Strandstígur – Hjónin í kassahúsinu
Við Strandstíginn í Hafnarfirði eru nokkur upplýsingaskilti. Skiltin eru í umsjá Byggðasafns Hafnarfjarðar. Um þessar mundir (2023) prýða skiltin ljósmyndir hjónanna í Kassahúsinu, þeirra Guðbjarts Ásgeirssonar og Herdísar Guðmundsdóttir. Myndinar eru frá Hafnarfirði.
Ljósmyndirnar eru að stórum hluta frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur ásamt Byggðasafni Hafnarfjarðar. Myndirnar eru afrakstur hjónanna Herdísar Guðmundsdóttur og Guðbjarts Ásgeirssonar en þau komu nýgift til Hafnarfjarðar árið 1916 og settust hér að. Ljósmyndaáhugann hafði Guðbjartur haft frá því 1907 er hann fékk belgmyndavél í skiptum fyrir reiðhjól. Guðbjartur tók helst ljósmyndir á hafi og af skipum. Saman voru þau með ljósmynda- og framköllunaraðstöðu í húsi sínu að Lækjargötu 12b. Þegar Guðbjartur fór á sjóinn sá Herdís um ljósmyndun og framköllun á heimili þeirra, eftir að hafa aflað þeim leyfi til að starfa sem atvinnuljósmyndarar hjá Félagi atvinnuljósmyndara. Tók Herdís manna- og þjóðlífsmyndir í landi en Guðbjartur mest á sjó en einnig eitthvað í landi. Höfðu þau bæði næmt auga fyrir myndefninu og hafa margar ljósmyndir þeirra birst í bókum og tímaritum.
Yfirlitsmynd ofan við Hörðuvelli um 1940 yfir Hamarskotslæk og út að Hvaleyri. Húsið fremst á myndinni er Hörðuvellir II, reist 1922 af Edvard Morthens. Húsið stendur nú við Nyrðri-Lækjargötu 3. Á Hörðuvöllum var frjálsíþróttaleikvangur FH, hlaupabrautina má enn sjá á myndinni. Á vetrum var vatni úr læknum veitt inn á svæðið fyrir skautaæfingar.
Yfirlitsmynd af Setbergi frá því um 1940 og út yfir Hafnarfjörð. Fyrir miðri mynd er sumarhús, Setbergshúsið sem reist var árið 1902 og fjós er til hægri á myndinni. Tvö smáhýsi niður af Setbergi, annað þeirra hýsti heimarafstöð Jóhannesar Reykdals.
Ljósmynd frá 1927. Horft frá þeim stað þar sem Ásbúð stóð að Flensborg og yfir fjarðarbotninn. Í forgrunni má sjá garðahleðslur, hrundar hleðslur útihúss og svo þar sem Flensborgarlækur rann út í höfnina, þar voru áður uppsátur báta. Hinum megin við lækinn er Flensborgarskólinn og þá skólahúsið nýja sem reist var árið 1906, svo Íshús Hafnarfjarðar, stofnað 1908. Hamarinn ber við himininn, þar stóð lítið kot kennt við Hamarinn, „Hamarskot“.
Ljósmynd tekin 1947–1948. Horft yfir „Óla Run“-tún yfir suður- og miðbæinn. Til vinstri er risið á grunni Flensborgarskólans bifreiðaskýli „Áætlunarbíla Hafnarfjarðar“, reist árið 1935. Skólahúsið frá 1906 horfið og nýtt Íshús risið. Fyrir miðri mynd er bærinn Lækjarmót og þar örlítið ofar til hægri er bærinn Skuld.
Myndin er tekin um 1924 á moldarflötinni neðan við Lækjargötu. Til vinstri er lágreist bygging úr timbri, hún var reist á vegum bæjarins, byggð áföst við steinhús. Þessi íbúðarbygging var ætluð „húslausu“ verkafólki og var nefnd „Bæjarbyggingin“. Steinhúsið var reist um 1917 úr grágrýti úr hamrinum og nefnt eftir Jóni Jónssyni frá Gróf. Þessi hús voru rifin um 1970. Þá er húsaröð við Lækjargötu sem stendur mikið til óbreytt. Dökka húsið á móts við Gróf var byggt árið 1916, það var ýmist nefnt eftir útliti, s.s. „svarta húsið“, „rauða húsið“, en einnig kallað Bygggarður því þáverandi íbúi hafði komið frá Bygggarði á Seltjarnarnesi. Hann átti margar dætur og var húsið því einnig nefnt „Kvennabrekka“, það er nú Öldugata 2. Þá kemur Lækjargata 16, Busthús; fyrri eigandi þess átti ættir að rekja til Busthúss í Miðnesi. Húsið þar við hliðina er Lækjargata 14 sem var nefnt Geitháls eftir fæðingar- og uppeldistað fyrri eiganda. Svo er það hús með vatnshallaþaki, Lækjargata 12, nefnt „Kassahúsið“ af augljósri ástæðu. Fyrir miðri mynd er Brautarholt, byggt um 1907, það var stækkað, hækkað og síðan rifið; nú standa á lóðinni tvö nýleg hús. Þá sést Hafnarfjarðarkirkja og nokkur hús við Nyrðri-Lækjargötu og Austurgötu til hægri á myndinni.
Mynd tekin um 1924 á móts við Syðri-Lækjargötu, lengst til vinstri sést í Gömlu-Gróf sem varð hluti af Bæjarbyggingunni og næst er hús sem nú telst til Öldugötu 2. Húsið gekk undir nokkrum nöfnum, s.s. Kvennabrekka, Bygggarður, Svarta húsið og Rauða húsið. Þá kemur Lækjargata 16, Busthús, svo Geitháls númer 14 og Kassahúsið Lækjargata 12. Þar bjuggu lengst af ljósmyndarahjónin Guðbjartur Ásgeirsson og Herdís Guðmundsdóttir en í kjallaranum höfðu þau aðstöðu fyrir amatörvinnustofu sína. Kassahúsið var það nefnt vegna útlitsins en hjónin létu hækka þakið í núverandi mynd árið 1925. Við hliðina á Kassahúsinu er Lækjargata 10. Það hús byggði Jóhann Jónsson skipstjóri, hann fór sem háseti á kútter „Kjartan“ sem var í eigu Brydeverslunarinnar á meðan verið var að gera við skip hans, kútter „Pollux“. Jóhann tók út ásamt skipstjóranum á kútter „Kjartani“ og drukknuðu báðir. Var Jóhanni skipstjóra lýst sem „lipurmenni og gæðasjómanni“.
Horft er af Vesturhamri frá „Illubrekku“ yfir á Hamarskotsmölina. Þrjú hús standa með framhlið að sjó. Það elsta er lengst til vinstri, það var reist árið 1841 af Matthíasi Jónssyni Mathiesen sem fékk fyrstur manna að reisa verslunarhús á „Mölinni“. Þá er hús sem oft var nefnt „fjósið“ en fjós og hlaða voru í þeim enda sem næst er tvílyfta húsinu. Það var upphaflega pakkhús og verslun en hækkað og gert að íbúðar- og verslunarhúsi um 1900. Þegar hús fengu númer við götur árið 1911 urðu þessi hús Strandgata 50 a, b og c.
Yfirlitsmynd frá því um 1920 séð frá Brekkugötu yfir miðbæinn og út að vesturbæ Hafnarfjarðar. Saltfiskur á reitum Einars Þorgilssonar, Apótekið við Strandgötu í byggingu. Fiskþurrkunarhús og fiskreitur, þar eru nú verkamannabústaðir við Skúlaskeið. Bólvirki fyrir framan hús Augusts Flygenring við Vesturgötu og pakkhús sem reist var 1865 á grunni verslunarhúss Bjarna Sivertsen. Tvö pakkhús með gafli að sjó, þau gengu undir heitinu dönsku pakkhúsin og voru flutt á þennan stað um 1770. Byggðin í vesturbænum að rísa.
Hátíðarhöld á Sýslumannstúninu 17. júní 1947. Handknattleikur kvenna á milli FH og Hauka. Lúðrasveitin Svanur og karlakórinn Þrestir sáu um tónlistaratriði. Nokkra bragga má sjá utan túnsins. Verslunin Álfafell í húsi sem áður hafði staðið sem íbúðarhús við Brekkugötu og Hressingarskáli Hafnarfjarðar sem fluttur var á þennan stað úr Krýsuvík árið 1941. Árið 1948 eignaðist Skátafélagið Hraunbúar skálann. Vinstra megin á myndinni má sjá fangahúsið í byggingu, áfast við Sýslumannshúsið.
Myndin er tekin af Hamrinum um 1940. Gatnamót Lækjargötu og Öldugötu, Skólabrautar, Hverfisgötu og Tjarnarbrautar. Hægra megin á myndinni er Mjólkurvinnslustöð Mjólkurbús Hafnarfjarðar sem stofnað var árið 1934. Byggingin sem tekin var í notkun árið 1947 þótti hin myndarlegasta. Var húsið byggt úr járnbentri steypu með korklögðum veggjum að innan. Það var tvílyft utan vélasalarins sem var í fullri hæð. Ketilshúsið var þar á bak við á neðri hæð og á efri hæðinni var skrifstofa og móttökusalur fyrir mjólk. Á bak við húsið var akvegur að húsinu og undir honum kolakjallari og sýrugeymsla. Á efri hæð í öðrum enda hússins var rannsóknarstofa, skyrgerð og geymsla. Mjólkurbú Hafnarfjarðar var lagt niður árið 1949 og var í húsinu ýmiss konar starfsemi þar til það var brotið niður árið 1981.
Ljósmynd tekin um 1925 af moldarflötinni við lækinn að Lækjargötu, Brekkugötu og Hamrinum. Fremst á myndinni er „katalog“-hús Jóhannesar J. Reykdal sem hann lét reisa árið 1904. Húsið var portbyggt timburhús, ein hæð og ris á grágrýtishlöðnum kjallara með veggsvölum og turni. Geymsluskúr handan götunnar nær hamrinum tilheyrði lóð Jóhannesar Reykdal. Húsið skemmdist það mikið í bruna árið 1930 að ekki þótti svara kostnaði að gera við það og var það því rifið. Á þessum stað reis síðar skrifstofu- og verslunarhús timburverksmiðjunnar Dvergs. Næst er einlyft hús með háu risþaki á hlöðnum kjallara byggt árið 1902, rifið um 1980, þar var síðar lengi bílastæði. Þá kemur tveggja hæða timburhús með mænisþaki á hlöðnum kjallara og bíslag með vatnshallaþaki, upphaflega byggt minna um 1910 en stækkað síðar. Þá eru tvö portbyggð timburhús með kvistum á hlöðnum kjallara. Í upphafi sneri framhlið húsanna að höfninni og götuslóði var þar fyrir framan. Í þennan götuslóða var vatnslögnin lögð árið 1917. Síðar var Brekkugatan lögð eins og hún liggur í dag.
Kona við þvotta í afar hrörlegri viðbyggingu á baklóð Vesturgötu 6 um 1955. Á timburhjólbörum er þvottabali með loki og pottur þar ofan á. Þvottabali yfirfullur af blautum þvotti stendur á gólfinu. Konan bograr yfir þvottabretti í timburbala sem hvílir á síldartunnum. Til vinstri rýkur úr suðupotti, mjólkurbrúsi stendur undir glugga en á syllu við gluggann er m.a. járnfat og flaska. Utanáliggjandi rafmagnssnúrur og bárujárnsplötur á víð og dreif.
Horft ofan af Jófríðarstaðahól yfir Suðurgötu, Vesturhamar yfir fjörðinn að miðbænum og vesturbæ. Fremst hægra megin við miðju er hús Bror Westerlund, byggt árið 1925. Fyrir framan það er einlyft hús með lágreistu þaki, það var Hringbraut 51 en er nú horfið. Hlið St. Jósefsspítala með kapellunni, svo líkhús og þá hænsna- og blómaskáli systranna sem nýlega var rifinn. Rétt fyrir miðri mynd trónir Fríkirkjan á Hraunprýðishól. Akrafjall í fjarska.
Horft af holtinu þar sem nú er Hringbraut. Hægra megin má sjá hús í byggingu við Holtsgötu og nokkur hús eru komin við Hlíðarbraut en gatan er nefnd eftir Hlíð sem var Hlíðarbraut 15. Húsið var áður Austurhamar 5, byggt árið 1905 af Jóni Guðmundssyni, fv. bónda á Setbergi, 1867–1902.
Horft ofan af Hamrinum út á höfnina um 1925. Fremst eru húsþök við Brekkugötuna, svo Góðtemplarahúsið sem stóð við Templarasund en sundið lá meðfram baklóðinni. Blöndals-hús til vinstri við „Gúttó“ og íþróttahúsið við gamla barnaskólann. Lítið verslunarhús við endann á íþróttahúsinu er Álfafell, það hús stóð áður þar sem nú er Brekkugata 14 en var flutt á mölina um 1900. Fiskreitur Einars Þorgilssonar og Hafnarfjarðarkirkja til hægri á myndinni. Bátar og skip af ýmsum stærðum og gerðum liggja við akkeri og við bryggju.
Ljósmyndin er mögulega tekin úr nýbyggingu Sparisjóðs Hafnarfjarðar á horni Strandgötu og Linnetsstígs. Steypuvinna er í fullum gangi við Thorsplanið og meðfram Strandgötu. Til vinstri er lítil verslun með áletruninni „Sóley“. Það var Hendrik J. Hansen sem reisti bygginguna árið 1917. Þarna var Ólafur H. Jónsson með verslun sína áður en hann flutti hana á Strandgötu 1. Ólafur Runólfsson var einnig með verslun í þessari smáu byggingu en hann var tengdasonur Hendriks. Þá er tvílyft timburhús á steyptum kjallara. Það byggði Einar J. Hansen, bróðir Hendriks, árið 1908, þeir höfðu alist upp í húsinu sem stendur ofar í lóðinni með framhliðina að götunni. Þarna hefur hús Einars, Strandgata 19, verið lengt um tvær gluggaraðir og viðbygging að aftanverðu er risin eftir að kviknað hafði í húsinu. Þá er steinsteypt tveggja hæða hús byggt sem íbúðar- og verslunarhús árið 1942. Á þessum slóðum stóð bær Ara Jónssonar: „hann kom sér upp bæ í hjarta byggðarinnar töluvert stórum og reisulegum með holi og lofti“. Bærinn var kenndur við eigandann og þó að bærinn væri rifinn og nýtt hús byggt á sama stað var það einnig kallað „Arahús“. Hjá Ara vann Þuríður Einarsdóttir formaður við verslunarstörf. Þá sést hluti af Brúarhrauni sem áður náði fram í höfnina. Á Brúarhrauni stóðu bæði bæir og hús. Þá er innan girðingar við Strandgötu 25 hús með brotið/mansard-þak og framhlið að götunni. Þetta hús var byggt fyrir 1900 sem íbúðarhús en endaði sem þvotta-og gripahús við húseignina Strandgötu 25 sem reist var fyrir Þorstein Egilsson árið 1904.
Á Thorsplani um 1960. Piltur stendur upp við trönur, nokkrir árabátar á þurru. Einum bátnum hefur verið snúið á hvolf og netadræsur lagðar á botn hans. Suðurbærinn í fjarska og verið er að reisa íbúðarhús við Kelduhvamm 32 sem nú er Smárahvammur 1. Þar niður af er íbúðarhús Axels Kristjánssonar, forstjóra í Rafha, og niður af því er Íshúsið sem á sögu aftur til ársins 1908.
Myndin er tekin ofan af um 1950 yfir á Hamarinn, Suðurbæinn og Jófríðarstaði. Fremst fyrir miðri mynd er „Herkastalinn“ Austurgata 26. Hjálpræðisherinn í Hafnarfirði var stofnaður árið 1908. Fyrir starfsemi sína keypti Hjálpræðisherinn hús í byggingu, að Suðurgötu 37, en eftir því sem þörfin varð meiri fyrir stærra húsnæði var nýtt og glæsilegt hús á Austurgötu byggt og vígt í árslok 1920. Árið eftir leigði Hafnarfjarðarbær tvö herbergi fyrir sjúkrastofur og árið 1927 var húsið allt tekið undir berklahæli. Starfsemi Hjálpræðishersins í Hafnarfirði var lögð niður árið 1940. Hvítur þvottur hangir til þerris. Skúrbygging með vatnshallaþaki við kartöflureit á baklóð við Gunnarssund 1 sem er timburhús, hæð og ris með viðbyggingu. Þarna stóð áður myndarlegur timburbær byggður um 1865. Bæinn og allt sem inni í honum var byggði Gunnar Gunnarsson en hann kom til Hafnarfjarðar árið 1859. Gunnar var sjómaður, og formaður fyrir eigin sex manna fari. Hann ruddi breiða braut frá bænum niður í höfnina, þar kom hann bátum sínum í var fyrir sjávargangi á veturna. Þessi braut var kölluð „Gunnarssund“ og þegar götur fengu nöfn var tilvalið að nefna götu þessa Gunnarssund.
Suðurgata 74, portbyggt timburhús byggt eftir teikningu Vilhjálms Ingvarssonar fyrir Gísla Gunnarsson kaupmann árið 1920. Húsið er einlyft, með porti og risi á steyptum kjallara, veggsvalir og tröppur beggja vegna bíslags. Á lóðinni var hlaða og gripahús. Hægra megin má sjá suðurhluta gamla Flensborgarskólans, svo gripa- og geymsluhús skólans og við suðurenda hans er salerni/kamar „skipt í þrennt“. Svo er gamalt uppsátur við Óseyri, þar liggja vélbátar og tveggja mastra timburskip merkt „ISLAND“. Þá sést íbúðarhúsið að Óseyri og útihús sem fylgdi því.
Yfirlitsmynd tekin um það bil þar sem vitinn stendur á milli Hverfisgötu og Vitastígs, um 1925. Horft er yfir Hverfisgötu og út yfir miðbæinn og vesturbæinn. Vinstra megin fyrir miðri mynd er L-laga einlyft hús á steyptum kjallara með lágu risi, það er nú Hverfisgata 33. Í anddyri hússins var lengi lítil verslun. Fékk húsið nafnið Skálholt af fyrrum eigendum þess. Fríkirkjan, elsta kirkja Hafnarfjarðar, trónir hátt á Hraunprýðishólnum. Fríkirkjan sem er timburkirkja var fyrsta kirkjan á Íslandi sem byggð var með raflýsingu og ein af þeim síðustu með svölum. Hægra megin við miðju er tvílyft hús með risi og tveimur reykháfum. Þetta er svonefnt „Siglfirðingahús“ þar sem eigendurnir voru báðir Siglfirðingar. Húsið var byggt árið 1921 en brann til kaldra kola árið 1931. Húsið stóð á horni Hverfisgötu og Smyrlahrauns. Lágreista timburhúsið fremst til hægri er Vitastígur 10, byggt árið 1926.
Húsið á myndinni er Sunnuvegur 7, byggt árið 1935 eftir teikningu Ásgeirs G. Stefánssonar fyrir Sigrúnu Guðmundsdóttur og Kjartan Ólafsson bæjarfulltrúa. Húsið er steinsteypt, kjallari, hæð og ris, þakið er gaflsneitt með steinskífum. Steyptur veggur er umhverfis húsið.
Maður stendur á gatnamótum Reykjavíkurvegar, Vesturgötu og Strandgötu um 1960. Það er út frá þessum gatnamótum sem húsnúmer byrja, mætti kalla þau „núllið“ í Hafnarfirði. Tveggja hæða húsið sem merkt er Kaupfélagi Hafnfirðinga var reist árið 1906 á rústum eldra húss sem brunnið hafði. Þarna hefur húsið tekið miklum breytingum frá upprunalegu útliti. Útbygging með veggsvölum, skrautþaki og ártalinu 1906 hefur verið fjarlægð og gluggum breytt samkvæmt nýjustu tísku. Þetta hús var fjarlægt árið 1970. Næsta hús stendur enn, það lét Knudtzon reisa árið 1880 á grunni eldra verslunar- og geymsluhúss Bjarna Sivertsen.
Innsiglingin í Hafnarfjörð um 1925. Hér má sjá húsaraðir við Vesturgötu, Strandgötu og hvernig byggðin teygir sig upp Reykjavíkurveg og í götur út frá honum, Austurgötu og Hverfisgötu. Fremst t.v. er Pakkhúsið (1865) og hús Bjarna Sivertsens, Vesturgata 6 (1803-5);þar bjó Ólafur V. Davíðsson og fjölskylda. Vesturgata 4 (1880); þar bjó þar Ferdinand Hansen og fjölskylda. Vesturgata 2, hús Augusts Flygenring, byggt 1906. Þá Strandgata 5, verslunarhús Egils Jacobsen, byggt sem íbúðarhús árið 1906. Strandgata 7, upphaflega byggt árið 1904, portbyggt timburhús notað til íbúðar en síðar brauðbúð og verslun á hæðinni og íbúð í risi. Strandgata 9, steinsteypt hús Kaupfélags Hafnfirðinga, hæð, ris og niðurgrafinn kjallari, byggt árið 1912. Þá er lágreist pakkhús með tveimur hurðum á framhlið, aftan við það er „Hús Óla borgara“, byggt árið 1872 og stendur nú sem Austurgata 12. Tveggja hæða pakkhús með gafl að götu og lágreist bygging með framhlið að götu voru fiskverkunarhús Geirs Zöega. Nú er þar Strandgata 11 og bílastæði á horni Strandgötu og Linnetsstígs. Hús Hendriks J. Hansen, byggt 1893, með háu þaki og framhlið að götu.
Fyrir framan stendur lítið verslunarhús með vatnshallaþaki byggt 1916, þar var Ólafur H. Jónsson fyrst með verslun sína. Þá er það Strandgata 19, tvílyft timburhús á háum steinsteyptum kjallara. Íbúðir á hæðunum en verslun í kjallara og á jarðhæð. Jón Mathiesen stofnaði þar sína verslun árið 1922. „Það besta er aldrei of gott!“ voru hans einkunnarorð. Tveggja hæða hús með vatnshallaþaki er næst. Þetta hús var reist árið 1902 á grunni „Arahúss“ sem var veglegur timburbær. Húsið var rifið vegna breikkunar Strandgötunnar og nýtt verslunar- og íbúðarhús byggt árið 1942; það er nú Strandgata 21. Þá er lítið íbúðarhús með framhlið að götu, húsið var kennt við Brúarhraun, hraunrana sem náði fram í höfnina. Húsið stendur nú sem Öldugata 27. Þvottur hangir á snúru fyrir framan Strandgötu 25. Þetta hús var upphaflega reist um 1900 sem íbúðarhús en er þarna orðið að þvotta- og gripahúsi. Aðalhúsið er „katalog“-hús reist árið 1904 fyrir Þorstein Egilsson en það var Einar Þorgilsson sem bjó þar lengst af ásamt fjölskyldu. Þá er það Strandgata 27, reist um 1905. Húsið lengst til hægri er íbúðarhús Þórðar Edilonssonar læknis. Í kjallaranum þar byrjaði Sören R. Kampmann lyfjasölu árið 1918.
Tvílyft þurrk- og verslunarhús Einars Þorgilssonar á horni Strandgötu og Lækjargötu um 1925. Húsið var byggt árið 1907. Á neðri hæðinni voru tvær sölubúðir og vörugeymsla en á efri hæðinni skrifstofa, tvær stofur og vörugeymsla. Tveir verkamenn, annar með þurrkaðan saltfisk í báðum höndum. Verið er að ferma eða afferma pall Fordbifreiðar með skráningarnúmerið HF 25, eign Ingimundar Guðmundssonar. Húsnúmer hangir ofan við dyr fyrir miðju húsi, á því stendur 49. Tveir útstillingargluggar, í öðrum glugganum er pappír en postulín og spegill í hinum. Piltur á sendlahjóli er í pokabuxum og köflóttum sokkum. Tveir karlmenn standa í dyragættinni, annar heldur dreng á lofti og báðir virðast hafa gaman af. Reiðhjól upp við húsvegg og maður með tréhjólbörur fullar af þurrkuðum saltfiski. Bensíndæla merkt STANDARD-BENSIN stendur lengst til hægri á myndinni.
Myndin er tekin í sjávarkambinum á móts við fiskiðjuver Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar um 1950. „Verkamannaskýlið“ stendur þar fyrir framan en það var flutt á þennan stað um 1930, það stóð áður á móts við Vesturgötu 12. Höfðu verkamenn þurft að híma úti í alls kyns veðrum í matar- og kaffitímum en það breyttist með tilkomu skýlisins. Breska setuliðið tók það til sinna afnota í stríðsbyrjun en árið 1954 var skýlið endurbyggt að utan sem innan, og það þótti bæði glæsilegt og vistlegt eftir breytingarnar. Ungir drengir halla sér yfir steyptan vegg á gömlu hlöðnu bólvirki.
Í júlí 1944 var nýjum vélbáti hleypt af stokkunum hjá Skipasmíðastöð Júlíusar Nyborg, hlaut báturinn nafnið „Morgunstjarnan“ og hafði einkennisstafina GK 532. Báturinn var smíðaður úr eik, hann var 34 rúmlestir og hafði 171 hestafls Buda-Lanova dísilvél. Hvílur og káetur voru 16 talsins og allar vistarverur fóðraðar að innan með lakksmurðum, vatnsþéttum krossviði. Mun þetta hafa verið fyrsti báturinn sem þannig var gengið frá. Júlíus Nyborg teiknaði bátinn ásamt því að sjá um smíði hans. Hafnfirsk fyrirtæki sáu um járnsmíði og niðursetningu vélar, rafmagn og miðstöðvarlagningu. Eigandi Morgunstjörnunnar var „Hafstjarnan“ sem þá var nýlega stofnuð. Ungir sem aldnir fylgjast með væntanlegri skírnarathöfn og sjósetningu á nýsmíðuðum báti.
Myndin er tekin af Óseyri yfir á Flensborgar- og Íshúslóðina að suður- og miðbæ Hafnarfjarðar um 1945. Árabátar og trilla á gömlu uppsátri fremst á myndinni. Handan óssins stóð Flensborgarskóli en á grunni hans stendur bygging „Áætlunarbifreiða“ sem reist var árið 1935. Hægra megin stendur skúrbygging sem tilheyrði Flensborg. Þá kemur Íshúsið nýja (1944) og Íshúsið gamla (1908). Kross Hjálpræðishersins á þaki St. Jósefsspítala. Klaustur Karmelítareglunnar ber við himin og Jófríðarstaðir eru lengst til hægri.
Ferdinand Hansen situr glaðbeittur í bifreið sinni fyrir utan Vesturgötu 4. Ýmiss konar varningur í útstillingaglugga verslunar hans. F. Hansen hafði á boðstólum m.a. ávexti, kökur og kex, málningarvörur, búsáhöld og járnvörur. Drengur í matrósafötum stendur á tröppunum við innganginn í húsið. Vinstra megin er grindverk við Vesturgötu 6, þá skúrbygging sem tilheyrði Vesturgötu 4 en ofan við hana er Hafnarfjarðarbíó sem stóð þar sem Kirkjuvegurinn liggur frá Reykjavíkurvegi.
Myndin er tekin í svokölluðu „Brydesgerði“ eða í kvosinni baka til við Vesturgötu 6. Málfundafélagið Magni hélt þar Jónsmessuhátíð árið 1925. Aðalsteinn Eiríksson söngstjóri stjórnar barnakór. Áheyrendur á öllum aldri fylgjast með í sínu fínasta pússi. Garðahleðslu með grindverki ber við himin.
Jónsmessuhátíð Málfundafélagsins Magna árið 1925, baka til við Vesturgötu 6, „Brydesgerði“. Vinstra megin eru konur með barnavagna og áhorfendur utan vírgirðingar fylgjast með fimleikastúlku leika listir sínar á slá. Veitingatjald fyrir miðri mynd og Lúðrasveit Hafnarfjarðar til hægri.
Myndin er tekin um 1925 af Thorsplani. Lengst til vinstri er Pakkhúsið sem Knudtzon lét reisa árið 1864 á grunni eldra pakkhúss er Bjarni Sivertsen hafði reist. Þá er Vesturgata 4, verslunar- og íbúðarhús Ferdinands Hansen, byggt árið 1880. Vesturgata 2, íbúðarhús Augusts Flygenring, byggt árið 1902 eftir að eldra hús brann. Framan við húsið er bólvirki og afgirtur garður. Ofan við húsið er örlítill trjágarður sem tilheyrði Vesturgötu 2. Þá er portbyggt timburhús á steyptum kjallara, það er Reykjavíkurvegur 1. Þetta hús lét Þórarinn B. Egilsson byggja árið 1908. Í kjallara hússins var verslunarrými fyrir búsáhöld og leikföng, reiðhjólaviðgerðir, hannyrðir og að síðustu vídeóleigu. Því næst sést örlítið í Kvikmyndahús Hafnarfjarðar sem stóð þar sem Kirkjuvegurinn liggur frá Reykjavíkurvegi. Reykjavíkurvegur 3 er steinsteypt hús á tveimur hæðum með risi, byggt 1912–1913. Þar verslaði Steingrímur Torfason með matvörur. Á horni Austurgötu og Reykjavíkurvegar fyrir neðan Hótel Hafnarfjörð er verslun Ólafs H. Jónssonar með skófatnað, álnavörur, línóleumdúka og fatnað. Því næst er „Beggubúð“. Húsið var byggt sem íbúðarhús árið 1906 og var útibú Egils Jacobsen frá 1908 til 1936 þegar Bergþóra Nyborg keypti verslunina. Fremst á myndinni sjóþvær maður fisk á Linnetsbryggju, drengur með sixpensara hjálpar til. Árabátur liggur við festar.
Sjávarkampurinn og fremstu húsin við Strandgötu en gatan gekk áður undir nafninu Sjávargata og Sýslumannsvegur. Þegar hús fengu númer við götur árið 1911 stóð langa lágreista húsið lengst til vinstri við Austurgötu en húsin þrjú fremst á myndinni voru númer 1, 3 og 5, síðar númer 3, 5 og 7 og svo 5, 7 og 9. Í húsinu til vinstri, Austurgötu 2, verslaði lengst af Ólafur H. Jónsson en síðar var þar var stofnuð „Húsgagnaverzlun Hafnarfjarðar“ árið 1958. Því næst er „Beggubúð“ sem nú er verslunarminjasafn og stendur á baklóð við Pakkhúsið á Vesturgötu 6. Þá er einlyft hús með bröttu þaki, upphaflega reist sem íbúðarhús en neðri hæðinni síðar breytt í sölubúð. Steinsteypta húsið var reist árið 1912 af Kaupfélagi Hafnarfjarðar sem stofnað var árið 1909 en hætti rekstri 1944. Akkeri o.fl. á uppfyllingu handan götunnar. Steypt bólvirki og árabátur.
Horft suður eftir Strandgötunni að Hamrinum og Selvogsgötu um 1930. Vinstra megin á myndinni sést steyptur hafnarkantur, varningur undir seglum og steinhleðsla við uppfyllingu sem hlutafélagið Kveldúlfur lét reisa en eigendur þess voru Thor Jensen og synir hans. Lóðin gekk undir nafninu Thorsplan og gerir það enn. Litlu bygginguna handan Thorsplans lét Hendrik J. Hansen byggja árið 1917 sem verslun en íbúðarhús hans stendur ofan við verslunina. Tvílyft timburhús á steyptum kjallara lét Einar bróðir Hendriks reisa árið 1908. Þá er slóði upp að „Brúarhraunsbæjunum“ og tveggja hæða timburhús með flötu þaki. Þetta er Arahús, nefnt eftir bæ sem stóð á sama stað og Ari Jónsson borgari byggði um 1840. Hjá honum var Þuríður formaður „innanbúðar“ en Ari var verslunarstjóri hjá Nordborg-verslun sem stóð þar sem síðar var Vesturgata 2. Íbúðar- og verslunarhús S. Bergmann er handan götunnar, húsið var byggt árið 1908. Eftir að Þorbjörg Bergmann, ekkja S. Bergmann, var flutt úr húsinu keypti Árni Þorsteinsson það og lét breyta því í kvikmyndahús árið 1941.
Saltfiskverkun á vegum Bæjarútgerðarinnar sem stofnuð var snemma árs 1931. Fremst á myndinni eru nokkrir verkamenn að salta fisk úr handvögnum í stæðu. Á fyrstu árunum var allt unnið í höndunum, borið eða dregið með eigin handafli. Til að létta vinnuna fann einn af fyrstu verkstjórum Bæjarútgerðarinnar, Haraldur Kristjánsson, upp eitt og annað til hagræðingar. Í stað þess að kasta saltfiski upp úr lestum togaranna notaði Haraldur trétrog sem dregið var upp úr lestinni með vindu og upp á bryggju. Hann fann einnig upp fiskþvottavél og vél til að þvo stíuborð úr togurum. i
Myndin er tekin á „nýju“ hafskipabryggjunni um 1935. Hófst bryggjusmíðin í september árið 1930 og lauk í febrúar 1931. Til að reka niður tréstaura við smíði hennar var notaður prammi með fallhamri. Öll var bryggjan úr timbri en vegna tréátu voru allir staurar járnklæddir. Hafnarvigt ásamt vigtarhúsi og tveir kranar voru á bryggjunni sem þótti afar nýtískulegt.
Togarar við „gömlu“ hafskipabryggjuna um 1920. Vinnan við að reisa bryggjuna hófst í byrjun árs 1912. Gufuskipið Sterling lagðist fyrst skipa að bryggjunni 28. desember sama ár en bryggjan var formlega tekin í notkun við hátíðlega athöfn í febrúar 1913. Stálskipið Menja GK 2 í eigu f/h Gróttu liggur við festar. Skipið fórst við veiðar í blíðskaparveðri á Halamiðum. Allri skipshöfninni var bjargað um borð í skipið Imperialist. Á bryggjunni má sjá brautarteina og kolavagna.
Myndin er tekin þar sem nú er Herjólfsgata. Vesturbærinn er til vinstri, Vesturgata, höfnin og suðurbærinn um 1930.
Húsið lengst til vinstri er Krosseyrarvegur 7, byggt árið 1925, hönnuður var Geir Zöega en hann var þá fulltrúi Hellyer Bros sem lét byggja húsið. Því næst og örlítið neðar er lágreist hús með útskot og framhlið að höfninni, þetta er„Bungalowið“ Vesturgata 32, byggt af útgerðarfyrirtækinu „Bookless Bros“ árið 1920. Þá eru það „Svendborgarhúsin“ og hafnargarðurinn við norðurbakkann.
Fjölmenn skrúðganga marserar Kirkjuveginn á Víðistöðum. Lúðrasveit er í broddi fylkingar og fánaberi er Hallsteinn Hinriksson, kennari og þjálfari FH. Timburhúsið á vinstri hönd byggði Bjarni Erlendsson árið 1918. Bjarni hóf ræktun á Víðistöðum árið 1914 og var það fréttnæmt þegar hann fékk úr garði sínum óvenjustórt hvítkálshöfuð sem vó um 4,5 kíló. Bjarni hafði dvalið rúman áratug í Skotlandi og starfað þar við veðurathuganir, sjómennsku og við fiskverkun í Aberdeen. Í Hafnarfirði gerðist Bjarni verkstjóri hjá útgerðarfyrirtækinu Bookless Bros og hafði meðal annars umsjón með byggingu íbúðarhúss fyrirtækisins við Vesturgötu 32, „Bungalowsins“, ásamt fjölda annarra húsa og mannvirkja í Hafnarfirði. Hús í vesturbænum í bakgrunni.
Umferð við Vesturgötu og Strandgötu um 1965. Á vinstri hönd er Vélsmiðjan Klettur. Sögu Vélsmiðjunnar má rekja til ársins 1908 þegar Guðmundur Hróbjartsson stofnaði járnsmiðju í eigin nafni. Þegar Guðmundur hætti starfsemi stofnaði Jón sonur hans vélsmiðju og keypti megnið af verkfærum járnsmiðju föður síns ásamt húseign Vélsmiðjunnar Hamars sem þá var hætt starfsemi í Hafnarfirði. Smiðjan starfaði áfram undir nafninu Járnsmiðja Guðmundar Hróbjartssonar þar til hún var gerð að hlutafélagi árið 1942 og fékk þá nafnið Vélsmiðjan Klettur. Vélsmiðjan Klettur var þekkt fyrir framleiðslu á hreistrunarvélum, skreiðarpressum og löndunartogum sem notuð voru víða um land.
Handan götunnar er niðursuðuverksmiðja Norðurstjörnunnar sem stofnuð var í ágúst 1963 og hóf starfsemi sína árið 1965 í nýreistu húsnæði á uppfyllingu við hliðina á Fiskiðjuveri Bæjarútgerðarinnar. Norðurstjarnan var „stærsta og bezt útbúna niðursuðuverksmiðjan á þessu landi“i. Íslensk Suðurlandssíld var reykt og niðursoðin og framleidd undir vörumerkinu „King Oskar“II. Vesturgatan var steypt frá Merkurgötu að Vesturbraut árið 1961.
Heimild:
-https://byggdasafnid.is/hjonin-i-kassahusinu/