Sel og selstöður fyrrum

Merkinessel

Í ritgerð um „Sel og selstöður í Dýrafirði„, skrifuð af Bjarna Guðmundssyni 2020 er fjallað um sel og selsbúskap í þeim landsfjórðungi. Auðveldlega má hins vegar heimfæra þau skrif, einkum hvað varðar upphaf búskaparins upp á selsbúskap annars staðar á landinu á þeim tíma – þótt ekki væri til annars en til uppfræðarfærslu hins almenna um selsbúskap þess tíma:

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – meint seltóft Víkursels, þess fyrsta frá Reykjavíkurbæ Ingólfs.

„Dalirnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum.

Selin í sögu og lögum

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Fornasel

Fornasel.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi.
Lars Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: „Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden).

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða.

Straumsel

Straumssel – efri Straumselshellar.

Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur. Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður.

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta. Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Annars eru innlendar heimildir býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu www.ferlir.is með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra: Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu).

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur…

Straumssel

Straumssel.

146:… þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum…

147: Sá skal boð bera bæja í milli… En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

177: Engi maður skal fyrir öðrum brenna með heiftugri hendi hús né heyhlaða, sætur, búð né skip. En ef hann brennir og verður að því kunnur og sannur, þá er hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur, og hefir fyrirgert hverjum peningi fjár síns í landi og lausum eyri . . .

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa.

Brynjudalur

Brynjudalur – í Þórunnarseli.

Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Stakkavíkursel

Selstígurinn í Stakkavíkursel – Hlíðarvatn fjær.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið … Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

Það var vinnan sem á hverjum tíma var sá þátturinn er helst takmarkaði rekstur seljanna: Hún var mikil og ekki eftirsóknarverð, sennilega sakir aðstöðu, aðbúnaðar og fásinnis.

319: Of selför: Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.
320: Enn of selför: Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók. Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .
330:… Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Sel og verstöðvar

Selatangar

Selatngar – verkhús.

Á sama grunni og selstöðurnar voru handan mæra menningar (kultur) og náttúru (natur) má segja að verstöðvarnar hafi verið það hvað snerti sókn til sjávarins. Með verstöðvunum tóku menn sér tímabundna búðsetu til þess að auðvelda nýtingu auðlindar hafsins, rétt eins og menn gerðu með selstöðunum hvað gróðurlendið snerti. Á vertíðum annarra tíma ársins, einkum vor og haust, fóru menn með hliðstæðum hætti til fiskivera sinna. Markmið beggja ferðanna voru hin sömu: Að afla próteins og feitmetis til eigin viðurværis en einnig sem gjaldmiðla til leigugreiðslna og þeirra takmörkuðu viðskipta er stunduð voru.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Í seljunum stóð ríki kvenna. Í verstöðvunum ríktu karlar. Var það ef til vill eitt form þeirrar tíðar er markaði (annabundið) frelsi og jafnrétti kynjanna? Og þá má líka spyrja hvort aflögn seljabúskaparins hafi haft sambærileg áhrif á afkomugrundvöll heimilanna og hvarf þeirra frá notkun verstöðva til einhliða heimræðis hefði haft? Að þeirri spurningu kom þó ekki því þörfin fyrir selför og sauðamjaltir þvarr með gerbreyttum þjóðfélagsháttum – og nútíma.

Enginn veit lengur með fullri vissu hvernig hús og önnur mannvirki á selstöðunum litu út á meðan þau stóðu heil og voru í fullri notkun. Það má hins vegar giska á það, m.a. á grundvelli mælinga á tóftum og öðrum minjum sem enn sjást.

Fráfærur lagðar af og búháttum breytt

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Rétt undir lok nítjándu aldar skrifaði Pétur Jónsson á Gautlöndum rækilega grein þar sem hann færði rök fyrir og hvatti til stofnunar samlagsselja, til dæmis 6-8 bæja með þá 6-800 ám. Kvað hann mikla umræðu hafa farið fram í Þingeyjarsýslu um málið þótt ekki hafi þá enn orðið af framkvæmdum. Torfi Bjarnason í Ólafsdal skrifaði rækilega grein um fráfærur og samlagssel árið 1908, studdi hana glöggum hagreikningum og hvatti til stofnunar samlagsselja: „Það væri vert að athuga, hvort vér höfum haft gilda ástæðu til að leggja selin niður, eða þau hafa verið lögð niður í hugsunarleysi og af óframmsýni, eins og sumt annað gamalt og gott, sem týnst hefur.“
Fleiri ræddu málið en ástæðan fyrir endurreistum áhuga á selförum hefur líklega verið sú að nokkru fyrr hafði tekið fyrir sauðasöluna til Bretlands sem gefið hafði ýmsum bændum í stöku héruðum vel þegnar tekjur. Ein leið til þess að mæta tekjubrestinum var talin vera framleiðsla smjörs fyrir erlendan markað, leið sem reynd var og gaf góðan en skammæan ábata.

Mosfellsbær

Í stekknum.

Menn gerði bæði sárt og að klæja eins og haft var eftir Sigríði Jónsdóttur húsfreyju í Alviðru í Dýrafirði, f. 1896, um fráfærsluna: „Þetta var svo mikið tilstand. Það þurfti að þrífa kollur og kirnur en það kom svo gríðarmikið smjör úr sauðamjólkinni.“ Erfiðir tímar urðu svo til þess að árið 1918 lagði Sigurður Jónsson atvinnumálaráðherra fram frumvarp á Alþingi um heimild til landsstjórnarinnar að fyrirskipa „fráfærur ásauðar“, fyrst og fremst í þeim tilgangi „að reyna að bæta úr feitmetisskortinum, sem nú er að verða mjög tilfinnanlegur í kaupstöðum og sjávarþorpum og jafnvel einnig í sveitum,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu. Málið var rætt allrækilega en því síðan vísað frá með rökstuddri dagskrá „í því trausti, að landsstjórnin stuðli að því eftir föngum, að bændur geti fengið sem ódýrastan og hentugastan vinnukraft, til framkvæmdar fráfærum ásauðar, og gefi þeim upphvatningu til þess á annan tiltækilegan hátt“…

Færikvíar

Færikvíar.

Annmarkar á fráfærum voru helst taldir vera hve erfitt og dýrt yrði að útvega nauðsynlegan vinnukraft, að heyafli bænda mundi minnka sakir fólkseklu og að minna yrði framleitt af góðu kjöti og spilla kjötmarkaði erlendis sem þá var til staðar.176 Engu breytti þetta, selin voru að hverfa.

Mótstaðan gegn fráfærunum er aðallega bygð á fólkseklunni. Bændur kvarta um, að þá vanti kvenfólk til að nytka ærnar, og að ekki fáist unglingar til að smala eða sitja hjá …

Í Alþingistíðindi 1918 skrifaði Sigurður Sigurðsson í grein um viðbrögð við dýrtíð árið 1918.. „Svo virðist sem síðasta bára eljabúskaparins, hafi hnigið með framtaki bolvíkskra bænda sumurin 1952-1954.“

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Sum mannvirkin geta hafa verið fullburðug íveru- og mjólkurvinnslu hús en önnur aðeins næturskýli eða smalakofar – mannvirki sem líka geta verið frá ýmsum tímum og breytileg frá einni jörð til annarrar. Í þriðja lagi eru það svo stekkarnir, þessar einkennandi réttir eða kvíar sem mörg örnefni eru tengd og lágu í dálítilli fjarlægð – stekkjarveg – frá býli. Vegalengdin var að sönnu ekki stöðluð en líklega ekki höfð meiri en svo að á stekkinn og af honum mætti ganga á skaplegum tíma og með tilheyrandi byrði (málnytuna). Ég hef ekki gert sérstaka rannsókn á stekkjaminjum á svæðinu en lausleg athugun sýnir að stekkir hafa, að minnsta kosti sumir hverjir, verið býsna íburðarmikil mannvirki. Í ljósi þess má velta því fyrir sér hvort menn hafi komið þeim upp til þess eins að nota þau um stekktíð, á meðan lömb voru vanin undan mæðrum sínum – á svo sem 2-3 vikna tíma á hverju ári.

Mundastekkur

Mundastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ég tel ekki fráleitt að ætla að stekkur kunni á tíðum að hafa þjónað hlutverki sels (mjaltasels); að vegna fjarlægðar frá bæ, þótt takmörkuð væri, hafi hann dugað til þess að halda uppi hinni nauðsynlegu tvískiptingu landnýtingarinnar: húshaga og selhaga. Sú skipting var sýnilega ekki landfræðilega fastbundin heldur kvik eftir eftir ýmsum aðstæðum. Þarft væri að kanna þátt stekkanna í þessu efni nánar. Hvernig tókst að hagnýta þessa hugmyndafræði á heimilunum mörgu og á ýmsum tímum sögunnar markaði efnalega afkomu einstaklinganna – og úr því spunnust hvort heldur bláþræðir eða gildir kaflar á hnökróttu bandi kynslóðanna.

Vinnubrögðin, mjólkin og smjörið

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Hvernig var vinnubrögðunum hagað í seljunum? Sjálfsagt hafa þau verið með ýmsu móti, allt eftir aðstæðum.
2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum.

Ærnar voru aftur á móti strax reknar fram í sel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannske einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærnatímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram fyrir á. – Ekki er nema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að á eða tæplega það.

Ássel

Ássel – tilgáta; ÓSÁ.

Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.

Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að bæ í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestinum.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel- tilgáta; ÓSÁ.

Selkonurnar fóru oft heim að bæ á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.

Þegar heyjað var í selinu, en það eru brekkurnar heiman til við á, grasgefnar mjög, munu tveir karlmenn hafa dvalið þar framfrá vikutíma eða svo. Heyið var flutt heim í selið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – tilgáta (ÓSÁ).

Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að bæ og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag.

Féð var haft heima í bæ fram undir snjóa, en þá voru ærnar reknar í selið að nýju og hafðar þar fram undir hátíðar eða meðan selheyið entist.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Svo má nú ekki síðar verða í þessari ritsmíð að vikið sé að afurðinni sem fráfærur og seljabúskapur snerist um – mjólkinni – magni hennar og gæðum. Skiljanlega vitum við fátt um slíkar tölur frá tímum seljanna en þegar dró að lokum mjólkurframleiðslu með sauðfé og kjöt tók að hækka í verði sakir vaxandi eftirspurnar birtust niðurstöður athugana glöggra bænda. Fróðlegum athugunum er sagt frá í búnaðarblöðum á fyrstu tveimur áratugum tuttugustu aldar. Þá hvöttu nefnilega ýmsir til eflingar fráfærna, eins og nánar verður vikið að.

Ungur smali, aðeins fimm ára gamall, sat yfir ám frammi á dal sumarið 1910, ef til vill nálægt Fremraseli . . . „honum leið illa og var hræddur . . . hann hafði misst móður sína skömmu áður“. . .: Ungum var börnum falin hjásetan. Fjarlægð frá heimabæ, framandi umhverfið og hinar persónulegu aðstæður kunna að hafa valdið óttanum þótt hugur reiki líka að reimleikum sem skýringu.

Dyljáarsel

Í Dyljárseli í Eilífsdal.

Að áliti Kjartans Ólafssonar virðast bændur víðast hvar hafa verið fastheldnari á forna búskaparhætti en almennt var í nálægum byggðum og „á það einkum við um seljabúskapinn“, skrifaði Kjartan, og um 1820 „var búsmali frá eigi færri en þrettán jörðum og enn eru hafðar í seli á sumrin.

Lýsingarnar benda til þess að selstöðurnar hafi verið notaðar af og til, legið niðri um hríð og síðan jafnvel teknar upp aftur.

Selin eru jafnan æva gömul ef marka megi gróður og gerð tóftanna. Það er eins og landslagsarkitekt alheimsins hafi úr gróðrinum ofið snotran krans og lagt hann mildilega yfir seltóftina – líkt og í virðingarskyni og til minningar um löngu horfin störf, og blessað fólkið sem störfin vann þarna af trúmennsku sinni og elju.

Heimild:
-Sel og selstöður í Dýrafirði, Bjarni Guðmundsson, landbúnaðarháskóli Íslands 2020 – uppfært til hins almenna.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.