Tag Archive for: brunnur

Brunnstígur

Á upplýsingaskilti við gatnamót Brunnstígs og Vesturgötu í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Brunnstígur

Brunnurinn (svartur depill).

„Á fyrrihluta 20 aldar fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar mjög hratt. Samhliða fólksfjölguninni jókst útgerð til mikilla muna og varð þá snemma knýjandi þörf á að koma upp hafskipabryggju í bænum.

Bryggjusmíðin sjálf hófst í mái 1912 og varð hún gerð samkvæmt uppdrætti Th. Krabbe, landsverkfræðings, en bryggjusmiður var Björn Jónsson frá Bíldudal. Laugardaginn 28. desember sama ár lagðist fyrsta skipið að bryggjunni en það var gufuskipið Sterling. Með tilkommu bryggjunnar varð til eftirspurn eftir ýmiss konar þjónustu, þar á meðal vatnssölu til skipanna. Vatnsveita bæjarins var hins vegar ekki í stakk búin að óbreyttu til að veita þessa þjónustu og var því brugðið á það ráð að koma upp geymi til vatnsmiðlunar fyrir bryggjuna. Vatnsgeymirinn eða brunnurinn var reistur hér; honum var valinn staður í hraunbolla við nýja götu sem bar nafnið Vesturbrú en síðar var Brunnstígurinn lagður og er hann nefndur eftir brunninum. Vatn safnaðist í brunninn á næturbar þegar notkun bæjarbúa var í lágmarki en á daginn var því veitt úr honum og niður í vatnsveitukerfi bryggjunnar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fyrsta hafskipabryggjan.

Samkvæmt lýsingu í útboði vegna byggingar vatnsgeymisins var hann 3,2 metrar á dýpt, 9,2 metra víður að innan máli og rúmaði 200 smálestir vatns. Veggirnir voru 50 cm þykkir og inni í geyminum voru fjórar súlur sem héldu þakinu uppi. Eftir að geymirinn var steyptur var jarðvegur setuur upp að honum en þó stóðu alltaf um 40 cm upp úr jörðinni. Geymirinn var niðurgrafinn að stærstum hluta líkt og brunnur og skýrir útlitið því nafngiftina. Guðni Guðmundsson, steinsmiður, sá um að steypa geyminn en Sigurður Thoroddsen, verkfræðingur, teiknaði hann.

Brunnurinn gegndi þessu miðlunarhlutverki fram yfir 1950 en vatn rann þó enn í hann næsta áratuginn. Dæmi eru um að íbúar hafi þurft að ná sér í vatn í brunninn þegar bera fór á vatnsskorti upp úr 1960. Eftir það var brunnurinn meðal annars nýttur sem grænmetisgeymsla.“

Brunnstígur

Brunnstígur – brunnurinn var t.v. á myndinni.

Knarrarnes

Brunnurinn norðvestan við bæinn (Húsið) Hellur á Vatnsleysuströnd dæmigerður fyrir fyrrum hlaðna brunna, þ.e. eldri en fyrir aldamótin 1900.  Hann er í gróinni lægð milli lágra holta, rétt neðan við Digruvörðu.
BrunnurinnÁ Knarrarnesi stóðu bæir Knarrarneshverfis; Minna-Knarrarnes vestar með þurrabúðina Hellur og Vík, Stóra-Knarrarnes innar eða austar. Þar var oft tvíbýli, nefndist Austurbær og Vesturbær.
Þurrabúðin Hellur er í Hellnatúni eða Hellnaflöt, Hellnalóð. Bæirnir stóðu í Knarrarnestúni. Litla-Knarrarnes var vestar í Litla-Knarrarnestúni. Frá bæ lá Litla-Knarrarnesgatan upp á veg. Í túninu var Litla-Knarrarnesbrunnur.
Ofan við þjóðveginn er þessi hlaðni brunnur. Hann hefur verið fylltur upp til að koma í veg fyrir hugsanleg óhöpp líkt og svo margir brunnar aðrir á Reykjanesi. Brunnhleðslan sést vel. Sagðist Birgir, heimalingur í Minna-Knarrarnesi, hafa stundum séð vatn efst í brunninum. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna brunnstæðið er þarna, en þó er vitað að gamli bærinn stóð þarna skammt fyrir norðan brunninn. Hann gæti því hafa tilheyrt honum á þeim tíma. Staðsetningin gæti líka hafa komið til af staðsetningu þurrabúðanna. Fornfáleg hlaðin rétt er skammt ofar. Hún er sigin í jarðveginn, en má sjá móta fyrir henni.
Úr Digravörðu liggja landamerki Minna-Knarrarness í Eldborgir ofan við Knarrarnessel, skammt norðan við gamla Hlöðunesselið. Talið er að varðan hafi verið ein kirkjuvarðanna svonefndu, en þarna neðan við á gatan að Kálfatjarnarkirkju að hafa legið fyrrum.
Þegar hér er komið við sögu hefur FERLIR skoða 158 gamla brunna og vatnsstæði á Reykjanesskaganum (2009).

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Minna-Knarrarnes.

Hellur

Hellur – leikmynd.

Vogar

Gengið var að Gvendarstekk ofan við Voga og síðan haldið til vesturs um holtið að Gvendarbrunni. Þá lá leiðin niður í bæinn og götur þræddar að Suðurkoti. Skammt norðvestan við húsið er Suðurkotsbrunnur. Hann var skoðaður.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Gvendarstekkur er skammt vestan við þjóðveginn niður í Voga, skammt ofan hólinn Skyggni, en hann stendur rétt norðan við svokallað þurrkhús Jóns heitins Benediktssonar frá Suðurkoti (1904-1984). Ofan þurrkhússins og hólsins er trjárækt Ungmennafélgsins Þróttar frá árinu 1951. Standa lágvaxin grenitré sunnan undir fallegum, grónum, en nafnlausum hól. Ofan við hann er annar ámóta hóll og utan í honum sunnanverðum er stór tóft, sem heitir Gvendarstekkur. Þarna virðst hafa verið fjárborg, en enginn veit lengur frá hvaða bæ hún var.
Gvendarbrunnur er milli Leirdals og efstu húsanna í Vogunum. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1160-1237) er sagður hafa vígt brunninn. Hann er lítil hola við klappir og er oftast eitthvert vatn í henni.

Suðurkot

Suðurkot í Vogum.

Suðurkot er eitt af gömlu húsunum í Vogum. Eftir nokkra leit og eftirgrennslan hafðist upp á gamalli konu skammt frá húsinu. Aðspurð um brunninn við Suðurkot gekk hún án hiks að þúst við götukantinn norðvestan við húsið, benti á hana og sagði: “Þarna er hann, brunnurinn, sem var.” Lok hafði verið sett á hann svo enginn færi sér að voða og með tímanum hefur hlaðist utan í og ofan á hann grús frá veginum. Í dag er þessum merkilega brunni lítill sómi sýndur, en tilvalið væri að gera hann upp og hafa hann sýnilegan fyrir áhugasama vegfarendur sem dæmigerðan brunn við hús eða bæ á Ströndinni fyrrum daga.
Frábært veður. Gangan tók 59 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.