Hamarinn

Menn trúðu því að voldugar landvættir byggju í landinu. Skjaldamerkið ber þess glöggt vitni. Mikilvægt var að gera þær ekki reiðar og til dæmis var bannað að sigla að landinu á víkingaskipum með ógnandi drekahöfðum. Í Landnámu segir: “Það var upphaf hinna heiðnu laga, að menn skyldu eigi hafa höfðuð skip í haf, en ef þeir hefðu, þá skyldu þeir af taka höfuðið, áður en þeir kæmu í landsýn og sigla eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu svo að landvættir fældust við.”
Dys við Garðshús í GrindavíkLandsmenn hafa líka lengi trúað að huldufólk og jafnvel tröll byggju í klettum, hólum og fjöllum. Svæði, sem eru þessum verum kær, verða menn að umgangast af mikilli varkárni og þeir voru stundum kallaðir álagablettir. Strangar umgengisreglur hafa jafnan gilt um þessa staði – og ekki að ástæðulausu.
Álagablettir voru fyrstu friðlýstu svæðin. Til eru margir Hulduhvammar, Álfhólar, Tröllaborgir og Dvergasteinar. Álagablettir munu vera margfalt fleiri á Íslandi en byggð ból, þótt flestir séu þeir nú gleymdir.
Þótt Grindavík sé ekki stór bær eru þar t.a.m. margir álagablettir
. Einn álagablettur sem er nokkrir þeirra eru inni í miðjum bænum. Þessa bletti mátti aldrei slá. Óhöpp yrðu ef blettur væri sleginn. Í þessum tilvikum er einungis um gróna hraunhóla að ræða, en margir álagablettir eru á og við gróin tún. Í fornleifaskráningu (ÓSÁ) fyrir Úlfarsá segir m.a. um svonefnda Álagabrekku: “Þau álög voru á brekkunni að ekki mátti slá hana, þá átti besta kýrin að deyja og hjónin á bænum líka. Þetta þótti ganga eftir árið 1918. Þá bjó Jón Kristjánsson lagaprófessor á Úlfarsá og sló brekkuna. Þá fékk kýrin nagla í vélindað og drapst. Svo kom spænska veikin og þau hjónin dóu bæði. Að sögn mun lítill flatur hóll um 10 m vestan við inngang íbúðarhússins á Úlfarsá vera til kominn þannig að þar hafi verið grafin öll föt einhvers sem látist hafi úr spænsku veikinni. Um 1975 voru vistmenn að slá hólinn þegar kona fótbrotnaði á tröppunum á Úlfarsá. Ári síðar endurtók sagan sig. Þá datt lítill drengur í tröppunum og hjó sundur á sér vörina.”
Fátt hefur staðist jafn vel tímans tönn og trú Íslendinga á helgi álagablettanna sem finna má í hverri sveit og skipta hundruðum í landinu öllu. Enn þann dag í dag njóta staðir þessir friðhelgi og til eru bæði gamlar og nýjar sögur af óhöppum og slysförum sem tengjast brotum á bannhelginni.
Álagahóll við fiskverkunarhús Þorbjarnar í GrindavíkÍ Þjóðminjalögunum eru álagablettir taldir til fornleifa sbr.; “álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð”. Það er skýrt af þessari skilgreiningu að fornleifar eru ekki aðeins öll mannvirki heldur einnig staðir sem á einn eða annan hátt tengjast menningu og atvinnuvegum, hvort heldur sem eru vöð eða álagablettir.  Þessari víðu skilgreiningu hefur verið fylgt við gerð fornleifaskrárinnar og í anda hennar eru einnig skráðir staðir eins og orrustustaðir, skilgreinanlegir staðir þar sem atburðir, sem tengjast sögu og bókmenntum Íslands,  hafa átt sér stað og staðir þar sem draugar hafa átt að hafa  búið.
Fornleifar eru fyrst og fremst minjar um manneskjuna, þ.e. bústaði, framkvæmdir, verkfæri, hluti hvers konar og einnig geta fornleifar verið náttúrulegir hlutir sem minningar tengjast, t.d. álfasteinar1. Fólk finnur fornleifar víðsvegar, t.d. grafnar í jörðu, í hellum, á hafsbotni, jafnvel liggjandi á víðavangi og inn í húsum.
Allir minjar sem eru eldri en 100 ára njóta verndar Fornleifaverndar ríkisins og hefur sú stofnun ein heimild til að gefa leyfi til rannsókna og hvers konar annarrar meðhöndlunar.
Þegar hlutirnir hafa hins vegar verið skráðir inn á safn þá njóta þeir verndar Þjóðminjasafnsins.
Byggðasöfn hafa mörg hver sýnt fornleifar frá sínu svæði enda uppfylla húsakynni þeirra þau skilyrði sem þjóðminjavörður setur.
Álagablettur við ÚlfarsáMikil áhersla er lögð á að einungis fornleifafræðingar komi að málum þegar þarf að hreyfa við minjum, þetta er vegna þess að umhverfi fornleifanna segir oft jafnmikla sögu og fornleifarnar sjálfar. Óþjálfað auga getur ekki greint þetta og þegar búið er að raska umhverfinu þá verður aldrei aftur snúið.
Dæmi til skýringar:
Segjum að lítið bein finnist hér í bæjarlandinu. Þegar beinið er rannsakað þá kemur í ljós að það er af dýri sem einungis er að finna í Norður Ameríku. Nú er beinið aldursgreint og kemur í ljós að það er mjög gamalt, mögulega frá því um árið 1000.
Þetta er mjög spennandi, en auðvitað gæti einhver bandarískur hermaður hafa tapað beininu hér, fundið það í jörðu heima hjá sér og átt sem lukkugrip. En ef beinið hefur verið grafið upp úr jörðu af fornleifafræðingum sem hefðu skráð nákvæmlega fundarstaðinn sem er t.d. undir öskulagi sem við þekkjum sem Reykjaneselda frá 13 öld, þá er þetta bein stórmerkilegur fundur, vegna þess að það tengir okkar svæði við landkönnun Norrænna manna vestur um haf. Ef óvanir hefðu fjarlægt beinið úr jörðu þá hefðum við aldrei getað fullyrt að beinið bendi á þessi tengsl.
Smiðjuhóll á ArnarnesiÞað sem virkar sem lítt spennandi þúfur og órækt í okkar augum getur hulið merkar minjar frá liðinni tíð. Mjög stór hluti af þeim minjum sem hafa fundist komu í ljós vegna ýmiskonar framkvæmda og einnig vegna jarðvegseyðingar. Vandinn í dag er að jarðvegstæki eru svo stórtæk og fljót að hætta er á að menn taki ekki eftir ef þeir grafa í gegnum minjar. Því er afar mikilvægt að fara varlega þegar ráðist er í framkvæmdir.
Smiðjuhóll við gamla Arnarnesbæinn er dæmigerður álagablettur. En hvers konar álög er þarna um að ræða?
Skv. upplýsingum Gunnars Benediktssonar, þess er manna fróðastur er um minjar í landi Garðabæjar kemur m.a. fram að “Smiðjuhólsins (m. greini) er getið í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug R. Guðmundsson (Gbæ 2001, bls.139). Hólsins er og getið lauslega í örnefnaskrá Gísla pól Sigurðssonar, sem þó er líklega ekki hin “opinbera” gerð skrárinnar. Til hennar (hinnar “opinberu”) vísar Guðlaugur í fyrrn. bók. Er augljóslega fyllri. – Frásögnin í bók Guðlaugs þykir mér benda til þess að þar kunni að hafa verið huslað hræ miltisbrandsdauðrar skepnu. Slíkir staðir urðu oft að álagablettum eða taldir hættulegir eftir að tilefnið gleymdist. Ég hef ekki komið að hólnum sjálfur. Hafði reyndar lítinn áhuga á álagablettum þar til að upp fyrir mér rann hugsanlegt samband blettanna við miltisbrandinn. Það gerðist við lestur þjóðsagna frá Vesfjörðum, þar sem  það er nánast sagt berum orðum (Hattadalur í Áftafirði v/Djúp).

Smiðjuhóll á Arnarnesi

Ég fór að athuga ljósmyndir sem ég tók í námunda við Arnarnestúnið gamla í sumar og þar má sjá töluverðan hól í jaðri byggðar, vestur af beygjunni, sem er sunnarlega í götunni. Hóllin virðist inni á milli lóða syðst á gamla Arnarnestúninu eins og ég þykist muna eftir því. Það hefur ekki verði byggt nema á smá hluta þess. (Hinu má ekki gleyma að hugsanlega sé þetta “afgangur” frá gatna- eða lóðagerð síðari tíma). Enginn annar hóll er þarna sjánlegur, sem mér finnst koma til greina, eftir að ég sá þennan.” Umræddur hóll er inni á afskiptu svæði milli hús 24 og 26 við Hegranes.
Miltisbrandur er smitsjúkdómur af völdum bakteríunnar Bacillus anthracis. Hann kemur fyrir í villidýrum og húsdýrum en getur smitast yfir í fólk sem kemst í snertingu við smituð dýr, hræ eða mikið magn af miltisbrandsgróum. Enn eru engin dæmi um að sýkt fólk beri smit. Miltisbrandur finnst um allan heim, en er þó fyrst og fremst algengur hjá jurtaætum þó hann geti borist í menn og fugla
.
Þekkt eru 89 afbrigði af miltisbrandi.
Ekki er langt síðan hross á Vatnsleysuströnd drápust eftir að hafa komist í snertingu við miltisbrand.

Miltisbrandur er þekktur sjúkdómur um heim allan frá fornu fari. Páll A. Pálsson hefur fjallað um miltisbrand á Íslandi í Bók Davíðs, Háskólaútgáfan, 1996, bls. 545-558). Páll kallar sjúkdóminn miltisbruna og bendir á að hann hafi gengið undir ýmsum nöfnum hér á landi svo sem miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest. Talið er að miltisbrands hafi fyrst orðið vart á Íslandi árið 1865 en árið áður hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum sem áttu uppruna í Afríku. Fyrir skömmu kom upp miltisbrandsblandaður jarðvegur við uppgröft í landi Hraunsholts í Garðabæ. Mikill viðbúnaður var settur af stað í gær vegna hugsanlegrar hættu og framkvæmdir voru stöðvaðar (sjá Miltisbrandur).

Ljóst er að dæmin sanna þegar að svonefndir álagablettir hafa í sumum tilvikum a.m.k. átt tilurð sína að rekja til urðunar sýktra hræja fyrrum og frekari röskun á álagablettum á eftir að fjölga slíkum dæmum.

Heimildir m.a.:
-ismennt.is
-wikipedia.org
-influensa.is

Skjaldarmerki Íslands