Túnakort

Í Faxa 2007 skrifar Skúli Magnússon um “Bæjarnafnið Járngerðarstaðir í Grindavík”.

Faxi 2007

Faxi 2007.

“Stutt athugun á tilurð þess Eitt aðaleinkennið á byggð á utanverðum Reykjanesskaga voru lítil þorpshverfi sem í upphafi urðu til út frá einu aðalbýli sem aftur í byrjun varð til við góða lendingu þaðan sem stutt var á góð fiskimið.
Dæmi um slíkar jarðir má finna í Landnámu, Voga á Vatnsleysuströnd og Bæjarsker á Miðnesi. Hinar eru þó fleiri jarðirnar af þessum toga á Reykjanesi sem ekki eru nefndar í elstu heimildum. Meðal þeirra eru jarðir á borð við Hólm í Leiru, Njarðvík og Hóp í Grindavík. Slík býli voru því í rauninni frumbýli, frumjarðir sem vegna legu sinnar byggðust fyrst og voru valin í öndverðu vegna þessara kosta sinna.
Síðan byggðust þær jarðir í nágrenni slíkra kosta jarða en sem lágu fjær miðum eða höfðu lakari lendingar og lágu jafnvel verr við sjósókn. Samkvæmt þessari fingursreglu virðist mér jarðir á Suðurnesjum hafa byggst í öndverðu. Fleira kann þó að hafa komið þar til sem ekki verður rætt um hér. Þannig urðu byggðahverfin til sem einkenndu byggðina. Þeir sem fyrstir námu þessa staði settust að þar sem hægast var til athafna við sjóinn.

Útgerð flyst úr Hópinu

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Við Hópið í Grindavík hefur líklega í byrjun verið ágæt lending og góð veiðiaðstaða, en þar kom er nokkuð var liðið á búsetu þar efra að skipta varð landinu sem þar lá nærri, gæðum þess og gögnum á sjó og landi. Vaxandi byggð þurfti möguleika til útræðis og því var farið að róa úr lendingum utan Hópsins, á Þórkötlustöðum og frá Járngerðarstöðum. Útgerð flyst því út úr Hópinu á staði utan við sem þó voru heldur verr fallnir til lendingar en Hópið var i byrjun. (Sjá Sóknarlýsingu Grindavíkur 1840 eftir Geir Bachmann). Freistandi er að tímasetja þetta á seinni hluta 10. aldar, nálægt 950-1000, en það er þó ágiskun ein enda engar beinar heimildir til þar um. Eigi er þó ólíklegt að þessi skipan hafi komist á fyrir 1000 í austurhluta Grindavíkur. Hugsanlega hefur þó skipun byggðar þar gengið hraðar fyrir sig en okkur grunar og byggðin hafi þegar í lok 10. aldar verið búin að fá á sig þá skipun í meginatriðum sem síðar varð.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Austasti hluti Grindavíkur hefur trúlega byggst fyrst og síðan sá vestari og ysti. Að byggðastefnan sé í öndverðu komin austan að sjást fáein merki enn í dag, m.a. í örnefnum þar eystra. Má þar helst nefna örnefnið Grindaskörð upp af Selvogi sem hugsanlega fyrirrennara nafnsins Grindavík. Grun hef ég t.d. um að byggð hafi snemma við landnám í Grindavík komið upp á Hrauni sem þó hafði a.m.k, á síðari öldum fremur laka bátalendingu. Hitt er líklegt að varla hafi liðið langur tími frá landnámi í Grindavík um 936 þar til byggð var komin á Hrauni.
Eins og fyrr er getið eru þessar bollaleggingar um upphaf og þróun byggðar aðeins byggðar á líkum enda skortir okkur ritaðar heimildir um slíkt, ef frá er talin hin skemmtilega frásögn Landnámu um komu Molda-Gnúps og barna hans til Grindavíkur nálægt 935-936 eftir gosið mikla í Eldgjá sem jarðvísindamenn hafa kannað og tímasett af talsverðri nákvæmni. Þessvegna er eðlilegt að álykta að byggð í Grindavík hafi þróast og myndast á árunum fram um 950.

Sterk tilhneiging til að kvenkenna bæjarnöfn

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895. Þorbjörn í bakgrunni.

Vandinn er sá að jarðanöfn í Grindavík eru ekki nefnd í eldri heimildum en rekaskjölum í bréfasafni eru tímasett. Þau skjöl eru talin vera frá um 1270. Þar eru bæjanöfnin Hóp, Hraun, Þorkötlustaðir og Járngerðarstaðir nefnd í fyrsta sinn í rituðum heimildum. Nokkur vandi er því að ráða í upphaf byggðar á þessum jörðum.
Þegar örnefni og bæjanöfn í Grindavík og austur í Ölfus eru skoðuð kemur í ljós að á þessu svæði hefur verið allsterk tilhneiging til að kvengera bæjarnöfn, kenna þau við konur og breyta þannig ásýnd þeirra og sögu. Þetta sá ég glöggt þegar ég kannaði örnefni á þessu svæði. Þórhallur Vilmundarson hefur líka bent á í safnritinu Kulturhistorisk Leksikon hvernig bæjanafnið Vigdísarvellir þróaðist. Telur Þórhallur að það hafi í byrjun verið Vegdysjarvellir, þ.e. sprottið af dys við veg. Smám saman breyttist fyrri hluti nafnsins í kvenmannsnafnið Vigdísar- og eftir það var skammt í allt annað nafn og óskylt hinu eldra með öllu. En nú var orðið til bæjarnafn með upphaf og sögu. Hugsanlega hefur bæjarnafnið Járngerðarstaðir þróast á svipaðan hátt og skal ég ræða það frekar.

Friðsamir járnsmiðir

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Af Landnámu má ráða að Molda-Gnúpur og faðir hans í Noregi hafi verið járnsmiðir að atvinnu þar í heimahögum sínum en hvorki víkingar né ránsmenn eins og margir aðrir sem til Íslands komu á 9. og 10. öld.
Þessi grindvísku landnemar voru því athyglisverð undantekning frá þeim hópum manna sem stunduðu víkingarferðir og rán áður en þeir settust að á Íslandi. Heima í Noregi hafði Gnúpur, eins og faðir hans og sennilega afi, stundað sína járnvinnslu og járnsmíðar í friði þar til einhverjir atburðir um 930 neyddu Gnúp til Íslandsfarar með skjótum hætti og aðdraganda.
Nafnið á Járngerðarstöðum er því hugsanlega sprottið af tvennu: í fyrsta lagi af kvenmannsnafninu Járngerður sem tíðkaðist nokkuð á landsnámsöld en varð þó aldrei algengt og í öðru lagi af einhverju úr umhverfi eða atvinnuháttum hinna fornu Grindvíkinga.

Kvenkenndar jarðir

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Ég nefndi áðan þá sérkennilegu tilhneigingu í bæjanöfnum frá Reykjanesi og austur í Ölfus að snúast upp í kvennöfn. Jarðirnar fá nöfn af einhverjum óþekktum konum sem síðari alda menn líta svo á að hafi búið þar í upphafi. Má því hugsanlega gera því skóna að upptaka fastrar búsetu á viðkomandi jörð hafi átt þátt í slíkri þróun kvenmannsnafna á þessu svæði. Þau hafi þá lyft viðkomandi jörð hærra í samfélaginu, menn hafi látið slíkt gott heita enda hafa slíkar breytingar á suðurhluta Reykjanesskagans gerst án þess að við yrði spornað ekki síst ef viðkomandi jörð fylgdi lítil saga um upphaf byggðar þar og byrjun búsetu. Jörðin varð til af breyttum atvinnuháttum eða af félagslegum umbrotum svo sem eignaskiptum og þörf á nýjum stöðum til að búa á og stunda þar búskap til sjós og lands. Gott dæmi um þetta úr Grindavík er einmitt jörðin Ísólfsskáli sem í upphafi var aðeins verskáli til útróðra og hét þá og lengi Ysuskáli en fékk síðan karlmannsnafnið Ísólfsskáli, líklega eftir að þar hófst föst búseta allt árið og þar varð til sérstök jörð með landamerkjum. Fullgild bújörð verður sjaldan til í einu vetfangi, hún þróast jafnan frá viðverustað til lögbýlis. En sú þróun er vitanlega mislöng eftir umhverfi og aðstæðum. Einhver byggð var t.d. komin á Ysuskála á árunum 1210-1220, a.m.k. var þá róið þaðan til fiskjar og e.t.v. búið þar allt árið.

Er nafn Járngerðarstaða dregið af Járngerði?

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1627.

Svipuð þróun kann að hafa átt sér stað á Járngerðarstöðum. Þegar þeim bústað var í byrjun valinn staður er ekki óhugsandi að því vali hafi einmitt ráðið aðgengi að nægu vatni til notkunar og drykkjar enda stutt þaðan í gjár og vötn og þar var besta vatnsból í Grindavík frá aldaöðli (sbr. Sóknalýsingu Grindavíkur 1840).

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir fyrrum.

Sé beinlínis farið eftir hljóðan nafnsins Járngerðarstaðir get ég þess til að þar hafi frumbyggjar í Grindavík stundað sínar jámsmíðar, iðn sína eftir komu sína til Grindavíkur. Við járnsmíði og járngerð þurfti einmitt nægt og gott vatn og losa mátti ösku og gjall í gjárnar frá staðnum, en hvar fá mátti kol til vinnslunnar er þó ekki ljóst nema aðkeypt austan úr sveitum. Land var þó grónara víða en það var síðar og styttra í eldsneyti en okkur grunar. En þeim Molda-Gnúpi og ættmönnum hans var illa í ætt skotið hafi þeir ekki stundað iðn sína í Grindavík eins og heima í Noregi. Þessi tilgáta mín um uppruna bæjarafnsins Járngerðarstaðir kann að reynast fjarstæðukennd vegna þess að við erum vön því kvenmannsnafni og hve löng hefð þess er orðin. Ekkert í umhverfi Járngerðarstaða í dag minnir á slíkar járnsmíðar en hvort þar kunna að leynast náttúrulega kostir eða staðhættir sem vísað gætu til járnvinnslu veit ég ekki. Ljóst er þó að alvanir atvinnumenn við járnsmíð hafa kunnað sitt hvað fyrir sér í iðn sinni. Fljótt á litið virðist manni sem litlir möguleikar hafi verið til járngerðar þarna í hrauninu við Járngerðarstaði en hugsanlega hafa þar verið einhverjir þeir landskostir sem buðu upp á slíka iðju aðrir en blávatnið eitt. Þetta hefur tæplega verið athugað í nágrenni Járngerðarstaða. Hvort örnefni í nágrenni við bæinn geta varpað einhverju ljósi á þessa tilgátu mína um upphaf bæjarnafnsins þekki ég ekki, en það er þó hugsanlegt.

Sterk staða fornkvenna?

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Rétt er að benda á aó sú óvenjulega málvenja að kvenkenna bæjarnöfn er mun algengari á sunnanverðum Reykjanesskaga en á skaganum að norðan og vestan. A því er ein undantekning. Það er jörðin Þóroddstaðir á Miðnesi sem um tíma var kölluð Þórustaðir. Hvað veldur þessari málvenju að kvengera bæjarnöfn er óljóst en varla var staða kvenna á suðurhluta Reykjaness sterkari en á hinum nyrðri. Byggð er raunar eldri á norðanverðum skaganum en hinum syðri en hvort það tengist þessari málvenju eitthvað skal ósagt látið.

Eftirmáli greinarhöfundar

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

Eftir að ég skrifaði grein mína um bæjarnafnið Járngerðarstaðir þar sem ég færði rök að því að nafnið væri dregið af járnvinnslu eða járnsmíði kannaði ég betur nokkrar heimildir sem renna stoðum undir það að sá skilningur á nafninu sé réttari en hinn að nafnið sé upphaflega kvenmannsnafn. Veturinn 1117-1118 dvaldi Grettir Ásmundarson hinn sterki í útlegð í Ljárskógum í Dölum hjá Þorsteini Kuggasyni frænda sínum. Þar vann Grettir m.a. við járnsmíði en „nennti misjafnt” eins og það er orðað í 54. kapítula Grettissógu. Sem kunnugt er var unnið járn úr mýrum þarna vestra og eru varðveittar um það allgóðar sagnir og fornar minjar. Grettissaga getur þess að Þorsteinn hafi smíðað sér þarna brú úr járni heiman frá bænum úr Ljárskógum sem útgefandi Grettissögu hjá Fornritafélaginu, Guðni Jónsson, hefur þó efasemdir um eða sprottið hefur af blendnum sögnum. Athygli vekja orð Grettlu sem segir eftir að hafa lýst brú þessari: „Hafði Þorsteinn mikinn starfa fyrir þessari smíð (það er smíði brúarinnar) því að hann var járngörðarmaður mikill.” Hér vísar höfundur Grettissögu til þess að Þorsteinn hafi unnið járnið í brúna þarna heima og smíðað hana líka ásamt Gretti.

Innlent járn úr mýrarrauða

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Þegar litið er í orðabækur frá 19. og 20. öld sem út komu yfir fornmálið kemur í ljós að höfundar þeirra hafa allir skilið orðið járngjörðarmaður á þann veg að það merkti járnsmiður, ekki aðeins sá sem býr til járn úr mýrarrauða heldur líka sá sem úr járninu smíðar (sjá orðabækur eftir Norðmennina Leif Heggstad og Johann Fritzner svo og íslensk-enska oröabók yfir fornmál er þeir Guðbrandur Vigfússon og Englendingurinn Cleasby tóku saman.) Allir vísa þeir til þess dæmis í Grettlu sem heimildar en ekki önnur rit. Talið er að Grettissaga hafi verið færð í letur nálægt 1300 og er ekki annað að sjá en að höfundur hennar noti því sama orðið um þann sem býr til járnið og þann sem smíðar úr því, enda hefur þetta trúlega hvorttveggja farið saman á landnáms- og þjóðveldisöld. En er tímar liðu fram á miðaldir má ætla að orðið járnsmiður hafi unnið á enda hættu menn smám saman að vinna innlent járn úr mýrarrauða. Hafi þar verið byrjað að flytja inn útlent hráefni til járnsmíða, líklega eftir 1400 og síðar, og þá hafi upphafleg merking orðsins járngerðarmaður fyrnst og glatast en orðið járnsmiður tekið við og svo stendur enn á okkar dögum. í ljósi þessara röksemda er ekkert því til fyrirstöðu að gefa þeirri skýringu undir fótinn að hið forna bæjarnafn Járngerðarstaðir sé runnið frá járnsmíðum þeirra Mold-Gnúpssona eða jafnvel frá Gnúpi sjálfum eins og Landnáma sjálf getur um.

Engin Járngerður í Grindavík

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Sú sterka tilhneiging á suðurströnd Reykjanesskagans að kvengera nöfn á svæðinu styður þessatilgátu allvel. Athygli vekur líka að kvenmannsnafnið Járngerður þekkist ekki sem skírnarnafn kvenna í Grindavík, hvorki á miðöldum né á seinni tímum að því er séð verður. Gömul hefð hefur því varla verið fyrir nafninu í grindvískum ættum eins og stundum gerist með mannanöfn sem þannig ná að lifa staðbundið innan héraða allt frá landnámi. Dæmi um slíkt má þó finna á næstu grösum, t.d. í Árnessýslu. Í ljósi alls þessa er ekki annað að sjá en að bæjarnafnið Járngerðarstaðir eigi sér uppruna í hinni fornu iðngrein grindvískra frumbyggja er námu þar land um 936, en ekki kvenmannsnafnið Járngerður.
Þegar Grettissaga var skráð um og eftir 1300 þekktu menn enn að orðið járngerð merkti bæði gerð járns úr mýrarrauða og smíði úr járni. En þegar þýskir og enskir kaupmenn fóru að koma til Íslands efir 1420 fluttu þeir með sér járn og aðra málma til smíða týndist hin gamla merking í orðinu járngerð en um leið kom upp kvenkenning hins gamla bæjarnafns í Grindavík þegar menn hættu hinni fornu járnvinnslu í landinu. Sú vinnsla borgaði sig ekki lengur þegar innflutningur málma frá miklum námulöndum hófst enda óx námugröftur þá í þeim löndum sem Íslendingar skiptu mest við, ekki síst í Englandi. Þessi þróun varð ekki stöðvuð og gamla íslenska járngerðin var ekki tekin upp aftur enda útlendu málmarnir betri en íslenska járnið. Á árunum 1420-1500 hófst þessi breyting og þegar Danir hófu einokunarverslun sína 1602 voru Íslendingar algjörlega háðir útlendu járni til smíða sinna eins og sést af heimildum. Þá var uppruni hins foma grindvíska bæjanafns löngu gleymdur mönnum en nafnið að fullu orðið kvenmannsnafn sem farið var að tengjast þjóðsögum sem þá mynduðust.” – Skúli Magnússon

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2007, Bæjarnafnið Járngerðarstaðir í Grindavík, Skúli Magnússon, bls. 8-9.

Jángerðarstaðir

Járngerðarstaðir fyrrum – samsett  mynd.