Garðaholt

Minjar stríðs geta verið margskonar. Þær geta verið leifar bygginga, tækja og búnaðar sem tengjast herliði en þær geta líka verið leifar áhrifa hersetuliða á tungumál.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því allsstaðar umhverfis okkur í samfélaginu.
„Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðs er hins vegar hægt að staðsetja. Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið síðsumars 1941, eða um 28.000 manns. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941 og var hér tæplega 40.000 manna varnarlið frá þeim þegar mest lét. Þar að auki voru liðsmenn bandaríska og breska flotans og flughersins, alls nærri 50.000 sumarið 1943. Til samanburðar má nefna að við manntal árið 1940 voru íbúar Reykjavíkur einungis um 38.000. Þó svo að Bandaríkjaher leysti þann breska af hólmi árið 1941 voru hér breskir hermenn út allt stríðið og allt til ársins 1947.

Kastið

Brak í Kastinu.

Herinn kom fljótlega upp varnarstöðvum víða um land. Bretar töldu Reykjavík vera langmikilvægasta staðinn sökum góðrar hafnar- og flugvallarskilyrða og því var fjölmennt lið ávallt þar. Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta af hólmi þá fylgdu þeim breyttar áherslur við varnarviðbúnað. Stafaði það meðal annars af aukinni baráttu gagnvart kafbátaógn Þjóðverja auk þess sem hættan á innrás þeirra var talin hverfandi. Bandaríkjamenn lögðu enn meiri áherslu á varnir Reykjavíkursvæðisins en Bretar og höfðu allt að 80% liðsaflans á suðvestur horninu. Uppbygging flugvallarins í Keflavík hafði þó eitthvað þar að segja. Í heild námu hernumin svæði hérlendis ríflega 19.000 hekturum og þar af voru byggingar hersins á nærri 5.000 hekturum. Allur aðbúnaður hersveita Bandaríkjamanna var þó allt annar og betri en Breta auk þess sem þeir fluttu hingað með sér mikið magn stórvirkra vinnuvéla. Báðir reistu umfangsmiklar herbúðir víða um land.

Hernám

Braggahverfi á Skólavörðuholti.

Alls risu um 6000 breskir braggar, hundruð annarra bygginga eins og eldhús og baðhús. Síðar bættust við um 1500 bandarískir braggar. Bretar byggðu aðallega svokallaða Nissen-bragga en Bandaríkjamenn Quonset-bragga. Má segja að megin munur þessara tegunda hafi verið vandaðri smíð þeirra síðarnefndu.
Við árslok 1944 bjuggu rúmlega 900 manns í bröggum í Reykjavík. Búsetan náði hámarki á sjötta áratugnum en þá bjuggu 2300 manns í nærri 550 íbúðum. Á 7. áratugnum var skálunum hins vegar að mestu útrýmt. Á landsbyggðinni voru flestir braggarnir rifnir og seldir bændum og risu þeir víða sem geymslur og fjárhús sem má ennþá sjá í fullri notkun. Enn er jafnvel búið í íbúðarhúsum sem reist voru úr braggaefni.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur – braggi.

Greiðslur Sölunefndarinnar voru meðal annars ætlaðar til að gera landeigendum kleift að útmá ummerki um veru herliðsins. En mörgum landeigendanna, sem þágu skaðbætur fyrir landspjöll, láðist að hreinsa til eftir veru setuliðsins. því má segja að viðkomandi aðilar hafi með þessu bjargað mörgum ómetanlegum menningarverðmætum frá glötun og vonandi að þau verði varðveitt sem flest um ókomin ár.
Af einstökum byggingum hérlendis er flugturninn við Reykjavíkurflugvöll sennilega merkust en því miður stendur til að rífa hann. Af stærri svæðum eru helst Öskjuhlíðin og Brautarholt á Kjalarnesi sem gefa heillega mynd af varnarviðbúnaði bandamanna hérlendis. Hvalfjörður, Reykjavíkurflugvöllur og Pattersonflugvöllur á svæði varnarliðsins við Keflavík hafa sömuleiðis að geyma mjög merkar minjar um síðari heimsstyrjöldina.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Í borgarlandinu hafa stríðsminjar helst varðveist í Öskjuhlíð og á Reykjavíkurflugvelli sem nær yfir Vatns- og Seljamýri. Af varnarviðbúnaðinum á Öskjuhlíðinni eru meðal annars steypt skotbyrgi, stjórnbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi, varnarveggir fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstankar, bryggjustubbur, veganet, fjöldi gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum og akstursbrautir fyrir flugvélar.

Braggar

Braggar við Keflavíkurflugvöll.

Nokkrir braggar eru við rætur Öskuhlíðar. Hluti gistibúða farþega og flugáhafna breska flughersins (e. Transit Camp) má enn sjá í Nauthólsvík. Öll stóru flugskýlin fjögur á Reykjavíkurflugvelli eru frá stríðsárunum og sömuleiðis gamli flugturninn. Allar meginbrautir flugvallarins voru lagðar á stríðsárunum en hafa verið lengdar og endurbættar eftir stríð. Nær allt lauslegt frá stríðsárunum hefur verið fjarlægt eða ryðgað og fúnað. Þar á meðal gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.

Patterson

Patterson 1942.

Patterson og Meeks flugvellirnir sem lagðir voru í Keflavík árin 1942 og 1943 mynduðu Keflavíkurflugstöðina sem var meðal þeirra stærstu í heimi enda var vallargerðin dýrasta herframkvæmd hérlendis. Þar er meðal annars stóra flugskýlið af Kaldaðarnesflugvelli sem var rifið í ágúst 1943 og sett upp við vestanverðan Keflavíkurflugvöll. Það hýsir nú tækjabúnað til snjó og hálkuvarna. Minna flugskýlið var rifið sumarið 1944 og sett upp við Reykjavíkurflugvöll.

Garðaholt

Garðaholt – stríðsminjar.

Af öðrum stríðsminjum má nefna að minjar um ratsjárstöðvar og kampa eru meðal annars uppi á Þorbjarnarfelli við Grindavík og leifar skotbyrgja og skotstöðva má einnig sjá við Vífilsstaði, Hraunsholt, á Garðaholti, Nónhæð og á Seltjarnarnesi.

Ásfjall

Ásfjall – stríðsminjar.

Hlaðin byrgi og skotgrafir má m.a. sjá á Ásfjalli, Urriðaholti, Rjúpnahæð og víðar. Miklar framkvæmdir kalla á töluverða malartöku til uppfyllingar og vegagerðar. Við Reykjavík var helst sótt í námur úr Rauðhólunum og Öskjuhlíð. Af einstökum verkefnum vó uppfyllingin undir Reykjavíkurflugvöll þar þyngst. Segja má að Rauðhólarnir hafi ekki borið sitt barr síðan.
Af ummerkjum beinna hernaðarátaka má nefna þegar þýska vélin JU-88 var skotin niður 24. apríl 1943 á Strandarheiði. Bandamenn misstu þó mun fleiri vélar sjálfir vegna tíðra slysa. Til dæmis fórust að minnsta kosti 43 hervélar auk 11 sjóvéla á Reykjavíkursvæðinu.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1942.

Allar flugvélaleifar í nágrenni Reykjavíkur hafa nú verið fjarlægðar. Málmurinn var notaður í brotajárn eftir stríð og sérstaklega var sóst eftir álinu. Til dæmis keyptu Stálhúsgögn hf. 32 Thunderbolt P-47 orrustuvélar 33. flugsveitarinnar fyrir 10.000 krónur við stríðslok og bræddu þær niður í stóla og borð. Flugvélaflök er nú helst að finna í Fagradalsfjalli og við Grindavík. Töluvert er líka um flugvélaflök í sjónum. Flugvélar stríðsaðila sem fóru í sjóinn hafa sumar hverjar verið að koma upp með botnvörpum togaranna. Þær eru flestar á óaðgengilegum stöðum og koma upp í bútum.
Sprengjur eru enn að koma upp úr jörðu á skotæfingasvæðum vegna frostlyftingar og hafa valdið mannskæðum slysum. Skotæfingasvæði voru meðal annars við Kleifarvatn og við Snorrastaðatjarnir.

Garðaholt

Skotbyrgi á Garðaholti.

Bandaríski landherinn notaði sprengjuæfingasvæðin á Reykjanesi á sjötta áratugnum. Leitað hefur verið á aðgengilegustu svæðunum en ókleift er að finna allt. Líklega hafa um 1000 sprengjur fundist bara við Vogastapa. Öryggisbúnaður þessara sprengja er oftast illa farinn og mjög lítið hnjask þarf til að þær springi. Mikið af tundurduflum var á reki í og fyrst eftir stríðið og helsta vörnin gagnvart þeim var að skjóta á þau og sökkva þeim. Núna eru þau svo að koma í veiðarfæri fiskiskipa sem hófu að sækja á nýrri mið með tilkomu fullkomnari botnvarpa. Fyrir 10 árum var þetta mánaðarlegur viðburður en hefur dregist töluvert saman nú orðið. Töluvert af óvirkum djúpsprengjum hefur líka komið í veiðarfæri í Faxaflóa suður af Malarrifi. Sennilegt er að þeim hafi verið varpað frá borði herskipa eða flutningabáta sem ráðnir voru til að sökkva þeim.

Heimild:
-http://www.visindavefur.hi.is

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.