Síðasti bóndinn í Reykjavík
Í Lesbók Morgunblaðsins 1981 má lesa eftirfarandi um „Síðasta bóndann í Reykjavík“ eftir Agnar Guðnason:
Einar í Lækjarhvammi er hálf-nírœður og fyrir löngu þjóðkunnur maður. En borgin óx yfir Lœkjarhvamm og nú sjást engin merki umþennan bæ, sem stóð nálœgt gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar.
Agnar Guðnason segir hér frá búskap Einars.
Einar Ólafsson fæddist 1. maí 1896 að Flekkudal í Kjós. Bóndi varð Einar á fardögum árið 1921, en þá tók hann á leigu jörð og bústofn að Neðra-Hálsi í Kjós. Þar bjó hann aðeins eitt ár, því þá var jörðin seld og bústofn einnig. Þá var ekki fyrir Einar annað að gera en að fara á sjóinn aftur, en hann hafði verið á togurum á sumrin, frá 1916. Árið 1925 kvæntist Einar Bertu Ágústu Sveinsdóttur, en hún var ættuð frá Hvassahrauni.
Búskapurinn í Lækjarhvammi
Frá því á árinu 1916 átti Berta heima í Lækjarhvammi í Reykjavík. Hún hafði flust þangað með foreldrum sínum, en faðir hennar dó árið sem þau hófu þar búskap. Eftir það bjó hún þar ásamt móður sinni.
Árið eftir að þau giftu sig, Einar og Berta, taka þau við búi í Lækjarhvammi. Þegar þau Einar og Berta taka við voru kýrnar 8 sem þótti sæmilegt. Strax á öðru ári Einars í Lækjarhvammi hóf hann að byggja fjós. Það var fyrir 25 kýr. Þetta þótti mikið myndarfjós á þeim tíma og Einar var þar með talinn einn af stórbændunum. Nokkrar aðrar jarðir voru á þessum árum í Reykjavík, þar sem voru góð kúabú, í nágrenni við Einar voru Rauðará, Austurhlíð og Laugaland, ekki var langt í Háteig og Sunnuhvol. Á þessu fyrsta búskaparári Einars og Bertu saman í Lækjarhvammi, voru töluvert á fimmta hundrað kýr í höfuðborginni. Talið var að á árinu 1930 hafi mjólkurframleiðslan í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verið það mikil að hún hafi dugað handa um helming borgarbúa.
Lækjarhvammur var nýbýli
Lækjarhvammur var fyrsta nýbýlið sem byggt var í „nágrenni“ Reykjavíkur. Bærinn átti landið og það var fengið á erfðafestu 4 ha. Fyrsta íbúðarhúsið var byggt á jörðinni árið 1880, sá sem það byggði og átti þar heima hét Árni Gíslason og var hann norðanpóstur í mörg ár. Það var ekki hægt að hafa stór bú á þetta litlu landi. Það varð því að bæta við landið og heyja annars staðar handa kúnum.
Einar fjölgaði kúnum mjög fljótlega og flestar urðu þær um 30. Árið 1928 keypti Einar tún af Thor Jensen. Þetta tún er innan borgarmarkanna ennþá og hefur lítið verið hróflað við því síðan. Þetta er túnið sem er fyrir vestan Glæsibæ við Suðurlandsbrautina og Holtaveg. Þá keypti Einar einnig hluta í jörð upp í Kjós. Fyrstu árin flutti hann heyið ofan að með bát til Reykjavíkur. Mestur varð heyskapurinn hjá Einari rétt um 1000 hestburðir. Þá var sérstakt við búskap Einars að kýrnar voru í sumarfjósi upp í Kjós, en Einar keypti jörðina Bæ, árið 1941. Þar var hann einnig með töluvert fjárbú.
Þéttbýlið og búskapurinn
Lengi vel fundu þau Berta ekki neitt sérstaklega fyrir þéttbýlinu, þau voru eins og annað sveitafólk við sinn búskap og voru ótrufluð af öðru. „Það var eiginlega ekki fyrr en farið var að byggja við Álfheimana, að við fórum að finna fyrir smávegis óþægindum. Þá hættum við að hafa frið með heyið. Það þýddi ekkert að setja upp sæti, krakkarnir höfðu svo óskaplega gaman af að veltast í heyinu,“ sagði Einar.
Þá var nú einnig komið að því, að ekki var lengur hægt að vera með kýr inni í borginni. Það var rétt fyrir 1960 sem farið var að byggja við „Heimana“ og Einar hætti með kýrnar 1964 og hætti þar með alveg búskap í Lækjarhvammi. Hélt áfram með sauðfé í Bæ og var þar með um 200 fjár á fóðrun.
„Aldrei var mikil ásókn af krökkum hjá okkur í Lækjarhvammi, þannig að við hefðum einhvern ama af. Það var helst þegar við vorum að hirða að krakkarnir komu til okkar og vildu fá að hjálpa til, sem oftast var auðsótt mál fyrir þau. Það voru aldrei neinar skemmdir eða við urðum aldrei fyrir neinum sérstökum óþægindum vegna nábýlis við þéttbýlið,“ sagði Einar og bætti við: „Ég átti alltaf mjög góð samskipti við bæjaryfirvöld, þar var alltaf besta samkomulag.“
Árið 1962 tók bæjarstjórn landið Lækjarhvammi úr erfðafestu. Skömmu síðar var farið að byggja á landinu. Þar eru nú fjölbýlishúsin við Álftamýri og Skipholt. Mikið af landi fór undir Kringlumýrarbrautina. Ennþá er nokkuð af túninu óhreyft fyrir sunnan Suðurlandsbrautina. Nú er aðeins eftir tveir bændur í Reykjavík en voru um 40 þegar Einar hóf búskap. Síðustu árin hefur Einar verið „símsvari“, eins og hann kallar sjálfan sig, hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins.
Að síðustu spurði eg Einar hvaða tilfinningar bærðust með honum þegar hann lítur yfir farinn veg og minnist allra þeirra trúnaðarstarfa sem bændur höfðu falið honum gegnum árin.
Einar svaraði um hæl: „Eg á aðeins til góðar minningar um alla þá menn, sem eg hefi starfað með og allt sem eg vann að félagsmálum bænda var mér til mikillar ánægju. Þó er eitt starf sem eg er alltaf dálítið montinn eða stoltur yfir að mér tókst að leysa þokkalega. Það var þegar eg fór minn fyrsta túr á togara, 19 ára gamall. Þá voru engin vökulög og þrældómurinn all mikill. Eftir þennan fyrsta túr átti eg aldrei í neinum erfiðleikum með að fá skiprúm.
Nú er högum mínum breytt, enginn þrældómur, eg sit og svara í síma og ýmislegt sem tilfellur á skrifstofu Framleiðsluráðs og hef nærri því jafnmikla ánægju af því starfi og öðrum, sem eg hefi leyst af hendi á síðustu 80 árum eða svo“.
Í greinasafni MBL 1991 er minningargrein Jóns Guðbrandssonar um Einar Ólafsson:
„Mánudaginn 22. júlí 1991 var Einar Ólafsson til moldar borinn í Reykjavík. Einar var fæddur í Flekkudal í Kjós 1. maí 1896, sonur hjónanna Ólafs Einarssonar, sem var frá Flekkudal, og Sigríðar Guðnadóttur, sem var frá Eyjum í sömu sveit. Einar var næstelstur 7 systkina og elsti sonurinn. Ótrúlega snemma tók Einar að sér trúnaðarstörf á heimilinu þar sem faðir hans stundaði sjó til þess að drýgja tekjurnar, sem annars hefðu ekki dugað til framfærslu fjölskyldunnar í Flekkudal. Ekki naut Einar mikillar skólagöngu á nútíma vísu, en var þó 2 vetur í Mýrarhúsaskóla auk heimanáms. Aldrei þótti mér skorta neitt á menntun hjá Einari, enda kunni hann allt það sem hann lærði í skólanum og bætti stöðugt við á lífsleiðinni eins og gengur. Ekki er nokkur vafi á því að Einar hefði verið góður námsmaður ef hann hefði lagt slíkt fyrir sig. Eitt var það þó sem hann sá eftir að hafa eytt tíma í að læra en það var kverið. Öllum var ætlað að læra það utanað og auðvitað gerði hann það, en eitthvað efaðist hann um sannleiksgildið og reyndar var það svo að trú og trúariðkanir höfðuðu ekki til hans. Sú skoðun breyttist ekki þótt aldurinn færðist yfir hann og endalokin nálguðust. Ekki þannig að hann hefði neitt á móti trú annarra, þetta var bara ekki hans hugðarefni og hann virtist ekki þurfa á trú að halda. Honum þótti þó mikil speki fólgin í boðorðunum og hann taldi að þau væru mannanna verk og að þau væru lykillinn að sambýli mannanna. Einar fór snemma að vinna í Reykjavík. Fyrst í fiskvinnu og síðar við höfnina. Þegar hann hafði aldur til fór hann til sjós á togara. Allir vildu komast á togara, sem þýddi að á togarana völdust einungis úrvals menn. Einar var á ýmsum togurum og um tíma á færeyskum.
Upp úr 1920 kynntist Einar Bertu Ágústu Sveinsdóttur, sem bjó með móður sinni, Þórunni Guðmundsdóttur, í Lækjarhvammi við Reykjavík. Sveinn Steindórsson skipstjóri og Þórunn höfðu flust frá Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd að Lækjarhvammi 1916, en Sveinn féll frá skömmu síðar. Berta og Einar giftu sig 1926 og hófu þá búskap í Lækjarhvammi. Vegna landþrengsla í Lækjarhvammi og skorts á beitilandi handa kúnum var jörðin Bær í Kjós keypt 1941 og kýrnar hafðar í seli þar, en túnin í Lækjarhvammi öll nýtt til slægna. Ég sem þetta skrifa er upprunninn í næsta nágrenni við Lækjarhvamm og fór snemma að sniglast þar í kring ásamt fleirum. Á sumrin var heyskapur með hestum, vögnum og vélum og mikil ævintýri í kringum það. Vorið 1840, þá var ég 11 ára, átti ég leið yfir túnið í Lækjarhvammi sem oftar. Þar hitti ég Einar svona um það bil þar sem hitaveitustöðin í Bolholtinu er. Hann spurði mig hvort ég vildi vera hjá sér um sumarið sem ég þáði og er raunar ekki farinn úr vistinni enn. Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en þau ólu upp 2 börn. Dótturina Þórunni sem þau ættleiddu og Stefán Ottó Helgason, en þau voru systkinabörn, Berta og hann. Þórunn giftist undirrituðum og eignuðust þau 9 börn. Stefán Ottó giftist Ingibjörgu Sigurgeirsdóttur og eignuðust þau eina dóttur. Stefán Ottó lést 1956. Fleiri voru langdvölum í Lækjarhvammi og nálguðust það að vera fósturbörn og vil ég þar nefna Þormóð Sigurgeirsson, sem giftur er Magdalenu Sæmundsen og búa þau á Blönduósi, og mig sjálfan, við nutum foreldralegrar umhyggju þeirra hjóna, en miklu fleiri eiga góðar minningar frá margra ára veru sinni í Lækjarhvammi og í Bæ. Einar og Berta bjuggu allstóru búi og voru með um 30 mjólkurkýr þegar mest var og um 200 ær.
Snemma hlóðust félagsmálastörf á Einar og urðu þau snar þáttur í störfum hans sem tóku mikinn tíma frá búskapnum. Einar var knár og harðduglegur, en hann bjó ekki einn, Berta bjó með honum og dygg hjú. Þegar Einar brá búi 1966 hóf hann störf hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins þar sem hann var öllum hnútum kunnugur, enda hafði hann tekið þátt í að móta margar þær aðferðir sem þar var unnið eftir. Hjá Framleiðsluráði var hann allt til 89 ára aldurs. Einar var mjög þakklátur fyrir þann tíma sem hann var þarna. Þetta stytti honum stundirnar í góðum félagsskap sem hann mat mikils. Berta lést árið 1968. Einari var það mjög þungbært enda hafði sambúð þeirra verið óvenju góð þótt ólík væru.
Einar og Berta höfu þá nýlega látið byggja fyrir sig íbúð vestast á Lækjarhvammstúninu og þar bjuggu þau þegar Berta dó. Einar bjó þarna áfram, stundum einn en oftast var eitthvert barnabarnanna hjá honum. Þegar þessu tímabili lauk fluttist hann austur á Selfoss til dóttur sinnar. Einar eltist vel, klæddist á hverjum degi og settist í sæti sitt við borðið. Hann hélt sínu góða minni til hins síðasta, en sjónin var farin að daprast.“ – Jón Guðbrandsson
Eftirfarandi mátti lesa á vefsíðunni kjos.is árið 2009: „Pétur Guðjónsson og Bertha Jónsdóttir hafa komið upp veðurstöð í Bæ. Bærinn hefur verið í eyði um nokkurra áratuga skeið en síðast rak Einar Ólafsson frá Flekkudal, yfirleitt kenndur við Lækjarhvamm í Reykjavík, þar búskap. Segja má að jörðin sé arfleið hans en Bertha er afabarn hans. Unnið hefur verið við viðgerðir á íbúðarhúsinu undanfarið og standa vonir til að þar verði búseta innan tíðar.“
Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 20. tbl. 06.06.1981, Síðasti bóndinn í Reykjavík, Agnar Guðnason, bls. 10 og 15.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/71462/
-Kjos.is – 2009.