Stefánsvarða – Borgarkot

Stefánsvarða

Gengið var frá Stefánsvörðu á Stefánsvörðuhólum áleiðis niður að Borgarkoti vestan Keilisness. Skammt norðan vörðunnar var komið að tvískiptum gömlum stekk, Borgarkotsstekk, í graslægð. Á bökkunum sáust leifar af gömlum garði. Norðaustan við stekkinn eru gróin svæði, en nokkuð uppblásin.

Borgarkot

Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.

Gengið var norðnorðvestur í átt að Helgahúsi ofan við Breiðufit (Réttartanga). Á leiðinni var gengið þvert á gamla stógripagirðingu. Enn má sjá steinaröðina liggja þar til austurs og vesturs. Í hvern steinn eru klöppuð tvö göt; annað ofan á og hinn á hliðina. Í götin voru reknir trétappar og á tappana strengd bönd. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Skammt austan þess, norður undir grasi grónum klapparhól, var fallegt vatnsstæði, Vatnssteinar (Vaðssteinar). Í því var vatn. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól. Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Norðar er Borgarkot. Það mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau, að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot. Þarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir. Minnkaveiðimenn munu hafa rutt honum að mestu um koll, en þó sést enn móta vel fyrir honum á kambinum. Neðan tóttanna er Borgarkotsvörin, en ofan við hana lá dauður háhyrningur – nægt kjöt í margar grillveislur.

Borgarkot

Vatnssteinar – vatnsstæði við Borgarkot.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn ruddu síðar um koll.
Ofan við Borgarkotstúnið er varða á hól. Beint upp af henni, sunnan girðingar, sem þar er, er hlaðin refagildra.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á þetta svæði því bæði gleymdust skriffæri til uppdráttagerðar og gps-tækið til að staðsetja vatnsstæðin sem og refagildruna. Samt sem áður var gerður bráðabirgðauppdráttur af svæðinu með aðstoð bíllykils og pappaspjalds. Þarna er greinlega um að ræða stórlega vanmetið svæði. Miklar minjar eru við Borgarkot og einnig allt í kring.
Veður var frábært – hiti, sól og þægilegur andvari. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.