Sléttuhlíð II

Sléttuhlíð

Í deiluskipulagi fyrir Sléttuhlíð, frístundabyggð ofan Hafnarfjarðar, frá árinu 2023, segir m.a. um sumarbústaðabyggðina undir hlíðinni:

Hamarskotshellir

Hamarskotsselshellir.

„Svæðið er Sléttuhlíð sem er við Setberg-Hamarkot, í Hafnarfirði. Í kringum 1553 er ritað um jörðina Hamarskot í fógetareikningum. Árið 1579 eru landamerkjadeilur á milli Hamarkots og Setbergs. Í Jarðarbók frá árinu 1703 er Garðakirkja eigandi að Sléttuhlíð og selstöð sem heitir Hamarkotssel og helli sem heitir Kethellir. Hafnarfjarðarbær keypti jörðina Hamarkotstún árið 1912.
Sumarið 1926 úthlutaði fasteignanefnd Hafnarfjarðar fyrstu lóðunum fyrir sumarbústað á svæðinu, þeim Jóni G. Vigfússyni og Magnúsi Böðvarssyni.

Jón Gestur Vigfússon

Jón Gestur Vigfússon (1892-1980).

Um svipað leyti hófst skógrækt á svæðinu. Með þessu hófst skógrækt og uppgræðsla í hlíðunum sem var að miklu leyti ógróin þegar fyrstu bústaðirnir risu, en eitthvað var um kjarrlendi í hraunhvammi í norðurenda hlíðarinnar. Árið 1941 voru girðingar settar upp sem hjálpuðu mikið til við uppvöxt gróðurs þar sem fjárbeit var enn almenn.
Kringum 1940 fjölgaði eftirspurn eftir landi fyrir sumarhús og var þá úthlutað nokkrum lóðum. Árið 1950 bættust einnig nokkur sumarhús við eftir að vatsnveitan var leidd í stokk.
Á svæðinu er einnig að finna gróðurspildur, kallaðar Landnemaspildur sem hefur verið úthlutað til einstaklinga eða félagasamtaka sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur haft umsjón með.
Þar hefur í áranna rás vaxið upp myndarlegt skógræktarsvæði. Landnemaspildum var fyrst úhlutað árið 1979 og svo aftur um 1990. Auk þess hefur mikið verið plantað í Gráhelluhrauni.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – hlið að bústað Jóns Gests.

Svæðið samanstendur af láglendu, hraunyfirborði og hlíðum, hlíðarnar mynda einskonar skeifu sem snýr á móti suðri. Láglendið er hraun, Selhraun sem er eldri en 4000 ára, mosavaxið með gjallkarga á yfirborði. Hlíðarnar eru víðast hvar aflíðandi og voru mestallar set sem hafði að geyma óhulið berg og þurrlendisjarðveg. Á svæðinu er að finna jarðmyndanir eins og hrauntraðir og jökulrákir. Svæðið liggur á bilinu 50-100 m.y.s. Hæðstu toppar Sléttuhlíða eru 96 m og 110 m.y.s. Grunnvatnshæðin við Sléttuhlíð er um 60 m.y.s.

Mikið hefur verið gróðursett á svæðinu af skógarplöntum og setur það mikinn svip á ásýnd svæðisins.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns Gests 20225.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur úthlutað landnemaspildum til skógræktar og ásamt því hafa sumahúsaeigendur gróðursett mikið á svæðinu. Í dag er að finna á svæðinu dæmigerða skógrækt frá 1930-1980 og notaðar hafa verið tegundir eins og; sitkagreni, blágreni, stafafura, bergfura, lerki og birki. Trén dafna vel og eru orðin um 10-15 m há.

Landnemaspildum var úthlutað fyrst 1979 til 20 ára í senn, eftir þann tíma var möguleiki á að endurnýja samning til 20 ára í viðbót. Samkvæmt samningum er öll mannvirkjagerð bönnuð á úthlutaðri spildu og er svæðið ætlað til útivistar og skógræktar. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar í umboði Hafnarfjarðarbæjar hefur haft umsjón með landnemaspildum. Á svæðinu eru um áætlaðar um 60 spildur, stærðir eru frá 6500-115.000 m2.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – varða.

Söguminjar er að finna í jaðri svæðisins til norðurs, suðurs og ofan á hlíðunum. Um er að ræða vörður, sel, stekki og gönguleiðir sem tengjast fjárbúskap fyrri tíma. Engar minjar eru í Sléttuhlíðinni sjálfri. Minjarnar sem er að finna á svæðinu eru ekki friðlýstar. Þjóðleiðin Selvogsgata er staðsett að hluta til innan svæðisins og einnig eru þar nokkrar aðrar minniháttar leiðir sem notaðar voru á fyrri tímum.“

Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1981 er minningagrein um Jón Gest Vigfússon, rituð af Hákoni Bjarnasyni. Í henni segir m.a.:

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns gests 2025.

„Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 kom það í hans hlut að verða ritari félagsins fyrstu 10 árin. Mun ekkert skógræktarfélag landsins eiga jafn greinagóðar og vel ritaðar fundargerðir sem þær, er Jón Gestur færði með sinni fögru rithönd. Síðar gegndi hann formannsstörfum í félaginu um tveggja ára skeið, en úr stjórn gekk hann 1964.
Það var ekki að ófyrirsynju að Jón Gestur var með í félagsstjórninni frá upphafi. Um 1935 fékk hann stórt land til ræktunar í Sléttuhlíð, um 5 km veg austur af bænum. Landið var ekki álitlegt við fyrstu sýn, óræktarmóar og grágrýtisklappir í hlíðinni, en þrautnagaðar valllendisgrundir við hlíðarræturnar.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð skilti á bústað Jóns Gests og eiginkonu.

En þar voru samhent hjón að verki ásamt stórum barnahópi, sem breyttu þessu landi í gróðursælan unaðsreit þar sem þau dvöldu allar stundir, sem fært var. Eitt sinn er ég kom til Jóns Gests og við gengum um landið sagði hann við mig eitthvað á þessa leið: „Ég kæri mig ekki um stærra land, en ég vil sýna mönnum hvað gera má án allt of mikillar fyrirhafnar svo að þetta megi verða öðrum fordæmi. Jón Gestur fann ekki til fyrirhafnarinnar, sem hefur verið ærin, í gleði sinni yfir því að hafa slíkt land undir höndum. Þau voru orðin ærið mörg sporin hans úr Hafnarfirði í Sléttuhlíð áður en sæmilegur vegur náði þangað. Á þessum stað má nú sjá hvernig allt umhverfi Hafnarfjarðar gæti litið út, ef bæjarbúar og bæjarstjórn vildu feta í fótspor hans.“

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns Gests.

Í Morgunblaðinu 1980 er jafnframt minningargrein Ólafs Vilhjálmssonar um Jón Gest Vigfússon: „Hér verður rakinn í stórum dráttum hinn félagslegi þáttur Jóns Gests að skógræktarmálum og er nú komið að öðrum ekki veigaminni þætti og á ég þar við landnám hans og trjárækt í Sléttuhlíð sem sýna og sanna hve skógræktarhugsjónin var hans mikið hjartans mál. Það mun hafa verið árið 1925 sem Jón nam land þarna. Var þá öll hlíðin að mestu uppblásin og sundur skorin rofabörðum en á stöku stað lítilsháttar birkikjarr.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – aðkoman að bústað Jóns Gests.

Á þessum fyrstu árum Jóns í Sléttuhlíð var mjög erfitt að fá trjáplöntur nema þá helst reyni og björk en árið 1937 mun Jón hafa fengið fyrstu sitkagreniplönturnar sem setja nú mestan svip á þennan fagra lund þó aðrar trjátegundir skarti þar einnig vel.
Hver sá bær sem ætlar sér að ala upp heilbrigða og hrausta borgara kemst ekki af með götur einar og steinlögð torg, hann þarfnast ekki síður þess hreina lífslofts sem gróðurlundir veita. Takmark Hafnfirðinga hlýtur því að vera að breyta hæfilega miklum hluta bæjarlandsins í iðgræna trjálundi til skjóls, hollustu og fegurðar fyrir þá er í framtíðinni byggja þennan bæ, þar hefur Jón Gestur vísað veginn, okkar hinna er að fylgja fordæmi hans.“

Í ár, 2025, eru eitt hundrað ár liðin frá frumkvöðlastarfi skógræktarlandnámsmannanna í Sléttuhlíð. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur nú splæst í skilti af minna tilefni – sjá t.d. Kaldársel 100 ára.

Sjá meira um Sléttuhlíð HÉR.

Heimildir:
-Sléttuhlíð í Hafnarfirði, deiluskipulag; frístundabyggð, greinargerð og skipulagsskilmálar 09. feb. 2023.
-Ársrit Skógræktarfélags Íslands, 1. tbl. 15.12.1981, Jón Gestur Vigfússon, bls. 58.
-Morgunblaðið, 236. tbl. 24.10.1980, Minning; Jón Gestur Vigfússon Hafnarfirði, Ólafur Vilhjálmsson, bls. 22.

Sléttuhlíð

Ágústmorgunhafgolan í leik undir Sléttuhlíð.