Færslur

Geldingadalir

Í frétt RÚV þann 19. mars 2021 segir frá eldgosinu í Geldingadölum í Fagradalsfjalli:
“Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli um klukkan korter í níu föstudagskvöldið 19. mars 2021. Í fyrri hluta apríl hafa fleiri gossprungur opnast. Engin hætta steðjar að byggð vegna gossins. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosinu.”

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – staðsetning eldgoss í Geldingadölum.

Framangreint gos í Geldingadölum kom svolítið á óvart hvað staðsetninguna varðar, en nokkrum mánuðum fyrr höfðu mælst verulegir jarðskjálftar norðan og norðvestan við Grindavík (Þorbjörn). Fargradalsfjall er hins vegar norðaustan og austan við Grindavík (Þorbjörn).

Í Wikipedia er fjallað um eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 frá upphafi til loka:

Geldingadalur

Gígur í Geldingadal eftir gosið 2021.

“Eldgos hófst við Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir). Eldgosið er flokkað sem dyngjugos en slík gos eru fátíð. Kvikan er frumstæð kemur úr 17-20 kílómetra dýpi. Tegund hraunsins er helluhraun og apalhraun. Fleiri gígar opnuðust á upphafsvikum gossins en þegar á leið einangraðist virknin við einn gíg. Hundruð þúsunda hafa skoðað gosið. Eldgosið jók virkni sína eftir því sem á leið sem er óvanalegt.Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Nær 800 ár voru síðan gaus síðast á Reykjanesskaga þegar Reykjaneseldar geysuðu. Og 6000 ár eru síðan gaus í Fagradalsfjalli. Þá rann Beinavörðuhraun.

Frá 18. september hætti hraunflæði frá gígnum. Gosið stóð í um hálft ár og er 4. lengsta gosið á 20. og 21. öld.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Sprunga var metin í byrjun um 200 metrar á lengd þegar þyrla Landhelgisgæslunnar náði fyrstu myndum en síðar 500 metrar. Þann 20. mars mat svo Páll Einarsson sprunguna sem 200 metrar en ofmat var á stærð hennar. Syðri endi tungunnar var nokkra km frá Suðurstrandarvegi. Hrauntungur runnu í suðsuðvestur og vestur í Geldingadali. Geldingadalir eru lokaðir og hraunstreymið varð að fylla dalinn til að komast áleiðis.

Reykjanesskagi

Geldingadalur; eldgos 2021.

Upphafi gossins er líkt við Fimmvörðuhálsgosið. Krýsuvíkurvegi og Fagradalsvegi var lokað. Degi fyrir gosið var búið að loka Suðurstrandarvegi vegna skemmda sem urðu á veginum í kjölfar jarðskjálftahrinunnar. Mengunarviðvörun var send til Árnessýslu þar sem vindáttin liggur í austur frá gosstaðnum, í átt að Hveragerði.

Nokkurn fjölda fólks dreif að og voru sumir vanbúnir, í slæmu skyggni og þurftu björgunarsveitir að bjarga týndu og hröktu fólki. Sumir fóru fullnálægt gígnum en tilmæli voru um. 21. mars var brekka upp að gígnum lokuð. En Almannavarnir og löggæsla bentu á að hrunið gæti úr gígnum og nýjar sprungur gætu opnast. Varað var við að hættulegt gas gæti safnast saman í lægðum í stilltu veðri.

Fólk gekk frá Svartsengi þar sem Suðurstrandarvegur var lokaður vegna viðgerða sökum skjálftanna. En ákveðið var að stika leið frá Suðurstrandarvegi þar sem það var öruggara og styttri.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðýtur voru mættar til að stýra hraunflæðinu.

21. mars: Hraunið var metið 0,15 ferkílómetrar (Magnús Tumi Guðmundsson).
22. mars: Almannavarnir lokuðu svæðinu við eldgosið vegna gasmengunar.
24. mars: Tveir aðalgígar gjósa og eru samvaxnir. Hraunið fyllir nánast dalinn. Ferðamenn flykkjast á staðinn.
26. mars: Allt að tíu milljónir króna framlag var ákveðið af ríkinu til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða gosstöðvarnar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – glóandi hraun.

27. mars: Lokað var eftir hádegi vegna versnandi veðurs. Fylgst var með ferðamönnum með tilliti til sóttkvíarbrota.
28. mars: Hraunið þekur Geldingadalina. Vegagerðin býr til bílastæði þar sem gönguleiðin við Suðurstrandarveg byrjar.
31. mars: Flúormengun mælist í regnvatni við eldstöðvarnar. Ákveðið var að hafa opið frá 6-18 og rýma kl. 22 á svæðinu um páskana. Þekja hraunsins er um 0,3 ferkílómetrar.
2. apríl: Vart varð við fyrstu gjósku gossins eða ljósleitan vikur. Nornahár fannst einnig.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – margir skemmtu sér vel við hraunjaðarinn.

5. apríl: Nýjar sprungur opnuðust, 100-200 metrar að lengd, hálfum kílómetra norðaustan við gígana sem fyrir voru. Hraunelfur tók að renna niður í Meradali. Yfir 500 manns voru á gosstöðvunum og var svæðið rýmt. Virkni gíganna í Geldingadölum minnkaði og var talið að nýju sprungurnar væru hluti af sama kvikuinnskoti.
7. apríl: Ný sprunga, um 150 metra löng, opnast á milli hinna tveggja og rennur hraun í Geldingadali.
8. apríl: Flatarmál hrauns er 0,62 ferkílómetrar samkvæmt Jarðvísindastofnun og hefur hraunflæði aukist með nýjum gígum.
10. apríl: Fjórða sprungan opnaðist milli tveggja nýjustu. Svæði var afmarkað sem hættusvæði á gosstöðvunum þar sem líklegast er að sprungur opnist.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

13. apríl: Enn fleiri sprungur eða gígar opnast og rennur hraunið í suðurátt frá þeim.
16. apríl: Hraun tekur að renna austur úr Geldingadölum. Um fjórðungur landsmanna hefur gert sér ferð að gosinu, um 90 þúsund manns.
19. apríl: Nyrsti gígurinn sem var öflugur rétt eftir páska er kulnaður. Hraunið þekur alls tæpa 0,9 ferkílómetra.
27. apríl: Flatarmál hrauns er 1,13 ferkílómetrar. Virkni mest í syðsta gígnum þar sem strókarnir ná allt að 50 metrum. Virkni í elstu samliggjandi gígunum nær engin.
4. maí: Virknin í þessum eina gíg gengur með hléum og er kröftug inn á milli. Hraun hefur þeyst meira en 200 metra í loft. Rignt hefur gjósku og eru hættur á hraunbombum. Hættusvæði var endurskilgreint.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

10. maí: Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Hæstu strókar hafa náð um 460 metra sem er hærra en Empire State-byggingin.
11 maí: Hraunrennsli er tvöfalt öflugra en það hefur alla jafnan verið. Flatarmál er 1,8 ferkílómetrar (á við Elliðavatn) og hefur hraun fyllt Syðri-Meradal ( þó kallaður Nafnlausi dalurinn af sumum) suðaustur af gígnum.
14. maí: Hafist var handa að reisa varnargarða norður af Nátthaga til að hindra flæði hrauns niður dal í átt að Suðurstrandarvegi.
22. maí: Hraunið fór yfir eystri varnargarðanna og tók að flæða niður að Nátthaga.
1. júní: Hrauntungur ógna útsýnishólnum sem er nálægt gígnum og vestari varnargarðinum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – hraunmyndun.

4. júní: Hraunrennsli lokar fyrir Gónhól og vestari varnargarðar rofna. Stærð hraunsins er nær 3 ferkílómetrar.
10. júní: Virkni gossins hefur breyst. Í stað reglulegra gosstróka fossar stöðugt úr gígnum.
13. júní: Hrauntaumur rennur frá Geldingadölum og niður í Nátthaga og rýfur þar með gönguleið A.
18. júní: Hraun fyllir Nátthaga og nálgast haft suðvestan við hann. Hraunið nálgast Suðurstrandarveg. Ákveðið er að byggja ekki varnargarða til að vernda veginn. Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

26. júní: Varnargarður er byggður við suðvesturenda Nátthaga. Bandarískur ferðamaður týndist við gosstöðvarnar og sást síðast norður af Stóra Hrúti. Hann fannst meira en sólarhring seinna og hafði slasast og týnst. Gönguleið C meðfram Langahrygg er orðin aðalleiðin til að sjá gíginn.
7. júlí: Í byrjun júlí minnkaði virkni í gígnum og tók hann löng hlé. 7. júlí hafði verið hlé í nær 2 sólarhringa en loks sást í glóð í gígnum þó kvika ylli ekki upp úr honum.
23. júlí: Gosið hefur runnið í Meradali síðustu 3 vikur. Hraunflæði hefur minnkað og telur Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur að gosið sé að fjara út á næstu vikum eða 2 mánuðum. Hraunið þekur 4 ferkílómetra.
16. ágúst: Nýr gígur opnast við hliðina á aðalgígnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

5. september: Rýkur úr gígnum en sést ekki í kviku. Gosið er í næstlengsta hléi frá upphafi.
11. september: Gosið heldur áfram en gosrás gígsins hafði verið stífluð. Hraun flæðir utan í gígnum eða í göngum.
15. september: Hraun tekur að flæða niður í Nátthaga úr mismunandi áttum úr hrauntjörn í Geldingadölum þar sem er yfirflæði. Svæðið á gönguleið A var rýmt og lokað tímabundið. Eldgosið er 6 mánaða og er gígurinn orðinn 334 metra hár.
14. október: Ekki hefur gosið í rúman mánuð eða frá 18. september. Rýkur þó úr gígnum. Flatarmál hrauns er tæpir 5 ferkílómetrar.
1. nóvember: Gosinu í Geldingadölum er formlega lokið. Leitarþyrst hellaáhugafólk þarf þó að bíða enn um stund til að geta metið og skoðað aðstæður í hrauninu.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Á Vísindavef HÍ var spurt: Hversu stórt var gosið í Geldingadölum?
“Gos í Geldingadölum hófst 19. mars 2021 og tveimur mánuðum síðar, 17. maí, birtist á Vísindavefnum svar við spurningunni Er líklegt að gosið í Geldingadölum standi lengi? Í svarinu voru færð að því rök, byggt á gefnum forsendum, að ólíklegt væri að gosið yrði langvinnt eða hraunið rúmmálsmikið. Öll eru þessi hugtök – langt og stutt, lítið og stórt – afstæð og merkingarlítil án tiltekins viðmiðs. Því fylgir hér til samanburðar þríein tafla yfir lengd, rúmmál og afl 14 gosa þar sem þessir þættir eru þekktir eða áætlaðir. Töflunni er sem sagt raðað upp á þrjá vegu eftir vaxandi gildi hvers hinna þriggja þátta.
Samkvæmt töflunni hlýtur gosið í Geldingadölum að teljast nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld – aðeins Heklugosið 1947-48, Surtseyjargosið 1963-67 og Kröflueldar 1975-84 vöruðu lengur; Heklugosið 1980-81 mætti virðast lengra, en var í rauninni tvö stutt gos (3 og 7 dagar) með 7 mánaða hléi á milli og Kröflueldar voru röð smærri gosa með hléum á milli.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – megingígurinn.

Gosið í Geldingadölum telst nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld. Það er hins vegar neðarlega á lista yfir rúmmál gosefna og næstaftast á lista þar sem miðað er við meðalafl 14 þekktra gosa.

Geldingadalur

Geldingadalur; gígur eftir eldgosið 2021.

Hvað varðar rúmmál gosefna eru Geldingadalir neðarlega á lista, aðeins hraun flæðigosanna úr Öskju 1961, Heklu 1981 og Fimmvörðuhálsi 2010 eru minni. Og hvað meðalafl (m3/sek) gossins snertir voru Geldingadalir raunar næstaftastir á merinni – aðeins afl 7–daga flæðigoss Heklu 1981 var minna. Lágar tölur fyrir afl Kröfluelda og Heklu 1980-81 stafa af því að tímalengdin er talin frá upphafi eldsumbrotanna til enda.
Öflugustu gosin á listanum eru annars vegar flæðigosin miklu, Skaftáreldar 1783-84 og Holuhraun 2014-15, og hins vegar sprengigos, hrein (Hekla 1980) eða með „stuttum flæðigoshala“ (Hekla 1991 og 2000) – sprengihluti Heklu 1947 var gríðarlega öflugur en honum fylgdi langvarandi hraunflæði.
Samkvæmt þessu reyndist höfundur svarsins á Vísindavefnum 17. maí 2021 ekki sannspár um væntanlega lengd gossins í Geldingadölum, en um hin atriðin tvö – hvort gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda, og hvort gossprungurnar muni teygja sig langar leiðir – mun framtíðin ein eiga svör.”

Hér má sjá MYNDIR af eldgosinu í Geldingadölum.

Heimildir:
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/18/eldgosid-i-geldingadolum-i-beinni-utsendingu
-https://is.wikipedia.org/wiki/Eldgosi%C3%B0_vi%C3%B0_Fagradalsfjall_2021
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=82586

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – fjölmargir lögðu leið sína að gosstöðvunum á meðan var.

Reykjanes

Magnús Á. Sigurgeirsson skrifar “Þátt úr gossögu Reykjaness” í Náttúrufræðinginn árið 2004. Þar fjallar hann m.a. um Eldra-Stampahraunið, Önglabrjótsnef og nágrenni á ysta hluta Reykjanesskagann.
Jarðsagan er óvíða augljósari en einmitt þarna; samspil bergganga, gíga, gjalls, ösku og hrauns. Þá er sagt frá strandi þýsks togara við Önglabrjótsnef 1951.

Eldra-Stampahraun og Tjaldstaðagjárhraun

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson. 

“Eldra Stampahraun kemur frá um 4,5 km langri gígaröð, Eldri-Stampagígaröðinni, sem liggur til norðausturs frá Kerlingarbás, inn á land. Gígaröðin er mjög slitrótt enda umflotin og sums staðar kaffærð af Yngra Stampahrauninu, yngsta hrauni Reykjaness. Eldra Stampagosið má flokka sem blandgos þar sem veruleg gjóskuframleiðsla átti sér stað samhliða hraunrennsli. Á norðurhluta gossprungunnar var kvikustrókavirkni og gjallmyndun ásamt hraunrennsli einkennandi en á suður Wuta sprungunnar, sem lá neðansjávar, var hins vegar öskumyndun ráðandi. Gosaska frá Eldra-Stampagosinu barst inn til landsins og finnst nú í jarðvegi á vestanverðum Reykjanesskaga. Öskulagið er nefnt R-3.
ÖnglabrjótsnefUm aldur Eldra Stampahrauns hafa fengist vísbendingar með hjálp öskulagatímtals og 14C-aldursgreininga. Öskulög hafa ekki fundist í jarðvegi undir hrauninu en hins vegar er afstaða þekktra öskulaga til R-3 vel þekkt. Elsta þekkta öskulag ofan R-3 er um 1400 ára gamalt Heklulag og næsta lag neðan R-3 er um 2000 ára gamalt Kötlulag. Kolefnisaldursgreining á mó undan R-3 bendir til að lagið sé minna en 2200 ára gamalt.

Önglabrjótsnef

Reykjanes – kort. Tjaldstaðagjá er merkt á kortið.

Út frá þessum vísbendingum er dregin sú ályktun að Eldra Stampagosið hafi orðið fyrir um 1800-1900 árum.
Skammt austur af Eldra Stampahrauni er hraun sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun og er víðáttumesta hraun á Reykjanesi. Upptök þess eru á um 1 km langri gígaröð sem liggur í framhaldi af Stampagígaröðinni til norðausturs. Aldur hraunsins hefur verið nokkuð á reiki en öskulagarannsóknir hafa staðfest forsögulegan aldur þess.
Stampar
Elsta gjóskulag sem fundist hefur ofan á Tjaldstaðagjárhrauni er fyrrnefnt 1400 ára gamalt Heklulag en ekki hefur tekist að finna jarðveg undir hrauninu.
Afstaða Tjaldstaðagjárhrauns til Eldra Stampahrauns sýnir að það hefur runnið síðar en Stampahraunið. Á milli þeirra er einungis foksandur en enginn jarðvegur. Bendir flest til að hraunin séu af líkum aldri og hafi runnið á sama gosskeiði, ef til vill í sömu eldum, fyrir tæpum tvö þúsund árum.

Reykjaneseldar fyrir tvö þúsund árum

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás, öskulög og hraunhella efst.

Þar sem Eldri Stampagígaröðin liggur að sjó í Kerlingarbás hafa myndast jarðlagaopnur af völdum sjávarrofs sem gefa færi á að skoða hraun, gíga og gjóskulög frá ýmsum tímum í þversniði (2. og 3. mynd). Segja má að megindrættirnir í gossögu Reykjaness síðustu árþúsundin blasi þarna við augum. Ekki verður öll sú saga rakin hér heldur aðeins það sem viðkemur Eldra Stampagosinu.
Stampar
Fyrstu merki um virkni á Eldri Stampagígaröðinni er þunnt fínkorna öskulag sem liggur næst undir syðsta gjallgíg gígaraðarinnar og hrauntaumum frá honum. Af kornagerð öskunnar að dæma hefur hún myndast í neðansjávargosi. Askan hefur ekki fundist í jarðvegssniðum og bendir það til lítillar dreifingar á landi. Af þessu má ráða að upphaf Eldra Stampagossins hafi verið í sjó. Upptakagígurinn er nú með öllu horfinn. Vísbendingar eru um að gossprungan hafi einnig verið virk á landi um svipað leyti. Ofan á öskulagið R-2 hleðst síðan myndarlegur gjallgígur, um 20 m hár. Gosrás gígsins, sem nú er bergstandur, gengur upp í gegnum öskulagið.
Haun frá þessum gíg og öðrum nærliggjandi hafa byggt upp Önglabrjótsnef, en þar er hraunið að minnsta kosti fimm metra þykkt. Gosvirknin hefur einkennst af kvikustrókavirkni og hraunrennsli.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Kerlingarbás, Valahnúkar og Karlinn fjær.

Hraunrröð liggur frá gígnum út eftir Ónglabrjótsnefi. Þegar hraungosinu linnti færðist virknin að nýju á neðansjávarhluta gossprungunnar og þeytigos varð í sjó með tilheyrandi öskumyndun og þá myndaðist öskulagið R-3, sem fyrr er nefnt. Af þykkt öskunnar á landi að dæma, en hún er allt að 1,2 m, hafa upptökin verið innan við 1 km frá núverandi strönd í beinu framhaldi af Eldri Stampagígaröðinni. Athuganir leiddu í ljós að öskulagið R-3 er yfirleitt mjög rofið og að upphafleg þykkt þess hafi því verið mun meiri en nú mælist. Varlega áætlað gæti lagið hafa verið rúmlega þriggja metra þykkt við Kerlingarbás.
Skýr merki eru um að askan hafi kaffært hraun og gíga næst ströndinni. Á Önglabrjótsnefi myndar R-3 víða 10-20 cm þykka túffskán ofan á Eldra Stampahrauninu. Af þykktardreifingu gjóskunnar að dæma hefur gígrimi upptakagígsins að öllum líkindum náð inn á ströndina við Kerlingarbás. Útbreiðsla öskulagsins R-3 inn til landsins hefur einkum verið til norðausturs, í áttina að Njarðvíkum (1. mynd). Öskufall yfir hafsvæði er óþekkt en hefur vafalítið verið talsvert.
Önglabrjóstnef
Í lokaþætti þessara elda rann Tjaldstaðagjárhraun, nokkrum árum eða áratugum eftir Eldra-Stampagosið. Hraunið rann frá um 1 km langri gígaröð um 1 km norðaustur af Eldri Stampagígaröðinni. Hraunið er mestmegnis úfið apalhraun en dálítil spilda af helluhrauni myndaðist þó einnig. Samanlagt eru gígaraðirnar báðar um 6 km að lengd. Sjáanlegt flatarmál hraunanna er um 11,4 km2. Hins vegar má hækka þessa tölu um allt að 4 km2, eða sem nemur því landsvæði sem þakið er Yngra Stampahrauninu.
Heildarflatarmál hraunanna gæti legið nærri 15 km2. Rúmmál hraunanna gæti verið um 0,1 km3, miðað við 5 metra meðalþykkt. Nokkur landauki var af Eldra Stampahrauninu við norðvesrurströnd Reykjaness, frá Önglabrjótsnefi, um Kinnaberg og austur að Stóru-Sandvík.
Varlega áætlað má telja að um 500 m breið og um 4 km löng ræma hafi bæst við þáverandi strönd.

Önglabrjótsnef
Um miðja Stampagígaröðina eru tveir gígar sem bera þess merki að hafa hlaðist upp nærri fjöruborði en innan um gjall í þeim má finna núna fjörusteina (6. mynd). Út frá gerð gjóskunnar má fara nokkru nærri um myndunarsögu gíganna. Upphaf gosvirkninnar hefur einkennst af gufusprengingum þegar sjór streymdi að gosopunum. Gosefnin hafa þá einkum verið fínkorna aska en síðar, þegar tekur fyrir aðstreymi sjávarins, verður gjallframleiðsla ráðandi. Að síðustu hefur hraun runnið frá gígunum. Líklegt verður að telja að þessir gígar séu frá upphafi Eldra Stampagossins og gætu því verið samtíma öskulaginu R-2, sem fyrr er nefnt. Á gömlum loftljósmyndum sést að þessir gígar hafa eitt sinn verið stærstu gígar Eldri-Stampagígaraðarinnar. Nú eru þarna gapandi tóftir eftir langvarandi gjallnám.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Mikið sandfok hefur verið á Reykjanesi eftir Eldra Stampagosið og má reikna með að gjóskulagið R3 ásamt upptakagíg þess hafi verið meginuppspretta þess. Lagið er mjög rofið, eins og fyrr segir, og víða í sköflum. Við Stóru-Sandvík, þar sem jaðrar Eldra Stampahrauns og Tjaldstaðagjárhrauns mætast, sést að þykkir skaflar hafa hlaðist upp við jaðar Stampahraunsins áður en yngra hraunið rann upp að því. Af jarðvegssniðum að dæma var jarðvegur á Reykjanesi sendinn og rýr öldum saman eftir eldana.”

Í Tímanum árið er fjallað um strand þýsks togara við Önglabergsnef undir fyrirsögninni “Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef – Losnaði af grunni, sökk á skammri stundu, en áhöfnin bjargaðist í annan togara”:

“Klukkan 6.40 í gærmorgun strandaði þýzki togarinn Karlsburg Danh við Önglabrjótsnef, nyrðri tá Reykjaness, sunnanvert við Sandvíkurnar. Losnaði hann af grunni tæpum tveimur stundum síðar, en sökk síðan innan lítillar stundar.
Forðuðu skipverjar, tuttugu menn, sér í björgunarbátana, og komust þeir í annan þýzkan togara, Hans Böchler, er var í námunda við strandstaðinn.

Fyrstu fregnir af strandinu

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – brim.

Loftskeytastöðin í Reykjavík náði fyrst fregnum af strandinu, og lét hún Slysavarnafélagið þegar vita. En það sneri sér til björgunarsveitarinnar í Grindavík og vitavarðarins á Reykjanesi, Sigurjón Ólafssonar, er var einn karlmanna á bænum. — Brá hann þegar við og fór á strandstaðinn með línubyssu og annan útbúnað, er til björgunar þurfti. Dró hann þetta eftir sér á sleða.
Meðan þessu fór fram var slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík að senda hina öruggu björgunarsveit sína af stað á stórum bifreiðum, en torfæri var yfir að fara og færðin hin versta. Björgunarsveit úr Höfnum lagði einnig af stað.

Samband við skip

Önglabrjótsnef

Þýskur togari líkur Karlsburg Danh.

Loftskeytastöðin í Reykjavík var í stöðugu sambandi við annan þýzkan togara, Schütting, er var á þessum slóðum, og tilkynnti hann, að Karlsburg Danh væri strandaður við Önglabrjótsnef, og voru önnur skip látin vita um þetta. Klukkan 8.20 tilkynnti Schütting, að hinn strandaði togari hefði losnað af grunni og hefði getað hreyft vél sína, en mikill leki væri kominn að skipinu. En eftir þetta segir ekki af skipinu, því að það sökk að skammri stundu liðinni.
Hans Böchler kom með skipsbrotsmennina til Reykjavíkur um miðjan dag í gær. Voru þeir allir hressir. Slysavarnarfélagið tók á móti þeim.”
Sjá meira un strandið HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.03.2004, Þáttur úr gossögu Reykjaness – Magnús Á Sigurgeirsson, bls. 21-28.
-Tíminn, 33. tbl. 09.02.1951, Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef, bls. 1 og 7.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Eldgos

Í Dagblaðið Vísir árið 2001 er haft eftir Ara Trausta Guðmundssyni, jarðeðlisfræðingi, að “Það muni verða eldgos á Reykjanesskaganum“:

Þéttbýlasta svæði landsins óþægilega nálægt virkum eldstöðvum

Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson.

Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – segir Ari Trausti Guðmundsson en vill engu spá um hvar eða hvenær.

„Ljóst er að sumar byggðir á þéttbýlasta svæði landsins eru óþægilega nálægt virkum skjálftasprungnum eldstöðvakerfum gosbeltanna fjögurra á Reykjanesskaga, eða nálægt misgömlum gossprungum í þeim.” Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur m.a. í nýrri bók sinni „íslenskar eldstöðvar” sem kemur út í þessari viku. Þar er m.a. fjallað ítarlega um eldstöðvakerfi Reykjanesskagans sem talið er líklegt að láti á sér bæra, jafnvel í náinni framtíð.
Í niðurlagi kaflans um Reykjanes segir:
„Enn fremur er vitað að rek- og goshrinur ganga yfir í kerfunum á 700-1000 ára fresti. Nú er langt liðið á kyrrðartímabil hvað jarðeldinn varðar. Þess vegna verður t.d. að gera ráð fyrir að eldar, svipaðir Reykjanes-, Bláfjalla- og Nesjavallaeldum, geti valdið tjóni og óþægindum á Reykjanesskaga á næstu öldum.

Sprungusveimar

Sprungusveimar á Reykjanesskaga.

Áhrif hvers eldgoss ræðst m.a. af legu gossprungna, magni gosefna, aðstæðum á nálægu landsvæði og gosháttum. Hraungos í kerfunum virðast flest vera fremur lítil en skaginn er ekki breiður og ávallt er hætta á að hraun nái af hálendi hans út á láglendið og jafnvel til sjávar. Lítil gjóska fylgir slíkum gosum. Gjóskugos verða helst í sjó undan Reykjanesi eða lengra úti á hryggnum. Gjóskumagnið er þó venjulega fremur takmarkað en gæti samt valdið óþægindum og jafnvel tjóni. Ástæða er til að vinna áætlanir um viðbrögð, meta vel hættur og goslíkur og vakta eldstöðvakerfin á skaganum. Allt þetta hefur verið gert og unnið er áfram að því að draga úr áhættunni við að búa á „landlægum” hluta plötuskilanna í Norður-Atlantshafinu.”

Líkurnar aukast
Eldstöðvakerfi
Jarðfræðingar hafa á síðustu árum og misserum ítrekað gefið í skyn að gos í einhverju hinna fjögurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans séu ekki mjög langt undan. Þannig sagði Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur í samtali við DV fyrir skömmu að menn velti því fyrir sér núna hvort við séum hugsanlega að sigla inn í nýtt gostímabil.

Ölfus

Jarðskjálftasprungur eftir Suðurlandsskjálftana 17. og 21. júní árið 2000.

Við stóru jarðskjálftana á Suðurlandi á og eftir 17. júní varð keðjuverkun jarðskjálfta vestur eftir Reykjanesskaga. Áhrif þeirra urðu m.a. mjög sýnileg er Kleifarvatn fór að leka ört niður um sprungur sem þá opnuðust. Jarðskjálftar á Hengilssvæðinu undanfarin ár hafa líka vakið athygli. Hvort það séu vísbendingar um að stórir atburðir séu í aðsigi virðist þó erfitt að henda reiður á. Það lá því beinast við að spyrja bókahöfundinn sjálfan, Ara Trausta Guðmundsson, hvernig hann mæti möguleikana á eldgosi á svæðinu í náinni framtíð.

Það mun verða eldgos
„Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum, það er alveg á hreinu. Það sem bæði jarðfræðingar og leikmenn hafa síðan áhuga á að vita er hvar og hvenær slíkt gos verður. Þegar jarðvísindamenn eru að fjalla um svona mál eru þeir ekki endilega að velta upp öllum hugsanlegum möguleikum.
Eldstöðvakerfi
Það er sjaldan hægt að útiloka nokkurn hlut í náttúrunni en menn velta helst fyrir sér því sem líklegast er að gerist. Menn notast við mæligögn, söguna og það sem almennt er vitað um eldvirkni til að leggja upp möguleika í stöðunni. Þá er helst til að taka að við vitum um þessi fjögur eldstöðvakerfi sem liggja skáhalt vestur eftir Reykjanesskaganum.

Ekki allur Reykjanesskaginn undir

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Við þorum nánast að fullyrða að eldgos verði ekki utan þessara kerfa, heldur einungis innan þeirra.
Þar með erum við að segja að á nánast helmingi flatarmáls skagans verða ekki eldgos. Það verður sjaldan eða aldrei eldgos á milli þessara reina sem greinilega má sjá á korti.

Eldgos

Eldur undir hrauni í Geldingadölum 2023.

Í öðru lagi er hægt að sjá nokkuð ákveðna tíðni í eldgosahrinum. Þetta eru yfirleitt rek- og goshrinur eins og Kröflueldar voru. Það verður jarðgliðnun og það koma og fara eldgos á kannski nokkurra áratuga tímabili. Það virðist vera að það séu um 700 til 1000 ár á milli slíkra lotuhrina í einhverjum af þessum fjórum kerfum á skaganum.”
Ari Trausti segir að á sögulegum tíma hefur eldvirknin þó ekki byrjað í austasta svæðinu sem er Hengilskerfið. Það hefur ekki látið á sér bæra í 2000 ár. Gosvirkni byrjaði hins vegar í næstaustasta kerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll. Síðan fór virknin í næsta kerfi sem er Trölladyngukerfið og síðast gaus í vestasta kerfinu sem er Reykjaneskerfið. Þegar slík eldvirknitímabil fara af stað virðast þau standa yfir í nokkra áratugi eða aldir í fleiri en einu kerfi. Á sögulegum tíma stóð það siðast seint á tíundu öld og fram yfir miðja þrettándu öld.

Líkt og Kröflueldar
Stampahraun
„Það sem er þó nokkur huggun harmi gegn er að þessi eldgos sýnast ekki vera mikil hvert um sig. Þetta eru sprungugos með hraunflæði og lítilli gjóskumyndun, ekki ólík síðustu Kröflugosum. Það er útilokað á þessari stunda að segja til um hvort svona hrinur byrji eftir ár, einn eða fleiri áratugi eða jafnvel ekki fyrr en eftir eina öld.
Við erum að tala um að 700 til 1000 ár líði á milli hrina og nú eru um 750 ár síðan síðasta hrina gekk yfir.”

Hengill

Hengill.

Líkindi á gosi á Hengilssvæðinu – Nú hefur ekki gosið á Hengilssvæðinu í um 2000 ár. Er þá ekki kominn tími á það, ekki síst ef menn líta til kvikusöfnunar sem vitað er af undir eldstöðinni fram á mitt ár 1999?
„Jú, ef maður hugsar í líkindum þá er auðvitað rétt að meiri líkindi eru á að Hengilskerfið taki við sér næst frekar en önnur þar sem það hefur verið sofandi dálítið lengi. Við vitum að þar hafa gengið yfir að minnsta kosti þrjár goshrinur á síðustu nokkur þúsund árum, síðast fyrir um 2000 árum. Það er því nokkuð líklegt að það geti tekið við sér.
Landris og kvikusöfnun sem var undir Henglinum í lok tíunda áratugarins sýnir svart á hvítu að þarna er heilmikið líf. Þau áhrif sem Suðurlandsskjálftar valda hafa síðan mest áhrif á Hengilskerfið af öllum þessum eldstöðvakerfum. Sem betur fer stoppaði þetta landris 1999. Menn reiknuðu þá út að þetta hafi verið um 100 milljón rúmmetrar af kviku sem hafi risið upp undir Grafarholtshverfinu. Í því er hætta á mun minni skjálftum.

Grindavík, Hveragerði og Hafnarfjörður

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum ofan Grindavíkur 2021.

-Hver er hættan á þétfbýlissvæðum Reykjanesskagans?

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

„Ég tel ekki að um yrði að ræða umtalsvert tjón af völdum jarðskjálfta á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Varðandi eldgos er matið öðruvísi. Við getum þó afskrifað gjósku sem alvarlegan tjónvald. Hraunin geta hins vegar runnið langt út frá gossprungum.
Hættan á gosum á Hengilssvæðinu er fyrst og fremst fyrir sumarbústaðasvæði allra syðst við Þingvallavatn. Fyrir Nesjavallavirkjun, mannvirki á Hellisheiðinni og síðan Hveragerði. Ég tel ekki nokkrar líkur á að hraun úr slíku gosi næði fram til Reykjavíkur.
Í Bláfjalla- og Brennisteinsfjallakerfinu er hættan ekki mikil á suðurhluta svæðisins. Hins vegar er viss hætta með skíðamannvirki í Bláfjöllunum. Ekki er mikil hætta á að hraun úr þessu kerfi næðu til þéttbýlissvæða.

Trölladyngjukerfið er einna hættulegast

Trölladyngja

Horft til Trölladyngju og Grænadyngju frá Helgadal. Mökkur frá gösstöðinni í Geldingadal t.h.

Trölladyngjukerfið er hins vegar einna hættulegast af þessum kerfum, vegna legunnar. Innan þess er t.d. Grindavík, ný mannvirki í Trölladyngju og Svartsengi er í námunda við þetta svæði. Þá er möguleiki á því að hraun úr nyrðri hluta svæðisins nái til sjávar nálægt Hafnarfirði. Þar yrði álverið í Straumsvík í hættu og Keflavíkurvegurinn á kaflanum frá Kúagerði að Hafnarfirði. Þarna hafa runnið hraun á sögulegum tíma.

Trölladygja

Trölladyngja og nágrenni.

Reykjaneskerfi er hins vegar fjær allri byggð. Hættan væri hugsanlega varðandi mannvirki á Reykjanesi og í Eldvörpum. Síðan er Svartsengi nálægt þessu kerfi líka eins og Trölladyngjukerfinu. Hins vegar er möguleiki á sprengigosi líku Surtseyjargosi í sjó við Reykjanes. Þar gaus t.d. á þrettándu öld. Sú gjóska getur fallið á allan Reykjanesskagann og víða á Suðvesturlandi. Ekki eru þó líkur á miklu tjóni af þess völdum.”
Í bók Ara Trausta er einmitt lýst þegar Snorri Sturluson missti naut sín í Svignaskarði af völdum öskufalls úr gosi við Reykjanes árið 1226. Þetta öskulag er kallað miðaldarlagið og er notað sem viðmiðun við fornleifarannsóknir. Drangurinn Karl undan vitanum á Reykjanesi er það sem enn má sjá af gígnum.
Ari Trausti Guðmundsson vill engu spá, frekar en aðrir jarðfræðingar, um hvar og hvenær næsta gos verður. Möguleikar til að spá fyrir slíku eru þó alltaf að batna. Fyrirvarinn sem menn hafa er hins vegar æði misjafn og fer algjörlega eftir eðli hvers eldgosasvæðis fyrir sig – kannski hálftími, jafnvel einhverjir klukkutímar eða dagar. – HKr.

Heimild:
-Dagblaðið Vísir 275. tbl. 28.11.2001, Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – Ari Trausti Guðmundsson, bls. 8-9.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaganum 2021.

Eldgos

Í Bæjarblaðinu, útgefnu af Stapaprenti, árið 1991 er fjallað um mögulegan “Suðurlandsskjálfta árið 2020” sem og “Drauma og fyrirboða um náttúruhamfarir á Reykjanesi“:

Sprunga

Sprunga á Reykjanesi.

“Eigum við á suðvesturhorninu yfir höfði okkar það gífurlegar náttúruhamfarir, að Reykjanesskaginn klofni frá landinu? Allir hafa einhvern tímann heyrt minnst á hinn svokallaða Suðurlandsskjálfta; stóra jarðskálftann, sem talið er að snarpur og öflugur, að af hljótist þær gífurlegu hamfarir sem að ofan greinir. Og það sem meira er; stóri skjálftinn gæti venð á næsta leiti.
Við skulum til fróðleiks líta örlítið á jarðfræðilega gerð Reykjanesskagans annars vegar og hins vegar á drauma og fyrirboða um stóra skjálftann.

Glöggt samband á milll sprungureina og jarðskjálfta

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Sagt er að hugsanlegur stórskjálfti muni kljúfa Reykjanesskagann austan frá Grindavík að Hafnarfirði en þar liggur stór sprungurein. Eins er líklegt að skaginn klofni frá Önglabrjótsnefi, skammt norður af Reykjanestánni, en þar liggur sprungurein í Norðaustur til Suðvesturs, og glöggt samband er á milli þessara sprungureina og jarðskjálfta á Reykjanesi. Þegar skoðað er jarðfræðikort af svæðinu kemur þetta betur í ljós. Telja má líklegt að þessi gliðnun muni frekar gerast á löngum tíma en í einu vettfangi.

Sprungur

Hraunsprungur millum Vatnsleysustrandar og Grindavíkur.

Draumspakt fólk segir hins vegar að þetta gerist í einu vettvangi, fyrirvaralaust, eins og fram kemur á eftir.
Á Reykjanesi eru sex aðskildar sprungureinar, en ein þeirra er hin svokallaða Eldeyjarrein. Hún liggur norðan Sandvíkur og nær norðaustur undir Vogaheiði. Þetta er norðurendi reinar sem teygir sig suðvestur fyrir Eldey. Miðja hennar er að líkindum á Eldeyjarsvæðinu. Engar gosmyndarnir hafa fylgt þessari rein uppi á landi, en oft hefur gosið á henni neðansjávar undir Reykjanesi, nú síðast í haust. Í lok októbermánaðar mældist gífurleg jarðskjálftahrina u.þ.b. 150 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Stóð hrinan yfir í sólarhring og mældust skjálftarnir allt að 4,8 stig á Richterskvarða.

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

“Þetta er það mesta sem við höfum sé í áratugi”, sagði Ragnar Stefánsson, jarðeðlisfræðingur, í samtali við DV þann 2. nóvember 1990. Önnur óvenjulega kröftug jarðskjálftahrina á Reykjaneshryggnum stóð yfir dagana 8. – 9. september síðastliðinn.

Grindavík

Sprunga í íþróttahúsinu í Grindavík 2023.

Þeir skjálftar áttu upptök sín um 100 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Sterkustu kippirnir mældust 5,5 – 6 stig. Svipað gerðist í maí 1989 á stað milli hinna tveggja framangreindra eða á 900 – 1000 metra dýpi um 500 kílómetra frá Íslandi Þeir kippir mældust 5 stig á Richter. Þessar þrjár óvenjukröftugu jarðskjálftahrinur hafa því mældst í beinni línu suðvestur af landinu á rúmlega 800 kílómetra belti út frá Reykjanesskaga, og þessi virkni færist nær og nær landi.
Fjórða og síðasta hrinan mældist síðan um miðjan nóvember í aðeins 50 kílómetra fjarlægð frá landi. Sterkustu kippirnir í þeirri hrinu mældust 4,5 á Richter.

Samfelld sprungubelti

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

Lítum aðeins á sprungukerfin á Reykianesskaganum. Þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós sem styður kenninguna um gliðnunina. Í skýrslu eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing segir: NA-SV sprungureinarnar eru mest áberandi á skaganum og ráða mestu um jarðfræðilega gerð hans. Þegar betur er að gáð, koma í ljós aðrar sprungur sem einnig gegna þýðingarmiklu hlutverki í sama tilliti.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Þetta eru sprungur sem stefna norður – suður og eru yfirleitt lítið áberandi. Þær raða sér saman í stuttar reinar sem ekki eru skýrt afmarkaðar en skera sig þó nokkuð úr NA-SV-sprungunum. Þær eru tiltölulega stuttar eins og áður er nefnt, um 5-10 km. Þessar N-S reinar virðast vera framhald af þeim sprungum sem Suðurlandsskjálftarnir eiga upptök sín í og má e.t.v. líta svo á að þessar sprungur myndi nær samrellt belti frá Suðurlandsundirlendi og út á Reykjanes, þótt ekki sjáist sprungur á því öllu.
Þegar dreifíng N-S sprunganna er borin saman við dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesi, kemur mjög glöggt samband í íjós. N-S sprungurnar falla nær alveg saman við skjálfta á Reykjanesi á árabilinu 1971-75. Skjálftarnir raða sér á mjótt belti sem liggur nær austur-vestur þvert á NA-SV reinarnar. Af þessu má draga þá ályktun að N-S brotabeltið sé í orsakasambandi við skjálftana.

Sprungur

Hraunsprunga Við Kaldársel.

Á Suðurlandsundirlendi er einkar glöggt samband milli “-Sprungureinanna og jarðskjálfta. Slíkt samband er einnig hægt að sjá á Reykjanesi. Í skjálftahrinu sem varð á tímabilinu 3. ágúst til 13. september 1972 yst á Reykjanesi, urðu flestir skjálftanna á Reykianesrein en þar sem NS-sprungurein sker hana austan á Reykjanestánni leiddu skálftarnir út í N-S sprungurnar.
Reykjanesskaginn er hluti af sprungukerfi, sem liggur um Atlandshaf endilangt og tengir saman svonefndan Reykjaneshrygg, þar sem áðurnefndir skálftar voru í haust, og gosbelti Íslands. Sprungureinarnar einkennast af opnum sprungum og gjám. Þær eru mislangar, 25 – 50 km og yfirleitt 5-7 km. breiðar. Svæðið er því allt “sundurskorið” og sprungubeltin eru stærst þar sem talið er að Reykjanesskaginn muni klofna frá meginlandinu.
Þá er ónefnd ein sprungurein, sem veita ber athygli með hliðsjón af draumafrásögnunum hér til hliðar. Það er hin svonefnda Krýsuvíkur – Trölladyngjurein. Reinin er mjög löng, eða a.m.k. 60 km og nær allt upp í Mosfellssveit.

Draumar og fyrirboðar -um náttúruhamfarir á Reykjanesi

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Fjölmargt fólk með dulskyggnigáfu hefur fengið vitranir eða draumfarir um stórbrotnar náttúruhamfarir á Reykjanesi og benda draumarnir allir í sömu átt.

Í bókinni Framtíðarsýnir sjáenda, sem kom út árið l987, er sérstakur kafli um þetta. Þar skýra sjáendur frá upplýsingum sem þeim hefur vitrast í draumi, og það er einkar athyglisvert hvað draumum fólksins ber saman.

Náttúruhamfarir árið 2020

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – hraun.

Draumspakur maður og dulskyggn með forspárgáfu, segir frá draumi sínum, sem er á þá leið að farið var með hann í flugferð ” um svæðið næst höfuðborginni”. Honum var sagt að þáverandi tímatal væri 2020 og honum voru sýndar breytingarnar sem orðnar voru. Hið helsta úr lýsingunni var það, að Hafnarfjörður var kominn undir hraun að miklu leyti.

Sprunga

Hraunsprunga á Reykjanesskaga.

Byggðin á Seltjarnarnesinu öllu var eydd og gamli miðbær Reykjavíkur sokkinn í sæ. Þéttasta byggðin átti hins vegar að vera kominn í Mosfellsdalinn.
Reykjanesið klofnar frá meginhluta landsins. Annar maður varð fyrir svipaðri reynslu í draumsvefni. Hann segir svo frá:
“Draumurinn var á þá lund, að ég þóttist sjá landabréf af Íslandi, sem var svarthvítt og flatt að öðru leyti en því, að Reykjanesið var marglitt og upphleypt eins og plastkortin líta út.
Þetta var reyndar í fyrsta sinn að ég sá upphleypt kort, þ.e. í draumnum. Mörkin milli litaða svæðisins og þess svarthvíta á kortinu voru lína sem lá í suðvestur-norðaustur og lá nokkurn veginn með Kleifarvatni endilöngu og síðan í norður í átt til Straumsvíkur. Eftir því sem ég heyrði fleiri frásagnir af draumum varðandi þetta mál allt, þýddi ég drauminn á þann veg að Reykjanesið muni klofna frá meginhluta landsins í stórbrotnum náttúruhamförum”. Sami aðili segir að atburðarrásin verði þannig: “Eftir Vestmannaeyjagosið verður gos í Kröflu. Þar á eftir verður svo Suðurlandsskjálfti og Kötlugos. Nokkru síðar verður gos í Bláfjöllum”.

Grindavík horfið með öllu

Grindavík

Grindavík – loftmynd.

Kona sem er skyggn sá Reykjavík og nágrenni í framtíðarsýn. Henni virtist Reykjanesið hafa orðið fyrir stórfelldri jarðfræðilegri röskun.

Reykjavík

Reykjavík og Seltjanarnes.

Hún segist ekki geta fullyrt hvenær þetta verði, né hvort breytingarnar gerist með snökkum hætt eða smám saman. Frásögn hennar er á þessa leið: “Stór hluti Reykjavíkur er kominn undir sjó. Öskjuhlíðin og Langholtið eru óbyggðar eyjar.
Valhúsarhæðin og ýmsir aðrir staðir standa líkt og sker upp úr sjónum. Það er byggð í útjaðri Breiðholts, en þó fyrst og fremst við Úlfarsfell, upp Mosfellsdalinn og meðfram Kjalarnesinu. Égsé að það hafa orðið miklar jarðhræringar og eldsumbrot á Bláfjallasvæðinu. Það leggur hraunstraum niður Elliðaárdalinn. Hafnarfjörður er í eyði og Grindavík hefur horfið með öll. Það er engu líkara en að Reykjanesið hafi færst til í gífurlegum náttúruhamförum”.

Gerist fyrirvaralaust – stutt í atburðinn

Reykjavíkursvæðið

Reykjavíkursvæðið – Viðeyjargígur.

Ung kona sem er berdreyminn og hefur margsinnis orðið fyrir sálrænum viðburðum, segir frá reynslu sinni á þennan veg:
“Áður en Vestmannaeyjagosið varð dreymdi mig það í þrjár nætur samfellt. Síðustu nóttina sá ég hvernig fólkið flúði í átt að bryggjunni og þegar ég vaknaði um morguninn leið mér vel því ég vissi að enginn hafði farist.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur.

Skömmu síðar var ég á ferð um landið og var þá bent á þá staði þar sem yrðu eldsumbrot. Ég vissi að eftir Vestmannaeyjagosið yrði gos í Kröflu og því næst í Heklu. Þá verður einnig mikið eldgos nálægt Reykjavík.
Rúmlega tvítug bjó ég í Efra-Breiðholti og dreymdi á þennan draum: Mér rannst ég rísa úr rúmi mínu og ganga fram í stofu, að stofuglugganum. Þá sá ég sjón sem ég gleymi ekki á meðan ég lifi. Ég sá fólk flýja skelfingu lostið í átt að Mosfellssveit. Í áttina að Hafnarfirði var eldur og óhugnanlegur reykjamökkur, sem færðist nær með braki og brestum. Vegna þess að flest af því sem mig hefur dreymt um framtíðina hefur komið fram, varð ég mjög óttaslegin vegna þessa draums. Í margar vikur á eftir hafði ég alltaf til taks það allra nauðsynlegasta, ef til þess kæmi að ég þyrfti að flýja.
Í nóvember árið 1987 dreymdi mig aftur Reykjavíkurgosið. Í Elliðaám sá ég glóandi hraunstraum. Þetta gerist að nóttu til án nokkurs fyrirvara. Rafmagnið fer og og ég skynjaði hvernig undarleg og óþægileg lykt mengaði andrúmsloftið. Margir verða að flýja heimili sín. Mér finnst vera stutt í þennan atburð”.

Suðurlandsskjálftinn 2000

Afleiðingar Suðurlandsskjálftans 17. júní árið 2000.

Í Árbók VFÍ/TFÍ árið 2001 er sagt frá Suðurlandskjálftunum 17. júní og 21. júní 2000:
“Suðurlandsskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000.

Jarðskjálfti

Suðurlandsskjálftinn árið 2000.

Í júní 2000 urðu tveir stórir jarðskjálftar á Suðurlandi með upptök nálægt Þjórsárbrú. Fyrri skjálftinn var 17. júní, kl. 15:40. Hann var af stærðinni 6,6 (Mw) með upptök nálægt Skammbeinsstöðum í Holtum (63,97°N og 20,36°V) um 16 km norðaustur af brúarstæðinu. Upptakadýpi var um 6,3 km. Jarðskjálftinn var svokallaður hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 20 km löngum kafla.”

Ekki er minnst á svipuðan jarðskjálfta undir Sveifluhálsi við Kleifarvatn nokkrum mínútum á eftir framangreindum skjálfta.

“Seinni jarðskjálftinn var 21. júní, kl. 00:51. Þessi skjálfti var af stærðinni 6,5 (Mw) og með upptök rétt sunnan við Hestfjall á Skeiðum (63,97° N og 20,71° V) um 5 km norðvestur af brúarstæðinu. Upptakadýpi skjálftans var 5,1 km. Jarðskjálftinn var eins og sá fyrri hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 23 km löngum kafla.”

Heimildir:
-Bæjarblaðið. 4. tbl. 30.01.1991, Suðurlandsskjálfti árið 2020? og Draumar og fyrirboðar um náttúruhamfarir á Reykjanesi, bls. 10-11.
-Árbók VFÍ/TFÍ, 1. tbl. 01.06.2001, Suðurlandskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000, bls. 302.

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

eldgos

Eftirfarandi frétt, viðtal við Pál Einarsson, jarðfræðing, birtist í Morgunblaðinu 20. október 2012 undir fyrirsögninni: “Engin teikn um eldsumbrot á Reykjanesi”.

Páll Einarsson

Páll Einarsson.

“Komi upp jarðeldar á Reykjanesi er ekki ólíklegt að þeim muni svipa til Kröfluelda 1975-1984. Þar yrðu gangainnskot með sprunguhreyfingum og hraunflæði aðallega þegar færi að líða á umbrotin. Hraungos af því tagi myndi eiga sér nokkurn aðdraganda. Engin óyggjandi teikn eru um að slíkir atburðir séu í aðsigi.
Þetta kom fram í erindi Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings í gær á ráðstefnunni Björgun 2012 sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur nú um helgina. Yfirskrift erindis Páls var „Jarðskjálfta- og eldfjallavá í nágrenni Reykjavíkur.“
Páll EinarssonPáll sagði að höfuðborgarsvæðið væri nálægt mjög sérkennilegum jarðskjálfta- og eldgosasvæðum. Þar með væri ekki sagt að bráð hætta steðjaði að fólki þeirra vegna.
Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesi og tengjast þau gangainnskotum. Páll sagði að þegar svona kerfi yrði virkt streymdi hraunkvika upp í rætur þess og gæti síðan leitað eftir sprungunum og upp á yfirborðið. Það fer eftir spennuástandi á hverjum tíma hve langt kvikan getur farið og hvað gliðnunin verður mikil sem fylgir hverju gangainnskoti.
Vestasta kerfið liggur um Reykjanesið utanvert, norðan við Grindavík og út í Vogaheiði. Næsta kerfi austan við er Krýsuvíkurkerfið sem innifelur allar eldstöðvar í Krýsuvík og eldstöðvar sem hraun runnu úr niður í Hafnarfjörð. Þetta kerfi liggur m.a. um úthverfi Reykjavíkur. Sprungurnar í Heiðmörk tilheyra þessu eldstöðvakerfi og er eldstöðin í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð sú nyrsta í kerfinu. Það liggur áfram norður um Elliðavatn og Rauðavatn og deyr út í Úlfarsfelli. „Þetta er það kerfi sem getur kannski valdið mestum usla í sambandi við eldvirkni og eldvirknivá á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Páll.
EldgosÞriðja kerfið liggur um Brennisteinsfjöll og sagði Páll að það væri ef til vill virkasta kerfið og úr því hefði runnið mesta hraunið. Kerfið liggur um Bláfjöll og Sandskeið og upp í Mosfellsheiði. Lengra til austurs er Hengilskerfið. Það nær alveg frá Selvogi og upp á Þingvelli. Páll sagði að þar til fyrir skömmu hefðu ekki sést nein merki um að kvika væri að streyma inn í eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga. Fyrir 2-3 árum fór þó að örla á því að eitthvað gæti verið að gerast.

Páll vildi þó ekki gera mikið úr því og sagði menn enn vera að reyna að átta sig á því hvað hefði gerst. Hann sagði að Krýsuvíkursvæðið væri undir smásjánni að þessu leyti. Þar varð landris 2009 og svo aftur landsig.
EldgosEldstöðvakerfin á Reykjanesi virðast hafa orðið virk á um þúsund ára fresti og hver hviða hafa staðið í 300-500 ár. Öll eldstöðvakerfin virðast vera virk í hverri hviðu en hvert kerfi tímabundið.
Páll taldi að hraungos á Reykjanesskaga á okkar tímum myndi tæplega ógna mannslífum. Líklegra væri að það myndi valda eignatjóni, aðallega á innviðum eins og vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og vegum. Öskufall gæti orðið staðbundið og myndi nágrennið við Keflavíkurflugvöll líklega valda mönnum mestum áhyggjum, að mati Páls. Grunnvatn gæti hitnað og vatnsból mengast. Skjálftavirkni gæti orðið nokkur. Hraun gæti hugsanlega runnið nálægt byggð án þess þó að ógna beinlínis mannslífum.

eldgos

Eldgos á Reykjanesi frá landnámi – Ekkert gos eftir 1240
Nokkur hraun hafa runnið á Reykjanesi frá því að sögur hófust. Það gaus við Reykjanestá, í Eldvörpum norðan við Grindavík, Arnarseturshraun við Grindavíkurveg rann einnig.
Goshrina varð í Krýsuvíkurkerfinu í kringum árið 1150 e.Kr. Ögmundarhraun er syðst og rann út í sjó. Síðan rann Kapelluhraunið niður í Straumsvík. Þetta gerðist sennilega allt í þeirri hrinu.
Nokkur hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjallakerfinu frá því að land byggðist. Kristnitökuhraunið er á milli Brennisteinsfjallakerfisins og Hengilskerfisins.
Nánast öll þessi eldgos urðu á tímabilinu 900-1240 e.Kr. Ekkert eldgos er þekkt á Reykjanesskaga eftir árið 1240.” [Þrátt fyrir ótölulegan fjölda jarðskjálfta í gegnum tíðina hefur ekki orðið eldgos á Reykjanesskagnum – a.m.k. ekki hingað til].

Heimild:
-Morgunblaðið 20. október 2012, bls. 28.
Eldgos

eldgos

Í Fréttablaðið.is 5. mars 2021 mátti lesa eftirfarandi “frétt”; “Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli”. Þar segir m.a.:

EldgisYfirlitskort Minjastofnunar er unnið út frá þeim minjum sem eru þekktar og eru á skrá hjá stofnuninni en fleiri minjar er að finna á svæðinu þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram.
Fornleifafræðingar Minjastofnunar eru í kapphlaupi við tímann að skrá minjar sem eru í hættu miðað við hraunrennslisspá. Enn á eftir skrá margar minjar sem gætu glatast að eilífu komi til eldgoss.

“Fjölmargar friðaðar og friðlýstar minjar eru á óróasvæðinu og enn á eftir að skrá margar minjar með fullnægjandi hætti að sögn Sólrúnar Ingu Traustadóttur fornleifafræðings. Hætta er á að þær glatist að eilífu komi til eldgoss.

Eldgos
„Fjöldi þekktra friðaðra minja er á svæðinu. Minjarnar tilheyra ýmsum minjaflokkum en helst er að nefna fjölmörg sel, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum,“ útskýrir Sólrún. Hún segir helstu selin í hættu vera Dalssel við Fagradalsfjall, Knarrarnessel, Auðnasel, Fornasel, Rauðhólasel, Seltó, Kolhólasel, Oddafellssel nyrðra og syðra sem eru sunnan Reykjanesbrautar.

Ekki er talið líklegt að gos hefjist á næstu klukkustundum og lauk gosóróanum sem hófst um klukkan 14:20 á miðvikudag um miðnætti þann sama dag.

„Nú er viðvarandi skjálftavirkni á svæðinu en óróinn var bara á miðvikudag,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur, í samtali við Fréttablaðið.”

Staðreyndirnar eru hins vegar þessar:

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.

Í fyrsta lagi; Minjastofnun hefur sýnt minjum á svæðinu takmarkaðan áhuga í gegnum tíðina, jafnvel svo jaðrar við vanrækslu, þrátt fyrir þrálátar ábendingar. Eitt svarið við einni slíkri ábendingu var t.d.: “Það eru engar merkilegar minjar á svæðinu”.

Í öðru lagi; Minjastofnun hefur hingað til ekki haft einn sérstakan minjavörð er gætt hefur hagsmuni svæðisins sérstaklega, líkt og um aðra landshluta.

Seltó

Kort Sesseljar af Seltó og nágrenni.

Í þriðja lagi; Minjastofnun á að vita að áhugasamir einstaklingar, umfram starfsfólk hennar, hefur bæði skoðað, skráð, ljósmyndað, teiknað upp og fjallað opinberlega um allar mikilvægar minjar á svæðinu. Má þar t.d. nefna Sesselju Guðmundsdóttur o.fl. Þessir aðilar hafa haldið skrár, þ.á.m. hnitaskrár, af öllum fornminjunum. Stofnunin hefur hins vegar haft lítinn áhuga á samvinnu við þetta fólk, a.m.k. hingað til.

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í fjórða lagi; Minjastofnun má vita að allar selstöðurnar á svæðinu hafa þegar verið skráðar, hnitsettar, ljósmyndaðar og teiknaðar upp. Heimildir um það liggja fyrir í opinberum skrám, öðrum en hennar.

Í fimmta lagi; Seltó var ekki selstaða í eiginlegum skilningi, líkt og þekktist í heiðinni. Staðurinn var að vísu nytjastaður til hrístöku fyrrum, líkt og nafnið bendir til, þótt þar finnast engar minjar þess í dag.

Í sjötta lagi; Ef Minjastofnun vildi leggja áherslu á minjasvæði á mögulegu gossvæði ætti starfsfólkið að beina athygli sinni  fyrst og fremst að Selsvöllum, en mér að vitandi hefur starfsmaður stofnunarinnar varla stigið þar niður fæti þrátt fyrir aldarlýsingar ferðalanga og sagnir þeirra fyrrum af minjunum þar sem og handavinnu áhugasamra einstaklinga um mikilvægi þeirra í hinu sögulega samhengi svæðisins.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Í áttunda lagi; Fáir vita t.d. að fjárborgir á Reykjanesskagnum eru 134 talsins, fornar refagildrur 91 og sels og selstöður 402, réttir 122 o.s.frv.  Efast er um að Minjastofnun hafi yfirlit um allar þær minjar, hvað þá allar mannvistaðleifarnar er finna má í hellum á svæðinu.

Í níunda lagi mætti Minjastofnun gjarnan líta sér nær þegar kemur að umræðu um minjar á Reykjanesskaga.

Fyrir áhugasama vil ég vekja athygli á vefsíðunni www.ferlir.is sem hefur fjallað um örnefni, leitir að mannvistarleifum, hversu ómerkilegar sem þar kynnu að virðast, á Reykjanesskaga um áratuga skeið…

Heimild:
-Fréttablaðið.is 5. mars 2021, Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Portfolio Items