Gengið var um hið stórbrotna eldsumbrotahverfi sunnan Drottningar og Stóra-Kóngsfells vestan Bláfjalla.
Venjulega er svæðið látið afskipt af útivistarfólki, en aðstæður nú til skoðunar þess voru einkar hagstæðar. Allnokkrir hellar eru norðan undir svonefndum Hellisgíg, sem er nyrstur Strompanna í Strompahrauni. Litið var í Langahelli (um 700 m langur), en þrátt fyrir lítinn snjó hafði hið litla, sem komið hafði á svæðið, skafið duglega í öll op svo erfitt var að komast inn. Á svæðinu eru nokkrir aðrir hellar, s.s. Djúpahellir (um 300 metra langur), Goðahellir, Rótahellir (um 210 metra langur), Tanngarðshellir (um 190 metra langur), Djúpihellir (um 150 metra langur), Ranghali (um 100 metra langur), Rósahellir (um 70 metra langur), Bátahellir (um 30 metra langur), Smáhellir (um 20 metra langur) og Krókudílahellir.
Skammt vestar átti að vera hægt að sjá leifarnar af Bresku gránu. Þá var ætlunin að kíkja á Þríhnúkagíga og húsið undir þeim.
Morgunroðinn lýsti upp fjallabakið og sló gylltum roða á framsýnina. Hið stóra op Djúpahellis hafi fyllst af snjó. Sama má segja um nyrðra op Langahellis. Þegar komið var að syðra opinu mátti sjá öndun svo hægt var að útvíkka snjóopið og komast niður. Haldið var spölkorn inn eftir hellinum, sem hefur haldist ótrúlega heillegur þrátt fyrir umgang. Mikið er af dropsteinum á gólfinu ofarlega í hellinum og hraunstrá eru í loftum. Ekkert hrun er norðan við syðra opið í Langahelli og því er hann tilvalinn fyrir þá, sem eiga erfitt með að fóta sig í skriðum og lausu grjóti.
Þá var stefnan tekin á Þríhnúka, sem böðuðu sig í morgunroðanum. Á leiðinni var reynt að líta eftir flakinu af Bresku Gránu, en án árangurs.
Hið fegursta útsýni var af Þríhnúkum yfir höfuðborgarsvæðið.
Skammt sunnan við Hnúkana er hraunbóla með hurð fyrir. Þegar opnað var kom í ljós að framendinn hafi fyllst af snjó. Hægt var þó að komast innfyrir með lagni og skoða ummerkin. Hið fegusta útsýni var yfir að gígunum suðvestan við Stóra-Kóngsfell. Ekki er vitað til þess að þeir hafi fengið nafn – heita líklega Eldborgir líkt og svo margir sambærilegir á landinu.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.
Tag Archive for: Bláfjöll
Í slysaskráningaskýrslu hernámsliðsins hér á landi kemur m.a. fram að þann 6. febrúar 1945 hafi Avro Anson flugvél frá Konunglega breska flughernum hrapað eða nauðlent á svæðinu á milli Vífilsfells og Bolla. Flugvélin var á leið frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Þrír voru í áhöfninni. Einn slasaðist alvarlega, en tveir minna. Þeir komust fótgangandi niður hlíðarnar, yfir þykkmosavaxið og úfið Rjúpnadalahraunið og alla leið að Rjúpnahæð, þar sem þeir gátu tilkynnt óhappið.
Um var að ræða sömu flugvél og Jóhannes Snorrason, flugstjóri, og félagar nefndu „Bresku Gránu“ og miklar sögur fóru af í „flugheiminum“ á fimmta áratug 20. aldar, ekki síst eftir sögulegt flug austur á Egilsstaði með viðkomu á Akureyri þar sem minnstu mátti muna að flugvélin væri skotin niður af sjóndöprum eða skelkuðum samherjum á styrjaldarárunum.
Hlynur Skagfjörð Pálsson fv. rekstrarfultrúi og starfsmaður í Bláfjöllum á árunum 1991-2006 hafði samband við FERLIR og vildi upplýsa um hreyfil og annað brak úr flugvélinni, „skammt norðan við Reykjavegarstikurnar. Ég hef ekki öruggar heimildir fyrir því hvaða vél þetta var en hef talið þetta vera “Gránu” þeirri er Jóhannes Snorrason var u.þ.b. skotinn niður í yfir Eyjafirði í stríðinu. Hún var sögð hafa endað lífdagana á hraunsléttu í Bláfjöllum“. Forvitnin var sem sagt vakin.
Skv. upplýsingum Karls Hjartarsonar átti brakið úr vélinni á sléttu hrauni í ca. 15-20 mín. gang vestur af skíðaskálanum í Bláfjöllum. Hreyfill úr vélinni væri þar, gluggastykki og meira brak.
Karl sagði að Arngrímur Jóhannsson hefði sótt annan hreyfilinn af „Gránu“ á sínum tíma og einnig hreyfil úr flugvél ofan við Grindarskörðin. Hann hefði verið af Hudsonvél. Báðir væru þeir nú væntanlega við flugskýli í Mosfellsbæ.
Leifar „Gránu“ má skv. framangreindu nú sjá á hraunsléttu vestan Bláfjalla. „Grána“ þessi á að hafa fæðst Avro Anson. Sú tegund flugvéla var nefnd eftir breskum aðmíráli frá því á 18. öld (Georg(e) Anson barón. Hann var fæddur 1697 og dó 1762). Fyrstu Anson flugvélinni var flogið árið 1935. Yfir 11.000 vélar voru smíðaðar. Þær voru í notkun allt fram til 1968.
Að þessu sinni var stefnan tekin 10° norðan við vestur norðan Strompana. Haldið var inn á Strompahraunið, framhjá hellakerfunum og miðað á Þríhnúka. Harðfennisskán þakti mosa og lægðir svo auðvelt var að ferðast um svæðið á tveimur jafnfljótum. Áður en komið var inn á slétt helluhraunið var gengið fram á djúpt jarðfall. Undir sást stór hraunrás. En þar sem ljós var ekki með í för var horfið frá því að skoða rásina, en GPS-hnit tekin. Að sögn Björns Hróarssonar er þarna um hluta Langhellis að ræða, um 100 metra frá aðalopinu. Þessi rás hafi jafnan verið talin með meginrásinni.
Eftir 1.200 m göngu var komið að brakinu á sléttri hraunhellunni. Stjörnuhreyfillinn sást vel sem og aðrar leifar, s.s. hluti hjólastells, gluggarammi, vélarhlutar o.fl. Nokkuð af þunnum spýtum voru á vettvangi og sást vel hvernig tréverkið hafði verið fest við járnhluta, en eins og kunnugt er var grind vélarinnar úr tré og klæðning að hluta úr striga. Ekki var að sjá vélarhluta með merkjum eða númerum. Það gæti þó verið ef þeim yrði snúið við, en ekki var snert við neinu í þessari ferð.
Á meðan á skoðun stóð sveimaði ljósleitur fálki (táknmynd flugsins) yfir staðnum. Hann tók kolldýfu og beygði jafnskótt af, flaug að gígbarmi skammt frá og tillti sér þar – fylgdist greinilega vel með öllu sem hreyfðist.
FERLIR hefur það jafnan fyrir sið að láta allt óhreyft á vettvangi. Dæmi eru um að fólk, sem tekið hefur með sér hluti úr óhappaflugvélum, til minningar um atburðinn eða einungis komur þess á slysavettvang, hefur sjálft orðið fyrir óhappi skömmu síðar.
Þannig má nefna dæmi um komu FERLIRs í Kastið utan í Fagradalsfjalli þar sem skoðuð var flugvél sú er Andrews yfirhershöfðingi Evrópuherafla Bandaríkjamanna í Seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða mesta flugslys hér á landi á þeim tíma.
Einn félaganna vildi ólmur taka með sér bráðinn álbút til minningar um þennan sögufræga atburð. Hann var talinn frá því. Skömmu síðar gerði hann sér ferð á vettvang með það fyrir augum að taka með sér hlut úr flugvélinni. Á leiðinni til baka týndi hann gleraugunum sínum, farsímanum og krítarkortinu, hlutum sem hvað mikilvægastir eru nútímamanninum. Hann fór til baka og skilaði hlutnum, en gripirnir eru enn ófundnir. Ef hann ætlar að endurheimta þá þarf hann að fara á Vörðufell í Selvogi og hlaða þar vörðu. Skv. þjóðsögunni á hann þá að endurheimta gripina – en það er nú önnur saga.
Fyrir fimm árum gengu FERLIRsfélagar fram á hluta af trégrind „Gránu“ austsuðaustan Þríhnúka, u.þ.b. 200-300 metrum vestan við vettvanginn. Í öðrum ferðum síðar um svæðið hefur ekkert borið á grindinni. Hún gæti því hafa verið fjarlægð eða fokið í lægð.
Jóhannes Snorrason er fæddur 12 nóvember 1917, á Flateyri, en ólst upp á Akureyri. Hann fékk ungur áhuga á flugi og var í hópi ungra manna á Akureyri sem stofnuðu Svifflugfélag Akureyrar árið 1937. Þeir hófust strax handa og smíðuðu renniflugu (svifflugu) af gerðinni Grunau 9, eftir þýskri teikningu. Jóhannes lærði síðan að fljúga þessari renniflugu og hóf þannig flugmannsferil sinn.
Í bók sinni „Skrifað í skýin“ (1981) segir Jóhannes frá ferðum sínum á „Bresku gránu“.
Flugfélag Íslands átti aðeins eina Beechcraftflugvél til farþegaflugs eftir að Waco sjóflugvél félagsins hlekktist á á Hornafirði. Vorið 1944, eða í bryjun marsmánaðar, bilaði hreyfill Beechcraftvélarinnar, sem Örn Ó. Johnson flaug, austur á Egilsstöðum þar sem hann var að sækja veika konu. Breska herliðið á Reykjavíkurflugvelli hafði mörgum flugvélum á að skipa og voru Bretarnir jafnan mjög vinsamlegir þegar leita þurfti til þeirra. Nú stóðu flugvélar hersins í röðum á flugvellinum. „Afgömul og ósköp þrytuleg Avro Anson flugvél var meðal flugvéla berska flughersins á Reykjavíkurflugvelli. Hún leit út eins og búið væri að margskjóta hana niður og líma sman aftur. Þarna stóð hún sunnanundir skýlisvegg með slapandi vængi og það gljáði á hana í rigningunni. Hefði hún mátt mæla hefði það vafalaust orðið: „Æi leyfið mér að hvíla í friði“.
Flugvél þessi fékkst að láni. „Við gáfum henni strax nafnið „Grána“ og festist það við hana þann stutta tíma sem hún átti eftir að vera í heilu lagi.“
Þá var flogið af stað til Egilsstaða með tvo rafgeyma og varahlut í biluðu flugvélina. Fimm voru um borð, þrír Bretar auk tveggja Íslendinga. Í stuttu máli var snúið við, enda kannski eins gott því breski flugmaðurinn virtist vart vita í hvaða átt hann átti að fljúga til að komast austur á land. Hann hafði tekið stefnuna á Snæfellsnesið þegar ís tók að myndast á framrúður og tvísýnt var hvort flugvélin komist yfirleitt yfir jökulinn. Þegar í ljós kom að flugið var ekki áhættunnar virði var snúið til baka og lent á Reykjavíkurflugvelli.
Strax næsta dag var ákveðið að leggja aftur á stað, og var nú veðrið betra. Sama áhöfn var um borð og daginn áður. Eftir sögulega ferð þar sem áhöfnin skildi ekki „hvernig í ósköpunum flugvélin hékk saman eð hvernig flugstjórinn hélt henni á sæmilega réttum kili inn fyrir Ólafsfjarðarmúlann…“. Herskip lá rétt norðan Hríseyjar, „sem ávallt hélt vörð um fjörðinn, og þar höfðu menn vakandi augu með óvinaflugvélum, sem stöku sinnum komu í heimsókn. Við stefndum aðein svinstra megin við herskipið, og hafði ég ekki sérstaklega áhyggjur af því… Nú vorum við á herflugvél, greinilega merktri, og varla myndu þeir fara að agnúast við sína eigin menn… Ég hafði ekki virt þetta fyrir mér nema örfáar sekúndur, þegar ég sá rauðglóandi kúnahríð koma upp með okkur hægra megin. Ég öskraði í flugstjórann að þeir væru að skjóta á okkur, en hann gretti sig og yppti öxlum, hefir sennilega haldið að ég væri að gera að gamni mínu.
Nú var ástandið hreint ekki glæsiegt, við flugum í aðeins 1500 feta hæð á hægfleygri vél, höfðum enga möguleika á að tala við landstöðvar eða skipið, og hlutum þvía ð vera dauðadæmt skotmark. Ekki leið á löngu þar til kúlnahríðin var beggja megin flugvélarinnar og fyrir framan hana. Mátti greinilega heyra geltið í vélbyssunum betur en drunurnar í hreyflum vélarinnar. Okkur var öllum ljóst, að við vorum komnir í hinn mesta lífsháska, svo til beint yfir herskipi, þrælvopnuðu nýtísku loftvarna- og vélbyssum og skotið af þeim öllum á þetta hægfara krossviðar- og strigaskrifli, á okkur bjargarlausa og bráðsaklausa.
Það var vægast sagt óhungnanlegt að horfa á eldrákirnar… Við flýðum allt hvað af tók og lækkuðum flugið í um það bil 600 fet. Þegar skipið var horfið og við sennilega komnir úr skotfæri við þetta spúandi eldfjall, héldum við, að við hefðum sloppið með skrekkinn, en það var öðru nær. Nú tóku loftvarnarbyssur á landi að skjóta á okkur og sprungu kúlur allt í kringum flugvélina.“
Þeir félagar komu flugvélinni þrátt fyrir þetta, og mikið meira, inn á flugbrautina. Flugvélin var ekki ferðafær fyrr en gert hafði verið við hana til bráðabirgða og límdur dúkur yfir kúlnagötin. „Næsta dag héldum við ferðinni áfram til Egilsstaða, og kom sjúka konan þar um borð…“. Varahluturinn var skilinn eftir ásamt yfirvélamanni, Brandi Tómassyni. Á leiðinni tl baka kviknaði í flugvélinni, en áhöfninni tókst að slökkva eldinn. Þegar lent var á Reykjavíkurflugvelli kom í ljós að klæðningin hafði rifnað undan öðrum vængnum á allstórum kafla svo skein í ber rifin.
„Ekki leið langur tími þar til Grána fórst á Bláfjöllum, en breskir flugmenn á leið til Hornarfjarðar flugu of lágt yfir fjallgarðinn með fyrrnefndum afleiðingum, en héldu þó lífi.
Í Bláfjöllum liggja nú leifar gömlu Gránu grafnar í hraun og mosa.“ FERLIR sannreyndi það í þessari ferð, 61 ári eftir að síðasta áfangastað flugvélarinnar „Bresku Gránu“ var náð þarna á hraunsléttunni – þar sem beinar línur austur af Þríhnúkum og suður af Stóra Kóngsfelli skerast.
Árið 1941 fór Jóhannes til Kanada og lauk námi til atvinnuflugmanns hjá Flugskóla Konna Johannesson í Winnipeg. Í miðri heimsstyrjöldinni síðari, 15. október 1943, hóf Jóhannes störf sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands. Þá var nýkomin til landsins fyrsta fyrrnefnda tveggja hreyfla flugvél Íslendinga, Beechcraft 18D. Fyrsta verkefni hans þar var að fljúga þeirri flugvél með Erni Johnson, flugstjóra og framkvæmdastjóra Flugfélagsins og síðar forstjóra Flugleiða. Seinna á stríðsárunum flaug Jóhannes mikið deHavilland Dragon Rapide flugvélum Flugfélagsins.
Jóhannes var flugstjóri í fyrsta millilandaflugi Íslendinga með farþega árið 1945. Var það til Skotlands og farkosturinn Catalina flugbátur. Með þessu flugi var lagður hornsteinn að þessum mikilvæga þætti í samgöngumálum Íslendinga.
Af öðrum flugvélategundum sem Jóhannes flaug á sínum flugmannsferli má nefna Grumman Goose, Douglas DC-3, DC-4, DC-6, Vickers Viscount og síðast Boeing 727 þotu.
Á ferli sínum þótti Jóhannes afar farsæll og öruggur flugmaður. Hann varð yfirflugstjóri Flugfélags Íslands árið 1946 og gengdi því hlutverki þar til hann lauk ferli sínum 7. nóvember 1980, þá í þjónustu Flugleiða. Var þá 37 ára atvinnuflug að baki og 30.000 flugtímar, og þar eru taldar með sekúnturnar sem hann flaug Grunau 9 í Eyjafirði.
Mikil breyting varð á farkostum frá því að framangreind flugferð Jóhannesar með „Bresku Gránu“ fór fram árið 1944 þar til hann lauk ferlinum á „stapilli“ Boeing 727 árið 1980 – 36 árum síðar.
Gangan tók 1 klst og 1 mín. Frábært veður, blankalogn og stilla í kvöldsólinni.
Þess má geta sett hefur verið á fót Flug og -sögusetur Reykjanesbæjar, sem nú er orðin deild innan Þjóðminjasafnsins. Formaður þess er Hjálmar Árnason Alþingismaður. Húsnæði fyrir safnið hefur ekki legið á lausu. Í stjórn safnsins er m.a. Arngrímur Jóhannsson.
Heimildir m.a.:
-http://www.flugsafn.is/frumkvodlar_JS.htm
-Jóhannes Snorrason, „Skrifað í skýin“ – AB 1981, bsl. 129-141.
Upplýsingar bárust um flugvélaflak austan Bláfjallahryggs, milli Leitis og Fjallsins eina. Staðsetningin var fremur óljós – gat verið annað hvort upp á sléttunni milli Bláfjallahryggjar og austurbrúnarinnar eða í rótum hennar. Því var ákveðið að skoða fyrst efra svæðið og síðan, ef það gæfi ekki árangur, leita það neðra og fara þá upp með Eldborgum í Kristnitökuhrauni.
Nú var gengið upp úr Draumadalagili í vestanverðum Bláfjöllum, úr u.þ.b. 200 metra hæð upp í uþ.b. 600 m hæð og þaðan niður á leitarsvæðið skammt austar. Allnokkuð brak átti að vera á vettvangi.
Bláfjöllin eru fjallaklasi sem rís hæst 685 m yfir sjávarmál. Lengi vel var talið að Hákollur væri hæstur í klasanum, en nú er ljóst að annar kollur skammt sunnar er svolítið hærri.Það er bratt upp vestanverðar hlíðar Bláfjalla beggja vegna Draumadalanna. Í raun ætti enginn að fara þar upp nema vita hvað hann er að gera. Mjög auðvelt er að komast í sjálfheldu í hlíðunum og því er nauðsynlegt að gaumgæfa vel áætlaða leið áður og á meðan á göngu stendur.
Þegar komið var upp í skarðið ofan gilsins blasti við útsýni til austurs og vesturs, svo langt sem augað eygði. Höfuðborgarsvæðið liggur þarna fyrir fótum svo og upplandið allt. Í austri er Geitafellið næst og stærst, auk þess sem vel sést þarna til Vestmannaeyja í góðu skyggni. Sólin gyllti snjókolla á efri brúnum, en niðurlandið var autt.
Þarna á brúninni er rautt gjall á kafla. Bendir það til þess að annað hvort hefur verið þarna eldri gígur fyrir, vatn hefur legið þarna yfir þegar gaus eða gosefni rifið með sér önnur efni á leiðinni upp á yfirborð. Þetta er einungis á litlum kafla.
Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald þeirra, að miklu leyti grafið í yngri hraun. Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til.
Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla, s.s. Stórkonugjá, en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum. Ein dyngjan enn, Sporið, er suðvestan Þríhnúka. Hún virðist vera eldri en þær fyrrnefndu og átti þátt í uppbyggingu hásléttunnar ofan Lönguhlíðar. Sporið sjálft er nú að mestu þakið nýrri hraunum.
Á síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmyndunninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi í Grímsvötnum, Kötlu og Surtsey (þar sem sjórinn kom í stað bræðsluvatns). Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé móbergið. Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Hafnarfjörð, Hengill, hryggirnir á Reykjanesskaga svo og Bláfjöllin.
Hraunbreiða austur frá Reykjavík sem ásamt ýmsum yngri hraunum (Hólmsárhraunum) gengur einnig undir nafninu Elliðaárhraun, einkum vestan til. Leitahraun er runnið úr eldstöðvum suðaustan undir Bláfjöllum, skammt fyrir sunnan Ólafsskarð. Heita þær Leiti og er hraunið við þær kennt. Það verður rakið óslitið frá Draugahlíðum niður í Elliðaárvog. Hefur það breiðst víða út, svo sem um Sandskeið og norðvestur yfir Fóelluvötn; heita þar Mosar. Einnig hefur hraunið runnið til austurs og niður á láglendi í Ölfusi, Hraunsheiði, og líklega í sjó í Þorlákshöfn. Í þessari álmu hraunsins er einn af stærstu hellum landsins, Raufarhólshellir. Annars staðar í hrauninu eru nokkrir smáhellar, svo sem hjá Vatnaöldum. Allvíða eru gervigígar í Leitahrauni, en merkastir eru Rauðhólarnir.
Suðurlandsvegur liggur á löngum kafla á Leitahrauni, frá Elliðaám að Draugahlíðum. Einnig liggur Þrengslavegur á hrauninu, frá Þrengslum og niður í Ölfus. Frá Draugahlíðum að Þrengslum liggur vegurinn á Svínahraunsbruna en það eru tvö apalhraun sem komið hafa upp á sögulegum tíma í Eldborgum vestan Lambafells og liggja ofan á Leitahrauni. Annað þessara hrauna hefur verið nefnt Kristnitökuhraun.
Hraunið hefur runnið nálægt 2700 f. Kr. og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann.
Til aldurssamanburðar út frá nýlegum rannsóknum erlendra aðila hér á landi er Leitarhraun talið vera 5210±110cal (ca. 5200 ára), Búrfellshraunið 8060±120cal (ca. 8000 ára) og Þingvallahraun 10,330±80cal (ca. 10.300 ára).
Í Leitarhrauni eru Eldborgirnar tvær, Nyrðri-Eldborg og Syðri-Eldborg. Frá þeim er Svínahraunsbruninn runninn árið 1000 og það er því hið eiginlega Kristnitökuhraun. Þetta eru gjall- og klepragígar, reyndar með þeim fallegri. Leitargígurinn er hins vegar utan í austurhlíðum Bláfjalla, dyngjugígur sem fyrr segir.
Það var á sjötta áratug 20. aldar að framkvæmdarmanni datt í hug að ryðja slóða upp að Nyrðri-Eldborg með það fyrir augum að kanna þar efnisnámur. Ruddi hann gjallinu úr norðurhlíð gígsins með jarðýtunni, svona til að sannfærast um meðfærileika þess.
Ef ekki hefði orðið blaðamál í beinu framhaldi af þessum aðförum (Mbl) og fyrirhuguð efnistaka stöðvuð, væri gígurinn að öllum líkindum horfinn núna, eins og svo margir aðrir bræður hans á Reykjanesskaganum.
Eldborgirnar sjást vel þegar komið er niður á neðri brúnir austurhlíða Bláfjalla, Lambafellið og Blákollur. Hlíðin er þarna allhá og ekki fýsileg niðurgöngu, nema í giljum ofan við Fjallið eina og skammt sunnan og innan við Leitið.
Þrátt fyrir leit sást hvorki tangur né tetur af flugvélaflaki á þessu svæði. Það er því ekki um annað að ræða en að fastsetja síðari ferðina, sem áætluð var – til vara.
Allt ofanvert Bláfjallasvæðið að norðaustanverðu var skoðað nokkuð vandlega. Flugvélaflakið átti hins vegar, að sögn viðmælanda, að vera vel greinilegt. Það er því ekki um annað að ræða en að leita undirlendið að austanverðu, sem fyrr sagði.
Ef einhver telur sig geta gefið upplýsingar um fyrrnefnt flugvélaflak er sá/sú hin/n sami/sama vinsamlegast beðin/n að hafa samband við ferlir@ferlir.is.
Frábært veður. Gangan og leitin tóku 4 klst og 4 mín.
Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/ferdavefur/
-http://www.isor.is/
-Hraun og móbergsmyndanir á svæðinu frá Brennisteinsfjöllum að Hengli – Niðurstöður – Magnús Tumi Guðmundsson og Þórdís Högnadóttir – 2004.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1410
-http://www.unh.edu/esci/licciardi_et_al_2006.pdf
-http://www.warbirdalley.com/p38.htm
Brak úr flugvél er austan Bláfjalla. Ætlunin var að skoða aðstæður sem og grennslast fyrir um hvaða vél gæti verið að ræða. Samkvæmt slysaskráningu ameríska hersins gæti verið um að ræða DC-3 flugvél, eða C47 eins Kaninn nefndi hana. Það slys varð 5. mars 1944 kl. 18:30, 1 mílu suðaustur af „Camp Bundy“. Enginn komst af. Tvö lík fundust.
Í Árbók FÍ 1984 segir Tómas Einarsson frá því að „á styrjaldarárunum fórst herflugvél í Bláfjöllum á sléttunni austan við Hákoll. Hér á landi liggja litlar upplýsingar fyrir um það slys. Leifar af flakinu sáust á slysstaðnum í mörg ár, en munu nú horfnar.“
Pétur Þorleifsson kvaðst hafa séð flakið fyrir tveimur árum. Hann hafi verið að hjóla undir hlíðum Kerlingarhnúks, sem auðvitað má ekki, og þá séð flakið dreift um hana á u.þ.b. 100 metra kafla. Best væri að fara niður frá skíðalyftunum ofan Kóngsgils, milli Heiðinnar há (Heiðartopps) og Kerlingahnúks og niður með rótum hans. Stórgrýtt væri þarna á köflum og væri flakið upp af slíkri utan í grónum bala við lækjarfarveg. Líklega væri um klukkustundar gangur á svæðið – eða innan við það. Austar væru Drögin og fjær Fjallið eina.
Gengið var inn á Heiðarveginn innan við Bláfjallahornið. Þaðan er þessi gamla gata vörðuð niður á Ólafskarðsleið í austri, skammt sunnan við Leiti. Vesturendinn er á Selvogsgötu skammt ofan við Tvíbolla. Reykjavegurinn liggur spölkorn eftir Heiðarveginum eða þangað til hann beygir til norðausturs yfir norðuröxl Kerlingarhnúks. Þar liggur vegurinn áfram niður með austanverðum Bláfjöllum, niður með Fjallinu eina.
Bláfjallahornið er hæsti hluti Reykjavegarins, en þaðan er frábært útsýni til allra átta í björtu veðri. Eftir nokkra göngu með neðrihlíðunum var komið að rótum Bláfjallahryggjarins að austanverðu skammt ofan við Fjallið eina – annað tveggja með því nafni á Reykjanesskaganum.
Úr skarðinu milli Bláfjalla og Fjallsins eina er mikið og fagurt útsýni norður yfir, þar sem Lambafell, Syðri Eldborg og Blákollur blasa við nær, en Hengilsvæðið fjær. Útsýnið hikstar þó á vitundundinni um eyðileggingu Orkuveitunnar á náttúruverðmætum í Henglinum. Þar hefði verið hægt að gæta miklu meiri tillititsemi en gert var.
Þá er skammt á Ólafsskarðsveg, sem liggur um Ólafsskarð upp úr Jósepsdal nokkru norðar, með hlíðum Bláfjalla og áfram austan Geitafells suður af hálendisbrúninni.
Leitað var bæði með austurrótum Bláfjalla sunnan og norðan Kóngsgils og síðan haldið um neðri hlíðarnar þar sem rætur Kerlingarhnúks liggja.
Þegar komið var fram á neðri brúnirnar austan Bláfjalla sást víðfeðmin neðanverð. Einhverjum hefði fallist hendur – en ekki FERLIR. Geitafell sat þarna formfagurlega neðan hraunsléttunnar er runnið hafði úr gígum Heiðinnar há. Enn neðar sást Leitarhraunið. Austar og nær voru Drögin, mikil og breið gildrög. Kvöldsólin á vesturhimninum, handan Bláfjallahornsins, var byrjuð að glitra nafna hans, austurhimininn. Haldið var upp með Drögunum vestanverðum.
Bláfjöll eru mótuð af eldvirkni og umbrotum. Fjöllin sjálf eru dæmigerður móbergshryggur sem myndast hefur í gosi undir jökli. Hæst ber tind sem vanalega er nefndur 702 sem vísar til hæðar hans, en Hákollur er skammt norðar.
Umhverfis fjöllin hafa runnið hraun og er þar mest áberandi hraunið frá Heiðartoppum (613m), austur af skíðasvæðinu. Margir gígar og gígaþyrpingar eru á svæðinu. Má þar nefna Stompa, Eldborg og Skeifuna. Nú andaði köldu af norðri. FERLIR hefur hins vegar aldrei látið veður aftra leit – enda er það bara eldra nafn á Cintamani.
Í svo til beina stefnu frá Kóngsgili í norðuröxl Geitafells lá flakið, milli Hákolls og Kerlingarhnúks, í um 560 metra h.y.s., u.þ.b. 50 metrum norðan Reykjavegarins fyrrnefna.
Svo virtist sem flugvélin hafi verið að koma úr suðaustri, vinstri vængurinn lent utan í stórgrýttri hlíðinni og vélin þá byrjað að brotna. Eftir örskamma stund steyptist vélin síðan niður í gil og þar liggur meginhluti hennar ennþá. Leifarnar eru ótrúlega heillegar af slíkum að vera. Líklega er það vegna þess að snjór þekur þær 2/3 hluta úr ári. Ljóst er að eldur hefur komið upp við brotlendinguna og þá hluti vélarinnar brunnið. Bráðið ál er á vettvangi. Vænghluti er þarna, hjólaspyrnur og fleira. Á vænghlutanum má greina tvo stóra svartmálaða stafi. Annar er nokkur skýr, „S“, en hinn (fremri) öllu óskýrari, gæti verið „T“. Það gæti bent til þess að vélin hafi verið í eigu Íslendinga, með ísl. skráningarstafi. Þessi vél virðist í fljótu bragði hafa verið eins hreyfils því einungis einn V12 strokka vél er sjáanleg í gilinu. Svo stór hreyfill gæti þó bent til þess að annar hreyfill hafa verið þarna, en einhverjir fjarlægt hann. Einungis einshreyfils orrustuflugvél hefði getað haft svo stóran aflgjafa.
Lækur rennur um gilið á vorin og hefur hann eflaust skolað hluta braksins niður hlíðina. Af þessu að dæma er ósennilegt að um DC-3 flugvél hafi verið að ræða. Sú flugvélartegund var bæði stærri og tveggja hreyfla. Því væri þarna bæði meira brak á vettvangi auk þess sem auðkennin leyndu sér ekki. Þá myndi vænghlutinn vera breiðari en raun ber vitni.
Merking er á vélarhlutum; annars vegar 40773 A – ALCOA – M – ? og hins vegar 40772 – DR M1. Erfitt var að greina hvaða litur hefur verið á vélinni, en sjá mátti blágrænan lit á einstaka málmbútum.
Leitin tók 3 klst og 3 mín. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var byrjað að dimma þegar flugvélin fannst. Við þær aðstæður komu FERLIRshúfurnar að góðum notum.
Ólafur Íshólm, flugmaður og lögregluvarðstjóri á Selfossi rámaði aðspurður í að eins hreyfils flugvél á leið frá Vestmannaeyjum hafi brotlent í Bláfjöllum á stríðsárunum, en hann vildi þó ekki fullyrða með öllu að svo hafi verið.
Ekkert er að finna í gömlum fréttum dagblaða um flugslys í Bláfjöllum.
Annar viðmælandi FERLIRs, sem haft var samband við, minnti að tveggja hreyfla bandarísk Lightning flugvél hefði farist þarna á stríðsárunum. Meira vissi hann ekki um atvikið.
Haft var samband við Flugmálastjórn og leitað eftir því hvort einhver þar kynni að vera fróður um flugvélaflök sem þessi á Reykjanesskaganum. Eftir stutta athugun kom upp nafnið Guðjón Viðar Sigurgeirsson, flugvélstjóri.
Hlynur Skagfjörð Pálsson fv. rekstrarfulltrúi og starfsmaður í Bláfjöllum gaf FERLIR gagnmerkar upplýsingar um flugvélaflakið.
„Flakið sem um ræðir er af lightning P-38. Orrustuvél með stuttan búk og tvöfalt stél knúin 2 mótorum. Ég hef heyrt að þessi vél hafi farið niður 1944. Þegar ég kom að henni fyrst u.þ.b. 1996 voru mótorarnin tveir. Þessi sem er ofan í gilinu og svo annar á melholti í stefnu á Geitafell. Þegar ég kom aftur til starfa í Bláfjöllum 2001 og fór að svipast um þá var annar mótorinn horfinn. Auðunn Jónsson ýtumaður sagði mér að hann hefði heyrt að einhverjir aðilar úr Þorlákshöfn hefðu náð í hann og sent hann vestur í Örlygshöfn.
Ég hef alloft komið að henni bæði gangandi í auðu og farið þarna um á snjó. Ég tel að vélin hafi verið að koma að vestan beygt upp með hlíðinni og rekið v. vænginn í og að þá hafi mótorinn sem nú er horfinn orðið eftir. Brakið úr vængnum gæti hafa dreifst þarna um flatirnar fyrir neðan. Vélin hefur svo skriðið þarna upp yfir holtin því að það er töluverð dreif úr henni og krassað í gilinu þar sem hæðin ofan við er heldur hærri en sú sem neðar er.
Þá er stjörnuhreyfill í Bláfjöllunum, skammt norðan við Reykjavegarstikurnar. Ég hef ekki öruggar heimildir fyrir því hvaða vél þetta var en hef talið þetta vera “Gömlu Gránu” þá er Jóhannes Snorrason var u.þ.b. skotinn niður í yfir Eyjafirði í stríðinu. Hún var sögð hafa endað lífdagana á hraunsléttu í Bláfjöllum.“
Heimildir m.a.:
-Árbók FÍ 1984, bls. 45.
-Útivist, greinar/Reykjavegur.
-Hlynur Skagfjörð Pálsson.
Gengið var um Eldborg, Drottningu og Stóra-Kóngsfell vestan Bláfjalla. Eyrað er fjær og væntanlega hluti af eldri gígaröð vestan í hálsunum.
Eldborg hangir utan í smáfjallinu Drottningu sem er svo aftur við hliðina á Stóra-Kóngsfelli. Eldborg er það fyrsta sem grípur augað, en hún mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraunið hefur runnið út um og myndað glæsilega hrauntröð út frá henni. Rétt er að gefa sér tíma til að skoða þetta fyrirbæri, en ekki er svo ýkja langt síðan eldar brunnu þarna, eða svona ca. 1000 ár. Hraun það sem vall þarna út hefur runnið alla leið niður í Heiðmörk og myndar efsta lagið í s.k. Hólmshraunum. Þegar gengið er um hraunin umhverfis Drottningu og Stóra-Kóngsfell svo og litið yfir afurðir Þríhnúka má telja ljóst að þau hafi öll runnið á svipuðum, ef ekki sama, tíma. Þríhnúkar, gígarnir suðvestan Stóra-Kóngsfells og Eldborg eru augljóslega á sömu sprungureininni og því að öllum líkindum gosið á sama tíma. Út frá gígunum undir hlíðum Stóra-Kóngsfells, er og smáþvergígaröð yfir í vesturöxl fjallsins. Miklar og langar hrauntraðir liggja út frá öllum gígunum svo og margar aðrar grennri – og ekki síst tilkomuminni. Ein meginhrauntröðin liggur frá gígunum undir Stóra-Kóngsfelli til norðurs niður í Heiðmörk, alla leið að Hólshrauni, og önnur til austurs að miklu kvikuhólfi milli fellanna.
Áfram skal svo haldið upp með Stóra-Kóngsfelli að sunnanverðu og halda svo vestur frá því og í átt að Þríhnúkum. Þó er rétt að veita því athygli að uppi við Stóra-Kóngsfell vestanvert og skammt þar fyrir vestan eru gígar sem þónokkuð hraun hefur runnið úr, Kóngsfellshraun og Rjúpnadyngjuhraun. Þarna gaus skömmu á eftir Eldborg.
Þríhnúkar, eru eins og nafnið gefur til kynna, þrír hnúkar sem allir eiga það sameiginlegt að vera gígkeilur og eru um 1000 ára gamlir. Sá austasti geymir eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði í nágrenni höfuðstaðarins, og jafnframt eitthvað það hrikalegasta. Óhætt er að segja að hægt sé að fá í hnén, bara við það eitt að standa við svart gímaldsop í toppi hnjúksins, vitandi það að það eru um 121 metrar niður á fast og það í frjálsu falli í 150.000 rúmmetra rými. Með öðrum orðum, það er rétt að fara ekki of nálægt.
Eldborg vestur af Bláfjöllum er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá Kóngsfelli. Friðlýst 1971. Um friðlýsinguna segir í Stjórnartíðindum B, nr. 121/1974:
„Auglýsing um náttúruvætti í Eldborg í Bláfjöllum:
Samkvæmt heimild í 22. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið fyrir sitt leyti að lýsa Eldborg í Bláfjöllum náttúruvætti.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru þessi: Að austan ræður (1) Bláfjallavegur eins og hann er nú. Að sunnan (2) hugsuð lína skemmst 200 m frá rótum Eldborgar frá vegi að suðurenda. Drottningar, (3) með hábrún hennar að norðurenda hennar og (4) þaðan til austurs að vegi, 200 m frá rótum hið næsta.
Um svæðið gilda eftirfarandi reglur:
1. Óheimilt er að ganga um hlíðar og barma gígsins utan merktra gönguslóða. Enn fremur er hvers konar akstur utan vega á hinu friðlýsta svæði bannaður.
2. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðaða svæði í umhverfi eldstöðvarinnar.
3. Jarðrask allt og mannvirkjagerð á hinu friðaða svæði er háð leyfi [Umhverfisstofnunar]
4. Ekki má fara með hesta um svæðið utan vegar og stranglega er bannað að beita þeim innan þess.
Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Felld eru úr gildi eldri ákvæði um friðun svæðisins.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni og birtist hún hér með með skírskotun til 32. og 33. gr. laga nr. 17/1971, um náttúruvernd, og tekur friðlýsingin gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 1974.
Magnús T. Ólafsson.“
Þegar vegur var lagður að skíðalöndunum við Bláfjöll fyrir nokkrum árum [1982] opnaðist nýr og ókunnur heimur fyrir flestum. Til þess tíma höfðu fáir lagt leið sína um þær slóðir en vegurinn breytti öllum aðstæðum í einni svipan. Það sem áður var torsótt almenningi varð nú aðgengilegt. Má þar m.a. nefna hellana i hrauninu, gönguferðir á hæstu kolla Bláfjalla og vestur á Heiðina há svo eitthvað sé nefnt. Um þessar mundir er unnið að gerð vegar frá Krýsuvíkurveginum áleiðis að Bláfjöllum og þegar þeirri vegargerð er lokið opnast fjölbreytt og skemmtileg ökuleið um nýtt svæði, sem er fáum kunn, en mjög forvitnileg. Að vestan hefur vegurinn verið þegar lagður að Lönguhlíð, en eftir er að gera ca. 12-15 km langan kafla svo endar nái saman. En sá hluti leiðarinnar er mjög áhugaverður, einkum frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kannað þetta svæði manna mest og birt niðurstöður sínar bæði í ræðu og riti. Til hans er því sóttur mestur sá fróðleikur um hraun og eldgos sem getið verður um hér á eftir.
Skömmu áður en við komum áleiðis upp að skíðaskálanum í Bláfjöllum yfirgefum við bílinn við Eldborgina, en það er reglulega lagaður og mosavaxinn gígur vestan við veginn. Götuslóði liggur upp a gígbarminn og er sjálfsagt að ganga þangað upp að vestanverðu. Gígurinn er reglulega lagaður, um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur.
Frá Eldborginni hafa runnið mikil hraun og munu lengstu hraunstraumarnir hafa runnið alla leið niður í Lækjarbotna. Eldborgin var friðlýst árið 1971 sbr. framangreint.
Eftir að hafa skoðað Eldborgina er stefnan tekin Drottningu. Uppgangan var auðveld sem framhald að aðkomunni að suðaustanverðu. Þegar upp var komið blasti við hið ágætasta útsýni yfir Eldborgina í austri og á háan „ektamakann“ í vestri. Gengið var niður af fellinu að vestanverðu og stefnan tekin yfir og upp hraunið á barmi hrauntraðar að Stóra-Skógfelli.
Stóra-Kóngsfell bar við loft í vesturátt. Við göngum fram hjá allstórum móbergshnúk, sem nefnist Drottning. Fær hann efalaust þetta nafn vegna nálægðar við Kóngsfellið, sem er miklu ábúðarmeira til að sjá. Stóra-Kóngsfell er um 602 m y.s. og þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Fjallið er auðvelt uppgöngu og sjálfsagt að glíma við það en ekki er síður skemmtilegt að að ganga með því að vestan. Þar hafa hraunstraumar runnið upp að hlíðarrótum og þar sem hraun og malarskriður mætast eru jafnan gott að ganga.
Að þessu sinni var gengið á fellið að norðvestan. Uppgangan var auðveld og án vandræða. Þegar upp var komið blasti við hið mikla útsýni til allra átta; yfir að höfðuborgarsvæðinu, upp á Þríhnúkum, niður á hrauntraðir og yfir að Strompum, auk þess sem Rauðuhnúkar og og Vífilsfellið sáust baða sig í kvöldsólinni í norðaustri.
Efst á Kóngsfellinu er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. Þegar gengið var í kringum vörðuna á fellinu má segja að gengið hafi verið um fjögur sveitarfélög á innan við 10 sekúndum. Þetta var þó skammvinn skmmtun því í raun og veru eru landamerkin alls ekki þarna heldur á Litla-Kóngsfelli sbr. eftirfarandi landamerkjalýsingu fyrir Ölvus og Selvog: ,,Að vestanverðu; Úr steyptum stöpul á Borgarhólum, þaðan beina línu í Sýsluþúfu, þaðan bein lína í Sýslustein austan Lyklafells, og þaðan bein lína í steyptan stöpul á Vífilsfelli. Úr stöpli á Vífilsfelli eftir hæstu tindum Bláfjalla í Bláfjallahorn, þaðan í Kóngsfell (Litla-Kóngsfell).
,,Að sunnanverðu; Úr Kóngsfelli (Litla-Kóngsfelli) beina línu í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli, þaðan beina stefnu afur í Fálkakletta. (Ofangreind lína styðst við hrd. 1996:2848.)
Vestan við fellið eru nokkrir smágígar sem vekja forvitni, bæði sökum lögunar og fjölbreytni í litum. Aðalgígarnir eru þrír og sá vestasti þeirra er mestur. Hraunið úr þessum gígum þekur svæðið milli Kóngsfells og Drottningar og telur Jón það ljóst, að þarna hafi gosið á sögulegum tíma, eða eftir að norrænir menn settust að hér á landi. Gígarnir og þetta eldbrunna svæði umhverfis umhverfis Kóngsfellið er mjög áhugavert og væri unnt að dvelja þar lengi dags, en tíminn líður og gönguferðinni er ekki lokið enn. Vestan við Kóngsfellið eru Þríhnúkarnir og þeir verða næst á leið okkar.
Þríhnúkarnir eru fornar eldstöðvar og segir Jón Jónsson að þeir séu meðal “sérstæðustu eldstöðva á Reykjanesskaga bæði hvað snertir útlit eldstöðvanna sjálfra og eins hraun, sem frá þeim hafa komið”. Þar hafa orðið tvö gos að minnsta kosti og í síðara gosinu mun austasti hnúkurinn hafa myndast. Upp á þann hnúk munu allir ganga, sem eiga þarna leið um, því gígurinn er opinn og því skoðunarverður. Hann er lóðréttur, nokkuð á annað hundrað metra á dýpt eftir því sem best er vitað, en nokkrir fullhugar hafa sigið til botns í gígnum og kannað hann lauslega. Það er óhugnanleg tilfinning að standa á gígbarminum og horfa niður í kolsvart gímaldið. Er þá eins gott að gæta sín og kunna vel fótum sínum forráð.
Þegar hér er komið sögu geta menn valið um tvennt: að ganga sömu leið tilbaka að bílnum eða halda áfram, fram hjá Stóra-Bolla, niður Grindaskörðin og vestur að Lönguhlíð, að vegarendanum og láta sækja sig þangað. Ekki skiptir máli hvor kosturinn er valinn. Það sem fyrir augun hefur borið í þessari ferð ætti flestum að vera nægilegt umhugsunarefni eftir daginn. Fjölda margir gígar, stórir og smáir, hafa verið skoðaðir, og hvarvetna blasir við eldbrunnið, gróðursnautt land. Þetta tvennt er talandi tákn um þau reginöfl sem liggja dulin í undirdjúpunum og minnir okkur um leið á nálægð þeirra. En þeir sem hafa mesta unun af hressandi gönguferð með víðsýni til allra átta fá einnig nokkuð fyrir snúð sinn því útsýnið yfir strandlengjuna við Faxaflóann er frábært, hvort sem staðið er á Stóra-Kóngsfelli, Þríhnúkum eða Stóra-Bolla. Það þekkja þeir sem þangað hafa komið. HÉR má sjá myndband af svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Heimild m.a.:
-Mbl. 7. ágúst 1982.
Í Sveitarstjórnarmál 1980 fjallar Kristján Benediktsson um „Bláfjallafólkvang„.
„Hinn 31. janúar 1973 samþykkti náttúruverndarráð stofnun fólkvangsins, og með auglýsingu í Stjórnartíðindum tveimur mánuðum síðar má segja, að hann hafi verið orðinn að raunveruleika. Þau sveitarfélög, sem í upphafi stóðu að Bláfjallafólkvangi, voru Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Selvogur. Síðar bættust í hópinn Hafnarfjörður, Garðabær og Keflavík.
Meðfylgjandi uppdráttur sýnir vel legu Bláfjallafólkvangs og veginn á skíðasvæðin, sem tengist Austurveginum víð Sandskeið. Austurhornið er Vífilfell. Þaðan liggur línan eftir háhrygg fjallgarðsins í Kerlingahnúk á Heiðinni há. Hæsti punkturinn á fjallshryggnum er Hákollur, 702 metrar, og er hann beint upp af Kóngsgili. Frá Kerlingahnúk liggja mörkin um Litla-Kóngsfell, Stóra-Bolla og í Heiðmerkurgirðinguna við Kolhól.
Síðan eru mörkin um Heiðmerkurgirðingu að punkti, sem skerst af línu, sem dregin er milli Stríps og Stóra-Kóngsfells. Síðan liggja mörkin um Sandfell, norðvestur af Rjúpnadölum, í koll Vífilfells.
Innan Bláfjallafólkvangs er mikið um hraun og eldstöðvar margar. Víða í hraununum eru op og hellar og vissara að fara með gát um þau svæði og fylgja merktum gönguleiðum.
Eldborg er friðlýst náttúruvætti rétt við veginn. Hún er falleg eldstöð, sem mikið hraun hefur komið frá. Vegurinn frá brekkubrúninni norðan Rauðuhnúka og upp á skíðaslóðirnar liggur mestan part á Eldborgarhrauni.
Skammt frá Eldborginni eru tvö fell, Stóra-Kóngsfell (596 m), þar sem fjallkóngar skipta leitum, og Drottningarfell, sem bæði er lægra og minna um sig. Hvergi hef ég séð nákvæma stærðarmælingu af Bláfjallafólkvangi. Ekki mun fjarri lagi að áætla, að hann sé 70—80 km2.“
Heimild:
-Sveitarstjórnarmál 01.02.1980, Bláfjallafólkvangur, Kristján Benediktsson, bls. 7-8.
Fjallað er um „Bláfjallafólkvang“ í Morgunblaðinu árið 1983. Þar segir m.a. um fólkvanginn, legu hans, stærð og mörk:
„Þess verður vart, þegar menn ræða sín á milli um fólkvang þennan, að þeir gera sér ekki fyllilega grein fyrir því svæði sem hann nær yfir. Um þetta efni er stuðst við fyrrnefnda grein Kristjáns Benediktssonar í Sveitarstjórna-málum, 1. hefti 1980, en þar segir hann orðrétt þetta: „Meðfylgjandi uppdráttur sýnir vel legu Bláfjallafólkvangs og veginn á skíðasvæðinu, sem tengist Austurveginum við Sandskeið. Austurhornið er Vífilsfell. Þaðan liggur línan eftir háhrygg fjallgarðsins í Kerlingarhnúk á Heiðinni háu. Hæsti punkturinn á fjallshryggnum er Hákollur, 702 metrar, og er hann beint upp af Kóngsgili. Frá Kerlingarhnúk liggja mörkin um Litla-Kóngsfell, Stóra-Bolla og í Heiðmerkurgirðinguna við Kolhól. Síðan eru mörkin um Heiðmerkurgirðingu að punkti, sem skerst af línu, sem dregin er milli Stríps og Stóra-Kóngsfells. Síðan liggja mörkin um Sandfell, norðvestur af Rjúpnadölum, í koll Vífilsfells.
Innan Bláfjallafólkvangs er mikið um hraun og eldstöðvar margar. Víða í hraununum eru op og hellar og vissara að fara með gát um þau svæði og fylgja merktum gönguleiðum. Eldborg er friðlýst náttúruvætti rétt við veginn. Hún er falleg eldstöð, sem mikið hraun hefur komið frá. Vegur frá brekkubrúninni norðan Rauðuhnúka og upp á skiðaslóðirnar liggur mestan part á Eldborgarhrauni. Skammt frá Eldborginni eru tvö fell, Stóra-Kóngsfell (596 m) þar sem fjallkóngar skipta leitum, og Drottningarfell, sem bæði er lægra og minna um sig. Hvergi hefi ég séð nákvæma stærðarmælingu af Bláfjallafólkvangi. Ekki mun fjarri lagi að áætla, að hann sé 70-80 km2.“
Saga fólkvangs á Bláfjallasvæðinu er ekki löng, en er samt orðin hin merkasta á ekki lengri tíma að liðinn er frá því að svæði þetta var opnað almenningi til útivistar að vetrarlagi.“
Heimild:
-Morgunblaðið 13. apríl 1983, Þorgeir Ibsen, bls. 57.
Gengið var upp með vestanverðu Stóra-Kóngsfelli austan við hraungíginn Eyra. Stefnt var að því að komast í Litla-Kóngsfell, en í því vestanverðu er Dauðsmannsskúti þar sem maður varð úti.
Haldið var á bratt hraunflæmið þar sem það kemur í breiðum fossi fram af hlíðinni norðvestan við fellið. Nokkur myndarleg op eru í hlíðinni og líklegt er að þar kunni að leynast nokkrar hraunrásir, sem vert er að skoða við tækifæri.
Framundan var fallegur eldgígur, sem stundum hefur verið nefndur Kóngsfell, en er í rauninni hinn myndarlegasti þrátt fyrir ruglinginn. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að gígurinn hefur nokkurn veginn sömu lögun og hinir tveir kóngsfellsgígarnir á svæðinu. Gamburmosinn er þykkur á kafla og rjúpan virtist kunna vel við sig á „teppinu“.
Haldið var áfram suður með vestanverðum Strompum. Ekki var kíkt í hellana að þessu sinni, heldur gengið hiklaust áfram upp með gígaröðinni og suður fyrir hana. Þar mátti sjá u.þ.b. fimm metra rifu í sléttu helluhrauni. Undir var greinileg rás, en ekki var hugað frekar að henni að þessu sinni, enda lljóslaust. Þoka lagðist að á báðar hendur, en ratljóst var til suðurs.
Stefnan var tekin á sérkennilega nafnlausa gígaröð í nálægt hálftíma gang frá syðsta hluta Strompanna. Yfir slétt helluhraun var að fara. Gígaröð þessi liggur frá SV til NA eins og venjulega gildir um slíkar raðir. Hún er innan við kílómeters löng. Hún gæti verið hluti af lengri sprungurein lengra til norðurs. Fremur lítið hraun hefur runnið frá gosinu, aðallega til vesturs. Um er að ræða apalhraunsafsprengi inni í miðju helluhrauninu allt um kring. Hraunæðar voru víðar, en allar stuttar og þröngar. Norðan við gígaröðinni lá greinileg gömul gata áleiðis inn á heiðina há. Varða var þar skammt austar.
Frá gígaröðinni var að sjá að nálægt tuttugu mínútna gangur væri yfir að Litla-Kóngsfelli, þ.e. fjörutíu mínútur fram og til baka. Ákveðið var því að geyma heimsóknina í Dauðsmannskúta til betri tíma. Þá verður farið um Kerlingarskarð og áleiðis niður Selvogsgötu. Um 1 og 1/2 klst gang er að ræða þá leiðina.
Þegar staðið var á gígaröðinni rofaði til. Ágætt útsýni var yfir að Miðbolla og Þríhnúkagígunum. Dökk þokuslæðan lá hins vegar yfir austrinu. Þá heyrðist sérkennilegt hljóð í þögninni er nálgaðist óðfluga. Skyndilega flugu fjölmargar gæsir í oddaflugi út úr þokunni til vesturs. Fögur sjón og einstök. Farfuglarnir á heimleið.
Talsverður ruglingur hefur verið á Kóngsfellsnafninu í gegnum tíðina. Líklega er það vegna þess að Kóngsfellin eru þrjú á þessum slóðum; Kóngsfell, Stóra-Kóngsfell og Litla-Kóngsfell.
Landamerkin hafa verið dregin um „Kóngsfell“, svonefnt „Konungsfell“, einnig nefnt „Stóri-Bolli“, og því sýna landakort hinar ýmsustu útgáfur landamerkjalínanna. Þær eru ýmist dregnar í Kóngsfell (Konungsfell/Stórabolla) ofan við Miðbolla, Stóra-Kóngsfell norðvestan Drottningar eða Litla-Kóngsfell sunnan Stórkonugjár. Kóngsfellið var nefnt svo vegna þess að á haustin söfnuðust í því fjárkóngar svæðanna, sem áttu mörk um fjallið. Þar réðu þeir ráðum sínum áður en hver hélt í sína áttina með sínum mönnum.
Haldið var til baka að Strompunum og þeir síðan þræddir til norðurs, að upphafsreit. Snjór lá í lautum svo ráðlegra var að halda sig á hraunhryggjum í göngunni. Þarna eru víða göt og hellar undir svo allur er varinn góður.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Hólmshraunin fimm„, hraun í nágrenni Reykjavíkur, í Náttúrufræðinginn 1972:
Inngangur
„Þegar farið er sem leið liggur frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði, eða austur yfir Fjall, eins og oft er komist að orði, blasir við manni á hægri hönd grámosagróinn hraunfláki, sem nær frá Jaðri austur að Selfjalli og hverfur til suðurs milli efstu brúna. Nyrzt, eða nánar tiltekið milli Selfjalls og Heiðmerkur, gengur þessi hraunbreiða undir nafninu Hólmshraun.
Við athugun kemur í ljós, að um a. m. k. fimm mismunandi og misgamla hraunstrauma er að ræða, sem auðveldlega má greina að norðantil á svæðinu. Er sunnar dregur verður það illgerlegt eða ómögulegt með öllu, enda koma þar fyrir enn fleiri hraun, sem hlaðizt hafa hvert yfir annað. Þau eru öll komin úr Þríhnúkum og svæðum milli þeirra og Hákolls í sunnanverðum Bláfjöllum.
Eldstöðvar á þessu svæði eru a.m.k. átta vel sýnilegar. Ekki er ólíklegt að einhverjar séu nú huldar yngri hraunum, og engan veginn er útilokað að neðst í þessum hraunlagastafla séu hraun frá Heiðinni há, sem runnið hafi til norðurs vestan Bláfjalla.
Ég hef valið að halda því nafni, sem notað er á kortinu (1:50000), en gefa síðan hverju hrauni númer eftir aldursröð á meðan ekki er hægt að tengja hvert og eitt þeirra við ákveðna eldstöð sem hlotið hefur nafn.
Hólmshraun I
Hólmshraun I er elzt þessara hrauna. Það kemur fram austan við Gvendarbrunna og hefur þar runnið út á og nærri þvert yfir Leitahraun (Jónsson 1971, bls. 52), og er því a. m. k. eitthvað yngra. Rekja má það til austurs báðum megin Suðurár um 1,5 km austur frá Gvendarbrunnum, en nyrzta tunga þess endar rétt sunnan við Hólm. Hefur það því næstum náð að renna þvert yfir Leitahraun á þessum stað.
Lítið ber á þessu hrauni þarna, en bergið í því er þó svo frábrugðið Leitahrauni, að mögulegt er að rekja það á þeim grundvelli. Þetta hraun kemur einnig fram efst í Heiðmörk. Hús „Nordmannslaget“ stendur einmitt á þessu hrauni. Hraunið er fínkornótt feldspatpyroxen hraun með ofurlitlu ólívíni.
Með því að mæla hlutfall steintegunda í tveim þunnsneiðum úr þessu hrauni fékkst eftirfarandi útkoma: Um aldur hraunsins er ekki vitað annað en það sem þegar er sagt, að það er yngra en Leitahraun og elzt Hólmshraunanna.
Hólmshraun II
Þetta hraun kemur fram á 11 stöðum á því svæði sem kortið nær yfir, en lítið fer fyrir því á þeim flestum. Mesta samfellda spildan er kvísl sú sem fallið hefur um skarðið milli Self jalls og Sandfells, niður með Selfjalli að austan og niður í Lækjabotna. Nyrzti tangi þess myndaði háa og mjög áberandi brún rétt austan við gamla gististaðinn Lögberg, en nú hefur sú brún verið rifin niður og jöfnuð út fyrir hinn nýja veg. Þó má ennþá auðveldlega sjá það á brekkubrúninni aðeins nokkra metra norðan við veginn. Þarna hefur það runnið út á Leitahraun. Nokkur hluti af þessari hraunkvísl hefur fallið vestur með Selfjalli að norðan og myndar þar tvo tanga. Stendur skátaskálinn gamli á þeim syðri og nær hann lengst þeirra vestur.
Hólmshraun kemur víða fyrir á Heiðmerkursvæðinu, bæði syðst, suðvestur af Silungapolli, og rétt austan við Jaðar.
Vestasta hraunröndin þar er þó ekki þetta hraun, heldur yngra hraun, Hólmshraun III. Hólmshraun II myndar því hólma við rönd yngra hraunsins rétt vestan við Gvendarbrunna. Auk þess kemur Hólmshraun II fram nyrzt í kverkinni suður af Selfjalli. Í borholu austan við Gvendarbrunna varð og vart við það undir yngra hrauni.
Hraunið er tiltölulega grófkornótt feldspat-ólívín-dílótt hraun og mjög auðþekkt á því, en annað er þó, sem ekki síður er einkennandi fyrir það, en það er að í því er mesti aragrúi hnyðlinga. Er sums staðar, t.d. í áðurnefndri hraunkvísl austan við Selfjall, svo mikið af þeim, að naumast er hægt að brjóta úr því mola svo að ekki sé í honum hnyðlingur (Jónsson 1963). Þetta eru gabbro-hnyðlingar líkir þeim, sem fundizt hafa á fjölmörgum stöðum á Reykjanesi og víðar hin síðari ár.
Hólmshraun III
Þetta hraun tekur yfir mun stærra svæði en nokkurt hinna hraunanna. Mestri útbreiðslu nær það í austanverðri Heiðmörk og nær þar óslitið frá Silungapolli og vestur fyrir Jaðar. Nyrzti tanginn á þeim hluta hraunsins nær langleiðina norður að Hólmsá skammt suðvestan við brúna. Brúnin á Hólmshrauni III er mest áberandi hraunbrúnin austan við Gvendarbrunna og allt austur að veginum inn í Heiðmörk, enda liggur það á þessu svæði næst ofan á Hólmshrauni I eða þá ofan á Leitahrauni. Tanginn suðaustan við Gunnarshólma sem Suðurlandsvegur liggur um er Hólmshraun III.
Vegurinn sker þar yfir nyrzta tanga þess. Það þekur svo allstóra spildu þar suður af og fyrir austan og sunnan Silungapoll, en er næst Selfjalli hulið yngra hrauni, Hólmshrauni V, en til vesturs hverfur það undir Hólmshraun IV, sem myndar mjótt belti ofan á því suðvestur af Silungapolli og nær út í tjörnina sem þar er. Þegar sunnar kemur hverfur Hólmshraun III algerlega undir yngra hraun, og það syðsta sem sést af því er nærri beint vestur af Selfjalli ofan og austan við Heiðmörk.
Þar fyrir sunnan er mjög erfitt eða ómögulegt að greina milli einstakra hraunstrauma, en geta má þess þó hér, að á svæðinu frá Húsafelli og austur að Heiðmörk hef ég talið mig geta greint a.m.k. 3 mismunandi hraun. Eru þá Hólmshraunin, sem hér er um rætt, ekki meðtalin. Sé nú Búrfellshraun ásamt Leitahrauni og hraununum næst vestan við Vífilsfell talin með kemur í ljós, að gosið hefur yfir tuttugu sinnum á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla frá því að jöklar hurfu af þessu svæði. Nokkrar líkur benda til þess að flest þessara hrauna séu yngri en Búrfellshraun, en samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar er það um 7200 ára gamalt. Sýnir þetta, að eldvirkni hefur verið mikil á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla eftir að Heiðin há hætti gosum og eftir að Búrfellshraun rann.
Hólmshraun III er ekki ósvipað Hólmshrauni I fljótt á litið, en inniheldur miklu meira ólívín, og er á því auðvelt að greina þessi hraun að. Hnyðlingar finnast í þessu hrauni en ekki er mikið um þá. Einstaka stórir feldspatdílar koma fyrir í hrauninu.
Hólmshraun IV
Þetta hraun hefur fallið í samfelldum straumi yfir Hólmshraun III frá vesturhorni Selfjalls, og endar í mjóum tanga við tjörnina vestur af Silungapolli. Það nær óvíða 500 m breidd og er norðan til aðeins um 200 m og þaðan af minna. Það er áberandi meira dílótt en Hólmshraun I og Hólmshraun III. Nokkuð er um ólívíndíla í því og má vel greina þá með berum augum. Á því svæði sem hér um ræðir kemur Hólmshraun IV ekki fyrir nema á ofannefndu svæði.
Hólmshraun V
Síðast í röð þessara hrauna er Hólmshraun V. Það liggur ofan á Hólmshrauni IV vestur a£ Selfjalli, en klofnar þar á því, og fellur svo í tveim kvíslum báðum megin við það. Vestri kvíslin endar rétt sunnan og austan við skála þann, sem „Nordmannslaget“ hefur í Heiðmörk, og áður er minnst á. Önnur kvísl úr sama hrauni er svo nokkru vestar, en sú kvísl nær aðeins á einum stað fast að girðingunni sunnan við Heiðmörk.
Austasta kvíslin hefur svo fallið norður með Selfjalli að vestan og alla leið niður í Lækjabotna. Þetta er mjór hraunstraumur, sem fallið hefur upp að fjallinu eftir lægð, sem myndazt hefur milli þess og eldri hraunstrauma. Svo virðist, sem þetta sé yngst allra hraunanna á svæðinu milli Þríhnúka og Hákolls í Bláfjöllum, þó ekki verði það fullyrt að svo stöddu. Sé það hins vegar rétt sýnist og líklegt, að það sé komið úr stuttri gígaröð vestan undir Kóngsfelli. Aðalgígirnir eru tveir, en röð af smágígum liggur upp í fellið að norðvestan. Hrauntraðir stórar liggja frá þessum gígum suður fyrir Kóngsfell og austur með því að sunnan.
Þá hefur hraunið fallið norður milli Kóngsfells og Rjúpnadalshnúka, en önnur kvísl austur að Bláfjöllum, og er það yngsta hraunið sem endar í allhárri brún vestur af Vífilsfelli og á kortinu er nefnt Vífilsfellshraun. Greinilegt er, að hraunið úr gígunum við Kóngsfell er yngra en hraunin úr Eldborg við Drottningu, en mjög líklega er eitthvað af Hólmshraunum komið úr þeim gíg. Hólmshraun V er gráleitt, fremur fínkornótt basalthraun.
Eins og áður hefur lauslega verið drepið á eru margar eldstöðvar milli Bláfjalla og Lönguhlíðar. Hafa hraun frá þeim flestum runnið norður af og mynda þá mikla hraunbreiðu, sem á kortinu er nefnd Húsfellsbruni, en hraun þau, sem nefnd eru Hólmshraun og Skúlatúnshraun eru raunar hluti af þessum mikla hraunfláka. Nokkrar þessara eldstöðva eru stórkostlegar myndanir eins og t.d. Eldborg austan við Drottningu. Tæpum 3 km sunnar eru eldvörp, sem á kortinu hafa ekkert nafn. Þar eru 8 gígir á nær hringlaga svæði, og er einn þeirra mestur. Einn gígur er svo nokkuð utan við þessa þyrpingu.
Ég held, að líta verði á þessa gígaþyrpingu sem eina eldstöð, því hraunrennsli virðist a. m. k. á tímabili hafa verið úr öllum þessum gígum, en óvíst er að það hafi verið samtímis. Hraunin frá þessum eldvörpum hafa runnið norður af vestan Bláfjalla og lítið eitt vestur ávið yfir hraun frá Heiðinni há, en þau hverfa brátt undir yngri hraun og er ekki vitað að til þeirra sjáist eftir það. Líklegt er, að eitthvað af hrauni frá Heiðinni há hafi líka runnið norður af vestan við Bláfjöll, en óvíst er með öllu hversu langt þau hafa náð. Geta má þess hér, að hraun það í Heiðmörk, sem á kortinu er nefnt Strípshraun, hygg ég vera úr Þríhnúkum komið.
Þess skal hér með þakklæti getið, að kort það, er grein þessari fylgir, hefur Jón Eiríksson jarðfræðinemi teiknað fyrir mig með frábærri nákvæmni.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3. tbl. 01.11.1972, Hraun í nágrenni Reykjavíkur II – Hólmshraunin fimm, Jón Jónsson, bls. 131-139.