Stapagata – leiðarlýsing

Stapagata

Gengið var um Stapagötu frá Reiðskarði við Vogavík og eftir Stapanum yfir að Stapakoti í Njarðvíkum.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur er framhald gömlu þjóðleiðarinnar (Almenningsvegarins, eða Menningsvegar, eins og gárungarnir kölluða hann eftir misritun). Alfaravegurinn (-leiðin) liggur frá Hafnarfirði og suður að Kúagerði þar sem Almenningsvegurinn tekur við. Hann liðast síðan um Vatnsleysustrandarhrepp að Vogastapa. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur. Árið eftir var hafist handa við gerð vegar frá Vogastapa til Grindavíkur. Þangað náði vegurinn fullgeðrur árið 1918. Við þann veg má sjá miklar minjar eftir vegagerðarmennina.

Stapinn

Stapadraugurinn.

Vogar eru bæði fallegt og snyrtilegt sjávarþorp. Þaðan var gengið suður að Stapanum. Þegar komið er að hlíð hans er gengið í átt að sjónum og þar má sjá merkið „Stapagata.”
Gatan liggur upp hlíðina um skarð sem heitir Reiðskarð en þar er hún hlaðin upp að hluta og er ytri vegkanturinn nokkuð hár og hleðslan þar bæði falleg og heilleg. Þegar gengið er upp gömlu götuna má sjá enn eldri götu á hægri hönd, sem kastað hefur verið duglega upp úr. Hæsti hluti Stapans austan Reiðskarðs heitir Fálkaþúfa en suður af þúfunni eru Lyngbrekkur. Þarna við gerðist m.a. saga sú, sem jafnan var sögð á Vatnsleysuströnd um fylgdarkonuna (huldukonuna þokumkenndu) í Skarðinu (sjá aðra FERLIRslýsingu).

Reiðskarð

Reiðskarð.

Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs. Upp úr Reiðskarði er gatan djúp og sendin með miklum grjótruðningum til beggja handa. Í skarðinu vex töluvert af Gullkolli en það er sjaldgæf jurt á þessu svæði. Landið hækkar örlítið þegar komið er upp á Stapann. Þaðan lá gata til hægri, niður að bænum Brekku. Eftir stutta göngu sjást miklar grjóthleðslur á milli götunnar og Gamla-Keflavíkurvegarins. Þar var svonefndur „hreppsgarður,“ einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19.aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Sáralítill jarðvegur er nú innan hleðslanna. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan í löngum hjalla sem kallaður er Kálgarðsbjalli.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól sem er hæsti hluti Stapans (74m) og þar er útsýnisskífa. Af Grímshól er gott útsýni yfir Faxaflóa og fjöllin í kring. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Nú lækkar landið vestur af Grímshól og hér liggur gatan rétt sjávarmegin við Gamla-Keflavíkurveginn. Á móts við þar sem akvegurinn liggur yfir götuna eru landamörk Vatnsleysustrandahrepps og Reykjanesbæjar í viki sem gengur inn í Stapann og er ýmist nefnt Grynnri-Skor eða Innri-Skor.

Stapagata

Stapagata nær Njarðvík.

Þegar komið er nokkuð vestur fyrir Grynnri-Skor er landið aflíðandi til vesturs og gaman að skreppa út af götunni og ganga með bjargbrúninni en fara þarf varlega. Gróðurinn er mjög fjölbreytilegur á þessu svæði. Næst verður Dýpri-Skor eða Ytri-Skor á vegi okkar en þar var áður ruslahaugar Suðurnesja og sjást því miður enn skýr merki um þá. Rétt vestan við Ytri-Skor standa leifar af fiskihjöllum og liggur gatan um það svæði. Grænaborg heitir stór gömul og grasigróin fjárborg hér rétt við Gamla-Keflavíkurveginn og austan hesthúsahverfis Njarðvíkinga. Bærinn, sem stendur næst Stapanum af húsunum í Innri-Njarðvík, heitir Stapakot og þar við túnfótinn lýkur göngunni.
Ekki má gleyma Stapadraugnum, sem margar sagnir eru til um, enda mun hann oft hafa sést á gamla veginum um Stapann þars em hann stóð með höfuðið undir handleggnum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Byggt m.a. á frásögn Rannveigar L. Garðarsdóttur.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Stapagata

Stapagata.