Færslur

Eldgos

Í Morgunblaðinu 2018 mátti lesa eftirfarandi viðtal við Þóru Björg Andrésdóttur; “Gerir hættumat vegna eldgosa“. Þóra var að leggja lokahönd á meistaraprófsverkefni við Háskóla Íslands. Þar reyndi hún að meta hvar líklegast væri að eldos geti orðið í Reykjaneskerfinu, sem er yst á Reykjanesskaganum.

EldgosÍ yfirskrift greinarinnar segir; “Eldvirknihætta á Reykjanesi metin og kortlögð eftir nýjustu aðferðum. Eldgos gæti ógnað nauðsynlegum innviðum samfélagsins. Upphafið að hættumati fyrir öll eldfjallasvæði landsins”.

“Hættan á eldgosi á Reykjanesi er til staðar. Þar eru 4-5 þekkt eldgosakerfi, þeirra helst eru Reykjaneskerfið, Krýsuvíkurkerfið, Bláfjallakerfið og Hengilskerfið. Eldgos á þessu svæði gætu mögulega ógnað innviðum á borð við vegi, raflínur, lagnakerfi, ljósleiðara og einnig vatnsbólum að ekki sé talað um byggingar.
HúsfellsbruniHættumatið er unnið á grundvelli jarðfræðilegra, landfræðilegra og skipulagsfræðilegra gagna. Þóra Björg teiknar upp líklegustu svæðin, eins og sést á meðfylgjandi korti, og eins hvar mikilvægt mannvirki eru á svæðinu. Hún ver verkefnið sitt í júní. Leiðbeinendur hennar eru Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild, og Ármann Höskuldsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Sefur vært á Völlunum
EldgosÞóra Björg býr á Völlunum í Hafnarfirði og kveðst sofa alveg róleg, þrátt fyrir að hafa sökkt sér niður í sögu eldvirkni á Reykjanesi vegna vinnunnar við hættumatið. Hún kveðst treysta því að nútímatækni og þekking tryggi það að nægur fyrirvari gefist til að vara fólk við ef líkur á eldgosi aukast. Því séu litlar líkur á manntjóni vegna mögulegs eldgoss. Tekið skal fram að ekkert bendir til þess að eldgos á þessu svæði sé í aðsigi.
Þessi vinna er hins vegar mikilvæg til að auka viðbúnað áður en og ef til eldgoss kemur. Þá er dýrmætt að vera vel undirbúinn og geta gripið til viðbragðs- og almannavarnaáætlana sem byggðar hafa verið á vísindalega unnu hættumati.
Bent er á að komi upp eldgos á Reykjanesi geti eitt helsta viðfangsefnið orðið að stýra umferð þeirra sem skoða vilja gosið og um leið beina þeim frá hættum, t.d. af mögulegri gasmengun.

Nýjustu aðferðum beitt

Ármann Höskuldson

Ármann Höskuldsson.

Ármann sagði að vinnan við hættumatið á Reykjanesi væri afleiðing af evrópskum samstarfsverkefnum í eldfjallafræði á borð við verkefnin Futurevolc, Vetools og nú Eurovolc. Evrópusambandið hefur styrkt öll þessi verkefni.
„Við beitum nýjustu aðferðum til að meta eldfjallavá á svæðum. Við þurfum að geta stutt niðurstöður okkar með tölulegum gildum. Vandinn við jarðfræði er að tímaskalinn er svo afskaplega langur miðað við mannsævina. Þegar tölfræði er beitt reynum við að hafa gagnasafnið eins stórt og hægt er. Í því sambandi hafa verið þróaðar nýjar aðferðir á Ítalíu, Spáni, í Frakklandi og nú hér á Íslandi sem snúa að eldfjöllum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Hér hafa orðið um 260 eldgos á sögulegum tíma. Þau eru ekki stórt úrtak og til að reyna að skilja íslenska eldfjallafræði þurfum við að fara minnst tíu þúsund ár til baka þegar fjöldi eldgosa er að nálgast þrjú þúsund til að gagnasafnið verði nógu traust,“ sagði Ármann. Mikið af hraunum sem komu upp í eldgosum fyrir löngu síðan eru komin langt undir hraun sem síðar runnu.
Eldfjallafræðin hefur þróast hratt á undanförnum aldarfjórðungi. Ármann segir að með því að skoða gömul öskulög sé hægt að leggja mat á hve lengi sprengigos sem enginn sá stóð lengi yfir. Einnig hve hátt gosmökkurinn fór. Þannig er hægt að fá mynd af því hvað gerðist í löngu liðnum eldgosum. Þessari þekkingu er síðan hægt að beita til að segja fyrir um hvernig eldgos í
framtíðinni kunna að haga sér.

Gögnin verða aðgengileg

Jarðfræði

Hraun á sögulegum tíma.

Ármann segir að fyrsta skrefið í heildaráhættumati sé að greina svæði þar sem líklegt þykir að eldsumbrot geti orðið. Það er mikilvægt t.d. vegna skipulagsmála. Hvar þykir óhætt að reisa mannvirki í sæmilegu skjóli frá mögulegum eldgosum. Gögnin úr hættumatinu verða aðgengileg fyrir t.d. sveitarfélög sem fara með skipulagsmál og almannavarnir.
Næsta skref er að meta hvað mögulega gerist verði eldgos. Hvort það verði sprengigos og þá hvernig askan frá því dreifist. Verði það hraungos, hvert hraunið muni þá líklega renna og hvert gas gæti borist. Hraunstraumur er flókið fyrirbæri og getur verið erfitt að segja til um hvert hann fer. Hann nefnilega breytir landslaginu jafnóðum og hann rennur. Þegar þessar greiningar liggja fyrir er hægt að leggja línur um skammtímalíkön fyrir öskudreifingu eða hraunrennsli.

Helga þarf hættusvæðin

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

Ármann segir að nú sé hægt að sjá eldgos fyrir með betri fyrirvara og meira öryggi en áður. Dæmi um það er gosið í Eyjafjallajökli sem sást að var í aðsigi um þremur vikum fyrir gosið 2010. Einnig þurfi að vera hægt að sjá fyrir hvað gerist næst og búa sig undir það. Hann segir að helga þurfi þau svæði þar sem eldgosavá er meiri en annars staðar svo þar séu ekki skipulögð mannvirki. Undantekningin eru jarðhitaver sem eðli málsins samkvæmt þurfa að vera ofan á svona svæðum.
Eldstöðvakerfin á Reykjanesi teygja sig út í sjó. Verði gos úti í sjó gæti það líkst Surtseyjargosinu með gosmekki upp í 10-12 km hæð. Verði gosið kröftugt mun askan dreifast víða með veðri og vindum. Eldgos á landi verður líklega hraungos.
Reykjanesskaginn er eldvirkt svæði og eldvirknin hefur komið í hrinum.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort ISOR.

Líklegt er að í framtíðinni eigi eftir að gjósa í sprungusveimnum sem tekur land við Reykjanestána og teygir sig austur eftir og inn á nesið. Sprungusveimurinn teygir sig austur að Grindavík. Í framtíðinni gæti komið upp hraungos sem stefndi í átt til Grindavíkur.
Ármann minnti á að menn hefðu öðlast dýrmæta reynslu af hraunkælingu í Heimaeyjargosinu 1973. Það sé því hægt að stjórna því hvert hraun rennur.
Einnig mun líklega gjósa í Krýsuvíkurkerfinu sem gengur þar á land og teygir sig norður undir Hafnarfjörð. Sama má segja um Bláfjallakerfið og Hengilskerfið ofan höfuðborgarsvæðisins. Ómögulegt er að segja hvenær það gerist. Síðasta gos í Henglinum var fyrir tæplega 2.000 árum, í Bláfjallakerfinu um landnám og á svipuðum tíma í Krýsuvíkurkerfinu. Ekki hefur gos komið upp á landi síðan á 13. öld að gaus í Reykjaneskerfinu.

Neðansjávareldgos algeng

Reykjaneshryggur

Um miðjan september 2013 lauk mánaðarlöngum rannsóknarleiðangri á Reykjaneshrygg með rannsóknarskipinu Marcus G. Langseth. Í leiðangrinum var syðsti hluti Reykjaneshryggjar kortlagður með fjölgeislamælitækni í fyrsta sinn.Reykjaneshryggur er lengsti samfelldi rekhryggur jarðar.
Það er því heimsviðburður að í lok leiðangurs er hryggurinn að fullu kortlagður.

Neðansjávareldgos hafa verið algeng við Reykjanes og á Reykjaneshrygg. Talið er að a.m.k. tvö eldgos hafi orðið hryggnum á síðustu öld, 1926 og líklega einnig 1973. Þau náðu ekki upp úr hafinu. Það gerði hins vegar eldgos á 19. öld sem m.a. stráði ösku yfir Keflavík. Samkvæmt sögulegum heimildum hafa orðið 1-2 eldgos á öld á Reykjaneshrygg, að sögn Ármanns. Minnt var á að ekki væri langt síðan ástand var sett á gult vegna skjálftahrina út af Reykjanesi.
Ákveðið hefur verið að kortleggja allt landgrunnið með fjölgeislamælingum. Vísindamennirnir sögðust bíða spenntir eftir niðurstöðum slíkra mælinga suður af Reykjanesi. Búið er að kortleggja botninn út af hælnum á Reykjanesi. Atlantshafshryggurinn sem liggur á landgrunninu er lítið þekktur í þessu tilliti og sama er að segja um hafsbotninn suður af Reykjanesi.
Mikilvægt er að vita hvað eldvirknin hefur náð langt út í sjó. Verði þar eldgos á sjávarbotni þá verður það sprengigos.

Áframhaldandi gerð hættumats
Hraun ofan höfuðborgarsvæðisins

Vinnan við hættumat á Reykjaneskerfinu er fyrsta skrefið í gerð slíks hættumats fyrir öll eldstöðvakerfi á landinu, að sögn. Sömu aðferðum verður beitt þar og á Reykjanesi. Þau sögðu rökrétt að gera næst sambærilegt hættumat fyrir hin eldstöðvakerfin á Reykjanesinu.”

Omar

Við mikilvæga útskrift í Háskóla Íslands; stofnun www.ferlir.is í framhaldi af námi í Menningarmiðlun; eitt verkefnanna, sem ekki fór í “glatkistuna” fyrir síðustu aldarmót.

Bent skal á að langflestar ritgerðir og verkefni, sem varið hefur verið drjúgum tíma og erfiðsmunum í fullri alvöru af hálfu nemenda í Háskólum landsins, hafa hingað til dagað uppi niður í skúffum leiðbeinendanna og nánast aldrei orðið til neins gangs, hvorki nemendunum né öðrum.

FBI

Útkrift úr skóla FBI árið 1995. Þar lærðist margt um mannlega hegðun, langt umfram afbrot og glæpi hversdagsins…

Myrkrar gamlar skúffur Hákólanna eru nú nánast að verða fullar af fjölmörgum aldargömlum mikilvægum verkefnum, sem hafa beðið þar þögul, en nauðsynlega þurfa að sjá dagsins ljós – samfélaginu til gagns…

Heimild:
-Morgunblaðið, 111. tbl. 12.05.2018, Guðni Einarsson, “Gerir hættumat vegna eldgosa”, bls. 18.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 14. janúar 2014.
Seinni tíma eldgos á Reykjanesskaga jafa jafnan verið lítil og varið í skamman tíma.

Húsfellsbruni

Ritstjóri Fjarðarfrétta – blaði allra Hafnfirðinga, skrifaði leiðara blaðsins þann 1. febrúar 2024 undir fyrirsögninni “Eldsumbrot og spádómar“:

Fjarðarfréttir“Eldsumbrotin á Reykjanesi hafa hrundið af stað margs konar áhyggjum fólks af því að hraun geti runnið að byggð á höfuðborgarsvæðinu. Er það skiljanlegt enda eru eldstöðvar allt í kringum okkur og við Hafnfirðingar höfum nokkrar innan okkar landamerkja.

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason, ritstjóri.

En það kemur á óvart hvað sérfræðingarnir okkar eru yfirlýsingaglaðir, svo mjög að ætla mætti að þeir væru talsmenn verktaka í varnargarðagerð. En ekki ætla ég þeim annarlegar ástæður en finnst þó undarlegt hversu yfirlýsingarnar renna fram í samtölum við þá og jafnvel án þess að vísindaleg gögn styðji fullyrðingar eða að sérfræðingarnir færi góð rök fyrir máli sínu.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni – upptökin við Stóra-Kóngsfell (Kóngsfell). Ruglingur nafngiftarinnar er vegna þess að Kóngsfell er til ekki víðs fjarri, sem og Litla-Kóngsfell. Þá er “Kóngsfell” sýnt á kortum fyrrum, en átti að vera “Konungsfell”. Eftir stendur nefnt “Stóra-Kóngsfell”. Örnefnaruglingur þessi hefur verið tilefni til landamerkjadeilna í gegnum tíðina.

En allir hljóta að vera sammála að mikilvægt er að stjórnir sveitarfélaganna séu meðvitaðar um mögulegar sviðsmyndir og geti með stuttum fyrirvara hrundið af stað vinnu við að verja innviði okkar sé þess kostur og þeir séu í raunverulegri hættu.

En grunnurinn að slíkri vinnu hlýtur að þurfa að koma frá sérfræðingum okkar, ekki úr fullyrðingum hvers og eins, heldur eftir sameiginlega niðurstöðu sérfræðinganna.
Nú síðast vorum við hrædd með fullyrðingum um kvikusöfnun undir Húsfellsbruna og þar sem við Hafnfirðingar skiptum Húsfellinu með Garðbæingum og Kópavogsbúum er þetta okkur nærtækt.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni.

Húsfellið er þó saklaust af þessum hraunum í Húsfellsbruna sem hafa átt uppruna sinn m.a. í Stóra-Kóngsfelli við Bláfjöll og vestan við Kóngsfellið en stærsti gígurinn er Eldborg rétt við veginn áður en komið er upp í skíðasvæðið. Ekkert þessara hrauna hefur runnið þar sem byggð er nú.

Vonandi halda sérfræðingarnir okkar ekki áfram að láta blaðamenn draga fram fram hjá þeim vanhugsaðar fullyrðingar til fyrirsagnaskrifa og huga meira að vísindunum og staðreyndum. Eldgosahættu þarf að taka alvarlega.” – Guðni Gíslason ritstjóri

Heimild:
https://www.fjardarfrettir.is/fra-ritstjora/leidarinn-eldsumbrot-og-spadomar
-Fjarðarfréttir 1. febrúar 2024, leiðari; “Eldsumbrot og spádómar”. Guðni Gíslason,bls. 2.
Kóngsfellshraun

Eldgos

Augu allra beinast nú sem oftar að Reykjanesskaga og margt og mikið hefur verið ritað um gosið í Geldingadölum og Meradölum. Nú beinum við sjónum okkar vestar á skagann að eldstöðvakerfunum tveimur, Reykjanesi og Svartsengi, en þar lauk síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga 1240.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Hér verður sérstaklega fjallað um síðustu eldana sem urðu innan Reykjanes- og Svartsengis-kerfanna sem ýmist eru talin eitt kerfi eða tvö. Þess má þó geta að þau sameinast til norðurs þar sem erfitt er að greina sprungureinar kerfanna í sundur.

Eldarnir, sem nefnast gjarnan Reykjaneseldar, stóðu yfir frá árinu 1210–1240. Með eldum er átt við hrinur af eldsumbrotum sem standa yfir í lengri eða skemmri tíma á sama svæðinu. Í Reykjaneseldum urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Einnig runnu fjögur hraun úr sprungugosum á landi en þau eru Yngra Stampahraun, Eldborgarhraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Í Heimildinni má lesa eftirfarandi um “„Sandsumar“ í kjölfar eldgosa úti fyrir Reykjanesi“:
“Í kvikugangi þeim sem myndast hefur og liggur frá Sundhnúkagígum í norðri, undir Grindavík og jafnvel á haf út, er umtalsvert meira af kviku en sést hefur í stærstu innskotum sem urðu í tengslum við eldgosin þrjú við Fagradalsfjall. Enn er óvíst hvort að kvika nái til yfirborðs svo úr verði eldgos en ef það gýs á hafsbotni, sem ekki er útilokað, yrði svokallað þeytigos, sprengigos sem verða þegar heit kvika kemst í snertingu við vatn. Við slíkar aðstæður myndast mikil aska og öskufallið getur náð langar leiðir og haft ýmsar afleiðingar.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Öskugos urðu við upphaf Reykjaneseldanna á fyrstu áratugum þrettándu aldar. Eldar þeir stóðu yfir á árunum 1210–1240 en áður höfðu önnur gostímabil einnig orðið og á einu slíku mynduðust Sundhnúkagígar, líklega fyrir um 2.400 árum. Það er á þeim slóðum, undir þeim og suður undir Grindavík, sem kvikugangur hefur nú myndast að mati Veðurstofu Íslands.

Í Reykjaneseldum á 13. öld urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Eldarnir hófust að því er talið er á „surtseyísku eldgosi“ í fjöruborðinu undan Reykjanestá. Að því er segir á vef Náttúruminjasafns Íslands er talið að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hafist að nýju en þá utar. Tveir gígar hlóðust upp í hafinu, m.a. Karlinn svokallaði sem er hluti gígbarms þessa síðara goss á hafsbotni.

Miðaldarlagið mikla

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Finna má fjögur gjóskulög á Íslandi sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldarlag, sem er svart, sendið gjóskulag sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig „sandvetrinum mikla“ í kjölfarið.

Miðaldarlagið hefur verið rannsakað töluvert á síðustu áratugum og það þannig staðsett í öskulagatímatali jarðfræðinnar, en „faðir“ þess er Sigurður Þórarinsson náttúrufræðingur.

Reykjanesskagi

Kortið sýnir þau hraun sem runnu á Reykjanesskaga í síðustu eldgosahrinu frá 9. öld og fram á 13. öld.

Ritaðar heimildir hafa einnig verið notaðar til að varpa ljósi á áhrif sprengigosanna sem mynduðu miðaldarlagið. Annálar, Biskupasögur og Sturlungasaga Sturlu Þórðarsonar eru nokkuð samhljóða um þessa atburði.

Rauð sól og myrkur um miðjan dag

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort ISOR.

„Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil,“ segir til dæmis í Sturlungasögu. Um „sandvetur“ eftir þetta sumar er svo fjallað í ýmsum annálum s.s. Oddverjaannál. „Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði,” segir í Íslendinga Sögu. „Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir,” segir í Guðmundar sögu Arasonar. „Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes,“ stendur svo í Annálabrotum Gísla Oddssonar. „Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi,“ segir í Oddverjaannál.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – kort jarðfræðinga lagt yfir loftmynd.

Í langtímahættumati Reykjanesskaga, skýrslu sem unnin var hjá Veðurstofu Íslands, er fjallað um mögulegt gjóskufall vegna eldgosa í hafi. Þar er t.d. bent á að Keflavíkurflugvöllur gæti orðið fyrir gjóskufalli sem gæti valdið röskun á starfsemi. Hversu mikil sú röskun yrði færi eftir stærð gosa og hversu lengi það myndi vara. „Dekksta sviðsmynd gjóskufalls á Keflavíkurflugvöll sýnir 45 mm þykkt lag,“ segir í skýrslunni. Töluverðar líkur séu á að skyggni spillist í gjóskufalli og jafnvel eftir að því lýkur af völdum gjóskufoks. Aðrir fjölfarnir ferðamannastaðir eru álíka líklegir til að verða fyrir gjóskufalli en gjóskufall hefur ekki almenn áhrif á þá að öðru leyti en að aðgengi að þeim verður erfiðara og skyggni spillist.“

Grindavík - jarðfræði

Grindavík – eldgos 2021-2024.

Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Stöð 2 vorið 2022 að eldgos í sjó út af Reykjanesi gæti sent ösku yfir höfuðborgarsvæðið. Það hafi orðið raunin í gosinu sem myndaði miðaldarlagið. „Ef slíkur atburður myndi endurtaka sig, þá væri það eitthvað sem höfuðborgarbúar myndu klárlega taka eftir.“”

Reykjaneseldar

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

“Reykjaneseldar hófust á surtseyísku eldgosi í fjöruborðinu undan Reykjanestá er þar byggðist upp gígur sem nefndur er Vatnsfellsgígur. Talið er að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hófust þau að nýju utar, þar sem Karlinn stendur nú, en hann mun vera hluti gígbarms síðara gossins. Um 500 m voru á milli gíganna en nú þegar brimið hefur unnið á þeim um aldir sjást einungis ummerki eftir þá. Karlsgígur hefur verið mun stærri en Vatnsfellsgígur en hægt er að sjá ummerki um að gosefni úr honum hafi lagst yfir Vatnsfellsgíginn.

Ummerki eru um gígaröð sem liggur um 4 km inn eftir skaganum í stefnu SV-NA og nefnist hraunið úr henni Yngra Stampahraun. Stærstu gígarnir eru tveir og nefnast Stampar og er gígaröðin öll kennd við þá. Gígarnir eru að mestu klepragígar sem byggst hafa upp af hraunslettum frá kvikustrókum. Hraunið frá gígaröðinni rann upp að Karlsgíg og Vatnsfellsgíg sem staðfestir að hraunið rann eftir að þeir mynduðust.

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Finna má fjögur gjóskulög sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldalag, sem er svart, sendið gjóskulag (R-9) sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig sandvetrinum mikla veturinn á eftir.

Ofan á Yngra Stampahrauni má finna miðaldalagið og er því talið að Stampagígaröðin hafi verið virk á fyrri hluta eldanna. Gossprungurnar, sem mynduðu Eldvarpahraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun, hafa verið virkar eftir að miðaldalagið myndaðist þar sem öll hraunin liggja ofan á því gjóskulagi.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Eldvarpahraun yngra rann úr samnefndri gígaröð sem er um 8–10 km löng og nær næstum því til sjávar þó engin gos séu þekkt í sjó frá sama tíma á þessu svæði. Gossprungan sjálf er mjög löng en gígaröðin er fremur slitrótt. Hraun úr syðsta enda sprungunnar rann í sjó fram. Marga formfagra gíga er að finna í Eldvörpum og um hluta þeirra liggur skemmtileg gönguleið. Ekki er síðra að horfa á gígana úr lofti.

Illahraun myndaðist úr stuttri samsíða sprungu austan við Eldvörp. Á norðurjaðri hraunsins er nú Bláa lónið. Illahraun er frekar torfært uppbrotið helluhraun. Gígaröðin er einungis um 200 m að lengd og á henni má finna nokkra gíga, einn gígurinn er stærri en hinir og er sá gígur tvöfaldur.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Úr 500 m langri gossprungu við Gígahæð rann Arnaseturshraun. Stuttu austar má finna 700 m langa sprungu sem virðist einungis hafa verið virk í stuttan tíma.

Við Bláa lónið er Illahraun áberandi úfið og grófgert.”

Ítarefni;

Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379–401 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. 1–13.

Magnús Á. Sigurgeirsson. 1995. Yngra-Stampagosið á Reykjanesi. Náttúrufræðingurinn 64(3). 211–230.

Magnús Á. Sigurgeirsson & Sigmundur Einarsson. 2019. Reykjanes og Svartsengi. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 2. mars 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=REY#

Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journal of Petrology 19(4). 669–705.

Heimildir:
-Sunnudagur 4. febrúar 2024, Heimildin, Sunna Ósk Logadóttir, „Sandsumar“ í kjölfar eldgosa úti fyrir Reykjanesi.
-https://nmsi.is/molar/eldfjall/reykjaneseldar/

Arnarseturshraun

Illahraun og nágrenni – (Jarðfr.glósur GK).

Eldgos

Daníel Páll Jónasson skrifaði í BS Háskólaritgerð sinni árið 2012 um “Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu“.
HraunflæðiUm er að ræða sögu hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða. Ritgerðin er fyrir margt áhugaverð. Hér á eftir má lesa hluta hennar:

“Ritgerðin fjallar um hvernig hraunflæði hefur verið háttað í átt til höfuðborgarsvæðisins á nútíma og eftir hvaða leiðum búast megi við að hraun muni flæða í átt til svæðisins eftir vatnasviðum þess. Er þá reiknað með að hraunið flæði niður í móti líkt og vökvi. Ekki er reynt að ákvarða hvernig hraunflæði muni breiðast út innan byggðar eða í kringum hana en þó er staðfræði meginfarvega kortlögð til að gefa mynd af mögulegri útbreiðslu. Tekin eru dæmi um hraunflæðilíkön sem hönnuð hafa verið til að ákvarða útbreiðslu hrauna og fjallað um þær forsendur sem þurfa að liggja á baki reiknilíkans fyrir hraunflæði.
HraunflæðiFjallað er um eldvirkni á síðustu ísöld og nútíma ásamt þeim eldsummerkjum sem eftir hana liggja; móbergsfjöll, móbergshryggi, dyngjur og hraunbreiður.
Jarðskjálftahrinur og eldsumbrotahrinur í fjórum eldstöðvakerfum skagans ásamt einkennum kerfanna eru útskýrð en þó sérstaklega einkenni Krýsuvíkurkerfisins og Brennisteinsfjallakerfisins. Úr þessum kerfum hafa hraun runnið til höfuðborgarsvæðisins og munu líklega gera í framtíðinni. Yrði byggð í Mið-Hafnarfirði og Vallahverfi þá helst í hættu.
Farið er yfir gerð viðbragðsáætlana vegna hraunflæðis í umræðum en slíkar áætlanir eru ekki til staðar fyrir höfuðborgarsvæðið.

Inngangur

Daníe Páll Jónasson

Daníel Páll Jónasson.

Sé ferðast um höfuðborgarsvæðið á Íslandi er hægt að reka augun í hraun af ýmsum stærðum og gerðum. Á sumum stöðum eru hús byggð í jaðri úfinna hrauna eða ofan á sléttum hraunum og liggja um þau margar fallegar gönguleiðir á svæðinu. Að mati margra, að höfundi meðtöldum, eru hraunin falleg, og útskýrir það kannski vilja sumra til að búa í jaðri þeirra.
Staðsetning hraunanna á höfuðborgarsvæðinu leiðir vissulega af sér þá spurningu hvort möguleiki sé á nýju hraunflæði á þessum slóðum og hvort fólki, íbúahúsum, samgöngum, fasteignum eða öðrum lífverum og verðmætum stafi hætta af slíku flæði. Er það mat höfundar að nauðsynlegt sé að kanna mögulegt hraunflæði enda er um þéttbýlasta svæði landsins að ræða þar sem í lok árs 2011 bjuggu yfir 200 þúsund manns. Hraunflæði er í sjálfu sér sjaldan hættulegt fólki, einkum sökum lágs flæðishraða, en hraun geta náð yfir stórt landsvæði og þannig eytt nýtanlegu landi eða brennt, mölvað eða grafið heilu byggingarnar. Fólk myndi því væntanlega ná að flýja undan hrauninu, að minnsta kosti ef það kæmi upp í nægilegri fjarlægð, en myndi hugsanlega þurfa að horfa upp á hús sín og önnur verðmæti eyðileggjast.

Jarðfræði Reykjaness
HraunflæðiVel er hægt að ímynda sér einhvern af forfeðrum Íslendinga, eftir miðja 12. öld, standandi uppi á hæð nærri Hafnarfirði og horfandi hughrifinn á úfið Kapelluhraunið þar sem það skreið í sjó fram hjá Straumsvík. Nú byggist stór hluti Vallahverfisins skammt austan þessa úfna hrauns sem í daglegu tali nefnist Kapelluhraun. Örnefnin í vestanverðum Hafnarfirði bera líka enn merki af brennandi áhuga forfeðra Íslendinga af eldsumbrotum en sem dæmi um örnefni sem lýsa vel eldrænu landslagi á svæðisin má nefna “Óbrinnishóla”, “Háabruna”, “Hraunhól” og “Brennu”.
Ef litið er lengra aftur en til þess tíma þegar Kapelluhraun rann, má sjá að hraun hafa runnið alloft um Reykjanes á síðustu öldum og árþúsundum. Eru þessi hraun til marks um að Reykjanesið er virkt svæði þar sem enn má búast við eldsumbrotum.

Yfirlit yfir jarðfræði Reykjaness
HraunflæðiReykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi.
Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára. Stór hluti yfirborðs Reykjaness er þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum. Síðasta jökulskeið er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum.

Ísland

Ísland – jarðfræðikort ÍSOR.

Sé Ísland skoðað í heild hafa samtals komið upp 369 km3 basalts í 457 hraungosum á nútíma, eða eftir hvarf Ísaldarjökulsins fyrir um 11.000 árum. Eru þessi 457 gos rúmlega 90% þeirra 501 hraungosa sem samtals hafa komið upp á Íslandi á nútíma en 56 þeirra hafa á hverju árþúsundi. Dreifðust rúmmálin nokkuð jafnt á hvort tímabil fyrir sig en þó var mjög lítil eldvirkni á tímabilinu fyrir um 2.000 til 3.000 árum síðan. Á tímabilinu fyrir 10.000 til 11.000 árum síðan gaus 70 km3 basalts, tvöfalt meira hraunmagn á árþúsundi en árþúsundin á eftir, og hefur basalthraunflæði samkvæmt þessum tölum því að jafnaði minnkað á nútíma á Íslandi.
Talið hefur verið að þetta mikla rúmmál hrauns, sem og annarra gosefna, sé rakið til hraðrar upplyftingar landsins eftir að síðustu ísöld lauk en þá komu upp flestar þær rúmmálsmiklu dyngjur sem til dæmis má sjá á Reykjanesi.

Reykjanes

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi. Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos. Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi. Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum).

Reykjanesgosbeltið og önnur gosbelti á Íslandi
HraunflæðiMiðja heita reitsins er talin liggja djúpt undir yfirborðinu milli Grímsvatna og Bárðarbungu. Suðurlandsbrotabeltið er svæði sniðgengja sem liggur á milli Vesturgosbeltisins og Austurgosbeltisins og tengir þau saman.
Suðurhluti Austurgosbeltisins hefur verið að færast í suðvesturátt síðustu þrjár milljónir árin og talið er að á endanum muni það ná yfir á Reykjaneshrygg. Mun þá annað gosbeltanna á Suðurlandi hætta virkni og hitt taka við sem megingosbelti á svæðinu en Suðurlandsbrotabeltið mun einnig verða óvirkt. Miðað við hvernig gosbeltin hafa færst síðustu milljónir ára er ekki líklegt að þessi þróun muni hafa bein áhrif á næstu kynslóðir mannfólks sem búa munu á Íslandi. Til lengri tíma litið mun hún aftur á móti breyta talsvert eldvirkninni á Suður- og Vesturlandi.

Heiti reiturinn undir Íslandi og áhrif hans á gosbeltin og eldstöðvakerfin
HraunflæðiTalið er að myndun Íslands hafi byrjað fyrir tilstilli samverkandi áhrifa heits reits og reksins á plötuskilum Mið-Atlantshafshryggsins fyrir um 24 milljónum ára en elsta berg á yfirborði er um 14-16 milljóna ára gamalt. Hefur heiti reiturinn verið virkur í um 65 milljón ár og myndaði hann Norður-Atlantshafsgossvæðið en Ísland er eini hluti þess sem enn er virkt.
Samverkandi áhrif heita reitsins og Mið-Atlantshafshryggsins á eldvirkni á Íslandi valda því að landið er stærsta svæðið þar sem úthafshryggur kemur upp fyrir sjávarmál á jörðinni en eldvirknin á landinu er mjög mikil miðað við úthafshrygg. Eru áhrif heita reitsins á þann veg að hann eykur á bráðnun jarðskorpunnar undir landinu vegna hærra hitastigs möttulsins og veldur þessi bráðnun myndun þykkari skorpu og varanlegs uppdrifs. Er jarðskorpan allt að 35 kílómetra þykk á Íslandi en þykktin minnkar eftir því sem fjær dregur heita reitnum og er skorpan ekki nema um 10-11 kílómetra þykk á Reykjanesi. Er sú þykkt engu að síður talsvert meiri en á venjulegri úthafsskorpu en þar er hún venjulega 6-7 kílómetra þykk.
Heitur reiturAukið hitastig möttulsins veldur enn fremur minni eðlismassa hans og verður deighvolfið því fyrir hitaknúnu uppdrifi.
Talið er að hitinn flytjist frá heita reitnum í gegnum deighvolfið (e. asthenosphere) eða efri hluta möttulsins (e. upper mantle) en hitinn fer lækkandi eftir fjarlægð frá reitnum. Hitastig heita reitsins undir Íslandi er talið um 150-200°C heitara en möttulsins sem umlykur hann. Mismunur í þykkt jarðskorpunnar á Reykjanesi, um 11 kílómetrar, sé miðað við jarðskorpuna á Suðvesturlandi, um 21 kílómetri, bendir til að hitastigið undir skaganum sé um 130°C lægra en í miðju heita reitsins.

Landsig á Reykjanesi af völdum eldvirkni
HraunflæðiLandsig á Reykjanesi getur numið nokkrum millimetrum á ári og til að mynda er talið að Straumsvíkursvæðið sígi nú um um það bil 20 sentímetra á öld i um 500 metrum en finna má gömul yfirborðshraun á allt að 1.800 metra dýpi í borholum.
Landsigið á Suðvesturhorninu er að einhverju leyti tilkomið vegna höggunarhreyfinga, en berggrunnsblokkir lyftast þá eða síga um allt að nokkra metra, og vegna skriðs jarðskorpuflekanna í átt að kólnandi umhverfi og meira dýpi. Aðalástæðan fyrir siginu er þó talin vera bergupphleðslan en á Reykjanesi hafa síendurtekin eldgos valdið auknu fargi á skorpuflekana og þeir síga smám saman niður í deighvolfið.
Af ofansögðu má sjá að um víxlverkun er að ræða á Reykjanesi. Heiti reiturinn á sinn þátt í hversu mikil eldvirknin er á svæðinu með tilheyrandi gosefnaupphleðslu en á sama tíma lyftir hann einnig skaganum upp. Sama gosefnaupphleðsla veldur því að skaginn sekkur niður í deighvolfið á móti uppdrifinu.

Jarðskjálftahrinur á Reykjanesi

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

Jarðskjálftar á Reykjanesi koma oft í hrinum, með hundruðum og þúsundum lítilla skjálfta sem standa jafnvel mánuðum eða árum saman. Oft gerist þetta án þess að fólk verði þess vart þar sem skjálftarnir koma eingöngu fram á jarðskjálftamælum. Jarðskjálftahrinur gengu yfir skagann á árunum 1971 og 1972 og í mestu hrinunni, sem stóð í um það bil 8 sólarhringa, mældust um 14.600 jarðskjálftar. Önnur hrina gekk yfir í lok 20. aldarinnar á
Hengilssvæðinu.
Kvikuinnskot í eldstöðvakerfum geta bæði dregið úr skjálftavirkni eða aukið hana tímabundið á aðliggjandi brotabeltum.

Eldsumbrotahrinur í eldstöðvakerfum Reykjaness
HraunflæðiÍ síðustu eldsumbrotahrinu á Reykjanesi færðist virknin frá austri til vesturs. Á 10. og 11. öld brann í Brennisteinsfjallakerfinu, á 12. öld í Krýsuvíkurkerfinu og á 13. öld í Reykjaneskerfinu. Hraungosin á þessum tímabilum voru samtals 15 talsins og var áður talið að þau næðu yfir um 143 km2 landsvæði á Reykjanesi með hraunum sem eru samtals um 2,3 km3 að rúmmáli.
Með nýjum rannsóknum hefur tekist að ákvarða aldur fleiri hrauna í kerfunum. Talið er að í Brennisteinsfjallakerfinu hafi tvö hraun, Hvammahraun og Vörðufellshraun, samtals um 40 km2, runnið á 8. eða 9. öld og á svipuðum tíma hafi Hrútafellshraun, um 6,8 km2, runnið í miðju Krýsuvíkurkerfinu, í Móhálsadal. Þessar nýlegu upplýsingar valda því að síðasta eldsumbrotahrina lengist um 200 ár frá því sem áður var talið og nær hún samtals yfir um 500 ár, frá 750 til 1240. Ná hraunin frá síðustu hrinu á Reykjanesi sömuleiðis yfir talsvert stærra svæði en áður var talið, eða um 190 km2 (143 km2 + 47 km2).
HraunfæðiEldsumbrotahrinan á Reykjanesskaga fyrir um 1.900 til 2.400 árum einkenndist af eldgosum í öllum eldstöðvakerfunum þremur og í sjó undan Reykjanesi. Auk þessa urðu eldgos á Hengilssvæðinu en þar varð einnig gjóskugos í Þingvallavatni. Er talið að hraunin frá þessari hrinu séu að minnsta kosti ellefu talsins.
Á Reykjanesi skiptast á tímabil sem einkennast annars vegar af rekgliðnun og eldgosum og hins vegar af sniðgengishreyfingum og tilheyrandi jarðskjálftum. Standa tímabilin yfirleitt í sex til átta aldir. Dæmi er fyrir eldgosum í tveimur eða fleiri kerfum á svipuðum tíma á Íslandi. Gæti því hugsanlega gosið úr fleiri en einu kerfi á sama tíma á Reykjanesinu.

Eldstöðvakerfi Reykjaness
HraunflæðiTvær kenningar hafa komið fram um hvernig kvika kemur upp í rekgliðnunarhrinum á eldstöðvakerfum. Önnur kenningin snýr að megineldstöðinni og er þá reiknað með að kvika frá kvikugeymi á mörkum jarðskorpu og deighvolfs berist upp í kvikuhólfið undir megineldstöðinni á nokkurra kílómetra dýpi og valdi þenslu. Yfirvinni þrýstingurinn vegna aukinnar kviku og þenslu styrk jarðskorpunnar gliðnar hún og innskot geta skilað sér til megineldstöðvarinnar eða borist skáhallt til hliðar yfir á gossprungureinarnar. Ef innskotin ná yfirborði á öðru hvoru svæðinu verða eldgos.
Hin kenningin snýr að kvikugeyminum en þá er reiknað með að kvika berist beint frá honum vegna aukinnar kvikumyndunar og aukins þrýstings. Berst hún þá sem nær lóðrétt innskot beint upp í gossprungureinarnar og kvikuhólfið undir megineldstöðinni og allt eldstöðvakerfið virkjast í einu.
HraunflæðiMeginmunurinn á þessum kenningum er sá að í fyrrnefndu kenningunni er reiknað með að kvikan frá kvikugeyminum hafi fyrst viðkomu í kvikuhólfinu og berist þaðan til gossprungureinanna. Í hinni kenningunni berst hún beint frá kvikugeyminum til gossprungureinanna og megineldstöðvarinnar.
Eldstöðvakerfin byrja að myndast yfir því svæði þar sem grynnst er niður á kvikugeyminn þar sem kvika safnast fyrir á mörkum efri möttuls og neðri hluta jarðskorpunnar. Kvikuhólf ofar í jarðskorpunni hafa ekki náð að myndast á þessum byrjunarstigum. Er því kvikan í öllum eldgosum og allri innskotavirkni upprunnin djúpt neðan úr kvikugeymunum og því frumstæð og yfirleitt basalt. Sum eldstöðvakerfanna á rekbeltunum hafa ekki náð að mynda kvikuhólf og dæmi um slíkt eru kerfin á Reykjanesgosbeltinu.
HraunflæðiAuk áhrifa heita reitsins verða eldsumbrot í eldstöðvakerfum vegna þess að jarðskorpuflekana rekur í sundur. Rekið veldur því að jarðskorpan rofnar en slíkt gerist í hrinum en ekki jafnt og þétt. Virkjast þá eitthvert eldstöðvakerfanna á gosbeltinu og eldsumbrot hefjast en yfirleitt er eitt kerfi virkt á gosbeltinu í einu þótt undantekningar þekkist og tvö eða fleiri verði virk í einu. Þegar eldstöðvakerfi virkjast geta þau verið virk í nokkur ár eða áratugi með endurtekinni jarðskjálftavirkni og eldgosum. Gýs þá helst í megineldstöðinni eða á gossprungureininni, allt eftir því hvort megineldstöð er að finna í eldstöðvakerfinu.
Áralöng virkni eldstöðvakerfa er jafnan kölluð „eldar“ en dæmi um slíka atburði eru meðal annars hinir fyrrnefndu Kröflueldar þegar gaus alls 9 sinnum. Annað dæmi um slíka atburði eru Krýsuvíkureldar sem brunnu árin 1151 til 1188 í Krýsuvíkurkerfinu.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesi og á Íslandi
HraunflæðiEldstöðvakerfin á Íslandi, um 30 talsins, hafa myndast við að Norður-Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur frá hvorum öðrum á mörkum Mið-Atlantshafshryggsins. Flest eldstöðvakerfanna eru um 40-150 kílómetra löng og 5-20 kílómetra breið en nákvæm mörk kerfanna eru yfirleitt frekar óljós. Goshegðun kerfanna stjórnast bæði af reki flekanna og áhrifum heita reitsins en eldstöðvakerfin á rekbeltunum eru yfirleitt með eldstöðvum sem gjósa basalti auk gossprungu- og sprungureina á yfirborði en innskotum undir yfirborðinu.
Þar sem ekki er um eiginlega megineldstöð að ræða á Reykjaneskerfinu, Krýsuvíkurkerfinu og Brennisteinsfjallkerfinu, fyrir utan veika vísbendingu um kaffærða öskju í Krýsuvíkurkerfinu, er miðstöð þeirra að finna þar sem mest hraunaframleiðslu fer fram í sprungugosum en þær miðstöðvar má sjá sem rauðan fláka vinstra megin á mynd 9 en rauði flákinn til hægri táknar Suðurlandsbrotabeltið.

Lega vatnasviða höfuðborgarsvæðisins við eldstöðvakerfi Reykjaness

Reykjanesskagi

Reykjanesskgai – jarðfræðikort ÍSOR.

Höfuðborgarsvæðið er staðsett norðan við eitt af fjórum virkum eldstöðvakerfum á Reykjanesi, Krýsuvíkurkerfinu. Til að geta ákvarðað mögulegar leiðir framtíðarhraunflæðis inn á höfuðborgarsvæðið er ekki nóg að kanna fjarlægð svæðisins í beinni loftlínu frá eldstöðvakerfunum heldur þarf einnig að kanna hvernig landinu hallar á milli kerfanna og borgarinnar.

Krýsuvíkurkerfið
HraunflæðiTalið er að Krýsuvíkurkerfið sé frekar lítið þroskað en kerfinu virðist ekki fylgja ein sérstök virknimiðja með öskju og kvikuþró. Jarðhitasvæði við Sveifluháls og Trölladyngju eru þó talin hluti af slíku svæði en á svæðinu við Sveifluháls má finna sprengigíga frá nútíma auk lítillar gossprungu. Hafa þessir sprengigígar myndast samfara eldgosum eða innskotavirkni. Mynduðust þessir gígar fyrir meira en 6.000 árum síðan en hraunmagnið úr þeim hefur verið mjög lítið og er talið að þeir hafi myndast á skjálftatímabili þegar skjálftarnir hreyfðu við storknandi kvikumassa. Auk þessa fylgdu gosunum mikið magn gabbróhnyðlinga. Einn sprengigíganna, Grænavatn, myndaðist í gosi sem einkenndist fyrst af mikilli kvikustrókavirkni og útkasti og mjög litlu hraunrennsli en á seinni stigum sprengingum á allt að tveggja til þriggja kílómetra dýpi sem sköpuðu gíginn.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Jarðhita í Krýsuvíkurkerfinu má meðal annars rekja til eldvirkni á síðari hluta nútíma og óreglna í gerð svæðisins en hlykkur hefur myndast þar sem dyngjubeltið á Reykjanesi og gossprungukerfið skerast og gossprungukerfið hnikast frá Núpshlíðarhálsi yfir á Sveifluháls. Jarðhitasvæðin á miðhluta eldstöðvakerfisins virðast tengjast sama hlykk en á honum er að finna gíg Hrútagjárdyngju sem myndaðist fyrir um 3-4.000 árum síðan. Er þetta dyngjugos mesta hraungosið í Krýsuvíkurkerfinu á nútíma.
Svo virðist sem eldgos í Krýsuvíkurkerfinu myndi sprungur sem eru í sömu stefnu og sjálft kerfið. Má þá nefna sprunguna þaðan sem Krýsuvíkureldar runnu og sprunguna þaðan sem Afstapahraun rann. Núpshlíðarháls og Sveifluháls gætu einnig verið merki um álíka sprungugos eða eldsumbrotahrinu undir jökli en slík gos mynda móbergshryggi.

Brennisteinsfjallakerfið
HraunflæðiGosið hefur að minnsta kosti 10 sinnum í Brennisteinsfjallakerfinu á sögulegum tíma og 30 til 40 sinnum á nútíma. Kerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjaness á nútíma en það hefur framleitt mest hraun að rúmmáli og flatarmáli. Hafa gostímabil á Reykjanesi vanalega hafist um 200 til 300 árum fyrr í Brennisteinsfjallakerfinu sé tekið mið af Krýsuvíkurkerfinu og Reykjaneskerfinu en fyrir um 1.900 árum síðan hóf Hengillinn þó leikinn.
Berg í Brennisteinsfjöllum er eingöngu basalt. Mikið magn móbergs í miðju Brennisteinsfjallakerfisins er til komið vegna þess að eldgosin verða oft í miðju eldstöðvakerfa þar sem landið er hærra og jöklun meiri og lengri. Á jökulskeiðum hlaðast því upp brött móbergsfjöll en hraun breiða lítið úr sér.

Jarðfræði

Reykjanesskagi – nútímahraun.

Á hlýskeiðum myndast aftur á móti dyngjur og hraun renna og fylla upp í dældirnar á milli móbergsfjallanna en þar er jafnframt þykkustu hraunstaflana að finna. Er til dæmis talið að milli Grindaskarða og Bláfjalla sé nokkur hundruð metra þykkur hraunstafli en yfirborð svæðisins er frekar flatt og bendir það til þess að hraunin hafi hlaðist upp afmörkuð af móbergsfjöllunum allt í kring. Mjög þykkir staflar hrauna eru einnig milli Bláfjalla og móbergshryggs sem liggur frá Brennisteinsfjöllum og í norðaustur og einnig í kringum Geitafell en hjá fellinu er talið að hraunin nái allt að 100-200 metra þykkt.

Leiti

Leiti.

Loks ber að geta að norðan Svínahrauns er landið mjög flatt og mælingar gefa til kynna að þar sé að finna þykkan hraunstafla. Móbergshryggir eru svo víða alveg grafnir undir nýrri hraunum en til dæmis má finna hryggi undir hraununum fyrir ofan Heiðmörk og undir Heiðinni há er mikill móbergsstafli. Stýrast hraunin því af móbergsfjöllum, hylja þau að hluta eða kaffæra þau jafnvel alveg.
Mikil dyngjuhraun frá nútíma hafa runnið í kerfinu, meðal annars frá Heiðinni há og Leitunum, en söguleg hraun þekja einnig mikið svæði. Hraun sem runnið hafa á nútíma í kerfinu eru talin vera 15 +/- 6 km3 út frá þykktarmælingum en þær móbergsmyndanir sem mynduðust á síðasta jökulskeiði eru talin vera um 30 km3.
Ásamt því að hafa skapað landslagið í Brennisteinsfjallakerfinu sjálfu hafa hraun sem komið hafa upp innan Brennisteinsfjallakerfisins einnig skapað landslagið í Krýsuvíkurkerfinu. Hafa þau runnið um langa leið til sjávar sunnan við Hafnarfjörð og því þverað allt Krýsuvíkurkerfið.

Mismunandi eiginleikar eldgosa á Reykjanesi á nútíma og á ísöld
HraunflæðiÞau landform sem gefur að líta á Reykjanesi eru til komin vegna fjölbreyttrar gossögu skagans. Má til dæmis nefna móbergshryggi, móbergsstapa, dyngjur og gígaraðir.
Á síðasta jökulskeiði lá jökull yfir Reykjanesi og sérstaklega á þeim svæðum sem hærri voru.
Athygli vekur að misgamlir og ílangir móbergshryggir eru mjög umfangsmiklir í Krýsuvíkurkerfinu og Brennisteinsfjallakerfinu. Er þessi myndun sérstaklega áberandi í Krýsuvíkurkerfinu en þar virðast löng sprungugos hafa verið allsráðandi undir jökli sem og á nútíma. Raða móbergshryggirnir sér í svipaða stefnu og gossprungurnar á nútíma og virðast því vera mörg fordæmi fyrir því að eldgos teygi sig eftir endilöngu kerfinu, allt frá ströndinni í suðvestri til Helgafells í norðaustri. Ef upp kemur eldgos suðvestan til í Krýsuvíkurkerfinu, sem og í Brennisteinsfjallakerfinu en þar eru gossprungur nokkuð algengar, má því allt eins reikna með að eldgos taki sig upp norðaustar og á óheppilegri stað sé horft til sögunnar.

Staðan í dag hefði jökull ekki hulið Reykjanes
HraunflæðiHefði jökullinn ekki verið til staðar á þessum ísöldum hefðu þau eldgos sem mynduðu móbergsstapa, móbergshryggi og móbergsfjöll myndað dyngjur, gígaraðir og hraun í staðinn. Þessu til grundvallar má nefna að móbergsstaparnir eru yfirleitt svipaðir að rúmmáli og með svipaða efnasamsetningu og dyngjurnar. Í dag væri landslagið því mjög frábrugðið á Reykjanesinu hefðu jöklarnir ekki komið til sögunnar. Líklega væri skaginn breiðari, láglendari og með jafnari hraunlögum á hverjum stað enda myndu hraunin hlaðast ofan á hvort annað á tiltölulega ávölum eða flötum svæðum í stað þess að staflast upp í hryggi og fjöll.

Dyngjur
HraunflæðiÍslenskar dyngjur eru yfirleitt frekar lágar og með litlum halla og endurspeglar það hversu þunnfljótandi basaltkvikan hefur verið þegar hún kom upp á yfirborðið í dyngjugosunum. Mjög margar dyngjur má finna á Reykjanesgosbeltinu. Flestar dyngjur á Íslandi eru eldri en 3.500 ára.
Dyngjurnar geta verið ansi víðáttumiklar en þar sem saman fara dyngjur og gosgígaraðir í eldstöðvakerfum hafa dyngjurnar vanalega gosið meira hraunmagni samanlagt þó gosgígarnir kunni að vera mun fleiri. Sem dæmi um rúmmálsmikla dyngju má nefna Heiðina háu, stærstu dyngjuna á Reykjanesi.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Dyngjurnar á Reykjanesinu eru ein umfangsmestu gosummerkin á yfirborði en þær væru enn meira áberandi hefðu yngri hraun úr sprungugosum ekki runnið yfir þær að hluta. Nokkur munur er á fjölda sprungugosa og dyngjugosa á Reykjanesi á nútíma en á heildina litið hafa myndast 26 dyngjur samanborið við 101 gossprungu. Munurinn á meðalrúmmáli hrauna úr dyngju- og sprungugosum er einnig mikill. Hafa sprungugosin því verið mun fleiri en dyngjugosin en dyngjugosin aftur á móti um tífalt rúmmeiri.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Á Reykjanesi eru dyngjurnar þessar helstar: Sandfellshæð (13.600 ára), Þráinsskjaldarhraun (14.100 ára), Hrútagjárdyngja (um 5.000 ára), Skúlatúnshraun/Stórabollahraun (2.000 ára), Kistufellshraun (yngra en 7.000 ára), Herdísarvíkurhraun (yngra en 7.000 ára), Þríhnjúkahraun (yngra en 7.000 ára), Heiðin há (eldri en 7.000 ára), Strompar (yngri en 7.000 ára) og Leitahraun (um 5.300 ára).

Myndun dyngja
HraunflæðiTalið er að dyngjur myndist í einu gosi sem getur komið í nokkrum áralöngum hrinum. Kvikan sem kemur upp í slíkum dyngjugosum á
Íslandi er vanalega frumstæð og mjög heit en hún er ættuð beint neðan úr djúplægum kvikugeymum. Gosin byrja yfirleitt sem sprungugos en með tímanum afmarkast þau af nokkrum rásum. Myndast þá nokkrar dyngjur sem flæða yfir hverja aðra en á endanum ná gosin að afmarkast við eina rás. Flæða hraunin úr rásinni yfir minni dyngjurnar sem verða í vegi hraunflæðisins og á endanum byrjar að myndast stök hraunkeila (e. lava cone). Eldgosið gæti hætt á þessu stigi, eða fyrr, og myndað nokkrar dyngjur sem eru þá yfir hverri annarri.
HraunflæðiÁ byrjunarstigum dyngjugosa er hraunflæði á yfirborði þegar rennslið er hvað mest úr hrauntjörn í toppgígnum. Rennur þá mjög þunnt skelhelluhraun (e. shelly pahoehoe) næst upptökum en hægara og grófgerðara brothelluhraun (e. slabby pahoehoe) eða hreinlega apalhraun fjær þeim. Þegar rennslið minnkar rennur hraunið í undirgöngum frá hrauntjörn en hæg storknun vegna einangrunar í undirgöngum útskýrir meðal annars af hverju dyngjur geta náð yfir mikið flatarmál.
Hraunflæðið kemur svo fram á yfirborði í hlíðum dyngjunnar og myndar þar hraunsvuntu og tiltölulega flatlent helluhraun með bungum og hraunkollum.

Búri

Búri- hraunhellir í Leitarhrauni.

Algengt er að hraun flæði um undirgöng frá efri hlutum rauntjarnarinnar en stundum getur hraun flætt frá neðri hlutum hennar eða hreinlega beint úr gosrásinni sem sér henni fyrir hrauninu. Á seinni stigum getur hrauntjörnin einnig flætt yfir bakka sína. Þegar hraunflæði frá upptökum hættir, til dæmis ef gosið hættir og hrauntjörnin verður þurrausin, og hraunið rennur allt niður undirgöngin svo þau tæmast myndast hraunhellar sem geta oft verið nokkuð langir.
Dyngjugos geta staðið nokkuð lengi, jafnvel í nokkur ár eða áratugi að því er talið er.

Móbergs- og dyngjumyndun, umræður
HraunflæðiDyngjur geta verið mjög rúmmálsmiklar og myndast hver þeirra vanalega í einu löngu gosi á Íslandi. Þær hafa flestar myndast fyrir meira en 3.500 árum síðan en Skúlatúnshraun, sem myndaðist fyrir 2.000 árum og Surtsey, sem myndaðist árin 1963 til 1967, sýna að dyngjur geta enn myndast á Íslandi og þar af leiðandi á Reykjanesinu þar sem þær eru algengastar.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Ekki er því hægt að útiloka þann möguleika að stór dyngjugos komi upp á skaganum eða í námunda við byggð. Er nóg að skoða muninn á einhverju þeirra hrauna sem komið hafa upp í sprungugosum, til dæmis Kapelluhrauni, og dyngjugosum, til dæmis Heiðinni háu, til að sjá að dyngjurnar breiðast meira út en hraun úr sprungugosum renna eftir afmarkaðri farvegum. Ber þó að geta þess að dyngjur geta verið af ýmsum stærðum og gerðum og er það vonandi að komi upp dyngjugos á Reykjanesi að það verði stutt og með takmörkuðu hraunmagni.

Eiginleikar sprungugosa og gosa úr einum gíg

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Eldgos geta verið tvenns konar. Annars vegar geta þau raðað sér á gossprungur í eldstöðvakerfunum og hins vegar verið bundin við einn gíg. Í sprungugosum myndast röð af gígum ofan á gossprungunni. Algengast er að sprungan sé með einni meginstefnu, mynduð af nokkrum aðskildum sprungum sem liggja í sömu átt en næstu sprungur við hana liggja örlítið skáhallt (e. echelon) til annarrar hvorrar áttar. Í þessum sprungugosum myndast klepragígar, gjallgígar eða blanda af þessum tveimur tegundum en kvikustrókavirknin úr hverjum gíg orsakar myndun hans. Eldgos geta afmarkast við einn gíg en algengt er að slík gos hafi byrjað sem sprungugos en virknin svo færst nokkuð fljótt og alfarið yfir á eina rás. Í þessum gosum myndast svipaðir gígar eins og ef um sprungugos væri að ræða.

Lýsing á eiginleikum og flæði apalhrauna og helluhrauna

Apalhraun

Apalhraun.

Apalhraun, og basalthraun yfir höfuð, eru vanalega um 1.200° heit þegar þau koma upp í eldgosum. Við þetta hitastig eru hraunin hvað mest þunnfljótandi og hraðfara og flæða þau um líkt og vökvi á yfirborðinu. Mikil útgeislun hraunsins veldur því að það kólnar fljótt og smám saman verður það seigara og meira hægfara. Hlutar hraunsins storkna á yfirborði og renna þeir sem dökkt hröngl í hraunstraumnum eða sem skán á yfirborði hans. Þegar enn lengra er komið frá upptökum eru hraunin orðin seigari og yfirborð þeirra storknuð lengra inn að miðju. Þrýstist hraunið þá áfram undan hraunflæðinu sem kemur frá upptökunum en hraunjaðarinn er hættur að renna sem vökvi. Þá brotnar storknað hröngl framan af jaðrinum og verður undir hrauninu þegar það þrýstist áfram. Af þessum völdum eru apalhraun nokkuð lagskipt en neðst er að finna hrönglið, oft ofan á bökuðum jarðvegi sem hefur orðið undir heitu hraunflæðinu. Í miðjunni er þéttara berg sem hefur kólnað hægar og efst er hröngl sem hefur brotnað í hraunflæðinu. Er yfirborðið því hrjúft, óreglulegt að lögun og oft með oddhvössum brúnum.

Helluhraun

Helluhraun.

Líkt og apalhraunin eru helluhraunin mjög heit þegar þau koma upp í eldgosum enda oft um sömu gosgíga að ræða. Helluhraunflæði er því oft að finna nærri gígunum, þó þaðkunni að breytast síðar í apalhraunflæði áður en það stöðvast. Þau helluhraun sem hafa náð
að haldast þunnfljótandi allt þar til þau stöðvast flæða á nokkuð annan hátt en apalhraun. Á þeim hefur myndast tiltölulega slétt og samfelld deig skorpa, sé miðað við apalhraunið, sem einangrar hraunið og því er útgeislunin ekki næg til að það kólni og verði of seigt. Rennur hraunið því heitt undir skorpunni uns það nær jaðrinum. Við slíkar aðstæður myndast eins konar tær, eða koddar, í jaðri hraunsins þegar hraunið rífur gat á hann og smeygir sér í gegn. Nýjar tær geta komið fram á milli eldri táa eða í þeim miðjum og þannig skríður hraunið fram, oft í nokkrum óreglulegum áföngum. Sé flæðið hraðara undir yfirborðinu og yfirborðið hálfstorknað geta einnig myndast svokölluð reipi ofan á hrauninu en þau myndast vegna núnings deigrar skorpunnar við fljótandi hraunbráðina. Eru því hraunreipin til komin vegna mismunandi hraða yfirborðs og hraunbráðinnar undir því. Eftir storknun hafa helluhraunin mun sléttara yfirborð en apalhraunin.

Kapelluhraun (861 ár; Krýsuvíkurkerfið)
HraunflæðiKapelluhraun er úfið apalhraun sem rann úr gígum hjá Vatnsskarði. Hefur það runnið til sjávar í Straumsvík eftir dæld milli Eldra Hellnahrauns og Hrútagjárdyngju. Hraunið rann á sögulegum tíma og benda örnefnin „Nýjahraun“, „Nýibruni“ og „Bruninn“ til þess að menn hafi horft upp á hraunið renna. Samtímis eldgosinu áttu sér einnig stað miklir jarðskjálftar sem er getið í Flateyjarbók. Ljóst er því að mikið hefur gengið á þegar Kapelluhraun rann og eldgosið því ekki farið fram hjá mörgum á svæðinu.
Kapelluhraun er um 10 kílómetra langt þar sem það er lengst en alls þekur það 13,7 km2.
Ef reiknað er með 5 metra meðalþykkt er rúmmál þess um 0,07 km3. Hraunið er því um það bil af svipaðri stærð og meðalbasalthraun á Íslandi.
HraunflæðiKrýsuvíkureldar brunnu, að talið er, í nokkra áratugi á 12. öld. Kapelluhraun er hluti þessarar goshrinu en gossprungan, sé hún talin sem ein heild, nær frá austurhlíð Núpshlíðarháls í suðvestri til austanverðs hluta Undirhlíða í norðaustri. Vegalengdin endanna á milli er um 25 kílómetrar en 8 kílómetra löng eyða er á gossprungunni. Syðri hluti gossprungunnar er um 10,5 kílómetrar að lengd en nyrðri hlutinn, þaðan sem Kapelluhraun rann, er um 6,5 kílómetrar að lengd. Flatarmál hraunanna úr þessum eldum er 36,5 km2 og áætlað rúmmál þess mun vera 0,22 km3. Runnu þá einnig Ögmundarhraun í suðri við Krýsuvík og Mávahlíðarhraun norðaustur af Trölladyngju.
Mestur hluti Kapelluhrauns rann frá gígum við Vatnsskarð, rétt neðan vesturhluta Undirhlíða, og til sjávar í Straumsvík. Því miður eru þessir gígar nú horfnir að mestu sökum gjallvinnslu.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Ná þessir gígar yfir tvo syðstu kílómetra gossprungunnar í Undirhlíðum en mest gaus úr syðsta og vestasta gígnum. Næst þessum gíg hefur hraunið runnið eftir hrauntröð og þaðan stefnt í norðvesturátt til sjávar. Þess ber að geta að hraunin í Krýsuvíkureldunum hafa yfirleitt verið þunnfljótandi og gasrík og því hafa myndast þunn helluhraun næst gígunum í þessum eldum. Þegar hraunin hafa farið nokkur hundruð metra hefur gasið að miklu leyti horfið úr þeim, þau orðið seigari og smám saman breyst í apalhraun. Er þetta ástæðan fyrir því að apalhraunin úr eldunum eru yfirleitt úfnara eftir því sem fjær dregur upptökunum enda er Kapelluhraunið mjög úfið næst Straumsvík en sléttara nær upptökum.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Þegar Kapelluhraun rann voru gígarnir við Vatnsskarð ekki einu upptökin. Enduðu hraunin þar að auki ekki öll sem úfin apalhraun fjær upptökum þeirra. Úr öðrum hlutum 6,5 kílómetra langrar gossprungunnar runnu að mestu leyti þunnfljótandi helluhraun en þau náðu þó ekki jafn mikilli útbreiðslu og meginstraumurinn sem rann niður í Straumsvík.
Sem dæmi má nefna hraunin sem runnu til vesturs og norðurs úr Kerunum norðan við Bláfjallaveg en hraunið norðan við þessa litlu gíga eru mjög slétt. Slétt helluhraun hefur einnig runnið frá Gvendarselsgígum austan í Gvendarselshæð í norðurenda Undirhlíða.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

Hraun þetta þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðarinnar, Valahnúka og Helgafells en það hefur einnig runnið niður í norðausturhluta Kaldárbotna í nokkuð mjórri totu. Einnig hefur örmjór hraunstraumur runnið niður Kýrskarð og myndað lítinn hraunfláka ofan á Óbrinnishólahrauni og undir Gvendarselshæðinni. Þykkt þessara sléttu helluhrauna sem talin hafa verið upp hér að ofan, og teljast sem hluti af Kapelluhrauni, er frekar lítil en víðast virðist hún vera um 1 metri eða minni.

Tvíbollahraun (1.112 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
HraunflæðiHraunið sem er í daglegu tali nefnt Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hér eftir verða kölluð Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) og Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun).
Tvíbollahraun er dæmigert helluhraun með sprungnum og ávölum hraunkollum. Það hefur runnið sunnan úr Tvíbollum sem eru tveir
gígar, um það bil 20 og 60 metra háir, við Grindaskörð en í þessum skörðum hefur verið mikil eldvirkni á nútíma.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hefur hraunflæðið verið að mestu um undirgöng. Sé hraunið rakið alla leið til byggðar hefur það runnið frá fyrrnefndum Tvíbollum, austur með Helgafelli og suður fyrir það, norðaustur með Gvendarselshæð , vestur með Kaldárseli, meðfram Stórhöfða og Hamranesi, undir núverandi íbúabyggð í Vallahverfinu og loks hefur það stöðvast hjá Hvaleyrarholti um 300 metrum frá sjó. Hefur Tvíbollahraun runnið nánast sömu leið og Skúlatúnshraun rann um 900 árum fyrr. Tvíbollahraun er þó mun minna um sig á þessum slóðum en Skúlatúnshraunið en fjallað verður um það síðarnefnda á næstu síðum.
Tvíbollahraun og Skúlatúnshraun eru einsdæmi á Reykjanesinu. Hafa bæði hraunin runnið frá Brennisteinsfjallakerfinu, þvert yfir Krýsuvíkurkerfið og endað í nokkurra kílómetra fjarlægð frá austustu sprungunum í Reykjaneskerfinu. Þau hafa því runnið úr einu kerfi, þverað það næsta og endað skömmu frá því þriðja.

Óbrinnishólabruni (2.203 ár; Krýsuvíkurkerfið)
HraunflæðiFyrir um 2100 árum gaus í Krýsuvíkurreininni. Nyrstu gosstöðvarnar voru á svipuðum slóðum og gosstöðvarnar sem mynduðu Kapelluhraunið eða nánar tiltekið í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg. Frá þessum gígum rann Óbrinnishólabruni. Því miður eru gígar þessir að mestu horfnir í dag en þeir hafa verið grafnir út í grjótnámi.
Nafn hólanna er talið þýða að á þeim hafi ekki brunnið þegar Kapelluhraun rann yfir Óbrinnishólabrunann. Í austanverðum Óbrinnishólunum er um 900 metra löng gígaröð en hún er nú ekki svipur hjá sjón. Hæsti gígurinn þar náði um 44 metra hæð yfir nánasta umhverfi. Hraunflæðið hefur að mestu komið úr syðsta gígnum en þaðan hefur runnið fyrst í austurátt til Undirhlíða en svo hefur hraunflæðið beygt í norður, runnið langleiðina að Kaldárseli og svo í vestur í átt til sjávar þar sem það hefur líklega náð út í sjó. Er hraunið apalhraun að mestu leyti. Hraunið er þó ekki á yfirborði við ströndina enda runnu Skúlatúnshraun og Kapelluhraun þar yfir um það bil 200 og 1340 árum síðar.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar ofan Hafnarfjarðar.

Fáar greinar eru tiltækar um Óbrinnishólabruna og styðjast þær sem til eru oftast við grein Jóns Jónssonar frá 1974, Óbrinnishóla. Jón telur að tvö hraun hafi runnið frá Óbrinnishólum og að fyrra hraunið hafi þá runnið frá næst syðsta gígnum. Við könnun á hraunlögum undir og við hlið yngri Óbrinnishólabruna (hafi gosið tvisvar) fannst hraunlag sem er svo líkt Búrfellshrauni að varla má greina á milli þeirra. Telur Jón því að fyrra gosið í Óbrinnishólum hafi jafnvel orðið á sama tíma og gosið í Búrfelli.
Líkt og kemur fram í umfjöllun um Búrfellshraun hér á eftir er talið að hraun þetta sé jafnvel komið alla leið frá Búrfelli. Getur því verið að hraunið undir Óbrinnishólabruna því ekki bara líkt Búrfellshrauni heldur sé einfaldlega um sama hraun að ræða.

Skúlatúnshraun (u.þ.b. 2.000 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
HraunflæðiSkúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Líkt og áður hefur komið fram er Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar. Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli (falið undir neðra vinstra horni myndarinnar af byggðinni) og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts.
Skúlatúnshraun hefur verið þunnfljótandi helluhraun og myndaði það ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík en þar tók Kapelluhraunið við strandmynduninni síðar meir. Hefur Skúlatúnshraunið einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Vatnshlíðar og Selhöfða og myndað þannig Hvaleyrarvatn og einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Grísaness og Hvaleyrarholts og myndað þannig Ástjörn.

Litluborgir

Gervigígur í Skúlatúnshrauni.

Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun.
Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en líkt og sjá má í umfjöllun um gervigíga fyrr í ritgerðinni þeytast meðal annars upp hraun og setlög þegar þeir myndast. Er þetta ástæðan fyrir því að í fyrrnefndum gervigígum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir.

Búrfellshraun (8.151 ár; Krýsuvíkurkerfið)
HraunflæðiBúrfellshraun heita þau hraun sem runnið hafa niður í mið- og norðurhluta Hafnarfjarðar og suður af Garðarbæ fyrir rúmum 8.000 árum síðan. Nafnið er samheiti yfir nokkur hraun og má til dæmis nefna Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Lækjarbotnahraun, Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Urriðakotshraun en það síðastnefnda stíflar upp Urriðakotsvatn. Hraunin breiða úr sér alla leið norðvestur til sjávar í Hafnarfirði og Skerjafirði (Ingibjörg Kaldal, 2001) og þekja þau stór svæði sem nú eru undir byggð.
Þess ber að geta að þegar hraunin runnu var sjávarstaðan mun lægri og því hafa hraunin að einhverju leyti myndað þá strandlínu sem nú afmarkar firðina. Hafa firðirnir tveir því væntanlega náð talsvert lengra inn í landið en þekkist nú.

Jarðfræði

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Búrfellshraun er talið hafa runnið úr einu og sama gosinu úr Búrfelli sem er um 7,5 kílómetrum suðaustur af miðbæ Hafnarfjarðar. Búrfell er kambur sem er samsettur úr hraunkleprum og gjalli utan um eldgíginn Búrfellsgíg en hann er um 140 metrar að þvermáli og um 26 til 58 metra djúpur. Þessi gígur er um margt frábrugðinn þeim gígum og gossprungum sem finna má á öðrum stöðum á Reykjanesi en hann virðist hafa verið eina virka eldvarpið á tiltölulega stóru svæði en oftast hafa gos byrjað á sprungum á skaganum og gígarnir raðað sér þéttar saman. Einnig liggur hann ekki í stefnu annarra sprungna á nesinu heldur er hann næstum því kringlóttur. Því liggur fyrir að Búrfell hefur einungis gosið einu sinni. Fræðimenn greinir á um hvort Búrfell hafi verið eitt að verki í þessari goshrinu því fram hafa komið kenningar um að á sama tíma hafi hraun runnið úr Hraunhól allt norður til sjávar í Straumsvík eftir dældinni austan Hrútagjárdyngju. Hraunhóll er við suðvesturjaðar Kapelluhrauns og því er stóran hluta hraunsins, sé þetta rétt, að finna undir Kapelluhrauni sem rann eftir sömu dæld.
HraunflæðiBúrfellshraun er í stærra lagi sé miðað við nýlegri gos úr Krýsuvíkurkerfinu en rúmmál þess er um 0,36 km3 sé miðað við áætlaða 20 metra áætlaða meðalþykkt og það 18 km2 svæði sem hraunið þekur. Hraunið rann að mestu leyti í tveimur meginkvíslum í norðvesturátt frá gígnum og rann önnur vestur af Kaldárseli en hin hjá Gjáarrétt. Vegna landslagsins norðaustan og austan gígsins rann hraunið nánast ekkert í þær áttir og komst það einnig skammt í suður- og suðausturátt en þó að rótum Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. Er suðurhraunið frekar lítið miðað við hin hraunin. Í vestri hverfur Búrfellshraun undir nýrri hraunlög um 1 til 2 kílómetrum frá upptökum í Búrfelli.
Að mati Árna Hjartarsonar hefur Búrfellshraun einnig runnið til sjávar í Straumsvík en hann telur að það hafi gerst á fyrstu stigum gossins og séu þau hraun nú grafin undir yngri hraunum. Aðeins er eftir smá hluti þess sem nefnist nú Selhraun. Næst hafi hraunið runnið til sjávar í Hafnarfirði yfir það svæði þar sem nú er Gráhelluhraun. Þar næst hafi hraunið runnið til sjávar í Skerjafirði, milli Álftaness og Arnarness, yfir það svæði þar sem nú eru meðal annars Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun og Gálgahraun. Að lokum hafi hraunið svo runnið til suðurs. Er talið að hraunið hafi byrjað að renna til suðurs vegna þess að gat brast neðarlega á suðurvegg gígsins. Hrauntjörnin, sem fyllti áður gíginn, leitaði því út um þetta gat enda var það tugum metrum neðar en útfall hraunsins niður í hrauntröðina til norðvesturs. Vegna lækkunarinnar í tjörninni gat hraunið ekki runnið aftur í norðvesturátt.

Búrfell

Búrfell.

Þegar hraunið rann allt til Skerjafjarðar myndaðist hrauntröðin sem nefnd var að ofan og liggur í norðvesturátt. Er þessi hrauntröð betur þekkt sem Búrfellsgjá og er hún um 3,5 kílómetrar að lengd. Er hrauntröðin nokkuð kröpp og U-laga næst upptökum í Búrfelli en þegar neðar dregur er hún grynnri og fyllt hrauni. Hrauntröðin hefur varðveist á svo stórum kafla vegna þess að hraunið hefur skyndilega hætt að renna um hana. Hefur hún þá tæmst nokkuð snögglega efst en neðar hefur hraunið setið eftir og storknað. Önnur hrauntröð myndaðist einnig fyrr í gosinu en hún stefnir í vesturátt frá Búrfelli og liggur nálægt Kaldárseli. Hefur hún fyllst af hrauni síðar í gosinu og því er lítið eftir af henni.

Leitahraun (5.316 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
HraunflæðiLeitahraunið er upprunnið í dyngjugígnum Leiti sem er í miðjum austanverðum Bláfjallahryggnum og skammt vestan Syðri-Eldborgar. Nær hraunið allt suður til Þorlákshafnar og norður til Elliðaárvogs í norðri.
Lega Leitahraunsins í Elliðaárvogi merkir að það hafi runnið þangað um 28 kílómetra langa leið frá gígnum í Leitum. Hraunið er dæmigert helluhraun og hefur það verið mjög heitt, þunnfljótandi og runnið nánast eins og vatn. Dæmi sem styðja þá fullyrðingu má sjá á nokkrum stöðum en þar hefur hraunið fyllt hverja glufu í klettum sem það hefur runnið utan í. Má einnig sjá merki þess hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið í því hversu þunnt það er sums staðar en á vissum stöðum getur þykktin verið einungis 0,6 til 0,75 metrar.
Fulllangt yrði að fjalla ítarlega um alla þá leið sem Leitahraun hefur runnið til norðvesturs í átt að Reykjavík en í grófum dráttum hefur hraunið breitt úr sér á flatlendum svæðum, runnið í þröngum fossum og er sums staðar einungis nokkurra metra breitt þar sem hallinn er hvað mestur. Norðurjaðar hraunsins er skýr enda engin nýrri hraun sem runnið hafa að honum að norðan. Suðurjaðar hraunsins er aftur á móti óskýrari en ýmis nýrri hraun hafa runnið að honum að sunnan, til dæmis nokkur Hólmshraun. Gervígígaþyrpingar hafa myndast þar sem Leitahraunið rann yfir votlendi og af þeim má til dæmis nefna Tröllabörn vestan við Lækjarbotna og Rauðhóla austan við Elliðavatn.
Á síðustu árum og áratug hefur nokkuð verið skrifað um hönnun hraunflæðilíkana. Mismunandi útfærslur má finna í hinum ýmsu greinum en þessi líkön eiga þó margt sameiginlegt.”

Heimild:
-https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2023/07/BS_Daniel_Pall_Jonasson_Landfraedi_Juni_2012.pdf
Hraunflæði

 

Eldgos

Sunna Ósk Logadóttir skrifaði þann 20. janúar 2024 í Heimildina (heimildin.is) um „Krýsuvík er komin í gang“:

Reykjaneseldar“Í ljósi sögunnar má ætla að eldgosin verði stærri og fleiri eldstöðvakerfi vakna þegar líða tekur á það gostímabil sem nú er hafið á Reykjanesskaga. Hraunrennsli og sprunguhreyfingar munu þá ógna íbúabyggð og innviðum á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er náttúrlega háalvarlegt,“ segir eldfjallafræðingur.

„Við erum ekki í miðjum atburði, við erum í upphafi atburðar,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um Reykjaneseldana sem nú eru hafnir „alveg á fullu“. Þetta gostímabil gæti staðið í áratugi – jafnvel árhundruð. Í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að fleiri eldstöðvakerfi á Reykjanesinu láti til sín taka. Þau eru sex talsins og í tveimur þeirra hefur þegar gosið og tvö til viðbótar hafa rumskað og tekið þátt í atburðarásinni án þess að gjósa.

Ármann Höskuldsson

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.

Þá er einnig líklegt, „svona ef maður horfir til fortíðar,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, „að gos muni frekar aukast eftir því sem líður á þessa atburðarás“. Það sýni til dæmis reynslan frá Kröflueldum. Gosin hafi verið lítil til að byrja með en skjálftarnir hins vegar miklir. „En síðan snerist þetta við,“ segir hann. „Eftir því sem á leið þá urðu skjálftarnir alltaf minni og minni en gosin stærri og stærri. Þannig að ef þetta dregst á langinn þá er mjög líklegt að það fari yfir í það.“

Á síðasta gostímabili gaus í öllum eldstöðvakerfum Reykjanesskagans, nema í því sem kennt er við Fagradalsfjall. „Það gaus á Reykjanesi. Það gaus í Svartsengi. Það gaus í Krýsuvík og það gaus í Brennisteinsfjöllum,“ segir Páll.

Í dvala í átta aldir

Eldgos

Geldingadalur; eldgos 2021.

Þegar eldgos hófst í Fagradalsfjalli í mars 2021 höfðu slíkir atburðir ekki átt sér stað á Reykjanesskaga í um 780 ár eða frá því á Sturlungaöld. Um 6.000 ár höfðu þá líklega liðið frá síðasta gosi í Fagradalsfjallskerfinu. Næstu tvö gos, í Meradölum 2022 og við Litla-Hrút 2023, urðu einnig í því kerfi en það fjórða sem varð norðan Sundhnúk í desember síðastliðnum varð í Svartsengiskerfinu, sem stundum er einnig kennt við Eldvörp. Sömu sögu má segja um það sem varð nú í janúar. Ekki hafði gosið í Sundhnúkagígaröðinni í líklega 2.400 ár.

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Síðasta goshrina á skaganum varð í vestari kerfunum og varði í þrjátíu ár. Hún var kölluð Reykjaneseldar og var jafnframt lokahrinan í löngu eldsumbrotatímabili sem stóð yfir í tæpar þrjár aldir, allt frá því um 950 og til 1240.

Almennt er talið að síðasta gostímabil á Reykjanesskaga hafi hafist á Hengilssvæðinu sem stundum er þó undanskilið kerfum skagans. Þar næst gaus í kerfi sem kennt er við Brennisteinsfjöll, þá í Krýsuvík og loks í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum.

Páll Einarsson

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.

„Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.
Þótt ýmislegt sé vitað um hegðun eldstöðvakerfanna er fjölmargt enn á huldu. Ármann bendir til dæmis á að stærri hraun hylji þau minni og því höfum við ekki „kórrétta atburðarás“ af „syrpunni“, eins og hann orðar það, sem varð á þrettándu öld. „Þannig að við erum bara með grófa mynd.“

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg í Krýsuvík.

Upplýsingar þær sem við höfum séu meðal annars byggðar á lýsingum í annálum og þeirra sem aflað hefur verið með kortlagningu. Miðað við þau fræði gaus í Krýsuvík fyrir rúmum 1.100 árum, aftur fyrir um 900 árum og loks um árið 1150, eða fyrir um 830 árum.

Víti

Víti í Kálfadölum ofan Geitahlíðar í Krýsuvík.

„Það gerist örugglega einhvern tímann,“ segir Ármann spurður um líkur á því að það fari að gjósa í Krýsuvíkurkerfinu sem er fyrir miðju kerfanna sex. „Það er ekkert sem segir að það geti ekki gerst þó að við séum með þessa krísu út á Reykjanesi í kringum Grindavík.“

Spennulosun í Krýsuvík hafin

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Aðdragandi gosa í því kerfi yrði að sögn Ármanns eflaust á svipuðum nótum og við höfum séð við Fagradalsfjall og Svartsengi: Fyrst yrðu jarðskjálftar, þá sprungumyndanir og loks færi hraun að flæða. „Því þetta byrjar með spennulosun,“ útskýrir hann. „Til að koma kvikunni upp verður að byrja á því að brjóta skorpuna. Þannig að það fer ekkert framhjá okkur þegar þetta fer í gang. Og Krýsuvík er komin í gang. Við erum búin að vera að mæla þar landris og sig á víxl í nokkur ár og búin að fá ansi hressilega skjálfta. Þannig að spennulosunin er byrjuð þarna.“

Og það gæti náttúrlega endað í eldgosi?

Sogagígur

Sogagígur sunnan Trölladyngju.

„Alveg klárlega,“ svarar Ármann. „En við gerum okkur vonir um að við sjáum þessi merki stífar áður en við náum því. Það er alveg klárt að það er farin að safnast fyrir kvika í Krýsuvíkurkerfinu.“

Páll tekur undir þetta og minnir á að Krýsuvík hafi verið „óróleg“ undanfarið – ekki síst seinni hluta ársins 2020. Land reis þá í nokkrar vikur. Og risinu fylgdu talsverðir jarðskjálftar, stærstu skjálftar þessara umbrota allra, segir Páll sem telur „frekar líklegt“ að gjósa muni í þessu kerfi í þeirri goshrinu sem nú er hafin.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

„Ef að þetta er eitthvað svipað og hefur gerst í jarðsögunni þá er líklegt að gosvirkni verði frekar mikil næstu 200–300 árin eða svo. Þá er nú frekar líklegt að Krýsuvíkurkerfið taki meiri þátt í þessu heldur en hingað til.“

Hann segir það hins vegar ólíklegt að gosin í kerfum Fagradalsfjalls og Svartsengis hafi með einhverjum hætti létt á Krýsuvíkurkerfinu.

Sprungusveimurinn mikli
Hættan af hræringum í því kerfi séu aðallega tvenns konar: Af völdum sprunguhreyfinga og hraunflæðis. Sprungusveimur þess liggi yfir stórt svæði; í gegnum Kaldársel, Búrfell, Heiðmörk, við Rauðavatn og upp í Hólmsheiði – jafnvel alla leið upp í Úlfarsfell. „Þannig að ef við fengjum gangainnskot alla þá leið, sem er vissulega möguleiki, þá er það kannski erfiðasti atburðurinn að fást við,“ segir Páll sem rannsakað hefur sveiminn og skrifað um hann greinar. Ef hreyfing kæmist á sprungurnar yrðu miklir innviðir í hættu. „Aðalmálið væri kannski vatnsbólin og það allt saman. Það er sviðsmynd sem er kannski ein af þeim verri.“

Búrfell

Búrfell ofan Garðabæjar.

Á þessu mikla sprungusvæði er auk þess íbúabyggð. Þótt hraunrennsli ógni henni ekki, meðal annars Norðlingaholtinu og Árbæjarhverfi, gætu sprunguhreyfingar gert það. Páll rifjar upp að í kringum 1980 hafi mikið verið deilt um hvort byggilegt væri í nágrenni Rauðavatns. Málið hafi orðið mjög pólitískt. Sumir sögðu að þetta væri stórhættulegt jarðskjálftasvæði en aðrir að sprungurnar væru gamlar og myndu ekki hreyfast meir.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

„Þeim tókst að deila um þetta og hafa allir rangt fyrir sér,“ segir Páll. Því að á sprungusvæðum sé hægt að byggja, en það er ekki sama hvernig það er gert. „Þarna eru vissulega sprungur en þetta eru ekki jarðskjálftasprungur heldur kvikuhlaupssprungur,“ heldur hann áfram. „Þær hreyfast mikið þegar þær hreyfast en það hreyfist hins vegar eiginlega ekkert á milli þeirra. Þannig að ef þú ert að byggja hús þarna, þá bara passar þú að byggja ekki yfir sprunguna. Þá ertu bara í góðum málum. Þetta er alveg byggilegt en það verður að byggja rétt.“

Norðlingaholt

Norðlingaholt.

Og heldur þú að okkur hafi borið gæfa til þess að byggja á milli sprungnanna?

„Ég er ekki alveg viss um það,“ svarar Páll. „En það var reynt og ef þú spyrð þá sem skipulögðu Norðlingaholtið þá munu þeir segja að þeir hafi tekið tillit til sprungnanna.“ Þegar farið var að grafa fyrir húsum í hverfinu hafi fundist gjár þar undir. Á þeim hafi ekki verið byggt enda megi sjá þrjú skörð í byggðinni. „Húsin sem eru á milli ættu að vera í góðu lagi,“ segir Páll. „Spurningin er bara: Gáðu þeir nógu vandlega?“

Klaufalegt að skipuleggja byggð á Völlunum
Þegar síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu í kringum 1150 runnu meðal annars Kapelluhraun til norðurs og Ögmundarhraun til suðurs. Og þá er komið að hinni vánni sem Páll vill vekja athygli á: Hraunrennsli. Hraun sem koma upp í norðurhluta Krýsuvíkurbeltisins gætu runnið niður í það dalverpi sem Vallahverfið í Hafnarfirði stendur í.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígar vestan Helgafells.

Að mati Páls má segja að vissrar óvarkárni hafi gætt í skipulagsmálum hvað þetta varðar. Óþarfi hafi verið að taka þá áhættu að byggja á Völlunum því annað byggingarland hafi fundist innan Hafnarfjarðar. „Þetta er ágætis byggingarland í sjálfu sér,“ segir hann um Vellina og næsta nágrenni, „en ef hraun kemur upp, á þessum stað, þá rennur það þessa leið, það er óhjákvæmilegt. Það er ekki hægt að beina því neitt. Og það er þá klaufalegt að vera með mikla byggð þar.“

Ógnin komin heim í garðinn

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar ofan Hafnarfjarðar.

Hafnfirðingar þurfa að mati Ármanns að endurskoða sín skipulagsmál, þeir geti ekki byggt „endalaust upp til fjalla“. Gos gæti hafist í Krýsuvík eftir einhver ár, áratugi eða öld. „Þetta er allt farið í gang,“ segir hann. „Reykjanesið sjálft er farið í gang. Og það þýðir þá að menn verða að hugsa um það og breyta skipulagsáætlunum í stíl við það.“

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Hvað Vellina varðar telur hann líkt og Páll að ef Krýsuvík færi að gjósa myndi steðja ógn að hverfinu. „Ég myndi halda að við ættum að hanna þá,“ svarar hann spurður um hvort hefja ætti undirbúning varnargarða við byggðina. „Við þurfum kannski ekki endilega að fara að rusla þeim upp strax en bara um leið og það fara að verða alvarleg merki þá setjum við vinnuna í gang. Þetta er komið heim í garðinn og þá gerir þú allt klárt. Þú ferð kannski ekki strax í framkvæmdirnar en byrjar að teikna og reikna.“

Bollar

Bollar.

Ef til annarra kerfa er litið, kerfa sem enn sofa þótt laust sé, minnir Ármann á Hengilinn sem markar endimörk eldstöðvakerfis Reykjanesskagans í austri. Ef hann færi að ræskja sig alvarlega gætu hamfarir fyrir byggð orðið miklar. „Ef hann fer að dæla hrauni yfir Nesjavelli og Hellisheiðarvirkjun þá yrði lítið heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega háalvarlegt.“

Stóri-Bolli

Stóra-Bollagígur otan í Konungsfelli (Kóngsfelli).

Páll telur það eiga sér vissar skýringar að ákveðið var að byggja á svæðum þar sem vá vegna sprungusveima og hraunflæðis vofir yfir. „Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ útskýrir hann. „Þá var þessi virkni óvenjulega lítil. Ef við horfum til baka, til fyrri alda, þá er 20. öldin framan af steindauð. Hún sker sig úr öllum öðrum öldum. Menn fengu skakka hugmynd um hvers eðlis virknin var. Og við sitjum uppi með þetta svona.“

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur í Brennisteinsfjöllum fjær.

Upp úr 1960 hafi hins vegar hver atburðurinn tekið að reka annan; Surtseyjargos, Heklugos, Heimaeyjargos og hvað eina. Allt hafi svo „keyrt um þverbak“ er hrina hófst í Kröflu um miðjan áttunda áratuginn.

Og ekki er að fara að draga úr virkninni í fyrirséðri framtíð?

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

„Ég held að þetta sé komið í venjulegt og eðlilegt horf,“ svarar Páll. „Svo það er eins gott að við lærum af því. Og breytum því sem þarf að breyta.“

Hvað getum við lært af því og hverju þurfum við að breyta?

„Við þurfum að reikna með að það geti orðið hraunstraumar hér og þar sem þarf að beina annað eða skipuleggja sig í kringum,“ svarar Páll. „Skjálftamálin eru í tiltölulega góðu standi. Jarðskjálftaverkfræðingar hafa staðið sig mjög vel. Þannig að hús á Íslandi virðast standast jarðskjálfta mjög vel. Við fengum reynslu af því árið 2000. Það hrundu engin hús sem skiptir máli því það er það sem veldur manntjóni. Þannig að það er í sæmilegu lagi. En þetta með sprunguhreyfingar og hraungos, þetta mætti alveg laga svolítið.“

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Nú þýðir ekkert að stinga höfðinu í neinn sand?

„Nei, það þýðir ekki. Það verður að læra að lifa með þessu.“

Heimild:
-„Krýsuvík er komin í gang“, Heimildin (heimildin.is) 20. janúar 2024, Sunna Ósk Logadóttir.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur í Brennisteinsfjöllum.

Ómar Smári

Sandakravegur liggur nú að hluta undir nýrunnu hrauni austan Sundhnúks. Gosið hófst 18. desember. Vegurinn var gamall þjóðvegur milli Grindavíkur og Voga á Vatnsleysuströnd og mátti greina fornan slóða í hrauninu.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Skógfellavegur er gamall þjóðvegur milli Voga og Grindavíkur. Út frá honum lá Sandakravegur en er hann nú einnig að hluta undir hrauni.

„Í gær var þetta til, nú er þetta horfið,“ segir Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur um minjar sem nú liggja undir nýju hrauni sem runnið hefur úr gossprungunni við Sundhnúkagíga frá því í gærkvöldi. Ómar Smári er Grindvíkingur sem þekkir sögu og umhverfi bæjarins vel, auk þess að vera einn helsti sérfræðingur landsins um minjar og gönguleiðir á Reykjanesi.

Skógfellavegur er gamall þjóðvegur milli Voga og Grindavíkur. Vegurinn er um það bil 16 kílómetra langur. Vörður voru hlaðnar alla leiðina og í seinni tíð var leiðin stikuð. Út frá Skógfellastíg er gönguleiðin Sandakravegur. Sá vegur er nú kominn að stórum hluta undir hraun.

Skógfellavegur

Skógfellavegur við hraunbrúnina að norðanverðu.

Eldgosið „á kórréttum stað“ en kemur upp á „verstu sprungu sem gat gosið á“
Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aldrei varðveittur. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að vegurinn hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það heimilisfólkið í Ísólfsskála sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni. Vegurinn hefur ekki verið merktur formlega inn á nein kort.

Heimild:
-Heimildin, 19. desember 2023, Gömlu þjóðleið horfin undir hraun – Katrín Ásta Sigurjónsdóttir.

Skógfellavegur

Nýja hraunið, Skógfellavegur og Sandakravegur.

Grindavík

Klukkan þrjú í nótt, 14. janúar 2024, hófst áköf smáskjálftavirkni á sama svæði og gos hófst 18. desember síðastliðinn austan við Sundhnúk. Einkenni jarðskjálftavirkninnar voru á þá leið að talið var fullvíst að kvikuhlaup væri hafið. Grindavíkursvæðið var rýmt.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Klukkan sex um morguninn hafi virst sem framrás gangsins hafi stöðvast. Eftir það virtist jarðskjálftavirkni hafa náð jafnvægi og gos hófst rétt fyrir klukkan átta austan við Hagafell á ca. 900 m langri sprungu, skammt sunnan við eldri gossprunguna. Um hádegisbilið opnaðist svo ný 100 m sprunga skammt suðvestar, u.þ.b. 200 metrum ofan við efstu húsin við götuna Efra Hóp í í Hópshverfinu. Hraun tók fljótlega að renna áleiðis að hverfinu og eyrði engu, sem á vegi þess varð.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Hraunið úr Sundhnúk og gígaröðinni norðan hans er talið vera yngra en 3000 ára og eldra en 2000 ára. Þá myndaðist Sundhnúkahraun. Eldra hraunið, sem myndaði Dalahraun, kom upp í gígaröðnni skammt austar, er talið vera yngra en 8000 ára og eldra en 3000 ára.

Fornleifar hafa farið undir nýja hraunið þar sem Skógfellavegur lá um gossvæðin millum Grindavíkur og Voga. Fornar götur hafa ekki hingað til verið í fyrirrúmi við skráningu fornleifa þrátt fyrir ákvæði þess efnis í fyrrum Þjóðminjalögum og núverandi Minjalögum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024. Neðri gossprungan.

Lengri sprungan er að mestu leyti norðan þeirra varnagarða sem lokið hafði verið við að mestu. Þeir beindu megin hraunstraumnum til vesturs og náði hrauntungan fljótlega vel yfir Grindavíkurveg og þaðan áfram meðfram görðunum til suðvesturs.

Telja verður líklegt að gosið verði skammvinnt nú, líkt og hið fyrra. Grindavík er nú rafmagns-, hitavatns- og heitavatnslaus. Ljóst er að mikil uppbyggingarvinna er framundan, bæði meðal íbúanna og stjórnenda sveitarfélagsins með nauðsynlegum stuðningi ríkisvaldsins sem og alls almennings í landinu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá lýsingar, fróðleik, frásagnir, myndir og uppdrætti af öllum fornum þjóðleiðum á Reykjanesskagnum. Þú þarft einungis að skrifa örnefnið í leitina efst á vefsíðunni…

Sjá má myndir af goshrinunum ofan Grindavíkur HÉR. Einnig má sjá myndir frá eldgosum við Litla-Hrút, í Geldingadölum og í Meradal.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024. Efri gossprungan.

Húsfell

Á Vísindavefnum má lesa eftirfarandi fróðleik Sigurðar Steinþórssonar, prófessor emeritusum, “Virkar eldstöðvar í kringum höfuðborgarsvæðið“:

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

“Þegar spurt er hversu margar eldstöðvar séu á Íslandi kann jarðfræðingum að vefjast tunga um tönn — á til dæmis að telja einstakan gíg sérstaka eldstöð eða goshrinur eins og Kröfluelda 1974-85 eitt eða mörg eldgos. Þess vegna var kringum 1970 tekið upp hugtakið eldstöðvakerfi sem tekur til allra þeirra eldstöðva sem teljast vera samstofna; yfirleitt tengjast þær einni megineldstöð. Á Íslandi eru um 30 slík eldstöðvakerfi, þar af fimm á Reykjanesskaga.
Á Suðvesturlandi liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, eins og þau koma fram í jarðskjálftaupptökum neðan þriggja km dýpis, frá Reykjanestá austur um Suðurland í átt að Heklu. Eftir flekamótunum raðast sprungur á yfirborði í fimm sprungusveima (sprungureinar) með NA-SV-stefnu (sjá mynd hér fyrir neðan).

Húsfell

Húsfell og Húsfellsbruni.

Þar sem sprungusveimur og flekamótin skerast eru merki um mesta eldvirkni á sprungusveimnum — þar er megineldstöð þess sprungusveims, og til samans mynda megineldstöðin og sprungusveimurinn sem hana sker eldstöðvakerfið. Virkum megineldstöðvum tengjast gjarnan háhitakerfi, og eftir þeim eru eldstöðvakerfin fimm nefnd, talið frá vestri til austurs, Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Fyrstnefndu kerfin tvö eru gjarnan talin sem eitt, enda sameinast norðurhlutar sprungusveima þeirra sunnan við Voga á Vatnsleysuströnd. Tvö eldstöðvakerfi, Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfi, hafa lagt til hraun í námunda við Reykjavík.

Á höfuðborgarsvæðinu eru einkum áberandi tvö nútímahraun (það er sem runnið hafa eftir ísöld) og kallast annað þeirra Búrfellshraun einu nafni en hitt Leitahraun. Hið fyrrnefnda rann úr gígnum Búrfelli sunnan við Heiðmörk fyrir um 7300 árum. Ýmsir hlutar þess bera sérstök nöfn, Gálgahraun, Garðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun. Búrfell er í Krýsuvíkurkerfi.

Hraunflæði

Leitarhraun.

Leitahraunið mun vera meðal rúmmálsmestu hrauna sem runnið hafa frá Brennisteinsfjallakerfinu eftir ísöld. Það rann fyrir um 5200 árum frá eldstöð þar sem heita Leitin á Hellisheiði, suðvestan við Eldborgir sem gusu Svínahraunsbruna (Kristnitökuhraun) árið 1000. Frá Leitum rann hraunið annars vegar til suðurs langleiðina til sjávar við Þorlákshöfn; í því hrauni er Raufarhólshellir. Hins vegar rann álma til norðvesturs til sjávar í Elliðavogi. Á þeirri leið myndaði hraunrennslið gervigígaþyrpinguna Rauðhóla og hraunstrompana (hornito) Tröllabörn hjá Lækjarbotnum. Meðal kunnra sérnafna hluta Leitahrauns eru Elliðavogshraun, neðsti hluti Hólmshrauna, Svínahraun (að hluta undir Kristnitökuhrauni), Lambafellshraun, og niðri í Ölfusi Hraunsheiði og Grímslækjarhraun.

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

Frá eldstöð nærri Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum (Brennisteinsfjallakerfi) hafa runnið fimm hraun sem nefnast Húsfellsbruni hið efra en Hólmshraun neðar—Heiðmörk er á þeim hraunum. Hið elsta þeirra er eldra en Leitahraun en hin fjögur þó öll forsöguleg.
Einu hraunin sem segja mætti að nálgast hafi höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma eru sunnan við Hafnarfjörð og komu úr Krýsuvíkurkerfi: Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun kringum 1000 og Kapelluhraun árið 1151. Hengilskerfi hefur ekki látið á sér kræla í 2000 ár en á hinum fjórum hafa mislangar goshrinur hafist á um það bil 1000 ára fresti, fyrst austast (Brennisteinsfjöll) og færst síðan vestur skagann. Hin síðasta hófst fyrir um 1100 árum. Grindavík mun vera sú byggð, sem helst væri ógnað af næstu hrinu.

Klambrahraun

Klambrahraun.

Yfirleitt eru þær eldstöðvar kallaðar „virkar“ sem gosið hafa eftir ísöld, það er síðastliðin 10.000 ár eða svo. Á þeim tíma hafa aðeins þrjár sent hraun í námunda við Reykjavík, Búrfell austan við Hafnarfjörð, eldstöð hjá Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum og Leitin á Hellisheiði.”
Húsfellsbruni er að mestu Klambrahraun. Þau myndast þegar efri skorpa helluhrauna brotnar upp og myndar yfirborðsbreksíu við skyndilega aukinn straumþunga hraunsins eða þegar það flæðir upp að fyrirstöðu sem aftrar framrás þess um tíma. Þótt ásýnd klumpahrauna sé talsvert frábrugðin dæmigerðum helluhraunum, er flutningur kviku eftir lokuðum rásum, myndun hraunsepa og hraunbelging lykilþáttur í myndun þeirra. Vegna yfirborðsbreksíunnar hafa þau oftar en ekki verið flokkuð sem apalhraun, sem hefur leitt til mistúlkunar á flæðiferlum og eðli þessara hrauna.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=62126

Hraunflæði

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR er m.a. fjallaðum “Eldgos á Svartsengis/Sundhnúksgosreininni eftir ísöld“:

“Svartsengiskerfið er um 30 km langt og 6-7 km breitt. Eftir að jökla ísaldar leysti fyrir um fimmtán þúsund árum hefur gosvirknin í kerfinu einskorðast við Eldvarpa-gosreinina annars vegar og Svartsengis/Sundhnúks-gosreinina hins vegar.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Sú síðarnefnda liggur skammt austan móbergsfjallanna Þorbjarnar, Sýlingarfells (einnig nefnt Svartsengisfell) og Stóra-Skógfells. Þótt ýmislegt sé vitað um sögu gosvirkni á Sundhnúksgosreininni er margt enn óljóst, einkum um elstu hraunin. Á það reyndar við um allan Reykjanesskaga.
Hraunum sem eiga upptök á gosreininni verður lýst stuttlega hér að neðan í aldursröð. Í umfjölluninni er vísað er í kenni á meðfylgjandi korti.

Grindavík

Grindavík – eldgos 2021-2024 (ÍSOR).

Bleðla af máðum og fornlegum hraunum má finna víða utan í móbergsfjöllum austan Svartsengis, s.s. í austan- og norðanverðum Þorbirni, við Sýlingarfell og Stóra-Skógfell (s.s. ks, sb, mk á korti). Á láglendi eru þessi hraun hulin yngri hraunum og útbreiðsla því óþekkt. Þessi hraun eru að mestu samsett úr sambræddum kleprum, sem bendir til að þau hafi myndast við ákafa kvikustrókavirkni. Hraun af þessu tagi má kalla kleprahraun. Eru þau líklega frá því snemma á eftirjökultíma, jafnvel síðjökultíma. Engar aldursgreiningar liggja fyrir á hraununum enn sem komið er. Vísbending um aldur eins þeirra kemur þó fram í grjótnámu við Hagafell, en þar liggur það vel undir 8000 ára gömlu hrauni (sjá neðar) og er áætlaður aldur þess um 10.000 ár (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn).

Hagafell

Hagafell.

Bæði suðvestan og austan megin í Hagafelli eru stuttar fornlegar gígaraðir. Hraunið frá þeim hefur verið nefnt Hópsheiðar- og Hópsnesshraun (hh á korti). Aldursgreining C-14 á gróðurleifum undan hrauninu leiddi í ljós að þær eru um 8000 ára gamlar og líklegt að hraunið sé af líkum aldri. Stærstu flákarnir í þessu hrauni koma fram á Hópsheiði og Hópsnesi við Grindavík. Einnig kemur hraunið fram í hraunhólmum við Sundhnúk, um 500-700 m norðan Hagafells, sem sýnir að gossprungan hefur verið a.m.k. 1,5 km löng.
Við norðurenda Sundhnúkshrauns má sjá fjögur hraun sem koma undan því (merkt kh, ed, hf og da). Aldur þessara hrauna er óljós en þau eru þó talsvert meira en 4000 ára gömul. Einnig má nefna fornt hraun með upptök í Lágafelli vestan Þorbjarnar (lf á korti). Þarna er verk að vinna við nákvæmari aldursgreiningar.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Sundhnúksgígaröðin er ein af lengri gígaröðum Reykjanesskaga, alls um 11,5 km löng og þekur hraunið um 22 km2 lands. Aldursgreining á koluðum kvistum undan hrauninu gaf aldurinn 2300-2400 ár. Hins vegar benda gjóskulagarannsóknir til að hraunið sé nær 2000 áum í aldri (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn). Gígaröðin liggur vestan með Hagafelli og áfram sundurslitin 3 km til suðvesturs. Syðstu gígarnir eru á 250 m langri gígaröð, sem er aðskilin frá megingígaröðinni (á afgirtu svæði fjarskiptastöðvarinnar norðan Grindavíkur). Þessir gígar liggja rúma 400 m frá næstu húsum í Grindavík og er hraunjaðarinn mun nær, við Nesveg. Athyglivert er að í gosinu 14. janúar hófst gos á stuttri gígaröð 600 m sunnan megingígaraðarinnar líkt og gerðist fyrir 2000 árum. Mörg dæmi mætti nefna um goshegðun af þessu tagi, þ.e. þar sem gýs á stuttri gígaröð sem er aðskilin megingígaröðinni.

ReykjanesskagiÁ tímabilinu 1210-1240 e.Kr. voru eldgos tíð í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, gjarnan nefnt Reykjaneseldar 1210-1240. Sundhnúksgosreinin var ekki virk á þeim tíma en þá gaus hins vegar á Eldvarpagosreininni 4 km vestar. Rannsóknir á hraunum og gjóskulögum benda til að virknin á 13. öld hafi byrjað á Reykjanesi en síðan færst til austurs yfir á Svartsengiskerfið um 1230 og síðan lokið árið 1240 þegar Arnarseturshraun rann. Ritaðar heimildir eru rýrar en nefna þó a.m.k. sex eldgos á þessum 30 árum, flest í sjó við Reykjanes. Telja má líklegt að gosin hafi verið fleiri sé tekið mið af þeim tíðu eldgosum sem nú ganga yfir á Reykjanesskaga.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort (ÍSOR).

Í ljósi sögunnar má telja líklegt að yfirstandandi virkni á Sundhnúksreininni geti dregist á langinn, í nokkur ár að minnsta kosti. Í undangengnum eldum, á síðustu 2000 árum, hefur verið algengast að hraun þeki um 40-50 km2 í hverjum eldum, eða meira, sem styður frekar þá ályktun að eldvirkni í Svartsengiskerfinu gæti staðið yfir eitthvað lengur.”

Helstu heimildir:
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson (2013). Reykjanesskagi. Í: Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan.
Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Sigurður Garðar Kristinsson og Skúli Víkingsson (2016). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, 1:100 000 (2. útgáfa). Íslenskar orkurannsóknir.

Heimild:
-https://isor.is/eldgos-a-svartsengis-sundhnuksgosreininni-eftir-isold/

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – nútímahraun.

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR er m.a. fjallað um “Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga“:
“Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.

ReykjanesskagiÁ kortinu eru sýndir helstu hnikþættir á Íslandi. Rekbeltin á Íslandi (svört) hliðrast til austurs frá Reykjaneshrygg (RH) og Eyjafjarðarál (EÁ). Það gerist um Suðurlands-þverbrotabeltið (SB) og annað þverbrotabelti kennt við Tjörnes (HF) milli Húsavíkur og Flateyjar. Brotabelti á Arnarvatnsheiði (A) og í Borgarfirði (B) eru sama eðlis. Þau tengja á milli Vestra rekbeltisins (VR) og Snæfellsness-hliðarbeltisins (SN). Vestra (VR), Eystra (ER) og Norðurrekbeltið (NR) eru sýnd svört. VR og ER eru sýnd sem fleygar. Það á að gefa til kynna vaxandi gliðnun annars vegar til suðvesturs í VR og hins vegar til norðaustusr í ER. Yfir Mið-Ísland liggja eldstöðvakerfi. Þau helstu eru gefin til kynna með H (Hofsjökull) og GK (Grímsvötn-Kverkfjöll). Sniðrekbelti eru sýnd í bleikum lit, annars vegar Reykjanesskagi (RN) og hins vegar spegilmynd hans, Grímseyjar-Axarfjarðarbeltið (GR). Hliðarbelti Snæfellsness (SN), Suðurlands (SH) og Öræfajökuls-Snæfells eru sýnd í bláum lit. Sveru örvarnar sýna rekstefnuna. Rekhraði er um 1 cm á ári í hvora átt.

ReykjanesskagiÁ Reykjanesskaga kemur sniðgengisþátturinn fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig að stærð. Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir. Tímabil sniðgengishreyfinga hefur staðið yfir síðustu aldirnar en vísbendingar eru um að því sé að ljúka.

Jarðfræði

Reykjanesskagi – nútímahraun.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar. Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.

Eldvirkni og gliðnunartímabil
ReykjanesskagiRannsóknir sýna að eldvirkni- og gliðnunartímabil (gosskeið) verða á 6-8 alda fresti á Reykjanesskaga. Gosvirknin einkennist af eldum sem geta staðið í nokkra áratugi, með hléum. Eldstöðvakerfin hafa yfirleitt ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni flust á milli þeirra eitt af öðru. Hvert eldstöðvakerfi verður virkt á 900-1100 ára fresti. Um 950 ár eru frá síðasta gosi í Brennisteinsfjallakerfinu en 780-830 ár í vestari kerfunum. Rannsóknir benda til að síðasta gosskeið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800.

Festisfjall

Festisfjall – Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, að störfum.

Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu gaus á vestustu kerfum skagans, Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, á 13. öld. Þeim eldum lauk um árið 1240. Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjanesskaga eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli.

Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Tvö síðustu gosskeiðin eru vel þekkt og það þriðja fyrir um 3000 árum að nokkru leyti. Vísbendingar eru um fleiri gosskeið þar á undan en aldursgreiningar eru of fáar enn sem komið er til að tímasetja þau af nákvæmni.

Samantekt árið 2010: Kristján Sæmundsson jarðfræðingur ÍSOR. Uppfært árið 2021: Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur ÍSOR.”

Heimild:
-https://isor.is/jardhiti/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga/
Reykjanesskagi