Tag Archive for: Garðabær

Garðabær

Hér á eftir verður fjallað um helstu minnismerkin í Garðabæ:

Alfred Wegener – Landrekskenningin

Alfred Wegener

Alfred Wegener – stöpullinn á Arnarnesi.

Minnismerki um Alfred Wegener og „Landrekskenningu“ hans er fremst á Arnarnesi

.Alfred Wegener setti landrekskenningu sína fram á árunum 1908-1912. Hann hafði veitt því eftirtekt að strendur meginlanda, einkum Afríku og Suður-Ameríku, falla býsna vel hvor að annarri. Hið sama átti við um jarðmyndanir og plöntu- og dýrasteingervinga á aðskildum meginlöndum.
Wegener dró þá ályktun að upphaflega hefðu öll löndin myndað eitt meginland, Pangeu. Hann hélt því jafnframt fram að á miðlífsöld, fyrir um það bil 200 milljónum ára, hefði Pangea byrjað að klofna, fyrst í tvo meginlandsfleka og síðar í fleiri og væru þeir á stöðugri hreyfingu, sums staðar hver frá öðrum, annars staðar hver að öðrum.
Samtímamenn Wegeners höfnuðu landrekskenningunni enda var fátt sem renndi stoðum undir hana í upphafi. það var ekki fyrr en um 1960 að hún fékk byr undir báða vængi. Það gerðist í kjölfar þess að breskum jarðeðlisfræðingum tókst að túlka rákamynstur sem fram kom við segulmælingar á Reykjaneshrygg. Síðan þá hafa fjölmargar niðurstöður mælinga á jarðskorpunni staðfest kenningu Wegeners enn frekar þannig að nú nýtur hún almennrar viðurkenningar.

Landrekskenningin

Alfred Wegener

Alfred Wegener – splatti á stöplinum; minnismerki um Alfred.

Stöpul þennan reisti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) í aprílmánuði 1930 ásamt fleiri stöplum með það fyrir augum að færa sönnur á landrekskenninguna sem hann setti fram á árunum 1908-1912. Landrekskenningunni var fálega tekið í upphafi. Nú nýtur landrekskenning Wegeners almennrar viðurkenningar. Alfred Wegener varð úti í rannsóknarleiðangri á Grænlandi 1930.

Í DV 2017 skrifaði Kristinn H. Guðnason grein með fyrirsögninni „1930 – Wegener reisir stöpul á Arnarneshæð„:
„Alfred Wegener var þýskur stjörnu- og jarðeðlisfræðingur sem stundaði rannsóknir á norðurhveli, sér í lagi á Grænlandi. Árið 1915 setti hann fram hugmyndir um landrek sem urðu forveri flekakenningarinnar sem hefur verið viðtekin síðan árið 1968. Wegener sá að meginlöndin Suður-Ameríka og Afríka passa saman eins og púsluspil og því hlytu meginlöndin að vera á hreyfingu.

Alfred Wegener

Alfred Wegener – minnismerki um „Landrekskenninguna“.

Árið 1930 kom Wegener við á Íslandi á leið sinni til Grænlands í rannsóknarleiðangur. Hann sótti hingað íslenska hesta sem gefist höfðu vel í slíkum leiðöngrum sem burðardýr. Þá fóru Wegener og fylgdarlið hans í æfingaferð yfir Vatnajökul. Stöpulinn á Arnarneshæðinni reisti hann til að prófa landrekskenningu sína en sambærilegur stöpull var síðar reistur á vesturströnd Grænlands. Ferðin til Grænlands endaði hins vegar illa því að Wegener og annar samferðamaður hans létust. Wegener, sem var fimmtugur, reykti mikið og hjartað þoldi ekki álagið í jöklaferðunum.
Samferðamaður hans týndist eftir að hafa grafið Wegener.

Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur segir í samtali við DV að stöplarnir hafi ekki haft neina þýðingu því að þeir séu báðir á sama jarðflekanum. „Hann ætlaði að staðfesta kenningu sína með því að koma aftur mörgum árum síðar og mæla rekið.“

Alfred Wegener

Alfred Wegener.

Skömmu síðar kom annar þýskur fræðimaður, Bernauer að nafni, og gerði sams konar tilraun yfir gosbelti Íslands. „En stríðið kom og rótaði því fyrir þeim og í raun var engin hreyfing á norður-gosbeltinu á þessum tíma. Þetta gerist í rykkjum.“

Árið 1930 var ekki þéttbýli í kringum stöpulinn á Arnarneshæð. Nú stendur hann í mynni íbúðahverfis en margir gera sér ekki grein fyrir því að hann sé hluti af merkum jarðfræðitilraunum.“

Urriðavöllur

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um gróðursetningu.

Minnismerki um gróðursetningu við völlinn stendur á Urriðavelli í Urriðavatnsdölum milli golfskálans og vélahúss. Um er að ræða stuðlabergsstöpul með áletrunni „Lundur þessi er gróðursettur í tilefni af Landsmóti Oddfellowa 1994“.

Urriðavöllur
Minnismerkið er um frumkvöðla og er áfest bjargi við skúr ofan golfskálans.
Oddfellowar á Íslandi létu gera þessa plötu til heiðurs þeim Oddfellowum sem gáfu Oddfellowreglunni á Íslandi jörðina Urriðavatn.

Gísli Guðmundsson skrifaði um Urriðavatn (Urriðakot) í fylgiblað Morgunblaðsins 1997 undir fyrirsögninni „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi“:
„Guðmundur Jónsson átti jörðina til 1939, en seldi hana þá sonarsonum sínum, Kára og Alfreð, sem síðar varð forstöðumaður Kjarvalsstaða. Síðasti ábúandi á Urriðavatni var hinsvegar Gunnlaugur Sigurðsson, sem bjó þar til 1957. Bærinn brann skömmu síðar.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um frumkvöðlana.

Nokkru áður, 1946, hafði 30 manna hópur úr Oddfellowreglunni eignast jörðina. Hún hafði verið auglýst til sölu og Reykjavíkurbær gerði tilboð, sem var hafnað. Þá var það að hópurinn úr Oddfellowreglunni bauð betur, svo kaupin gengu: Kaupverðið var 160 þúsund krónur. Síðar bættist við hópinn svo í honum varð 61 maður.
Núna, eftir að Urriðavatnsland er orðið þekkt útivistarsvæði, hafa menn dást að þessari framsýni Oddfellowa. En þeir voru ekki með draumsýnir um það sem nú er orðið að veruleika þarna, heldur var annað sem stóð hug þeirra og hjarta nær á þeim tíma. Þeir höfðu fengið augastað á hlíðinni ofan við Urriðavatn fyrir sumarbústaði.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – Minnismerkið um frumkvöðlana.

Þórður Kristjánsson, byggingameistari, er einn af fimm eftirlifandi félögum úr hinum upphaflega 30 manna hópi Oddfellowa sem keyptu landið. Hinir eru Björn G. Bjömsson, fyrrverandi forstjóri Sænska frystihússins, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, fyrrverandi stórkaupmaður, Guðjón Sigurðsson múrarameistari og Jónas B. Jónsson fyrrverandi fræðslustjóri. Þórður er Dýrfirðingur að uppruna, en lærði húsasmíði á Ísafirði og fluttist síðan til Reykjavíkur 1943 og varð mikilvirkur í byggingastastarfsemi um sína daga byggði mörg stórhýsi, þar á meðal hótelið og aðrar byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli, mörg hús Pósts og síma, flestar byggingar KR; þar á meðal KR-heimilið og svo byggði hann að sjálfsögðu blokkir. Þórður verður áttræður á þessu ári, og er í útliti og að líkamsburðum eins og alla dreymir um að geta orðið á þeim aldri, en fæstir ná. Hann kvaðst hafa dregið sig í hlé frá byggingarstarfsemi þegar hann var 75 ára; „þá nennti ég þessu ekki lengur og fór að leika mér“, segir hann.
Og hvað meinar hann með því?

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Ójú, hann kynntist því aldrei í æsku að mega leika sér og á fullorðinsárunum hafði hann ekki tíma til þess. Núna leikur hann golf á hinum nýja golfvelli Oddfellowa í Urriðavatnslandi og nýtur þess. Hann sagði að það hefði verið afar skrýtin tilfinning í fyrstu að geta bara farið út og leikið sér. En hann kvaðst hafa kunnað því merkilega vel.
En hvað varð um drauminn um sumarbústaðina? Um þær mundir var þjóðin í hlekkjum allskonar hafta. Til þess að kaupa bíl þurfti gjaldeyrisleyfi og til þess að fá að byggja sumarbústað þurfti fjárfestingarleyfi, – og öllu var úthlutað eftir pólitískum línum og geðþótta. Skömmtunarstjórunum þótti ekki nauðsynlegt að byggja sumarbústaði og fjárfestingarleyfi til þeirra fengust einfaldlega ekki. Þá kom upp tvær hugmyndir, segir Þórður. Önnur var sú að selja landið í bútum og græða á því; hin var sú að gefa það Oddfellowreglunni. Það varð ofaná árið 1957 að gefa Urriðavatnsland og Oddfellowreglan þáði gjöfina með þökkkum.“

Hausastaðaskóli 1792-1812

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla.

Minnismerki um Hausastaðaskóla er við aðkeyrsluna að Hausastöðum.

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er aflíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistarbarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Árið 1793 var byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé “afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn.”

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – tóftir.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafði starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði. [Lengri útgáfa á Ferlir.is, sjá HÉR, HÉR og HÉR.]

Minnisvarðinn var reistur 18.10.1978.

Heilsuhælis-félagið

Garðabær

Garðabær-minnismerki; Vífilsstaðir.

Framan við Vífilsstaðaspítala eru þrír uppistandandi stuðlabergsstandar, bundnir saman með keðju. Framan við minnismerkið er skjöldur. „1906 – Heilsuhælis-félagið. Berið hvers annars byrðar. Heilsuhælisfélagið var stofnað 19. nóvember 1906 að forgöngu Guðmundar Björnssonar landlæknis og félögumhans í Oddfellowreglunni Ingólfi. Mikil og almenn samstaða var meðal þjóðarinnar um þetta verkefni. Fjórum árum síðar þann 5. september 1910 var Vífilstaðahælið vígt. Vífilsstaðahælið 1910“.

Undir skildinum er annar skjöldur: „Gefandi Oddfellowreglan á Íslandi. Hönnuðir Jón Otti Sigurðsson – Þorkell Gunnar Guðmundsson. 5 september 2010“.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/gardabaer-minn/

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerkið.

Árnakirkja á Görðum árið 1840.

Á árinu 2014 kom út þríritið „Helgistaðir við Hafnarfjörð – saga Hafnarfjarðarkirkju og Garðaprestakalls á Álftanesi„, þ.e. ritverk í þremur bindum saman í öskju.

Hafnarfjarðarkirkja

Ritverkið „Helgistaðir við Hafnarfjörð – saga Hafnarfjarðarkirkju og Garðaprestakalls á Álftanesi“.

Í aðfaraorðum ritnefndar, skipuð Jóanatni Garðarssyni, Sigurjóni Péturssyni og Gunnþóri Þ. Ingasyni, segir m.a.: „Ritverk það, sem hér liggur fyrir, er samið að tilhlutan sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju í tilefni þess að árið 2014 eru 100 ár liðin frá því að hafnarfjarðarkirkja var vígð.
Fyrstu hugmyndir að ritinu komu fram á fundum nefndarinnar á árinu 2003 og var þá skipuð ritnefnd. Gunnlaugur Haraldsson þjóðhátta- og fornleifafræðingur ritaði verkið.
Upphaflega var hugmyndin sú að gefa út mun minna ritverk í tilefni 90 ára afmælis Hafnarfjarðarkirkju árið 2004. Það rit átti einungis að ná yfir tímabilið 1914 til 2004 og fjalla um Hafnarfjarðarkirkju, safnaðarstarfið og bæjarlífið á því skeiði. Fljótlega var horfið frá því að gera eingöngu yfirlitsrit um sögu Hafnarfjarðarkirkju og vinna í þess stað að heildstæðu verki um sögu kristnihalds í Garðaprestakalli hinu forna og helgihald í Hafnarfirði. Það ritverk, sem nú liggur fyrir, spannar því rúmlega 1000 ára sögu, eða allt frá landnámi til samtíðar. Í því er gerð ítarleg grein fyrir rótum og forsendum að sögu Hafnarfjarðarkirkju og þróun kirkjustarfs. Engu prestakalli Íslands hafa verið gerð jafn greinargóð skil í söguriti“.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1846 – teikning Benedikts Gröndahls.

Bessastaðir

Einar Laxness skrifar í  Sögu árið 1977 um „Konungsgarðinn á Bessastöðum„; „Plan og Prospect af Bessesteds kongsgaard“, árið 1720:
Bessastadir 1789„Bessastaðir á Álftanesi komust í eigu Noregskonungs á miðri 13. öld, þegar eignir Snorra Sturlusonar voru gerðar upptækar eftir dráp hans. Á miðri 14. öld mun staðurinn hafa orðið það, sem síðar var nefnt „konungsgarður“, þ. e. embættisaðsetur æðsta erlenda fulltrúa konungs á Íslandi, hirðstjóra, síðar höfuðsmanns, eða umboðsmanns hans, svonefnds fógeta. Íslenzkir menn, sem höfðu hirðstjóravöld, sátu á höfuðbólum sínum.
Eftir einveldistöku í Danmörku 1661 og erfðahyllingu í Kópavogi 1662 urðu breytingar í stjórnsýslu á Íslandi, sem komust í framkvæmd á árunum 1683—88. Þá var í stað höfuðsmanns skipaður landfógeti 1683 til að annast fjármál og verzlun og stiftamtmaður (stiftbefalingsmaður) 1684 til að annast æðstu stjórn Íslandsmála í umboði konungs. Þar sem embætti stiftamtmanns var í upphafi einungis tignarstaða, sem í var skipaður Ulrik Christian Gyldenlove, 5 ára gamall launsonur Kristjáns konungs V., var sérstakur fulltrúi hans, amtmaður, skipaður 1688 með búsetu á Íslandi og skyldi annast dómsmál og kirkjumál. Þessir tveir embættismenn, landfógeti og amtmaður, áttu báðir að hafa aðsetur í konungsgarði á Bessastöðum. Má því gera ráð fyrir, að þar hafi löngum verið veglegri húsakynni en annars staðar á landinu.
bessastadir 19. oldUm 1720 var svo komið, að konungsgarður var í mjög bágbornu ástandi. Það staðfestir sú lýsing, sem Peder Raben stiftamtmaður hefur komið á framfæri við konung í gegnum rentukammer í Kaupmannahöfn, en amtmaður var þá Niels Fuhrmann og landfógeti Cornelius Wulf. Í skjölum rentukammers frá þessum árum er að finna uppdrátt af Bessastöðum, — „plan og prospect af Bessesteds kongsgaard“, — sem sýnir glögglega húsaskipan á þessum tíma á staðnum. Í hinum dönsku skýringum við uppdráttinn eru öll uppistandandi íveruhús, svo og kirkja, sögð „brostfældig“, þ.e. hrörleg, svo að þau eru næsta ónothæf. Ennfremur er þarna að finna teikningu af nýrri byggingu, sem gerð er tillaga um að reisa. Þessar myndir, sem ekki hafa birzt áður, fylgja hér með, lesendum Sögu til fróðleiks um það, hvernig konungsgarður á Bessastöðum leit út á öndverðri 18. öld. Þær eru varðveittar á Þjóðskjalasafni.
bessastadir nuAfleiðing umkvartana stiftamtmanns um slæmt ástand húsa á Bessastöðum, leiddi einungis til þess, að reist var nýtt timburhús á árunum 1721—25 (fyrir rúmlega 1000 ríkisdali); um það bil tveimur áratugum síðar var ástand þess orðið svo slæmt, að þar fóru fram endurbætur (fyrir um 1500 rd.) 1748—52. Ekki voru þær endurbætur til frambúðar, því að 1760 var ákveðið að reisa nýtt hús úr steini fyrir amtmann einan, þar sem landfógeti (Skúli Magnússon) hafði fengið byggða Viðey og stjórnin látið reisa þar stórhýsi (1752—54). Þannig reis hin nýja Bessastaðastofa á árunum 1761—66, sem hýsti amtmann og frá 1770 stiftamtmann til 1805, þegar latínuskólinn var þangað fluttur, en stiftamtmaður hvarf til Reykjavíkur; þessi Bessastaðastofa stendur enn, nú sem forsetasetur.
Kirkjan á Bessastöðum, sem sést á uppdrættinum, mun reist um 1620 og hlaut gagngerðar endurbætur síðar á 17. öld. 1720 er henni lýst, eins og öðrum staðarhúsum, sem „brastfældig“. Samt stóð þessi kirkja uppi lengi enn, því að nýju steinkirkjunni, sem ákveðið var að reisa 1773, var ekki lokið fyrr en upp úr 1790, og í raun ekki fullgerð fyrr en um 1820. Er það sú kirkja, sem enn stendur.

Bessastaðir 1770

Bessastaðir 1770.

Skýringar á dönsku, sem fylgja uppdrætti af konungsgarði
á Bessastöðum 1720 (stafrétt):
A. Amptmandens Huus, som hand boer udi, er bögt af Tömmer og Deler, er Gammelt og megit bröstfeldig.
B. og C er tuende öde Pladser huor paa har Staaet huuse til forne Amptmanden tilhörte.
D. huus for Amptmandens Folk, Opbögt af Jord og Steen, mens formedelst dets Bröstfeldighed, bliver neppe halfdeelen nötted.
E. et huus huor udi har veret en mölle tilforne huuset er böggit af Steen og Jord, dog Saaledis forfaldet at det snart af ingen nottis.
F. Landfogdens huus huor udi hand Boer er bogit af Jord og Tömmer, er gammelt og megit bröstfeldig.

Bessastaðir

Bessastaður 1722.

G. Kaldis St. Nicolay Kierke er bogt af Tre og Deler, megit forfalden og bröstfaldig.
h. Indgangen till Kongsgaarden.
i. Dören paa Amptmandens huus.
k. Dören till Möllehuuset.
1. Dören till Amptmandens Folkes huus.
m. Dören till Landfogdens huus.
n. Denn Store kierke Dör.
o. Een liden dör paa Kierken.
p. Een liden opkastning af Jord, om kring Kierken, som giör Kirkegaarden.
q. Tuende—Jordhöyer, saaledis opkasted Jefnsides af huerandre, med en gang imellem dem lige for Kierke Dören.“

Heimild:
-Saga, 15. árg. 1977, Einar Laxnes, bls. 223-226.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Garðar

Stefán Júlíusson skrifaði í Alþýðublaðið árið 1958 um „Garða á Álftanesi„:
„Fyrir nokkru var ég beðinn að tala á samkomu í, félagsheimilinu á Garðaholti, og var þess helzt óskað, að ég segði eitthvað frá Görðum á Álftanesi. Eg varð við þeim tilmælum og flutti þar óskrifaða og sundurlausa pistla um staðinn eftir prentuðum heimildum. Nú hef ég hripað inntakið í rabbi þessu Gardakirkja-21niður og birtist það hér. Aðeins vil ég taka það skýrt fram, að ég er enginn fræðimaður, og því ber ekki að líta á þetta sem ritgerð, heldur er hér á ferðinni leikmannsþáttur um merkan stað. —
Garðar á Álftanesi hafa löngum verið ein mesta jörð á Innnesjum, og í margar aldir þótti Garðaprestakall eitt af vildarbrauðum hér á landi. Vafalaust hefur það verið að miklu leyti vegna útræðis, en útræði hefur verið frá Görðum, Álftanesi og Hafnarfirði svo lengi sem sögur herma; Garðar, ásamt býlunum í kring, mynda heilt byggðarhverfi, sem ávallt er kallað Garðahverfi. Þessi býli eru öll gamlar hjáleigur frá Görðum, og hafa þau verið milli tíu og tuttugu. En ýmis önnur býli í Garðahreppi voru einnig eign Garðakirkju, enda lítur helzt út fyrir, að kirkjan hafi um eitt skeið átt mestan hluta hreppsins.
Garðar á Álftanesi eru ekki nefndir í Landnámu, en um landnám á þessum slóðum segir svo: „Ásbjörn hét maður Özurarson, bróðurson Ingólfs. Hann nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum.“ Um Ásbjörn segir ekki meira í Landnámu, en minnzt er þar á, að einn afkomandi hans hafi búið á Seltjarnarnesi. Ekki er líklegt, að Ingólfur Arnarson hafi gefið svo nánum frænda sínum, sem Ásbjörn var, lélegt land, jafnvel þó hann hafi kosið að hafa hann nálægt sér. Þótt hraun hafi þá verið í upplandi Ásbjarnar eigi síður en nú, hefur „Álftanes allt“ verið hlunnindaland, ekki sízt fyrir sjósóknara. Og öll holtin beggja vegna Hafnarfjarðarhrauns og eins Garðaholt, hafa þá verið viði vaxin.
Gardakirkja - 22Það furðulega í þessum fræðum er, að Skúlastaðir fyrirfinnast hvergi í landnámi Ásbjarnar
Özurarsonar. Hefur þetta verið mönnum ráðgáta löngum, og ýmsum getum hefur verið að því leitt, hver hafi verið landnámsjörðin. Hafa ýmsir viljað halda Bessastöðum fram, en aðrir hallast að minni jörðum og ómerkari. Allt frá því ég fór að leiða hugann að þessum efnum, hefur mér þótt einsætt, að Garðar væru landnámsjörðin. Þetta var aðeins leikmannstilgáta, dregin af aðstæðum og landslagi, en aldrei hef ég getað sleppt þessari hugmynd, þótt ýmsir hafi statt og stöðugt haldið öðru fram. Sú gáta verður aftur á móti aldrei ráðin, hvernig Skúlastaðir háfa breytzt í Garða, ef hér er þá ekki um einskæra villu að ræða í Landnámu. Vera má einnig,að bærinn hafi verið nefndur svo um skeið, og þá einmitt á þeim tíma, er höfundur Landnámu þekkti til.
Eg átti margar ferðir hjá Görðum í uppvexti mínum á leið „fram á Álftanes“, en ég ólst upp í hrauninu nálægt miðju vegar milli Hafnarfjarðar og Garða. Aldrei taldi ég þá Garða vera á Álftanesi, því að innnesið var almennt talið byrja vestan Álamýrar og Selskarðs.
Hins vegar sá ég þetta í bókum og þótti skrýtið. En þótt vegur Bessastaða væri þá þegar orðinn meiri, en Garðar að setja ofan, fannst mér alltaf meira til Garða koma. Mér þótti sennilegt, að einmitt þar hefði frændi Ingólfs, landnámsmaðurinn Ásbjörn Özurarson, viljað búa, Staðurinn blasir við sól og firði, að baki bungumyndað holt, skógi vaxið á landnámstíð; víðsýnt er og fagurt heima á staðnum, sér inn til fjalla, út á flóann og „fram á nes“. Þetta var kjörið bæjarstæði landnámsmanns. Auk þess eru Garðar svo að segja í miðju landnámi Ásbjarnar, en Álftanesið hlýtur að hafa talizt byggilegasta skákin í því. Og nafngiftin, Garðar á Álftanesi, virtist einmitt benda til þess, að höfuðbólið ætti nesið allt.
Eitthvað á þessa lund voru æskuhugmyndir mínar um Garða sem landnámsjörðina, en nú hefur merkur fræðimaður í þessum efnum, Magnús Már Lárusson prófessor, í rauninni tekið af skarið. Hann segir svo í grein, sem hann reit í síðasta jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar: „Að vísu má leiða allgóð rök að því, að Garðar, hin týnda landnámsjörð Skúlastaðir, hafi snemma klofnað upp í fleiri smærri einingar — „.
Fram til ársins 1891 var allt það land, sem nú er Bessastaða hreppur, Garðahreppur og Hafnarfjörður, einn hreppur, og hét hann Álftnesheppur. Náði hann þannig yfir allt landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frá Hvassahrauni að Hraunsholtslæk, og þó heldur betur, því að enn eru býlin Vífilsstaðir, Hofsstaðir og Arnarnes í Garðahreppi. Hafa þessi býli vafalaust fallið undir Garðakirkju síðar. Þegar Álftaneshreppi var skipt árið 1891 í Garða- og Bessastaðahrepp, hef ur verið farið að líta á Bessastaðahrepp einan sem Álftanes, og þannig er það í rauninhi kallað nú, en hið forna Álftanes hefur verið milli Hafnarfjarðarbotns og Arnarvogs, eða vestan vegarins, þar sem hann liggur frá Hafnarfirði að Silfurtúni. Eins verður ekki fram hjá því gengið, að Bessastaðakirkja hefur jafnan verið útkirkja frá Görðum, en í Görðum hafa margir höfuðklerkar setið öld fram af öld.
Gardakirkja-23Hér verður ekki á nokkurn hátt leitazt við að rekja sögu Garða á Álftanesi. Samt langar mig til að stikla hér á stóru í persónusögu staðarins, þó aðeins eftir prentuðum heimildum, enda nægir það til að sýna, hvert höfuðból og merkiskirkju staður jörðin hefur verið frá öndverðu.
Garðar á Álftanesi munu aðeins vera nefndir í einni Íslendingasögu, Hrafnkels sögu Freysgoða, sem gerist um miðja 10. öld. Þar er sagt, að Þormóður búi í Görðum á Álftanesi. „Hann á Þórdísi, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar frá Borg.“ Hrafnkatla mun yfirleitt talin skáldsaga, skrifuð á ofanverðri 13. öld, en samt verður það ljóst af þessu, að höfundi hefur fundizt sjálfsagt, að í Görðum byggju merkismenn, sem tengdir voru sjálfum Mýramönnum.
Í Sturlungu er Garða á Álftanesi að minnsta kosti tvívegis getið. Í Þórðar sögu kakala stendur svo: „Þenna vetur var Þórður Bjarnarson í Görðum með Einari Ormssyni, frænda sínum. Hann hafði verit með Órækju í Reykjaholti at drápa Klængs Bjarnarsonar. Ormr Bjarnarson reið við tólfta mann í Garða til Einars. Komu þeir þar síð um kveldit í þann tíma, er þeir Einarr ok Þórður ætluðu at ganga til baðs. Tóku þeir Ormr Þórð þar höndum. Leiddu þeir hann þá inn til stofu. Þórðr varð við alla vega sem bezt ok bauð fyrir sig allt þat, er honum sómdi. En þá er hann sá, at Ormr vildi ekki annat hafa en líf hans, þá beiddist hann prestfundar. Ok svá var gert. Eftir þat var hann leiddr í ytri stofuna. Lagðist Þórðr þá niðropinn ok bað þá hyggja at, hvárt honum blöskraði nökkut. Ormr fekk þá mann til at höggva hann. Sá hét Einarr munkr. Eftir þat reið Ormr heim austr á Breiðabólstað.“
Þessi atburður gerðist árið 1243. Af frásögninni má fá ýmsar upplýsingar um staðinn. Bóndinn, Einar Ormsson, er Svínfellingur að ætt, afkomandi Flosi Þórðarsonar, eða Brennu-Flosa. Voru þeir Svínfellingar mikils háttar menn, enda ein merkasta ætt á Sturlungaöld. Er því fullvíst, að Garðar hafa verið stórbýli, er svo ættgöfugur maður bjó þar. Þá kemur fram að kirkja er á staðnum, og þar er prestur. Ekki er líklegt, að kirkjan hafi verið nýreist, enda má gera ráð fyrir, að kirkja hafi mjög fljótlega verið reist á þessu forna höfuðbóli. Hins vegar er bóndinn ekki prestur, heldur hefur hann prest, en það var stórbændasiður á fyrstu öldum kristninnar á landi hér. Á öðrum stað í Sturlungu, Íslendingabók, stendur svo: „Gizurr jarl reið suðr á Kjalarnes ok gisti í Görðum á Álftanesi at Einars bónda Ormssonar. Var honum þar vel fagnat ok var þar nokkurar nætr.“
Þessi atburður gerðist árið 1264. Eru nú liðin tuttugu ár frá því, sem um getur í fyrri tilvitnunni, og enn er Einar Ormsson bóndi í Görðum. Ekki þarf frekar vitnanna við um það, að hann hefur verið stórbóndi, því að varla hefur Gizur jarl gist nema á höfuðbólum. Ekki er þess getið, hvernig Einar fékk Garða til ábúðar, enda skiptir það ekki máli fyrir það efni, sem verið er að leitast við að draga hér fram: Garðar á Álftanesi voru; mikið höfuðból á Sturlungaöld.

gardakirkja-24

Vera má, að ætt Ásbjarnar landnámsmanns hafi skipt á Görðum og annarri jörð, t.d. á Seltjarnarnesi, nema Einar hafi verið kvæntur inn í ættina eða tengdur henni á annan hátt. Garða ef ekki mikið getið í prentuðum heimildum á næstu öldum, en þó koma þeir allmikið við sögu í deilumálum Staða-Árna biskups Þorlákssonar við leikmenn á ofanverðri 3. öld. Þessar deilur voru sem kunnugt er um það, hvort kirkjan skyldi eiga jörðina, þar sem, hún stóð, og aðrar jarðir, sem undir kirkjustaðinn lágu. Í Árna biskups sögu eru Garðar ávallt kallaðir Garðastaður, og eru þeir nefndir í sömu andrá og merkustu kirkjustaðir landsins á þeirri tíð. Settust leikmenn og klerkar á jörðina á víxl, eftir því hvorum veitti betur, Árna biskupi eða foringja leikmanna, Hrafni Oddssyni. Þessir atburðir hafa gerzt eftir daga Einars bónda Ormssonar. Gera má fastlega ráð fyrir því, að prestur hafi verið ábúandi í Görðum frá því staðamálum lauk fyrir 1300 til ársins 1928. En átökin um Garða síðast á 13. öld benda til þess, að kirkjan hafi þá þegar átt nokkurn hluta jarðarinnar og fleiri jarðir í kring. Og upp úr þessu tóku kennimenn að gerast héraðshöfðingjar og stórbændur.
Um siðaskiptin situr í Görðum sr. Einar Ólafsson, umboðs maður Skálholtsbiskups, þ.e. síðasta kaþólska biskupsins, Ögmundar Eálssonar, og hins fyrsta lúterska, Gizurar Einarssonar. Þá átti Skálholtskirkja orðið víða ítök, enda segir Magnús Már Lárusson prófessor í fyrrnefndri grein, að Skálholtskirkja hafi eignazt nokkrar minni jarðanna í Álftaneshreppi þegar um 1200. Einar Ólafsson var fyrst prestur í Nesi við Seltjörn, síðan í Laugarnesi, en fluttist þá að Görðum og var þar prestur í 21 ár, eða þar til hann gerðist ráðsmaður í Skálholti árið 1552. Það er eftirtakanlegt, að hann sækir að Görðum frá Nesi og Laugarnesi, en báðar þessar jarðir voru vildar setur fyrr á tímum.
Eftir siðaskipti sitja margir frægir klerkar Garðastað, og verða nú heimildir auðugri. Hér verður þó aðeins hlaupið á nokkrum staksteinum, ella yrði of langt að rekja. Fyrst skal getið tveggja nafnkunnra feðga, sr. Þorkels Arngrímssonar og Jóns biskups Vídalíns. Sr. Þorkell var sonur Arngríms lærða Jónssonar, sem einna frægastur var Íslendinga á sinni tíð, vegna vináttu við og embætti fyrir Guðbrand biskup Þorláksson og varnar- og kynnisrit hans á latínu um Ísland og Íslendinga. Var sr. Þorkell fyrsti lærði íslenzki læknirinn, en hann var prestur í Görðum frá 1658 til dauðadags 1677. Nam hann læknisfræði í Kaupmannahöfn og Noregi og e.t.v. víðar og fékkst nokkuð við lækningar. Um hann hefur Vilmundur landlæknir Jónsson skrifað merka bók, Lækningar séra Þorkels Arngrímssonar, sem Háskóli Íslands mun hafa tekið gilda sem doktorsritgerð, en landlæknir hirti ekki að verja, Sr. Þorkell átti þrjá syni, sem allir voru miklir lærdóms- og merkismenn, og allir fæddir í Görðum.
Þeir gardakirkja-26voru: Þórður, sem fetaði í fótspor föður síns og nam læknisfræði, síðar rektor í Skálholti, en mikið orð fór af lækningum hans, Jón biskup Vídalín og Arngrímur, rektor í Danmörk, sem dó ungur. Þeir foræður voru allir miklir gáfu- og atgervismenn og skáld góð, en ekki að sama skapi gæfumenn; voru þeir drykkfelldir nokkuð, og Þórður læknir þó mest, en svo var faðir þeirra einnig. Jón Vídalín var prestur í Görðum í þrjú ár, en var þó löngum aðstoðarmaður biskups í Skálholti, enda fór hann frá Görðum í Skálholt árið 1698. Í Ferðabók Sveins Pálssonar segir svo á einum stað (október 1791): „Eftir skamma dvöl á Bessastöðum fór ég að Görðum. Þar (þ.e í Görðum), á Bessastöðum, í Nesi hjá Birni lyfsala og í Reykjavík hjá Scheel fangaverði eru beztir matjurtagarðar og þessar slóðir. (Markús) prófastur Magnússon í Görðum hefur meira að segja fengið flestalla bændur í sóknum sínum til að gera kálgarða, og sjá þeir sér auðvitað hag í því. Hann er áreiðanlega beztur búhöldur hér sunnan lands — án þess þó, að embættisrekstur hans bíði nokkurt tjón við það. -Meðal annars hefur að hans ráðum verið gert hið fyrsta helluþak á Íslandi í hina nýreistu kirkju í Görðum, og eru hellurnar lagðar ofan á timbursúðina. Hyggjast menn að fylgja því dæmi hans við kirkjurnar á Bessastöðum og í Reykjavík, sem nú eru í smíðum.“
Enn segir í Ferðabók Sveins: „Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár. Óskandi væri, að sem flestir fylgdu dæmi þessa ágæta manns.“
Markús Magnússon var prestur og prófastur í Görðum frá 1780 til dauðadags árið 1825, vígður þangað aðstoðarprestur Guðlaugs prófasts Þorgeirssonar, sem var prestur í Görðum 1746—1781, og varð sr. Markús tengdasonur hans. Sr. Guðlaugur var hinn mesti merkismaður. klerkur góður og biskupsefni. Hann rak draugana af höndum Garðhverfinga og kom þeim í Stíflishóla, eins og frá segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (bls. 264, I).
gardakirkja-27Sr. Markús Magnússon var hinn ágætasti maður, eins og Sveinn Pálsson segir, og lærður vel. Um hann segir Páll Eggert Ólason í íslenzkum æviskrám: „Hann var auðmaður, enda mjög hjálpsamur sóknarmönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðinn að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum. Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst of þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar í kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.
Alla 19. öld sitja höfuðklerkar í Görðum, fyrst sr. Markús til ársins 1825, þá Árni stiftprófastur Helgason 1825—1858, er hann lét af prestsskap, en bjó þó áfram í Görðum. Eftir hann varð prestur í Görðum sr., Helgi Hálfdánarson, sálmaskáld og síðar forstöðumaður prestaskólans. Hann var til ársins 1867, er sr. Þórarinn Böðvarsson kom að Görðum, en hann var þar prestur til dauðadags 1895.
Sr. Árni Helgason var hinn mesti lærdómsmaður, eins og alkunnugt er, kennari með afbrigðum, tvisvar biskup í forföllum og fékk biskupsnafnbót.
Um hann eru margar skemmtilegar sögur. Svo segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl sinni: „Eg gekk til prestsins að Görðum með hinum börnum af nesinu og var náttúrulega efstur. Faðir minn var gamall lærisveinn séra Árna, og voru þeir virkta-vinir, enda báru allir virðingu fyrir stiptprófastinum, og oft kom ég til hans. Séra Árni var einhver hinn tignarlegasti maður, sem ég hef séð, og mynd hans er mér ógleymanleg. Hann var alltaf jafnrólegur, aldrei daufur, hann var í því jafnvægi lífsins, sem mjög fáir ná; hann drakk stundum, en aldrei svo mikið að nokkuð yrði að fundið. Hann var einhver hinn fullkomnasti maður, sem hugsast getur, stór Og höfðinglegur. Stundum var hann meinyrtur og glettinn í orðum, einkum ef hann var lítið kenndur. Einhverju sinni komu þeir til hans Jón Þorleifsson og Steingrímur Thorsteinsson; þair voru þá í skóla og voru vinir. Þeir komu að Görðum um sunnudag, en ekki fyrr en messa var úti. Jón Þorleifsson fór þá að biðja prófastinn fyrirgefningar af að þeir kæmu svo seint. Þá sagði séra Árni: ,,Það er fyrirgefið, og þó þið hefðuð aldrei komið.“ — Séra Matthías Jochumsson kom þangað og fór að tala um þýzka heimspeki, en séra Árni mun ekki hafa þótt mikið til koma. Séra Matthías var þá prestur í Móum á Kjalarnesi. Eftir að hann hafði látið heimspekisdæluna ganga, þá þegir séra Árni um stund og segir loksins: „Fiskast mikið af hrokkelsum á Kjalarnesi núna?“ – „.
Helgi Hálfdánarson var prestur í Görðum, þar til hann gerðist kennari við prestaskólann 1867. Hann var þingmaður, meðan hann sat í Görðum og mikils virtur alla tíð, enda lærdóms- og gáfumaður.
Þórarinn Böðvarsson var um margt öndvegismaður, og ekki sízt eftir að hann hann kom að Görðum. Hann var þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu öll ár sín í Görðum nema tvö og mikill búsýslumaður.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

Hina kunnu og velþegnu bók sína, Lestrarbók handa alþýðu, sem almennt var nefnd Alþýðubók sr. Þórarins, gaf hann út árið 1874, eða 6 árum eftir að hann kom að Görðum. Árið 1882 stofnaði hann gagnfræðaskólann í Flensborg til minningar um Böðvar son sinn, en nokkru áður hafði hann stofnað þar barnaskóla. Var Jón sonur prófasts, síðar fræðslumálastjóri, fyrsti skólastjóri í Flensborg. Þá er ótalið það framtak sr. Þórarins, sem mest snertir kirkjustaðinn í Görðum. Árið 1880 lét hann reisa í Görðum veglega steinkirkiu. Var hún úr höggnu grjóti úr Garðaholti og eftir nær áttatíu ár standa veggir ófallnir. Um það bil öld hafði nú liðið frá því, að Markús prófastur Magnússon byggði upp kirkjuna í Görðum, sem á sinni tíð þótti til fyrirmyndar,
eins og Sveinn Pálsson tekur fram. Kirkja sr. Þórarins er síðasta Garðakirkjan, og sjálfur ætlaði hann ekki í fyrstu að reisa hana þar. Á hans dögum var Hafarfjörður óðum að stækka, og þegar sr. Þórarni þótti nauðsynlegt að byggja nýja kirkju fyrir Garðasókn, fannst honum eðlilegt, að hún yrði byggð í Hafnarfirði. Þá voru íbúar Hafnarfjarðar um fjögur hundruð og Fjörðurinn að sjálfsögðu stæsta byggðin í sókninni. En Hafnfirðingar töldu sig ekki hafa bolmagn til að byggja kirkju, þótt sr. Þórarinn byði þeim fjárhagslega aðstoð, og því var kirkjan enn reist í Görðum. Hafnfirðingar höfðu alla tíð átt kirkjusókn að Görðum, en það er um þriggja og hálfs kílómetra leið. Að vísu var fyrr á öldum kirkja á Hvaleyri, annexía frá Görðum, en hún mun aðeins hafa verið fyrir Hvaleyrartorfuna, en þar var fjölbýlt áður. Þessi kirkja var lítil og lengst af hálfkirkja, þ.e. messað þar aðeins örsjaldan á ári. Hér má og geta þess, að á 16. öld var þýzk kirkja í Hafnarfirði, en hún var ekki fyrir Íslendinga, heldur þýzka kaupmenn og starfsfólk þeirra.
Hafnfirðingar reistu þjóðkirkju sína árið 1914, og er hún arftaki hinnar fornfrægu Garðakirkju, enda brauðið enn kallað Garðaprestakall. Gripir úr kirkjunni í Görðum voru þá fluttir í Hafnarfjarðarkirkju. Samt voru enn unnin ýmis prestsverk í Garðakirkju lengi: eftir þetta, allt fram yfir 1930, en mest yoru það greftranir. En nokkru síðar féll kirkjan og var rifin, svo að eftir standa naktir steinveggirnir. Nú hefur Kvenfélag Garðahrepps tekið sér fyrir hendur að endurreisa kirkjuna í Görðum. Eru framkvæmdir þegar hafnar. Verður ekki annað sagt en þetta sé hið mesta myndarframtak. Endurreist Garðakirkja væru verðugur varði um forna frægð staðarins.
Tveir prestar sátu í Görðuni, eftir sr. Þórarin Böðvarsson, báðir hinir merkustu menn, sr. Jens Pálsson 1896—1912 og sr. Árni Björnsson frá 1913 til 1928, er hann fluttist til Hafnarfjarðar.
— En hann hafði fengið leyfi safnaðarins til að sitja áfram. í Görðum, þótt kirkjan væri flutt til Hafnarfjarðar. Báðir voru þessir Garðaprestar prófastar í Kjalarnesprófastsdæmi, eins og flestir fyrirrennarar þeirra höfðu verið, Eftir að sr. Árni var flutt ur til Hafnarfjarðar, fékk Guðmundur Björnsson ábúð á jörðinni, og er hann enn bóndi í Görðum.
gardakirkja-28Eins og ég gat um í upphafi, hefur sjósókn frá Görðum, úr Hafnarfirði og af Álftanesi vafa laust rennt sterkustum stoðum undir mikilleik staðarins.
Magnús Már Lárusson prófessor telur í áðurnefndri grein, að ekki hafi verið fluttur fiskur út af þessum slóðum, að minnsta kosti ekki að ráði, heldur hafi hann mest farið á innlendan markað, og þá aðallega austur í sveitir. En hverfin kringum Garða, á Hvaleyri og Álftanesi, og seinna í Hafnarfirði, hafa myndazt vegna sjósóknar og landbúnaðar jöfnum höndum. Fólk hefur verið nægjusamt og rólegt á þessum slóðum, og sama ættin búið öld fram af öld á sömu torfu. Þannig voru mínir ættfeður í móðurætt leiguliðar og fiskimenn Garðakirkju svo langt aftur, sem rakið verður. Bjuggu þeir á ýmsum kotum í Garðahverfi, og hefur sá elzti, sem um getur í heimildum, verið landseti þeirra feðga Þorkels Arngrímssonar og Jóns Vídalíns á 17. öld. Mætti vel vera, að ættin hafi verið á torfunni frá landnámstíð. En þótt sjávarfang væri drjúgur þáttur í auðlegð Garða fyrr meir, var búskapur þar þó jafnan mikill, enda er töluvert undirlendi í Garðahverfi. Og í Görðum er getið um akuryrkju fram yfir aldamótin 1400. Land hefur minnkað fyrir neðan Garða, sjór brotið bakkana og eytt. Þannig eru tvö býlin, þar sem forfeður mínir bjuggu, Bakki og Sjávargata, horfin úr sögunni vegna sjávargangs. Einnig hefur sjórinn brotið mikið land milli Garðahverfis og þess hluta nessins, sem nú er í daglegu tali kallað Álftanes. Ekki er heldur vafi á því, að hin víðlendu holt hafa blásið upp.
Hér lýkur þessum pistlum mínum um hinn forna Garðastað, og geta þeir vart kallazt annað og meira en haldahófslegar hremsur, eins konar reytingur af reyfinu um þá jörð, sem ég hef frá barnæsku talið vera hið forna höfuðból Ásbjarnar Özurarsonar. Þótt Garðar sjálfir megi nú muna sinn fífil fegri, eru þó í fornu landi þeirra aðsetur forseta lýðveldisins, Bessastaðir á aðra hönd, en þriðji stærsti kaupstaður landsins, Hafnarfjörður, á hina.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, bls. 6-8.

Garðar

Garðar.

Garðahverfi

Í skýrslu Þjóðminjasafnsins árið 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003 má m.a. lesa eftirfarandi um Bakka:
„Bakki er talinn meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum frá 1397 og 1477, hann er nefndur í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggður Jóni Jónssyni og í Gíslamáldaga 1570. Þegar Jarðabók var gerð 1703 var þetta lögbýli í kirkjueign, ábúandi Jón Pétursson með fimm í heimili en Guðlaugur Grímsson hreppstjóri hefur eftir Manntalinu að dæma tekið við af honum sama ár, heimilismenn sjö talsins. Þá er einnig tilgreindur Þorsteinn Pétursson, húsmaður um þrítugt með konu og lítið barn.  Í Manntali 1801 bjó á Bakka Einar Bjarnason ásamt konu sinni Rannveigu Sigmundsdóttur, 14 ára syni, Guðmundi, og 10 ára fóstursyni, Jóni. Hjá fjölskyldunni voru vinnukonan Guðrún og Bergsveinn Gardahverfi - fornleifar Vnokkur sem var vanfær og að hluta á framfærslu hreppsins en lifði þó einnig á eigin handverki. Sjálfstætt bjuggu jarðnæðislausu hjónin, Bjarni Einarsson húsmaður og fiskari, trúlega sonur óndans, og Ingibjörg Narfadóttir. Þegar Manntal var tekið fimmtán árum síðar voru þessar fjölskyldur á brott en Guðmundur Einarsson orðinn vefari og vinnumaður hjá nýjum hreppstjóra á Hausastöðum. Á Bakka voru komin hjónin Árni Ketilsson og  Kristjana Ólafsdóttir, áður þjónustufólk hjá prests-hjónunum í Görðum. Auk þess að vera sjálfstæður bóndi var Árni nú orðinn meðhjálpari séra Markúsar í Görðum. Þau Kristjana áttu þrjár dætur og einn son á aldrinum 1-18 ára og höfðu inn vinnumann, Gísla Jónsson sem áður var á Hausastöðum. Auk þess sáu þau fyrir Sigríði Magnúsdóttur, 62 ára niðursetningi og voru alls átta í heimili.  Enn höfðu orðið ábúendaskipti árið 1845 en þá var þar Brandur Jakobsson grasbóndi ásamt þremur börnum sínum, vinnukonu og vinnumanni, niðursetningi og gamalli konu, Hallfríði Ófeigsdóttur sem var „sjálfrar sinnar“. Annar var Jón Höskuldsson úr Pálshúsum, lóðs og fiskari sem e.t.v. hefur verið búsettur í ónefndri þurrabúð við Bakkabryggju. Í Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi aðeins einn og jörðin áfram kirkjueign,  hún er nefnd í Jarðabók 1861  og í Fasteignabókum, enn undir kirkjunni 1932.  1942-44 var hins vegar ekki lengur búið á jörðinni  og í dag liggur hún undir Pálshús.
Bakki-221Til forna og fram um 1565 fylgdi Bakka Garðamýri og var landskuld þá fjórar vættir fiska og vallarsláttur, leigukúgildi tvö og mannslán um vertíð auk annarra kvaða sem héldust áfram. Séra Þorkell Arngrímsson lagði hins vegar mýrina til Garðastaðar, lækkaði landskuldina og tók burt annað kúgildið og mannslánið. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 80 álnir og galst með þremur fiskavættum og vallarslætti. Jón Pétursson bóndi lagði við til húsabótar með styrk séra Ólafs Péturssonar sem einnig uppyngdi hið eina kúgildi jarðarinnar. Fyrir það fékk presturinn smjör eða fisk en hálfar leigur féllu niður þar eð verkamenn voru í fæði á Bakka. Jón átti í kvikfénaði fjórar kýr, jafnmargar ær, tvevetra sauð og sjö veturgamla, þrjú lömb, tíu gimbrar, hest og tvö hross. Jörðin fóðraði þrjár kýr og hefur fóður m.a. verið sótt í Bakkavik, smástararblett sem skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 er „fast vestan við Bakkahrygg […]“, en hann  liggur að Garðamýri. Kvaðir voru dagsláttur, hríshestur sóttur í skóg kirkjunnar eða almenning og hestlán nýtt til að færa heim eldivið og til ferða innansveitar einn eða tvo daga. Heimræði var allt árið, lending í Bakkavör og inntökuskip þegar vel fiskaðist.

Bakki-222

Túnakort 1918.

Sölvafjara hafði eyðilagst vegna ísa og fjárbeitar en fjörugrös mátti tína að gagni og hrognkelsafjara var nokkur. Skv. Örnefnaskrá frá 1964 voru „hrognkelsaveiðar miklar“ í svonefndum Bakkaþara. Jörðin hafði móskurð í Dysjamýri en brenndi einnig þöngla til eldis. Árið 1847 var dýrleiki hennar enn óviss, landskuld 60 álnir og kúgildi eitt en 1861 taldist hún 10,6 ný hundruð. 1932 var hún metin á 35 hundruð kr. en þá hafði kúgildum fjölgað í þrjú, sauðir voru 20 og hrossið eitt. Úr 1100 m² görðum fengust 12 tunnur matjurta og hlunnindi voru áfram hin sömu. Jörðin var nytjuð frá kaupstaðnum og hey af henni flutt þangað. Tíu árum síðar var fasteignamatið 47 hundruð kr.
Bakkatún lá undir skemmdum vegna sjávarágangs en var 2 ha þegar kom fram á 20. öld. Bærinn var margfluttur undan sjó gegnum aldirnar og eru rústir þess sem síðast stóð nú að hverfa. Bakkafjörur og Bakkakambur hét neðan túnsins en norðan megin var Garðamýri og þar fyrir handan Garðar. Að vestan eru Pálshús og næst sjónum Dysjar.
Bakki-223Á Túnakorti árið 1918 má sjá tvær byggingar í bæjarstæðinu á Bakka alveg niður við sjó og er sú stærri líklega bærinn. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Bakkahryggur „er lá eftir vesturtúni Pálshúsa […] heiman frá bæ allt niður undir Bakka […] Bærinn stóð á Bakka og hafði verið marg oft færður undan sjó og eru nú rústir hans að falla niður í fjöruna.“ Bakkatún heitir „tún býlisins, sem sjór brýtur stöðugt til skemmda“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Niður af íbúðarhúsinu í Pálshúsum er u.þ.b 200 m langur hryggur niður að sjó. Hann heitir Bakkahryggur. Neðst á honum stóð bærinn á Bakka. Sjórinn brýtur nú stöðugt landið þarna, og er bakkinn niður í fjöruna víða ein til tvær mannhæðir. Bakki er löngu kominn í eyði og liggur undir Pálshúsum. Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er.“ Skv. fornleifaskráningu 1984 var Bakki „frammi á sjávarbakkanum í vestur frá Pálshúsum […] heimatúnið að baki (til austurs) sjávarbakkinn beint fram af“.
Túnakortið sýnir þrjú aflöng og samföst torfhús, miðhúsið minna en hin. Þau eru með standþili og snúa í norðvestur. Þessi hús stóðu skv. Fasteignabók enn árið 1932 (bls. 23) en þau eru ekki lengur sýnileg. Þarna er hins vegar tóft hlöðu sem byggð var ofan í þar sem bærinn stóð, um 8,5 x 7 m að utanmáli, þvermál að innan 3,5. Hún er með grjóthlöðnum hringlaga veggjum, göflum og bárujárnsþaki og virðist ögn niðurgrafin.
bakki-224Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er. Bretar byggðu þar tvö loftvarnarbyrgi á stríðsárunum, og eru þau nú að fara í sjó.“ Í Fornleifaskráningu 1984 segir að jarðhús hafi verið byggt ofan í eitt þessara byrgja „en þau voru mörg hér frammi á bakkanum, með skotgröfum á milli. Sumt er brotið af ofan í flæðarmál, annað á leiðinni þangað. Mikið brýtur hér af landi að sögn heimamanna í Pálshúsum.
Um Bakkastekk segir m.a.: Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Norður frá Bala er hraunsnef lítið“, Mónef. „Nokkru norðar þar sem Garðavegurinn liggur út af hrauninu, er“ Hvítaflöt, „vel gróin þúfnakargi. […] Nokkru norðar með hraunbrúninni gengur enn hraunsnef fram í mýrina“, Oddsnef eða Hraunsnef. „Norðar tekur við hraunsnef stærst af þessum hraunsnefjum“, Bakkastekksnef, „Þar austan við var stekkur frá Bakka, sér enn.“
bakki-225Í Örnefnalýsingu 1976 segir að Mónef gangi fram í Dysjamýri, en Hvítaflöt sé gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar  liggur upp á“ Garðahraun. „Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Bakkastekkur í skjólgóðum bolla sem opnast til norðurs „í hraunjaðrinum sunnan við austurenda nýræktar í Dysjamýri“. Hann er hringlaga, gerður úr þurri grjóthleðslu. Veggjaþykkt er um 1-1,1 m og er veggurinn vestan megin í hraunbrúninni. Þvermál að innan er um 5,6 en þvert á 5,3. Um 1,4-1,5 m breitt hlið er á stekknum austan megin og liggur aðhaldshleðsla úr grjóti frá því 16,5 m til austurs. Stekkurinn var ekki í notkun í tíð Tryggva Gunnarssonar núverandi ábúanda í Grjóta.
Um Bakkarétt segir: „Samkvæmt fornleifaskráningu 1984 er rétt: „…uppi af hraunnefninu suður af Dysjamýri. Í austur 65° frá Bala. Sléttlent og grösugt, hraunnibbur standa uppúr. Réttin er grjóthlaðin, óreglulega ferhyrnd, þó með rúnuðum hornum. Hlið er á móti hvoru öðru, sem vísa í suðaustur og norðvestur. Þessi rétt var notuð til skamms tíma samkvæmt upplýsingum. [Ekki kemur fram hver er heimildarmaður.] Við vettvangskönnun 2002 stóð réttin enn.“

Heimild:
-Þjóminjasafn Íslands árið 2004 – fornleifaskráning fyrir Garðahverfi 2003, bls. 10-16.

Bakki

Bakki við Bakka.

Vífilsstaðasel

Gengið var upp á Víkurholt frá sauðahelli undir Kolanefi, um Ljóskollulág og Vífilsstaðasel, niður að Grunnavatni syðra, upp á Þverhjalla að Vatnsendaborg, niður að Hnífhól og að Gjárétt í Búrfellsgjá með viðkomu á Garðaflötum.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824-1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti og systir langömmu eins þátttakendans, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: “Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.” Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum.

Urriðahraun

Urriðahraun – fjárbyrgi.

Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða.
Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflötina, sem nú er til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði síns við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur og klæðaburður mannsins þótti sérstakur. “Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði. “
Gengið var skáhallt upp Ljóskollulág og upp á Víkurholtið. Þaðan er gott útsýni yfir Grunnuvötnin og Hjallana. Í gróinni lægð í holtinu hvíla tóftir Vífilsstaðasels. Stekkur er uppi á holtinu norðan þeirra.
Gengið var niður að Grunnuvötnum syðri, með þeim og áfram upp á Þverhjalla þar sem staðnæmst var við Vatnsendaborgina. Niður við Grunnuvötn sást risaspor í snjónum. Sporið var um 60 cm langt, en annars teljast spor eftir risa vart til tíðinda í FERLIRsferðum því svo víða búa þau á Reykjanesinu.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Skammt sunnan við Vatnsendaborgina er varða á brúninni. Hún er í beina stefnu í Arnarbælissvörðuna og Hnífhól, sem eru landamerki Garðabæjar og Kópavogs (Vífilsstaða/Garðabæjar hins forna og Vatnsenda). Borgin sjálf er heilleg að hluta.
Gengið var niður Hjallamisgengið, sem er merkilegt jarðfræðifyrirbæri, áleiðis yfir að Hnífhól.
Hjallamisgengið er hæst um 65 metra hátt og um 5 kílómetra langt. Það er hluti af mörgum misgengisþrepum sem liggja hvert upp af öðru. Brúnin myndar nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Þessi brot hafa myndast bæði áður og eftir að Búrfellshraunið rann. Hreyfingar eru stöðugt á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2,8 millimetrar á ári.
Regnboginn breiddi úr sér yfir Hjallamisgenginu. Framundan blasti Búrfellið við. Úr eldvarpinu rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar.

Garðaflatir

Garðaflatir – tóft.

Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einungis einu sinni. Það var flæðigos. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Búrfellsgjáin sjálf er 3,5 km hrauntröð.
Komið var við á Garðaflötum. Norðaustan við flatirnar eru tóftir. Nú sást vel stór tóft norðan við syðstu tóftina. Út frá henni liggur garður til vesturs. Allar eru tóftirnar orðnar jarðlægar og því sennilega mjög komnar við aldur, en þeirra er ekki getið í örnefnalýsingum.

Búrfellsgjá

Í Búrfellsgjá.

Gengið var að Búrfellsgjá. Þar er Gjárétt, stundum nefnd Gjáarrétt. Hún var hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Rétt er ekki nefnd svo vegna þess að hún er rétt hjá. Þar var fé réttað, þ.e. því skipt réttilega milli löglegra eigenda miðað við rétt tilkall þeirra til fjárins skv. réttum mörkum (eða svip. Fjárglöggir bændur þekktu vel hverjum hvaða á tilheyrði, enda hver þeirra með ólíkt útlit líkt og mannfólkið. Sauðir líktust t.d. oftlega eigendum sínum).
Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt. Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson).

Gjárrétt

Gjárrétt í Búrfellsgjá.

Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“ Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt.

Gjáarrétt

Gjárrétt – teikning.

Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964. Hraunréttinina dunduðu Hafnfirðingarnir hins vegar við að færa smám saman á kerrum sínum í bæinn og hlóðu úr henni garða og mishleðslur hingað og þangað. Nú stendur ekki einn einasti steinn eftir í þeirri gömlu rétt.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.gustarar.is/gustur
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Bessastaðir

„Fornleifauppgrefti á Bessastöðum, vegna framkvæmda sem þar eiga að fara fram, er nú senn að ljúka (18. september, 1991). Verkið hefur staðið í tvö ár með hléum og hafa fundist leifar um mannvist undir gjóskulagi frá því seint á 9.öld. Fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Guðmundur Ólafsson hafa stýrt rannsóknunum.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Fornleifarannsóknir hófust á Bessastöðum árið 1987 þegar verkamenn sem unnu við viðgerðir á gólfi Bessastaðastofu komu niður á húsarústir. Leiddi rannsókn í ljós að hér væri um konungsgarð að ræða, þ.e.a.s. bústað æðsta embættismanns konungs, og voru rústirnar varðveittar í kjallara Bessastaðastofu þar sem þær eru almenningi til sýnis.

Bessastaðir

Bessastaðir – fyrirhuguð uppbygging.

Tveimur árum seinna var ákveðið að endurbyggja staðinn en í kjölfar þeirrar ákvörðunar var Þjóðminjasafninu falið að rannsaka þann hluta lóðarinnar sem yrði fyrir hnjaski vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Hafa þessar rannsóknir að sögn Sigurðar Bergsteinssonar staðið með hléum frá árinu 1989 en þeim lýkur sennilega eftir tvo til þrjá mánuði. Sigurður segir að komið hafi verið niður á rústir alls staðar þar sem borið hefði verið niður. Væru þær elstu frá því snemma á miðöldum (10.öld) en leifar hefðu fundist allt til dagsins í dag.

Bessastaðir

Þá sagði hann að leifar eftir mannvist hefðu fundist undir svokölluð landnámslagi sem er gjóskulag frá því seint á 9. öld. Væri um að ræða móösku og torfusnepla en hvorki hefðu fundist hlutir né leifar af byggingum. Af þeim sökum væri ekki hægt að slá neinu föstu um búsetu fólks á staðnum enda væri ekki getið um landnámsbæ á Bessastöðum í Landnámu. Leifar hafa fundist undir landnámslagi í Suðurgötu í Reykjavík og Vestmannaeyjum.

Bessastaðir

Undir Bessastaðastofu.

Í samtali við Sigurð kom fram að fáir hlutir hefðu fundist í rústunum. Þó nefndi hann sem dæmi að fundist hefði snældusnúður frá því á miðöldum og fjögur sáför (stór matarílát grafin í gólf). Árið 1987 fundust á Bessastöðum meðalaglös frá því á 18. öld þegar Apótek Íslands var staðsett þar um tíma. Leifar frá skólahaldi hafa einnig fundist á Bessastöðum, meðal annars skriftarspjöld skólapilta.“

Heimildir:
-MBL miðvikudaginn 18. september, 1991 – Innlendar fréttir -Bessastaðir: Leifar um mannvist frá því á 9. öld. Sigurður Bergsteinsson.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Garðahverfi

Eftirfarandi fróðleik um sögu og minjar Garða á Álftanesi (Garðahreppi) má lesa í skýrslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003:
„Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst.  Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum.
gardar-201Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“  og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“. Um tveimur áratugum síðar var þetta ein þeirra jarða sem Árni Þorláksson Skálholtsbiskup deildi um við veraldlega höfðingja og er greint frá því í sögu hans.

gardar-233

Staða-Árni eins og hann var nefndur réri að því öllum árum að kirkjan öðlaðist sjálfstæði í eigin málum og að allir kirkjustaðir kæmust undir hennar forsjá. Fékk hann m.a. þáverandi eiganda Garða, Sturlu Sæmundarson, til að sverja sér af hendi staðinn og lofa að „taka alldri síðan af kirkjufjám né hennar eign utan með biskups ráði“. Árni setti síðan systurson sinn Bjarna Helgason prest niður í Görðum. Leikmenn mótmæltu staðartökunni og fleiru í bréfi til biskups árið 1286 en þegar það bar ekki árangur kom goðorðsmaðurinn Hrafn Oddsson með herlið, stökkti séra Bjarna á brott og fékk Sturlu aftur „í hönd alla kirkjunnar eign“.
Næst eru Garðar nefndir í Alþingissamþykkt frá 1307 og er þá séra Jón Þórðarson kominn þangað til starfa.  Einhverjar heimildir eru svo um alla þá Garðapresta sem gegndu kallinu næstu aldir en þeir verða ekki taldir upp hér. Í máldögum árin 1397  og 1477  kemur fram að Garðakirkja var helguð Pétri postula og vel búin munum.
Meðal merkra kennimanna sem sátu á þessum kirkjustað má nefna Þorkel Arngrímsson (1629-77) sem tók við embætti árið 1658 og fékkst m.a. við skáldskap, þýðingar, útgáfur guðsorðabóka og lækningar. Séra Þorkell var í Görðum til 1677 og þar fæddist sonur hans, Jón Vídalín (1666-1720), sem gegndi prestsembætti á staðnum 1695-7. Eins og frægt er hófst hann síðar til biskups en þekktastur er hann líklega af hinni vinsælu húspostillu sinni sem við hann er kennd.  Séra Markús Magnússon (1748-1825) kom til starfa árið 1780 og stóð að stofnun Landsuppfræðingarfélagsins, Hins íslenska biblíufélags og fleiri menningarfélaga. Að beiðni nefndar til varðveislu fornminja, „Commision for Oldsagers Opbevaring“, sem stofnuð var árið 1807, skrifaði hann einnig merka Fornleifaskýrslu um Garðajarðir árið 1820.

gardar-230

Markús hafði forgöngu um mannvirkjagerð á staðnum og lét hlaða langan garð meðfram túnum bæjanna sem heyrðu undir Garða. Skv. manntölum voru hjá þessum prófasti 30 heimilismenn árið 1801  og 23 fimmtán árum síðar, um helmingi fleiri en öld áður hjá séra Ólafi Péturssyni en Manntal var líka gert í hans tíð.  Nefna má konu Markúsar, Þuríði Ásmundsdóttur, séra Sigurð Hallgrímsson „capellan“, hinn unga Jón Steingrímsson sem um skeið gegndi starfi skrifara, Guðmund Ormsson ráðsmann, Guðfinnu Bergsdóttur, unga frænku prófastins sem varð ráðskona hjá honum, Gísla Guðmundsson smið og Þórarinn Þorsteinsson smala. Auk þessa fólks voru á prestssetrinu tvö gamalmenni og fjögur börn, þrír vinnumenn og átta vinnukonur en bændasynir og dætur úr bæjahverfinu gegndu ýmsum störfum í Görðum. Markús hélt embættinu til æviloka. Skv. Manntali árið 1845 voru 25 í heimili hjá eftirmanni hans, séra Árna Helgasyni (1826-1894) sem skrifaði Lýsingu Garðaprestakalls árið 1843. Hann var prófastur 1825-58, mikilhæfur maður, stofnaði ýmis félög og gegndi biskupsembætti á tímabili. Frúin hans hét Sigríður Hannesdóttir en auk Óla Peter Finsens lærisveins, Ólafs Símonssonar gustukamanns og vinnuhjúa höfðu hjá þeim í húsnæði hjónin Magnús Brynjólfsson húsmaður og Þorbjörg Jónsdóttir.  Kirkja er enn í Görðum og jörðin í byggð.
Árið 1397 er getið um búfjáreign Garða: 30 sauðir, 6 hross og 33 nautgripir, þeirra á meðal tveir gamlir plóguxar eða „arduryxn“. Jafnframt kemur fram að tíu kornsáld voru færð í jörðina. Af þessu má ráða að jafnhliða kvikfjárrækt hafi á fyrri tímum verið stunduð kornrækt í Görðum. Reyndar eiga gömul akurgerði að hafa verið um ofanverð túnin a.m.k. fram á daga séra Markúsar og nefna má bæinn Akurgerði sem að vísu var þar sem nú er Hafnarfjörður en lá að fornu undir Garðakirkju. Forvitnileg í þessu sambandi eru einnig hin fjölmörgu gerði í hverfinu sjálfu en í sumum þeirra fór fram einhvers konar ræktun. Loks má minnast öldrykkju mikillar sem séra Þórður Ólafsson efndi til og greint er frá í Biskupsannálum árið 1530 en hann hefur kannski notað bygg af ökrunum til maltgerðar fyrir mjöðinn.  Í skrá frá árinu 1565 segir frá „bygging“ eða leigu á jörðum Garðkirkju, tekjum af þeim, kvikfénaði og ábúendum en ekkert er um prestsjörðina sjálfa.  Skráin var sett saman um það leyti sem séra Jón Loftsson var í Görðum, sá sem Presthóll í holtinu fyrir ofan er talinn kenndur við en þar áttu að vera álfar. Einnig er minnst á Garða í Gíslamáldaga árið 1570.
Þegar Árni Magnússon og Páll gardar-231Vídalín tóku saman Jarðabók sína árið 1703 var Ólafur Pétursson prófastur, fyrst 1695-6 og síðan aftur 1697-1719. Þá áttu Garðar 20 kúgildi, sum í leiguburði á eignajörðum og hjáleigum en heima fjórar kýr og ein leigukýr, ein þrevetra mjólkandi kvíga og önnur tvevetra geld. Auk þeirra voru 32 ær, 19 sauðir, 20 lömb, hestur, þrjú hross og tveir tvevetra folar.  Fóðrast kunnu ríflega 5 kýr og hestur og kemur á óvart að í Jarðatali Johnsens árið 1847 er aðeins tilgreint eitt kúgildi.  Jarðardýrleiki var lengst af óviss en taldist 40 hundruð frá 1697 og fram um miðja 19. öld og 48,8 ný hundruð í Jarðabók árið 1861. Í Fasteignabókum 1932 var jörðin með húsakosti metin á 207 hundruð kr.  en 154 hundruð kr. Á þessum tíma voru 8-8,5 kúgildi, 60 sauðir og tvö hross en undir lokin engir sauðir og aðeins eitt hross. Um 3200 m² garðar gáfu í fyrstu 40 tunnur matjurta en síðast aðeins 18 tunnur. Þegar Örnefnaskrá var gerð árið 1964 var Garðatún stórt en grýtt og skiptist í velli. Frá Garðatúngarði niður að hlaði nefndist Vesturgerði vestan heimatraðanna og Austurgerði austan þeirra. Skikinn vestan bæjarhúsa og kirkjugarðs hét Vesturflatir en austan megin voru Austurflatir. Lindarflöt kallaðist loks völlurinn frá kirkjugarðinum að Garðamýri eða Garðatjörn, kennd við Garðalind í túnjaðrinum.

Gardar-299

Í mýrinni sem náði að sjó voru útheysslægjur og torfrista og slógu hjáleigubændur þar dagslætti fyrir kúabeit. Hún tilheyrði að fornu jörðinni Bakka sem lá upp að henni sunnan megin en séra Þorkell lagði hana til Garðastaðar vegna skorts á slægjum og torfi.  Nytjaland Garðastaðar var annars að miklu leyti ofan og austan við hverfið, handan hins mikla Garðatúngarðs. Næst honum var Garðaholt og austur af því Garðahraun. Í nyrsta hluta þess, Gálgahrauni, var beitiland frá Görðum en úthagar í næsta nágrenni voru þröngir og snögglendir. Selstaða var við Kaldá og í Kirkjulandi ofan byggðarinnar frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi. Sjórinn var stundaður allt árið frá Görðum og jörðum í kring. Heimræði var og mikil hrognkelsaveiði en miðin skammt frá landi. Einnig var þó róið á fjarlægari mið. Lendingar voru góðar en öll stærri býlin höfðu uppsátur í sérstökum vörum sem fylgdu þeim og voru við þær kenndar. Auk þess voru náttúrulegar bryggjur við syðstu jarðirnar og við þá nyrstu, Hausastaði. Frá henni lá Hausastaðakambur meðfram sjánum ofan vara allt að Miðengi og á honum var skiptivöllur með búðum og hjöllum frá bæjunum. Við suðaustari jarðirnar nefndist hins vegar Garðagrandi. Þar framan við voru sker og grynningar sem mynduðu nokkurs konar hring eða kví um fjöru með mörgum þröngum sundum á milli og kallaðist það Garðatjörn.  Skelfiskafjara var en fór til þurrðar þegar um 1700. Gengt var í fjörunni en lítil rekavon. Hins vegar átti Garðakirkja á 14. öld og e.t.v. lengur allan viðreka og hvalreka frá Rangagjögri og Leitukvennabásum að Kálftjörningafjöru. Fram eftir öldum var nóg af nýtanlegum fjörugrösum. Aðalsölvatekjusvæðið var á Hausastaðagranda sem lá út á sjó frá Hausastöðum og fór í kaf á flóði.

gardar-234

Marhálmur óx við sjávarlón á norðurmörkum hverfisins, Skógtjörn norðan Hausastaða og Lambhúsatjörn norðan hins sameiginlega nytjalands. Í Örnefnalýsingu frá árunum 1976-7 er lýst mikilli þang- og marhálmstekju á Hrauntanga við Lambhúsatjörn. Var þangið þar skorið í fjörunni og látið reka upp í flóðfar með aðfalli en síðan borið á þerrivöll og þótti best ef rigndi fyrst því þá losnaði það við saltið og þornaði fyrr. Suðaustur úr Skógtjörn gékk svolítil tota sem nefnd var ýmist, Litlatjörn, Aukatjörn, Hausastaðatjörn eða Álatjörn. Síðasta nafnið tengdist Álamýri norðaustur af tjörninni en þar veiddu Garðhverfingar ála og seldu til Reykjavíkur. „Þeir veiddust helst í ljósaskiptum.“ Á þessum slóðum fóru einnig fram annars konar veiðar: „Mýrarhóll er austast í Álamýri og Skothóll austur af honum. Við Skothól eru klettar. Þar lágu menn fyrir fugli, er flaug fyrir, einkum álft, sem sótti í marhálminn við Skógtjörn. Þegar hækkaði í tjörninni og marhálmurinn fór í kaf, flaug álftin upp á Urriðakotsvatn og Vífilstaðavatn. Fóru menn þá á Skothól, þegar tók að flæða. Nú er allur marhálmur horfinn úr Skógtjörn.“ Skammt undan var líka mikið æðarvarp og tóftir á Eskinesi sem skilur milli Lambhústjarnar og Arnarnesvogs bera enn vitni um tilraun til æðarræktar á dögum Þórarins Böðvarssonar (1825-95) Garðaprests  1868-95. Mór var skorinn í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog og í Dysjamýri við syðstu jörðina Dysjar en norðan í henni hefur kannski einnig verið torfrista. Auk þess var skógur Garða nýttur til kolagerðar en bæði mór og viður voru farin að eyðast um 1700. Mosi var tekinn í Gálgahrauni og lyng rifið til eldiviðar en „hvergi er nú skógarhrísla eða lyng í hrauninu nema næst Hraunsholtinu“ austan megin.
Bæjahverfi það sem með tímanum myndaðist kringum kirkjustaðinn lá meðfram sjávarsíðunni á leiðinni út á Álftanes og nefndist Garðahverfi. Með vísun til bæjatúnanna innan garðs var einnig stundum talað um Garðatorfuna. Garðar sjálfir eru rétt suðaustan við miðju hverfisins, næst þeim norðan megin hjáleigan Ráðagerði og niðri við sjó Miðengi en sunnan megin Nýibær og Pálshús. Handan Garðamýri hjá sjónum var auk þess Bakki, eitt af lögbýlunum og suður af því Dysjar sem líka var lögbýli. Norðvestan megin í hverfinu voru svo Hlíð, lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr því, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir.

gardar - midengi

Allar þessar jarðir lágu undir Görðum og á sumum voru á tímabilum minni hjáleigur og þurrabúðir. Mýrarhús , Sjávargata, Hóll og Garðabúð voru við mýrina neðan Garða, Krókur, Garðhús, Háteigur og Höll við nytjalandið ofan þeirra. Þar í landi Hlíðar voru einnig Gata, Holt og Sólheimar en Hlíðarkot var í miðju túni og Dysjakot á Dysjum. Á mörkum Hlíðar og Hausastaðakots var Grjóti og í landi Hausastaða þrjú ef ekki fleiri býli, Kaldakinn, Katrínarkot og Arndísarkot á tanganum Skreflu, vestasta hluta hverfisins. Hvar Óskarbúð var er ekki vitað með vissu og sum býli eru nafnlaus. Í Manntölum er t.d. oft greint frá tómthúsfólki og húsfólki á aðaljörðunum án þess að getið sé um bústaði en tómthúsmenn bjuggu venjulega í sjálfstæðu húsnæði og húsmenn oft líka þótt sumir fengju inni á bæjum. Býlin í Garðahverfi hafa þó verið a.m.k. þau 34 sem hér á eftir eru skráð, á stundum trúlega færri eða fleiri. Skammt var á milli heimila og kominn vísir að smáþorpi enda virðast menn sums staðar hafa verið farnir að sérhæfa sig í ákveðnum störfum. Á prestssetrinu hefur verið miðstöð mannlífs en einnig var um skeið skóli á Hausastöðum og þingstaður en hann var fluttur í Garða. Bændur hverfisins skiptust á að gegna embætti hreppstjóra. Ljósmóðir var á Dysjum og hafnsögumaður á Bakka og Ósk í Óskarbúð rak svolitla verslun. Sumir eins og Guðmundur Einarsson vefari lifðu af handiðn sinni, handverkskonur og trésmiðir voru víða en gull- og silfursmiðir höfðu aðsetur í Ráðagerði. Mikið flakk var á fólkinu, a.m.k. þegar kom fram á 19. öld og þegar gömlu ábúendurnir fluttu tóku oftast við óskyldir menn. Nokkuð var þó um að fólk færi búferlum innan hverfisins og óvenjuleg nöfn eins og Ormur, Illugi og Nikulás sem skjóta aftur og aftur upp kolli í hverfinu gegnum aldirnar benda til innbyrðis skyldleika íbúanna. Ætla má að grjóthlöðnu gerðin sem eru sérkennandi fyrir Garðahverfi hafi tengst þéttbýlinu. Innan þeirra hefur verið sú litla lóð eða grasnyt sem hvert býli hafði. Flest eru kennd við búðirnar sem þau tilheyrðu: Hallargerði, Sjávargötugerði, Holtsgerði o.s.frv. Nokkur eru nöfnin tóm og hafa komið upp ýmsar getgátur um þau, Pálshúsagerði í Pálshúsatúni t.d. verið bendlað við akuryrkju og Hausastaðatúngerði á Hausastöðum talið landamerkjagarður en orðið gerði getur bæði vísað til ræktarlands og hlaðins garðs.
Hausastadir-221Í hverju bæjatúni var svolítill brunnur og sérstakar brunngötur til þeirra. Mikilvægasta vatnsbólið var þó Garðalind sem aldrei þraut og í hana sóttu öll heimilin vatn þegar þurfti. Til þessa hjarta Garðahverfis lágu að lokum allar leiðir en býlin tengdust með innbyrðis vegakerfi. Frá Hausastöðum og býlum þar lá gata yfir í Hausastaðakot og áfram í Grjóta, þaðan niður í Móakot eða yfir í Hlíð. Frá Hlíðabæjum lágu leiðir vestur í Götu og Háteig og Hlíðarbrunngata suður í Miðengi og síðan líklega áfram eftir jaðri túns og mýrar að Garðalind. Traðir tengdu saman Götu og Holt, Háteig og Ráðagerði en þaðan lá gata til kjarnans  í Görðum. Frá hinum búðunum við Garðatúngarð var farið um Garðatraðir niður að kirkju og prestssetri og þangað var sérstakur stígur, Króksbrunngata, úr Króki. Þá lágu traðir milli suðaustustu býlanna Dysja, Pálshúsa og Nýjabæjar og frá þeim síðastnefnda í Garða en þaðan mátti loks ganga um Garðabrunngötu að Garðalind. Hins vegar lá Bakkabrunngata beint frá Bakka upp kringum mýrina og að lindinni.
Þurrabúðarfólkið við Garðamýri hefur trúlega notað dysjar-224Sjávargötu sem lá milli þeirra og sjávarins annars vegar, Garða hins vegar, og síðan Hlíðarbrunngötu til að komast alla leið. Sérstakar sjávargötur lágu frá bæjum niður að sjávarhliðum í varnargarðinum ofan vara og neðan syðri jarðanna lá Bakkastígur eftir sjávarbökkum. Víðar hefur verið gengið við sjóinn en frá sjávarhliði Hausastaða lá svo nefnd Hliðsnesgata, framhjá Katrínarkoti og Arndísarkoti út á Skreflu og að Oddakotsósi. Þar varð svo að fara á bát yfir í Hliðsnes á móti. Í hina áttina lá gatan meðfram Skógtjörn, framhjá Köldukinn, og yfir grjóthlöðnu brúna Stíflisgarð. Þar var áður aðalleið úr hverfinu út á Álftanes. Í vestur lágu einnig Hausastaðatraðir frá Hausastöðum en slíkar traðir við bæina kenndar lágu frá þeim mörgum að hliðum á Garðatúngarði. Þaðan lágu leiðir svo út í nytjalandið og til næstu byggðalaga. Þannig lágu Garðatraðir frá Görðum um Garðahlið þar sem við tók Garðagata og hlykkjaðist þvert yfir Garðaholt að Garðastekk í jaðri Garðahrauns. Framhald stekkjargötunnar lá svo upp í hraunið nokkru norðar þar sem hún sameinaðist að lokum hinni fornu þjóðleið milli Álftaness og Reykjavíkur, Gálgahraunsstíg nyrðri, Fógetastíg eða Álftanesgötu. Sú gata lá á kafla meðfram Lambhústjörn og Arnarnesvogi. Þar í Hraunviki greindist annar stígur frá henni,
Móslóði og lá í suðvestur um dysjar-225Garðahraun og Flatahraun í Garðahverfi. Um hann var farið með hesta klyfjaða mó úr Hraunholtsmýri en þessi vegur var sá austasti þeirra sem lágu yfir Garðahraun. Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét leiðin yfir hitt mósvæðið sem náði milli Garða og Flatahrauns en var kirkjugata því hana fóru Hafnfirðingar þegar þeir ætluðu í Garðakirkju. Dysjabrú var þá lokakaflinn á leið þeirra, frá svo kölluðu Mónefi sem skagaði vestur úr hrauninu. Vegurinn yfir hraunið að nefinu hét hins vegar Gálgahraunsstígur syðri og náði alveg frá Hafnarfirði. Dysjabrú var þó ófær í miklum leysingum og varð þá frá Gatnamótum vestast við Garðaholtsenda að fara Kirkjustíg yfir holtið og að Görðum. Hann lá vestur frá Urriðakoti og Setbergi um Gatnamót þar sem göturnar mættust.

Garðar

Garðar – túnakort 1918.

Girt var milli túna einstakra jarða Garðahverfis og kringum það í heild. Varnargarður lá eftir sjávarkambinum að vestan og norður við Skógtjörn og Garðatúngarður skildi milli Garðatorfunnar og nytjalandsins austan megin. Mörk alls þessa svæðis náðu frá Balakletti við sjóinn suðaustan Dysja að Oddakotsósi á Hliðsnesi gegnt Skreflu og yfir Skógtjörn þvera, um Markatanga við Núpslækjarós, áfram um Lambhúsatjörn og austur í Eskines, þaðan lengst suður í Engidalsnef og svo aftur vestur í Balakletta. Innan þessara marka voru að fornu einnig jarðirnar Bali í suðurendanum og Selskarð milli Skógtjarnar og Lambhústjarnar. Þegar í máldögum 14. og 15. aldar kemur fram að Garðakirkja átti allt heimaland, Dysjar, Bakka, Hlíð, Hausastaði, Selskarð, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. Á 16. öld bættust við Nýibær og Pálshús, Vífilstaðir, Akurgerði og Hamarskot og ítök staðarins lágu miklu víðar. Í Örnefnaskrá segir: „Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaðar kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. […] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi.“.  Í Landamerkjaskrá frá 1890 eru tilgreind víðari „merki á landi Garðakirkju á Álptanesi, samkvæmt máldögum og fornum skjölum:
1. Í móti Oddakoti í miðjan ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarð í Oddakoti. […]
2. Úr ósnum norður í hóla hjá Skógtjörn, er þar hlaðin merkjavarða; þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólum hjá Núpsstíflum, þar er og hlaðin merkjavarða. […]
3. Útí miðja tjörn þá, sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns og í miðjan tjarnarósinn og í mírina Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum uppí Stóra Krók á sama læk og úr því keldudragi, fjallid eina-21sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina uppí Dýjakrók […] þaðan í midt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýri beina línu til austur landsuðurs í miðja Kjóavelli, þaðan beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan í austur landsuður uppí Hnífsós, þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Standartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil í Undirhlíðum), sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna, þaðan móts við Jófríðarstaðaland í norður vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðvesturs í vörðu  á Heiðarþúfum, þá sömu línu í norðuröxl á Mosahlíð, enn sömu línu í vörðu norðanhallt á Kvíholti, loks sömu línu miðt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu fremst á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn.
Þaðan land allt með Hafnarfirði norðaverðum vestur í ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti. […] Innan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar, þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Lan[g]moakot-21eyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir, sem allar hafa afmörkuð tún og rjett til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliða nota, en ekkert inskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhús sömuleiðis.“ Innan merkjanna eru einnig Vífilstaðir, Setberg, Urriðakot, Hofsstaðir, Hagakot og Akurgerði.
Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928: „Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“ Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“ Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
gardar-230Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for. Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu „byggingar staðarins […] á Bæjarhólnum austan kirkju […]  ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu“. Örnefnalýsing 1976 hefur þetta: „Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]“. Í grein frá árinu 1904 (bls. 34) segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn „þar sem Garðastaðarkirkja stóð“ kallaður „Kirkjuhóll“. Í Örnefnalýsingu 1976 segir hins vegar: „Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið.
Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.“ Núverandi kirkja var reist árið 1966 (Þ.J. og S.S.: 226).
gardastekkur-21Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: „Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðaholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.“ Árið 1918 voru „um 40 minnisvarðar“ í Garðakirkjugarði“.
Á Túnakorti 1918 sést hús úr torfi nokkru vestan Sjávargötugerðis, við Sjávargötuslóðann skammt frá sjónum og landamerkjum við Miðengi. Þetta gæti verið „verbúð frá Görðum“ sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Búðin, og „stóð ofanvert við vörina“, þ.e. Garðavör, „ofan við Garðasjó“. Kringum hana og aðallega ofan hennar var Búðarflötin og fyrir „framan hana var skiftivöllur“. Í Örnefnalýsingu segir: „Grasi gróinn hóll, sléttur að ofan, er á kampinum á milli Miðengis og Garða. Hér áður mun hafa verið sjóbúð á þessum hól, en þess sjást nú engin merki.“ Líklega er þetta hóllinn sem við Fornleifaskráningu 1984 er kallaður Garðabúð eða Búð og er suður „frá bænum í Miðengi, alveg niður við flæðarmálið“, túnið ofan við en sjórinn að framan. Núna er þarna áberandi grænn hóll. Lengd hans meðfram sjávarmálinu er 8,5-9 m og breiddin um 5 m. Í honum er  hleðslugrjót en lögun tóftarinnar sést ekki. Á a.m.k. einum stað utan í honum sér í mikið af skeljum.
gardastekkur-22Garðabúð var skv. Jarðabók og Manntali árið 1703 (bls.18) nýbyggð hjáleiga frá Görðum og tók í raun við af hjáleigunni Skemmu. Ábúendur voru hjónin Jón Þórðarson og Ingunn Ingimundardóttir, heimilismenn þrír talsins. Jarðardýrleiki var óviss en séra Ólafi Péturssyni greidd 40 álna landskuld með tveimur fiskavættum eða peningum upp á fiskatal. Leigukúgildi, venjulega eitt, var ekkert hjá Jóni þetta ár en hann átti kýr sem fóðraðist naumlega, ær með lambi, þrjá veturgamla sauði, tvo hesta og hross með fyli. Kvaðir allt árið voru mannslán sem leyst var með hálfum skipshlut af tveggja manna fari ábúanda og einn dagsláttur. Hætt var að heimta hrísshest sem áður hafði fylgt afgjaldi af Skemmu. Garðabúð hafði „grasnautn hina sömu“ og Skemma áður. Staðarhaldari lagði við til húsabótar en bóndi hafði móskurð í landi Garða. Garðabúð er ekki nefnd í síðari Manntölum og Jarðabókum.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, fornleifaskráing fyrir Garðahverfi 2003, bls. 24-60.

Garðar

Garðar.

Fosshellir

Gengið var um Lambagjá frá Kaldárseli með viðkomu í Níutíumetrahellir ofan við enda gjárinnar.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Síðan var haldið yfir í Vatnshelli, sem er við gömlu Selvogsgötuna þar sem hún liggur niður í Helgadal. Á leiðinni var gegnið fram á þrastarungakríli, sem fallið hafði úr hreiðri sínu, en móðirin fylgdist gaumgæfilega með öllu. Fornar tóftir í Helgadal voru bornar augum. Rauðshellir var skoðaður, en hans er getið í kirkjuannálum allt frá því á 17. öld, auk þess sem litið var inn í Hundraðmetrahellinn. Rauðshellir er stundum nefndir Pólverjahellir. Nafnið er tilkomið frá drengjum úr Pólunum í Reykjavík er voru við dvöl í Kaldárseli. Friðrik Friðriksson stofnaði knattspyrnufélagið Val þar sem þessir drengir voru aðaluppistaðan. Þá stofnaði hann ungmennafélagið Hvöt, sem hafði viðkomu í Hvatshelli í Þverhlíð.

Helgadalur

Helgadalur – Vatnshellir.

Þá var gengið í gegnum Fosshelli þar sem hinn fallegi flór var skoðaður, upp í Valaból og áð í Músarhelli. Maríustakkur vex þar utan við sem og einstaka holurt á stangli. Annars er svæðið orðið mjög vel gróið og trén hafa dafnað vel í sumar.
Haldið var upp á Valahnúka (201 m.y.s.), heilsað upp á tröllinn og og hrafninn, sem á sér laup í austanverðum vestasta hnúknum. Hann sést vel þar sem gengið er yfir í Valabók um hálsinn frá Helgafelli. Frá tröllunum var gengið yfir malarslétt helluhraunið niður í Gvendarselsgíga, upp á Kaldárbotna syðri og með vatnsverndargirðingunni niður að Kaldá.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Hausastaðaskóli

Gengið var um Langeyri og Malir, skoðaðir gamlir fiskreitir og síðan haldið út með ströndinni með Bala, Dysjum og Görðum. Gengin var Lindargata að Garðalind og síðan út á Hliðsnes og að Hausastaðaskóla.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Langeyri var upphaflega tómt hús í landi Garðakirkju sem stóð autt árið 1703 vegna aflabrests. Þegar fríhöndlunin gekk í garð 1787 lögðu danskir lausakaupmenn Langeyri undir sig og reistu sér íbúðarhús og vöruskemmur. Örnefnið Rauðhúsnef er frá þeim tíma er rauðlituð dönsk hús stóðu við tangann er kallast í dag Rauðsnef. Þar var í eina tíð hvalstöð sem lagðist niður þegar alvarlegt slys varð í stöðinni. Núverandi Langeyrarbær var byggður árið 1904 og telst vera dæmigerður hafnfirskur hraunbær af stærri gerðinni.

Fagrihvammur

Fagrihvammur.

Nokkru vestar eru fleiri gömul hús Eyrarhraun, Fagrihvammur og steinbærinn Brúsastaðir. Utar taka við Brúsastaðamalir eða Litlu-Langeyrarmalir og Skereyrarmalir. Hér voru fyrirtaks malir fyrir smábáta sem þurftu ekki að fara djúpt til að afla vel.
Finna mátti samskonar malarkamba inn eftir öllum Hafnarfirði í aldarbyrjun. Langeyrarmalir voru lengstar malanna og hér reisti August Flygenring fiskvinnsluhús 1904. Malirnar voru mikið athafnasvæði og var saltfiskur breiddur til þurrkunar á góðviðrisdögum á fiskreitum í hrauninu sem enn sést móta fyrir, t.d. utan við beygjuna neðan við Eyrarhraun.

Allians

AllianZ-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Fiskverkunarhúsin voru rifin á níunda tug 20. aldar. Líklegt er að þessir fiskreitir verði eyðilagðir innan skamms vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á svæðinu. Allians-reiturinn, sem var þarna skammt ofar, var t.d. rifinn uppá einum degi þegar síðast var byggt við Hrafnistu. Í rauninni virðist það hafa verið óþarfa eyðilegging ef tekið er mið af byggingunni, sem reist var á svæðinu. Í rauninni hefði verið táknrænt að vernda þennan gamla fiskreit svo til við gaflinn á þessu dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954. Fiskreitir víða.

Þegar saltfiskverkun var sem mest í bænum á fyrrri hluta 20. aldar var fjöldi fiskreita og stakkstæða um allan bæ þar sem fiskurinn var breiddur og þurrkaður. Það er enn hægt að skoða fagurlega hlaðna fiskreiti á nokkrum stöðum í bænum þó mjög hafi verið þrengt að þeim. Alliansreitur (stundum nefndur Allanzreitur) er sunnan Hrafnistu. Hann er kenndur við Allen Major, framkvæmdastjóra hinna ensku Hellyers bræðra sem stunduðu útgerð frá Hafnarfirði 1924 – 1929. Annar þekktur fiskreitur var Einarsreitur, sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður og kaupmaður lét útbúa, er á svæðinu milli Arnarhrauns, Smyrlahrauns, Álfaskeiðs og Reykjavíkurvegar.

Einarsreitur

Einarsreitur.

Byggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð og er talið að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og bjó á Skúlastöðum. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Minnismerki stendur nú þar sem Hausastaðaskóli var. Enn má sjá tóftir hans. Skólinn var annar fyrstu skóla á Íslandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára. Skólinn starfaði á árunum 1792-1812. Skólinn var stofnaður handa fátækum börnum sem fengu ekki tækifæri til að læra. Það voru bæði strákar og stelpur í skólanum sem þótti merkilegt því stelpur gengu ekki í skóla þá. Fyrst í stað voru 6 stelpur og 6 strákar en þeim fjölgaði fljótlega. Eftir 1804 fækkaði þeim aftur. Markmið Hausastaðaskóla var ekki bara að lesa, skrifa og reikna, heldur líka að ala upp fátæk börn. Minnisvarði um Hausastaðaskóla var reistur árið 1979.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá meira um Hausastaðaskóla HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.gardabaer.is/default.asp?cat_id=69
-http://www2.hafnarfj.is/hafnarfj.nsf/pages/merkir_stadir
-Jón Skálholtsrektir – minning um Jón Þorkelsson Thorkillius, Rvík 1959.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli.