Reynisvatn

Í “Þjóðsögur og munnmæli” skráðum af Jóni Þorkelssyni segir m.a. um Reynisvatn: CXVI. “Reynisvatn – [Landsbókasafn 528. 4to með hendi Jóns Árnasonar].
Reynisvatn 2Reynisvatn heitir bær í Mosfellssveit. Hann dregur nafn af stöðuvatni því, sem þar er rétt við túnið, og af manni þeim, sem þar bjó fyrstur og hét Reynir. Reynir bóndi hafði smiðju sína langt frá bænum fyrir handan vatnið, undir svo kölluðum Nónás; varð hann að krækja öðruhvoru megin við vatnið, þegar ekki lá ís á því, til að komast í smiðjuna. En í vatninu var afbragðs silungsveiði. Einu sinni um vetur þegar vatnið var farið að leggja, ætlaði Reynir að stytta sér leið og ríða yfir vatnið til smiðjunnar, en vök var á vatninu og drukknaði hann þar. Dóttir Reynis var stödd úti og sá ófarir föður síns. Henni varð skapbrátt af því hún gat ekki hjálpað honum, og lagði á vatnið, að allur silungur í því skyldi verða að pöddum og hornsílum, og hafa þau ummæli haldizt síðan. En það er frá bóndadóttur að segja, að hún tók til fótanna eptir ummæli sín, hljóp í sömu vökina, sem faðir hennar fórst í, og týndi sér þar.”

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson skráði, 1899, bls. 155-156.