Finnur Jónsson, náttúrfræðingur, fjallar um kríuna í Náttúrufræðingnum árið 1957:
Íslenzkir fuglar XIV – Kría (Sterna paradisaea)
Náttúrufræðingurinn 1957.
„Máfaættinni (Laridae) er venjulega skipt í tvær deildir, hina eiginlegu máfa (Larinae) og þernur (Sterninae). Þernur eru að ýmsu leyti frábrugðnar hinum eiginlegu máfum. Þær eru meðal annars miklu lágfættari og smáfættari en máfarnir, og nefið er oftast beint, þ.e. efri skoltur er aldrei krókboginn í oddinn, eins og á flestum máfum. Stélið er oftast klofið eða áberandi sýlt. Alls eru taldar 42 tegundir af þernum í heiminum, þar af eru 10 tegundir verpandi í Evrópu, en aðeins 1 tegund hér á landi, og er það krían. Önnur tegund hefur þó sézt og náðst hér í nokkur skipti síðustu árin, en það er sótþernan (Chlidonias niger).
Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar bar krían annað nafn en nú. Hún gekk þá undir nafninu þerna og hefur það nafn haldizt í örnefnum, eins og t. d. Þerney, Þernunes, Þernuvík og mörgum fleirum. Í öðrum norrænum málum hefur þernunafnið haldizt allt fram á þenna dag (sbr. tarna á sænsku, terne á norsku og dönsku og terna á færeysku), en Íslendingar hafa hins vegar varpað þessu forna nafni fyrir borð og tekið upp hljóðnefnið kría í staðinn. Kríunafnið virðist hafa verið orðið rótgróið hér á landi þegar á öndverðri 16. öld, en vel má vera, að það hafi verið orðið ríkjandi allmiklu fyrr.
Ég hef valið þann kost að takmarka kríunafnið við þá einu tegund, sem er varpfugl hér á landi, en kalla hinar tegundirnar þernur. Fullorðnar kríur vega 100—120 g. Krían er því fremur lítill fugl, en þar sem hún er bæði mjög vængjalöng og stéllöng og auk þess fiðurmikil, sýnist hún öllu stærri en hún í raun og veru er. Litarraunur eftir kynferði er enginn, en karlfuglar eru ívið stærri en kvenfuglar.
Finnur Guðmundsson, t.v.
Í sumarbúningi eru fullorðnar kríur ljóssteingráar með svarta hettu á höfðinu, og nær hún frá enni aftur á hnakka. Þær eru dekkstar á baki, herðum og vængjum, en ljósastar á kverk og næstum hvítar á vöngum, neðan við svörtu kollhettuna, og hvítar á yfirgumpi. Yfir- og undirstélþökur eru hvítar. Stélfjaðrirnar eru einnig hvítar nema 2—3 yztu fjaðrirnar hvorum megin, sem eru meira eða minna gráar á útfönum. Yzta handflugfjöður er næstum svört á útfön, og allar eru handflugfjaðrirnar meira eða minna hvítar á innfönum, en hvíti liturinn minnkar eftir því sem innar dregur.
Armflugfjaðrir eru hvítar í oddinn og næstum alhvítar á innfönum. Lengstu axlarfjaðrirnar eru hvítyddar. Nefið er blóðrautt, efri skoltur stundum grásvartur í bláoddinn. Fætur eru hárauðir, klær mósvartar. Lithimna augans er dökkbrún. — í vetrarbúningi er krían alhvít á hálsi, bringu og kviði. Ennfremur er hún hvít á enni og aftur fyrir augu, en mósvört á aftanverðum kolli og hnakka. Í kringum augun eru dökkar írur. Nef og fætur er hvort tveggja svart, stundum þó með dálítið rauðleítum blæ. Að öðru leyti er enginn munur á sumar- og vetrarbúningi.
Kríur.
Dúnungar eru gulbrúnir (stundum ljósgráir) að ofan með allþéttum, svörtum dílum eða flikrum. Á bringu og kviði eru þeir hvítir, en grásvartir á hálsi, kverk og kringum nefrót. Þó er oftast hvítur eða ljósleitur smáblettur á kverk við rót neðra skoks. Nefið er ljósrauðbleikt, svart í oddinn og með hvítan eggnadd. Fætur eru ljósrauðbleikir og klær grásvartar eða gráar. Á einstaka unga er nefið hvítgrátt og fætur næstum hvítir. — Fleygir ungar líkjast talsvert fullorðnum fuglum í vetrarbúningi, en axlar- og herðafjaðrir eru þó með dökk- eða gulbrúnum fjaðrajöðrum, og smáþökur á yfirvæng eru dökkgráar. Að neðan eru þeir líka oft með móleitum flikrum, einkum á kverk og hálsi. Ungarnir hafa að nokkru leyti búningaskipti á tímabilinu ágúst—nóvember, og líkjast eftir það enn meir fullorðnum fuglum í vetrarbúningi. Þessi búningaskipti ná þó ekki nema til nokkurs hluta af kroppfiðrinu, en á tímabilinu febrúar—júní skipta þeir alveg um búning og klæðast þá sumarbúningi. í þeim búningi er vart hægt að þekkja ungfuglana frá fullorðnum fuglum í vetrarbúningi. Þó eru smáþökur á yfirvæng dekkri og stélið yfirleitt styttra og margar stélfjaðranna meira eða minna gráar.
Kría.
Ekki er vitað með vissu, hvort krían klæðist búningi fullorðinna fugla þegar á 2. sumri, og það er heldur ekki vitað með vissu, hvenær hún verður kynþroska. Sumir ætla, að hún verði kynþroska ársgömul, en það getur varla verið rétt. Að vísu sjást stundum kríur með öllum einkennum ársgamalla fugla í kríuvörpum, en ólíklegt er, að þetta séu varpfuglar. Kríur á þessum aldri líkjast mjög fullorðnum fuglum í vetrarbúningi, eins og áður var getið, en í kríuvörpum verður auk þess stundum vart við kríur, sem eru með hvítt enni og skolrautt nef og fætur, en líkjast að öðru leyti fullorðnum kríum í sumarbúningi. Menn virðast almennt vera þeirrar skoðunar, að þetta séu einnig ársgamlar kríur, en þetta gætu líka verið tveggja ára kríur. Þeir, sem aðhyllast þá skoðun, að þetta séu ársgamlar kríur, halda því fram, að litur ársgamalla fugla, eftir að þeir hafa klæðzt 1. sumarbúningi, geti verið mjög breytilegur. Sumir séu eins á lit og fullorðnir fuglar í vetrarbúningi, aðrir eins og fullorðnir fuglar í sumarbúningi, og enn aðrir standi hvað lit snertir einhvers staðar þar á milli. Það er mjög vafasamt, hvort þetta er rétt. Að minnsta kosti er sú skýring jafnlíkleg, að krían klæðist ekki búningi fullorðinna fugla og verði ekki kynþroska fyrr en hún er þriggja ára.
Kríur.
Krían er norrænn fugl og eru varpheimkynni hennar í íshafslöndum allt í kringum jörðina, svo og í nálægum löndum, er liggja að norðanverðu Atlantshafi og Kyrrahafi. í Evrópu ná varpheimkynni hennar suður til stranda Eystrasalts og Norðursjávar, og til Bretlandseyja og eyja við Bretagne-skaga í Frakklandi. Á austurströnd Ameríku er hún varpfugl suður til Massachusetts og á vesturströndinni suður til Brezku Kólúmbíu. Á austurströnd Síbiríu er krían varpfugl suður að Okotska-hafi og nokkuð suður með ströndum þess að vestan, en á Kamtsjatkaskaga er hún ekki varpfugl svo vitað sé.
Kría.
Kríur við norðanvert Atlantshaf, bæði austan hafs og vestan, og ennfremur kríur nálægra íshafslanda, halda á haustin suður með vesturströndum Evrópu og Afríku og alla leið til syðsta hluta Atlantshafsins eða Suður-íshafsins. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að kríur frá Grænlandi og öðrum austlægum löndum Norður-Ameríku, skuli fyrst halda þvert yfir Atlantshafið til Evrópu og síðan suður með vesturströndum Afríku, í stað þess að fara suður með austurströnd Ameríku. Skýringin á þessu fyrirbæri er eflaust sú, að með því að haga ferðum sínum þannig fara þær um hafsvæði með tiltölulega köldum og átuauðugum straumum og tryggja sér þar með betri lífsskilyrði en ef þær færu suður með austurströnd Ameríku, þar sem heitir og átusnauðir straumar eru ríkjandi. Kríur, sem byggja lönd við norðanvert Kyrrahaf (Beringshaf) og nálæg íshafslönd, halda á haustin suður með vesturströnd Ameríku og líklega alla leið suður fyrir syðsta odda Suður-Ameríku. Eins og kríur í Atlantshafi þræða þær tiltölulega kalda og átuauðuga hafstrauma á ferðum sínum.
Kríuegg.
Syðst í Atlantshafinu og í Suður-íshafinu er sól og sumar, þegar vetur ríkir í hinum norðlægu varplöndum kríunnar. Þar morar sjór af átu, sem er undirstaða að fjölbreyttu æðra dýralífi, og þar unir krían hag sínum vel, unz liausta tekur á suðurhveli jarðar. Þá leggur hún aftur upp í hina löngu ferð til hinna norðlægu átthaga sinna og kemur þangað, einmitt þegar sumarið hefur haldið þar innreið sína. Krían býr því við eilíft sumar, en til þess að geta notið hinna góðu lífskjara, sem því eru samfara, þarf hún líka að leggja mikið á sig. Að því er bezt er vitað, er vegalengd sú, sem krían fer haust og vor, lengri en hjá nokkrum öðrum farfugli. Kríur hafa fundizt verpandi á 8214° n.br., þ.e. í aðeins 7 1/2° fjarlægð frá Norðurskautinu, en á suðurhvelssumri hafa kríur fundizt gerjandi í átu við strendur Suðurskautslandsins í kringum Weddellflóa. Endurheimtar, merktar kríur sýna líka á ótvíræðan hátt, að það eru engar smáræðis vegalengdir, sem krían fer í þessum árstíðabundnu ferðum sínum. Metið á kríuungi, sem var merktur í júlí 1951 við Diskóflóa á vesturströnd Grænlands og náðist aftur í október sama ár hjá Durban á austurströnd Suður-Afríku, en sá staður er í 18000 km fjarlægð frá merkingarstaðnum.
Kría.
Hér á landi er krían ákaflega algengur fugl. Hún er algengust við sjávarsíðuna, þar sem hún verpur í smáum og stórum byggðum á strandlengjunni sjálfri eða í eyjum og skerjum með ströndum fram allt í kringum land. En hún verpur líka við ár og vötn langt uppi í landi, jafnvel uppi á heiðum og í sumum af gróðurverum Miðhálendisins. Meðal annars verpa kríur við vötn eða í vatnahólmum á Arnarvatnsheiði, og svolítill slæðingur af kríu verpur í gæsabyggðunum í Þjórsárverum við Hofsjökul. Við Mývatn verpur talsvert af kríu í smáhólmum í vatninu, en mikil kríuvörp eru þar hvergi. í Breiðafjarðareyjum eru víða mikil kríuvörp og í Grímsey (Eyf.) er mjög mikið kríuvarp. Aftur á móti verpa kríur ekki í Vestmannaeyjum nema aðeins eitt eða örfá pör öðru hvoru, Kríuvörpin eru mjög mismunandi að stærð. Fyrir kemur, að eitt og eitt par verpi alveg út af fyrir sig, en það er fremur sjaldgæft. Í smæstu kríuvörpunum skipta varppörin tugum eða hundruðum, í miðlungsvörpunum skipta þau þúsundum, og í stærstu vörpunum geta þau verið tíu þúsund eða þar yfir. Yfirleitt virðist svo sem stærstu kríuvörpin hér séu á annesjum og í úteyjum eða að minnsta kosti fyrir opnu hafi.
Kría og ungi.
Yzt á Reykjanesskaganum, milli Reykjaness og Hafna, og yzt á Snæfellsnesi, eru t. d. mjög mikil kríuvörp, og áður hefur verið minnzt á hið mikla kríuvarp í Grímsey (Eyf.). Eigi að síður eru víða allmikil kríuvörp innfjarða og þá helzt í eyjum eða skerjum. Við ár og vötn upp til landsins eru hvergi eins stór kríuvörp og við ströndina. Einstætt er kríuvarpið í hólmanum í Reykjavíkurtjörn, en Reykjavík er áreiðanlega eina höfuðborgin og að öllum líkindum eina borgin í heiminum, sem státað getur af kríuvarpi í miðbænum.
Kríuungi.
Erlendis verpa oft fleiri þernutegundir saman í byggðum. Hér kemur þetta auðvitað ekki til greina, þar sem aðeins ein þernutegund, krían, er varpfugl hér á landi. Hins vegar eru allmörg dæmi þess, að hettumáfar hafi tekið að verpa hér í kríubyggðum, einkum í hólmum og skerjum með ströndum fram eða í vötnum. Getur þetta leitt til nokurra átaka um varplandið, og þar stendur hettumáfurinn yfirleitt betur að vígi en krían, því að hann verpur mun fyrr. Ekki er mér kunnugt um, að hettumáfurinn hafi samt nokkurs staðar bolað kríunni burtu með öllu. Þá er það og allalgengt, að kríur verpi hér í hólmum og skerjum, þar sem æðarvarp er. Er það yfirleitt talið til bóta, þar sem krían verji varpið fyrir vargi. Flestir munu kannast við það, hve herskáar kríur eru um varptímann, ef óboðnir gestir koma í varplönd þeirra. Gera þær aðsúg að slíkum friðarspillum, hvort sem um er að ræða fuglvarg, menn eða skepnur, og reyna að hrekja þá úr varpinu. Beita þær óspart hvössu og beittu nefinu í þessu skyni. Enda þótt mörg kríuvörp hér á landi séu eflaust mjög gömul, er þó ekki ótítt, að vörp líði undir lok og til nýrra sé stofnað. Orsakir að þessu geta verið hinar margvíslegustu, og skal ekki fjölyrt um það hér. Þó má geta þess, að skefjalaus eggjataka mörg ár í röð getur leitt til þess, að krían færi sig um set, yfirgefi gamla varplandið og stofni til nýs varps einhvers staðar í grennd. Ýmsar aðrar orsakir geta og valdið eyðingu varpa, m.a. breytingar á fiskgöngum og átugengd, breytingar á varplandinu sjálfu o.s.frv.
Kríuungi.
Varpkjörlendi kríunnar getur verið ákaflega margbreytilegt, en hún forðast þó jafnan staði, þar sem gróður er mikill. Þetta stafar af því, að hún er svo fótsmá, að hún á erfitt með að sitja þar sem gróður er þéttur og þroskamikill. Við sjó verpur hún helzt á grundum eða í móum með kyrkingslegum gróðri, en auk þess oft á hálfgrónum melum, í sand- eða malarfjörum og í þarahrönnum. Þar að auki verpur hún víða í hálfgrónum hraunum, á söndum, á áreyrum og í mýrum.
Kría við Knarrarnes.
Einhver einkennilegasti kríuvarpstaður, sem ég þekki, er í skógivöxnum smáhólma í Sandvatni í Mývatnssveit. Þar verpur slæðingur af kríum og hettumáfum á skógarsverðinum inn á milli trjánna. Krían verpur aldrei eins þétt og sumar erlendar þernutegundir, sem oft verpa í svo þéttum hnapp, að sáralítið bil verður milli hreiðranna. Í kríuvörpum verpa fuglarnir yfirleitt alldreift, að minnsta kosti þar sem landrými er nóg, og jafnvel í þéttustu vörpunum mun fremur sjaldgæft, að minna en 2 m bil sé milli hreiðranna. Hreiðurgerð kríunnar er mjög óbrotin. Hreiðrið er aðeins grunn laut, oft án nokkurra hreiðurefna, en oft líka losaralega fóðruð með svolitlu af stráum og mosa eða steinvölum og skeljabrotum. Eggin eru 1—3, hér á landi langoftast 1—2, en sjaldan 3. Hreiður með 2 eggjum eru algengust, en ungir fuglar, sem eru að byrja að verpa, eiga oftast aðeins 1 egg, og í eftirvarpi er tíðast, að eggið sé aðeins 1. Eggin eru ljósgrá, grágræn eða grábrún með dökkbrúnum blettum og dílum, sem stundum renna saman í stærri skellur eða mynda hring í kringum gildari enda eggsins eða þvert yfir mitt eggið. Afbrigðilega lit egg eru vel þekkt. Stundum eru þau hvít eða ljósblá, einlit eða með strjálum, brúnum dílum. Útungun eggjanna tekur um 3 vikur (21—22 daga), og ungarnir verða fleygir, þegar þeir eru 3—4 vikna gamlir. Bæði kynin taka þátt í útungun eggjanna og öflun fæðu handa ungunum, en þeir yfirgefa hreiðrið skömmu eftir að þeir koma úr eggi.
Kría á hreiðri.
Hér á landi er krían algerður farfugl. Á vorin kemur hún fyrri helming maímánaðar og er víðast alkomin um 14 maí. Á Suðausturlandi fer stundum að verða vart við fyrstu kríurnar síðustu dagana í apríl og sum ár jafnsnemma á Norðausturlandi. Á vestanverðu landinu er hún yfirleitt seinna á ferðinni, og á Vestfjörðum kemur hún stundum ekki fyrr en um 20. maí. Aðalvarptíminn er fyrri helming júnímánaðar.
Kría.
Tíðarfar getur valdið miklu um það, hvenær varpið hefst, og ýmis önnur staðbundin, ytri skilyrði geta líka beint eða óbeint haft mikil áhrif á varptímann. Afleiðing af þessu verður sú, að það getur munað allmiklu, hvenær varpið hefst í einstökum vörpum, jafnvel þótt tiltölulega stutt sé á milli þeirra. Á stöku stað hefst varpið stundum seint í maí, ef tíð er hagstæð, en á öðrum stöðum getur það dregist þangað til síðari hluta júní. Algengast mun þó vera, að varpið hefjist ekki fyrir alvöru fyrr en um viku af júní, og það stendur venjulega sem hæst um eða upp úr miðjum júní. Oft misferst allmikið af eggjum, og auk þess eru eggin víða tekin, og leiðir það til þess, að fuglinn verpur aftur, jafnvel oftar en einu sinni, og í mörgum vörpum má því finna óunguð egg alveg fram í júlílok, auk unga á ýmsum aldri. Ungarnir drepast oft unnvörpum, einkum nýklaktir ungar og ungar, sem eru um það bil að verða fleygir. Aðalorsakir að ungadauðanum munu vera átuskortur og köld og vætusöm tíð, en margt fleira kemur hér einnig til greina. Sum ár kveður svo rammt að ungadauðanum, að aðeins fáir ungar komast á legg í stórum vörpum.
Það má teljast nokkurn veginn öruggt, að hér fari fyrstu kríurnar að leita til hafs og suður á bóginn þegar upp úr miðjum júlí. Ágúst er þó aðalbrottfarartími kríunnar hér og um mánaðamótin ágúst-september er krían að mestu farin og vörpin auð og yfirgefin. Framan af september er þó enn strjálingur af kríu með ströndum fram, og einstaka eftirlegukindur sjást stundum fram í byrjun október.
Kría og ungi.
Hér að framan hefur þegar verið rætt um ferðir og vetrarheimkynni kríunnar og má telja víst, að það, sem þar var sagt, gildi einnig um íslenzkar kríur. Að vísu hafa aðeins tvær merktar, íslenzkar kríur náðst erlendis. Önnur þeirra náðist við strönd Belgíu að vorlagi, og hefur hún því verið á norðurleið, en hin náðist í september í Nígeríu á vesturströnd Afríku, og hefur hún bersýnilega verið á suðurleið.
Kría.
Sú síðarnefnda hafði verið merkt ungi á Grímsstöðum við Mývatn, og var hún 21 árs gömul, þegar hún náðist. Aftur á móti hafa um 50 merktar, íslenzkar kríur náðst einu eða fleiri árum eftir merkingu á sama stað og þær voru merktar. Þessar endurheimtur bera glöggt vitni um átthagatryggð kríunnar og veita auk þess nokkra vitneskju um, live gömul liún getur orðið. Af 30 kríum, sem merktar voru fnllorðnar og hafa síðan náðst á sama stað og þær voru merktar, náðust 12 einu ári eftir merkingu, 8 tveimur árum eftir merkingu, 4 þremur árum eftir merkingu, 1 sjö árum eftir merkingu, 3 átta árum eftir merkingu, 1 tólf árum eftir merkingu og 1 fimmtán árum eftir merkingu. Af 19 kríum, sem merktar voru ungar og hafa síðan náðst á sama stað og þær voru merktar, voru 3 þriggja ára, 1 fjögurra ára, 3 fimm ára, 2 sex ára, 1 sjö ára, 3 tíu ára, 1 ellefu ára, 2 fjórtán ára, 2 átján ára og 1 tuttugu og fimm ára.
Kría og ungi.
Bæði innlendu og erlendu endurheimturnar sýna, að kríur geta náð allháum aldri, ef slys eða sjúkdómar verða þeim ekki að aldurtila. Það er athyglisvert í sambandi við innlendu endurheimturnar, að 2/3 af þeim endurheimtu kríum, sem merktar voru fullorðnar, hafa náðst einu eða tveimur árum eftir merkingu, en af þeim endurheimtu kríum, sem merktar voru ungar, hafa engar náðst fyrstu tvö árin eftir merkingu. Þetta bendir ótvírætt til þess, að krían verði ekki kynþroska fyrr en hún er þriggja ára. Að öllum líkindum dvelst meginhlutinn af ársgömlum og tvegja ára kríum sumarlangt á hafi úti. Þó má telja líklegt, að þær leiti lengra eða skemmra norður á bóginn, þegar vora tekur á norðurhveli jarðar, enda þótt þær leiti ekki til lands á æskustöðvum sínum nema að litlu leyti.
Kría og ungi.
Ársgamlar kríur eru auðþekktar á því, að þær líkjast fullorðnum kríum í vetrarbúningi, þ. e. þær eru að mestu hvítar að neðan, hvítar á enni og með svart nef og fætur. Hópa af slíkum kríum hef ég séð í júní og júlí í grennd við kríuvörp á suðurströnd Íslands, einkum í grennd við ósa stóránna þar. Þær sátu venjulega í þéttum hnapp í útjöðrum kríubyggðanna eða í grennd við þær, flugu upp um leið og fullorðnu varpfuglarnir og gerjuðu yfir varplandinu innan um þá; en þegar fuglinn settist aftur, skildu þær sig frá fullorðnu fuglunum og settust einhvers staðar í hnapp út af fyrir sig. í öðrum landshlutum hefur einnig orðið vart við ársgamlar kríur í kríuvörpum, en aldrei nema einn og einn fugl. Ekkert bendir til þess, að þessir ársgömlu fuglar hafi nokkurn tíma orpið hér eða þeir séu yfirleitt kynþroska. Um tveggja ára kríur er miklu minna vitað, og stafar það einkum af því, að óvíst er talið, að hægt sé að þekkja þær frá eldri fuglum. Með tilliti til þess, sem vitað er um ársgömlu kríurnar, má þó ætla, að tveggja ára kríur leiti hér engu síður lands á sumrin en þær og jafnvel í enn ríkari mæli.
Kríur sækja í heitt malbikið. Aka þarf varlega við slíkar aðstæður.
Aðalfæða kríunnar eru smáfiskar og fiskseiði, ýmis lægri svifdýr (m. a. ljósáta), skordýr og skordýralirfur, og ormar (ánamaðkar). Af fiskum, sem krían sækir í sjó, má nefna sandsíli, loðnu, smásíld og ufsaseiði, en sjálfsagt tekur hún einnig seiði fleiri tegunda. Af fiskum í ósöltu vatni tekur krían mest af hornsílum, en hún tekur einnig silungs- og laxaseiði, þegar hún á þess kost. Kríur leita sér mjög oft ætis í ræktuðu landi, enda er skordýralíf þar oftast auðugra en víðast hvar annars staðar og meira um ánamaðka. Meðal annars sækja þær mjög í nýslegin tún og jafnvel garðlönd, enda eru skordýr, skordýralirfur og ánamaðkar eflaust mjög þýðingarmikill liður í fæðu þeirra hér á landi.
Þegar krían er í ætisleit, flýgur hún venjulega lágt og skimandi með samanlagt stél og veit nefið niður á við. Verði hún vör við eitthvað ætilegt staðnæmist hún á fluginu, breiðir úr stélinu og sveigir það niður á við og svífur andæfandi yfir staðnum, unz hún steypir sér með aðdregna vængi á bráðina og grípur hana með nefinu, oftast án þess að setjast. Stundum tekur hún líka skordýr á flugi, og auk þess er algengt, að hún steypi sér að nokkru eða öllu leyti á kaf í sjó eða vötn, ef hún nær ekki til bráðarinnar með öðru móti. Hins vegar setjast kríur sjaldan á sjó eða vatn nema til að baða sig. Þó geta þær synt, enda þótt þær geri það mjög sjaldan. Stálpaðir ungar forða sér þó oft á sundi. Í kríuvörpum gefst alloft tækifæri ti] að fylgjast með mjög einkennilegum þætti í háttalagi kríunnar. Hávaðinn í gargandi kríugerinu yfir varplandinu færist allt í einu í aukana, en síðan dettur skyndilega á dúnalogn og allur kríuskarinn sópast á svipstundu út á sjó, en kemur aftur eftir nokkrar sekúndur og tekur upp sína fyrri háttu. Enn sem komið er hefur ekki tekizt að skýra þetta einkennilega fyrirbæri á fullnægjandi hátt.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 01.01.1957, Íslenskir fuglar XIV; Kría – Finnur Guðmundsson, bls. 206-214.
Kría.