Selatangar I

ísólfs

Gengið var um Selatanga.

Selatangar

Selatangar – fisbyrgi (nú horfið).

Fyrst var haldið til veturs yfir í Katlahraunið. Á leiðinni var nyrsta refagildran skoðuð. Hún líkist vörðubroti, en ef nánar er að gáð má sjá fallhelluna og opið á gildrunni. Hún er ein af fjórum, sem enn má sjá heillegar á Töngunum.
Gengið var eftir Vestari Lestareiðinni í gegnum Borgir (Ketil) yfir að Smíðahelli. Í honum skýldu vermenn á Selatöngum sér í landlegum og dunduðu við að smíða nytjahluti, s.s. ausur, spón og hrífur úr rekavið, sem þeir drógu að sér undan reka Kálfatjarnarkirkju.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Komið var í eldhúshellinn og gengið þaðan yfir að syðstu refagildrunni utan við gerðið. Á leiðinni var komið við í skúta, sem notaður var sem tímabundinn bústaður fyrr á öldum. Efsta refagildran er svo til alveg heil. Lítið vantar annað en að hengja upp fallhelluna og egna fyrir skolla.
Haldið var austur að hesthúsinu og vestasta sjóbúðin síðan skoðuð. Í henni er, auk vistarvera, eldhús og hlóðir. Sjávarmegin við þær er vestasta

fiskibyrgið af þremur. Stendur það mjög heillegt á hæð, en neðan þess er klettur með krossmarki á. Neðan hans eru tveir klettar, alveg niður við fjöruborð. Sá austasti og minnsti, er Dágon, landamerkjasteinn Krýsuvíkur og Ísólfsskála.
Þaðan var haldið um byrgin og búðirnar, hverja á fætur annarri, og staðnæmst við skiptivöllinn, uns komið var að Smiðjunni.

Selatangar

Selatangar – Jón Guðmundsson frá Skála með í för.

Sunnan hennar eru austustu búðirnar á Selatöngum. Í þeim eru einnig eldhús og hlóðir.
Utan í Selalágum, austan tanganna eru fjórir skútar. Hlaðið er fyrir þrjá þeirra. Sá þriðji frá sjó var notaður sem vistarverur. Einnig eru hleðslur fyrir neðan þann fjórða.
Í bakaleiðinni var gengið um byrgin ofan á töngunum og þau skoðuð, uns komið var að Brunninum, en hann var forsenda þess að hægt var að gera út frá Selatöngum. Ofan hans eru tjarnir og gætir sjávarfalla bæði í þeim og brunninum.

Brunnurinn var mannhæða djúpur, að sögn Jóns Guðmundssonar frá Skála, en var fylltur upp er rolla fannst dauð ofan í honum anno 1930. Ekki var vart við Tanga-Tómas á Töngunum að þessu sinni.

Selatangar

Brunnurinn.

Selatangar eru ágætt dæmi um útver. Margar minjanna eru enn heilar, en líklegt má telja að flestar þeirra séu yngri en frá því um 1800. Þó eru sagnir um útver á Selatöngum allt frá því á 12. öld. Krýsuvík og Ísólfsskáli skiptu með sér verinu, en auk þess hafa verið þar uppkomubátar með hlutaskiptum. Verstaða við ströndina kvað á um sérstaka tímabundna menningu, sem vert er að gefa gaum. Hún lítur ekki síst að sagnaskemmtuninni, hefðinni í matarkosti, tignarskipan og fyrirkomulagi róðra og verkunnar.
Á SelatöngumÆgir hefur brotið mikið af ströndinni á umliðnum öldum og árum. Þannig er skiptivöllurinn nú horfinn með öllu, en var vel sýnilegur einungis fyrir nokkrum árum síðan. Líklegt má telja að allar elstu mannvistarleifarnar á Selatöngum séu löngu horfnar og að einungis þær yngstu standi þar nú.
Selatangar eru eitt af merkilegri útverum, sem enn má sjá merki og minjar um, með ströndum Íslands.
Veður var frábært – þægilegur andvari. Gangan tók 2 klst og 2 mín

Selatangar

Á Selatöngum.