Sel og selstöður leggjast af
Í Fjallkonunni 1890 er m.a. fjallað um „Lax og selr„. Um selin segir:
„Selstöður eru, nú orðið, því nær ekkert notaðar hjá því sem var á fyrri öldum. Eins og enn er ástatt með jarðræktina hér á landi, má það óefað teljast afturför í landbúnaðinum, að hafa ekki í seli, þar sem svo stendur á, að gott er um selstöður enn heimaland rýrt. Fyrst er nú það, að málnytan verði meiri og betri í seljunum og skepnurnar þó oftast feitari og holdþéttari enn heima; og í öðru lagi „hvílast“ heimalöndin svo að beitin verði drýgri og betri á þeim haust og vetur; enn fjallabeitin, sem ekki næst í nema um miðhluta sumarsins, vinnst betur upp enn ella. Sauðum (gömlum) er nú víða farið svo að fækka, að það léttir mikið á afréttarlöndunum á sumrin, og er því fremur ástæða til að nota gæði þeirra sem mest má verða á annan hátt, þenna stutta tíma sem þau bjóðast.
Líklega er það aðalástæðan fyrir mörgum, að nota ekki selstöður, að það sé of kostnaðarsamt með fólkshald, áhöld og hesta til selflutnings, fyrir ekki fleiri málnytupening enn á flestum búum er. Enn þessi ástæða hyrfi ef menn kæmu sér saman um félagsskap í þessu sem fleiru. Ef 3 bændur, sem eiga um 50 ær, legðu saman í sel, og legðu til einn mann hver (2 í selið, 1 til flutninga), og annan tilkostnað eins að hlutfalli, mundi það til lengdar verða miklu kostnaðarminna enn heimagæsla víðast hvar, því heima þyrftu þeir sinn smalann hver, auk allra annara tafa við málnytuhirðinguna, þó ekki væri búist við neinum mismun að öðru leyti. Selfólkið getur líka oft haft einhver smávegis aukastörf, ef tími er til, t.d. safnað fjallagrösum m.fl.
Kýr ætti að hafa í seli eigi síðar enn ær. Í þéttbýlum sveitum eru kýr oft til mestu vandræða; þær vaða yfir tún, engjar og sáðgarða, og valda oft miklum usla og töfum. Eru því aldrei látnar í friði, enn hraktar með hundum milli bæjanna, til mikils hnekkis fyrir gagnsmunina af þeim. Þar sem svo á stendur, væri sjálfsagt betra að hafa þær í félagsskap í seli, að minsta kosti flestallar, þó haldið væri eftir heima einni eða svo á búi.
Þessi atriði eru þess verð, að þau séu athuguð.“
Í Frey 1962 er skrifað um „Mjólkurneyslu„: Íslendinga:
„Samhliða vexti þorpa, kauptúna og kaupstaða, hefur á dyrnar knúð þörfin á því að laga sig eftir aðstœðum og útvega mjólk til neyzlu, í líkum mæli og gerzt hefur um allar aldir Íslandsbyggðar, en allt frá landnámsöld til vorra daga hefur mjólkin verið snar þáttur í nœringu þjóðarinnar.

Skáli Ingólfs í Skálafelli, fornleif með vísan í Landnámu. Þarna ku Ingólfur hafa haft geldneyti í seli og ræktað korn á Gullakri.
Á fyrstu öldum byggðarinnar er líklegt, að kýrnar hafi verið aðal málnytupeningur og sagnir eru af því og ábyggilegar heimildir, að stórbú voru eigi fátíð og nautahjarðir stórar.
Síðar hefur sauðfé fjölgað og af selstöðum, þar sem kýr voru mjaltaðar, eru til margar sögur og ábyggilegar. Langt er síðan selstöður lögðust niður hér á landi, og aðeins eru nokkrir áratugir siðan fráfœrur lögðust niður, en með þeim hvarf neyzla sauðamjólkur með öllu, nema ef einhverjir neyta enn sauðaþykknis á haustnóttum.
Nú er það kúamjólkin, sem er eina nœring þjóðarinnar af mjólkurtagl. Þegar þjóðin bjó öll í sveitum var fyrirhafnarlitið að koma mjólkinni frá framleiðslustað til neyzlustaðar. Hvert heimili var hvort tveggja, nema þegar þurrabúðarfólk átti í hlut eða fátœklingar með eina kú, sem auðvitað var þá geld tíma úr árinu, en þeir, sem svo illa voru settir að eiga ekki mjólkandi kýr, voru upp á annarra náð komnir eða urðu að líða skort annars, einkum í harðindum. Kýrin var „fóstra mannkynsins“ og það er hún raunar að vissu marki þann dag í dag á okkar landi.“
Lesbók Morgunblaðsins 1951 rifjar upp konungsbréf frá árinu 1754 er kveður á um „Viðhald selja„:
„Á 18. öld þegar einokun, fjárkúgun og ill stjórn hafði drepið allan dug úr Íslendingum og landið var auk þess í kaldakoli af harðindum og fjárfelli og fólkið hrundi niður úr hungri, hugkvæmdist dönsku stjórninni að bæta úr þessu. Var gefið út konungsbrjef 24. febr. 1754 er fyrirskipaði bændum að hafa í seli, að minsta kosti tveggja mánaði tíma, frá því er átta vikur væri af sumri til tvímánaðar. Lagaboð þetta varð auðvitað ekki að neinu gagni.“
Heimildir:
-Fjallkonan, 31. tbl. 14.10.1890, Lax og selr, bls. 122-123.
-Freyr, 5. tbl. 01.03.1962, Mjólkurneysla, bls. 5.
-Lesbók Morgunblaðsins, 39. tbl. 07.10.1951, Selstöður, bls. 452.














