Þann 2. nóvember 1984 birtist æsifengin frétt í DV er bar yfirskriftina “Skrímsli í Kleifarvatni.” Þetta var í októberlok. Fréttin segir frá tveimur mönnum á rjúpnaveiðum er sáu ókennilegar skepnur í og við vatnið. Þeir sögðu að dýrin, sem voru tvö, hefðu verið dökkleit og hundsleg en bara mikið stærri. Förin eftir þau líktust hesthófum en voru talsvert stærri. Dýrin hurfu sjónum þeirra skömmu síðar.
Stefán Stefánsson, hinn kunni leiðsögumaður, sagði í skrifum sínum fyrrum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.”
Vatnsskarð er nefnd geil í Undirhlíðar er skilur þær frá Sveifluhálsi. Fyrrum var það nefnt Markraki, en Vatnsskarð þar sem Kleifarvatn birtist mönnum á ferð úr Kaldárseli um Dalaleiðina, neðan Vatnshlíðahorns.
Kleifarvatn er stöðuvatn á miðjum Reykjanesskaga milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Vatnið er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, eða um 97 m þar sem það er dýpst. Það hefur lítilsháttar aðrennsli þar sem er Seltúnslækur og Sellækur í Litla-Nýjabæjarhvammi, en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Töluverður jarðhiti er syðst í vatninu og einnig út af Innri stapa vestan við það.
Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn sæmilega, einkum á hraunslóðum að austanverðu þar sem Hvammahraun (Hvannahraun) rann út í vatnið.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sjáist þar endrum og eins, sbr. framangreint. Á þetta að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð. Eldri sagnir eru og til um skrímsli þetta.
Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Þá segir og enn af skrímsli í Kleifarvatni. Árið 1755 sást undarleg skepna, líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um, að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
Fimm árum fyrr, eða árið 1750, þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi í tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Það er því ekki að furða þótt fólk furði sig einstaka sinnum á furðufyrirbærum þeim er það telur sig verða vart við nálægt Kleifarvatni, líkum þeim er að framan greinir – og eiga eflaust eftir að birtast á ný. Fáir hafa þó trúað slíkum sögnum – jafnvel þótt sannar séu.
Sjá skrímslasögu HÉR.
Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/default.asp?cat_id=261
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabók.