Tag Archive for: Botnsdalur

Kötlugróf

Ætlunin var að ganga um Botnsdal og Brynjudal. Megintilgangurinn var þó að staðsetja örnefnin Holukot, Hlaðhamrar, Kirkjuhóll, Krosshóll, Steinkirkja, Mannabyggð, Kötlugróf og Kattarhöfða.
KattarhöfðiFyrsti landnámsmaðurinn í Botnsdal var írskur, Ávangur að nafni. Bær hans gæti hafa verið þar sem nú eru rústir Holukots. Hann stóð sunnan árinnar neðarlega í dalnum. Sá bær hefir að líkindum tekist af eða lagst í eyði vegna skriðufalls er eyðilagt hefir meginhluta túnsins. Skriða þessi er fyrir löngu uppgróin og sums staðar klædd smávöxnu kjarri. Fyrir rústunum sjest mjög greinilega og hafa þau hýbýli verið rúmlítil. Í Kattarhöfða neðanverðum mun vera dys Þórðar kattar og í Kötlugróf mun hringurinn Sótanautur hafa verið falinn. Á Krosshól óx hrísla. Þegar hún féll skilaði hún sér jafnan á hólinn aftur.
Lúther Ástvaldsson bóndi á Þrándarstöðum í SteinnBrynjudal fylgdi FERLIR um svæðið. Hann gekk hiklaust að Kattarhöfða, Kötlugróf, Holukoti og fleiri nánast óþekktum stöðum. Landamerki Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu eru við Kötlugróf. Nýlega var sett upp sýslumerki við veginn. Svo óheppilega vildi til að merkið var sett á móts við fjárgirðinguna er liggur upp norðurhlíð Múlafjalls. Kötlugrófin og hin eiginlegu sýslumörk eru hins vegar nokkru austar og munar ca. 200-300 metrum.
Ofan við Kötlugróf er Lambaskarð; landamerki Skorhaga og Stóra-Botns.

Magnús Lárusson skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1933 er bar yfirskriftina „Hvalfjörður“.  Fjallar hann þar um dalina innst í Hvalfirði; Botnsdal og Brynjudal. Hér verður drepið niður í greinina:
Kötlugróf„Einn af fegurstu stöðum ættjarðar vorra er Hvalfjörður. Hann skerst inn í landið úr Faxaflóa, milli Kjalarness að sunnan og Akraness að norðan, nálægt 17 sjómílur að lengd.
Flestum, sem til Hvalfjarðar koma, mun vera hugstætt að koma að Saurbæ, þar sem Hallgrímur Pjetursson var. Margar sagnir ganga um síra Hallgrím, og langar mig til að segja eina:
„Það er sögn ein, frá Hallgrími presti, að hann var eitt sinn á ferð við þriðja mann, og ætlaði heim sunnan yfir Brynjudalsvog; flæður sævar gengu að; varð það þá ráð þeirra að bíða þar um nóttina til þess útfjaraði, og árin minkaði, og bjuggust að liggja í Bárðarhelli við fossinn.
Þótti þá förunautum prests leitt að heyra fossniðinn, er mjög ýrði frá inn í hellisdyrin. Annar förunautur prests var fremstur og fekk ei sofið fyrir aðsókn.
Sýndist honum og ferlíki nokkurt eða vættur sækja að inn alt í hellisdyrin; bar hann þá prest að vera fremstan, og ljet hann það eftir; er þá sagt hann kvæði Stefjadrápu, því var yrði hann hins sama og förunautur hans, en jafnan hörfði vætturinn frá við hvert stefið, og að aftur á milli, uns hún hyrfi með öllu.“

Brynjudalur

Brynjudalur og nágrenni – kort.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá því af hverju Hvalfjörður, Hvalfell og Hvalvatn draga nöfn sín, og skal það ekki rakið hjer. En við skulum bregða okkur inn til dalanna fyrir botni Hvalfjarðar og hitta þar konu, sem heitir Oddný Sigurðardóttir, og er húsfreyja á Stóra-Botni í Botnsdal. Hún segir okkur svo frá dölunum:

Botnsdalur
Botnsdalur er hinn nyrðri af dölunum tveim, er liggja fyrir botni Hvalfjarðar. Á milli þessara tveggja dala Hlaðhamrargengur Múlafjall fram í sjó og myndast vogar, sinn hvoru megin fjallsins. Og inn fyrir þessa voga liggur Hvalfjarðar akbrautin. Í Botnsdal eru nokkrar skógarleifar, þó smávaxnar sje, en þarna var það, sem Ávangur hinn írski ljet smíða hafskipið á dögum landnámsmannanna. En hið merkasta í dalnum verður að tekja fossinn Glym, sem er mjög hár, líklega með hæstu fossum á landinu, þó aldrei hafi hann verið mældur [198 m hár], og er í á samnefndri bæjunum í dalnum. Við Glym orti Þorsteinn Gíslason vísurnar: Í Botnsdal er fagurt einn blíðviðrisdag o.s.frv. Þá er einnig skylt að gleyma ekki Botnssúlum, en þaðan er mjög víðsýnt. Í norðaustri er Hvalfell og norðan við það er Hvalvatn, en þaðan kemur Botnsá. – Fyrir austan enda Hvalvatns er Kinnhúfuhöfði og Skinnhúfuhellir, þar sem Skinnhúfa bjó á dögum Ármanns í Ármannsfelli.

Lúther

Nú er þar alt kyrrlátara og friðsamara en á þeim dögum og álftin á sjer dyngju rjett fyrir framan hellismunnann. Niður undir vatnsröndinni, norðan í Hvalfelli er hellir sá, er sagt var að Arnes – er eitt sinn var fjelagi Fjalla-Eyvindar – hafi hafst við í. Í helli þessum hefir fundist mikið af beinum – bæði stórgripabeinum og kindabeinum – sem sjest hafa á för eftir eggjárn, og sömuleiðis kambur úr horni.
Í hinum fornu sögum finnst hvergi getið nema eins bæjar í Botnsdal – en nú eru þeir tveir. Landnámsbók segir svo frá að fyrstur hafi byggt bæ í Botni, maður sá er Ávangur hjet og kallaður hinn írski. Þá var þar skógur svo mikill að hann ljet af gera hafskip. Það var hlaðið við Hlaðhamar er hann er fyrir botni Botnsvogs, sunnan Botnsár. Dýpi við hamarinn nú á tímum er um flóð líklega 3-4 metrar, en algerlega þurrt um fjöru. Í Harðar-sögu er talað um Neðri-Botn, þar sem Geir bjó um skeið. Af því er auðsætt að þá hefir Efri-Botn einnig verið byggður þó þess sje eigi getið. Löngu seinna hefir svo byggst þriðji bærinn; Holukot. –

Lúther

Hann stóð sunnan árinnar neðarlega í dalnum. Sá bær hefir að líkindum tekist af eða lagst í eyði vegna skriðufalls er eyðilagt hefir meginhluta túnsins. Skriða þessi er fyrir löngu uppgróin og sums staðar klædd smávöxnu kjarri. Fyrir rústunum sjest mjög greinilega og hafa þau hýbýli verið rúmlítil.
Af örnefnum, sem getið er í fornsögunum er meðal annars Múlafell, nú breytt í Múlafjall, Kattarhöfði, þar sem Þórður köttur var dysjaður og Kötlugróf þar sem Þorbjörg katla og Þorgríma smiðkona ljetu líf sitt og hringurinn Sótanautur er falinn.“ Kötlugróf er í smá slakka er gengur inn í hlíðina utan við Hlaðhamar. Skýringar á nafninu er að finna í Harðar sögu og Hólmverja. Þar börðust grimmilega tvær fjölkunnugar konur, Þorbjörg katla og Þorgríma smiðkona. Átökunum lauk svo að þær lágu báðar dauðar eftir, rifnar og skornar.

Brúsi

Um afrif Þórðar kattar segir í Harðar sögu, ch. 25: „En er Þorbjörg katla kom út varð hún vís af fjölkynngi sinni og framvísi að skip var komið frá Hólmi. Hún sækir þá sveipu sína og veifði upp yfir höfuð sér. Þá gerði myrkur mikið að þeim Geir. Hún sendi þá orð Ref syni sínum að hann safnaði mönnum. Þeir urðu saman fimmtán og komu að Þórði ketti óvörum í myrkrinu og tóku hann höndum og drápu og er hann grafinn í Kattarhöfða neðanverðum. Þeir Geir komust til sjávar. Þá tók af myrkrið og sáu þeir þá gjörla og réðu þeir Refur til og börðust.“
„Víðar man jeg ekki eftir að Botnsdal sje getið í fornum sögum.
Að síðustu skal þess getið, Lútherað hjer í Stóra-Botni var bænahús eða kirkja, og er örnefnið Kikjuhóll þekkt enn þá. Í þann hól var grafið fyrir 4-5 árum, en aðeins lítilsháttar, enda fundust engar minjar. Lúther taldi að lík þeirra er létust í aðdraganda Svartadauða hér á landi hefðu verið grafnir í hólnum.
Við Maríuhöfn í Laxárvogi var einn stærsti kaupstaður landsins fram á 15. öld. Þangað gengu skip Skálholtsstóls enda var höfnin vel í sveit sett gagnvart samgönguleiðum til Þingvalla og uppsveita Árnessýslu. Þangað barst svarti dauði til landsins árið 1402 en talið er að um þriðjungur íbúanna hafi látist af farsóttinni.
Annálar greina frá því að hún hafi komið með skipi í Hvalfjörð.

Lúther

Þá var Maríuhöfn á Búðasandi við Laxárvog ein aðalhöfn landsins. Samkvæmt sömu heimildum tók Áli Svarhöfðason veikina og „deyði fyrstur af kennimönnum um haustið“ í Botnsdal ásamt sjö sveinum sínum. Síðan breiddist pestin um landið og er talið að látist hafi um 40 þúsund manns úr henni, eða nærri helmingur landsmanna.
Drepsóttin svartidauði mun hafi borist áfram til landsins sem smit í klæðum Einars Herjólfssonar. Hann andaðist úr sóttinni á skipi sínu í hafi en klæði hans voru síðan afhent ættingjum hans – illu heilli.“ 

Á bæjunum hjerna í Botnsdalnum var mikið um álfa og álfatrú. Ekki mátti veita silunga úr sumum lækjum, ekki höggva hrís á vissum stöðum, ekki færa sum hús, ekki sljetta tiltekna bletti í túnunum og þar fram eftir götunum. Í hólunum heyrðist sífellt rokkhljóð og strokkhljóð.

Krosshóll

Þannig var til dæmis sagt að víða í túninu í Litla-Botni og í klapparholtum umhverfis það, væri bústaður huldufólks. Austast í túninu er hóll, kallaður Krosshóll. Mátti eigi sljetta hann og var þar engin þúfa hreyfð þangað til síðasti ábúandi kom þangað árið 1907. Á þessum hól var hrísla allstór og mátti enginn skerða hana. Var hún að síðustu orðin svo fúin að hún brotnaði. Mátti enginn á neinn hátt nýta sjer lurkinn og var sagt að hann færi jafnan sjálfur á hólinn aftur þó hann væri borinn heim.
Skammt fyrir utan túnið er klapparholt, sem kallað er Steinkirkja og heyrist þaðan oft tíðarhringingar og sálmasöngur. Á götunum fyrir utan túnið er kallað Mannabyggð og þar mátti aldrei ríða hart. Á milli þessara staða; Kirkjunnar og Mannabyggðar annars vegar og Krosshóls hins vegar voru sífelldar ferðir huldufólksins og var för þess stundum sjeð af gamla fólkinu.

Brynjudalur
ÞrándarstaðirSyðri dalurinn fyrir botni Hvalfjarðar er Brynjudalur. Hann er grösugur og vaxinn kjarri fremst. Samnefnd á rennur eftir honum og er hún straumlygn og mild. Nú eru þrír bæir í dalnum; Ingunnarstaðir, Skorhagi og þrándarstaðir og auk þess eyðibýlið Hrísakot.
Hina elstu sögn um Brynjudal er að finna í Landnámabók, þar sem sagt er frá deilu Refs hins gamla og Hvamm-Þóris, út af kúnni Brynju, sem gekk úti í dalnum með afkvæmum sínum og hann er við kenndur. Og sú deila endaði með falli Hvamm-Þóris. Þar er einnig sagt, að Refur hafi búið á Múla. Bærinn Múli hefir að líkindum verið skammt þaðan sem nú er Skorhagi, en þó nokkru nær fjallinu og er trúlegt, að skriðuföll hafi eytt bæinn.
StykkisvellirHarða saga segir hinsvegar svo frá, að Refur hafi búið á Stykkisvelli (í Brynjudal) en Þorbjörg katla, móðir hans á Hrísum og vitanlega geta báðar sögurnar haft rjett fyrir sjer. Bæjarnafnið Hrísakot og örnefnið Hrísasneið benda  að minsta kosti til þess að bær með því nafni hafi verið þar að norðanverðum dalnum, þó það þurfi ekki endilega að vera.
Loks segir Harðar saga svo frá, að Kjartan sá, er seinna sveik Hólmverja, hafi búið á Þorbrandsstöðum. Hins vegar segir í upphafi Kjalnesingasögu að Þrándur landnámsmaður Helga bjólu hafi numið land í Brynjudal og búið á Þrándarstöðum, en það bæjarnafn er enn þá til. En verið gæti að Þorbrandsstaðir og Þrándarstaðir sjeu hið sama. Ingunnarstaða er getið í Kjósarannál að mig minnir einhverntíma á 16. öld. – Þá týndist í Hríshálsi, þ.e. hálsinum á milli dalanna, óljett kona með þrjú börn í fylgd með sjer og fannst ekkert af nema hendin af einu barninu. Og þessi kona fór frá Ingunnarstöðum.

Gamla

Svo jeg snú mjer aftur að hinum fornu sögum, þá er Brynjudals getið í Bárðar sögu Snæfellsáss og er sagt að Bárður hafi hafst við í Bárðarhelli. Það er móbergshellir sunnanmegin árinnar, við foss þamm er skammt er fyrir ofan hina nýju brú á ánni, er byggð var síðastliðið sumar (1932). Annar skúti er norðan árinnar, beint á móti Bárðarhelli, kallaður Maríuhellir.
Á Ingunnarstöðum var bænahús og var goldið þaðan prestmata þar til núverandi ábúandi keypti hana af. Mjer hefir einnig verið sagt að eitt sinn – fyrir löngu síðan – er byggja skyldi íbúðarhús á Ingunnarstöðum hafi verið grafið á mannabein.“
Árni Óla skrifaði grein, „Hafskip smíðað úr íslensku birki“, í Lesbókina árið 1958. „Landnáma segir að írskur maður, Ávangur að nafni, hafi numið land innst í Hvalfirði og búið allan sinn aldur að Botni. „Þar var svo stór skógur, að hann gerði þarf hafskip af og hlóð, þar sem nú heitir Hlaðhamarr…“

Brendan

Heilagur Brendan frá Clonfert (um 484 e.Kr. – um 577) (írska: Naomh Bréanainn eða Naomh Breandán; latína: Brendanus; íslenska: (heilagur) Brandanus), einnig nefndur „Brendan moccu Altae“, kallaður „siglingamaðurinn“, „Veyagerinn“, „The Anchorite“ og „The Bold“, er einn af fyrstu írsku munkadýrlingunum og einn af tólf postulum Írlands.
Sæfarinn og dýrlingurinn Brendan var ábóti sem sigldi á húðbyrðingi (curragh) sínum til Færeyja og Íslands og jafnvel Azoreyjanna og Ameríku. Greint er frá ferðum hans í Navigatiohandritum sem eru nokkur að tali. Þeir sem hafa lesið þau eru ekki í vafa um að þar sé lýsing á eldgosi. Hvergi er um slík eldgos að ráða á Norðuratlantshafinu nema á Íslandi. Lýsingarnar af landsins forna fjanda, hafísnum, eru afar trúverðugar.

Írsk hafskip vour með öðrum hætti en norræn skip. Írsku skipin voru húðbátar, ekki ósvipaðir kvenbátum Eskimóa. Utan á grind, sem  gerð var úr léttum viðum, strengdu þeir nautshúðir, er saumaðar voru saman með seymi, og á slíkum skipum fóru þeir yfir höfin löngu áður en Ísland byggðist. Írar áttu að vísu tréskip líka, en þeir töldu húðskipin miklu betri í sjó að leggja. Húðskipin köllu þeir „currach“ og sagt er, að áður en St. Brendan lagði í norðurför sína, einhvern tíma á árunum 565-573, eða 300 árum áður en Ísland byggðist, hafi hann látið smíða sér „curragh“ með seglum til fararinnar. Talið er að hann hafi komizt til Grænlands og Íslands í þessari ferð.

En svo segir sagan, að í seinni rannsóknaför sína hafi hann ekki fengið annað en tréskip, og þótti honum það mjög miður.
Það er enginn vafi á því, að í Botnsskógi hefir Ávangur getað fengið nógu sterka viðu í grind fyrir húðskip. Aðvitað hefirhann gert skip sitt á sama hátt og Írar voru vanir, þar sem hann gat og fengið efniviðinn í það heima hjá sér. Og þegar slíkt skip var fullsmíðað gat hann vel hlaðið það hjá Hlaðhamri, enda þótt væri grunnt og grunnsævi úti fyrir, því að húðskipin voru grunnskreiðust allar skipa.
Það er ekki ótrúlegt að slík skip hafi farið milli Íslands og Skotlands á sex dögum. Húðskipið rann eins og stormfugl á bárum hafsins. Ísland gat ekki farið framhjá áhöfninni því að fjöllin þar eru svo há, að þau sjást langar leiðir utan af hafi.

Brú

Í ritgerð sinni um siglingar á söguöld (Safn IV.) getur Bogi Th. Melsted um Ávang og skipasmíð hans í Botni. Er hann ekki frá því að sagan geti verið sönn, en segir að þess beri að gæta, að inn í Landnámsbók sé skotið „ýmsum sögnum og þjóðsögum, sem eigi eru allar jafnáreiðanlegastar“. Um skipasmíðina þarf ekki að efast. Bóndinn í Hvalfjarðarbotni hefir smíðað þar „curragh“ og haft til kaupferða, líklega til Írlands. En um nafn bóndans mætti frekar efast að rétt væri, en hefði skolast í munni og meðferð, nema kenningarnafn sé að ræða.
HestasteinnLíklegt er, að í Botni hafi frá landnámstíð verið hvíldarstaður ferðamanna, eða áfangastaður, sem nú er kallað. Slíkan stað kölluðu fornmenn áivang. Því svipar furðulega mikið til nafn bóndans írska, Ávangur. Getur ekki skeð að hann hafi fengið það kenningarnafn af staðnum? Slíkar nafngiftir voru til, sbr. Þórarinn Króksfjörður.“
„Svæðið umhverfis Botnsdal, innsti hluti Hvalfjarðar, er að hluta sögusvið Harðar sögu og Hólmverja. Ein hetja þeirrar sögu, Geir Grímsson frá Grímsstöðum fór til Noregs ásamt Herði fóstbróður sínum. Er Grímur kom til baka „keypti hann land í Neðra-Botni og færði þangað bú sitt, og var allgagnsamt“. þar bjó hann og þaðan fóru þeir félagar í ránsferðir uns þeir rifu húsin í Neðra-Botni og fluttu viðina út í Geirshólma. þar byggðu þeir skála yfir sig og lið sitt.
Auk þessara kappa hafa aðrir gert dalinn frægan á síðari tímum. Í Stórabotni fæddist og ólst upp Jón Helgason ritstjóri og rithöfundur (f. 1917). Liggja eftir hann margar bækur bæði skáldsögur og sagnaþættir byggðir á sannsögulegum atburðum.

Holukot

Holukot (fornmannabýli) – tóftir.

Í Litlabotni bjó um tíma á fyrri hluta þessarar aldar Beinteinn Einarsson. Hann átti nokkur börn og voru flest þeirra þekkt fyrir skáldgáfu sína. Má þar m.a. nefna Pétur (f. 1906), Halldóru (f. 1907) Einar (f. 1909) og Sveinbjörn (f. 1924) sem síðar var allsherjargoði Ásatrúarmanna. Annað skáld, Jón Magnússon (f.1896), ólst einnig upp á Litlabotni.“
Lúther kann skil að öllum ábúendum í Botni síðustu aldirnar. Jón Þorkelsson var t.a.m. síðasti ábúandi á Stóra-Botni uns búskap var hætt þar 1982.

Holukot

Holukot – tóftir.

Annars vekur það sérstaka athygli hversu litlar og takmarkaðar merkingar (leiðbeiningar og fróðleik) er að finna á jafn sagnaríku svæði og Hvalfjarðardalirnir eru. Og ekki eru merkingar betri þar sem náttúruminjarnar eru annars vegar. Þegar t.d. komið er að bifreiðastæðinu við Stóra-Botn má segja að hefjist ratleikur í hvert sinn er einhver vill leggja á sig að finna hæsta foss landsins, Glym. Oft má sjá fólk á ráfi um svæðið. Nú, á tímum menningartengdrar ferðaþjónustu, virðast orð forsvarsmanna og -kvenna einungis hjóm eitt, því óvíða hefur þeim verið fylgt eftir á ferðamannaslóðunum sjálfum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Magnús Lárusson í Lesbók Mbl. 12 nóv. 1933; Hvalfjörður.
-Árni Óla, Grúsk, Lesbók Mbl. 04. maí 1958, bls. 246-7.
-Jón Helgason, Árbók Ferðafélags Íslands 1950.

Lúther

Botnsdalur

Ætlunin var að ganga frá Stóra-Botni upp með Viðhamrafjalli og fylgja síðan Botnsánni ofan við Glym að Sellæk.
Þar við mótin á að hafa verið selstaða frá Stóra-Botni. Innar er Breiðifoss þar sem áin Fossinnrennur með norðanverður Hvalfelli (848 m.y.s.).
Í bakaleiðinni var ætlunin að skoða Þvottahelli í Glymsgljúfrinu, undir hæsta fossi landsins, 198 m hár. Við Glym á Þorsteinn Gíslason að hafa ort kvæði sitt um Botnsdal.

Nafn fossins kemur af þjóðsögu er segir að álfkona hafi breytt manni sem sveik hana í tryggðum í hvalinn Rauðhöfða. Þá hafi Rauðhöfði tekið að granda bátum í Faxaflóa. Í Hvalfirði fórust með einum bátnum tveir synir prestsins í Saurbæ. Þá hafi presturinn, sem orðinn var gamall og blindur, gengið niður að sjávarmáli og tyllt staf sínum í hafið. Rauðhöfði kom syndandi og teymdi presturinn hann upp eftir Botnsá. Þegar komið var í gljúfrið þar sem fossinn dettur hafi verið svo þröngt að jörðin hafi hrist og drunur hljómað, og af því dregur Glymur nafn sitt. Rauðhöfði endaði í Hvalvatni, sem er upptök Botnsár er sagt að hann hafi sprungið af áreynslunni.

Glym

Í Morgunblaðinu árið 1967 er grein um Hvalfell og nágrenni eftir Gest Guðfinsson: „Hvalfell í Botnsdal er tiltölulega ungt fjalL Sköpunarsögu landsins hefur verið alllangt komið, þegar það varð til. Þyrillinn og Múlafjallið eru t. d. bæði eldri, sama er að segja um Botnsdalinn, sem áður virðist hafa náð miklu lengra til norðausturs heldur en nú. Við tilkomu þessa fjalls hafa orðið miklar landslagsbreytingar á þessum slóðum, sem hverjum náttúruskoðara mundi þykja nokkurs um vert að kynnast. Í fyrsta lagi hefur myndazt stöðuvatn í kvosinni ofan við fellið, sem til skamms tíma hafði það m. a. sér til ágætis að vera dýpsta vatn landsins eða þangað til Öskjuvatn varð til upp úr 1875. Í öðru lagi hefur orðið þarna til foss í ánni, sem fellur úr vatninu, hæsti foss á Islandi, og er það að vísu nokkuð til að státa af. Í þriðja lagi er fjallið hinn ákjósanlegasti útsýnisstaður, ber enda allmiklu hærra en nágrannafjöllin, Múlafjallið og Þyrillinn. Öll þessi umsköpun hefur verið um garð gengin löngu áður en Íslandsbyggð hófst. Engar sögur fara þó af fjallinu á fyrstu öldum Islandsbyggðar og er þess hvergi getið í landnámssögunni sérstaklega, enda þótt minnzt sé á Hvalfjörð og Botnsdal.

Hvalfell

Hvalfell.

Líklega dregur Hvalfell nafn af lögun sinni, minnir á hval. Aftur á móti er að finna í gömlum bókum miklu skáldlegri skýringu á nafngiftinni, en hún er í stuttu máli á þá leið, að hvalur, kallaður Rauðhöfði, grandaði báti af Hvalfjarðarströnd, og fórust þar tveir synir prestsins í Saurbæ. í hefndarskyni teymdi klerkur hvalinn upp eftir Botnsá, sem þó getur naumast hvalfær talizt, að manni sýnist.
„En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir.
Glymur-10En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn. Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell. Þegar Rauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hef ur síðan ekki orðið vart við hann, en fundizt hafa hvalbein mjög stórkostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. Hvað sem sannleiksgidi þessarar sögu líður, þá tel ég vel ómaksins vert að eyða einni dagstund á þessum slóðum, ganga á Hvalfell og að Hvalvatni, og enginn skyldi láta hjá líða að heilsa upp á Glym og horfa niður í árgljúfrin miklu vestan við fellið,, má vera að mönnum skiljist þá, að Saurbæjarklerkur vandaði Rauðhöfða lítt leiðina.
Ég mun nú hér á eftir lýsa nokkuð gönguleið um þessar slóðir og því, sem fyrir augu ber, en haga þó ferðinni dálítið öðruvísi en klerkur forðum. En áður en lengra er farið, held ég væri rétt að gera sér grein fyrir landslaginu í stórum dráttum og drepa á nokkur söguleg atriði.
Glymur-11Inn af Hvalfirði liggja tveir grösugir dalir, Brynjudalur og Botnsdalur, sá síðarnefndi norðar. Milli þeirra er Múlafjall. Upp af því er Hrísháls og Hríshálsvegur svokallaður milli dalanna. Fyrir botni Botnsdals eru Botnssúlur, myndarleg fjallahvirfing, hæsti tindur þeirra er 1095 m og er venjulegasta gönguleið á hann frá Svartagili í Þingvallasveit, en hnúkurinn, sem næstur er Botnsdal, er litlu lægri eða 1089 m og liggur vel við að ganga á hann úr Brynjudal eða Botnsdal upp svonefndan Sandhrygg. Af Botnsúlum sér vel um allan suður- og vesturhluta landsins. Norðvestur af Botnsúlum er svo Hvalfell. Það er allmiklu lægra eða 848 m á hæð Milli Botnsúlna og Hvalfells heitir Hvalskarð. Þaðan kemur Hvalskarðsá og sameinast hún Botnsá niðri í dalnum rétt austan við túnið í Stóra-Botni. Botnsá á hinsvegar upptök sín í Hvalvatni og fellur í hrikalegum gljúfrum niður í dalinn vestan við fellið.

Hvalfell

Hvalfell – útsýni út Hvalfjörð.

Hvalfellið er gróið nokkuð uppeftir, vaxið skógarkjarri og lyngi, en síðan taka við berar móbergsklappir og grjótskriður. Neðan til er hlíðin sundurskorin af djúpum gilskorningum og bera tungurnar milli þeirra sérstök nöfn. Þær eru fjórar talsins og heita, talið frá Botnsá: Einitunga, Breiðatunga, Mjóatunga og Ásmundartunga. Þetta er alveg torfærulaus leið og ekki sérlega brött. Þegar upp er komið er sjálfsagt að blása vel mæðinni og líta í kringum sig, flestum þykir útsýnið harla frítt, þótt ekki sé það ákaflega mikið.
Í Landnámu segir svo: „Maðr hét Ávangr, írskur at kyni. Hann byggði fyrst í Botni. Þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip ok hlóð Glymrþar, sem nú heitir Hlaðhamarr.“ Vandfenginn mundi nú skipaviður í Botnsdal, þótt enn sé að vísu skógarkjarr í dalnum, hins vegar hefur örnefnið Hlaðhamar varðveitzt fram á þennan dag, er það sunnan við Botnsvoginn. Allfjölfarin leið var lengi milli Hvalfjarðar og Þingvallasveitar um Botnsdal og meðfram Súlum sunnanverðum, en síðan um Öxarárdal, og heitir Leggjabrjótur. Er hún nú aflögð með öllu, en þetta er hin skemmtilegasta gönguleið. Það má kallast létt verk og löðurmannlegt að ganga á Hvalfell, sé miðað við hin erfiðari fjöll landsins, enda leiðin fær hverju barni, ef rétt er farið.

Storabotnssel-8

Við skulum nú rölta þetta í rólegheitum og gefa okkur umfram allt góðan tíma. Við hefjum gönguna við túnið í Stóra-Botni, en þangað er ökufært. Við göngum niður að Botnsánni vestan við túnið og yfir ána á göngubrú, en síðan gamla götutroðninga, unz við komum að Hvalskarðsá rétt ofan víð áamótin. Þar förum við yfir hana. Hún er venjulega vatnslítil og auðvelt að stikla hana á steinum. Síðan liggur leiðin upp Ásmundartungu, við troðum okkur gegnum skógarkjarrið eins og þaulvant skógarfé og stefnum beint á fjallsöxlina suðaustanverða. Við erum hér stödd á mótum ungrar og gamallar jarðmyndunar. Svo er að sjá sem Botnsdalurinn hafi einhverntíma náð allmiklu lengra til norðausturs en nú. Á ísöld, þegar dalurinn var fullur af jökli, virðist hafa orðið gos í dalnum undir jöklinum og hlaðizt upp þetta móbergsfell um þveran dalinn. Þegar aftur hlýnaði og jökla leysti af þessum slóðum, hefur síðan myndazt þarna djúpt stöðuvatn ofan við fellið. En það heitir nú Hvalvatn og er eins og áður segir annað dýpsta vatn landsins um 160 m þar sem það er dýpst.

Hvalfell

Efst á Hvalfelli.

Margt kemur í hugann, þar sem maður situr á kolli Hvalfells, lætur líða úr sér og horfir út á Hvalfjörðinn, langan og mjóan. Utan við Þyrilsnesið rís Geirhólmi úr sjó, hvítur af fugladriti. Hann kannast margir við úr Harðar sögu og Hólmverja. Þeir fóstbræðurnar, Geir Grímsson og Hörður Grímkelsson úr Neðra-Botni settust að í hólmanum ásamt konu Harðar, Helgu Haraldsdóttur jarls á Gautlandi og tveim sonum þeirra ungum, Grímkatli og Birni. Höfðu þeir með sér flokk manna og rændu bændur í héraðnu og urðu illa þokkaðir.

Varda

Segir sagan, að „átta tigir manna annars hundraðs váru í Hólmi, þá er flestir váru, en aldri færri en á inum átta tigi, þá er fæstir váru.“ Þess má geta, að býlin í Botnsdal, sem nú heita Litli-Botn og Stóri Botn, hétu þá Neðri-Botn og Efri-Botn. Þar kom, að landsmenn gerðu samtök um að ginna Hólmverja úr eynni með því að heita þeim griðum og fullum sáttum. Létu þeir ginnast einn af öðrum og voru allir drepnir jafnótt og þeir komu á land. Loks eru ekki aðrir eftir en Helga og synir hennar tveir. Hefur hún nú uppgötvað svik landsmanna. „Hon hugsar nú sitt mál. Þat verðr nú hennar ráð, at hon kastar sér til sunds ok leggst til lands ór Hólminum um nóttina ok flutti með sér Björn, son sinn, fjögra vetra gamlan, til Bláskeggsár, ok þá fór hon móti Grímkatli, syni sínum, átta vetra gömlum þá, ok flutti hann til lands.

Selsstígur

Þat heitir nú Helgusund, Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli ok hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hon bar Björn á baki sér, en Grímkell gekk.“ Þetta er sjálfsagt lygasaga, en jafngóð fyrir því. Að áliðnu sumri árið 1402 kom út skip í Hvalfirði, líklega við Hrafneyri. Skipið átti Einar nokkur Herjólfsson. Það þóttu löngum góð tíðindi, þegar skip kom af hafi hlaðið allskonar varningi. Hins vegar varð þessi skipkoma Íslendingum lítið fagnaðarefni eða happaatburður. Með Einari fluttist sem sé drepsóttin mikla, sem síðan hlaut nafnið Svartidauði. Það var einmitt í Botnsdalnum, sem hinir fyrstu urðu sóttinni að bráð. Svo segir i Vatnsfjarðarannál: „Þá kom út plágan í Hvalfirði. Kom í Hvalfjörð Einar Herjólfsson.

Selsstígurinn

Var á því skipi sótt mikil. Sló þegar sóttinni á landsfólkið með mannfalli. Andaðist séra Oli Svarthöfðason og 7 sveinar hana í Botnsdal, þegar hann reið frá skipinu.“ Það er álit fræðimanna, að þriðjungur eða helmingur landsmanna hafi látizt úr drepsóttinni.
En hverfum nú frá sögum og sögrium, þótt af nógu sé að taka, því að enn er löng leið fyrir höndum og ekki til setunnar boðið. Við höldum nú austur af fjallinu og niður í Hvalskarð. Satt að segja er þetta dálítið óhnöggleg leið, allbrött grjóthlíð með klettabeltum og urðarköstum, og þótt hún sé vel fær hverjum sem er, þá draga allir andann léttara, þegar niður er komið. Enda er maður þá kominn að Hvalvatni og er þar sléttar grundir og lyngflesjur undir hlíðinni.

Botnsdalur

Botnsdalur og nágrenni – kort.

Þarna má finna blóðrauða brúska af vetrarblómi snemma á vorin, en það er einna fyrst á ferðinni allra íslenzkra blómjurta og verður stundum illa úti í vorkuldunum, þótt harðgert sé. Hvalvatn er allstórt vatn og veruleg landslagsprýði. Við austurenda þess skagar dálítill móbergs höfði út í vatnið og heitir Skinnhúfuhöfði, kenndur við tröllkonu, að því ætlað er, en ekki kann ég ættir hennar að rekja. Upp frá vatninu vestanverðu er hæðarhryggur, sem Veggir heitir. Vestan við Veggi tekur síðan við Botnsheiði, votlend og flatlend, og nær allt vestur til Svínadals og norður til Skorradals, er þar sauðland gott.
VetrarmyndNú liggur leiðin vestur með vatninu sunnanverðu undir fjögur hundruð metra háum móbergshömrum og er farið fast með vatninu, en undirlendi er ekkert að kalla. Vestarlega undir hömrunum er dálítill klettaskúti alveg niður við vatnið. Þessi skúti heitir Arnesarhellir. Hann er kenndur við Arnes nokkurn Pálsson þjóf og útilegumann, en hann mun almenningi einkum kunnur af útvarpsleikriti Gunnars M. Magnúss, rithöfundar, í múrnum, svo og úr Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar sem útilegufélagi Eyvindar og Höllu, þótt dregið sé nú í efa, að sögnin um dvöl hans með þeim eigi nokkra stoð í veruleikanum. Hins vegar er vitað, að hann átti heima við Hvalfjörð áður en hann lagðist út, baeði á Kjalarnesi og Akranesi, og má rétt vera, að hann hafi einhvern tíma legið úti í þessum skúta, en munnmæli herma, að hann hafi dvalið þar vetrartíma og lifað m. a. á silungi úr vatninu.

Arnes var að lokum fangaður og dæmdur og sat um nær tuttugu og sex ára skeið í tukthúsinu í Reykjavik, þar sem nú er stjórnarráð Íslands.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Með honum dvaldist þar um skeið Þórdís nokkur Karlsdóttir, eignaðist hún barn í tukthúsinu og kenndi Arnesi og gekkst hann fúslega við barninu, enda kom þar brátt, að hann var gerður að varðmanni tukthússins og nokkurs konar siðferðilegum læriföður tukthúsfélaga sinna, en þeir báru honum misjafnlega söguna. Hann losnaði þó um síðir úr tukthúsinu og dó í Engey 7. sept. árið 1805, háaldraður maður, og var jarðaður í kirkjugarðinum við Aðalstræti. Enn getur að líta þarna í skútanum í Hvalfelli nokkrar grjóthellur úr hinum harða svefnbálki útileguþjófsins, en tófugras og aðrar bergjurtir hafa skotið rótum í hellisloftinu og eiga þarna rósama ævi. Enginn veit nú lengur með hvaða hugarfari Arnes Pálsson hefur lagzt til svefns í þessum skúta undir fjallshömrunum með grængolandi hyldýpið við rekkjustokkinn eða vaknað til vesaldómsins að nýju, öll eru vitnin þögul sem gröfin um hinn ógæfusama næturgest, sem hér átti sér hvílustað endur fyrir löngu.

Sellækur

Útfall Botnsár er vestast úr vatninu og er nú um gróið land að fara niður með ánni vestan við Hvalfellið, grasflesjur og lyngmóa. Fljótlega komum við að Breiðafossi, sem fellur á aflíðandi flúðum, smáfríður foss í notalegu umhverfi. Segja má, að Breiðifoss sé forboði markverðari fyrirbæra í ánni og landslaginu, Glymur er sem sé á næstu grösum. Innan stundar stöndum við á barmi gljúfursins mikla, þar sem Botnsá steypir sér í hvítum fossi fram af 196 m hárri bergbrúninni þverhníptri. Bezt sést fossinn af bergsnös einni austan við gljúfrið nokkuð neðan við fossinn. Fossinn er venjulega frekar vatnslítill, en gljúfrið þröngt og hrikalegt, skiptast þar á margs konar berglög í mismunandi litum, hreinasta augnayndi, og jarðfræðingum eflaust mikil opinberunarbók.

Glymur

Glymur að ofan.

Vestanmegin niður með ánni heita Glymsbrekkur. Nú er um tvo kosti að velja. Annað hvort að fara upp fyrir fossinn aftur og vestur yfir ána og niður með ánni Hvalfellsmegin, en þar er yfir nokkra djúpa gilskorninga að fara, en engu að síður skemmtileg og auðfarin leið. Neðar í ánni er enn dálítill foss, Folaldafoss, umvafinn birkikjarri og hvannastóði. Brátt er hringnum lokað. Við höfum gengið á Hvalfell og umhverfis Hvalfell. ferðin hefur sjálfsagt tekið sjö — átta tíma. En Hvalfell stendur fyrir sínu og enginn þarf að sjá eftir deginum.“
Gengið var frá bílastæðinu við Stóra-Botn eftir merktum stíg (gulir steinar) að Glymsbrekkum og var markmiðið að leita að hugsanlegum selstíg upp brekkurnar. Vörður á brúninni bentu til að svo gæti verið. Stígar eru þarna í brekkunni en virðast vera seinnitíma verk manna og/eða dýra.

Stórabotnssel

Stóra-Botnssel norðan Hvalfells.

Það er ljóst að þarna er vel fær leið bæði upp og niður, enda fannst þarna sannfærandi selstígur upp brúnirnar að þessu sinni. Fólk virðist hafa fylgt gömlu götunni að fossinum að hluta. Hún er bæði greiðfær og í raun stysta leið milli bæjarins og selstöðunnar. Stígurinn er mjög greinilegur neðan við efri brúnir sem og ofan þeirra. Sé honum fylgt rétt liggur hann beint á selið.
Ofan við Brekkurnar var selstígnum fylgt að Stóra-Botnseli. Selið er auðfundið þegar gengið er frá Botnsánni upp með Sellæknum (austan við lækinn, rúmlega 100m neðan við girðingu).
Sjá meira um  leitina að Litla-Botnsseli HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-mbl., Gestur Guðfinsson, 21. maí 1967, bls. 12 og 14.
-Wikipedia

Þvottahellir-9

Botn

„[Vissulega] er margt að finna í Botnsdalnum, sem glatt getur augað.“

Lúther

Í örnefnalýsingum fyrir bæina Litla-Botn og Stóra-Botn í Botnsdal í Hvalfirði er getið um fjölmarga áhugaverða staði, s.s. réttir, stekki, tóftir (Holukots), hella (Þvottahelli, Þjófahelli og Hraunshelli) og þrjár selstöður. M.a. er þar getið um tvær selstöður frá fyrrnefnda bænum sbr.: „Hæðirnar sunnan Sóleyjarflóa og að Skútalæk heita Hallbjarnarköst. Austan þeirra eru tvö flóasund samliggjandi, mosahæð skilur þau í sundur. Það vestra heitir Selflói. Efst í honum eru rústir af seli. Sér þar greinilega fyrir tveimur kofarústum og smágerði. Upp af rústunum er laut, er nær næstum að Sóleyjarflóa. Norður af Selfjallinu heyrði ég talað um, að hefði verið annað sel, en ekki veit ég, hvar það var.“
Um selstöðu frá Stóra-Botni segir: „Við göngum austur með Botnsánni og komum brátt að nokkuð vatnsmiklum læk, sem rennur í Botnsána. Þessi lækur nefnist Sellækur og á upptök sín í Eystrikrók og í Veggjum. Austan við Sellækinn eru gamlar seltóftir, sem eru löngu uppgrónar. Hefur þarna eflaust verið haft í seli frá Stóra-Botni fyrr á árum.“
Lúther Ástvaldsson bóndi á Þrándarstöðum í Brynjudal fylgdi FERLIR um svæðið. Hann gjörþekkir aðstæður, enda fékkst staðfesting fljótlega staðfesting á því.

GöngusvæðiðÍ örnefnalýsingu fyrir Litla-Botn segir Jón Þorkelsson m.a.:
„Brunná [í vestanverðu Selfjalli] er mjög straumhörð í vatnavöxtum og margir smáfossar og ker og katlar í henni (gæti ef til vill dregið nafn sitt af þeim).  Um 700 metrum fyrir ofan þjóðveginn er allsérstæður foss í ánni, sem heitir Paradísarfoss. Áin fellur fyrst fram af allháum klettastalli og kemur niður á bratta bergflúð, sem hún hefur í tímanna rás grafið holu í, og spýtist úr henni í fallegum boga upp í loftið, svo næstum má ganga undir bununni í vatnavöxtum.
Paradís er skógi vaxin brekka í eystri gilbarminum rétt við fossinn. Rétt neðan við hana er smáhellir, sem var stundum notaður fyrir fé. Fossinn sést af þjóðvegi vestan Brunnár á stuttum kafla, en vel sunnan Botnsár af Hlaðhamri.
SelfjallRétt austan við Brunná er Mígandalækur, sem á upptök sín í Skorningi í há-Selfjallinu, rennur svo eftir þröngu dalverpi, Mjóadal, fram á brún og niður í Botnsá. Um 400 metra ofan þjóðvegar er foss í læknum, sem heitir Mígandi. Nokkuð fyrir innan Mígandalæk er lægð frá brún og niður að Botnsá, sem heitir Hólmagarðslág, og eftir henni rennur Hólmagarðslækur. Við lækinn, þar sem hann rann í ána, voru garðleifar, sem haldið er að hafi verið í sambandi við veiðiskap. Botnsskógur heitir allur skógurinn frá Brunná og inn að Stekkjará (Selá) og fjallið upp af honum Selfjall.
GataÖrnefni milli Mígandalækjar og Brunnár eru neðst: Brunnáreyrar neðan vegar, en ofan Háimelur. Brekkurnar þar upp af heita Utastistallur og ná upp að brún, en fyrir ofan brúnina er hjalli með grasi vöxnum brekkum, sem heita Útstallar.
Örnefni milli Mígandalækjar og Hólmagarðslækjar eru neðst upp af Bláhyl, Bláhylsholt, en ofar Vörðuholt austan við Mígandalækinn, en brekkurnar milli hans og Hólmagarðslágar heita Miðstallur (Hólmagarðslágarstallur). Upp af Miðstalli er svo (Selfjalls-) Nípa.
Ef við færum okkur aftur niður að Botnsá og athugum örnefni milli Hólmagarðslækjar og Stekkjarár (Selár), er Hvítimelur norðan brúar á Botnsá, og stendur Botnsskáli neðst á honum.  Í honum er deigur mór og ísaldarleir og verður því hvítur til að sjá í þurrkum.

Háafell

Milli Hvítamels og Stekkjarár er Stekkjarmýri, nær hún frá Botnsá og upp að Stekkjarbletti, en þar eru beitarhús, Stekkjarhús, og búið að rækta túnin í kringum þau, og breyttist þá nafnið í Stekkjartún. Neðst og vestast í Stekkjarmýri var mór færður upp, en þótti ekki góður. Síðast var þar tekinn mór 1932. Utanvert við Stekkjarhúsin eru Stekkjarholt, en upp af þeim eru tveir klapparhólar rétt við Hólmgarðslág, sem heita Stekkjarklettar.
Í framanverðu Selfjalli eru tvö klettabelti, er ná frá Brunná og að Stekkjará, neðan þessara klettabelta eru grasi vaxnir hjallar. Örnefni á neðri hjallanum: Utastistallur og Miðstallur vestan Hólmgarðslágar er áður getið, en austan lautar tekur við Hvítablettsstallur, sem nær að grasi vöxnum hvammi vestan við Stekkjargilið, Kúastalli (Hvítabletti), hann er allur grasi vaxinn, og í honum er mikil snarrót og er því hvítur til að sjá vor og haust. Kýr voru oft reknar þangað á sumrin milli mála, því þar þótti góð beit fyrir þær. Niður undan Kúastalli er valllendisbrekka umgirt skógi, nefnd Blettur. Skarð er í klettabeltið ofan við Hvítablett, Hvítablettsskarð.
EViðhamrafjallfra klettabeltið er í suður og austurbrún Selfjalls og nær frá Stekkjargili á móts við Tæpugötu og allt að Brunnárgili. Brekkurnar milli klettabeltisins og Stekkjargils austan í Selfjalli heita Innstallar og ná að Skitsóttargili, sem er skarð í klettabrúnina, er hún beygir til vesturs. Þá taka við Efristallar upp af Hvítabletti, ná þeir að Hólmagarðslág. Ofan við Efristalla er lítið klettabelti, og er (Selfjalls-) Enni ofan þess. Vestar er svo Nípa og Útstallar fyrir vestan Hólmagarðslág að Brunnárgili.
Fjallið upp af bænum heitir Háafell, í efstu brún þess er klettabelti, er nær frá suðvesturhorni þess að sunnan og austan, þar til þeir sameinast Litla-Botnsárgljúfri, og heita Háafellsklettar.  Skarð er í klettana við gljúfrið, og niður undan því er grashvammur, sem heitir Flatir. Á móts við Flatir hverfur gilið að mestu, og má þar fara með hesta yfir Litla-Botnsána (í hdr. Litlubotnsána), en rétt neðar fellur áin ofan í þrönga gilskoru, sem er efri endinn á Litla-Botnsgili, og heita Þrengsl.

Litli-Botn

Framan við Flatir, milli Háfellskletta og Litla-Botnsgils, eru Skriður. Fram[an] í Háafelli eru grasbrekkur. Laut liggur upp eftir miðju fjallinu og klýfur klettabeltið, Kúalaut, þangað voru kýr stundum reknar á sumrin.
Milli Háafells og Selfjalls er Kiðadalur, þar sem Stekkjará rennur eftir í gili. Innan við miðjan dal rennur Stekkjaráin fast að Háafellinu. Þar lá engjavegurinn efst í gilbrúninni og var kölluð Tæpugata. Neðan við Tæpugötu eru Mosar, sem ná niður að Hnausum. Hægt var að fara með hesta af Mosum yfir á Innstalla á einum stað eftir klettastalli í gilinu. Það hét Einstigi.
Neðan við Háafellið er klettabelti, er nær frá Litla-Botnsgili og að Hnausum og heita Dalsklettar. Dalur er neðan þeirra vestast, en Breiðarskógur austar og nær að Litla-Botnsgili. Fyrir neðan Dalinn er Hnausabrún, er nær að Breiðarskógi og beygir þar til suðurs. Þar er holt á brúninni með tveimur vörðum, enda kallaðar Vörður.
BotnsdalurBrekkan sunnan við Vörður heitir Skógarbrekka. Þar byggði Jón Helgason ritstjóri sér íbúðarhús, girti í kringum það og gróðursetti greni og furuplöntur. Nokkru vestar er sumarbústaður, sem Jón Skaftason borgardómari á og kallar Nöf, milli húsanna er klettahóll, sem heitir Steinsskúti. Ekki veit ég, af hverju hann dregur nafn.
Neðan Skógarbrekkna og Breiðarskógs er melhryggur, vestasti hluti hans austan við túnið heitir Húsamelur. Ekki munu á honum hafa staðið stór hús, en nafn sitt dregur hann af húsbyggingum barna, sem hér hafa um aldir haft sinn horna-, völu- og kjálkabúskap. Neðan þessa mels eru Eyrar, slétt flöt með skógi vaxinni brekku sunnan í melnum. Þar hefur undirritaður byggt sér hús, girt og plantað út útlendum skógarplöntum.
Engjavegurinn lá niður Mosana austan við Hnausa í sneið ofan í Dalinn vestast og vestur af Glymur-221Hnausabrún, og var kallaður Snið. Vestur og niður af Snið[u]num eru Hnausar, og framan í þeim eru Skógarbrekkur. Neðan við þær er klapparhóll, girtur klettabelti í hálfhring, sem heitir Klapparholt. Fyrir neðan það er Stekkjarmelur, og nær hann alla leið niður undir Botnsá. Vegurinn út í Stekkjartún lá yfir melinn, og mun hann draga nafn sitt af því. Ofarlega, austan við Stekkjarmelinn, er annar melur. Milli þeirra er graslaut, kölluð Sláttulág.
Heimreiðin að Litla-Botni lá áður fyr[r] upp með Stekkjarmelnum, yfir lítið klapparholt fyrir utan túnið. Holtið heitir Mannabyggð. Ekki mátti ríða hart yfir holtið, því trú manna var, að í því byggju álfar eða huldufólk, og átti illt af að hljótast, ef út af því væri brugðið. Ofláti einn, sem ekki vildi taka tillit til þessa heilræðis, hleypti hesti sínum yfir holtið, en hesturinn datt og knapinn stórslasaðist. Nokkru ofar og austar er annað holt, sem heitir Steinkirkja. Ekki er það beint líkt kirkju í laginu, en skyggnt fólk taldi sig sjá prúðbúið huldufólk fara frá Mannabyggð að Steinkirkju á sunnudögum.
Neðan við túnið eru sRéttléttar eyrar, nú að mestu grónar, en voru áður sundurskornar eftir hlaup úr Litla-Botnsá (í hdr. Litlu-Botnsá), þær heita Hólmar.
Dalurinn milli Selfjalls og Grjóthlíðar vestan Brunnár heitir Brunnárdalur, nær hann frá Útstöllum að Brunnárbotnum. Brunná kemur úr Brunnártjörn, rennur fyrst um sléttlendi, en móts við norðurendann á Selfjalli – kallaður Selfjallshali – hefur áin grafið allmikið gljúfur, þar sem hún rennur ofan í Brunnárdalinn. Það heitir Brunnárgljúfur. Frá Selfjallshala liggur hæðarbrún vestan í há-Selfjalli, kallað Langakast, nær það alla leið að Skorningi sunnan í há-Selfjalli. Milli Selfjalls og Digravörðuhryggs (svo í hdr.) er Selfjallsflói og austar Selgilsdrög, en þar á Stekkjará upptök sín. Austan við Selfjallið eru svo Selfjallsdrög.
Fyrir ofan Innstallana vestan Stekkjarár, móts við Tæpugötu, er klapparhnúkur, sem heitir Kiðadalshnúkur. Norður af Brunnártjörn eru Fálkagilstjarnir á mörkum Litla-Botns og Fitja. Austan þessara tjarna er allhár melhryggur, víða mosavaxinn, sem heitir Digravörðuhryggur, þar sem hann er hæstur, eru tvær vörður, kallast þær Digravörður (svo í hdr.). Austan við hrygginn eru tvær tjarnir, (Stóra-) Krókatjörn, sem Litla-Botnsá kemur úr – út í hana ganga tvö nes, sem næstum skera í hana sundur – og sunnar Djúpatjörn, sem lækur rennur úr í Krókatjörn. Heyjað var með þessum læk, svo og í flóanum sunnan og vestan við Krókatjörn.

Litli-Botn

Neðarlega, austan við Digravörðuhrygg, er hvilft í heiðina, sem heitir Sóleyjarflói. Mikið er af holtasóley vestan og ofan við flóann, en norður af honum er holt, sem heitir Sóleyjarhæð. Lækur rennur úr Sóleyjarflóa niður í Selgilsdrög og í Stekkjará, sem heitir Friðfinnsskurður.
Hæðirnar sunnan Sóleyjarflóa og að Skútalæk heita Hallbjarnarköst. Austan þeirra eru tvö flóasund samliggjandi, mosahæð skilur þau í sundur. Það vestra heitir Selflói. Efst í honum eru rústir af seli. Sér þar greinilega fyrir tveimur kofarústum og smágerði. Upp af rústunum er laut, er nær næstum að Sóleyjarflóa. Norður af Selfjallinu heyrði ég talað um, að hefði verið annað sel, en ekki veit ég, hvar það var, og sér þess nú engin merki.
Eystra flóasundið heitir Svartiflói, blautur brokflói, og er hann því svartur til að sjá. Lækur rennur úr flóanum sunnan Hallbjarnarkasta, niður mosaþembur og fram af allháum klettastalli ofan í Kiðadalsbotn. Hann heitir Skútalækur. Þar sem hann fellur fram af klettunum, er allhár foss, en hellisskúti bak við fossinn og beggja vegna við hann. Skútinn dregur nafn sitt af svörtu berginu og heitir Svartiskúti. Heybandsvegurinn lá frá Tæpugötu yfir Skútalækinn neðan skútans og í sneið upp bratta valllendisbrekku í botni Kiðadalsins. Neðan brekkunnar greinist Stekkjargilið á stuttum kafla, svo hægt er að fara þar með hesta yfir, en á móts við brekkuna tekur við annað gil, sem er áframhald af Stekkjargili og nær norður í Selgilsdrög og heitir Kiðagil. Við norðausturenda þess er klapparhóll, sem heitir Einstakihóll.
Flóinn meðfram Litla-Botnsá (í hdr. Litlu-Botnsá), frá Krókatjörn og allt að Háafellstjörn, sem er norðast á Há[a]fellinu, heitir Skurðir. Voru bakkarnir meðfram Litla-Botnsá oft slegnir, meðan heyjað var á heiðinni. Graslaut liggur frá Háafellstjörn og fram eftir miðju Háafelli og að suðvesturhorni þess, víða vaxin valllendis- og móagróðri, og undu hross sér þar vel, enda heitir lautin Hestalaut.
KrosshóllÞá er komið að túninu. Hóllinn fyrir ofan bæinn, austan við Bæjarlækinn, heitir Bæjarhóll, efst upp á honum er smáhóll með grasbrekku mót suðvestri, sem heitir Fagurhóll. Fyrir austan bæinn er annar hóll, kallaður Smiðjuhóll, á honum stóð smiðja, og sáust rústir hennar, þar til hóllinn var sléttaður.
Milli Bæjarhóls og Smiðjuhóls kemur upp vatnslind. Efst við hana er allstór grasþúfa, vaxin vallhumli og fleiri grösum. Gömlu konurnar tíndu grösin og bjuggu til úr þeim smyrsl og meðul. Þúfu þessa mátti ekki slá, og var það aldrei gert.

Útihús

Krosshóll heitir syðsti hóllinn, neðan við Smiðjuhól. Þar er talið, að bænahús hafi verið forðum, en þess finnst hvergi getið. Þar var trékross í kaþólskum sið, og þótt hefur verða vart þar við álfa og huldufólk. Krosshóll var upphaflega mjög þýfður, áður en hann var sléttaður. Ein þúfan upp á hólnum var miklu stærst, og upp úr henni óx stór birkihrísla. Þessa þúfu mátti ekki slá eða hreyfa við hríslunni, því trú manna var, að hér væri bústaður huldufólks. Grein brotnaði af hríslunni eitt sinn, er börn voru þar að leik, og báru þau greinina heim, en er fólk á bænum vissi þetta, var farið með greinina að hríslunni og hún bundin við stofninn.
Bæjarflatir eru fyrir austan bæinn, en Bæjarþúfur fyrir framan hann, vestan við Krosshólinn. Fyrir neðan Bæjarflatir var lægð í túninu, kölluð Leynir.
Neðsti hluti túnsins austan Bæjarlækjar heitir Aukatún, og austast í því voru kofarústir, þar var sagt, að draugur ætti sér bústað. Draugur þessi var hrekkjóttur og illa lyntur. Eitt sinn að kvöldlagi, er bóndinn í Litla-Botni ætlaði að hýsa þar hesta sína, kom hann þeim með engu móti inn. Er hann fór að huga að, hverju þetta sætti, sá hann, að draugur stóð í kofadyrum og bandaði á móti hestunum. Bóndi reiddist, stökk heim og sótti byssu og skaut á drauginn. Urðu þá miklar eldglæringar, en er þeim linnti, var draugsi horfinn, enda gengu hestarnir þá hiklaust í húsið. En nokkru seinna dó kona bónda, og var draugsa kennt um, að hann hefði hefnt sín þannig á bónda. Milli Aukatúns og Krosshóls er slétt flöt, sem spratt lítið, Hungursflöt.
BæjarlækurinnNeðsti hluti túnsins vestan Bæjarlækjar heitir Nátthagi. Áður en hann var ræktaður, voru þar mikil garðabrot og rústir. Ef til vill hafa kvíaær verið hafðar þar í haldi. Fyrir ofan Nátthaga vestan lækjar var slétt flöt, sem heitir Grund, og fyrir ofan hana Fjósatunga milli heimreiðar og lækjar.
Hesthúshóll (Vesturhóll) er vestur af bænum fyrir ofan gömlu heimreiðina. Upp á honum vestast voru fjárhús, sem nú er búið að jafna við jörðu, en austast á honum var hesthúsið. Efst, sunnan í hólnum, var slétt flöt, sem nefnd var Fjárhúsenni. Austan í hólnum er hvammur. Þar eru fjárhúsin, og fjósið var þar í gamla daga. Ofan við fjárhúsin kemur upp lind, sem rennur austan við húsin ofan í Bæjarlækinn, hún þornaði í þurrkum, en í rigningum, og sérstaklaga í frostum, vildi hún bólgna upp, og þar mun fjósafólkið oft hafa bleytt fætur sína, enda heitir hún Prettur.
Austan Hesthúshólsins og milli Pretts og Bæjarlækjar er Gerðið. Hæðarhryggur liggur þvert yfir það og skiptir því í tvennt, Efra- og Neðragerði. Í Efragerði sjást enn garðhleðslur eftir gerði, þar sem kvíaær voru geymdar í á nóttunni, enda er Stöðullinn, hér fast fyrir ofan, grasi vaxinn klettastallur, þar sem ærnar voru mjólkaðar á málum. Framan í Stöðli sér enn greinilega fyrir kvíunum, hlöðnum úr stóru grjóti. Síðast var fært frá í Litla-Botni 1909. Lítill lækur á upptök sín í Hnausabrún og rennur fyrir austan Stöðul ofan í Bæjarlækinn rétt fyrir ofan bæinn, hann heitir Stöðulslækur. Tungan milli hans og Bæjarlækjarins heitir Stöðulstunga.
GöngusvæðiðFyrir vestan túnið var mýrarblettur, sem nú er búið að þurrka upp og breyta í tún, kölluð Mýri, í henni var rist torf og stungnir hnausar í vegghleðslur, neðst í henni var stundum færður upp mór, en þótti ekki gott eldsneyti.  Mór var síðast tekinn upp í Litla-Botni 1939.
Hæð er upp á Múlafjalli vestan Nóngils, er sól bar yfir hana, var hádegi, en er sól var yfir Holubungu, var nón.“

Þórmundur Erlingsson skráði framangreinda lýsingu.

Stóri-Botn
Við höfum nú gengið um allt Stóra-Botnsland. Það nær yfir 3/4 hluta Botnsdalsins og heil og hálf fjöll, sem að dalnum liggja. Í fylgd með huldum vættum höfum við fengið að kynnast örnefnum í dalnum og fjöllunum í kring. Við höfum komist að raun um að Botnsdalurinn á fáa sína líka hvað fegurð og hrikaleik náttúrunnar snertir. Þar eru háir tindar, sem ber við bláan himinn; þar eru snarbrattar fjallshlíðar með skógarbrekkum og grasgeirum.
Í Stóra-Botni

[Við finnum] vingjarnlega klappahjalla og skjólgóðar lautir með berjalyngi og blómjurtum. [Í dalnum] eru geigvænleg hrikagljúfur, sem kljúfa fjöllin efst frá brún og niður á jafnsléttu. Þar eru bjartir fossar, sem draga að sér athygli vegfarandans svo að hann verður að stoppa og virða fyrir sér mikilleik þess, sem Drottinn hefur skapað.
Göngusvæðið[Enn fremur má finna] fossandi læki, sem vilja komast sem fyrst niður brekkuna og sameinast djúpinu mikla í fjarska. [Dalurinn skartar] af líðandi lindum, nýsprottnum upp í dagsljósið úr iðrum jarðar til að svala mönnum og dýrum, já, öllum þeim, sem þyrstir eru og göngumóðir. Þar eru sléttar grösugar grundir og berjalyng; melar, sem ákjósanlegt er að nota til að hleypa gæðingum og láta þá stökkva og þar liðast [einnig] silungsá eftir dalnum, ýmist straumhörð eða hóglát, og færir margan góðan málsverð í bú þegar á sumar líður. Í giljum eru hellar, sumir næstum ófinnanlegir, svo sem Þjófahellir. Aðrir eru meitlaðir inn í hengiflug og inn í þá er illgengt, svo sem Þvottahelli. [Vissulega] er margt að finna í Botnsdalnum, sem glatt getur augað.

II. Landið sunnan Botnsár
Við leggjum leið okkar út Botnsdalinn alla leið að Botnsvogi. Þegar skammt er komið út með honum að Kötlugrófsunnanverðu komum við í grasi gróinn hvamm rétt við veginn, sem [kallast] Kötlugróf. Í Kötlugrófinni börðust kerlingarnar um hringinn Sótanaut, en [þá sögu] má lesa í Harðarsögu og Hólmverja. Upp undan Kötlugróf er skarð í hömrum Múlafjalls og ber það nafnið Lambaskarð. Múlafjallið, eða Múlinn eins og það er stundum nefnt, nær allt frá Lambaskarði í norðri austur að Súlum í Stóra-Botnslandi.
Skammt innan við Kötlugróf er klettahamar fast við sjóinn um flóð og heitir klettur þessi Hlaðhamar. Sagt er að í fornöld hafi verið byggt haffært skip úr Stóra-Botnsskógi og hlaðið við Hlaðhamar. Upp undan Hlaðhamri eru klettastallar í hlíðinni og nefnast þeir Grenköst. Norður af Hlaðhamri er brekka við fjöruna móti vestri, sem heitir Sjávarbrekka. Norður af Sjávarbrekkunni er há klettastrýta við Botnsána og heitir hún Bláhylsklettur og hylurinn í ánni við klettinn Bláhylur.
Mýrin upp Hlaðhamarmeð ánni heitir Bláhylsmýri. Ofan við mýrina er stór, sléttur melur, sem er nokkuð hærri en landið í kring og heitir Holumelur. Innan við Bláhylsmýrina er þýfð mýrarbunga og nefnist hún Fossmói. Þarna er foss í Botnsá, sem heitir Pokafoss. Innan við Holumelinn er stór mýrarfláki, Holumýri, sem nær frá Botnsá upp undir fjall og er [aðalengjasvæðið] í Stóra-Botni. Skógarrönd er neðan við Holumýrina, næst Botnsánni, og heitir hann Holuskógur. Þar sem Holumýrin [nemur við fjall] er þurrlendur slakki, sem nefnist Holukrókur en fjallshlíðin öll er einu nafni nefnd Holufjall.
Ofan til við Holumýri innanverða eru rústir í þýfðum móa, löngu uppgrónar, og heitir blettur sá Holukot. Neðan við Holukotstúnið gamla er Holudýið. Virðist það botnlaust með öllu. Innan við Holuskóginn, með Botnsánni, inn að Nóngili, eru sléttar eyrar og heita þær Ytrieyrar.  Hlíðin ofan við Ytrieyrarnar er vaxin fallegum skógi og má þar finna reyniviðarhrísluna, hina einu sinnar tegundar í Stóra-Botnslandi.

Stekkur á Stekkjareyri

Upp af skógarhlíðinni, þar sem reyniviðarhríslan stendur, eru háir klapparhjallar, grasi grónir að ofan og heita þeir Hjallar. Innst á Hjöllunum er mýrarblettur, sem nefnist Háamýri. Upp af Hjöllunum, skammt neðan við efstu brún Múlafjalls, liggur hvilft í fjallinu, allt frá Holufjalli inn undir Nóngil. Þessi landræma heitir Flár. Innan við Flárnar, jafnhátt í fjallinu, eru háir hnjúkar, grasi grónir á toppnum, en þverhníptir að norðan og holir að innan. Þetta eru Hellarnir. Þeir blasa við frá bænum í Stóra-Botni og þykja merkileg sjón. Neðan við Hellana er skjólsælt og kafgresi innan um stóra, staka kletta.
Innan við Nóngilið er enn slétt graseyri við Botnsána. Á eyri þessari er gamall, uppgróinn stekkur og heitir eyrin því Stekkjareyri. Eftir Nóngilinu rennur lækjarsytra ofan af Múlanum í Botnsána, sem heitir Nóngilslækur. Innan við Stekkjareyrina er einstakur klettahöfði við ána gegnt Lækjarvaðinu og ber hann nafnið Kúaklettur. Innan við Nóngilið, í miðri fjallshlíð, eru sléttir grashvammar, sem nefndir eru Nónflatir. Oft þótti kúnum gott að hvíla sig þar eftir liðinn dag.

Fjárhús

Austan við Nónflatirnar er göngufært gil í Miðfjallshömrunum, sem heitir Miðmundagil. Eftir því rennur lækur, Miðmundagilslækur, sem fellur í Botnsá. Ásarnir, sem lækurinn rennur í gegnum í miðri hlíð, nefnast Miðmundaásar. Rétt vestan við þennan læk við Botnsána voru lengi vel fjárhús. Helgi Jónsson, sem lengi bjó í Stóra-Botni, mun hafa byggt hús [á þessum stað]. Voru þau notuð frá aldamótunum 1900 til 1921 eða 1922. Nú heyra þessi fjárhús liðinni tíð til en þau sjást aðeins sem uppgrónar tóftir. Þótt Miðmundagilið sé glæfralegt á að líta er það vel fært og þegar upp er komið er örstutt leið að Hrísakoti í Brynjudal með því að klöngrast niður annað gil sunnan í Múlanum.
Rétt við Túnvaðið á Botnsánni, sem áður er nefnt, eru blautir mýrarblettir og heita það Dýjahvammar. Í daglegu tali er hvammurinn nefndur Dýjahvammurinn að sunnanverðu. Ofan við Dýjahvamm hækkar landið dálítið. Þar eru valllendisbörð og birkirunnar á stangli. Þar eru Prestsbætur. Austan og sunnan við Prestsbæturnar eru háir melhólar beggja megin við götuslóðann, sem liggur austur eftir, og eru þeir kallaðir Helguhólar.
Spottakorn austan við Miðmundagilið í hábrún MiðmundagilMúlafjalls er stór, grasi gróin lægð í fjallinu, [sem heitir] Skál. Austan við Skál er stór klettur í blábrún fjallsins. Kletturinn, sem ber nafnið Hádegissteinn, sést vel frá bænum í Stóra-Botni. Austan við Hádegissteininn má segja að Múlafjall sjálft endi en við tekur lágur, grasi gróinn háls, Hrísháls, sem nær allt að rótum Súlna. Spottakorn austan við Hádegissteininn er há, grasi gróin brekka upp í miðja hálshlíðina og heitir hún Göngugeiri. Beggja megin Göngugeira er gróskumikill skógur. Oft var gengið upp Göngugeira til að stytta sér leið yfir í Brynjudalinn.
Norðan við Mómýrina rennur lækur í Litla-Botnsána en hann kemur ofan frá heiðarbrún, klýfur Svartahrygginn vestanverðan í sundur með djúpu gili, sem heitir Hraunhellisgil og lækurinn Hraunhellislækur. Hraunhellisgilið er tilkomumikið og margbreytilegt gil. Á pörtum er það hrikalegt og djúpt, einkum ofan til, en um miðjuna er hægt að stökkva yfir það með lítilli fyrirhöfn. Neðan við þessa mjódd dýpkar gilið aftur og steypist þar fram af berginu foss hár og fallegur, sem heitir Hraunhellisbuna.
Í vestri gilbarminum er hellir, sem nefnist Hraunhellir. Framan við hellisopið er falleg Víðhamrafjallgrastorfa. Niðri í gilinu, austan megin, er annar hellir, sem ekki bar neitt sérstakt nafn. Báðir hafa hellar þessir verið notaðir við fjárgeymslu fyrr á öldum. Í þessum hrikabrúnum gilsins austan megin, verpir krummi á vorin. Ofan við Hraunhellislækinn, þar sem hann rennur í Litla-Botnsána er hár melhóll, sem heitir Stórhóll. Vestan við hann, næst Litla-Botnsá, er Stórhólsmýrin. Vestasta fjall í heiðarbrúninni norðan við Stóra-Botn er Víðhamrafjall en það [skartar] háum hömrum hið efra og hallar kollinum í vesturátt. Inn með því að vestan, á milli Háafells í Litla-Botnslandi og Víðhamrafjalls er þröngt gil og grýtt. Þetta gil heitir Þrengsli. Upp af Þrengslunum er Víðhamrafjallið allgrösugt og þar tekur við hæð af hæð þar til upp er komið á fjallið. Austan við Víðhamrafjallið er vingjarnlegur og grösugur dalur í fjallsbrúninni, sem [ber nafnið] Víðirblöðkudalur, venjulega kallaður Blöðkudalur. Dalur þessi er sannkallað ævintýraland. [Uppspretta Hraunhellislækjarins er í dalnum], eins og fyrr segir. Víðhamrafjallið að norðan og skúti með efstu brúnum Svartahryggs að sunnan skýla vel þessum undarlega dal í heiðarbrúninni.

Heimahagar, vestri
Vestan við bæjarlækinn, þar sem hann rennur í Botnsána er sléttlendi nokkurt. Á Hliðþví miðju stendur einstakur melur og heitir hann Einstakihóll. Utan við Einstakahólinn er mýrarblettur, sem nær frá Botnsánni upp undir mela, sem liggja [að] henni á tvo vegu. Þessi mýri nefnist Heimamýri. Vestan við Heimamýrina er brattur melhryggur með skógi vaxna hlíð móti austri. Þetta er Hlíðarkrókurinn. Næst ánni heitir endinn á melhryggnum Melshorn. Undan Heimamýrinni miðri er vað á Botnsá, sem heitir Breiðavað.
Rétt utan við Stóra-Botnstúnið er grashvammur neðan götunnar og nefnist hann Þýskihvammur. Á melnum ofan við Þýskahvamm eru skógarleifar á hárri torfu. Heitir það Heimritorfur og melurinn sjálfur Heimamelur. Upp af Heimamýrinni miðri sker djúp laut í sundur holtin og heitir [hún] Djúpagil. Ofan til í [gilinu] er fallegur birkirunni, sem heitir Stórirunni.
BænhúsahóllUtan við Hlíðarkrókinn er skógivaxin lægð milli mela. Nær hún allt frá áreyrum að sunnan og upp að Hraunhellislæk að norðan. Þessi lægð [ber nafnið] Stekkjardalur. Vottar þar enn fyrir gömlum stekkjarrústum. Vestan við Stekkjardalinn tekur við langur, sléttur melur og eftir honum lá gata inn að Stóra-Botni. Þetta er Langimelur. Við vesturenda Langamels er skógartunga, sem endar, þar sem Botnsá og Litla-Botnsá koma saman. Þetta er Árnesið.
Sunnan við Langamelshornið, vestast, er grasbrekka móti suðri, sem heitir Sauðbrekka. Á Langamelnum, vestast, eru skógartorfur og heita þær Ytritorfur eða Langamelstorfur. Norðan við Langamelinn austanverðan er mýrardrag meðfram Litla-Botnsánni og nefnist sú mýri Mómýri. Þar var mótekja á seinni árum eða á meðan mór var annars færður upp í Stóra-Botni.

Göngusvæðið

Túnið og næsta nágrenni þess
 Vestan við fjósbygginguna er tunga, sem teygir sig í vestur og endar, þar sem heimreiðin og bæjarlækurinn koma saman. Þessi tunga heitir Fjósatunga. Norðan við Stóra-Botnsbæinn rennur bæjarlækurinn eftir djúpum slakka í túninu. Hann á upptök sín í Langasundi ofan við heiðarbrúnina. Á leið sinni niður í dalinn steypir lækurinn sér niður í djúpt gil eða gjá, Svartagjá, sem klýfur fjallsbrúnina. Kálfadalur heitir hvammurinn, sem tekur við læknum, þegar niður kemur. Á leið sinni heim að bænum fær lækurinn drjúga viðbót vatns úr lindum í Kálfadal. Úr Kálfadalnum rennur bæjarlækurinn svo í gegnum þröngt gil, sem nefnist Bæjargil. Í gilinu eru einnig uppsprettulindir, sem sameinast læknum.
Gamla

Bæjarlækurinn rennur svo áfram í gegnum túnið, eins og áður segir, beygir til suðurs við Túnmelinn og sameinast Stóra-Botnsá nokkru neðar. Þar sem lækurinn fellur í ána heitir Lækjarvað.
Túnið norðan við bæjarlækinn heitir Stykki. Vestan við endann á Stykkinu rennur lítill lækur, sem [sprettur] upp úr lautardragi ofan við túnið, en hann heitir Litlilækur. Túnlægðin vestast á túninu, austan við bæjarlækinn, heitir Leynir.
Aðaltúnið, neðan við bæinn, [nefnist] einu nafni Niðurtún. Vestast á [því] er sléttur hóll og snöggur, sem [kallast] Rani. Ofan og austan við bæinn hækkar túnið og myndar háa brekku móti suðri. Hryggurinn ofan við þessa brekku heitir Járnhryggur. Lægðin ofan við Járnhrygg heitir Kúahvammur.
Stóri-BotnVestan við Kúahvamminn, nærri bæjarlæknum, er fallegur, ávalur hóll, sem nefnist Fagurhóll. Túnið austan við bæinn nefnist einu nafni Austurtún. Nokkru austan [við bæjarstæðið] [standa] fjárhúsin, ofan við bratta brekku eða flöt, sem nefnist Réttarflöt. Fjárréttin stendur rétt neðan við þessa brekku á sléttu melbarði en fjárréttin er byggð í lægð við ána og heitir hvammur þessi Dýjahvammur.
Dýjahvammurinn er grasgefinn og því vanalega sleginn á eftir túninu. Í hvamminum er uppsprettulind, sem aldrei þrýtur. Undan Dýjahvamminum miðjum er vað á Botnsánni og heitir það Dýjahvammsvað. Neðan við túnið í Stóra-Botni er stór, flatur melur, sem nefnist Túnmelur. Við eystra horn melsins er vað á Botnsá, sem heitir Túnvað. Undan Túnmelnum miðjum er enn vað á Botnsá, sem [ber nafnið] Húsavað.

Heimahagar, eystri hluti
GlymsgljúfurAustan við Dýjahvamminn fer að myndast árgljúfur. Rétt ofan við Dýjahvammsvaðið er vað á Stóra-Botnsá, sem [kallast] Kerlingavað. Norðan við það eru háir klettar að ánni og djúpur hylur meðfram berginu. Á sléttri grjóteyri, sunnan megin árinnar, var fjárrétt lengi vel. Varð þó að hlaða hana upp árlega, þar sem hún þoldi ekki vatnavexti og ísruðninga á vetrum. Aðstaðan við þessa rétt var dálítið erfið, þar sem nokkrir klettastallar eru þarna við ána. Þess vegna varð að reka féð niður í gljúfrið að réttinni og gekk það misjafnlega, einkum hvað unglömbin snerti.
Rétt fyrir ofan eða austan við réttina er allhár og fallegur foss í ánni og heitir hann Folaldafoss. Upp að þessum fossi kemst silungur og lax en lengra ekki. Nú er búið að sprengja þennan fallega foss. Rétt neðan við Folaldafoss rennur Botnsá í kreppu á milli tveggja klettasnasa og [kallast sá hluti hennar] Stillur. Djarfir menn stukku þarna yfir ána.
Einirtunga er norðasta tungan vestan í Hvalfelli og liggur upp með Glymsgljúfri  að austanverðu. FjárhústóftinNónlækur rennur niður Nóngil og Stekkjargil. Þegar hann kemur niður á flatlendið, hefur hann hlaðið upp allháum bala með framburði sínum: Stekkjarbala. Að vestanverðu við balann er mýrarblettur, heitir Stekkjarmýri. Frá Kúaklett að Stekkjarbala er valllendisflöt meðfram Botnsá, sem heitir Stekkjareyri. Vestast á flötinni við Stekkjarbala eru garða- og húsarústir, þar sem Stekkurinn var og í kringum hann Stekkjartúnið, þó ekki sjáist móta fyrir neinum túngörðum.
Beint á móti Stóra-Botni að sunnanverðu við ána voru beitarhús, sem tóku um 100 fjár. Við beitarhúsin var smátúnblettur, um dagslátta að stærð.  Síðast var haft fé í þessum húsum 1914.  Stóðu þau auð þar til 1934, að þau voru rifin og endurbyggð heima á túni. Fjárgæzla  í þessum húsum var erfið, þar sem Botnsá var slæmur farartálmi og stundum ófær.
Að vísu eru stiklur yfir ána í gilinu fyrir neðan Folaldafossinn. Þar sem áin rennur í StekkurÞrengslum milli bergsnasa hefur stór móbergsklettur stöðvazt. Er stokkið af annarri snösinni yfir á klettinn og af honum upp á snösina hinum megin, en ekki er það nema fyrir röska menn.
Austan við túnið í Stóra-Botni er gróðurlaust holt með nokkrum stórum blágrýtissteinum. Austan og ofan við þetta holt taka við Heimribörðin. [Þau] eru kargaþýfð móabörð, sundurskorin af smáum lækjarsytrum, sem ýmist spretta þarna upp eða síast úr nálægum melum. Heimribörðin voru grasgefin vel og voru oft slegin, einkum þegar líða tók að hausti. Valllendið af þessum börðum var næstum eins kjarnagott og taða. Á [börðunum] var stundum færður upp mór. Var hann þá venjulega fluttur heim á fyrrnefnt holt til þurrkunar. Syðst á Heimribörðunum voru eitt sinn uppgrónar fjárhústóftir en nú er búið að slétta yfir þær.

Stóri-BotnAustan við Heimribörðin er lágt móbergsholt. Vottar þar fyrir veggjabrotum frá gamalli tíð. Hvaða mannvirki þarna hafa verið er mér ókunnugt um. Austan þessa holts taka enn við grösug móabörð, sundurgrafín af vatni (eins og þau fyrri). Þessi börð nefnast Eystribörð. Austur af þessum móabörðum öllum er vingjarnlegur grashvammur sunnan undir bergstrýtu. Í hvammi þessum vottar fyrir gamalli stekkjartóft. Þessi grashvammur heitir Gamlistekkur.
Austan við stekkinn í árgljúfrinu er Þvottahellir. Stór steinn á gljúfurbarminum vísar veginn að hellisopinu. Í þessum helli var stundum í ótíð þurrkaður þvottur. Nokkru ofan við Gamlastekk eru enn valllendisbörð, sundurgrafin af vatni, og heita þau Helgabörð. Eru börð þessi heitin eftir dr. Helga Péturs, sem hafði þar tjald st… um hríð þegar hann vann að jarðfræðirannsóknum sínum. Vestan við Helgabörðin, á gróðurlitlu hraunholti, er falleg uppsprettulind. Við þessa lind stoppuðu kindumar vanalega, þegar þeim var smalað niður af heiðinni á útmánuðum, og fengu sér svalandi dropa. Þessi lind hét Lindin. Vestan við Lindina er hár hraunhóll, sem nefnist Sjónarhóll en af hól þessum er víðsýnt mjög.

Þvottahellir

Rétt vestan við Sjónarhólinn er Bæjargilið, sem áður hefur verið minnst á, en í því er Þjófahellir. Til þess að komast inn í hann verður að skríða á maganum eina tvo metra inn undir slútandi bergið. Þegar inn í hellinn er komið er svartamyrkur fyrst í stað en þegar frá líður birtir [yfir] og sést þá um allan hellinn. Inni er hann líkastur báti á hvolfi og er á að giska 30 fermetrar að innanmáli.
Beint upp af bænum í Stóra-Botni er stór grýtt fjallsbunga, sem þrengir sér niður í miðjan dal ofan frá fjallsbrúninni. Þessi bringubreiði hraunás heitir Svartihryggur. Upp eftir [hryggnum] liggur krókótt gata upp á heiðina og var þessi leið þrædd þegar farið var upp í Skorradalinn í gamla daga. Þegar komið er upp fyrir Svartahrygg miðjan liggur slóðinn eftir lágum mel á parti, sem [nefnist] Lágihryggur. Segja má að Svartihryggur endi í háum uppmjóum hraunstrók, sem ber við loft, séð heiman frá bænum í Stóra-Botni. Þessi hraunstrýta ber nafnið Skúti.

Breiðfoss

Upp af Sjónarhólnum er stór lægð eða dalur, Kálfadalur, sem nefndur hefur verið. Dalurinn nær frá Svartahrygg að vestan og austur að Glymsbrekkum. Í Kálfadalnum skiptast á skógarlundir og sléttar grasflatir en einn af þessum sléttu blettum heitir Flötin.
Fjallshlíðin upp af dalnum heitir Kálfadalshlíð. Vestan við Svörtugjá er Kálfadalskrókur og austan við Kálfadalshlíðina miðja eru einstakir klettar hátt uppi sem heita Kálfadalsklettar. Í árgilinu ofar Þvottahelli er djúp skvompa og eyrar við ána, heitir þetta Lambagil. Upp af Lambagilinu tekur við brött hlíð, skógiklædd að mestu, og [nefnist] Glymsbrekkur. Ofarlega í Glymsbrekkunum skagar svart klettanef fram í Glymsgljúfrið og heitir það Snasi.
Á milli heiðarbrúnarinnar og Hvalfells er djúpt og ógnvekjandi gljúfur í fjallinu og ofan í það fellur Glymur, hæsti foss á Íslandi. Árglúfrið heitir einu nafni Glymsgljúfur.

Tættur

Eystri heiðin og Veggir
Nú færum við okkur aftur suður á heiðarbrúnina og hefjum gönguna til austurs. Þá verður fyrst fyrir okkur mýrasund á milli tveggja hárra melhóla og heitir það Landsuðursund. Austur af sundinu er hár hraunstapi rétt við Glymsgljúfrið og nefnist hann Glymsholt. Norður af honum er sléttur brokflói, sem heitir Glymsflói. Norðaustan við Glymsflóann rennur Stóra-Botnsáin á sléttum eyrum og nefnast þær Glymseyrar. Við göngum austur með Botnsánni og komum brátt að nokkuð vatnsmiklum læk, sem rennur í Botnsána. Þessi lækur nefnist Sellækur og á upptök sín í Eystrikrók og í Veggjum. Austan við Sellækinn eru gamlar seltóftir, sem eru löngu uppgrónar. Hefur þarna eflaust verið haft í seli frá Stóra-Botni fyrr á árum.“
Þegar FERLIR gekk fyrir nokkru til austurs upp með Botnsánni áleiðis að Hvalvatni var gengið yfir Glymsflóann. Þegar gengið var yfir Sellækinn við girðingu, sem þar er, var komið að kargaþýfi ofan við þar sem lækurinn kemur í ána. Þarna virtust vera tættur, en þær voru ekki gaumgæfðar sérstaklega í þeirri ferð. Ætlunin er að ganga svæðið fljótlega með Steinþóri Jónssyni í Stóra-Botni, en hann þekkir selstöðurnar. Sagðist hann t.a.m. aðspurður einungis kannast við tóftir sels frá Litla-Botni „uppi á fjalli, austan Selár“.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Litla-Botn – Jón Þorkelsson.
-Örnefnalýsing fyrir Stóra-Botn – Þórmundur Erlingsson.

Göngusvæðið

 

Botnsdalur

Gengið var frá Botni í Botnsdal í Hvalfirði um skógivaxinn norðanverðan Hrísháls og áfram upp með Hvalskarðsá um Hvalskarð (418 m.y.s.), millum Hvalfells (848 m.y.s.) og Háusúlu (916 m.y.s.). Þar fyrir innan er Hvalvatn (378 m.y.s.) er kom m.a. við sögu hins þjóðsagnakennda Rauðhöfða. Austast í því er Skinnhúfuhöfði með Skinnhúfuhelli. Vestan við vatnið er Hvalfellið með Arnesarhelli undir, norðan þess Veggir og sunnan Súlur. Þjóðsagan segir hæðirnar umhverfis heita Skjálfandahæðir. Fyrri hluti ferðarinnar var á tærnar að sækja, en sá seinni á hælinn.
GlymsgilÍ ferðinni var Glymur, hæsti foss landsins, sóttur heim. Hann var í klakaböndum er segir meira um ofurvald náttúruaflanna en fossinn sjálfan. Óhemju mikla krafta þarf til að „skrúfa fyrir“ foss sem þennan, en Vetur konungur virtist ekki hafa verið í neinum vandræðum með þá framkvæmd.
Þegar farið er að Glym er best að koma að honum sunnanmegin, þ.e. fara yfir Botnsána. Það er eingungis einn staður þar sem fossinn sést nánast allur og það er nípa ofarlega við gljúfrið að sunnanverðu. Til að komast þangað er gengið um hlaðið á Stóra Botni og fljótlega farið til vinstri eftir mjóum gönguslóða og honum fylgt upp með gilinu nokkurn spöl. Hægt er að komast yfir ánna á nokkuð öflugri göngubrú neðar en það er ekki eins hentug gönguleið. Rétt fyrir neðan hið eiginlega gljúfur er farið niður í gilið og yfir Botnsá á símastaur sem lagður hefur verið þar yfir og strengdur vír með til að styðja sig við. Traustlega er frá þessu gengið. Þegar yfir er komið tekur við ganga upp með gljúfrinu eftir mjög greinilegum slóða. Mikið fuglalíf er í gljúfrinu og ber þar mest á fíl (á sumrum), en þó má sjá aðrar tegundir þar líka, s.s. auðnutittling (á vetrum).

Glymur

Glymur.

Tvær nípur eru áberandi á leiðinni sem vænlegir útsýnisstaðir. Af þeirri neðri sést aðallega neðri hlutinn af fossinum en af þeirri efri sést nánast allur fossinn. Einungis vantar að sjá neðsta hlutann af honum og verður hann væntanlega ekki barinn augum nema að fara upp ánna niðri í glúfrinu.
Svæðið allt býður upp á ótrúlega mikla náttúrufegurð, ekki síst í vetrardýrðinni nú svo örskömmu fyrir jól [ferðin var farin 20. des. 2008]. Rjúpa
Rjúpan var ráðandi í kjarrlendinu með hlíðunum beggja vegna. Fagurlitaðar mosaskófir voru á steinum og stöðugur árniðu lék hljófagurt undir umhverfisásýndina alla.
Glymshellarnir í gljúfrinu undir fossinum voru ekki skoðaðir að þessu sinni, en þeir verða gaumgæfðir betur síðar.
FERLIR var svo heppinn, líkt og svo oft áður, að hitta einn landeigandann í Stóra-Botni. Hann sagði m.a. að í svonefndum Tungum, skammt ofar, vær tóftir beitarhúss eða yfirsetuhúss frá þeim tíma er maður nokkur sat þar yfir ám. Auk þess mætti sjá seltóftir neðar með Botnsánni að sunnanverðu, gegnt Litla-Botni. Þegar aðstæður þar voru skoðaðar úr fjarlægð mátti sjá þríhyrningslaga geira upp í hlíðina á Múlafjalli. Neðst í henni vinstra megin (austast) virtist vera tóft. Hún verður ekki heimsótt nema af sérstöku tilefni – næsta vor. Við athugun síðar komu í ljós stekkjartóftir á svonefndri Stekkjarflöti.
GlymshellarÁ göngunni áleiðis upp að Glym var auðvelt að koma auga á tóftina í Tungum. Hún er austan undir grasi grónum hól sunnan árinnar. Samfellt gras er þar í kjarrinu upp undir svonefnda Ásmundartungu, en Tunga þessi gæti tengst því örnefni. Innar, norðaustur með vestanverðu Hvalfelli, raða aðrar tungur sér, s.s. Mjóatunga, Breiðatunga og Einarstunga er aðskyldar eru með giljum. Norðar horfir Víðhamrafjall yfir dýrðina í Botnsdal.
Þegar staðið er þarna undir fjöllunum kemur sagan, eða réttara sagt sögurnar, um Rauðhöfða óneitanlega upp í hugann. Var vel við hæfi að rifja þær upp á leiðinni. Sagan er til í ýmsum útgáfum þótt allar eigi uppruna á Hvalsnesi og endi í Hvalvatni.

Glymur„Í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga). Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið að honum varð ekki náð út í skipið hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið og töldu þeir manninn af með öllu nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu hvar komið var og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komizt út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.

Steinn

Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu. Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður.

Hvalfjörður

Hvalfjörður.

Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu.

Nú leið enn og beið og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn góðan veðurdag þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður sem alla kynjaði á. Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út (aðrir segja inn í kirkjuna og láta allan atburðinn fara fram fyrir messu) úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni.
Ofan á vöggunni lá dýrindisábreiða sem enginn þekkti hvað í var. Á þetta varð öllum starsýnt Steinnmjög og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu og enginn lézt þar vita nein deili á. Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu ekki síður en aðra. Spyr hann þá hvort viti nokkur deili á vöggunni og barninu eða hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji að hann skíri barnið. En enginn lézt vita neitt um þetta og enginn þóttist hirða um að hann skírði barnið. En af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur spurði hann hann ítarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita um vögguna né barnið enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt.
En í því bili sem maðurinn sagði þetta stóð þar kvenmaður hjá þeim fríð sýnum og fönguleg, en æði svipmikil. Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir: „Ekki skal kirkjan gjalda.“
Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega:
„En þú skalt verða að hinu versta (argasta) illhveli í sjóHvalsneskirkja.“
Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. – Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið þar til skamms tíma og þótt hin mesta gersemi.
Nú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði.
Stakkur
En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.
Það er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins að hann hefði sagzt hafa dvalið um veturinn í skerinu (skerið var síðan kallað Helgasker) í álfabæ einum í góðu yfirlæti. Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki geta fest þar yndi.

 

Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu hefði hann gengið um skerið í eins konar örvilnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér til að stytta hörmungar sínar.
HvalfellEn þá sagði hann að til sín hefði komið stúlka fríð og falleg og boðið sér veturvist og sagt að hún væri ein af álfafólki því sem ætti heima í Geirfuglaskeri. Þetta þá hann, en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann að álfastúlkan hefði sagzt ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta skíra það ef hún kæmi því til kirkju þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði það ekki mundi hann gjalda þess grimmilega. Sumir segja að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um sumarið; sumir segja að hann hafi gjört það um leið og hann gekk um á Melabergi frá kirkjunni seinast, en sumir segja að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum öðrum. En ekki er þess getið hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með barnsskírnina.

Hvalvatn og Hvalfell

En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur í Faxaflóa og grandaði þar mönnum og skipum svo engum var óhætt í sjó milli Reykjaness og Akraness. Varð það fjarskinn allur sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans völdum þó ekki séu þeir nafngreindir neinir sem hann drap eða tölu hafi verið á þá komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness og er sá fjörður því síðan kallaður Hvalfjörður.
Þá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll uppkomin þegar hér var komið sögunni og hin efnilegustu og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða og drekkti hann þeim báðum.

Stafnes

Á Stafnesi.

Presturinn faðir þeirra heyrði að synir sínir væru drukknaðir og svo af hvers völdum. Féllst honum mikið um sonamissinn.
Litlu síðar einn góðan veðurdag biður hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum sem er þaðan ekki alllangt frá bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með tilhjálp dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera spegilfagran og sléttan. Að lítilli stundu liðinni spyr karl aftur hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir að utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau biður prestur hana leiða sig inn með fjörunni og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau og gekk það uns komið var inn í fjarðarbotn.
Þegar grynna fór sá stúlkan að röstin stóð af ákaflega stórum hval sem synti beint inn eftir Rjúpafirðinum eins og hann væri rekinn eða teymdur. Þegar fjörðinn þraut og þar kom að sem Botnsá kemur í hann bað klerkur dóttur sína að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það og staulaðist karlinn upp fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis. En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir. En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn.
Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell.
Þegar RjúpaRauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hefur síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stór-kostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. – En þegar prestur var búinn að koma hvalnum fyrir í vatninu staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni og þökkuðu honum allir vel fyrir viðvikið.“
Örlítið breytt og stytt saga.
„Melabergsmaðurinn hleypur fram af hamri sem kallast Stakksgnípa. Drekkir 19 skipum milli Akraness og Seltjarnarness. Drekkti bæði syni prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og prestsins í Saurbæ á Kjalarnesi. Tóku þeir sig saman og kváðu Rauðhöfða inn fjörðinn á milli bæjanna og heitir hann því Hvalfjörður. Varð þá landskjálfti mikill og því heita hæðirnar við Hvalvatn Skjálfandahæðir.“
Í FAXA er sagan nokkuð breytt og mikið stytt frá hinum.

Hvalfell

„Þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.“
Í sögunni um MELABERGS-HELGA segir: „Ekkja nokkur bjó að Melabergi ásamt sonum sínum þremur og hét einn Helgi. Eitt sinn fóru bræðurnir í Geirfuglasker ásamt öðrum. Þeim varð illt til fengs og fóru því í fleiri sker. En nú fór að brima og komst Helgi ekki í bátinn. Ekki var komist í skerin fyrr en vorið eftir og var leitað eftir beinum Helga. Var undrun manna mikil er hann fannst lifandi og vel á sig kominn. Eftir þetta var skerið kallað Helgasker.

Hólmsberg

Hólmsberg – Hólmsbergsviti nær.

Síðan gerist allt sem í hinum sögunum og er upp komast svik Helga segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags. Bræður Helga ætluðu heim og komust inn fyrir Melabergsá og urðu þar að steinum. Heita steinar þeir Bræður enn. Helgi breyttist í rauðhöfðaðan hval og hafðist við í Hvalfirði á fjaðrarmótum Kollafjarðar.
Að Reynivöllum bjó prestur og drekkti Rauðhöfði sonum hans tveim. Prestur var skáld og kunnáttusamur. Hann stefndi Rauðhöfða upp í Hvalvatn. Melaberg lagðist í eyði vegna reimleika. En klæðið sem var yfir ruggunni skyldi hafa verið haft fyrir altarisklæði á Hvalsnesi þar til slitið var, þá tekið í sundur og verið lengi til nokkuð af því og ei alllangt síðan eyðilagðist.“
VeturÍ sögunni  um MÓKOLL Á MELABERGI segir: „Mókollur var ríkur bóndi á Melabergi. Allt fer sem fyrr en nú er hann finnst er kona ein hjá honum og lætur vel að honum. Segist hún ganga með barn hans og muni koma með það í kirkju til skírnar. En er barnið var til skírnar fært vildi Mókollur ekki kannast við neitt. Hann stekkur úr kirkju og fram á Hólmsberg á snös þá er síðan er kölluð Stakksnös. Þá féll þar úr berginu með honum klettur sá er Stakkur heitir. Á Katanesi bjó karl sem átti tvo sonu sem Mókollur gleypti að karli ásjáandi. Hann kom svo Mókolli fyrir í Hvalvatni.“

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Ein önnur útgáfa af Rauðhöfða kveður á um eftirfarandi: „Árni hét kvæntur maður og átti hann nokkur börn. Skip hans hvarf við Geirfuglasker en vorið eftir birtist Árni þessi heima hjá sér. Ekki sagði hann hvernig hann hefði komist af. Nú gerist allt sem áður: barn er fært til skírnar og yfir því er dýrindis klæði í rauðum lit. Presturinn reynir árangurslaust að telja Árna á að viðurkenna barnið og álfkonan leggur á að hann verði að hinum versta fiski í sjónum „og granda skipum og mönnum og aldrei komast úr þeim ánauðum, og jafnan skal einhver ógæfumaður vera meðal niðja þinna, allt í átjánda lið.“
Árni var með rauða húfi á höfði er hann tók að tryllast og þrútna út.
Stökk hann svo í sjóinn og breyttist í illhveli mikið og hafðist við milli lands og Geirfuglaskerja þar til kraftaskáld nokkur kvað hann upp í Hvalvatn.
Varða Mælt er að Einar á Iðu sem var dæmdur til lífláts fyrir barneign í meinum væri kominn að Árna í níunda lið, en nú er komið í hinn tólfta.“
Til er og saga um „Álfkonuna í Geirfuglaskeri„, sem er enn ein útgáfan af Rauðhöfða: „Nú er það presturinn að Útskálum er fær barnið til skírnar og maðurinn kastar sér fram af „Hólsbergi“. Hann drekkir síðan tveim sonum ekkju á Bjarteyjarsandi. Hún var margkunnug og kom illhvelinu fyrir í Hvalvatn.“

 

Melaberg

Melaberg.

Um „Hvalinn í Hvalvatni“ segir: „Í þessari sögu hér maðurinn Gísli (eða Björn). Hann hafðist við hjá tveimur konum og gerði þá yngri ólétta. Við messu kemur kona með vöggu og yfir henni er rautt klæði. Þegar Gísli neitar að eiga barnið breytist hann í illhveli og hefst við á Faxaflóa og gengur síðan allt eftir sem fyrr.“
Í sögunni um „Árna á Melabergi“ segir: „Árni þessi átti þrjá bræður er bjuggu á næstu bæjum við Melaberg. Hann hvarf við Geirfuglasker um haust og kom fram vorið eftir að Hvalsnesskirkju heill á hófi og vel útlítandi. Nú gengur sem fyrr að kona kemur með vöggu til kirkju og yfir henni er fagur dúkur.
HreindýrÞegar Árni neitar að meðkenna barnið segir konan: „Illa launar þú mér lífgjöfina og veturvistina enda skaltu í sjóinn fara – og verða að þeim versta og mannskæðasta hval og óhamingja skal fylgja ætt þinni í átjánda lið.“
Árni ærðist og steyptist fram af klettunum hjá Melabergi. Bræður Árna voru við kirkju og urðu þeir allir að steinum á heimleiðinni. Þeir steinar sjást hjá kirkjuveginum og eru stórir drangar og ganga út úr þeim mjóir drangar sem handleggir. Það fylgdi ætt Árna í átjánda lið að í henni var alltaf einhvur ólánsmaður. Seinastur þeirra er talinn Einar á Iðu á Skeiðum sem átti barn með dóttur sinni.

Hvalfell

Hvalfell – útsýni út Hvalfjörð.

Árni varð að versta hval og lagðist inn í Hvalfjörð. Þar var hann þar til hann drekkti tveimur sonum bónda á Kjalarnesi. Þessi bóndi var kraftaskáld og kvað hann hvalinn inn úr Hvalfirði og undir jörðu inn í Hvalvatn þar sem hann sprakk. Eftir hvarf Árna var um langa tíð reimt á Melabergi.“
Svo voru þau orð nú mörg þegar skráð og lesin – á langri leið.
Rjúpan virtist greinileg ásýndar, en hreindýrin bæði óljósari og huglægari. Þó var að sjá sem þeim brigði fyrir, en annað er þeim fylgdi verður erfiðara að útskýra…
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir:
-JÓN ÁRNASON I 81.
-JÓN ÁRNASON I 82.
-JÓN ÁRNASON III 148.
-JÓN ÁRNASON III 149.
-JÓN ÁRNASON III 150.
-JÓN ÁRNASON III 151.
-JÓN ÁRNASON III 152.
-JÓN ÁRNASON III 153.

Göngusvæðið

Litla-Botnssel

Í Lesbók Morgunblaðsins 1933 fjallar Magnús Lárusson um „Hvalfjörð„.

„Ó, fjörður væni, sœll að sýn
í sumarsólar loga.
Hve framnes, björg og flóðvík þín
í faðm sjer hug minn toga.
Hvar stenst öll prýðin eins vel á
við insta botn og fremst við sjá?
Hvar sje jeg fleiri fjöllin blá
og fegri marar-voga?“ – Steingr. Thorsteinsson.

HvalfjörðurSumarið er liðið og vetur genginn í garð. Ferðalögum út í guðsgræna náttúruna er lokið að þessu sinni. En hafi nú sumarið komið á náin í kynni yið einhvern fagran og svipmikinn stað, er gaman að geta brugðið sjer til hans að loknu dagstritinu, þegar húmar og kaldir vindar gnauða — látið þá hugann bera sig til hans. Og sá maður eða kona er úr „skrítnum steini“ , sem ekki á sjer einn eða fleiri ástvini í ríki hinnar íslensku náttúru.
Einn af fegurstu stöðum ættjarðar vorrar er Hvalfjörður. —
Hann skerst inn í landið úr Faxaflóa, milli Kjalarness að sunnan og Akraness að norðan, nálægt 17 sjómílur að lengd. Norðan megin við hann gnæfa Akrafjall og Skarðsheiði, sem verið hefir spákona okkar hjer um norðanátt, því að það bregst varla að hún skauti þá hvítum þokubólstrum, þegar norðanáttin er í aðsigi. —
Sunnan megin fjarðarins er Reynivallaháls og góðkunningi okkar hjer, hún Esja: „Þú aldraða vina með björgin þín hlá, undir blœfögru hrímguðu þaki“.
Á innnesi situr þú sviphrein og há með sögurnar mörgu að baki eins og „Muninn“ mælir til hennar um haust. Og svipað munu margir hugsað hafa.
Fleiri fjalla er að minnast, t.d. Þyrils, þar sem Helga jarlsdóttir, harmi lostin og þjökuð af sundraun, kleif upp einstigi það, sem enn er við hana kent og kallað Helguskarð.
Inn og út af Þyrli er Þyrilsnes „þar háði blóðdóm öldin forn“.
Hvalfjörður

Flestum, sem til Hvalfjarðar koma, mun vera hugstætt að koma að Saurbæ, þar sem Hallgrímur Pjetursson var og kvað svo: „að hrygðar húmið svart hvar sem stendur verður engilbjart„, og það í sjálfu 17. aldar myrkrinu. Rjett findist mjer, á meðan vinum hans tekst ekki að reisa honum hinn fyrirhugaða minnisvarða þar, kirkjuna, að þeir sjái um að legstaður hans væri hækkaður, svo að hundar og menn træði ekki á honum, og lindin hans ljúfa væri hlaðin upp, með hringpalli til að sitja á fyrir fólk, sem vildi hvíla sig þar og rifja upp minningar hins ástsæla skálds.
Sumum finst að Hallgrímskirkja ætti að vera í Reykjavík, en er ekki nógu mörgu hrúgað þar saman? Og er það ekki sorgleg lýsing á safnaðarlífi voru að veitingahúsið „Hótel Borg“ skuli standa rjett hjá aðalkirkju landsins og vera betur sótt en kirkjan.

Brynjudalur

Brynjudalur – Ingunnarstaðir.

Nei, í Reykjavík á Hallgrímskirkja ekki heima, heldur í hinum heillandi faðmi hins sagnaríka Hvalfjarðar og á þeim stað er trúarskáldið bjó. —
Margar sagnir ganga um síra Hallgrím Pjetursson, og langar mig til að segja eina: „Það er sögn ein, frá Hallgrími presti, að hann var eitt sinn á ferð við þriðja mann, og ætlaði heim sunnan yfir Brynjudalsvog; flæður sævar gengu að; varð það þá ráð þeirra að bíða þar um nóttina til þess útfjaraði, og áin minkaði, og bjuggust að liggja í Bárðarhelli við fossinn. Þótti þá förunautum prests leitt að heyra fossniðinn, er mjög ýrði frá inn í hellisdyrin. Annar förunautur prests var fremstur og fekk ei sofið fyrir aðsókn. Sýndist honum og ferlíkan nokkurt eða vættur sækja að inn alt í hellisdyrin; bað hann þá prest að vera fremstan, og ljet hann það eftir; er þá sagt hann kvæði Stefjadrápu, því var yrði hann hins sama og förunautur hans, en jafnan hörfaði vætturin frá við hvert stefið, og að aftur á milli, uns hún hyrfi með öllu, og er drápan á þessa leið, sem nú er að fá:

1. Sætt með sönghljóðum
sigur vers bjóðum
Guði föður góðum,
sem gaf lífið þjóðum;
næsta naumt stóðum,
naktir vjer óðum
í hættum helsglóðum.

5. Heims því að hætti
hver einn mjer þætti
bölið sem bætti
bjóða lof ætti.
Guðsson vor gætti,
Guðs við almætti,
hann sálirnar sætti.

6. Minn Jesú mæti,
mín jafnan gæti;
brjóst Jesús bæti,
brár Jesús væti,
sjá Jesús sæti,
send Jesús kæti
mitt í mótlæti.

8. Sök synda afmái,
sonur Guðs hái;
frið svo jeg fái
og föðurlandi nái;
ógn engri þjái,
að oss Guð gái.
sálirnar um sjái.

23. Ó. þú alvalda
eining þrefalda.
lát lýð þinn kalda
lof þitt margfalda;
gef oss heit halda
og heiður þjer gjalda
um aldir alda!“

Hvalfjörður

Hvalfjörður.

Í Hvalfirði eru þessar eyjar: Hvammsey, Þyrilsey og Geirshólmi. Bestu skipalægri á firðinum eru hjá Þyrli, innan við Geirshólm (15—20 metra dýpi) á Brynjudalsvogi (5—10 metra dýpi) og á Maríuhöfn undan Hálsi í Kjós (10-16 metra dýpi).

Brynjudalur

Brynjudals á og hellarnir; Bárðarhellir (t.h.) og Maríuhellir (t.v). Huldukona fær sér að drekka vatn úr ánni.

Þessi skipalægi eru öll örugg, og önnur eftir áttum, svo sem undan Reynivöllum, Valdastöðum, Meðalfelli. Úskálahamri og á Saurbæjarvík á Kjalarnesi. Innsigling fjarðarins er óhrein að sunnan, en hrein með norðurlandinu, en þar sigla ekki aðrir en kunnugir menn.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá því af hverju Hvalfjörður, Hvalfell og Hvalvatn draga nöfn sín, og skal það ekki rakið hjer. En við skulum bregða okkur inn til dalanna fyrir botni Hvalfjarðar og hitta þar konu, sem heitir Oddný Sigurðardóttir, og er húsfreyja á Stóra-Botni í Botnsdal. Hún segir okkur svo frá dölunum:

Botnsdalur.

Botnsdalur

Botnsdalur – Stóri-Botn (Efri-Botn).

Botnsdalur er hinn nyrðri af dölunum tveim, er liggja fyrir botni Hvalfjarðar. Á milli þessara tveggja dala gengur Múlafjall fram í sjó og myndast vogar, sinn hvoru megin fjallsins. Og inn fyrir þessa voga liggur Hvalfjarðar akbrautin. Í Botnsdal eru nokkurar skógarleifar, þó smávaxnar sje, en þarna var það, sem Avangur hinn írski ljet smíða hafskipið á dögum landnámsmannanna.

Glymur

Glymur.

En hið merkasta í dalnum verður að telja fossinn Glym, sem er mjög hár, líklega með hæstu fossum á landinu, þó aldrei hafi verið mældur, og er í á samnefndri bæjunum í dalnum.
Við Glym orti Þorsteinn Gíslason vísurnar: Í Botnsdal er fagurt einn blíðviðrisdag o.s.frv. Þá er einnig skylt að gleyma ekki Botnssúlum, en þaðan er mjög víðsýnt.

Í norðaustri er Hvalfell og norðan við það er Hvalvatn, en þaðan kemur Botnsá. Fyrir austan enda Hvalvatns er Skinnhúfuhöfði og Skinnhúfuhellir, þar sem Skinnhúfa bjó á dögum Ármanns í Ármannsfelli. Nú er þar alt kyrlátara og friðsamara en var á þeim dögum og álftin á sjer dyngju rjett fyrir framan hellismunnann. Niður undir vatnsröndinni, norðan í Hvalfelli er hellir sá, er sagt var að Arnes — er eitt sinn var fjelagi Fjalla-Eyvindar — hafi hafst við í. Í helli þessum hefir fundist mikið a{ beinum — bæði stórgripabeinum og kindabeinum — sem sjest hafa á för eftir eggjárn, og sömuleiðis kambur úr horni.
Í hinum fornu sögum finst hvergi getið nema eins bæjar í Botnsdal — en nú eru þeir tveir.

Hvalvatn

Hvalvatn – flugmynd.

Landnámabók segir svo frá að fyrstur hafi bygt bæ í Botni, maður sá er Avangur hjet og kallaður hinn írski. Þá var þar skógur svo mikill að hann ljet af gera hafskip. Það var hlaðið við Hlaðhamar en hann er fyrir botni Botnsvogs, sunnan Botnsár. Dýpi við hamarinn nú á tímum er um flóð líklega 3—4 metrar, en algerlega þurt um fjöru. Í Harðarsögu er talað um Neðra-Botn, þar sem Geir bjó um skeið. Af því er auðsætt að þá hefir Efri-Botn einnig verið bygður þó þess sje eigi getið. Löngu seinna hefir svo bygst þriðji bærinn: Holukot. —

Holukot

Holukot – tóftir.

Hann stóð sunnan árinnar neðarlega í dalnum. Sá bær hefir að líkindum tekist af eða lagst í eyði vegna skriðufalls er eyðilagt hefir meginhluta túnsins. Skriða þessi er fyrir löngu uppgróin og sums staðar klædd smávöxnu kjarri. Fyrir rústunum sjest mjög greinilega og hafa þau hýbýli verið rúmlítil.

Kattarhöfði

Kattarhöfði.

Af örnefnum, sem getið er í fornsögunum er meðal annars Múlafell, nú breytt í Múlafjall, Kattarhöfði, þar sem Þórður köttur var dysjaður og Kötlugróf þar sem Þorbjörg katla og Þorgríma smiðkona ljetu líf sitt og hringurinn Sótanautur er falinn.
Víðar man jeg ekki eftir að Botnsdals sje getið í fornum sögum.
Að síðustu skal þess getið, að hjer í Stóra-Botni var bænahús eða kirkja, og er örnefnið Kirkjuhóll þekt enn þá. Í þann hól var grafið fyrir 4—5 árum, en aðeins lítilsháttar, enda fundust engar minjar.

Litli-Botn

Litli-Botn í Hvalfirði.

Á bæjunum hjerna í Botnsdalnum var mikið um álfa og álfatrú. Ekki mátti veiða silunga úr sumum lækjum, ekki höggva hrís á vissum stöðum, ekki færa sum hús, ekki sljetta tiltekna bletti í túnununi og þar fram eftir götunum. Í hólunum heyrðist sífelt rokkhljóð og strokkhljóð.

Þannig var til dæmis sagt að víða í túninu í Litla-Botni og í klapparholtum umhverfis það, væri bústaðir huldufólks. Austast í túninu þar er hóll, sem kallaður er Krosshóll. Mátti eigi sljetta hann og var þar engin þúfa hreifð þangað til síðasti ábúandi kom þangað árið 1907. Á þessum hól var hrísla allstór og mátti enginn skerða hana. Var hún að síðustu orðin svo fúin að hún brotnaði.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Mátti enginn á neinn hátt nýta sjer lurkinn og var sagt að hann færi jafnan sjálfur á hólinn aftur þó hann væri borinn heim.

Litli-Botn

Litli-Botn í Hvalfirði.

Skammt fyrir utan túnið er klapparholt, sem kallað er Steinkirkja og heyrast þaðan oft tíðahringingar og sálmasöngur. Á götunum fyrir utan túnið er kallað Mannabygð og þar mátti aldrei ríða hart. Á milli þessara staða: Kirkjunnar og Mannabygðar annars vegar og Krosshóls hins vegar voru sífeldar ferðir huldufólksins og var för þess stundum sjeð af gamla fólkinu.

Brynjudalur.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Syðri dalurinn fyrir botni Hvalfjarðar er Brynjudalur. Hann er grösugur og vaxinn kjarri fremst. Samnefnd á rennur eftir honum og er hún straumlygn og mild.
Nú eru þrír bæir í dalnum: Ingunnarstaðir, Skorhagi og Þrándarstaðir og auk þess eyðibýlið Hrísakot.

Skorhagi

Skorhagi í Brynjudal.

Hina elstu sögn um Brynjudal er að finna í Landnámabók, þar sem sagt er frá deilu Refs hins gamla og Hvamm-Þóris, út af kúnni Brynju, sem gekk úti í dalnum með afkvæmum sínum og hann er við kendur. Og sú deila endaði með falli Hvamm-Þóris. Þar er einnig sagt, að Refur hafi búið á Múla. Bærinn Múli hefir að líkindum verið skamt þaðan sem nú er Skorhagi, en þó nokkru nær fjallinu og er trúlegt, að skriðuföll hafi eytt bæinn.
Harðar saga segir hinsvegar svo frá, að Refur hafi búið á Stykkisvelli (í Brynjudal) en Þorbjörg katla, móðir hans á Hrísum og vitanlega geta báðar sögurnar haft rjett fyrir sjer. Bæjarnafnið Hrísakot og örnefnið Hrísasneið benda að minsta kosti til þess að bær með því nafni hafi verið þar að norðanverðu í dalnum, þó það þurfi ekki endilega að vera.

Stykkisvellir

Stykkisvellir – tóft.

Loks segir Harðar saga svo frá, að Kjartan sá, er seinna sveik Hólmverja, hafi búið á Þorbrands stöðum. Hins vegar segir í upphafi Kjalnesingasögu að Þrándur landnámsmaður Helga bjólu hafi numið land í Brynjudal og búið á Þrándarstöðum, en það bæjarnafn er enn þá til.

Hrísakot

Hrísakot – túnakort 1917.

En verið gæti að Þorbrandsstaðir og Þrándarstaðir sjeu hið sama. Ingunnarstaða er getið í Kjósarannál að mig minnir einhverntíma á 16. öld. — Þá týndist á Hríshálsi, þ.e. hálsinum á milli dalanna, óljett kona með þrjú börn í fylgd með sjer og fanst ekkert af nema hendin af einu barninu. Og þessi kona fór frá Ingunnarstöðum.

Svo jeg snúi mjer aftur að honum fornu sögum, þá er Brynjudals getið f Bárðar sögu Snæfellsáss og er sagt að Bárður hafi hafst við í Bárðarhelli. Það er móhergshellir sunnanmegin árinnar, við foss þann er skamt er fyrir ofan hina nýju brú á ánni, er bygð var síðastliðið sumar (1932). Annar skúti er norðan árinnar, beint á móti Bárðarhelli, kallaður Maríuhellir.

Ingunnarstaðasel

Ingunnarstaðasel.

Á Ingunnarstöðum var bænahús og var goldin þaðan presstmata þar til núverandi ábúandi keypti hana af. Mjer hefir einnig verið sagt að eitt sinn — fyrir löngu síðan — er byggja skyldi íbúðarhús á Ingunnarstöðum hafi verið grafið á mannabein. —

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 44. tbl. 12.11.1933, Magnús Lárusson, Hvalfjörður, bls. 345-347.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Botnsdalur

Innst í Hvalfirði er Botnsvogur og inn af honum gengur Botnsdalur. Hann er stuttur, gróðursæll og skjólgóður. Tvö býli eru í dalnum, Litli-Botn og Stóri-Botn. Fyrir botni dalsins gnæfir Hvalfellið (852 m) en eftir honum liðast Botnsáin, tær og sakleysisleg og fellur í voginn. Hún kemur úr Hvalvatni, sem er austan við Hvalfell.
 BotnsdalurEndur fyrir löngu, er ísaldarjökullinn þakti landið og skriðjöklar hans surfu berggrunninn, myndaðist Hvalfjörðurinn og dalir þeir, sem að honum liggja. Á þeim tímum var eldvirkni landsins ekki minni en nú og mynduðust þá og mótuðust mörg þeirra fjalla, sem við þekkjum svo vel. Jökullinn hafði sorfið Botnsdalurinn lengri en hann er nú, en svo hófst eldgos undir jöklinum. Fjall hlóðst upp í miðjum dal og þegar jökullinn hvarf stóð það eftir. Bak við það var djúp dæld, sem síðar fylltist af vatni.
Fjallið heitir Hvalfell, vatnið Hvalvatn og úr því rennur Botnsá. Hún fellur vestur með Hvalvatni að norðanverðu og beygir svo til suðurs. Þar hefur hún grafið djúpt gljúfur í gljúp jarðlögin í hlíðar dalsins. Þessi gljúfur eru ein hin mestu og hrikalegustu í landinu. Þau eru stutt og dýpst, þar sem áin fellur fram af dalbrúninni í einum fossi. Hann heitir Glymur og er um 200 m hár. Glymsbrekkur eru með stefnu á vesturhorn Hvalfellsins. Fyrrum var fjölfarin leið um þessar slóðir úr Botnsdal yfir í Skorradal, en hún lagðist af með breyttum samgöngutækjum.

Skinnhúfuhellir

Beinkambur með hinu forna lagi, okar 2 með þynnum 2 á milli og standa eirnaglar 2 í gegn: okarnir eru 5,9 og 6,1 cm. að l. og 7-10 mm. að br. Br. kambsins er 3,5 cm. Þynnurnar eru báðar saman 4,5 cm. að lengd: er önnur endaþynna, nær ótent. Rákir 2 eru til prýðis eptir okunum langsetis. Virðist óslitinn og er vafasamt, hvort verið hafi nokkru sinni að gagni eða orðið fullgjör: er mjög óvandaður. Mun vera gamall, en alls ófúinn: líkur kömbum frá miðöldunum. Fanst í litlum helli norðan í Hvalfelli, sunnan við Hvalvatn: mun það vera Skinnhúfuhellir ( sbr. Árm.s, og Árb. 1881, 41). Eru bein mörg í hellinum og í hrúgu í brekku fyrir framan hann. Hefir hér að líkindum verið útilegumannabæli í fyrndinni.

Þótt Hvalvatnið sé ekki stórt að flatarmáli, geymir það mikinn vatnsforða því mesta dýpi þess er 160 m. Leiðin umhverfis Hvalvatn liggur með vatnsborðinu, er auðveld yfirferðar. Tveir litlir hellar eru á þeirri leið. Sá minni er í Skinnhúfuhöfða við vatnið austanvert. Segir þjóðsagan að þar hafi tröllkonan Skinnhúfa búið, en um afreksverk hennar fara engar sögur. Norðaustan úr miðju Hvalfelli gengur klettahöfði fram að vatninu.Â Í honum er lítill og lélegur hellisskúti. Þar eru sýnilegar minjar um mannvistir því hlaðinn hefur verið grjótbálkur í hellinum og eitthvað hefur fundist af dýrabeinum á gólfinu. Hellirinn nefnist Arnesarhellir og er kenndur við Arnes Pálsson sem uppi var á síðari hluta 18. aldar og var alræmdur þjófur. Er talið að hann hafi dvalið þar veturlangt í felum.
Hvalinn, sem öll þessi örnefni eru kennd við, er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Í suttu máli er hún á þá leið að maður í álögum varð að hval og lá hann úti fyrir Hvalfirði, grandaði bátum og drekkti skipshöfnunum. Synir prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd drukknuðu af völdum hvalsins. Presturinn vissi lengra en nef hans náði. Með töfrabrögðum gat hann seitt hvalinn inn fjörðinn, upp Botnsá, upp gljúfrin miklu og inn í vatn. Þar sprakk skepnan. Fannst beinagrind hvalsins þar síðar. Við þennan hval er fjörðurinn, fellið og vatnið kennt.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Hin gamla þjóðleið frá Botnsdal í Hvalfirði til þingvalla er nefnd eftir Leggjabrjóti, illfærum urðarhálsi, sem liggur þvert á leið og var fyrrum hinn versti farartálmi. En eldra nafn á leiðinni var Botnsheiði. Leiðin er nú vörðuð að mestum hluta og ætti það að vera til styrktar í þoku og dimmviðri, Vegalengd er 12-13 km og
ca. 5-6 klst ganga ef farið er í rólegheitum.
 BotnsdalurBotnsdalurinn er stuttur, kjarrivaxinn dalur upp af Botnsvogi. Ísaldarjökullinn myndaði dalinn, svo og Hvalfjörð og alla þá dali og skorninga, sem að honum liggja. Í Landnámabók segir svo:
„Maður hét Ávangur írskur að kyni. Hann byggði fyrst í Botni. þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip og hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamar“ .
Klettahöfði við veginn, innst í voginum að sunnanverðu ber þetta nafn nú. Tveir bæir voru í dalnum Neðri eða Litlibotn og Efri eða Stóribotn. Á Neðrabotni bjó Geir fóstbróðir Harðar Grímkelssonar, sem frá eftir í Harðarsögu. þar bjó um tíma á fyrri hluta þessarar aldar Beinteinn? Hann átti nokkur börn og voru flest þeirra þekkt fyrir skáldgáfu sína. Má þar m.a. nefna Pétur, Halldóru og Sveinbjörn sem síðar var allsherjargoði Ásatrúarmanna.

Litli-Botn

Litli-Botn – Howell 1900.

Annað skáld Jón Magnússon ólst einnig upp á Litlabotni. Upphaflega var Botnsdalur mun lengri, en síðla á ísöld, fyrir u.þ.b. 0.8 milljón arum, var gos undir jökli í miðjum dal og myndaðist þá Hvalfellið, sem rís fyrir enda dalsins (848 m y.s.). Í þessu gosi lokaðist fyrir dalbotninn og í kvosinni myndaðist Hvalvatn.
Í Stóra-Botni var vinsæll áningarstaður ferðamanna, meðan þjóðleiðin lá um Leggjabrjót til Þingvalla. Þar fæddist og ólst upp Jón Helgason rithöfundur og blaðamaður. Botnsá fellur fyrir neðan túnið og þar er göngubrú á henni. Þaðan liggur gamla gatan skáhallt upp brekkurnar í áttina að Botnssúlum.

Botnsdalur

Botnsdalur og nágrenni – kort.

Búskap var hætt á jörðinni laust eftir 1970. Hóf þá eigandi jarðarinnar ræktun barrtrjáa, sem blasa við augum í hlíðinni sunnan ár.
Hvalskarðsá kemur úr Hvalskarði, sem er á milli Hvalfells og Botnssúlna og fellur í Botnsá. Farvegur árinnar myndar smá fossa á leið sinni ofan hlíðina. Á einum eða tveimur stöðum í gilinu seytlar fram volgt vatn, gott til fótabaða.
Hvalvatn - Skinnhúfuhöfði t.h.Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og sést þaðan niður í Botnsdal. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld. Selstaða var í Botnsdal.
Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.

Hvalvatn

Hvalvatn – Hvalfell fjær.

Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Mirkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós.
Skógrækt hófst í landi Stórabotns á vegum eiganda jarðarinnar kringum 1965 og var plantað á þrem árum á annað hundrað þúsund trjáplöntum af ýmsum tegundum. Skógrækt ríkisins sá um framkvæmdina. Þá varð hlé á plöntun þar til árið 1980 er aftur var hafist handa og var á næstu árum plantað um 30 þúsund plöntum á vegum eigenda jarðarinnar. Öll hlíðin sunnan árinnar er í landi Stórabotns. Búskapur lagðist niður í Stórabotni 1982.

Heimildir m.a.:
-http://www.fi.is
-http://www.kjos.is
-MBL, 9. ágúst 1981.

Hvalvatn

Hvalvatn – flugmynd.