Stóra-Hálssel og Hlíðarsel í Grafningi

Rosabaugur

Ætlunin var að leita uppi tvö sel, annars vegar frá Hlíð og hins vegar frá Stóra-Hálsi í Grafningi. Fyrra selið átti að vera í austanverðum Hlíðardal og hitt í austanverðum Kringluvatnsdal.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – Dalagata.

Gengið var upp með sunnanverður Nóngili frá útihúsunum á Stóra-Hálsi. Slóði liggur til að byrja með ofan í selstígnum upp á Stórahálsfjall. Í hlíðinni beygir hann til norðurs fast ofan við gilið og liggur síðan upp eftir melum og móum áleiðis að Geithamragili, sem er á milli bæjanna Stóra-Háls og Hlíðar. Norðan við gilið er Hlíðarfjall, einnig nefnt Háafell. Selstígurinn, „Dalagatan“, sést af og til en hverfur þesss á milli á gróðulausum melum. Þegar komið er þangað sem lækir úr Kringluvatnsdal og Hlíðardal mætast beygir stígurinn til suðvesturs. Greinilegur stígur er einnig áfram til norðurs norðan lækjarmótanna.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel í Grafningi.

Í örnefnalýsingu fyrir Stóra-Háls segir: „Dalagata; Dalagatan liggur út úr túninu vestanverðu, upp með Miðaftangili að vestan, yfir fjallið í Kringluvatnsdal. Sú leið var farin með heyband úr “Dalnum“, en svo var Kringluvatnsdalur jafnan nefndur.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – uppdráttur ÓSÁ.

Gatan liggur beint upp fjallshlíðina fyrir ofan bæinn þangað sem leið liggur yfir fjallið og yfir Stórahálsfjall og yfir í Stórahálsdal. Þarna er fremur grýtt en að nokkru mosa vaxið. Talsvert heyjað þar í þurrkasumrum.“

Selsstígurinn liggur í selið; þriggja rýma staka tóft á annars gróðurllitlu svæði austan lækjarins. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Sel frá Stóra-Hálsi: Fornt sel er á Selflötum úti í hálsi. Annað sel var suður af mýrunum í Stóra-Hálsdal. Það er hlaðið úr torfi og grjóti og mun vera síðasta selið sem notað var í Grafningi, en það var notað fram yfir 1850. Seltóftin er um miðjan dalinn. Vestan við tóftina er melur austan við er móar í austurhlíð dalsins. Tóftin er 9 metra löng og 4 metra breið og samanstendur af tveimur hólfum. Grjóthleðslur sjást að innanverðu og tóftin opnast til austurs.“

Hlíðarsel

Hlíðarsel í Grafningi.

Selið er enn greinilegt; grjóthlaðnir veggir, tvö rými liggja saman og það þriðja er framan við dyr þeirra. Útsýni er yfir dalinn, sem jafnan var nefndur „Dalurinn“, upp og norður Hlíðardal. Efjumýrarhryggir eru í norðvestri, Klyftartungur í suðvestur, Innri-Botnahnúkur til vesturs og Dagmálafjall í norðri.
Auðvelt er að fylgja selstígnum í Hlíðarsel. Mjög líklega hefur hann einng verið notaður sem reiðleið milli bæja í Grafningi fyrrum.
Selið er uppi á grónum stalli í fjallinu á augljósum stað. Í því eru þrjú rými. Veggir eru lágir og grónir.

Hlíðarsel

Hlíðarsel Grafningi – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingu Hlíðar segir: “Selið. Þar er grashvammur nokkuð hátt suðvestan í Hlíðarfjalli gegnt dalnum. Þegar farið er norður Hlíðardal, hækkar hann brátt og verður allur óvistlegri en suðurendinn. Þar ber mest á uppblásnum börðum og moldargiljum, en nokkru eftir að hallar norður af, er komið á grasflöt“. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Í Kringluvatnsdalnum. Sel frá Hlíð var norðan til í Hlíðardal utan í rótum Hlíðarfjalls, í valllendishvammi sem snýr móti suðvestri. Sést vel móta fyrir því enn.
Selið var á grasbala austantil í dalnum, fyrir austan er mosavaxin hlíð en vestan aflíðandi hlíð niður í dalsbotninn. Þarna er fremur slétt og grasi gróið svæði. Ekki langt frá selinu frá Stóra-Hálsi um 20 mín gangur. Leifar selsins eru orðnar mjög ógreinilegar, þó vel megi sjá merki þeirra í landslaginu.“
Selstígnum var fylgt frá selinu niður  með norðanverður Geithamragili og að Hlíð.
Frábært veður.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel.