Færslur

Býtibúr

FERLIR fer einungis einu sinni á ári út fyrir Reykjanesskagann í leit að öðrum áhugaverðum viðfangsefnum. Að þessu sinni var stefnan tekin á Hrunamannahrepp. Í sveitarfélaginu eru margir áhugaverðir staðir, t.d. búr Fjalla-Eyvindar í Skipholtsfjalli.
BúriðGengið var frá Jötu ofan við Brúarhlöð. Norðan við bæinn hefur verið komið fyrir skilti þar sem lýst er leiðinni að búrinu sem og frumlífshlaupi Fjalla-Eyvindar, þekktasta fjallamanns Íslandsbyggðar er þversniðinn varð útilegumannaásýnd landsins af þeirra tíma tíðaranda. (Sjá meira um Eyvind HÉR).
Þetta er í raun þægileg gönguleið, víðast hvar sléttlendi og það hallar undan fæti mest alla leiðina. Einn galli er á leiðarýsingunni á skiltinu, en hann er sá er vísað á aðra “prílu á rafmagnsgirðingu”. Sú príla er nokkru ofar á hestagötunni (vara ber við að bílslóði liggur samhliða og utan með henni) brotin og liggur niðri við girðinguna, en ef reiðleiðinni (ekki bílslóðanum) er fylgt frá fyrri prílu ætti viðkomandi að ratast rétta leið. Getið eru um stikur. Um er að ræða grænar plaststikur. Sú fyrsta er norðan við rafmagnsgirðinguna þar sem prílan á að hafa verið og síðan tekur hver við af annarri; fyrst strjálar en þær þéttast síðan er nær dregur byrginu.
“Við hellubúrið var í megindráttum dregið fram lífshlaup Eyvindar Jónssonar. Hann fæddist í Hlíð, næsta bæ við Foss 1714, en dvaldist í æsku- og unglingsárum sínum á fleiri bæjum, m.a. í Skipholti, þar sem Jón bróðir hans bjó.
Og þá meira um þetta byrgi. Þetta leynibyrgi eða búr er meistarasmíði hlaðið úr hellum. Höfundur þess hefur tileinkað sér fullkomna nýtingu á náttúruauðæfum staðarins. Það fellur óaðfinnanlega að landslaginu. Byggingarefnið eru hellur af holtinu úr næsta umhverfi. Búrið er um 40 sm á hæð og um 80 sm á hvorn veg að innanmáli. Framan við opið stendur hella, sem rís upp á rönd. 

Búrið

Að utan er búrið að hluta til með óreglulega lögun, sem fellir það enn betur að umhverfinu.
Hver hlóð þetta hellubúr? Hvenær var það hlaðið og til hvers var það notað? Margir hafa velt þessum spurningum fyrir sér. Eitt er víst að búrið hefur verið hlaðið í leyfisleysi, því engin skrásetning er um það né leyfisveiting hjá byggingafulltrúa Hrunamanna. Þetta haganlega mannvirki hefur áunnið sér réttindi þjóðsagnarinnar.
Tvennar tilgátur eru með tilgang búrsins. Önnur tilgátan er sú að fjárgæslu- og yfirsetudrengir ásauða hafi reist þetta sér til gamans og til geymslu nestis og afþreyingarverkefna í hjásetunni. Sú tilgáta lifir í hugum eldra fólks í sveitinni.
Hin tilgátan er að eigna Fjalla- Eyvindi þetta haglega hellubúr, sem féll svo vel að landslaginu að það gat staðið þarna án vitundar almennings í marga áratugi. Það er mjög freistandi að draga fram rök fyrir þessari tilgátu. Ferðir og dvalarstaðir Eyvindar voru háðir þagmælsku margra samtíðarmanna, sérstaklega hans nánustu. Öll hugsanleg aðstoð Jóns bróður hans varð að vera fullkomlega leynileg. Það að hylma yfir með grunuðum þjófi var saknæmt athæfi. Full ástæða hefur verið að koma öllum grunsemdum um þennan leynilega felustað þeirra fjarri alfaraleið. Aðrar byggingar Eyvindar og nýting byggingarefnis gefa sterka samsvörun með þessu litla búri og/eða byrgi.
Heiðartjörnin undir SkipholtsfjalliÞær sagnir bárust og voru í alla staði eðlilegar að Jón bróðir hans hefði reynt af fremsta megni að liðsinna honum í útlegðinni. Þetta byrgi fannst löngu eftir daga þeirra bræðra, að ártal er hvergi tímasett. Þá hika sveitungar þeirra bræðra ekki við að tengja tilveru og tilgang búrsins handlægni Eyvindar, útlegð hans, umhyggjusemi og aðhlynningu Jóns bróður hans. Þjóðsagan hermir að Jón hafi flutt honum matvæli og aðrar nauðsynjar upp í búrið og Eyvindur vitjað þeirra, er hann dvaldi á laun í nánd eða næstu óbyggðum.
Þessi tilgáta verður aldrei að fullu sönnuð. Með tilliti til hefðar þjóðsagnarinnar og sterkra munnmæla er það mjög freistandi að leggja þessa tilgátu fram fyrir ferðamenn og spámenn framtíðar, að einmitt þarna hafi hetja öræfanna og einn frægasti útilegumaður og launferðamaður Íslandssögunnar sýnt fram á hugkvæmni við að bjarga sér. Jafnframt bera hellusteinarnir þögult vitni miskunnar og bróðurkærleika Jóns bróður hans.
Þetta hellubúr er þá ekki síður veglegur minnisvarði um drenglyndi Jóns í Skipholti en hagleikni og handaverk Eyvindar.  Þeir bræður skipta þar á milli sín gæfunni og gjörvileikanum.”
Í leitinni að þessu smálega byrgi Fjalla-Eyvindar var m.a. gengið fram á heiðartjörn austan undir Skipholtsfjalli þar sem álftir syntu stoltar um með þrjá gráleita unga sína, steindepillinn lék sér að bergmáli fjallsins, og það með gogginn fullhlaðinn flugu fyrir unga sína,  og tóftir ónefnds eyðibýlis fékk að kúra í friði í skjóli fyrir norðanáttinni.
Þegar á vettvang var komið kom mjög á óvart hversu lítið “búrið” reyndist vera, en þegar það var skoðað í ljósi nýtingarinnar sem slíkrar “per se” þá var svarið bæði eðlilegt og augljóst. Hið smáa vandaða og hagleiksgerða handverk tengt hönnuðinum margfaldar stærð þess af augljósum ástæðum. Fyrrum var frumþörfin bæði sterkari og nauðsynlegri en nú mætti ætla, þ.e. þegar matur fékkst einungis sem undirbúningur, en ekki sem sjálfsagður pakkaumbúðnaður í Bónus (þar sem neyslustimpill vörunnar er gjarnan og að öllu jöfnu löngu liðinn þegar kemur að kaupum).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Byggt á lýsingu Hjartar Þórarinssonar.

Skilti

Lækjarbotnar

Margt hefur verið sagt um Fjalla-Eyvind, mesta og einstakasta útilegumann Íslands, sem ekki getur staðist – og er þó af nógu að taka. Á vefsíðu segir m.a.: “Í Engidal er hellir sem er talinn vera ævaforn útilegumannabústaður.

Hellir í Hengli

Talið er að Eyvindur Jónsson (Fjalla-Eyvindur) og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í þessum helli í seinni útlegð þeirra, vorið 1678.” Jafnframt fylgdir lýsingunni að Eyvindur og Margrét hafi verið handtekinn og færð á Þingvöll.
Þessi fullyrðing passar engan veginn. Fjalla-Eyvindur var að vísu Jónsson en eiginkona hans hét Halla Jónsdóttir. Engar sannanlegar sagnir eru um að Halla hafi hafst við í Henglinum, hvað þá Eyvindur, a.m.k. ekki Fjalla-Eyvindur, því hann fæddist ekki fyrr en árið 1714. Þá voru þau hjón aldrei færð á Þingvöll þrátt fyrir að hafa einu sinni fengið dóm. Þau sluppu jafnan úr klóm yfirvalda er vildu hefta frelsi þeirra.
Eyvindur Jónsson fæddist að Hlíð í Hrunamannhreppi árið 1714, sem fyrr sagði. Hann lést á Hrafnsfjarðareyri um 1780, á áttræðisaldri (1785 mun þó nær sanni). Halla mun hafa látist skömmu síðar, eða fyrr segja sumar heimildir. Þau munu grafin við Staðarkirkju, sumir segja þá að Eyvindur hafi verið grafinn við bæ sinn að Hrafnsfjarðareyri. Engar sönnur hafa verið færðar á það. Hins vegar er ljóst að hann var gerður útlægur í u.þ.b. 40 ár fyrir litlar sem engar sakir. Ef “glæpamannaframleiðendur” hafa verið til hér á landi voru þeir uppi á 18. öldinni þegar margir voru gerðir að þjófum af óljósi tilefni, jafnvel orðrómi einum saman. Ástæðurnar voru Rústir í Hvannalindumoft aðrar en opinberaðar voru. Yfirvaldið elti þá miskunnarlaust uppi og refsaði með grimmilegum hætti, án þess að vörnum væri við komið. Þetta tímaskeið í Íslandssögunni einkenndist af miklum kuldum og meðfylgjandi hungri alþýðunnar. Þúsundir landsmanna dóu úr kulda, aðrir féllu úr hor. Margir reyndu að bjarga lífi sínu með því að nálgast nauðsynlegar bjargir, s.s. sauði eða hross annarra, við litla samúð þeirra er áttu – og áttu þeir þó nóg af öllu.
Ismar og stefnur hafa jafnan verið í réttu hlutfalli við viðhorf yfirvaldsins. Þegar fólk hefur verið brennimerkt, smánað, sent í þrælkunarvinnu eða líflátið af litlum tilefnum, breytist viðhorfið smám saman, ekki síst vegna krafna um úrbætur er dugað gætu betur. Útlaginn Fjalla-Eyvindur, mestur fjallamanna og fróðastur landsmanna um öræfi landsins áður en yfir lauk, skaðaði aldrei nokkurn mann þótt hann hafi tekið og matreitt sauði þeirra er gert höfðu á hlut hans. Útlaginn bjó yfir geysilegum fróðleik um aðstæður, möguleika og hentugustu leiðir um hálendið á tímum er þær þóttu nauðsynlegar. Skilningsleysi yfirvalda og stafblinda lagabókstafsins komu í veg fyrir mikilvægar framfarir sárþjáðar þjóðar á þeim tíma.
FylgsniEyvindur, sem ávallt komst undan ásókn yfirvaldsins, mátti ekki frekar en aðrir mannlegir við stórbrotnustu náttúruöflunum, ösku og eimyrðu, og fór með eiginkonu sína frá Hvannalindum árið 1783 að Hrafnsfjarðareyri þar sem hann bjó aldraður í skjóli skilningsgóðra manna síðustu æviár sín, á bæ, sem hann hafði sjálfur reist upp úr eyðibýli um 1755, á fyrstu búskaparárum þeirra hjóna.
Sagan um Höllu þar sem hún á að hafa verið handtekinn og höfð í tukthúsinu í Reykjavík, núverandi stjórnarráði Íslands, er ýkjusaga. “Um haustið var einhvern dag sólskin og fagurt veður með hægri kælu. Sat Halla þá úti undir bæjarvegg og hafði orð á því “að fagurt væri á fjöllunum núna”. Nóttina eftir hvarf hún og fannst ekki aftur. En nokkrum árum seinna fannst konulík uppi í Henglafjöllum og tveir sauðir hjá, er hún hafði krækt undir styttuband sitt.” Þessi saga er sögð í bréfi séra Skúla Gíslasonar prests að Breiðabólstað í Fljótshlíð 1860 til Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara. Önnur svipuð er frá Suðurlandi, þar sem Halla dvaldi um skeið í umsjá fólks og náði sér eftir lasleika. Fræg er sagan er Eyvindur bjargaði henni úr höndum yfirvaldsins eftir þaulsetna eftirför. Hvarf hann með Höllu út í dimma þoku er sveipaði þau frelsishjúp.
Framangreindar sögur er einungis fáar af þeim útilegumannahjónum. Svo mikill ótti var við útilegumenn á 18. og 19 öld að jafnvel hinir huguðustu menn þorðu vart liðsfáir og óvopnaðir yfir hálendið. Flestir töldu útilegumenn vera á hverju strái og mikluðu vandann eftir því. Þó var ekki öðru fólki til að dreifa á þessu svæði, utan Arnesar og Abrahams, er dvöldu með þeim tímabundið. Báðir náðust og fengu hegningu.
Jafnan er þess getið í annálum að þeir, sem sóttu hvað harðast að Eyvindi og Höllu, fengu makleg málagjöld. Rústir EyvindaversSýslumaður í Hreppum, er fastast sótti að þeim, missi 80 fjár, jafn margt og Eyvindur hafði skilið ummerki eftir á Hveravöllum, og sýslumaður er náði að handsama þau fyrir vestan, hrökklaðist frá embætti stuttu síðar. Eyvindur virðst hafa valið úr gangnafénu það er tilheyrði þeim er gerðu honum erfitt fyrir, en lét fé annarra í friði.
Eyvindur og Halla eignuðust a.m.k. 3 börn, auk þess em Halla hafði eignast son með fyrrum bónda sínum, er hafði látist. Ólöfu, og e.t.v. fleiri börn, þurftu þau að yfirgefa að Hrafnsfjarðareyri er þau hjónin þurftu skyndilega að hverfa þaðan. Guðrún fylgdi þeim á fjöll, en var síðar 12 ára gamalli komið í fóstur til vilvaldarmanna á Vestfjörðum. Hún var eina barnið, sem hafði alist upp meðal útilegumanna hér á landi. Saga hennar er og að mörgu leyti merkileg. Eitt barnanna lést skömmu eftir fæðingu, sennilega úr kulda eða hungri. Gömlu hjónin bjuggu síðustu árin sín í skjóli Ólafar að Hrafnsfjarðareyri, en þá hafði hún byggt þar upp býli ásamt eiginmanni sínum, Guðmundi Olíferssyni.
Saga Fjalla-Eyvindar lýsir miklum kærleika um grundvallaratriði, sterkum ættartengslum og harðneskju yfirvalda, en um leið alþýðlegri samúð með ofsóttum lítilmagnanum. Spyrja má – hvað hefur í rauninni breyst í þeim efnum á tæplega þriggja alda skeiði í sögu þessarar þjóðar. Svarið gæti verið margþvælt, allt eftir því hver væri spurður, en niðurstaðan er og mun verða ein – ekkert.
Af framangreindu má sjá að yfirvöld geta með meðvituðu viðhorfi og ígrundaðri eftirfylgju, ráðið miklu um fararheill fólks til lengri framtíðar. Meðvitunarleysið virðist hins vegar hafa verið mikið um allt of langt skeið – jafnvel allt til þessa dags.

Heimildir m.a.:
-Guðmundur Guðni Guðmundsson – Saga Fjalla-Eyvindar.

Áletrun