Garðabær – Setberg
Í Fornleifaskráningu í Garðabæ 2009 er ma.a fjallað um Setberg, sem var fyrrum í Garðabæ:
1505: „var þad setberg fyrir sunnan land vid hafnarfiord. ok þar med ij. kvgilldi edvr iij huortt ed uæri. iij uættir smiors vr holom. leigur fra haugatungu vppa .iij. ar. var þetta allz .x. vætter. sagdist grimr hafa likt þoruardi adr .xxxiiij. kugilldi. heyrdum vær þa aunguan aaskilnad þessara þratt greindra manna. helldr kom þeim alltt uel samann suo uær heyrdum.“ DI VII, 797. 1523: var Tómas Jónsson kvittaður af jörðinni Setbergi af Pétri og Halli Björnssonum. Þá voru landamerkin: „Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i [nedstu jardbru). So epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hesta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.“ DI IX, 146.
1658, selur Tómas Björnsson sr. Þorsteini Björnssyni 8 hndr. í Setbergi. 1664 setur Tómar Björnsson fógetanum 8 hndr í Setbergi. 1665 eignast Guðrún Björnsdóttir 8 hndr í Setbergi. Jarðabréf, 15. 16 hndr 1703.
1772 heimsótti Joseph Banks Setbergsbæinn.1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. „Samkvæmt dómi frá 5. des 1924 eru landamerki milli Setbergs og þess hluta Garðakirkjulands, sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupsstað, sem hér segir: „Úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinn beint vestur af þeim stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum, rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi, þaðan beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnarinnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markþúfu suður og uppi á holtinu þaðan í upptök lækjar þess, sem Hafnarfjarðarkaupstaður fær neyzluvatn sitt úr, þá í Gráhellu og þaðan í miðjan Ketshelli. …“
„Lönd jarðanna Þórbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.“ ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 122 1703: „Engjar á jörðin nokkrar þó litlar sjeu.“ JÁM III, 176. 1918: Tún 6,5 teigar, nær allt sléttað, garðar 1600 m2.
Útihús er sýnt á túnakorti við austurjaðar túns, tæplega 170 m norðaustur frá gamla bæjarstæðinu. Rústir þess eru enn sjáanlegar, byggðar utan í túngarðinn að austanverðu. Stór hlaðinn kálgarður er sambyggður útihústóftinni að norðanverðu en mun hann vera síðari tíma verk að sögn Óttars Geirssonar heimildamanns. Þessi hluti túnsins er í landi Garðabæjar.
Tóftin er í jaðri gamla heimatúnsins sem að mestu hefur verið breytt í golfvöll
Eitthvað virðist vera búið að ryðja þessari rúst til og því erfitt er að átta sig á nákvæmri lögun hennar. Hún virðist þó hafa verið um 15 x 15 m að stærð og er hleðsluhæðin mest um 0,5 m.
Hernaðarmannvirki hlaðin úr grjóti, leifar úr Seinni heimsstyrjöld, eru á Flóðahjalla þar sem hann rís hæstur. Flóðahjalli er allhár grágrýtisrani suður af Urriðakotsvatni. Mannvirkin eru um 330 m SA af Flóðahjallavörðu [055] sem er nyrst á Flóðahjallatá. Mannvirkin eru leifar vígis frá Bretum sem ætlað var til varnar mögulegri innrás Þjóðverja um Hafnarfjarðarhöfn (skv. grein í MBL 13.01.2002).
Hernaðarmannvirkin eru hlaðin á og í kring um klöpp og umhverfis er melur. Mannvirkin samanstanda af garðlagi úr grágrýti og grjóthlöðnum tóftum innan þess. Allar hleðslur eru þurrhleðslur úr ótilklöppuðu grjóti. Garðlagið er nokkuð hring- eða sporöskjulaga en óreglulegt, um 45×33 m N-S að utanmáli. Hleðslurnar eru mjög tilgengnar og því víða breiðar og lágar, t.d. allt að 5 m breiðar nyrst.
Um miðbik austurhluta garðlagsins eru hleðslurnar heillegastar, allt að 1,3 m háar, ríflega 1 m breiðar og 5-6 umför. Innan garðlagsins er mikið af lausu grjóti og jarðföstum klöppum. Tóftirnar eru einna syðst innan garðsins. Tvær eru greinilegar, ein ferhyrnd og önnur hringlaga, en einnig eru í kring tilgengnir veggir sem hugsanlega hafa áður verið hluti annarra tófta. Ferhyrndatóftin er syðst fyrir miðbik, örskammt frá suðurvegg garðlagsins. Hún er heillegri en hringlaga tóftin, um 6×6 m að utanmáli (4×4 m að innan) og með dyr til austurs. Veggir tóftarinnar eru hæstir um 1,5 m og 7 umför.
Hringlaga tóftin er skammt VNV af þeirri ferhyrndu. Hún er um 6×6 m í þvermál og afar tilgengin, ekki nema 2 umför og grjótdreif er í kring. Norðan, austan og suðvestan við ferhyrndu tóftina eru tilgengin veggjarbrot sem kunna að vera leifar annarra mannvirkja. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 13.01.2002 færðu Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson rök fyrir því að hringlaga tóftin gæti hafa hýst byssustæði, en sú ferhyrnda gæti hafa verið íverustaður hermanna. Á náttúrulega klöpp innan garðlagsins er klappað ártalið 1940 sem og nafnið J. E. Bolan og fangamarkið D. S. Þar skammt við er svo klappað ártalið 1977 og fangamörkin J. A. og G. H.
Kietshellir
Elstu heimildina um Kjöthelli (Kietsheller) er að finna í fornbréfasafni (DI IX), en það er landaskiptabréf dagsett 6. júni 1523 og er hellirinn þar suðvestur landamörk Setbergs. „Selstöðu á jörðin þar sem heitri Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólhiti bræðir,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. „Úr Gráhellu liggur línan í Setbergssel. … Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots,“ segir í örnefnaskrá GS. Kjöthellir er á suðvesturmörkum Setbergs, við stóra og steypta landamerkjavörðu sem þar er, um 3,5 km SA af bæ. Tveir hellar eru við landamörkin á þessum slóðum og er talsverður nafnaruglingur á milli þeirra. Samkvæmt heimildamanni kallast hellirinn sem hér um ræðir Kethellir (Kjöthellir) eða Selhellir, en hinn hellirinn, sem er öllu stærri og er rúmlega 180 m austar, heitir Kershellir og annar lítill hellir inn af honum Hvatshellir.
Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar segir að hellirinn sé: „Upp í grasivöxnu holti við jaðar Gráhelluhrauns,“. Nokkuð mikill snjór var á svæðinu þegar skráning á vettvangi fór fram.
Kjöthellir snýr nokkurn veginn norður-suður og er opinn í báða enda. Innangegnt er um bæði op hans. Hann er um 20 m langur, breiðastur um 4 m og mest lofthæð er vel rúmlega 2 m. Um miðbik hellisins er hlaðið skilrúm sem skiptir honum í tvennt og hefur nyrði helmingurinn að líkindum tilheyrt Setbergi. Skilrúmið er hátt í 1,6 m þar sem það er hæst að vestanverðu og 8 – 9 umför, en megin hluti þess er munlægri og hrundari, frá 0,5 – 1,2 m.
Inngangur um syðri hellismunnann er stærri en sá nyrði, mest um 2 m breiður og rúmlega 2 m hár, en hlaðið er að hluta upp í hann með um 1,2 m hárri hleðslu. Inngangur um nyrði hellismunnann, sem er Stbergsmegin, er u.þ.b. 1,5 m breiður og hátt í 2 m hár. Nokkuð meira er lagt í hleðslurnar fyrir honum, en hlaðin, bogadregin göng liggja að munnanum og eru þau að hluta undir hlöðnu þaki. Hleðslan er allt að 7 m löng og er hæst allt að 1,8 m og hlaðið hefur verið þak yfir innganginn að hluta með hraunhellum, þó það sé nú að nokkru leyti hrunið. Umhverfis Kjöthelli er gróið hraun og tvær tóftir eru í næsta nágrenni sem að líkindum tengjast Selstöðunni. Tóft sem er líklega stekkur er um 25 m SV af hellinum og hlaðið aðhald í náttúrulegri lægð er um 70 m til NA.
Markasteinn
„Á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands er Markasteinn og átti að búa huldufólk þar,“ segir í örnefnaskrá SP. Markasteinn stendur á landamörkum, um 6,3 km SA af bæ 001 og um 1,1 km NA af Kjöthelli.
Markasteinn er afar stórt hraungrýti, um 3 m að flatarmáli og 2,5 m hátt, með gróinni fuglaþúfu á toppnum.
Amma heimildamanns (f. 1864) heyrði sem ung stúlka strokkhljóð berast úr Markasteininum og taldi það til marks um bústörf steinbúa.
Markavarða
„Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Kethellirinn liggur örlítið hærra.“ Markavarðan er á suðvestur mörkum Setbergslands, við Kjöthelli [023]. Varðan er við Kjöthelli, í hálfgrónu hrauni. Varðan er hlaðin úr hraungrýti og steypt er á milli umfara.
Á toppi vörðunnar er stendur stök hraunhella upp á rönd og er henni haldið með steypu. Varðan er rúmlega 2 m há og um 1,5 m að grunnfleti.
Húsatún tóft beitarhús
„En landamerkjalína milli Setbergslands og upplands Garðakirkju lá úr hellunum norðaustur eftir Smyrlabúðarhraunbarmi, norður í Markasteininn á Tjarnarholtinu syðsta. Frá þessu hornmarki liggur línan um Efridal. Síðan um Selhjahlíð og þaðan í Fljóðahjallavörðu. Þegar komið er fyrir Hánef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi,“ segir í örnefnaskrá. Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð um 80 m NA af vörðu. Húsatún er um 2,9 km SA af bæ 001 og um 930 m ASA af Gráhellu.
Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina, gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför.
Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.
1523 voru landamerkin: „Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i (nedstu jardbru). so epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hedta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.“
Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar frá 1988 segir: „Stekkur…Um 40 m Austur af landamerkjavörðu við Kethelli.“ Aðhaldið er hátt í 70 m NNA af Markavörðu við Kjöthelli. Aðhaldið er í nokkuð grónu hrauni.
Aðhaldið, sem mögulega er stekkur, er myndað af náttúrulegu, ferköntuðu sigi í hrauninu sem snýr nokkurnveginn NV-SA og hlaðið er fyrir NV og SA enda. Innanmál er um 20×10 m. Hleðslurnar fyrir báðum endum eru um 10 m langar og um 0,5 m háar og sjást 2-3 umför. Norðvestari hleðslan er aðeins tilgengnari og allt að 1 m breið. Langveggir aðhaldsins eru náttúrulegir hraunveggir, allt að 3 m háir og er sigið dýpst fyrir miðju. Botninn er nokkuð ójafn en gróinn. Nálægt miðju norðvestari hleðslunnar er líklegur inngangur, um 1 m breiður, en mögulegt er að einnig sé inngangur vestarlega á suðeystri hleðslunni, heldur þrengri en hinn.
Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.