Stafnes – konungsútgerð

Stafnes

Fríða Sigurðsson skrifaði um konungsútgerðina á Stafnesi í Faxa árið 1969:

stafnes-221

Stafnes.

„Konungsútgerðin hafði aðalbækistöð sína á Stafnesi. Þaðan var stutt á miðin. Þar var „annáluð veiðistöð“, talin bezta vetrarverstöðin á öllu landinu. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. 1742, þegar Skúli Magnússon var ráðsmaður á Hólum, komu þaðan 9 sjómenn suður á Stafnes, og enn minnir örnefnið „Norðlingabaðstofa“ á þessa menn. Það var Stafnesbóndinn, Guðni Sigurðsson, sem 1749 var settur landfógeti, fyrstur allra íslenzkra manna. Hann gegndi þessu embætti, þangað til Skúli Magnússon tók við því 1750. Þá gerðist Guðni sýslumaður, og næstu 2 árin var Stafnes sýslumannssetur, en 1752 fluttist Guðni að Kirkjuvogi.
stafnes-222Tveir verzlunarstaðir voru í nánustu nánd við Stafnes: Þórshöfn, sem á 18. öld var reyndar ekki lengur notuð, og Bátsendar, sem síðan 1640 voru hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum. Þegar konungsútgerðin var lögð niður 1769, hnignaði mjög sjávarútvegi á Stafnesi.
Fljótlega fóru Refshalabæirnir, hjáleigur frá Stafnesi, í eyði. Í Stafnesi sjálfu bjó gamli bóndinn, Magnús Jónsson, til 1784, og síðan ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, sem var 73 ára gömul, þegar maður hennar dó. 1786 eru aðeins 3 menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað, 1790 jafnvel bara ein hjón. Þau tolla þar upp undir aldamót og ala á þessum árum nokkur börn, en þegar flóðið mikla brýtur húsin á Bátsendum þann 9. janúar 1799, þá fær kaupmannsfólkið frá Bátsendum í hálfan mánuð húsaskjól á Loddu, en hreiðrar þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi“.

Heimild:
-Faxi, 29. árg. 1969, 10. tbl., bls. 167.

Stafnes

Á Stafnesi.