Samspil fornleifa og sagna – Adolf Friðriksson
Virt breskt forlag gaf út rit Adolfs Friðrikssonar „Samspil fornleifa- og sagna“ árið 1994:
„Avebury-forlagið í Englandi hefur sent frá sér ritið Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology. Höfundur þess er Adolf Friðriksson fornleifafræðingur. Bókin er afrakstur rannsókna hans á árunum 1988-1991, er hann var við nám við Fomleifafræðistofnun Lundúnaháskóla. Adolf hefur hlotið viðurkenningar erlendis vegna þessa verkefnis, þ.á m. frá breska utanríkisráðuneytinu, nefnd háskólarektora í Bretlandi og minningasjóði Gordon Childe.
Jafnframt veitti Vísindasjóður aðstoð við lokafrágang verksins og handritið að bókinni hlaut verðlaun Gjafar Jóns Sigurðssonar. Árið 1993 hlaut Adolf námsstyrk franskra stjórnvalda og er nú búsettur í París við nám og rannsóknir við École des Hautes Etudes.
Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaelogy fjallar um samspil fornsagna og fornleifa í íslenskri rannsóknarhefð.
Á bókarkápu kemur fram að umhverfi íslenskrar fornleifafræði er óvenjulegt því búseta á Íslandi hófst ekki fyrr en á víkingaöld, og jafnframt að til eru bókmenntir frá miðöldum er segja sögu Íslendinga frá fyrstu tíð.
Í bókinni er upphaf fornleifarannsókna á Íslandi rakið til áhuga og aðdáunar á fombókmenntunum. Í árdaga fornleifafræði voru sögurnar vegvísar fræðimanna á markverða minjastaði og voru þær lengi taldar geta aukið skilning á minjum víkingaaldar. Frumkvöðlar fornleifarannsókna og sporgöngumenn þeirra rannsökuðu greftrunarstaði fornmanna, hofminjar og þingstaði og fundu gjarnan augljósa samsvörun á milli minja og sagna er þeir töldu staðfesta gildi sagnanna.
Þegar samspil sagna og minja er skoðað kemur m.a. í ljós að alþýðuskýringar sem finna má um flesta minjastaði, hafa leikið stórt hlutverk.
Alþýðuskýringar um minjar sem taldar em frá fornöld eru fyrst og fremst heimildir um áhuga manna og forvitni, en ekki traustar vísbendingar um uppruna minja. Þessar skýringar hafa hins vegar verið færðar í búning vísindalegrar rannsóknasagna sem hafa haft afgerandi áhrif á ályktanir rannsakenda um aldur og eðli minjanna.
Á síðustu árum og áratugum hefur mjög dregið úr áhrifum örnefna, alþýðuskýringa og Íslendingasagna í fornleifafræði, enda hafa fræðimenn meiri efasemdir um heimildagildi þeirra. Nýjar kynslóðir fornleifafræðinga hafa kosið að yfirgefa fræðihefðina og stunda „sjálfstæða“ fornleifafræði. Komið hafa fram kenningar þar sem reynt hefur verið að kollvarpa fyrri hugmyndum um upphaf byggðar og fornleifafræðingar hafa leitast við að finna rannsóknastaði utan sögusviðs mennta. Þessi viðhorf byggja ekki á skýrum röksemdum um gang eða ógang Íslendingasagna við fornleifar og víða megi finna yfirlýsingar fornleifafræðinga um þessi efni. Rannsóknarhefðin hefur verið yfirgefin án athugunar á eðli hennar og takmörkum.

Fornleifauppgröftur í Arnarfirði. Um er að ræða sjálfstæðan fornleifauppgröft þrátt fyrir ritheimildir.
Þrátt fyrir yfírlýsingar um gagnsleysi Íslendingasagna við fornleifarannsóknir má finna sterk áhrif þeirra í verkum hörðustu gagnrýnenda rannsóknarhefðarinnar. Mótsagnir af því tagi spilla mjög trúverðugleika niðurstaðna þeirra. Í ljósi þessa er mikilvægt að horfa um öxl og skoða eðli rannsóknarhefðarinnar, sögu rannsókna, og leggja mat á hugtök og aðferðir.
Bókin skiptist í sex kafla. Helstu einkenni íslenskrar fornleifafræði eru kynnt í inngangi. Í næstu fjórum köflum er fjallað um minjar um upphaf byggðar, trúarbrögð, þinghald og búsetu. Í lokakafla er rakin þróun fræðigreinarinnar í samhengi við breyttan tíðaranda og litið til framtíðar. Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology er 240 bls. að stærð og prýdd flölda mynda, korta og teikninga.“
Heimild:
-Morgunblaðið, 259. tbl. 12.11.1994, Samspil fornleifa og sagna – Adolf Friðriksson, bls. 21.













