Tag Archive for: bæklingur

Bláa lónið

Genginn var svonefndur „Bláalónshringur“, þ.e. 6-8 km hringleið frá Bláa lóninu um Eldvarpahraun að Skipsstíg, hinni fornu þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur, og götunni síðan fylgt til suðurs að Lágafelli.

Bláa lónið

Bláalónshringur – forsíða.

Gangan var farin í framhaldi af útgáfu gönguleiðarbæklings undir yfirskriftinni „Bláalónshringur“. SJF og ÓSÁ unnu að bæklingnum með stuðningi Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Í bæklingnum er leiðinni umhverfis Bláa lónið lýst af allnokkrurri nákvæmni.

Í göngunni var komið við í Dýrfinnuhelli þar sem samnefnd kona úr Grindavík átti að hafa dulist með börn sín eftir að „Tyrkir“ réðust á Grindvíkinga að morgni 10. júní árið 1627 og rænt þaðan 15 manns.
Rifjuð var upp tilurð og aldur nálægra hrauna; Illahrauns, Bræðrahrauns og Blettahrauns áður en göngunni var framhaldið til austurs með norðanverður Þorbjarnarfelli, um Skjónabrekkur inn á Baðsvelli. Þar voru skoðaðar leifar af selstöðum Járngerðarstaðabænda fyrr á öldum og skógrækt Grindavíkurkvenfélags-kvenna frá 1950.
Loks var haldið yfir Illahraun, framhjá Svartsengisvirkjuninni að Bláa lóninu. Frábært veður.
Sjá má innihald annars ófáanlegs bæklingsins Bláalónshringur-bæklingur.

Bláa lónið

Bláa lónið – þátttakendur.

 

 

Gíslhellir

Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa gefið út gönguleiðabæklinginn Árnastígur/Skipsstígur. Áður hafa komið út sambærilegir bæklingar fyrir Garðsstíg og Sandgerðisveg.
BæklingurUm bæklinginn segir m.a. á innkápu: „Árnastígur og Skipsstígur eru fornar þjóðleiðir milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Stígarnir eru víða markaðir í harða hraunhelluna. Aldur þeirra er óljós.
Upphaf Árnastígs er við Húsatóftir í Staðarhverfi (austan við golfvöllinn) og Skipsstígs við gatnamót Nesvegar og Bláalónsvegar ofan Járngerðarstaðahverfis í Grindavík. Leiðirnar koma saman ofan við Rauðamel og enda við Fitjar í Njarðvík.
Í opnu bæklingsins má 
sjá kort af leiðunum. Árnastígur liggur með Sundvörðuhrauni, um Eldvarpahraunin, misgengi Klifgjár að Þórðarfelli og Stapafelli að gatnamótum Skipsstígs. Skipsstígur hefst í norðurjaðri byggðakjarna Grindavíkur og liggur með Lágafelli, um Skipsstígshraun, með Illahrauni, yfir Eldvarpahraun, fram hjá hverasvæði við Lat, yfir Vörðugjá, um Gíslhellislágar, yfir Rauðamel og áfram áleiðis að Fitjum í Njarðvík.
Leiðarlýsingin í bæklingnum byggir m.a. á númeruðum stikum sem Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa haft forgöngu um að setja upp með gömlu þjóðleiðunum. Jafnframt hafa þau gefið út hnitsett myndkort, AF STAÐ, með helstu þjóðleiðum á Reykjanesskaga.
Gönguleiðirnar eru tiltölulega greiðfærar, að mestu á sléttu hrauni. Áætlaður tími, sem tekur að ganga Árnastíg að Skipsstíg, er um 4 klst. Vegalengdin er um 12 km. Skipsstígur er um 18 km langur og tekur gangan um 6 klst.
SJF og ÓSÁ unnu bæklinginn fyrir Ferðamálasamtökin og VF úlitshannaði og prentaði.
Sjá bæklinginn Árnastígur-bæklingur.

Grindavík

Grindavíkurleiðir fyrrum.