Tag Archive for: Garðahreppur

Garðahverfi

Í skýrslu Þjóðminjasafnsins árið 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003 má m.a. lesa eftirfarandi um Bakka:
„Bakki er talinn meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum frá 1397 og 1477, hann er nefndur í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggður Jóni Jónssyni og í Gíslamáldaga 1570. Þegar Jarðabók var gerð 1703 var þetta lögbýli í kirkjueign, ábúandi Jón Pétursson með fimm í heimili en Guðlaugur Grímsson hreppstjóri hefur eftir Manntalinu að dæma tekið við af honum sama ár, heimilismenn sjö talsins. Þá er einnig tilgreindur Þorsteinn Pétursson, húsmaður um þrítugt með konu og lítið barn.  Í Manntali 1801 bjó á Bakka Einar Bjarnason ásamt konu sinni Rannveigu Sigmundsdóttur, 14 ára syni, Guðmundi, og 10 ára fóstursyni, Jóni. Hjá fjölskyldunni voru vinnukonan Guðrún og Bergsveinn Gardahverfi - fornleifar Vnokkur sem var vanfær og að hluta á framfærslu hreppsins en lifði þó einnig á eigin handverki. Sjálfstætt bjuggu jarðnæðislausu hjónin, Bjarni Einarsson húsmaður og fiskari, trúlega sonur óndans, og Ingibjörg Narfadóttir. Þegar Manntal var tekið fimmtán árum síðar voru þessar fjölskyldur á brott en Guðmundur Einarsson orðinn vefari og vinnumaður hjá nýjum hreppstjóra á Hausastöðum. Á Bakka voru komin hjónin Árni Ketilsson og  Kristjana Ólafsdóttir, áður þjónustufólk hjá prests-hjónunum í Görðum. Auk þess að vera sjálfstæður bóndi var Árni nú orðinn meðhjálpari séra Markúsar í Görðum. Þau Kristjana áttu þrjár dætur og einn son á aldrinum 1-18 ára og höfðu inn vinnumann, Gísla Jónsson sem áður var á Hausastöðum. Auk þess sáu þau fyrir Sigríði Magnúsdóttur, 62 ára niðursetningi og voru alls átta í heimili.  Enn höfðu orðið ábúendaskipti árið 1845 en þá var þar Brandur Jakobsson grasbóndi ásamt þremur börnum sínum, vinnukonu og vinnumanni, niðursetningi og gamalli konu, Hallfríði Ófeigsdóttur sem var „sjálfrar sinnar“. Annar var Jón Höskuldsson úr Pálshúsum, lóðs og fiskari sem e.t.v. hefur verið búsettur í ónefndri þurrabúð við Bakkabryggju. Í Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi aðeins einn og jörðin áfram kirkjueign,  hún er nefnd í Jarðabók 1861  og í Fasteignabókum, enn undir kirkjunni 1932.  1942-44 var hins vegar ekki lengur búið á jörðinni  og í dag liggur hún undir Pálshús.
Bakki-221Til forna og fram um 1565 fylgdi Bakka Garðamýri og var landskuld þá fjórar vættir fiska og vallarsláttur, leigukúgildi tvö og mannslán um vertíð auk annarra kvaða sem héldust áfram. Séra Þorkell Arngrímsson lagði hins vegar mýrina til Garðastaðar, lækkaði landskuldina og tók burt annað kúgildið og mannslánið. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 80 álnir og galst með þremur fiskavættum og vallarslætti. Jón Pétursson bóndi lagði við til húsabótar með styrk séra Ólafs Péturssonar sem einnig uppyngdi hið eina kúgildi jarðarinnar. Fyrir það fékk presturinn smjör eða fisk en hálfar leigur féllu niður þar eð verkamenn voru í fæði á Bakka. Jón átti í kvikfénaði fjórar kýr, jafnmargar ær, tvevetra sauð og sjö veturgamla, þrjú lömb, tíu gimbrar, hest og tvö hross. Jörðin fóðraði þrjár kýr og hefur fóður m.a. verið sótt í Bakkavik, smástararblett sem skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 er „fast vestan við Bakkahrygg […]“, en hann  liggur að Garðamýri. Kvaðir voru dagsláttur, hríshestur sóttur í skóg kirkjunnar eða almenning og hestlán nýtt til að færa heim eldivið og til ferða innansveitar einn eða tvo daga. Heimræði var allt árið, lending í Bakkavör og inntökuskip þegar vel fiskaðist.

Bakki-222

Túnakort 1918.

Sölvafjara hafði eyðilagst vegna ísa og fjárbeitar en fjörugrös mátti tína að gagni og hrognkelsafjara var nokkur. Skv. Örnefnaskrá frá 1964 voru „hrognkelsaveiðar miklar“ í svonefndum Bakkaþara. Jörðin hafði móskurð í Dysjamýri en brenndi einnig þöngla til eldis. Árið 1847 var dýrleiki hennar enn óviss, landskuld 60 álnir og kúgildi eitt en 1861 taldist hún 10,6 ný hundruð. 1932 var hún metin á 35 hundruð kr. en þá hafði kúgildum fjölgað í þrjú, sauðir voru 20 og hrossið eitt. Úr 1100 m² görðum fengust 12 tunnur matjurta og hlunnindi voru áfram hin sömu. Jörðin var nytjuð frá kaupstaðnum og hey af henni flutt þangað. Tíu árum síðar var fasteignamatið 47 hundruð kr.
Bakkatún lá undir skemmdum vegna sjávarágangs en var 2 ha þegar kom fram á 20. öld. Bærinn var margfluttur undan sjó gegnum aldirnar og eru rústir þess sem síðast stóð nú að hverfa. Bakkafjörur og Bakkakambur hét neðan túnsins en norðan megin var Garðamýri og þar fyrir handan Garðar. Að vestan eru Pálshús og næst sjónum Dysjar.
Bakki-223Á Túnakorti árið 1918 má sjá tvær byggingar í bæjarstæðinu á Bakka alveg niður við sjó og er sú stærri líklega bærinn. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Bakkahryggur „er lá eftir vesturtúni Pálshúsa […] heiman frá bæ allt niður undir Bakka […] Bærinn stóð á Bakka og hafði verið marg oft færður undan sjó og eru nú rústir hans að falla niður í fjöruna.“ Bakkatún heitir „tún býlisins, sem sjór brýtur stöðugt til skemmda“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Niður af íbúðarhúsinu í Pálshúsum er u.þ.b 200 m langur hryggur niður að sjó. Hann heitir Bakkahryggur. Neðst á honum stóð bærinn á Bakka. Sjórinn brýtur nú stöðugt landið þarna, og er bakkinn niður í fjöruna víða ein til tvær mannhæðir. Bakki er löngu kominn í eyði og liggur undir Pálshúsum. Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er.“ Skv. fornleifaskráningu 1984 var Bakki „frammi á sjávarbakkanum í vestur frá Pálshúsum […] heimatúnið að baki (til austurs) sjávarbakkinn beint fram af“.
Túnakortið sýnir þrjú aflöng og samföst torfhús, miðhúsið minna en hin. Þau eru með standþili og snúa í norðvestur. Þessi hús stóðu skv. Fasteignabók enn árið 1932 (bls. 23) en þau eru ekki lengur sýnileg. Þarna er hins vegar tóft hlöðu sem byggð var ofan í þar sem bærinn stóð, um 8,5 x 7 m að utanmáli, þvermál að innan 3,5. Hún er með grjóthlöðnum hringlaga veggjum, göflum og bárujárnsþaki og virðist ögn niðurgrafin.
bakki-224Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er. Bretar byggðu þar tvö loftvarnarbyrgi á stríðsárunum, og eru þau nú að fara í sjó.“ Í Fornleifaskráningu 1984 segir að jarðhús hafi verið byggt ofan í eitt þessara byrgja „en þau voru mörg hér frammi á bakkanum, með skotgröfum á milli. Sumt er brotið af ofan í flæðarmál, annað á leiðinni þangað. Mikið brýtur hér af landi að sögn heimamanna í Pálshúsum.
Um Bakkastekk segir m.a.: Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Norður frá Bala er hraunsnef lítið“, Mónef. „Nokkru norðar þar sem Garðavegurinn liggur út af hrauninu, er“ Hvítaflöt, „vel gróin þúfnakargi. […] Nokkru norðar með hraunbrúninni gengur enn hraunsnef fram í mýrina“, Oddsnef eða Hraunsnef. „Norðar tekur við hraunsnef stærst af þessum hraunsnefjum“, Bakkastekksnef, „Þar austan við var stekkur frá Bakka, sér enn.“
bakki-225Í Örnefnalýsingu 1976 segir að Mónef gangi fram í Dysjamýri, en Hvítaflöt sé gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar  liggur upp á“ Garðahraun. „Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Bakkastekkur í skjólgóðum bolla sem opnast til norðurs „í hraunjaðrinum sunnan við austurenda nýræktar í Dysjamýri“. Hann er hringlaga, gerður úr þurri grjóthleðslu. Veggjaþykkt er um 1-1,1 m og er veggurinn vestan megin í hraunbrúninni. Þvermál að innan er um 5,6 en þvert á 5,3. Um 1,4-1,5 m breitt hlið er á stekknum austan megin og liggur aðhaldshleðsla úr grjóti frá því 16,5 m til austurs. Stekkurinn var ekki í notkun í tíð Tryggva Gunnarssonar núverandi ábúanda í Grjóta.
Um Bakkarétt segir: „Samkvæmt fornleifaskráningu 1984 er rétt: „…uppi af hraunnefninu suður af Dysjamýri. Í austur 65° frá Bala. Sléttlent og grösugt, hraunnibbur standa uppúr. Réttin er grjóthlaðin, óreglulega ferhyrnd, þó með rúnuðum hornum. Hlið er á móti hvoru öðru, sem vísa í suðaustur og norðvestur. Þessi rétt var notuð til skamms tíma samkvæmt upplýsingum. [Ekki kemur fram hver er heimildarmaður.] Við vettvangskönnun 2002 stóð réttin enn.“

Heimild:
-Þjóminjasafn Íslands árið 2004 – fornleifaskráning fyrir Garðahverfi 2003, bls. 10-16.

Bakki

Bakki við Bakka.

Garðahverfi

Eftirfarandi fróðleik um sögu og minjar Garða á Álftanesi (Garðahreppi) má lesa í skýrslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003:
„Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst.  Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum.
gardar-201Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“  og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“. Um tveimur áratugum síðar var þetta ein þeirra jarða sem Árni Þorláksson Skálholtsbiskup deildi um við veraldlega höfðingja og er greint frá því í sögu hans.

gardar-233

Staða-Árni eins og hann var nefndur réri að því öllum árum að kirkjan öðlaðist sjálfstæði í eigin málum og að allir kirkjustaðir kæmust undir hennar forsjá. Fékk hann m.a. þáverandi eiganda Garða, Sturlu Sæmundarson, til að sverja sér af hendi staðinn og lofa að „taka alldri síðan af kirkjufjám né hennar eign utan með biskups ráði“. Árni setti síðan systurson sinn Bjarna Helgason prest niður í Görðum. Leikmenn mótmæltu staðartökunni og fleiru í bréfi til biskups árið 1286 en þegar það bar ekki árangur kom goðorðsmaðurinn Hrafn Oddsson með herlið, stökkti séra Bjarna á brott og fékk Sturlu aftur „í hönd alla kirkjunnar eign“.
Næst eru Garðar nefndir í Alþingissamþykkt frá 1307 og er þá séra Jón Þórðarson kominn þangað til starfa.  Einhverjar heimildir eru svo um alla þá Garðapresta sem gegndu kallinu næstu aldir en þeir verða ekki taldir upp hér. Í máldögum árin 1397  og 1477  kemur fram að Garðakirkja var helguð Pétri postula og vel búin munum.
Meðal merkra kennimanna sem sátu á þessum kirkjustað má nefna Þorkel Arngrímsson (1629-77) sem tók við embætti árið 1658 og fékkst m.a. við skáldskap, þýðingar, útgáfur guðsorðabóka og lækningar. Séra Þorkell var í Görðum til 1677 og þar fæddist sonur hans, Jón Vídalín (1666-1720), sem gegndi prestsembætti á staðnum 1695-7. Eins og frægt er hófst hann síðar til biskups en þekktastur er hann líklega af hinni vinsælu húspostillu sinni sem við hann er kennd.  Séra Markús Magnússon (1748-1825) kom til starfa árið 1780 og stóð að stofnun Landsuppfræðingarfélagsins, Hins íslenska biblíufélags og fleiri menningarfélaga. Að beiðni nefndar til varðveislu fornminja, „Commision for Oldsagers Opbevaring“, sem stofnuð var árið 1807, skrifaði hann einnig merka Fornleifaskýrslu um Garðajarðir árið 1820.

gardar-230

Markús hafði forgöngu um mannvirkjagerð á staðnum og lét hlaða langan garð meðfram túnum bæjanna sem heyrðu undir Garða. Skv. manntölum voru hjá þessum prófasti 30 heimilismenn árið 1801  og 23 fimmtán árum síðar, um helmingi fleiri en öld áður hjá séra Ólafi Péturssyni en Manntal var líka gert í hans tíð.  Nefna má konu Markúsar, Þuríði Ásmundsdóttur, séra Sigurð Hallgrímsson „capellan“, hinn unga Jón Steingrímsson sem um skeið gegndi starfi skrifara, Guðmund Ormsson ráðsmann, Guðfinnu Bergsdóttur, unga frænku prófastins sem varð ráðskona hjá honum, Gísla Guðmundsson smið og Þórarinn Þorsteinsson smala. Auk þessa fólks voru á prestssetrinu tvö gamalmenni og fjögur börn, þrír vinnumenn og átta vinnukonur en bændasynir og dætur úr bæjahverfinu gegndu ýmsum störfum í Görðum. Markús hélt embættinu til æviloka. Skv. Manntali árið 1845 voru 25 í heimili hjá eftirmanni hans, séra Árna Helgasyni (1826-1894) sem skrifaði Lýsingu Garðaprestakalls árið 1843. Hann var prófastur 1825-58, mikilhæfur maður, stofnaði ýmis félög og gegndi biskupsembætti á tímabili. Frúin hans hét Sigríður Hannesdóttir en auk Óla Peter Finsens lærisveins, Ólafs Símonssonar gustukamanns og vinnuhjúa höfðu hjá þeim í húsnæði hjónin Magnús Brynjólfsson húsmaður og Þorbjörg Jónsdóttir.  Kirkja er enn í Görðum og jörðin í byggð.
Árið 1397 er getið um búfjáreign Garða: 30 sauðir, 6 hross og 33 nautgripir, þeirra á meðal tveir gamlir plóguxar eða „arduryxn“. Jafnframt kemur fram að tíu kornsáld voru færð í jörðina. Af þessu má ráða að jafnhliða kvikfjárrækt hafi á fyrri tímum verið stunduð kornrækt í Görðum. Reyndar eiga gömul akurgerði að hafa verið um ofanverð túnin a.m.k. fram á daga séra Markúsar og nefna má bæinn Akurgerði sem að vísu var þar sem nú er Hafnarfjörður en lá að fornu undir Garðakirkju. Forvitnileg í þessu sambandi eru einnig hin fjölmörgu gerði í hverfinu sjálfu en í sumum þeirra fór fram einhvers konar ræktun. Loks má minnast öldrykkju mikillar sem séra Þórður Ólafsson efndi til og greint er frá í Biskupsannálum árið 1530 en hann hefur kannski notað bygg af ökrunum til maltgerðar fyrir mjöðinn.  Í skrá frá árinu 1565 segir frá „bygging“ eða leigu á jörðum Garðkirkju, tekjum af þeim, kvikfénaði og ábúendum en ekkert er um prestsjörðina sjálfa.  Skráin var sett saman um það leyti sem séra Jón Loftsson var í Görðum, sá sem Presthóll í holtinu fyrir ofan er talinn kenndur við en þar áttu að vera álfar. Einnig er minnst á Garða í Gíslamáldaga árið 1570.
Þegar Árni Magnússon og Páll gardar-231Vídalín tóku saman Jarðabók sína árið 1703 var Ólafur Pétursson prófastur, fyrst 1695-6 og síðan aftur 1697-1719. Þá áttu Garðar 20 kúgildi, sum í leiguburði á eignajörðum og hjáleigum en heima fjórar kýr og ein leigukýr, ein þrevetra mjólkandi kvíga og önnur tvevetra geld. Auk þeirra voru 32 ær, 19 sauðir, 20 lömb, hestur, þrjú hross og tveir tvevetra folar.  Fóðrast kunnu ríflega 5 kýr og hestur og kemur á óvart að í Jarðatali Johnsens árið 1847 er aðeins tilgreint eitt kúgildi.  Jarðardýrleiki var lengst af óviss en taldist 40 hundruð frá 1697 og fram um miðja 19. öld og 48,8 ný hundruð í Jarðabók árið 1861. Í Fasteignabókum 1932 var jörðin með húsakosti metin á 207 hundruð kr.  en 154 hundruð kr. Á þessum tíma voru 8-8,5 kúgildi, 60 sauðir og tvö hross en undir lokin engir sauðir og aðeins eitt hross. Um 3200 m² garðar gáfu í fyrstu 40 tunnur matjurta en síðast aðeins 18 tunnur. Þegar Örnefnaskrá var gerð árið 1964 var Garðatún stórt en grýtt og skiptist í velli. Frá Garðatúngarði niður að hlaði nefndist Vesturgerði vestan heimatraðanna og Austurgerði austan þeirra. Skikinn vestan bæjarhúsa og kirkjugarðs hét Vesturflatir en austan megin voru Austurflatir. Lindarflöt kallaðist loks völlurinn frá kirkjugarðinum að Garðamýri eða Garðatjörn, kennd við Garðalind í túnjaðrinum.

Gardar-299

Í mýrinni sem náði að sjó voru útheysslægjur og torfrista og slógu hjáleigubændur þar dagslætti fyrir kúabeit. Hún tilheyrði að fornu jörðinni Bakka sem lá upp að henni sunnan megin en séra Þorkell lagði hana til Garðastaðar vegna skorts á slægjum og torfi.  Nytjaland Garðastaðar var annars að miklu leyti ofan og austan við hverfið, handan hins mikla Garðatúngarðs. Næst honum var Garðaholt og austur af því Garðahraun. Í nyrsta hluta þess, Gálgahrauni, var beitiland frá Görðum en úthagar í næsta nágrenni voru þröngir og snögglendir. Selstaða var við Kaldá og í Kirkjulandi ofan byggðarinnar frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi. Sjórinn var stundaður allt árið frá Görðum og jörðum í kring. Heimræði var og mikil hrognkelsaveiði en miðin skammt frá landi. Einnig var þó róið á fjarlægari mið. Lendingar voru góðar en öll stærri býlin höfðu uppsátur í sérstökum vörum sem fylgdu þeim og voru við þær kenndar. Auk þess voru náttúrulegar bryggjur við syðstu jarðirnar og við þá nyrstu, Hausastaði. Frá henni lá Hausastaðakambur meðfram sjánum ofan vara allt að Miðengi og á honum var skiptivöllur með búðum og hjöllum frá bæjunum. Við suðaustari jarðirnar nefndist hins vegar Garðagrandi. Þar framan við voru sker og grynningar sem mynduðu nokkurs konar hring eða kví um fjöru með mörgum þröngum sundum á milli og kallaðist það Garðatjörn.  Skelfiskafjara var en fór til þurrðar þegar um 1700. Gengt var í fjörunni en lítil rekavon. Hins vegar átti Garðakirkja á 14. öld og e.t.v. lengur allan viðreka og hvalreka frá Rangagjögri og Leitukvennabásum að Kálftjörningafjöru. Fram eftir öldum var nóg af nýtanlegum fjörugrösum. Aðalsölvatekjusvæðið var á Hausastaðagranda sem lá út á sjó frá Hausastöðum og fór í kaf á flóði.

gardar-234

Marhálmur óx við sjávarlón á norðurmörkum hverfisins, Skógtjörn norðan Hausastaða og Lambhúsatjörn norðan hins sameiginlega nytjalands. Í Örnefnalýsingu frá árunum 1976-7 er lýst mikilli þang- og marhálmstekju á Hrauntanga við Lambhúsatjörn. Var þangið þar skorið í fjörunni og látið reka upp í flóðfar með aðfalli en síðan borið á þerrivöll og þótti best ef rigndi fyrst því þá losnaði það við saltið og þornaði fyrr. Suðaustur úr Skógtjörn gékk svolítil tota sem nefnd var ýmist, Litlatjörn, Aukatjörn, Hausastaðatjörn eða Álatjörn. Síðasta nafnið tengdist Álamýri norðaustur af tjörninni en þar veiddu Garðhverfingar ála og seldu til Reykjavíkur. „Þeir veiddust helst í ljósaskiptum.“ Á þessum slóðum fóru einnig fram annars konar veiðar: „Mýrarhóll er austast í Álamýri og Skothóll austur af honum. Við Skothól eru klettar. Þar lágu menn fyrir fugli, er flaug fyrir, einkum álft, sem sótti í marhálminn við Skógtjörn. Þegar hækkaði í tjörninni og marhálmurinn fór í kaf, flaug álftin upp á Urriðakotsvatn og Vífilstaðavatn. Fóru menn þá á Skothól, þegar tók að flæða. Nú er allur marhálmur horfinn úr Skógtjörn.“ Skammt undan var líka mikið æðarvarp og tóftir á Eskinesi sem skilur milli Lambhústjarnar og Arnarnesvogs bera enn vitni um tilraun til æðarræktar á dögum Þórarins Böðvarssonar (1825-95) Garðaprests  1868-95. Mór var skorinn í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog og í Dysjamýri við syðstu jörðina Dysjar en norðan í henni hefur kannski einnig verið torfrista. Auk þess var skógur Garða nýttur til kolagerðar en bæði mór og viður voru farin að eyðast um 1700. Mosi var tekinn í Gálgahrauni og lyng rifið til eldiviðar en „hvergi er nú skógarhrísla eða lyng í hrauninu nema næst Hraunsholtinu“ austan megin.
Bæjahverfi það sem með tímanum myndaðist kringum kirkjustaðinn lá meðfram sjávarsíðunni á leiðinni út á Álftanes og nefndist Garðahverfi. Með vísun til bæjatúnanna innan garðs var einnig stundum talað um Garðatorfuna. Garðar sjálfir eru rétt suðaustan við miðju hverfisins, næst þeim norðan megin hjáleigan Ráðagerði og niðri við sjó Miðengi en sunnan megin Nýibær og Pálshús. Handan Garðamýri hjá sjónum var auk þess Bakki, eitt af lögbýlunum og suður af því Dysjar sem líka var lögbýli. Norðvestan megin í hverfinu voru svo Hlíð, lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr því, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir.

gardar - midengi

Allar þessar jarðir lágu undir Görðum og á sumum voru á tímabilum minni hjáleigur og þurrabúðir. Mýrarhús , Sjávargata, Hóll og Garðabúð voru við mýrina neðan Garða, Krókur, Garðhús, Háteigur og Höll við nytjalandið ofan þeirra. Þar í landi Hlíðar voru einnig Gata, Holt og Sólheimar en Hlíðarkot var í miðju túni og Dysjakot á Dysjum. Á mörkum Hlíðar og Hausastaðakots var Grjóti og í landi Hausastaða þrjú ef ekki fleiri býli, Kaldakinn, Katrínarkot og Arndísarkot á tanganum Skreflu, vestasta hluta hverfisins. Hvar Óskarbúð var er ekki vitað með vissu og sum býli eru nafnlaus. Í Manntölum er t.d. oft greint frá tómthúsfólki og húsfólki á aðaljörðunum án þess að getið sé um bústaði en tómthúsmenn bjuggu venjulega í sjálfstæðu húsnæði og húsmenn oft líka þótt sumir fengju inni á bæjum. Býlin í Garðahverfi hafa þó verið a.m.k. þau 34 sem hér á eftir eru skráð, á stundum trúlega færri eða fleiri. Skammt var á milli heimila og kominn vísir að smáþorpi enda virðast menn sums staðar hafa verið farnir að sérhæfa sig í ákveðnum störfum. Á prestssetrinu hefur verið miðstöð mannlífs en einnig var um skeið skóli á Hausastöðum og þingstaður en hann var fluttur í Garða. Bændur hverfisins skiptust á að gegna embætti hreppstjóra. Ljósmóðir var á Dysjum og hafnsögumaður á Bakka og Ósk í Óskarbúð rak svolitla verslun. Sumir eins og Guðmundur Einarsson vefari lifðu af handiðn sinni, handverkskonur og trésmiðir voru víða en gull- og silfursmiðir höfðu aðsetur í Ráðagerði. Mikið flakk var á fólkinu, a.m.k. þegar kom fram á 19. öld og þegar gömlu ábúendurnir fluttu tóku oftast við óskyldir menn. Nokkuð var þó um að fólk færi búferlum innan hverfisins og óvenjuleg nöfn eins og Ormur, Illugi og Nikulás sem skjóta aftur og aftur upp kolli í hverfinu gegnum aldirnar benda til innbyrðis skyldleika íbúanna. Ætla má að grjóthlöðnu gerðin sem eru sérkennandi fyrir Garðahverfi hafi tengst þéttbýlinu. Innan þeirra hefur verið sú litla lóð eða grasnyt sem hvert býli hafði. Flest eru kennd við búðirnar sem þau tilheyrðu: Hallargerði, Sjávargötugerði, Holtsgerði o.s.frv. Nokkur eru nöfnin tóm og hafa komið upp ýmsar getgátur um þau, Pálshúsagerði í Pálshúsatúni t.d. verið bendlað við akuryrkju og Hausastaðatúngerði á Hausastöðum talið landamerkjagarður en orðið gerði getur bæði vísað til ræktarlands og hlaðins garðs.
Hausastadir-221Í hverju bæjatúni var svolítill brunnur og sérstakar brunngötur til þeirra. Mikilvægasta vatnsbólið var þó Garðalind sem aldrei þraut og í hana sóttu öll heimilin vatn þegar þurfti. Til þessa hjarta Garðahverfis lágu að lokum allar leiðir en býlin tengdust með innbyrðis vegakerfi. Frá Hausastöðum og býlum þar lá gata yfir í Hausastaðakot og áfram í Grjóta, þaðan niður í Móakot eða yfir í Hlíð. Frá Hlíðabæjum lágu leiðir vestur í Götu og Háteig og Hlíðarbrunngata suður í Miðengi og síðan líklega áfram eftir jaðri túns og mýrar að Garðalind. Traðir tengdu saman Götu og Holt, Háteig og Ráðagerði en þaðan lá gata til kjarnans  í Görðum. Frá hinum búðunum við Garðatúngarð var farið um Garðatraðir niður að kirkju og prestssetri og þangað var sérstakur stígur, Króksbrunngata, úr Króki. Þá lágu traðir milli suðaustustu býlanna Dysja, Pálshúsa og Nýjabæjar og frá þeim síðastnefnda í Garða en þaðan mátti loks ganga um Garðabrunngötu að Garðalind. Hins vegar lá Bakkabrunngata beint frá Bakka upp kringum mýrina og að lindinni.
Þurrabúðarfólkið við Garðamýri hefur trúlega notað dysjar-224Sjávargötu sem lá milli þeirra og sjávarins annars vegar, Garða hins vegar, og síðan Hlíðarbrunngötu til að komast alla leið. Sérstakar sjávargötur lágu frá bæjum niður að sjávarhliðum í varnargarðinum ofan vara og neðan syðri jarðanna lá Bakkastígur eftir sjávarbökkum. Víðar hefur verið gengið við sjóinn en frá sjávarhliði Hausastaða lá svo nefnd Hliðsnesgata, framhjá Katrínarkoti og Arndísarkoti út á Skreflu og að Oddakotsósi. Þar varð svo að fara á bát yfir í Hliðsnes á móti. Í hina áttina lá gatan meðfram Skógtjörn, framhjá Köldukinn, og yfir grjóthlöðnu brúna Stíflisgarð. Þar var áður aðalleið úr hverfinu út á Álftanes. Í vestur lágu einnig Hausastaðatraðir frá Hausastöðum en slíkar traðir við bæina kenndar lágu frá þeim mörgum að hliðum á Garðatúngarði. Þaðan lágu leiðir svo út í nytjalandið og til næstu byggðalaga. Þannig lágu Garðatraðir frá Görðum um Garðahlið þar sem við tók Garðagata og hlykkjaðist þvert yfir Garðaholt að Garðastekk í jaðri Garðahrauns. Framhald stekkjargötunnar lá svo upp í hraunið nokkru norðar þar sem hún sameinaðist að lokum hinni fornu þjóðleið milli Álftaness og Reykjavíkur, Gálgahraunsstíg nyrðri, Fógetastíg eða Álftanesgötu. Sú gata lá á kafla meðfram Lambhústjörn og Arnarnesvogi. Þar í Hraunviki greindist annar stígur frá henni,
Móslóði og lá í suðvestur um dysjar-225Garðahraun og Flatahraun í Garðahverfi. Um hann var farið með hesta klyfjaða mó úr Hraunholtsmýri en þessi vegur var sá austasti þeirra sem lágu yfir Garðahraun. Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét leiðin yfir hitt mósvæðið sem náði milli Garða og Flatahrauns en var kirkjugata því hana fóru Hafnfirðingar þegar þeir ætluðu í Garðakirkju. Dysjabrú var þá lokakaflinn á leið þeirra, frá svo kölluðu Mónefi sem skagaði vestur úr hrauninu. Vegurinn yfir hraunið að nefinu hét hins vegar Gálgahraunsstígur syðri og náði alveg frá Hafnarfirði. Dysjabrú var þó ófær í miklum leysingum og varð þá frá Gatnamótum vestast við Garðaholtsenda að fara Kirkjustíg yfir holtið og að Görðum. Hann lá vestur frá Urriðakoti og Setbergi um Gatnamót þar sem göturnar mættust.

Garðar

Garðar – túnakort 1918.

Girt var milli túna einstakra jarða Garðahverfis og kringum það í heild. Varnargarður lá eftir sjávarkambinum að vestan og norður við Skógtjörn og Garðatúngarður skildi milli Garðatorfunnar og nytjalandsins austan megin. Mörk alls þessa svæðis náðu frá Balakletti við sjóinn suðaustan Dysja að Oddakotsósi á Hliðsnesi gegnt Skreflu og yfir Skógtjörn þvera, um Markatanga við Núpslækjarós, áfram um Lambhúsatjörn og austur í Eskines, þaðan lengst suður í Engidalsnef og svo aftur vestur í Balakletta. Innan þessara marka voru að fornu einnig jarðirnar Bali í suðurendanum og Selskarð milli Skógtjarnar og Lambhústjarnar. Þegar í máldögum 14. og 15. aldar kemur fram að Garðakirkja átti allt heimaland, Dysjar, Bakka, Hlíð, Hausastaði, Selskarð, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. Á 16. öld bættust við Nýibær og Pálshús, Vífilstaðir, Akurgerði og Hamarskot og ítök staðarins lágu miklu víðar. Í Örnefnaskrá segir: „Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaðar kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. […] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi.“.  Í Landamerkjaskrá frá 1890 eru tilgreind víðari „merki á landi Garðakirkju á Álptanesi, samkvæmt máldögum og fornum skjölum:
1. Í móti Oddakoti í miðjan ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarð í Oddakoti. […]
2. Úr ósnum norður í hóla hjá Skógtjörn, er þar hlaðin merkjavarða; þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólum hjá Núpsstíflum, þar er og hlaðin merkjavarða. […]
3. Útí miðja tjörn þá, sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns og í miðjan tjarnarósinn og í mírina Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum uppí Stóra Krók á sama læk og úr því keldudragi, fjallid eina-21sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina uppí Dýjakrók […] þaðan í midt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýri beina línu til austur landsuðurs í miðja Kjóavelli, þaðan beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan í austur landsuður uppí Hnífsós, þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Standartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil í Undirhlíðum), sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna, þaðan móts við Jófríðarstaðaland í norður vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðvesturs í vörðu  á Heiðarþúfum, þá sömu línu í norðuröxl á Mosahlíð, enn sömu línu í vörðu norðanhallt á Kvíholti, loks sömu línu miðt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu fremst á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn.
Þaðan land allt með Hafnarfirði norðaverðum vestur í ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti. […] Innan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar, þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Lan[g]moakot-21eyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir, sem allar hafa afmörkuð tún og rjett til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliða nota, en ekkert inskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhús sömuleiðis.“ Innan merkjanna eru einnig Vífilstaðir, Setberg, Urriðakot, Hofsstaðir, Hagakot og Akurgerði.
Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928: „Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“ Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“ Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
gardar-230Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for. Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu „byggingar staðarins […] á Bæjarhólnum austan kirkju […]  ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu“. Örnefnalýsing 1976 hefur þetta: „Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]“. Í grein frá árinu 1904 (bls. 34) segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn „þar sem Garðastaðarkirkja stóð“ kallaður „Kirkjuhóll“. Í Örnefnalýsingu 1976 segir hins vegar: „Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið.
Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.“ Núverandi kirkja var reist árið 1966 (Þ.J. og S.S.: 226).
gardastekkur-21Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: „Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðaholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.“ Árið 1918 voru „um 40 minnisvarðar“ í Garðakirkjugarði“.
Á Túnakorti 1918 sést hús úr torfi nokkru vestan Sjávargötugerðis, við Sjávargötuslóðann skammt frá sjónum og landamerkjum við Miðengi. Þetta gæti verið „verbúð frá Görðum“ sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Búðin, og „stóð ofanvert við vörina“, þ.e. Garðavör, „ofan við Garðasjó“. Kringum hana og aðallega ofan hennar var Búðarflötin og fyrir „framan hana var skiftivöllur“. Í Örnefnalýsingu segir: „Grasi gróinn hóll, sléttur að ofan, er á kampinum á milli Miðengis og Garða. Hér áður mun hafa verið sjóbúð á þessum hól, en þess sjást nú engin merki.“ Líklega er þetta hóllinn sem við Fornleifaskráningu 1984 er kallaður Garðabúð eða Búð og er suður „frá bænum í Miðengi, alveg niður við flæðarmálið“, túnið ofan við en sjórinn að framan. Núna er þarna áberandi grænn hóll. Lengd hans meðfram sjávarmálinu er 8,5-9 m og breiddin um 5 m. Í honum er  hleðslugrjót en lögun tóftarinnar sést ekki. Á a.m.k. einum stað utan í honum sér í mikið af skeljum.
gardastekkur-22Garðabúð var skv. Jarðabók og Manntali árið 1703 (bls.18) nýbyggð hjáleiga frá Görðum og tók í raun við af hjáleigunni Skemmu. Ábúendur voru hjónin Jón Þórðarson og Ingunn Ingimundardóttir, heimilismenn þrír talsins. Jarðardýrleiki var óviss en séra Ólafi Péturssyni greidd 40 álna landskuld með tveimur fiskavættum eða peningum upp á fiskatal. Leigukúgildi, venjulega eitt, var ekkert hjá Jóni þetta ár en hann átti kýr sem fóðraðist naumlega, ær með lambi, þrjá veturgamla sauði, tvo hesta og hross með fyli. Kvaðir allt árið voru mannslán sem leyst var með hálfum skipshlut af tveggja manna fari ábúanda og einn dagsláttur. Hætt var að heimta hrísshest sem áður hafði fylgt afgjaldi af Skemmu. Garðabúð hafði „grasnautn hina sömu“ og Skemma áður. Staðarhaldari lagði við til húsabótar en bóndi hafði móskurð í landi Garða. Garðabúð er ekki nefnd í síðari Manntölum og Jarðabókum.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, fornleifaskráing fyrir Garðahverfi 2003, bls. 24-60.

Garðar

Garðar.

Hafnarfjörður

Í Morgunblaðinu 1964 er m.a. fjallað um makaskipti á jörðum í Hafnarfirði og Garðahreppi undir fyrirsögninni „Garðahreppur og Hafnarfjörður skipta á jörðum“: „Matthías Á. Mathiesen hafði framsögu á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til laga um lögsagnar umdæmi Hafnarfjarðar-kaupstaðar. Þar er lagt til, að kaupstaðurinn og Garðahreppur skipti á löndum. Flutningsmenn frumvarpsins eru Matthías Á. Mathiesen, Geir Gunnarsson, Jón Skaftason og Birgir Finnsson. Frv. hljóðar svo ásamt greinargerð:

Balavarða

Landamerkjavarða við Bala.

1. gr. Hafnarfjörður skal vera lögsagnarumdæmi út af fyrir sig með kaupstaðarréttindum. Takmörk kaupstaðarsvæðisins eru þessi:
A. 1. Bein lína úr „Balaklöpp: við vesturenda Skerseyrarmalar í vörðu við veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, sem er gamalt hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Þaðan bein lína í Miðaftanshól, sem er gamalt miðaftansmark frá Vífilsstöðum.
4. Þaðan í vörðu í Stórakrók.
5. Þaðan í vörðu í neðstu jarðbrú í Kaplakrika.

Engidalsvarða

Engidalsvarðan.

6. Eftir Kaplalæk í vörðu við hraun jaðarinn, beint vestur af stað þeim, þar sem Kaplalæk er veitt úr eldri farvegi sínum, rétt norðan við Baggalár, vestur af Setbergslandi.
7. Þaðan bein lína í stíflugarð rafstöðvarinnar.
8. Eftir stíflugarðinum, yfir tjörnina.
9. Upp með rafstöðvartjörninni að sunnan, þar til kemur að nýju Reykjanesbrautinni.
10. Meðfram norðurbrún nýju Reykjanesbrautarinnar, þar til hún sker eignar markalínu Setbergs og Hafnarfjarðar, sem er úr stíflugarðinum í markaþúfu við gömlu sand gryfjurnar, þ.e. um miðja lóðina nr. 3 við Stekkjarkinn.
11. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar.
12. Þaðan í Lækjarbotna.
13. Þá í Gráhellu.
14. Þaðan í miðjan Ketshelli.

Hádegishóll

Varða á Hádegishól.

15. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegi í Kaplatór (Strandartorfur).
16. Þaðan bein lína í Markraka.
17. Þaðan bein lína um Melrakka gil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi.
18. Þaðan bein lína í Markhelluhól.
19. Þaðan í Hraunkrossstapa.
20. Þá í Miðkrossstapa.
21. Þá í Hólbrunnshæð.
22. Þá í Stóra-Grænhól.
23. Þá í Skógarhól.
24. Og í Markaklett við Hraunsnes.

Langeyri

Landamerkjavarða við Hvíluhól v/Hrafnistu.

B. Sá hluti jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar, sem Hafnarfjarðar-kaupstaður á. Allt land innan ofangreindra takmarka telst til lögsagnar-umdæmisins. Kaupstaðurinn skal setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og halda þeim við.
Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu skal jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins.
2. gr. Með lögum þessum eru úr gildi felld lög nr. 33/1929, ásamt breytingu á þeim lögum, nr. 31/1959, um bæjarstjórn í Hafnarfirði, s
vo og 3. tl. 1. gr. laga nr. 11/1936.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

 

Middegisholl-varda

Varða á Miðdegishól.

Bæjarstjórnin í Hafnarfirði og sveitarstjórnin í Garðahreppi hafa með bréfi, dags. 27/4 1964, sem prentað er sem fylgiskjal hér á eftir óskað eftir því, að frumvarp til laga um breytingu á lögsagnarumdæmi þessara sveitarfélaga verði flutt og samþykkt á yfirstandandi þingi.
Eins og fram kemur í bréfinu, er hér náð endanlegu samkomulagi um þessi mál, en á undanförnum árum hefur mál þetta verið á dagskrá þessara sveitarfélaga.

Fylgiskjal.
Hafnarfirði, 27. apríl 1964.
Hr. alþingismaður,
Matthías Á. Mathiesen,
Hafnarfirði.
Að undanförnu hafa farið fram viðræður á milli fulltrúa frá Hafnarfjarðarkaupstað og Garðahreppi um breytingu á lög sagnarumdæmismörkum milli sveitarfélaganna, svo og eftirgjöf á réttindum þeim yfir landi úr fornu Garðatorfunni í Garðahreppi, Gullbringusýslu, er Hafnarfjarðarkaupstaður öðlaðist með leigusamningi við landbúnaðarráðherra f.h. jarðeignadeildar ríkisins, dags. 14. nóv. 1940.

Markhella-222

Markhella.

Niðurstöður þessara viðræðna hafa orðið þær, að samkomulag hefur náðst, sem staðfest hefur verið af hreppsnefnd Garðahrepps á fundi hennar þann 1. apríl sl. með eftirfarandi samþykkt: „Hreppsnefnd Garðahrepps samþykkir fyrir sitt leyti, að lögagnar-umdæmismörkum Hafnarfjarðar-kaupstaðar verði breytt þannig, að það land, sem nú er sunnan Hafnarfjarðar og innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps, þ.e. svokallaðar hraunajarðir, verði framvegis innan lögsagnar umdæmis Hafnarfjarðar.
Samþykkt þessi er bundin því skilyrði, að Hafnarfjarðarbær afsali til Garðahrepps þeim landsspildum, sem bærinn hefur á leigu frá jarðeignadeild ríkisins og eru innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps. Jafnframt verði tryggt, að Garðahreppur fái fullan umráða rétt yfir þessum landsspildum, með leigusamningi við jarðeignadeild ríkisins, enda verði þau ákvæði laga nr. 11/1936, sem varða umræddar landsspildur felld úr gildi“.

hafnarfjardarkirkja-222

Hafnarfjarðarkirkja.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar gerði á fundi sínum þann 21. þ. m. um málið svo hljóðandi ályktun: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir fyrir sitt leyti, að lögsagnar-umdæmismörkum milli Hafnarfjarðar-kaupstaðar og Garðahrepps verði breytt á þá lund, að hluti Garðahrepps, sem liggur sunnan við Hafnarfjörð, verði framvegis innan lögsagnar umdæmis Hafnarfjarðar. Jafnframt lýsir bæjarstjórn því yfir, að hún er reiðubúin til þess að falla frá leigurétti sínum að ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnesveg skv. leigusamningi, dags. 14. — 11. — 1840, þegar er framangreind breyting á lögsagnarumdæmismörkunum hefur átt sér stað. Leigusamningar við einstaka aðila, sem stað eiga í greindum samningi, skulu þó áfram vera í gildi.
Samþykkt þessi er gerð með því skilyrði, að Garðahreppur falli frá öllum kröfum, er hann kann að eiga til bóta fyrir lögsagnarumdæmis-breytinguna“. Með hliðsjón af ofangreindu samkomulagi leyfum vér oss að fara þess á leit við yður, herra alþingismaður, að þér hlutizt til um, að flutt verði á Alþingi því, er nú situr, frumvarp til laga um breytingu lögsagnarumdæmis þessara sveitarfélaga, er samrýmist ofangreindum samþykktum sveitarfélaganna.

Virðingarfyllst, Ólafur G. Einarsson.
Sveitarstjórinn í Garðahreppi.
Hafsteinn Baldvinsson.“

Heimild:
-Morgunblaðið 6. maí 1964, bls. 8.

Setbergssel

Markavarðan í Setbergsseli.

Kaldársel

Hér verður drepið niður í skrif Ólafs Þorvaldssonar um „Sögu Kaldársels„. Þau birtust í bók hans „Áður en fífan fýkur„, sem gefin var út af Skuggsjá 1968:

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

„Á þeim tíma, sem menn ferðuðust um landið á hinum frumstæðu farartækjum, svo sem eigin fótum eða á hestum, bar allvíða fyrir augu þeirra sitthvað, sem minnti þá á, að þar hefði einhvern tíma fólk hafst við eða haft nokkurn umgang lengur eða skemur. Víða gat að líta rústir og tóttabrot, misstæðileg eftir aldri og efni þeirra. Sums staðar var þyrping húsatótta, sem bentu til þess, að þar hefði bær verið, og oft mátti rekja húsaskipan greinilega. Allt voru þetta þegjandi vitni þess, að þar hefðu endur fyrir löngu menn að verki verið, sem byggðu úr íslensku efni að mestu.

Eftir framanskráðar hugleiðingar um hin fornu eyðibýli skal nú vikið að einu þeirra. Þetta býli er Kaldársel. Staður þessi hefur nokkuð komið við sögu síðustu áratugina, einkum Hafnarfjarðar.

Áður en fífan fýkur

Kápa bókarinnar „Áður en fífan fýkur“.

Ég held því, að ekki sé úr vegi að tína hér nokkuð til af því, sem vitað er um þennan stað áður en hinn nýi tími hélt þar innreið sína. Mun spora þess tíma getið síðar, og þá í þeirri tímaröð, sem þau hafa verið stigin.

Býli þetta á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður, og ekki er saga þess á nokkurn hátt frábrugðin sögu svipaðra smábýla á þeim tíma, – en sögu á þetta býli samt – „sigurljóð og raunabögu“. En að Kaldársel eigi sér nokkra sögu, áður en nýi tíminn nemur þar land, mun ekki almenningi kunnugt, og fækkar nú óðum þeim, sem nokkuð vita þar um, umfram það sárafá, sem fært er í letur, þó á víð og dreif, ýmist prentað eða óprentað.

Kaldársel liggur í 6-7 km fjarlægð suðaustur frá Hafnarfirði. Staðurinn dregur nafn af lítilli á, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfá metra frá Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel.

Áin rennur á mótum tveggja hrauna, hefur annað komið frá suðri, hitt úr Búrfelli, norðaustur af Kaldárseli. Það þarf ekki lengi að virða fyrir sér þessi hraun til að sjá, að ekki hafa þau úr sama eldgígnum komið, svo ólík er þau að flestu, hraunið sunnan Kaldár tilbreytingarlítið og snautt af gróðri, nema grámosa, allt til Óbrennishóla en kringum Kaldársel með margs konar gróðri. Gjár eru þar með vatni í botni og hraunmyndanir eru þar margvíslegar, og mætti helst líkja þeim við suma staði við Mývatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir Friðrik Friðriksson. Hver þetta nefnist „Útilegumenn“ og heitir aðalkvæðið „Kaldársel„. Fyrsta erindið er svona:

Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni, gömlu býli
og bæjarrústum:
Einmana tóttir eftir stóðu.

Næsta erindi var svona:

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölun gaf sál
og sæla gleði.

Selstöð í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel – túnakort 1903.

Elstu heimild, sem ég hef séð um Kaldársel, er að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í III. bindi, bls. 180, í sambandi við Garða á Álftanesi: „Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott“. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar, án kvaða eða afgjalds, og því augljóst, að staðurinn hefur átt landið, og hefur sjálfsagt sá eignarréttur verið ævaforn, og eflaust hefur þar engin breyting á orðið, þar til Hafnarfjarðabær kaupir árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, og er Kaldársel í þeim keypta hluta.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Þó er það engan veginn óhugsandi. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar, sem leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar að elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í að minnsta kosti eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að leigja land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem var þar í búskap mann, þegar jarðamat fór fram, 1703, sést, að bændur þar hafa allir búið við sátt, og varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var fullkomlega helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem var selstöðin við Hvaleyrarvatn. – Í fyrrnefndri Jarðabók frá 1703 segir, að Hvaleyri eigi selstöð, þar sem heitir Hvaleyrarsel, og séu þar sæmilegir hagar og gott vatnsból. Vitað er, hvar þessi selstöð hefur verið, hennar sjást glöggar minjar enn í svonefndum Selhöfða suður af Hvaleyrarvatni; þar nálægt er einnig Seldalur og Selhraun.

Kaldársel

Kaldársel – uppdrættir og ljósmyndir Daniel Bruun.

Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er að hjónin Jón Hjartarson (Hjörtsson var hann oftast nefndur) og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón Hjartarson keypti Hvaleyrina ásamt öllum hjáleigum, sem voru sex, árið 1842. Jón mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið á Hvaleyri. Þórunn, kona hans, var kvenkostur góður og skörungur mikill, og var hennar meir getið til allra búsforráða heldur en manns hennar, sem þó var hinn mætasti maður. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873, að einu ári undanteknu, en var þar þó það ár. Þórunn dó 1880.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun 1897.

Góðar heimildir tel ég mig hafa fyrir búskap þessara Hvaleyrishjóna, eftir að þau komu þangað. Foreldrar mínir þekktu þau allvel, einkum þó Þórunni, þar eð hún lifði mann sinn í fjórtán ár.

Þegar Þórunn dvaldist í „Selinu“ á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar í hólmum, þar sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Hvert skipti sem hún gekk heim í „Selið“, bar hún með sér það, sem hún kom í svuntu sína af heyinu. Þessi sjaldgæfa vinnuaðferð Þórunnar lýsir hyggindum hennar og nýtni vinnuaflsins, svo sem verst mátti verða, og var talið einsdæmi, jafnvel þá.

Kaldárstígur

Kaldársel – Kúastígur.

Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Eftir því sem best verður vitað, hafa selfarir Þórunnar á Hvaleyri verið þær síðustu í Garðahreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.

Kaldársel verður fastur bústaður

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Í Húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn, eftir því sem fyrrnefnd húsvitjunarbók ber eðs ér. Þessa fólks er ekki aftur getið í Kaldárseli, þó mun Jón hafa verið þar tvö eða þrjú ár, þó varla nema tvö, eftir því sem sonur Jóns, Sigurjón, hefur sagt mér, en hann lifir enn.

Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Óhægur var þeim búskapurinn og sáu þau brátt, að í Kaldárseli var þeim engin framtíð búin. Þau voru einyrkjar og höfðu engin tök á hjúahaldi sökum fátæktar, en unglingsstelpa var þeim lánuð við og við, húsfreyju til hjálpar, einkum þegar bóndi fór að heiman til matfanga. Þessi hjálparstelpa var Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi, móðir Árna Helgasonar ræðismanns í Chicago. Efir hina skömmu dvöl Jóns í Kaldárseli fluttist hann að Ási í Garðahreppi í byggingu Vigfúsar Vigfússonar og Úlfhildar.

Við burtför Jóns frá Kaldárseli lagðist þar búskapur niður um nokkur ár.

Þorsteinn í Selinu

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Standinum; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1876 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir burtför áðurnefnds Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi Kaldársels, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. þetta ár telur húsvitjunarbók þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili, og hefur þá bæst við vinnukona.

Svo er að sjá, að manntal hafi ekki verið tekið í Kaldárseli frá 1877 fram til 1881. Það er þó vitað, að Þorsteinn var þar þau ár. Árin 1881 og 1882 eru fimm og sex manns í heimili hvort árið, þar á meðal vinnumaður og vinnukona, auk barns, sem er talið sveitarómagi, og vikadrengs. Árið 1883 virðist allmikil breyting hafa orðið á fólkshaldi Þorsteins, því að þá er hann orðinn einn í Kaldárseli.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli. Fjárborg efst og stekkur og fjárskjól undir að vestanverðu.

Sama er að segja um árið 1884. Árið eftir hefur nokkuð úr þessu raknað. Þá fer til Þorsteins stúlka úr Hafnarfirði, Sigríður Bjarnadóttir, og er hún hjá honum þegar hann deyr í Kaldárseli 14. júlí 1886, þá 67 ára. Þar með lauk búsetu í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Báðir hafa þessir fyrrnefndu búendur Kaldársels setið í byggingu Þórarins prófasts Böðvarssonar að Görðum á Álftanesi, þar eð hann hafði öll umráð yfir landi Garðakirkju, en í því lá Kaldársel, eins og fyrr er getið. Ekki hefur mér tekist að hafa upp á byggingarbréfum eða öðrum skriflegum leiguskilmálum, hafi þeir nokkrir verið. Í manntalinu 1867 er Jón, sem áður er nefndur, talinn þurrabúðarmaður, en Þorsteinn er aftur á móti nefndur bóndi.

Þegar Þorsteinn í Kaldárseli fellur frá eru þar nokkrar byggingar og önnur mannvirki, þar á meðal matjurtagarður ekki svo lítill, og lá frá bænum niður að ánni mót suðri, einnig vörslugarður af grjóti umhverfis túnið. Ætla verður, að mest af þessu, jafnvel allt, hafi verið verk Þorsteins, og styður það þá tilgátu, að öll hús eru seld á opinberu uppboði, haustið eftir dauða Þorsteins, ásamt gripum hans og öllum eftirlátnum munum.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Gamla selið (tilgáta) sett inn á ljósmyndia.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

– Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir meðal annars um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman, en almennt sé annars staðar byggt úr grjóti og torfi eða mýrarhnaus, þar sem grjóts sé vant. Tættur þessar gætu staðið enn lítt eða ekki haggaðar, ef menn hefðu ekki skemmt þær með því að taka úr þeim grjót til einhverra nota. Þó stendur þar enn, eftir sem næst 90 ár, það mikið, að vel sést, hver húsaskipan þar var. tel ég illa farið, að tættur þessar skyldu ekki fá að standa óáreittar og þeim haldið við, ef steinar féllu úr hleðslu, efir því sem þörf gerðist.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1897.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eða heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norðan frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Eitt sérkenni var á flestu fé Þorsteins, það var ferhyrnt, með fáum undantekningum. Fé þetta var oft nefnt horseigt.

Kaldársel

Kaldársel

Þorsteinn í Kaldárseli var alla tíð ókvæntur og barnlaus, bjó með bústýrum þau ár, sem hann var í Selinu, en þau munu hafa verið tíu. Áður var hann búinn að vera allmörg ár á Lækjarbotnum í Seltjarnarneshreppi og þá ýmist skrifaður bóndi eða vinnumaður. Þá bjó á Lækjarbotnum hinu eldri, sem stóðu suður með Selfjalli, og munu sjást þar enn bæjartóftir og fleiri mannvirki frá þeim tíma, ekkja, Hallbera að nafni, stórbrotin kona í meira lagi, en tröll í tryggðum og mannkostum, þar sem henni þótti við eiga. Þorsteinn mun hafa haldið fé þeirra mest á útigangi, það er litlar voru slægjur í Lækjarbotnum.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Eggert G. Norðdahl á Hólmi hefur sagt mér, að efst í heiðmörk sé hellir, sem Þorsteinn hafi haft fé sitt við á vetrum, og er hellir sá eftir honum nefndur og heitir Þorsteinshellir. Viðbúið er, að fáir þekki nú helli þennan. Síðasta árið áður en Þorsteinn fór að Kaldárseli bjó hann í Hvammakoti, sem nú heitir Fífuhvammur.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Með Þorsteini lagðist niður að fullu búskapur í Kaldárseli, en handverk sjást þar enn nokkur eftir hann, en of illa tel ég þau farin. Bráðlega voru öll hús rifin í Kaldárseli nema baðstofa ein, sem látin var standa uppi fram undir aldamót. Var hún á þeim árum einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högunum. Einnig var gott fyrir krýsvíkinga, sem þá áttu aðalleið um Kaldársel, þegar til Hafnarfjarðar fóru, að hafa þarna nokkurt afdrep. Þarna lágu einnig haustleitarmenn Grindavíkurhrepps, sem þá leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Á þessum árum var mikill straumur erlendra ferðamann, aðallega enskra, til Krýsuvíkur. Voru það einkum hinar svo til nýyfirgefnu brennisteinsnámur þar, sem þessir ferðamenn voru að skoða. Við námurnar stóðu þá enn tvö stór og allvönduð hús frá þeirri starfsemi, og voru þau mikið notuð til gistingar af þessu fólki. Mjög bar baðstofan Í Kaldárseli merki þess, að þar hefðu margir komið, og mjög voru sperrur og súð skorin mannanöfnum, bæði fullum og skammstöfunum, og voru þar nöfn bæði innlendra manna og erlendra.

Kaldársel

Kaldársel – loftmynd.

Að liðnum aldamótum síðustu var svo komið, að ekkert hús stóð lengur í Kaldárseli, og flest gekk þar af sér.

Enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins ( lambhúss Kristmundar) sjást enn suðaustan við húsið.

Árin 1906-1908 er enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli. Maður sá, sem þá fékk Kaldársel til afnota, var ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson að nafni, síðar stórbóndi í Stakkavík í Selvogi.

Þegar Kristmundur fékk Kaldárselsland til nytja, átti hann víst framt að fimmtíu kindur, ungar og gamlar. Þennan fjárstofn hafði hann á fáum árum dregið saman og aflað fóðurs fyrir með fádæma dugnaði, án þess þó að niður væri sleppt nokkurri vinnu, þegar hún bauðst. Um sumarið vann hann að því að koma upp smáheyhlöðu með því að byggja yfir hin gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallin.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hlaðan var komin undir þak, fór Kristmundur að öngla saman heyi í hana. Þennan heyfeng fékk hann víðs vegar í landi Garðakirkju, svo sem hann hafði leyfi fyrir, og mun hafa numið um 30 hestburðum. Þetta þurfti að endast 15-20 lömbum og einum hrút. Ærnar áttu að lofa að mestu á jörðinni, því að fjárland var þarna gott. Ekki hafði hann not gömlu tóttanna þar að öðrum en því, að í þeim var gnægð af góðu og sléttu helluhraungrýti, sem hann varð að nokkru að færa úr stað.

Kristmundur hélt fé sínu í Kaldárseli, en hafði búsetu í Hafnarfirði. Langur var því beitarhúsavegur hans, eða um 1 1/2 stundar gangur í sæmilegu færi. Í myrkri fór hann að morgni og í myrkri heim að kvöldi. Lömbin hafði Kristmundur í húsi og beitti ekkert framan af vetri, en ærnar hafði hann við hella þá hina gömlu, sem eru skammt norður af Selinu. – Brátt kom í ljós, að eitthvað háði nokkrum lömbunum, þau fóru ekki að, þegar gefið var á, en stóðu þess í stað lotin úti við veggi. Músin étur sig venjulega ofan í herðakamb lambanna, ogfái hún að vera óáreitt, étur hún sig stundum langt niður með bóg, og er þá sárið lítt læknanlegt.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús Kristmundar undir Fremstahöfða.

Allir þessir erfiðleikar, sem Kristmundi mættu þarna, áttu drjúgan þátt í því, að hann treysti sér ekki til að halda áfram búskap í Kaldárseli. Hann flutti fé sitt að Hvassahrauni, þar sem hann fékk vist. Þannig lauk búskap þessa síðasta bónda í Kaldárseli. Með honum gekk hinn gamli tími þar úr garði, alfarinn.

Nýi tíminn hefur innreið sína í Kaldársel

Lambagjá

Hleðsla undir vatnsstokkin í Lambagjá.

Um síðustu aldamót rann upp yfir Hafnarfjörð nýtt tímabil, tímabil nýrra atvinnutækja, nýrra framkvæmda, nýs lífs. Á sama tíma sem síðasta tilraun til búskapar í Kaldárseli beið algjöran ósigur, komu Hafnfirðingar upp hjá sér allstóru fyrirtæki eftir þess tíma framkvæmdum, fyrstu vatnsveitu, sem bærinn fékk. Á því tímabili keypti Hafnarfjarðarbær mikið af landi Garðakirkju, eða allt fjallland sunnan Selvogsvegar, þar á meðal Kaldársel, og hafði bærinn þar með tryggt sér nægjanlegt vatn til langrar framtíðar. Kaldá varð því fyrir valinu til úrbóta þeim vatnsskorti, sem orðinn var ærið ískyggilegur.

Kaldársel

Vatnsstokkurinn norðan Kaldár.

– Árið 1918 var ákveðið að leið vatn úr Kaldá, að vísu lítið brot af vatnsmagni árinnar, í ofanjarðar tréstokk allstórum, og sleppa vatninu lausu við suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkur þessi var rösklega 1 1/2 km að lengd. Eftir að vatninu var sleppt úr stokknum, átti það að finna sér leið neðanjarðar eftir hrauninu til Lækjarbotna, þar sem vatnsveitan var fyrir, og þar með auka vatnsmagn lækjarins, sem þá þyldi, að víðari rör væru sett í upptökuna. þetta bragð Hafnfirðinga lánaðist. vatnið skilaði sér á tilætlaðan stað, og nægjanlegt vatn varð um langt árabil. Var nú kyrrð um hríð í Kaldárseli, nema hvað vatnsstokkurinn krafðist viðhalds og umbóta.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Næst lætur nýi tíminn bóla á sér í Kaldárseli árið 1925. Þá fá K. F. U. M. og K. í Reykjavík og Hafnarfirði leigumála fyrir gamla túninu og leyfi til að byggja þar hús. Hús þetta skyldi vera sumardvalarstaður barna úr þessum félögum nokkurn hluta sumars. Mest efni hússins varð að bera á bakinu fjórða hluta leiðarinnar frá Hafnarfirði.

Árin 1949 til 1953 var ráðist í að gera fullkomna og trygga vatnsleiðslu í neðanjarðarleiðslu frá Kaldá til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp í Kaldárseli.

Kaldárselsrétt

Kaldárselsrétt.

Þessi rétt kom í stað hinnar fornu Gjáréttar, sem lögð var niður fyrir rúmum 40 árum og þá flutt á óhentugan og vatnslausan stað í Gráhelluhrauni.

Niðurlagsorð

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – loftmynd.

Saga Kaldársel, sem hér er sögð, er hvorki löng né stórviðburðarík, en saga er það samt, og þótt ekki væri nema það fólk, sem nú nýtur þess, sem þessi staður hefur að miðla og mun gera um ófyrirsjáanlega framtíð, vissi hann nokkru betri deili en áður, tel ég tilgangi mínum náð og tíma minn við samantekningu þessa þáttar allvel greiddan.“

Heimild:
-Áður en fífan fýkur – Ólafur Þorvaldsson – 1968; Saga Kaldársels, bls. 119-139.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

 

 

Garðar

Grein þessi um „Átthagafræði Garðahrepps“ birtist í tímaritinu Harðjaxl árið 1924:
„Hr. ritstjóri!
Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mór í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. þessvegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
lonakot-221Syðsti bær hreppsins er Lónakot. Þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður. Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skamt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot. Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Straumur-221Nú kemur engin bygð fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri héfir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst. Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum. Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út f yrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn. Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli í Stóra Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns. . .
Stekkur-221Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skamt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við. Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum. Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn f yrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað.
En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu. Skamt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum. Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast Gardar-221í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.
Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. par bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið. Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Ísak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður.
Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin Hausastadir-221hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls. Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Guði Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn. Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausastaði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið. – Gamall Garðhreppingur.“

Heimild:
-Harðjaxl, 1. árg. 1924, 16. tbl. bls. 3.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Garðar

„Hvað heitir landið milli Kópavogs og Hafnarfjarðar? Garðahreppur, Garðakaupstaður, Garðabær eða Garðar? Setjið X við rétt svar.
gardabear-2Rétt svar var Garðahreppur, en hreppurinn öðlaðist kaupstaðarréttindi 1976, og heitir því Garðakaupstaður. Mikið var reynt til þess að fá fólk til að nota nafnið Garðar, en bæjarstjórnin og íbúar bæjarins vilja, og nota einungis nafnið Garðabær.
Byggð hefur verið á landsvæði Garðabæjar allt frá landnámstíð. Getur Landnáma tveggja landnámsjarða á svæðinu: Vífilsstaða, þar sem Vífill, leysingi Ingólfs Arnarssonar bjó, og Skúlastaða, þar sem Ásbjörn Özurarson bjó. Hafa verið leiddar að því líkur að nafn síðarnefnda bæjarins hafi síðar breyst í Garða. Þegar hin forna hreppaskipting var tekin upp, hét allur hreppurinn Álftaneshreppur, en var skipt árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Bæjarmörkum Garðabæjar hefur nokkrum sinnum verið breytt, m.a. þegar Hafnarfjörður var gerður að sjálfstæðu sveitarfélagi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908.
gardabear-3Garðabær nær yfir stórt flæmi lands og t.d. er stór hluti Heiðmerkur innan bæjarmarkanna svo og hluti Álftaness. Skilin milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar hafa ekki alltaf verið svo glögg, enda sveitarfélögin búin að skiptast oft á landspildum. Árið 1910 var íbúatala Garðabæjar 264.“
Hér má lesa frétt í Vísi 1983 um makaskipti bæjanna: „Nýlega hafa Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur gert samkomulag um það, að Hafnarfjörður fái land, sem nú er innan marka Garðahrepps en Garðahreppur fái svæði, sem Hafnarfjörður hefur á leigu til ársins 2015. Samkomulag þetta mun færa Hafnarfirði 4200 hektara landsvæði fyrir sunnan bæinn en Garðahreppur mun fá ágætt byggingarland í Hraunsholtslandi.
gardabear-4Vísir átti tal við Hafstein Baldvinsson bæjarstjóra í Hafnarfirði um þetta mál. Hann sagði, að samkvæmt lögum frá 1936 hefði ríkisstjórninni verið heimilað að taka eignarnámi og afhenda Hafnarfjarðarbæ á leigu Hrauns holtsland gegn því að Hafnarfjarðarbær gefi eftir landssvæði fyrir sunnan Hafnarfjörð, svonefndar Hraunajarðir. Á grundvelli þessara laga hefði Hafnarfirði á árinu 1940 verið leigt umrætt land til ársins 2015 með því skilyrði að landið yrði aðeins til ræktunar en ekkert byggt á því. En land þetta er í rauninni innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps.
Nú hefur Garðahreppur óskað eftir því að Hafnarfjörður gæfi eftir leigusamninginn gegn því, að Garðahreppur léti Hafnarfjörð í staðinn fá land úr sínu lögsagnarumdæmi sunnan Hafnarfjarðar. Hefur Hafnarfjörður samþykkt þetta með því skilyrði, að samþykkt verði ný lög um hið nýja lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Hafsteinn sagði, að ráðgert væri nú að bera fram frumvarp á alþingi um hin nýju mörk Hafnarfjarðarbæjar. Mundi Hafnarfjörður stækka um 4200 hektara en Hafnarfjörður er nú 6130 hektarar fyrir utan Krýsuvík en þar á Hafnarfjörður 4820 hektara.“

Heimild:
-Morgunblaðið 2. september 1983, bls. 12.
-Vísir, 2. maí 1964, bls. 1 og 6.

Flatahraun

Landamerki fyrrum – Hádegisvarða í Hafnarfjarðarhrauni.

Dysjar

Eftirfarandi fróðleik um Dysjar má finna í fornleifaskráningu Þjóðminjasafnsins í Garðahverfi árið 2003:
Gardahverfi - fornleifar VII„Dysjar eru nefndar meðal Garðakirkjujarða í máldögum þegar árin 1397  og 1477 , í Jarðaskrá kirkjunnar 1565 með ábúandann Jón Markússon  og í Gíslamáldaga 1570. Skv. Jarðabók Árna og Páls var þetta lögbýli í eigu Garða og árið 1703 bjó ekkjan Valgerður Nikulásdóttir á hálfri jörðinni með sex manns í heimili. Hinn helmingurinn var ábúandalaus um nokkurt skeið og hafði séra Ólafur í Görðum af honum nytjar en af  Manntali má sjá að Ásmundur Gissurarson flutti þangað sama ár ásamt kvinnu sinni Hildi Guðmundsdóttur og 11 ára sveitarómaga. Bændur með jarðnyt voru einnig tveir árið 1801, Jón Þorsteinsson og Hans Ormsson hreppstjóri, og hafa búið á Vestur-Dysjum og Austur-Dysjum sem var stærri bærinn. Jón var giftur Iðunni Jónsdóttur og bjuggu hjá þeim 22 ára dóttir, Guðrún, og Guðbrandur Hannesson vinnumaður.
Hreppstjórafrúin Vigdís Jónsdóttir var ljósmóðir að atvinnu. Heimilismenn voru 12 og meðal vinnumanna Narfi Jónsson, trúlega sonur hjóna í einu tómthúsi jarðarinnar, Jóns Narfasonar og Solveigar Hannesdóttur. Jarðnæðislaus eins og þau var einnig nafni hreppstjórans Arnórsson, titlaður húsmaður og fiskari og átti heimili ásamt konu sinni og föður. Fyrir fimmta býlinu var loks handverkskonan og ekkjan Ragnheiður Jónsdóttir sem bjó ásamt móður sinni og 82 ára gömlum húsmanni. Einhver af þessum fjölskyldum hefur væntanlega haldið til í hjáleigunni Dysjakoti en aðrar þurrabúðir eru ekki nafngreindar á Dysjum.
Í Manntal 1816 var fólkið flutt og ekki vitað hvert nema hvað Guðrún Jónsdóttir frá Vestur-Dysjum giftist Bjarna Sveinssyni húsmanni í DysjarSjávargötu. Jónar tveir höfðu hins vegar tekið við ábúð í Dysjum, bókbindari með konu og þrjú börn sem fyrir tilviljun var alnafni fyrri ábúanda, og svo Þorgrímsson nokkur með sjö í heimili,  þeirra á meðal mæðgurnar Herdís Símonsdóttir húskona og Ástríður Jónsdóttir, rétt komin yfir tvítugt. 28 ára gamall sonur húsbóndans, Gamalíel, mun síðar hafa flust í áðurnefnda hjáleigu. Í Manntali 1845 hafði aftur fjölgað á jörðinni en þá var í Vestur-Dysjar kominn Erlendur Halldórsson, þrítugur bóndi og fiskari með konu og þrjú börn, að líkindum sonur Halldórs Erlendssonar í Hlíð. Sjötti heimilismaður hans var Pétur gamli Jónsson sem var á sveitinni. Vigfús Hjörtsson á hinum Dysjabænum hafði sjö í heimili og bjó þar áfram Ástríður, dóttir Herdísar, ekkja og sjálf komin með titilinn húskona og lifði á handiðn. Með henni var fimmtán ára gömul dóttir, Guðrún. Þá voru tómthúsmennirnir þrír, Þórvaldur Sæmundsson með konu og barn, Sigvaldi Árnason með konu og Guðmundur Gíslason með vinnukonu og barn. Loks bjó á jörðinni Ólafur Bjarnason smiður og hafði níu í heimili. Þegar Jarðatal var tekið 1847 voru Dysjar enn í eigu kirkjunnar og ábúendur tveir. Þær eru nefndar í Jarðabók 1861  og voru áfram kirkjueign skv. Fasteignabókum árin 1932 og 1942-4. Dysjar eru skv. Fasteignamati ríkisins enn í ábúð og skráður eigandi Úlfhildur Kristjánsdóttir.
Dysjar-221Árið 1565 galt Jón Markússon í landskuld þrjár vættir fiska, mannslán og vallarslátt, jörðinni fylgdu tvö kúgildi og bóndi hafði eins dags sölvatekju í landi staðarins. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld orðin hundrað álnir sem guldust með fjórum fiskavættum í kaupstað og vallarslætti. Kúgildi var eitt á jörðinni og borgaði Valgerður það hálft með fæði til vallarsláttarmanna en auk þess með fiski eða smjöri til staðarhaldara sem bar að uppyngja það. Kvaðir á hvern ábúanda voru dagsláttur, hríshestur og hestlán. Í bústofninum voru tvær kýr en fóðrast kunnu þrjár. Heimræði var allt árið og uppsátur í Dysjavör. Jarðardýrleiki var enn óviss 1847 en landskuld hafði lækkað í 80 álnir. Kúgildið var sem áður eitt. 1861 taldist jörðin 11,5 ný hundruð. 1932 var verðið 37 hundruð kr. fyrir Vestur-Dysjar og 51 hundruð fyrir Austur-Dysjar. Fyrrnefnda bænum fylgdu tvö kúgildi og 20 sauðir, þeim síðarnefnda þrjú kúgildi og 30 sauðir og einn hestur hvorum.
Matjurtagarðar sem við gerð Túnakorts 1918 voru 900 m² á Vestur-Dysjum og 1100 m² á Austur-Dysjum höfðu minnkað í 480 m² vestan megin en stækkað í 1220 m² austan megin og dysjar-223fengust árlega úr þeim tíu og átján tunnur garðávaxta. Jörðin hafði útræði og hrognkelsaveiði hefur verið í Dysjaþara af Dysjabryggju. Árin 1942-4 eru aðeins nefndar Austur-Dysjar og var fasteignamat þeirra orðið alls 61 hundruð kr. Nautgripir voru fjórir, sauðirnir jafn margir og áður og hesturinn einn. Úr görðunum fengust um 24 tunnur og auk fyrri hlunninda nefnd mótekja. Túnið skiptist í Dysja-Vesturbæjartún sem skv. Túnakortinu var 1,2 ha og Dysja-Austurbæjartún sem var 2,1 ha, þ.e. „allstórt“ eins og segir í Örnefnaskrá 1964 en þar eru sérstaklega nefndir nokkrir túnskikar: Hólsflöt ofan bæjanna og Minkaflöt austarlega, kennd við minkabú sem þar var í eina tíð.
Brúarflatir þrjár sem urðu til eftir að Dysjamýri var ræst fram og ræktuð og liggja meðfram henni og eru kenndar við mýrarveginn Dysjabrú  og neðan þeirra er loks nýræktin Dýjaflöt. Frá túnunum er einnig sagt í Örnefnalýsingu 1976-7: „Austan bæjar á Dysjum er túnið sundurskorið af skurðum og teygist upp í Dysjamýrina. Næst bænum er Gerði, þá er Hólsflöt og síðan Minkaflöt. Þar ól Guðmann [Magnússon] eitt sinn minka. Þá er Dýjaflöt og þar fyrir austan Brúarflatir, þrjár flatir, aðgreindar með skurðum, og liggja þær að veginum. Allar þessar flatir hafa verið skírðar í seinni tíð, enda ekki svo langt síðan þær hafa verið ræktaðar.“ Norðan í túninu var svo Dysjakot sem öðru nafni hét Gamlakot og kallaðist þar Dysjakotsvöllur eða Gamlakotsvöllur. Dysjatún var að mestu umgirt garði.
Þetta er syðsta jörðin í Garðahverfi og voru Bakki og Pálshús að vestan og norðan. Austar var jörðin Bali og nefndist vestasti hluti Balamalar Dysjamöl. Að norðaustan var Dysjamýri og við sjóinn suðvestan megin neðan bæjanna hétu Dysjafjörur.
dysjar-222Skv. Túnakortinu heita Dysjar öðru nafni Desjar. Við Fornleifaskráningu 1984 taldi heimildakona skrásetjara nafnið komið frá Völvudys en hún er hins vegar í Miðengislandi. Á Túnakorti er athugasemd um þetta í tengslum við landbrot við Dysjar af völdum sjávar: „Hér munu og hafa brotnað upp síðan í fornöld engjar miklar. – Og líklegra að býlin séu kend við des: (hey) en við dys (dauðra) þar á röku láglendinu.“
Á Túnakorti 1918 má sjá tvær stórar torfbyggingar í bæjarstæðinu, væntanlega bæina tvo en sá vestari skiptist í tvö aflöng hólf og hið vestara aftur í tvö ferningslaga hólf. Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skv. Fasteignabók eru Vestur-Dysjar enn úr torfi árið 1932 en þær eru ekki nefndar árin 1942-4 og hafa væntanlega verið komnar úr byggð þá. Í Örnefnaskrá 1964 er talað um Dysjar Vesturbæ og Dysjar Austurbæ. Stóðu bæirnir „lítið eitt aðgreindir fram um 1900“. Í Örnefnalýsingu frá 1976 segir: „Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. Dysjavör er vestan við Balamöl. Gömlu bæirnir á Dysjum stóðu frammi á sjávarbakkanum, beint niður af íbúðarhúsinu, sem nú er.
Nú hefur sjór brotið alveg upp að gamla bæjarstæðinu. Fast fyrir norðan núverandi íbúðarhús er fjós og hlaða, byggt um 1944-45. Bílskúr tengir það íbúðarhúsinu. Fjárhús er fast norðaustan fjóssins. […] Íbúðarhúsið á Vestur-Dysjum stendur, eins og nafnið bendir til, rétt vestan við Austur-Dysjar og gripahús og hlaða frá Vestur-Dysjum rétt sunnan hússins. U.þ.b. 15 m sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir […]“. Þeir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar fornleifaskráning fór fram 1984, annar þeirra, líklega sá vestari, var alveg farinn en „hleðslugrjót sést í bakkanum“.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, Garðahverfi – fornleifaskráning 2003, bls. 16-24.

Garðahverfi

Garðahverfi – flugmynd.

Hofstaðir

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 er m.a. fjallað um sögu byggðar:

Byggðasaga

Langeyri

Landamerkjavarða Garðabæjar við Hvíluhól.

„Til að geta sett niðurstöður fornleifaskráningar í fræðilegt samhengi er nauðsynlegt að hafa hugmynd um sögu byggðar á svæðinu sem er til rannsóknar. Byggðasaga er einn sá grunnur sem áætlanir um frekari rannsóknir, t.d. uppgrefti, ættu að byggja á. Vitneskja um sögu byggðar eykur líkur á að rannsóknarefni fornleifafræðinga séu mótuð og þar af leiðandi fáist markvissari niðurstöður.

Garðabær

Garðabær – loftmynd 1954.

Ekki hefur mikið verið ritað um byggðasögu Garðabæjar, eða þeirra jarða sem bærinn byggðist úr. Fyrir áhugasama um sögu og þróun byggðar í Garðabæ má þó benda á Garðabær: Byggð milli hrauns og hlíða sem út kom 1992 en þar er að finna úttekt á upphafi byggðar innan marka bæjarfélagsins og þróun hennar allt fram á síðustu ár og Örnefni og leiðir í landi Garðbæjar frá 2001, en þar er teknar saman all ítarlegar upplýsingar um örnefni innan marka bæjarfélagsins sem og gamlar leiðir og flestar þeirra merktar samviskusamlega á loftmyndir og kort. Sökum þess að lítið hefur verið fjallað um byggðarsögu Garðabæjar er markmiðið hér að draga saman helstu staðreyndir um landnám og byggðarþróun sem þegar hafa verið settar fram en jafnframt nota fornleifaskráningu og þær fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið allt fram á síðustu ár til að bæta við myndina og dýpka skilning á byggðarþróuninni. Auk fornleifa nýtast fjölmargar ritaðar heimildir við ritun byggðasögu s.s. Landnáma, Sturlunga og Íslendingasögur, Íslenzkt fornbréfasafn, tölur um dýrleika jarða og upplýsingar um staðsetningu kirkna og bænhúsa. Sú umfjöllun sem hér fylgir um byggðasögu Garðabæjar, eins og reyndar skýrslan í heild, afmarkast við mörk bæjarfélagsins eins og þau eru nú.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

Land Garðabæjar tilheyrði Álftaneshreppi, að líkindum allt frá upphafi hreppaskipulags sem á rætur að rekja í það minnsta aftur á 13. öld og sennilega allt aftur til 11. aldar, og var svo allt til 1878 er skipting varð milli Garðahrepps og Bessastaðahrepps. Almennt er álitið að bæir, þar sem kirkjur eða bænhús stóðu, hafi byggst snemma, enda hafi slík hús oftast verið stofnsett fljótlega eftir árið 1000.

Garðabær

Garðabær; Hofstaðir – loftmynd 1954.

Aðeins ein kirkja er skráð innan marka Garðabæjar, Garðakirkja, enda greinilegt að á Görðum var þungamiðja byggðar fyrr á öldum. Ritaðar heimildir eru um eitt bænhús innan Garðabæjar og sem var landi Arnarness. Vel má vera að fleiri slík hafi verið á hinum lögbýlunum en heimildir um þau glatast. Þá eru kuml óræk sönnun um forna byggð sem komin var á fyrir 1000. Engin kuml hafa fundist innan núverandi marka Garðabæjar né örnefni sem gefa slíkt til kynna. Það er áhugavert og líklegt að kumlunum hafi verið raskað, þau ekki verið til staðar á svæðinu eða þekking um staðsetningu þeirra glatast. Landamerki og landamerkjagarðar sem skilja á milli jarða geta einnig verið fornir og gefið til kynna aldur býlanna. Tvenn slík garðlög eru skráð í Garðabæ. Hið fyrra skilur á milli Setbergs og Urriðakots en hið seinna á milli Setbergs, Hraunsholts, Urriðakots, Hagakots og Vífilsstaða. Einnig koma bæjarnöfn að góðu gagni þegar á að reyna að ákvarða í hvaða röð jarðir hafi byggst. Selstaða er þekkt frá þremur lögbýlum í Garðabæ, Görðum, Setbergi og Vífilsstöðum. Það getur verið vísbending um að býlin séu eldri en önnur á svæðinu.
Samkvæmt tiltækum vísbendingum mætti ætla að elsta byggða ból innan bæjarmarkanna væri Garðar. Garðastaður var metinn á 60 hundruð árið 1697, en til samanburðar var Setberg metið á 16 hundruð árið 1703. Enginn vafi er á því að öll býlin í Garðahverfi byggðust út úr Görðum og árið 1703 voru flest býlin í Garðhverfi enn hjáleigur í óskiptu landi Garðastaðar.

Garðar

Garðar.

Örnefnið ‘Garðar’ er að líkindum frumlegra en ‘Bessastaðir’og virðist hæfa betur fyrsta býlinu á Álftanesi, en að auki eru Garðar metnir nokkru verðmætari í jarðabók 1703,10 þó svo að þar kunni að liggja aðrar ástæður að baki.11 Samkvæmt Landnámu var bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, landnámsmaður á stórum hluta þess svæðis sem Garðabær nú byggir: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs.

Skúlatún

Skúlatún og Skúlatúnshraun. Helgafell fjær.

Staðsetning Skúlastaða er, eins og áður kom fram, ekki þekkt, en tvær megin kenningar hafa verið á lofti varðandi staðsetningu landnámsbæjarins. Sú fyrri er sú að annað hvort hafi hann verið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir. En sú síðari sem verður að teljast ósennilegri, er að þeir hafi verið í Skúlatúni, sem er grasigróinn blettur á hraunbreiðu vestur af Helgafelli, við afrétti Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Það verður að teljast afar ósennilegt að landnámsbærinn hafi staðið í Skúlatúni enda er þar með öllu vatnslaust og slægjulaust. Hraunið sem Skúlatún er hluti af er að líkindum eldra en landnám Íslands og auk þess er ótrúlegt að fyrsta byggðin á svæðinu hafi verið upp til fjalla, en ekki á grónari og búsælli svæðum niður við sjó. Sá hluti Garðabæjar sem stendur utan ætlaðs landnáms Ásbjörns, var samkvæmt Landnámu byggt Vífli, leysinga Ingólfs: Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífilsstaðir draga því samkvæmt þessu nafn sitt af Vífli þessum og taldi Björn Þorsteinsson að frásögnina mætti telja vitnisburð um fyrsta kotið á landinu. Hvaða trúnað sem fólk kann að leggja á Landnámu, er ljóst að á svipuðum tíma og þeir atburðir sem hún lýsir komust fleiri jarðir, eða hjáleigur, í byggð innan núverandi marka Garðabæjar. Fornleifauppgröftur við Hofstaði í miðbæ Garðbæjar leiddi m.a. í ljós skála frá landnámstíð. Mannvirkið er næststærsti víkingaaldarskáli sem grafinn hefur verið upp hér á landi, eða um 30 x 8 m að flatarmáli og því virðist ekki hafa verið um kotbúskap þar að ræða, þó svo að á seinni öldum hafi Hofsstaðir verið metnir sem hálflenda.
Þéttbýli byrjaði að myndast í landi Garðabæjar í kringum 1950 í kjölfar skorts á einbýlishúsalóðum í Reykjavík. Fyrsti vísirinn af þéttbýli byrjaði að myndast í landi Sveinatungu og Hraunsholts og um 1960 risu ný hverfi fyrst í Flötum, sunnan Vífilsstaðavegar og í Arnarnesi. Árið 1960 var Garðabær löggiltur sem verslunarstaður og 1975 fékk bæjarfélagið kaupstaðaréttindi.“

Ritaðar heimildir um jarðir í Garðahverfi

Garðar

Garðar fyrrum.

„Garðastaður er sú jörð innan marka Garðabæjar sem elstar og mestar heimildir eru til um.
Í Hrafnkels sögu Freysgoða sem flestir telja ritaða um 1300 er minnst á Þormóð Þjóstarson sem sagður er búa í Görðum á Álftanesi. Garðar koma tvisvar fyrir í Sturlungu í báðum tilfellum í sögum sem líklega voru ritaðar á seinni hluta 13. aldar. Í Íslendingasögu segir að Gizur jarl hafi gist nokkrar nætur á Görðum hjá Einari bónda Ormssyni. Þar hitti Gizur Óláf jarl Oddson í kirkjugarðinum í Görðum. Í Þórðar sögu kakala segir frá því þegar Þórður Bjarnason dvelur hjá Einari Ormssyni í Görðum og var á endanum höggvinn í “ytri stofunni” á Görðum.
Elsta heimildin um Garða er líklega í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, frá um 1200, og er því ljóst að Garðastaður er gömul kirkjujörð. Þar stóð fram að siðaskiptum á 16. öld Péturskirkja, helguð Pétri postula. Í kirkjumáldaga frá 14. öld sést að Garðakirkja var nokkuð vel stæð og voru eignir hennar dæmigerðar fyrir kirkjur á stórbýlisjörðum.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrir 1960.

Garðakirkja var aflögð í upphafi 20. aldar er Garðasókn var sameinuð Hafnarfjarðarsókn og var síðasta messan haldin 15. nóvember 1914. Árið 1960 var Garðasókn hins vegar upptekin að nýju og fáum árum seinna var ný Garðakirkja vígð, byggð að hluta á veggjarústum hinnar eldri kirkju.
Frá árinu 1307 er varðveitt bréf er varðar tilkall Garðastaðar til rekaviðs og landrekins hvals við Grindavík en samkvæmt því áttu Garðar allan: “vidreka og hvalreka fra Ranganiogre og [i] Leitu kvenna bása. ad kalftiorninga fiouru.“ Í Hítardalsbók er máldagi frá 1367 sem segir að Garðakirkja, sem sé helguð Pétri postula, eigi allt heimland, Hausastaði og Selskarð. Í Vilchinsmáldaga frá 1397 er jörðunum Hlíð, Bakka, Dysjum, Hraunsholti og Hjallalandi, auk afréttar í Múlatúni, bætt við upptalninguna á eignum. Rúmlega 150 árum síðar, eða 1558, fóru fram jarðaskipti að undirlagi Knudt Stensson, Konglig Mejestetz Byfalningsmann, við séra Lopt Narfason í Garðakirkju, er færðu Hlíð undir Bessastaði og í konungseign, en í staðinn fengu Garðar Vífilsstaði, sem fram að því höfðu tilheyrt Viðeyjarklaustri. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns voru Garðar metnir á 60 hndr árið 1697.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Í örnefnaskrá Kristjáns Eiríkssonar segir að Hafnarfjörður eigi þá 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti af Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur.

Engidalsvarða

Engidalsvarðan.

Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …”. Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum…”
Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Í Garðahverfi eru nokkrar litlar jarðir og hjáleigur sem byggst hafa út frá Görðum og sem frá fornu fari hafa tilheyrt kirkjujörðinni. Ágangur sjávar og landbrot virðist hafa hrjáð allar jarðirnar í Garðhverfi, t.a.m. segir í Jarðabók Árna og Páls að bæjarhús Bakka hafi þurft að færa þrisvar frá sjó og árið 1918 var búið að færa Austurbæjarkálgarðinn á Dysjum fimm sinnum síðustu 28 árin á undan sökum landbrots.

Á Dysjar er fyrst minnst í Vilchinsmáldaga frá 1397 og er jörðin sögð eign kirkjunnar á Görðum. Í skrá frá 1565 yfir byggðar jarðir Garðakirkju er minnst á Dysjar og er jörðin þá ekki lengur talin hjáleiga. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Dysjar enn eign Garðakirkju og teljast lögbýli í óskiptu Garðastaðalandi og er jarðadýrleiki því óviss, því vitanlega borgaði jörðin enga tíund. Árið 1971 eignaðist Hafnarfjörður hluta úr landi Dysja.

Garðahverfi

Dysjar og Vestur-Dysjar (h.m.).

Líkt og Dysjar kemur Bakki fyrst fyrir í Vilchinsmáldaga frá 1397 og svo aftur í skrá yfir byggðar jarðir í eign Garðastaðar frá 1565 og telst þar ekki hjáleiga.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir að Bakki sé lögbýli og hafi fullt fyrirsvar, en standi í óskiptu landi Garðastaðar og því er dýrleiki óviss. Í Jarðabók segir jafnframt: „Þessum bæ fylgdi til forna Garðamýri (ein mýri þarí hverfinu … Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útheyss slægjum og færðist so aftur landskuldina …” Byggð á Bakka lagðist af árið 1910.

Garðahverfi

Pálshús.

Elstu heimildir um Pálshús eru frá 1565 og er býlið þá hjáleiga í landi Garða. Árið 1703 er Pálshús enn fyrirsvarslaus hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi.
Svipaða sögu er að segja af Nýjabæ, á jörðina er fyrst minnst 1565 í skrá yfir byggðar jarðir í landi Garða. Í jarðabók frá upphafi 18. aldar er Nýibær kallaður hálfbýli, „því þarer ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.”
Á Ráðagerði og Miðengi er ekki minnst í heimildum fyrr en 1703 og þá sem hjáleigur Garða í óskipu Garðastaðalandi. Þar að auki segir í Jarðabók að Miðengi hafi fyrst byggst úr Hlíðarlandi á fyrri hluta 17. aldar og hafi í manna minnum haft hálft fyrirsvar.

Garðahverfi

Hlíð.

Móakot byggðist einnig úr Hlíð og segir í jarðabók frá 1703 að það hafi gerst fyrst „í þeirra manna minni, sem nú lifa” og er elsta heimildin um Móakot einungis 5 árum eldri, frá 1698. 16. febrúar það ár var Oddi Ásbjarnarsyni ábúanda á Móakoti stefnt fyrir Kópavogsþing sökum lönguhöfuðs sem reist hafði verið á grenispýtu, en á þinginu gekkst vinnumaður á Görðum við því að hafa reist stöngina í þeim yfirnáttúrulega tilgangi að kalla fram betra veðurfar til fiskveiða. Móakot fór í eyði árið 1930.
Árið 1397 er Hlíð eign kirkjunnar á Görðum og er árið 1565 er á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. Í Jarðabók Árna og Páls árið 1703 er Hlíð enn hjáleiga Garða og tekið fram að jörðin hafi verið „lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina.”.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.

Hausastaðir og Selskarð voru eign Garða þegar árið 1367, og eru það einu jarðirnar sem minnst er á í Hítardalsbók sem voru í landi Péturskirkjunnar á Görðum. Því er mögulegt að Hausastaðir og Selskarð séu elstu jarðirnar sem byggðust út frá Garðastað, en á aðrar jarðir er ekki minnst fyrr en í fyrsta lagi 1397. Á báðar jarðirnar er svo minnst árið 1565, í skrá yfir byggðar jarðir staðarins sem ekki voru hjáleigur. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hausastaðir „lögbýli kallað því það hefur fult fyrir svar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðadýrleiki óviss.” Frá sama ári segir um Selskarð í jarðabók að jarðadýrleiki sé einnig óþekktur og að árið 1703 hafi verið einn ábúandi, 1 kúgildi og landskuld hafi verið 60 ánir.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Síðasta jörðin í Garðahverfi er Hausastaðakot. Á þá jörð er ekki minnst fyrr en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 og er því ljóst að hún er að líkindum eitthvað yngri en hinar jarðirnar. Hausastaðakot var hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi, en samkvæmt Jarðabókinni var það mál manna að „hún hafi til forna legið til Hausastaða og verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslán og mjeltunnu, sem hvorutveggja var áður skilið í landskuld auk þeirra sem nú er.“

Hofstaðir

Hofstaðir – dæmi um vel frágengnar fornleifar í þéttbýli. Fornaldarskálinn sést vel á loftmyndinni.

Ritaðar heimildir um jarðir utan Garðahverfis Nú verður rakin stuttlega byggðasaga þeirra jarða sem eru utan Garðahverfis. Jarðirnar koma fremur sjaldan fyrir í gömlum ritheimildum. Elsta heimildin um Hofstaði er frá 1395, en á hinar er ekki minnst fyrr en á 16. og 18. öld. Þó er ljóst að flestar jarðanna hljóta að vera þó nokkuð eldri en ritheimildir gefa vísbendingar um. Slíkt má fullyrða, m.a. vegna tiltækra upplýsinga um landnámsskála á Hofstöðum og þeirra upplýsinga sem nú hafa komið í ljós í Urriðakoti. Í Landnámu er einnig talað um Vífilstóftir, sem án efa er undanfari Vífilsstaða og er það án efa vísbending um háan aldur jarðarinnar. Jarðirnar utan Garðahverfis verða hér teknar fyrir í þeirri röð sem þær komu fyrir í Jarðatali Johnsens frá 1847.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

Setberg er vestust jarðanna innan marka Garðabæjar og tilheyrir að hluta Hafnarfirði. Elstu varðveittu ritheimildir um Setberg eru frá fyrri hluta 16. aldar. Til er kvittunarbréf frá árinu 1505 er staðfestir að Grímur Pálsson sé skuldlaus Þorvarði Erlendssyni vegna kaupa þess fyrrnefnda á jörðinni Setbergi. Átján árum síðar, eða 1523, var útgefið annað sölubréf fyrir eignaskiptum á jörðinni, en Tómas Jónsson hafði þá greitt bræðrunum Pétri og Halli Björnssonum að fullu fyrir Setberg en í þessu bréfi eru landamerki jarðarinnar m.a. talin upp. Af jarðabréfum má ráða að upp úr miðri 17. öld skipti Setberg nokkrum sinnum um eigendur. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var Setberg metið á 16 hndr og er í eign Þóru Þorsteinsdóttur. Á þeim tíma er Setberg eina jörðin innan núverandi marka Garðbæjar sem var í einkaeign og hafði svo verið í það minnsta frá því fyrir 1505 samkvæmt þeim eignaskiptabréfum sem varðveist hafa. Árið 1912 keypti Hafnarfjörður hluta af Setbergslandi, allt til Lækjarbotna úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika.

Urriðakot

Urriðakot.

Óvíst er um aldur Urriðakots, en jörðin virðist hafa verið í eigu kirkjunnar fram á miðja 16. öld. Nafn Urriðakots kemur fyrst fyrir í jarðaskiptabréfi frá 1563 en jörðin er þá ein 19 jarða sem renna til konungs í skiptum fyrir jafnmargar jarðir til Skálholtsstóls. Næstu heimildir er varða Urriðakot eru frá 18. öld og er þá jörðin enn í konungseign. Í Jarðabók frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, en Urriðakot er þar kallað hálfbýli því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móti lögbýlisjörðum og er í konungseign. Árið 1847 var Urriðakot svo komið í bændaeign og metið á 16 hndr. Ekki er loku fyrir það skotið að Urriðakot hafi á sínum tíma byggst út frá Setbergi. Nú liggja mörk Setbergs og Urriðakots um Urriðakotsvatn og um miðjan Hrauntanga sem skagar út í vatnið að norðanverðu. Á Hrauntanga er fornt garðlag sem kallast Lambhagagarður og teygir það sig inn á báðar jarðir. Lambhagagarður er eldri en landamerkjagarðurinn sem skiptir jörðunum norður af Urriðakotsvatni og sem gengur þvert á Lambhagagarð. Hið forna garðlag er því líklegur vitnisburður þess að eitt sinn hafi Setberg og Urriðakot verið ein og sama jörðin. Nöfn jarðanna gætu gefið vísbendingu um hvor sé eldri, en „kot” örnefni eru yfirleitt talin yngri en nöfn sem vísa í náttúruaðstæður, líkt og „Setberg”.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Byggð á Vífilsstöðum á mögulega upphaf sitt á landnámsöld, eins og áður kemur fram, en annars eru ritheimildir hljóðar varðandi Vífilsstaði fram undir miðja 16. öld, en frá þeim tíma eru til talsvert af heimildum, allar stjórnsýslulegs eðlis.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Í Fornbréfasafni er Vífilsstaða tvisvar getið í Fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi 1547-1548 og aftur getið í fógetareikningum 1549-1550. Vífilsstaðir koma einnig fyrir í afgjaldarreikningum Kristjáns skrifara frá 1550 og í fógetareikningum 1552. Ári síðar, eða 1553, er nefndur ábúandi á Vífilsstöðum í hlutabók og sjávarútgerðarreikningi Eggerts hirðstjóra. Að undirlagi Knudt Stensson Konglig Majestetz Byfalningsmann gengu Vífilsstaðir undir Garðakirkju árið 1558, en jörðin hafði fram að þeim tíma tilheyrt Viðeyjarklaustri. Var það gert í skiptum fyrir Hlíð sem var tekin undir konungsjörðina Bessastaði. Minnst er á Vífilsstaði í skrá yfir byggðar jarðir Garðakirkju frá árinu 1565. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er dýrleiki jarðinnar sagður óviss sökum þess að Vífilsstaðir eru þá enn Garðakirkjueign,75 og dýrleiki er ekki heldur tilgreindur Jarðatali Johnsens frá 1847. Vífilsstaðir eru líklegast einna þekktastir fyrir að vera aðsetur heilsuhælis fyrir berklasjúklinga, en það var sett á laggirnar árið 1910. Árið 1974 lagðist búrekstur lagðist af á Vífilsstöðum.

Hagakot

Fyrrum bæjarstæði Hagakots – Tjarnarflöt 10.

Litlar heimildir frá fyrri öldum hafa varðveist um Hagakot. Árið 1703 var jörðin í konungseign og hálflenda með fyrirsvar til hálfs á við lögbýli. Bæjarrústir Hagakots eru nú horfnar með öllu, en voru áður þar sem nú stendur íbúðarhúsið að Tjarnarflöt 10.

Björn Konráðsson

Björn Konráðsson, oddviti Garðahrepps í 28 ár.

Hofsstaðir eru næsta jörð norðan Hagakots og er ljóst að búseta hófst þar mjög snemma. Skáli frá landnámsöld fannst við fornleifauppgröft skammt vestur af núverandi bæjarstæði Hofstaða. Hofstaðabærinn stóð þar frá upphafi og fram á 13. öld, en var síðan fluttur, mögulega á þann stað sem núverandi bæjarhús stendur. Elsta byggingarstigið er veglegur víkingaaldarskáli sem ber þess vitni að stórbýli hafi verið á Hofstöðum í fornöld, þó ekki sé minnst á jörðina í Landnámu. Fyrst er minnst á Hofstaði í rituðum heimildum á 14. öld en þá komust Hofsstaðir í eigu Viðeyjarklausturs. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hofsstaðir sagðir í eigu konungs og hafa að líkindum orðið það við siðaskiptin um miðja 16. öld. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 voru Hofsstaðir enn í konungseign og metnir á 10 hdr.82 Búskapur lagðist af á Hofstöðum árið 1965 og keypti Garðahreppur jörðina undir íbúðahúsalóðir ári seinna.

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Fátæklegar ritheimildir hafa varðveist um Arnarnes. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er Arnarnes konungsjörð og jarðadýrleiki því óviss.84 Telja má þó líklegt byggð í Arnarnesi sé mun eldri en þar er eina þekkta bænhúsið innan núverandi merkja Garðabæjar. Á nesinu eru þekkt tvö býli, Arnarnesið sjálft og svo Litla Arnarnes, sem einnig er þekkt sem Arnarnes gamla og Arnarneskot. Ekkert er minnst á kotið í jarðabókinni og gæti það verið vísbending um að Litla Arnarnes kunni að vera yngra en frá árinu 1703 eða ekki í byggð á þeim tíma. Á Arnarnesinu eru þekktar þrjár dysjar sakamanna sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi og ein þeirra, mun vera dys Hinrik Kules sem dæmdur var til dauða fyrir morð þann 23. febrúar 1582. Minna er þekkt um hinar dysjarnar tvær, en þær ganga jafnan undir nöfnunum Þorgarðsdys og Þormóðsleiði. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var Arnarnes enn í konungseign og metin á 20 hdr, og því hæst metna jörðin innan núverandi marka Garðabæjar utan Garðastaðar sjálfs.

Garðabær

Garðabær 1969.

Ekki er vitað hvenær Hraunsholt byggðist fyrst, en líkt og með fleiri jarðir innan marka Garðabæjar þá kann jörðin að vera býsna gömul þótt nafn hennar komi ekki fyrir í mörgum ritheimildum fyrri alda. Elsta þekkta heimildin um jörðina er frá árinu 1565, og er Hraunsholt þá ein jarða Garðakirkju. Í byrjun 18. aldar var jörðin enn í eigu Garðakirkju, en óvíst var á þeim tíma hvort kalla skildi jörðina hálflendu eða lögbýli „því þar er margoft ekki fyrirsvar nema til helminga, utan þegar vel fjáðir menn hafa ábúið, og stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi”.
Þó svo að vísbendingar ritheimilda séu fremur þöglar um upphaf og þróun byggðar innan Garðabæjar er ýmislegt sem bendir til að byggð hafi snemma hafist á þessu svæði og jafnvel orðið nokkuð þétt. Til þess benda m.a. uppgreftir á Hofstöðum og í Urriðaholti og Garðahverfið allt. Einnig má vera að á næstu árum/áratugum muni frekari fornleifarannsóknir á svæðinu leiða í ljós mun ítarlegri vitnesku um elstu byggð á svæðinu og þróun hennar.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Garðabær

Núverandi bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Einarsson.

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar „Gamall Garðhreppingur“ um „Átthagafræði Garðahrepps„. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

„Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.“ – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Reykjanesskagi

Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:

Sjávarhæð

Sjávarhæð – mismundur.

„Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.

Landnám Ingólfs

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.
Ós árinnar hefur hlaupið til og frá í tímans rás.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll.
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.

Selvogur

Selvogur

Selvogur.

Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir. Borgirnar eru nú nánast komnar undir kampinn.

Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).

Herdísarvík

Herdísarvík. Sjórinn hefur rofið grandann milli sjávar og Tjarnarinnar.

Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.

Grindavík

Grindavík

Grindavík.

Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir nýlega loftmynd. Gamli brunnurinn er kominn undir kampinn. ÓSÁ

Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.
Sjórinn hefur brotið framan af Nesinu.

Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin“. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,“ segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur.

Staðarhverfi

Staðarhverfi suðvestan við Grindavík. Litlagerði og Kvíadalur er nú nánast komnir í sjó fram.

Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,“ en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi“. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.“ Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.“ Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.

Staður

Staðarhverfi.

En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru.

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.

Hafnir

Hafnir

Hafnir.

Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.

Miðneshreppur

Stafnes

Stafnes.

Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það „af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.“

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.“ Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.“
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.“

Básendar

Básendar

Básendar.

Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðan, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint.

Básendar

Básendar. Land, sem áður var gróið, er nú nánast horfið.

Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.

Másbúðir

Másbúðir

Másbúðir.

Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“

Másbúðarhólmi.

Másbúðarhólmi var áður landfastur.

Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.“

Sandgerði

Sandgerði.

Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti“. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir“. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði. Sjórinn hefur verið að grafa sig inn í kirkjugarðinn.

Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.

Gerðahreppur

Gerðahreppur

Gerðahreppur.

Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.“ Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: „Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).“

Garður

Vatnagarður – loftmynd 2022. Sjórinn brítur ströndina.

Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið.

Garður

Garður – kort 1903.

Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina“. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni.

Leiran

Leiran – loftmynd.

Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.

Keflavík og Njarðvíkur

Keflavík

Keflavík.

Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.

Bergsendi

Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.

Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur.

Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
VogarJarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,“ og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.“ (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)

Garðahreppur

Garðahreppur

Garðahreppur.

Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina“ og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga“.

Bessastaðahreppur

Álftanes

Bessastaðahreppur.

Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, „og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn“. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.

Álftanes

Álftanes – kort frá 1796.

Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.

Álftanes

Álftanes 2021.

Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.“ Höfn þessi er nú ekki lengur til.

Sjávarvíkur, sem heita tjarnir

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.

Hlið

Hlið – Álftanesi.

Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.“ Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.

Melshöfði

Álftanes

Álftanes – Melshöfði. Gömlu verbúðirnar eru nú komnar út í sjó.

Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.

Laug í fjörunni

Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part af engjunum.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.“ Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.“

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.

Niðurlagsorð

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

Víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.

Selvogur

Selvogur – fjaran.

Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.