Býtibúr

FERLIR fer einungis einu sinni á ári út fyrir Reykjanesskagann í leit að öðrum áhugaverðum viðfangsefnum. Að þessu sinni var stefnan tekin á Hrunamannahrepp. Í sveitarfélaginu eru margir áhugaverðir staðir, t.d. búr Fjalla-Eyvindar í Skipholtsfjalli.
BúriðGengið var frá Jötu ofan við Brúarhlöð. Norðan við bæinn hefur verið komið fyrir skilti þar sem lýst er leiðinni að búrinu sem og frumlífshlaupi Fjalla-Eyvindar, þekktasta fjallamanns Íslandsbyggðar er þversniðinn varð útilegumannaásýnd landsins af þeirra tíma tíðaranda. (Sjá meira um Eyvind HÉR).
Þetta er í raun þægileg gönguleið, víðast hvar sléttlendi og það hallar undan fæti mest alla leiðina. Einn galli er á leiðarýsingunni á skiltinu, en hann er sá er vísað á aðra “prílu á rafmagnsgirðingu”. Sú príla er nokkru ofar á hestagötunni (vara ber við að bílslóði liggur samhliða og utan með henni) brotin og liggur niðri við girðinguna, en ef reiðleiðinni (ekki bílslóðanum) er fylgt frá fyrri prílu ætti viðkomandi að ratast rétta leið. Getið eru um stikur. Um er að ræða grænar plaststikur. Sú fyrsta er norðan við rafmagnsgirðinguna þar sem prílan á að hafa verið og síðan tekur hver við af annarri; fyrst strjálar en þær þéttast síðan er nær dregur byrginu.
“Við hellubúrið var í megindráttum dregið fram lífshlaup Eyvindar Jónssonar. Hann fæddist í Hlíð, næsta bæ við Foss 1714, en dvaldist í æsku- og unglingsárum sínum á fleiri bæjum, m.a. í Skipholti, þar sem Jón bróðir hans bjó.
Og þá meira um þetta byrgi. Þetta leynibyrgi eða búr er meistarasmíði hlaðið úr hellum. Höfundur þess hefur tileinkað sér fullkomna nýtingu á náttúruauðæfum staðarins. Það fellur óaðfinnanlega að landslaginu. Byggingarefnið eru hellur af holtinu úr næsta umhverfi. Búrið er um 40 sm á hæð og um 80 sm á hvorn veg að innanmáli. Framan við opið stendur hella, sem rís upp á rönd. 

Búrið

Að utan er búrið að hluta til með óreglulega lögun, sem fellir það enn betur að umhverfinu.
Hver hlóð þetta hellubúr? Hvenær var það hlaðið og til hvers var það notað? Margir hafa velt þessum spurningum fyrir sér. Eitt er víst að búrið hefur verið hlaðið í leyfisleysi, því engin skrásetning er um það né leyfisveiting hjá byggingafulltrúa Hrunamanna. Þetta haganlega mannvirki hefur áunnið sér réttindi þjóðsagnarinnar.
Tvennar tilgátur eru með tilgang búrsins. Önnur tilgátan er sú að fjárgæslu- og yfirsetudrengir ásauða hafi reist þetta sér til gamans og til geymslu nestis og afþreyingarverkefna í hjásetunni. Sú tilgáta lifir í hugum eldra fólks í sveitinni.
Hin tilgátan er að eigna Fjalla- Eyvindi þetta haglega hellubúr, sem féll svo vel að landslaginu að það gat staðið þarna án vitundar almennings í marga áratugi. Það er mjög freistandi að draga fram rök fyrir þessari tilgátu. Ferðir og dvalarstaðir Eyvindar voru háðir þagmælsku margra samtíðarmanna, sérstaklega hans nánustu. Öll hugsanleg aðstoð Jóns bróður hans varð að vera fullkomlega leynileg. Það að hylma yfir með grunuðum þjófi var saknæmt athæfi. Full ástæða hefur verið að koma öllum grunsemdum um þennan leynilega felustað þeirra fjarri alfaraleið. Aðrar byggingar Eyvindar og nýting byggingarefnis gefa sterka samsvörun með þessu litla búri og/eða byrgi.
Heiðartjörnin undir SkipholtsfjalliÞær sagnir bárust og voru í alla staði eðlilegar að Jón bróðir hans hefði reynt af fremsta megni að liðsinna honum í útlegðinni. Þetta byrgi fannst löngu eftir daga þeirra bræðra, að ártal er hvergi tímasett. Þá hika sveitungar þeirra bræðra ekki við að tengja tilveru og tilgang búrsins handlægni Eyvindar, útlegð hans, umhyggjusemi og aðhlynningu Jóns bróður hans. Þjóðsagan hermir að Jón hafi flutt honum matvæli og aðrar nauðsynjar upp í búrið og Eyvindur vitjað þeirra, er hann dvaldi á laun í nánd eða næstu óbyggðum.
Þessi tilgáta verður aldrei að fullu sönnuð. Með tilliti til hefðar þjóðsagnarinnar og sterkra munnmæla er það mjög freistandi að leggja þessa tilgátu fram fyrir ferðamenn og spámenn framtíðar, að einmitt þarna hafi hetja öræfanna og einn frægasti útilegumaður og launferðamaður Íslandssögunnar sýnt fram á hugkvæmni við að bjarga sér. Jafnframt bera hellusteinarnir þögult vitni miskunnar og bróðurkærleika Jóns bróður hans.
Þetta hellubúr er þá ekki síður veglegur minnisvarði um drenglyndi Jóns í Skipholti en hagleikni og handaverk Eyvindar.  Þeir bræður skipta þar á milli sín gæfunni og gjörvileikanum.”
Í leitinni að þessu smálega byrgi Fjalla-Eyvindar var m.a. gengið fram á heiðartjörn austan undir Skipholtsfjalli þar sem álftir syntu stoltar um með þrjá gráleita unga sína, steindepillinn lék sér að bergmáli fjallsins, og það með gogginn fullhlaðinn flugu fyrir unga sína,  og tóftir ónefnds eyðibýlis fékk að kúra í friði í skjóli fyrir norðanáttinni.
Þegar á vettvang var komið kom mjög á óvart hversu lítið “búrið” reyndist vera, en þegar það var skoðað í ljósi nýtingarinnar sem slíkrar “per se” þá var svarið bæði eðlilegt og augljóst. Hið smáa vandaða og hagleiksgerða handverk tengt hönnuðinum margfaldar stærð þess af augljósum ástæðum. Fyrrum var frumþörfin bæði sterkari og nauðsynlegri en nú mætti ætla, þ.e. þegar matur fékkst einungis sem undirbúningur, en ekki sem sjálfsagður pakkaumbúðnaður í Bónus (þar sem neyslustimpill vörunnar er gjarnan og að öllu jöfnu löngu liðinn þegar kemur að kaupum).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Byggt á lýsingu Hjartar Þórarinssonar.

Skilti