Reynisvatnsheiði – minjar
Fá skrif eru til um jafn nærtæka heiði og Reynisvatnsheiðin er. Reyndar hefur heiðin sú ekki verið nærtæk öðrum en sumarbústaðaeigendum og tímabundum hernámsmönnum fyrr en allra síðustu árin. Eftir að Morgunblaðið byggði prentsmiðju og flutti síðan ritstöðvar sínar í Hádegismóa á Grafarheiðinni norðan Rauðavatns varð Reynisvatnsheiðin skyndilega í örskotsfjarlægð.
Að vísu var skógræktarfólk búið að undirbúa jarðveginn með því að planta trjám við Rauðavatn og utan í sunnanverða heiðina, gera göngustíga og reyna að laða fólk að útivistarmöguleikum hennar, en árangurinn skilaði sér ekki að ráði fyrr en byggðin fór að teygja sig áleiðis. Rauðavatnið sjálft varð aðalaðdráttarafl skautafólks, skaflskeiðunga og smábátaunnenda, en lengra náði áhugi þangaðleitenda tæpast – með örfáum undantekningum þó. Með byggðaaðþrengingunni jókst nýtingin svo að jafnvel þaulsetið listafólk sýndi því áhuga. Svæðið var síðan fornleifaskráð og því fékkst staðfest að búsetuminjar frá fyrri tíð leyndust í heiðunum. Einna merkilegust þeirra eru líklega leifar Grafarsels, fjárhústóft frá Hólmi, tvær fjárborgsleifar austan Rauðavatns og myndarleg fjárborg norðaustan á hæð austan vatnsins. Þá verður hlaðin ferköntuð rétt austan Rauðavatns að teljast til merkilegra fornleifa á svæðinu. Gömul gata liggur og ofan Rauðavatns áleiðis til austurs, að Lyklafelli, en utan í hana hafa myndast seinni tíma sumarhúsagötur. Nú eru til viðbótar komnir þar betrumbættir göngustígar, malbornir.
Reynisvatnsheiðin er spölkorn austar, eða millum Rauðavatns og Reynisvatns sem og Langavatns skammt austar. Austar er Miðdalsheiði.
Einn FERLIRsfélaga fór nýlega um Reynisvatnsheiðina og rak þá þjálfuð augun í umtalsverðar hleðslur sunnan í grónu holti. Þær eru tæpast numdar með venjulegum augum. Um er að ræða nánast ferkantað gerði, 10×12 m, með grónum jöðrum, en í því miðju eru tveir hlaðnir þverveggir, líkt og undirstöður eða hrófl að göflum. Grjótið í hleðslunum hefur þó verið með stærra móti. Skammt sunnar eru sprengiefnageymslur. Austan þeirra eru leifar af götu og steyptum grunni mannvirkis, líklega frá Seinni heimsstyrjöldinni. Þær virðast þó ekkert hafa með fyrrgreint mannvirki að ræða, sem virðist mun eldra.
Haft var samband við fulltrúa Minjasafns Reykjavíkur og athygli hans vakin á mannvirkinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.