Skógarreiturinn Bakki við Vífilsstaðavatn

Bakki

Í blaðinu „Vífilsstaðir – Sagan í 100 ár 1910-2010“ er m.a. sagt frá „Skógræktarstarfi berklasjúklinga„. Þar segir:

Vífilsstaðavatn

Skógarreiturinn við Vífilsstaðavatn – loftmynd.

„Austan við Vífilsstaðavatn gefur að líta fagran trjálund sem berklasjúklingar á hælinu eiga heiðurinn af. Hann heitir Bakki. Upphaf hans má rekja til skógræktaráhuga hins unga vélstjóra, Harðar Ólafssonar, sem ungur kom til dvalar á Vífilsstöðum, sjúkur af berklum.
Erla Bil Bjarnadóttir, garðyrkjustjóri Garðabæjar, segir frá því í heimildaritgerð um Vífilsstaði (2008) að Hörður hafi vorið 1940 með leyfi lækna Hælisins gengið austur fyrir vatn í þeim erindum að girða af hálfan hektara. Þar helgaði Hörður sér land og hóf trjárækt ásamt heitkonu sinni Guðrúnu Ingimundardóttur, Dúnu eins og hún var kölluð, dvaldi einnig á hælinu.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

„Hann var ágætlega heilsuhraustur ef frá er talin berklaveikin, þá þrítugur að aldri. Á þessum árum var Vífilsstaðahælið yfirfullt af sjúklingum. Flestir sjúklingar voru ungt og hraust fólk í blóma lífsins. Það var ömurlegt hlutskipti ungu fólki að vera einangrað frá umheiminum, langt utan borgarlífsins, og  hafa lítið við að vera.“
Vélstjórinn ungi var jafnframt góður smiður, bæði á járn og tré, og hafði aðstöðu á hælinu til að sinna hugðarefnum sínum á veturna.
„En þegar daginn tók að lengja og vorilmur fyllti loft vaknaði trjáræktaráhuginn,“ segir Erla.
Vegna þess að hið fyrirhugaða trjáræktarsvæði var handan vatnsins og engin slóð að skógarreitnum, notaðist Hörður við hjólbörur við efnisflutninga. Hann byrjaði á því að girða af svæðið til að koma í veg fyrir ágang búfénaðar. Fleira vistfólk bættist fljótlega í hópinn og til varð rösk sveit karla og kvenna sem kölluðu sig Hjólbörudeildina.
Einnig flutti Hörður og hjólbörudeildin húsdýraáburð á sleðum á ís yfir vatnið á veturnar, sem var mun léttari vinna. Flutningarnir munu einnig hafa farið fram á seglbátum Vífilsstaðaheimilisins, Vífli og Gunnhildi, sem vistmenn höfðu til afnota. Einnig smíðaði Hörður eigin báta, bæði eins manns kajak og síðan stærri kanó sem gat tekið fjóra til sex farþega. Hann notaði Hörður bæði til flutninga og veiða á vatninu.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – Bakki; hlið.

Nokkrum árum seinna stækkaði Hörður skógræktarsvæðið um helming. Þar dvaldi hann jafnan á sumrin, fyrsta árið í tjaldi. Fljótlega smíðaði Hörður timburgólf í tjaldið og útbjó eldunaraðstöðu. Vistir fékk hann á hælinu. Vorið 1952 reisti Hörður síðan lítinn bústað, sem hann nefndi Bakka. Hann smíðaði Hörður í nokkrum einingum og flutti yfir vatnið.
Bústaðurinn reis á einni helgi með hjálp vina sinna í Hjólbörudeildinni. Eftir að Hörður útskrifaðist af hælinu hefur bústaðurinn verið sumardvalarstaður fjölskyldunnar.
Hörður ræktaði sjálfur flestar plöntur sem þarna voru gróðursettar, en reiturinn byggðist í upphafi fyrst og fremst af nokkrum birkihríslum. Með hjálp Skógræktarfélags Reykjavíkur og Skógræktar ríkisins aflaði hann líka fræja frá öðrum stöðum á landinu og útlöndum. Skógræktarstarf stóð sleitulaust til ársins 1977 er Hörður lést, eða í tæp fjörutíu ár. Þar er nú myndarlegur skógarreitur, þar sem hæstu trén eru um níu metrar. Reiturinn er í umsjá afkomenda Harðar og er opinn þeim sem ganga hringinn umhverfis Vífilsstaðavatn.“

Vífilsstaðavatn

Steinar Harðarsson.

Í Skógræktarritinu árið 2003 fjallar Steinar Harðarsson um „Skógrækt við Vífilsstaðavatn„. Þar segir m.a.

„Dag nokkurn vorið 1940 gekk Hörður Ólafsson vélstjóri austur fyrir Vífilsstaðavatn. Erindið var að girða af hálfan hektara af hlíðinni suðaustan vatnsins.
Hörður var berklaveikur og hafði dvalist á Hælinu nokkur misseri. Hann var fæddur að Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum en fluttist með föður sínum til Vestmannaeyja ungur að árum. Þar nam hann vélstjórn og starfaði síðan við það á fiskibátum og strandferðaskipum. Hörður veiktist af berklum aðeins 24 ára gamall og dvaldi til lækninga á berklahælinu í Kópavogi og útskrifaðist þaðan. Þá fór hann aftur til sjós en veiktist á ný og hafði þennan vordag dvalið á Vífilsstöðum nokkur misseri. Hann var ágætlega heilsuhraustur ef frá var talin berklaveikin, nú þrítugur að aldri.

Vífilsstaðavatn

Dúna og Hörður 1946.

Á þessum árum var Vífilsstaðahæli yfirfullt af sjúklingum. Flestir sjúklingar voru ungt og „hraust“ fólk í blóma lífsins. Það var ömurlegt hlutskipti ungu fólki að vera einangrað frá umheiminum, langt utan borgarlífsins, og hafa lítið við að vera. Sjúklingar á Vífilsstöðum voru úr öllum stéttum samfélagsins, ríkir sem fátækir, verkamenn, bændur, iðnaðarmenn, listamenn og skáld. Hörður var listasmiður og fékk á Vífilsstöðum aðstöðu, bæði til tré- og járnsmíða og undi sér við smíði á vetrum. Hann hafði einnig mikið yndi af tónlist og eignaðist mikið plötusafn sígildra höfunda, Bach, Beethoven, Mozart, Liszt, Tsjaikovski og svo mætti lengi telja.
VífilsstaðavatnÞegar dag tók að lengja og vorilmur fyllti loft vaknaði trjáræktaráhuginn og Hörður helgaði sér land austan Vífilsstaðavatns og hóf trjárækt ásamt heitkonu sinni Guðrúnu ingimundardóttur (Dúnu) sem þá dvaldi líka á hælinu. Fljótlega bættist í hópinn og til varð rösk sveit karla og kvenna sem kölluðu sig „Hjólbörudeildina“. Nafnið kom til af því að hjólbörur voru þarfasta flutningatækið enda hvorki vegur né slóði að skógræktarreitnum, aðeins fjárgötur og kúatroðningar.
Einn vistmanna, ungt skáld, Borgar Grímsson, sem lést á hælinu í blóma lífsins orti um Hörð og hans áhugamál.
Flutningar fóru einnig fram á bátum, þvert yfir vatnið, en árum saman voru gerðir út 2 seglbátar á vatninu, Vífill og Gunnhildur, til afnota fyrir vistmenn. Hörður smíðaði sér þó sjálfur eigin báta, fyrst eins manns kajak og síðan kanó sem bar 4-6 farþega. Bátarnir voru byggðir á eikargrind og strengdir segldúki, léttir og meðfærilegir. Kanóinn notaði Hörður árum saman til flutninga og til veiða í vatninu.
VífilsstaðavatnÞað var algjör nauðsyn að girða reitinn fjár- og kúaheldri girðingu því að á svæðinu gengu bæði sauðfé og kýr, enda fjöldi kúa á Vífilsstaðabúinu. Heiðmerkurgirðingin, sem nú umlykur svæðið, var ekki gerð fyrr en á 7. áratugnum. Það var því fyrsta verk Harðar að girða svæðið með 5 strengja gaddavírsgirðingu. Í fyrstu var girtur af hálfur hektari en nokkrum árum seinna var svæðið stækkað um helming til austurs.
Frá fyrstu tíð dvaldi Hörður megnið af sumrinu í skógræktinni. Fyrsta árið í tjaldi en fljótlega smíðaði hann tjaldundirstöðu úr timbri, þannig að timburgólf var í tjaldinu og aðstaða til eldunar á prímus.

Vífilsstaðavatn

Bakki – jarðhýsi.

Þá var gert jarðhýsi, grafið inn í hlíðina að hálfu og reft yfir með braggajárnum sem hirt voru úr aflóga rústum breskra herbragga á hlíðunum umhverfis vatnið. Í jarðhýsinu voru geymd matvæli og kartöflur enda hitastig nokkuð jafnt allt árið, 1-5°C. Vistir voru sóttar á Hælið og matseljur nestuðu Hörð brýnustu nauðsynjum, mjólk, brauði, eggjum og kaffi. Hann skrapp þó nær daglega á Hælið til að fá a.m.k. einn staðgóðan málsverð og endurnýja mjólkur- og brauðbirgðir.
Árið 1952 reisti Hörður lítinn bústað „fyrir austan vatn“ eins og staðurinn var almennt kallaður í byrjun. Síðar nefndi Hörður staðinn að Bakka. Bústaðinn smíðaði hann í einingum veturinn áður. Hann flutti einingarnar á kanóinum yfir vatnið og bústaðurinn reis á einni helgi með hjálp góðra vina í Hjólbörudeildinni. Þegar bústaðurinn var risinn var hægt að byrja störf fyrr á vorin og halda áfram langt fram á haust.

Vífilsstaðavatn

Bakki – bústaður í smíðum.

Eftir að Hörður loksins útskrifaðist af hælinu árið 1960 var bústaðurinn sumardvalarstaður fjölskyldunnar og á sumrum var Hörður að störfum nær öll kvöld eftir vinnu og flestar helgar sumarsins var dvalið þar við skógrækt og ræktun garðávaxta.
Frá byrjun voru ræktaðar kartöflur, gulrætur, radísur og fleiri garðávextir innan skógræktargirðingar og var það mikil búbót fyrir „útilegukindurnar“ Hörð og Dúnu. Þá má ekki gleyma silungsveiði í vatninu en á þessum árum höfðu starfsmenn og sjúklingar Vífilsstaða einir leyfi til veiða í vatninu. Hörður veiddi mikið af silungi, bæði bleikju og urriða, og ógleymanlegar sælustundir voru þegar nýveiddur silungur var soðinn í eigin vökva, vafinn inn í álpappír, og meðlætið voru nýuppteknar kartöflur.
VífilsstaðavatnFyrsti trjáreiturinn samanstóð af nokkrum birkihríslum. Síðan voru gróðursettar birkihríslur með girðingunni allan hringinn til að mynda skjól fyrir frekari ræktun. Hörður ræktaði plöntur af fræjum í vermireitum og framleiddi því sjálfur megnið af þeim plöntum sem gróðursettar voru í trjáreitnum. Sett var upp vatnsveitukerfi og vatni dælt með bensíndrifinni vatnsdælu til vökvnar plantna og í vermireitum.
Fræja var aflað víða að, m.a. frá Noregi, Síberfu og Alaska. Í skógræktarstarfinu naut Hörður mikillar velvildar bæði Skógræktarfélags Reykjavíkur og Skógræktar ríkisins en félögin útveguðu honum fræ ýmissa plöntutegunda og kvæma, innlendra sem erlendra.
VífilsstaðavatnVöxtur í reitnum var afar hægur fyrstu árin og áratugina, jarðvegurinn rýr mói. Mikið var notað af kúaskít til áburðar bæði við gróðursetningu og borið á eftir að plöntur fóru að vaxa. Birkið í skjólbeltinu umhverfis reitinn er frekar kræklótt og hægvaxta. Þegar fram liðu stundir og skjól fór að myndast var plantað ýmsum tegundum í skógræktinni. Þar má finna skógarfuru, fjallafuru, lerki, elri, ösp og sjaldséðar tegundir, s.s. fjallaþöll og blæösp.
Markvisst skógræktarstarf var stundað óslitið frá 1940-1977. Eftir það hefur ekki verið plantað í reitinn en grisjað Iítillega af og til. Engin stærri áföll hafa orðið við ræktunina ef frá er talinn skógarbruni sem varð vegna fikts unglinga með eld árið 1972. Ummerki þess eru þó löngu horfin.

Vífilsstaðavatn

Dúna og Hörður við Bakka.

Hörður var andvígur notkun eiturefna og notkun þeirra var því sáralítil við ræktunina alla tíð.  Það má segja að vöxturinn hafi verið afar hægur framan af en eftir fyrstu 40 árin hafi hann tekið rækilega við sér og undanfarin ár hefur verið mikill og góður vöxtur í skóginum. Hæstu tré eru nú um 7-9 metrar, hæstar aspir og greni.
Dúna lést árið 1995 og Hörður árið 1977.“

Heimildir:
-Vífilsstaðir – Sagan í 100 ár 1910-2010, Skógræktarstarf berklasjúklinga, bls. 13.
-Skógræktarritið, 1. tbl. 15.05.2003, Skógrækt við Vífilsstaðavatn, Steinar Harðarson, bls. 79-84.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.