Straumssel III
Gengið var eftir vestari selsgötunni að Straumsseli.
Komið var við í nátthaganum vestan stígsins, en þar eru miklar hleðslur á milli hraunhóla. Þegar komið var upp í selið voru skoðaðir garðar umhverfis stóru tóttirnar, sem virðast vera frá gamla bænum er brann seint á 19. öld. Brunnurinn var hálffullur af vatni, en hann er í holu við norðurhorn tóttanna. Augljóst er að botn holunnar hefur verið þétt með torfi, því í öðrum nálægum hraungjótum drýpur vatn niður í hraunið. Skoðuð var tótt suðaustan við megintóttirnar. Líklegt er að þar sé gamla selstóttin. Gamall brunnur er vestan við tóttirnar og hleðslur við hann.
Að þessari tótt kemur eystri selsstígurinn frá Gjáselsstíg. Frá henni liggur einnig stígur upp í Neðri-Straumsselshella og Efri-Straumsselhella. Báðir þessir hellar voru skoðaðir enn á ný. Gerðið umhverfis efri hellinn hefur verið endurhlaðið og breytt frá upphaflegri gerð. Líklega hefur aðstaðan þar verið notuð sem rétt eða nátthagi um tíma.
Efri-Straumsselshellar.