Seljabúskapur

selhús

Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem lítið var um haga nærri bæjum að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá.

Stekkur í seli - D. Bruun

Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýr. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltakonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn: ,,Það stenst á endum strokkur og mjaltir“.

Smali í seli - færikvíar

Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt. Selin voru venjulega þrjú hús: mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur.
Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar. Heldur þótti það vilja þynnast á selflutningunum, sem von var.

Selsmatsselja

Selsmatsselja.

Heldur hefir vistin verið einmanaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Urðu til margar sögur þar sem selmatseljur komust í tæri við huldumenn og urðu þungaðar eftir þá; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir urðu báðum jafnan að bana. Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig.

Seljabúskapur

Seljabúskapur – RÚV.

Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um  sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.
Selfara er víða getið bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju.

Heimild m.a.:
-www.skolavefurinn.is

Brynjudalur

Brynjudalur – í Þórunnarseli.