaga í samráði við Umhverfisstofnun. Fulltrúi Reykjavíkur er formaður stjórnarinnar þótt Reykjavík eigi ekkert land í fólkvangnum sjálfum.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Mörk fólkvangsins að austan eru sýslumörk Gullbringu- og Árnessýslu. Að norðan tengist hann Bláfjallarfólkvangi. Vesturmörk fólkvangsins eru vestan við Undirhlíðar og Núpshlíðarháls fram í sjó við Selatanga. Suðurmörkin fylgja strandlínunni.
Reykjanesfólkvangur samanstendur að stórum hluta af gróðurlitlum, en litskrúðugum og jarðfræðilega „safaríkum“ móbergshæðum, mosagrónum hraunum og formfögru fjallalandslagi. Tveir áberandi meginfjallshryggir (og aðrir minni) liggja eftir fólkvangnum miðjum og eru í NA-SV stefnu, eins og sprungureinarnar sem ganga úr Atlantshafinu og taka land á Reykjanestá. Þessi hryggur skiptir vestanverðum Reykjanesskaganum á milli Evrasíu flekans og Ameríkuflekans sem gerir svæðið einkar áhugavert fyrir jarðfræðinga og aðra sem velta grundvallarþáttum jarðfræðinnar fyrir sér.
Á SveifluhálsiStærstu fjallahálsarnir fyrrnefndu nefnast Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls). Hæstu hnúkar og tindar á þessum hálsum ná upp í u.þ.b. 400 metra hæð yfir sjó. Má þar nefna áberandi formfagra móbergshnúka í Stapatindum Sveifluhálsins og þá nyrstu í Núpshlíðarhálsi; Trölladyngju og Grænudyngju.
Brennisteinsfjöll eru austast í fólkvanginum en þar nær einstaka fjall upp í  u.þ.b. 600 metra hæð. Það má til dæmis nefna Hvirfil, Kistufell, Eldborgir og Vörðufell. Langahlíð, eða Lönguhlíðar, er enn annar fjallshryggurinn sem liggur austan og norðan við Kleifarvatn.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – þrívíddarkort.

Sunnan og vestan fjallanna þar sem hallar niður að Kleifarvatni er Vatnshlíð, frá Vatnshlíðarhorni að hinu nafnkunna felli Gullbringu, sem sumir segja að öll sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja hana vera langhlíðina ofan og austan hennar. Nokkru sunnar er Geithöfði, Lambafellin og lengra í austurátt er Geitahlíð þar sem enn ein formfegurðin trjónir hæst; gígur Æsubúða. Segir þjóðsagan að þar hafi fyrrum, áður en hraunin runnu, verið verslunarstaður. Skipið Hvítskeggur á m.a. að hafa verið bundið þar við festar, er sáust lengi vel í Hvítskeggshvammi ofan Eldborganna.
Á SveifluhálsiNálægt hinu forna Krýsuvíkurhverfi eru tvö móbergsfell; Arnarfell og Bæjarfell. Nokkru suðvestan af Bæjarfelli er áberandi toppmyndað fell sem nefnist Mælifell, oftast kallað Krýsuvíkur-Mælifell, til aðgreiningar frá Skála-Mælifelli, sem er norðaustan Skála. Að vísu er enn eitt mælifellið á millum, en færri sögum fer af því í örnefnalýsingum. Nafngift fellanna fylgdi jafnan staðsetningum mælingastöðva danskra landmælinga- og kortagerðamanna um og í kringum aldarmótin 1900. Þau kort eru enn talin hin mestu nákvæmissmíð. Keilir er vestan Trölladyngju, eitt hið formfegursta fjall á Skaganum, en hann er þó ekki innan Reykjanesfólkvangs.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Eina verulega stóra stöðuvatnið í fólkvanginum er Kleifarvatn. Það er um 10 km2 að stærð og þar sem það er dýpst, í gjánum austur af Syðri-Höfða, nær það 97 metra dýpt. Sunnan vatnsins eru tjarnir, votlendi og smálækir sem renna í það. Kleifarvatn er á margan hátt undarlegt stöðuvatn sem byggir vatnsbúskap sinn að miklu leiti á regnvatni, og það rignir talsvert mikið í Krýsuvík.
KleifarvatnReyndar er öll rigningin tálsýn að hluta. Það þekkja þeir a.m.k., sem varið hafa nokkrum árum æfi sinnar á þeim slóðum. „Rigningin“ er að mestu í formi þoku, sem jafnan grúfir sig yfir fjallgarðinn við hentug veðurskilyrði, enda hefur hann veruleg áhrif á veðurhvörf veggja vegna. Vatnsborðið Kleifarvatns hefur og sveiflast verulega á ákveðnum árabilum, þrátt fyrir að vatnið sé afrennslislaust ofan jarðar. Ástæðan er sú að sprungur í botni vatnsins opnast við jarðhræringar og þegar svo ber undir minnkar í Kleifarvatni.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Landnám 2002; Litla Grindavík numin.

Þetta kom glögglega í ljós árið 2000 þegar vatnsborðið lækkaði um 4 m og ummál vatnsins minnkaði í 8 km2. Þá urðu tveir miklir jarðskjálftar á Suðurlandi og varð sá seinni beint undir Sveifluhálsinum og Kleifarvatni. Það er því ekkert skrýtið þótt eitthvað hafi þurft undan að láta. Þennan dag, 17. júní (í fyrri skjálftanum), má segja að hálsinn hafi risið undir nafni; Sveifluháls, því hann liðaðist líkt og ormur. Það segja a.m.k. þeir er til sáu.
Nokkur merkileg gígvötn og tjarnir eru innan fólkvangsins, merkust þeirra eru Djúpavatn, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augun, en auk þeirra má finna dæmigert heiðarvatn á Krýsuvíkurheiði sem nefnist Bleiksmýrartjörn, líka nefnt Arnarfellsvatn.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Arnarvatn er á Sveifluhálsi og Djúpavatn, Grænavatn og Spákonuvatn í Núpshlíðarhálsi. Lækir eru í Krýsuvík og við Djúpavatn, á Selsvöllum og víðar.

Reykjanesfólkvangur er mikið til þakinn hraunum og mörg þeirra hafa runnið í sjó fram. Það er fagur að skoða hraunfossana sem hafa steypst fram af fjöllunum niður á láglendið. Þar má nefna Fagradalshraun, Tvíbollahraun og hinn tilkomumikla hraunfoss Víti í Kálfadölum, auk hraunstraumana austast í sunnanverðum Núpshlíðarhálsi og fram af brúnum Stóra-Hamradals.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Krýsuvíkurland frá Kleifarvatni að Krýsuvíkurbergi er þakið jarðvegs- og gróðurþekju, sem er ofan á nokkrum lögum af hraunum. Þessi hraunlög sjást ágætlega þegar samsetning landsins við Krýsuvíkurberg er skoðað.
Það eru nokkur ung hraun í Reykjanesfólkvangi, þar á meðal eru miklir hraunmassar sem flæddu víða í Krýsuvíkureldum sem stóðu yfir frá 1151-1180.
Hraunakort af ReykjanesskagaÞessi hraun hafa sum hver mótað landslagið á sögulegum tíma. Nýjustu rannsóknir staðfesta aldurinn svo glögglega að meginhraunin, Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (Kapelluhraun/Bruni), eru talin hafa myndast um haustið 1151. Talið er að gamla Krýsuvík í Húshólma hafi að mestu horfið undir hraunflóðið. Þar eru enn allmerkar minjar sem lítill gaumur hefur verið gefinn til þessa. Líklega kunna þær að leiða í ljós, við nákvæmari rannsókn, elstu mannvistaleifa hér á landi – frá því fyrir norrænt landnám.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – hraunakort.

Krýsuvíkureldar stóðu yfir ein 30 ár og þá varð hluti Kaldárhrauns til, sem kom úr mörgum smágígum við Undirhlíðar og vestan Helgafells; einnig Mávahlíðarhraun skammt frá Fjallinu eina og Traðarfjallahraun í Móhálsadal.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – rann 1151.

Víðáttumikil hraun, sem eru í stórum hluta bæjarlands Hafnarfjarðar, runnu úr gígum í Grindaskörðum og Þríhnúkum á sögulegum tíma, eftir landnám (um 950). En yngstu hraunin komu í eldgosi í Brennisteinsfjöllum, sem átti sér sennilega stað í kringum 1340 eða 1380. Þessi hraun eru því ekki nema rúmlega 600 ára gömul ef rétt reynist.
VBúrfellið suðurströnd fólkvangsins eru tvær litlar víkur, Hælsvík og Keflavík og milli þeirra er strandbergið Krýsuvíkurberg, sem er eitt merkilegasta fuglabjarg landsins. Þar hafa að jafnði verið um 100 þúsund sjófuglar. Mest er af svartfugli, þ.e. álku, langvíu og stuttnefju, en einnig er nokkuð af toppskörfum, silfurmáfum og fýlum, eða múkka eins og sjómenn kalla þann ágæta fugl. Krýsuvíkurberg var lengi vel nytjað af Björgunarsveit Hafnarfjarðar, en eftir jarðskjálftana árið 2000 varð áhættan meiri en áður vegna hættu á hruni. Áður fyrr var bergið ein helsta matarkista Krýsuvíkinga og hjáleigubænda þeirra.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Það eru æði margar og merkar menningarminjar víða í Reykjanesfólkvangi, sem tengjast búskap og atvinnu fyrri alda, en einnig má finna nýlegar minjar frá síðustu öldum. Elstu fornminjarnar eru í Húshólma (gamla Krýsvík) í Ögmundarhrauni. Þá eru margar selminjar innan fólkvangsins. Sem slík skipa selin stóran sess í búskaparsögu Reykjanesskagans, en í heildina má enn sjá þar leifa um 250 selstöðva.
Fornar minjar í HúshólmaKrýsuvík var lengi höfuðból og heimajörðinni fylgdu nokkuð margar hjáleigur. Krýsuvík var heil kirkjusókn á sínum tíma og þótti afskaplega góð jörð á meðan sjálfsþurftarbúskaður var stundaður á Íslandi. Um tíma voru 14 hjáleigur frá Krýsuvíkurbúinu. Útræði var frá Selatöngum fram undir aldarmótin 1900, en nokkur eftir það var róið frá Hólmasundi. Áður höfðu Krýsvíkingar skipt á seljabeit og uppsátri við Þórkötlunga í Grindavík og Kálfatjarninga á Vatnsleysuströnd. Beitilandið var svo gjöfult að sauðfé var látið ganga sjálfala árið um kring, það var stutt á fiskimiðin frá útverunum og þau gáfu vel í aðra hönd.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Í Krýsuvíkurbergi var nóg af fuglakjöti og eggjum, og rekaviður skaffaði efnivið í hús og báta, amboð og annað er til þurfti. Rekaviður var m.a. sóttur í Keflavík austan Bergsenda og niður undir Heiðnaberg. Var þá farið um hinn brattumgengna Ræningjastíg. Frá honum honum segir í þjóðsögunni um komu Tyrkjanna til Krýsuvíkur, för þeirra í selið ofan við bergið og móttökur séra Eiríks á Vogsósum sunnan við Krýsuvíkurkirkju þann örlagaríka dag – fyrir þá.
KrýsuvíkurkirkjaÞrátt fyrir alla gnæðina fór Krýsuvíkurjörðin hægt og sígandi í eyði á fyrri hluta 20. aldar, eftir að stórskáldið Einar Benediktsson eignaðist hana ásamt norskum fjármálamanni. Það var sennilega tímanna tákn að skáldjöfurinn var á fallanda fæti á sama tíma og landsmenn voru að skipta um gír og hverfa frá sveitunum til að setjast að í þéttbýlisstöðunum við sjávarsíðuna þar sem góð hafnaraðstaða skipti meginmáli. Annars verður að segja um Einar Benediktsson, að skáldajöfursímyndin hafi í seinni tíð blindað ásýndina af svindlaranum.
Þegar Hafnarfjarðarbær eignaðist Krýsuvíkurjörðina um 1941 var Magnús Ólafsson síðasti íbúi Krýsuvíkur nánast kominn að fótum fram. Hann var fluttur nauðungarflutningi til Hafnarfjarðar eftir að hafa fengið slag, og um svipað leyti var bílvegurinn til Krýsuvíkur fullgerður. Þar með lauk hinni gömlu búsetu í Krýsuvík eftir tíu alda langa sögu, en nýi tíminn megnaði ekki að endurreisa staðinn á þann hátt sem ætlunin var.

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegurinn lagður um Helluna við Kleifarvatn.

Vegagerðinni var m.a. ætlað tvenn hlutverk; annars vegar að gera Hafnfirðingum kleift að reisa mjólkurframleiðslubú í Krýsuvík og hins vegar til að auka öryggi mjólkuflutninga millum Flóamanna og Hafnfirðinga á vetrum þegar Hellisheiðarvegur tepptist. Ætlunin var og að virkja hverina í Seltúni og Hverahvammi til að framleiða raforku, en þær áætlanir runnu út í sandinn, líkt og mjólkurframleiðslan. Nú hefur verið gefið út rannsóknarleyfi í Krýsuvík til Hitaveitu Suðurnesja sem hyggst setja virkjun á laggirnar í þessum miðdepli fólkvangsins ef ráðist verður í byggingu álvers í Helguvík.
Fjöldi merkra náttúruminja eru í fólkvangnum, fallega mótaðar móbergsmyndanir, hraunstapar, hraunhellar og margháttað gróðurfar, sem reyndar á í vök að verjast. Landeyðing er mikil í Reykjanesfólkvangi. Landgræðsla hefur verið stunduð þar um áratugaskeið en árangurinn hefur verið minni en efni stóðu til. Samt sem áður má víða sjá grösuga bala en mest ber á uppblásnum melum og móbergshálsum. Ljóst má vera að fjallskollar, sem nú eru gróðurlausir, hafa margir hverjir verið verið þaktir gróðri áður fyrr. Má þar nefna Mælifellin.
Hraunsel undir NúpshlíðarhálsiJeppamenn notuðu Reykjanesið um tíma fyrir utanvega akstur en núna eru það aðallega menn á miðjum aldri sem aka svokölluðum endúró hjólum, eða mótorkrossmenn sem þeytast upp um öll fjöll og spæna upp viðkvæma dali á Reykjanesinu. Slíkur akstur er með öllu bannaður í Reykjanesfólkvangi eins og annarsstaðar utan vega á landinu. Dæmi eru einnig um að göngufólk skilji eftir sig rusl og önnur líti á ferðum sínum um svæðið.
Það eru tvö beitarhólf innan fólkvangsins. Annað (fyrir „hafnfirðingana“) er orðið nokkuð rótgróið en hitt (fyrir „grindjánana“) er nýlegt. Með beitarhólfunum hvarf „villibráðabragðið“ af kjöti kindanna, sem áður ráfuðu frjálsar um hlíðar og fjöll. Annars hefur fé fækkað svo mikið á Reykjanesskaganum að líklegra hefði verið öllu ákjósanlegra að leyfa því að ganga sjálfala og hjálpa þannig til við að byggja upp annars gróðurlítil eða gróðurlaus svæði.
Nokkrar fornar þjóðleiðir liggja um Reykjanesfólkvang. Hluti af Selvogsgötu, Undirhlíðarleið, Stórhöfðastígur, Hrauntungustígur, Ketilstígur, Þórustaðastígur, MoshóllHálsavegur, Drumbsdalaleið, Sveifluleið, Hettuvegur, Dalaleið, og hluti af Suðurleiðinni gömlu, sem vermenn austan úr Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum, fylgdu á leið sinni í verið á þorranum og aftur heim að vori. Þórustaðastígurinn lá t..d. frá Þórustöðum á Vatnsleysuströnd, meðfram Moshól nyrst á Selsvöllum, yfir Núpshlíðarháls að Vigdísarvöllum. Þar tók við Sléttuvegur upp að Hettuvegi yfir til Krýsuvíkur.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961.

Nú eru helstu leiðirnar Krýsuvíkurvegurinn, sem var lagður 1935-1945, og Ísólfsskálavegur sem er að stofni til frá því um 1932, þótt núverandi vegur sé um hálfrar aldar gamall. Síðarnefndi vegurinn var að mestu lagður yfir gamla götu, þ.á.m. Ögmundarstíg, sem lá þvert yfir samnefnt hraun. Svo er vegslóði sem liggur að Djúpavatni og áfram um Krókamýri og Vigdísarvelli að Latsfjalli, sem er eingöngu opinn á sumrin. Þessa stundinar er verið að vinna við nýjan Suðurstrandarveg sem þó nokkrar deilur hafa staðið um. Sá vegur á að tengja saman byggðirnar í Suðurkjördæmi, þ.e. Suðurnesin og Suðurlandið.
Fyrir nokkrum árum lagði Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur fram tillögu um að gera RFjölmargir hellar eru innan fólkvangsinseykjanesfólkvang að Eldfjallagarði og stækka hann í leiðinni til austurs. Hann vildi draga Þríhnúkasvæðið inn í fólkvanginn. Meðal þess sem rætt hefur verið um í sambandi við Eldfjallagarð á Reykjanesi er sú hugmynd að bora gat inn í miðjan Þríhnúkagíg, sem er einn stærsti eldgígur heims. Hugmyndirnar er góðar sem slíkar, en framkvæmdin yrði auðvitað arfavitlaus – þ.e. að raska og umbreyta einu helsta jarðfræðifyrirbæri í heimi.
Reykjanesfólkvangur er á miðju virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum.

Jarðfræði

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin hefur verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin og virðast koma í hrinum sem koma á um 1000 ára fresti og stendur yfir í u.þ.b 200 ár.   Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma.   Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru Bláfjallaeldar sem hófust árið 930 og stóðu yfir í u.þ.b. 100 ár.   Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151. Í gosinu opnaðist um 25 km löng sprunga og rann hraunið til svávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum.
Misgengi og sigdalir eru margir í fólkvanginumAð sunnan myndaðist Ögmundarhraun í þessu gosi en að norðan rann Nýjahraun sem flestir nefna Kapelluhraun. Í þriðju goshrinunni urðu Reykjaneseldar sem stóðu yfir frá 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó þar sem Eldey reis upp úr sjónum.
Eldvirkni raðar sér á svokallaðar sprungureinar þar sem eru gosstöðvar og opnar gjár. Oft eru sigdalir eftir endilöngum sprungureinunum og gígaraðir.   Sprungureinarnar eru yfirleitt 25-50 km langar og 5-7 km breiðar. Tvær þeirra fara um Reykjanesfólkvang, þ.e Krýsuvíkurrein og Brennisteinsfjallarein sem liggja frá suðvestri í norðaustur yfir Reykjanesskagann. Háhitasvæði er á báðum sprungureinunum, þ.e. Seltún, sem er í næsta nágrenni við veginn norðan við Krýsuvík, og hverasvæðið í Brennisteinsfjöllum sunnan Draugahlíðar.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur á Sveifluhálsi.

Jarðlög Reykjanesfólkvangs eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólsturberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin eftir að jökull hvarf af svæðinu. Í Krýsuvík, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Það eru væntanlega leifar af fornum dyngjum og hafa líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka suður af Lönguhlíð (um).  Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og Núpshlíðarháls og Sveifluháls eru móbergshryggir sem hafa hlaðist upp undir jökli. Syðst og austast í fólkvanginum er Krýsuvíkurhraun, forsögulegt sprunguhraun. Norðan þess eru nokkur hraun runnin úr Brennisteinsfjöllum eftir landnám. Vestast í fólkvanginum er Ögmundarhraun frá árinu 1151.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Jarðsagan er heillandi og á fáum stöðum opnast jarðsögubókin betur en hér á Reykjanesskaganum í fjölbreyttum jarðmyndunum. Hér má sjá úthafshrygg koma á land og á  “Brúnni milli heimsálfa” er hægt að ganga milli Ameríku og Evrópu. Sjá hvernig landið hefur gliðnað, sprungur opnast, gígar myndast og hraun runnið. Landið stækkar sígandi, lúshægt mælt í mannsævinni en á ægihraða í samanburði við ævi Jarðar, að meðaltali 2 sentimetra á ári.
Hér eru eldgígar af öllum gerðum og merkileg fjöll mynduð við eldgos undir jökli, bólstraberg og móberg, t.d. við Kleifarvatn þar sem í kaupbæti býr skrímsli. Litskrúðugt berg í Trölladyngju gefur Landmannalaugum lítið eftir og útsýnið af Keili er stórbrotið. Dyngjur nefnast flatir hraunskildir og móðir þeirra, Skjaldbreiður, rís við endimörk garðsins í norðri en litlar systur skreyta skagann, sumar úr bergi svo djúpt úr iðrum jarðar að það geymir jafnvel lykilinn að uppruna vatnsins á Jörðinni.
TrölladyngjaÁ Reykjanesi brýtur úthafsaldan bergið af ógnarkröftum, molar í spað og skolar upp í Sandvíkina. Næsta land beint í suður er Suðurskautslandið. Krísuvíkurberg og Festarfjall full af fugli, súlur og lundar sveima um. Að leggjast í mjúkan mosa er vandfundinn lífsreynsla í öðrum löndum. Reykjanesskaginn er unaðsreitur náttúruskoðara og ljósmyndara, hrein upplifun. Hér eru háhitasvæði með litríkum ólgandi leirhverum, öskrandi gufuaugum og hæglátum vatnshverum. Hér gengur sjórinn inn í bergið, mætir orku úr iðrum jarðar, hitnar og breytist í sjóðheitan jarðsjó sem nýttur er í Bláa lóninu og geymir lækningamátt. Jafnvel í fúlasta sjóðandi leirpytti er líf, frumstæðar lífverur sem una sér við öfga. Geymir Reykjanes að lykil að uppruna lífsins eða vísbendingar um mögulegt líf á öðrum hnöttum?

Húshellir

Húshellir – hreindýrabein.

Hreindýrum var sleppt á Reykjanesskaga árið 1777 og héldust þau þar við allt framundir 1930. Tófum hefur fjölgað á svæðinu á undanförnum árum. Í Kleifarvatni er nokkur silungur, en þar var sett bleikja um 1960.
Fjörur við suðurströnd skagans eru opnar fyrir úthafinu og klettóttar. Þar við efstu flóðmörk finnst sérkennileg stór grápöddutegund (krabbadýr). Krísuvíkurberg er stærsta fuglabjarg Reykjanesskaga. Rita er þar yfirgnæfandi, en einnig er mikið af fýl og svartfuglstegundunum, álku, langvíu og stuttnefju. Að auki verpur þar lundi, teista, toppskarfur og silfurmáfur. Undir berginu má stundum sjá útseli og lengra úti má stundum sjá til hvala af bergbrúninni.
Háhitasvæði eru innan fólkvangsinsAlls hafa fundist tæplega 200 tegundir blómaplantna og byrkninga (burknar, elftingar, jafnar) í Reykjanesfólkvangi. Flestar tegundirnar eru algengar um land allt, en einstaka eru bundnar við Suðurland, t.d. grástör og gullkollur. Við fyrstu sýn virðist svæðið hrjóstrugt á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum eins og t.d. í Ögmundarhrauni og setur hann óneitanlega   mikinn svip á landið. Grámosi(gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng, sortulyng og beitilyng.

Kerin

Birki ofan við Kerin í Undirhlíðum.

Lítið er um kjarrlendi í Reykjanesfólkvangi. Kjarrgróður er einkum norðanmegin á svæðinu, en ljóst er að núverandi kjarr eru leifar víðáttumeira kjarrlendis. Einna vöxtulegastur trjágróður er umhverfis Búrfell og Smyrlabúð. Birki er aðaltrjátegundin sem myndar kjarr, en á stöku stað má sjá allstóra gulvíðirunna. Undirgróðurinn er einkum lyng og grös, s.s. hálíngresi, ilmreyr, bugðupuntur, svo og blómplöntur, t.d. blágresi, brennisóley og hárdepla. Stór hluti fólkvangsins eru melar og bersvæði. Gróður er mjög strjáll á slíku landi og einungis harðgerðar tegundir þrífast þar, t.d. melskriðublóm, holurt, geldingahnappur og lambagras. Þéttur valllendisgróður liggur víða undir fjallshlíðum með ríkjandi grastegundum; týtulíngresi, hálíngresi og blávingli.   Flest eru valllendin tún fornra bæja eða selja eins og örnefnin gefa til kynna: Selvellir, Seltún og Vigdísarvellir. Mýrargróður er helst að finna í suðurhluta fólksvangsins. Stærst er mýrin við Stóra Lambafell, en þar vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa, engjarós, mýrardúnurt og horblaðka.
KortEitt af sérkennum fólkvangsins eru jarðhitasvæðin og þar eru nokkrar einkennisplöntur. Fjölskrúðugastur er gróðurinn á jarðhitasvæðinu við Seltún. Þar vaxa tegundir  svo sem laugasef, lindasef og lækjadepla. Einnig er margbreytilegur gróður í volgrunni sem rennur um Seltún að leirhvernum Svuntu, t.d. sefbrúða og laugabrúða. Af sjaldgæfari tegundum má nefna ýmsar blómplöntur, t.d. fjalldalafífil. skógfjólu, geithvönn og jarðaberjalyng, sem finnast t.d. í Núpshlíð og Geitahlíð.
Innviðir Reykjanesfólkvangsins hafa allt til þessa dags verið stórlega vanmetnir í 30 ár, eða allt frá því að Sigurður Þórarinsson, vakti athygli á mikilvægi verðmæta hans. Nú er er kominn tími til að breyta um betur – varðveita svæðið í heild og skila sem flestum verðmætum þess til komandi kynslóða.

Hraunhólar

Hraunhólar undir Vatnsskarði eftir efnisnám.

Það stafar margskonar hætta að Reykjanesfólkvangi. Innan hans eru margar stórar efnisnámur. Ein við Bláfjallaveg sem fer sífellt stækkandi, ein við Vatnsskarð og sú þriðja í gígaröð Ögmundarhrauns nærri Latsfjalli. Nokkrar gamlar námur eru einnig til staðar, ein við Vatnshlíðarhorn og önnur þar sem Litla-Eldborg var undir Geitahlíð, en hún er ekki svipur hjá sjón vegna ótæpilegrar efnistöku á sínum tíma. Eldborgin undir Trölladyngju er að mestu horfin undir vegstæði og víða má bakatil við sjónröndina sjá hvar efni hefur verið tekið úr ómetanlegum jarðmyndunum. Auk þess má nefna mikinn áhuga fyrirtækja og stofnana að virkja þar á sem flestum stöðum – jafnvel þeim verðmætustu.

Heimildir m.a.:
-http://www.gamli.umhverfissvid.is/reykjanesfolkvangur/
-http://www.ogmundur.is/VI/news.asp?id=653&news_ID=3149&type=one&multiplier=0.9
-Hrefna Sigurjónsdóttir.

Grindaskarðahnúkar og KerlingahnúkarNúpshlíðarháls