Stykkisvöllur

Um Stykkisvöll í Brynjudal segir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi svo í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1904:
stykkisvellir-221“Svo segir Harðarsaga (24 k.) >Refr hét maðr . . . . Hann bjó á Stykkisvelli í Brynjudal«. Enginn bær í Brynjudal heitir nú Stykkisvöllur og er það nafn alveg týnt. Eru ýmsar getgátur um, hvar sá bær muni hafa verið, t. d. að Þrándarstaðir muni hafa skift nafni, heitið Stykkisvöllur áður; því að túnið þar er »stykkjað« sundur í reiti með fornum girðingum. En bærinn hét nú Stykkisvöllur en ekki Stykkjavöllur. Og hæpið mun, að »stykki« hafi haft sömu merkingu sem reitur, eða gerði. Auk þess sýnist Þrándarnafnið hafa lagzt svo snemma niður, að bær, sem við það er kendur, hefði orðið að fá nafn sitt áður en sögurnar voru ritaðar. Og ef Stykkisvöllur hefði fengið annað nafn þá er Harðarsaga var rituð, mundi hún hafa getið þess. Af stöðum, sem nú eru óbygðir í Brynjudal, eru Gulllandsvellir langlíklegastir til að vera Stykkisvöllur. Það er slétt og fögur grund innan til á móts við Ingunnarstaði, sunnanmegin við ána. Auðséð er á bakkanum, sem afmarkar grundina að innan, að gil, sem þar kemur ofan, hefir á sínum tíma brotið mikið af henni. Annars væri þar líklega bær enn. Hann hefir verið þar fyrrum. Það sýnir forn bæjarrúst skamt frá bakkanum. Hún er svo niðursokkin, að fólk vissi ekki af henni fyr en eg kom auga á hana. Þó sér svo vel fyrir henni, að eg gat gjört uppdrátt af henni. Hann komst samt ekki að á uppdráttablöðum minum í þetta sinn. Tóftirnar eru 3, hver af enda annarar, miðgaflar þó eigi vel glöggir. Dyr á miðjum suðurhliðvegg og vesturendi opinn. Lengd allrar rústarinnar nál. 16 fðm., meðalbreidd hennar 3 1/2 fðm. Fjósrúst sést eigi, mun vera afbrotin. Ef til vill lýsi eg þessu gjör síðar. – Br. J.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, 19. árg. 1904, bls. 19-20.

Brynjudalur

Brynjudalur.