Söguratleikur Grindavíkur 2010
Ratleik Grindavíkur fyrir árið 2010 hefur verið hleypt af stokkunum.
Um er að ræða sögutengda fróðleiksleit. Þátttakendur geta nálgast seðil á flestum betri veitingahúsum og í Saltfisksetrinu í Grindavík, gengið um hverfin þrjú og skráð hjá sér upplýsingar á sérstökum grænlitum spjöldum, sem komið hefur verið fyrir á völdum
stöðum. Þetta er sjötta árið sem ratleiknum er haldið úti í bænum.
Ratleikurinn er auðveldur og fróðlegur úttivistaleikur, sem stendur frá upphafi Sjóarans síkáta (3. júní) fram að Jónsmessu (24. júní). Í tilefni að því að 80 ár eru frá því að Slysavarnardeildin var stofnuð 2. nóvember 1930 er minnst mikilvægis sjóslysavarna og björgunarsveita. Ratleikurinn vísar á nokkra áþreifanlega minnisvarða. Fróðleikurinn byggir á Sögu Grindavíkur frá árinu 1994 sem Jón Þ. Þór tók saman, örnefnalýsingum og munnmælum fólks í Grindavík.
Í ár eru spjöldin á eftirfarandi stöðum með tilheyrandi fróðleik:
1. Í Staðarkirkjugarði – Í klukknaportinu er skipsklukka úr Anlaby. Minnisvarði er um Odd V. Gíslason prest á Stað 1879-1894 og brautryðjanda í slysavarnarmálum.
2. Spölkorn fyrir neðan Bjarnargjá við Markaklett – Við Jónsbása fórst breski togarinn Anlaby 14. janúar 1902 með allri áhöfn. Skipstjórinn Carl Nilsen var þekktur fyrir aðför að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði 1899.
3. Við hús björgunarmið-stöðvarinnar að Seljabót – Skrúfan fyrir framan björgunarmiðstöðina er úr franska togaranum Cap Fagnet.
4. Við Eyjabryggju – Við Eyjabryggju leggur björgunarskipið nefnt eftir fyrrnefndum Oddi. Oddur lagði m.a. áherslu á nauðsyn sundkunnáttu og fræddi um notkun lýsir og olíu til að lægja brim.
5. Við Þórkötlustaðanesvita (Hópsvita) – Þórkötlustaðanesviti (Hópsnesviti) var reistur 1928 til að lýsa sjófarendum. Vitinn var rafvæddur árið 1961.
6. Við gömlu bryggjuna í Þórkötlustaðanesi – 24. mars árið 1916 héldu 24 bátar til róðra en aðeins 20 náðu landi eftir að óveður skall skyndilega á. Í þrjá daga voru þeir taldir af þar til kútter Esther frá Reykjavík birtist með alla 38 skipsbrotsmennina.
7. Rétt vestan við söguskiltið á Hrauni er gengið niður með girðingunni í Markabás að Skarfatanga – 24 mars árið 1931 strandaði franski togarinn Cap Fagnet. Slysavarnadeildin var þá nýstofnuð. Í fyrsta skipti var notuð fluglínubyssa við björgun og tókst að bjarga 38 manns.
8. Við heimkeyrsluna að Hrauni – Í Fitjaannál segir að árið 1602 hafi utan við Þórkötlustaði drukknað á stóru farmskipi Skálholtsstóls 24 piltar og voru þeir flestir jarðaðir við bænahúsið á Hrauni.
9. Skammt austan við Hraun við útskot undir Húsafelli – Enskur togari, Lois, strandaði í Hrólfsvík árið 1947. Áhöfn var bjargað fyrir hreina tilviljun. Dóttir Magnúsar Hafliðasonar á Hrauni var á leið út í fjós er hún sá ljós úti á sjó. Björgunarsveitin Þorbjörn sem þá var nýstofnuð, náði að bjarga 15 manns.
Allir eru hvattir til þátttöku í þessum skemmtilega og heilsusamlega leik. Úrlausnarblöðum þarf að skila í Saltfisksetrið eigi síðar en 25. júní n.k. Dregið verður úr réttum lausnum. Heppnir geta unnið vegleg verðlaun.