Tag Archive for: Ginið

Sauðabrekkur

Gengið var frá Krýsuvíkurvegi um Hrútargjárhraun yfir að Markhellu eða Markhelluhól eins og hún er stundum nefnd. Frá henni var gengið niður að Búðarvatnsstæði, upp um Sauðabrekkur að Sauðabrekkugjá og norður eftir henni um Sauðabrekkugíga á leið til baka niður hraunið. Í leiðinni var gengið framhjá Gapinu, mikilli holu í miðju hrauninu.

Markhella

Við Markhellu. Dæmigerð tilfærsla landamerkja fyrrum.

Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” „KRYSU“. Síðan lá línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti eða Klofningskletti,eins og hans er getið í sumum landamerkjalýsingum. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða.
Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns er ritað 26. maí 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Lýsing merkja er svona: “Landamerki milli Óttarstaða og Hvassahrauns byrja í Mið-Krossstapa, frá honum í Klofningsklett, sem varða er hjá, sunnanvert við Einirhól. Frá Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, frá þeim stað í Markhelluhól, sem er hornmark frá Óttarstöðum, Hvassahrauni og Krýsuvík; í hann er klappað: Ótt, Hvass, Krv.”

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Landamerkjabréf er til milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarstaða ritað 13. júní 1890, samþykkt frá öllum þremur jörðunum. Lýsing merkja er þessi:
“Merkin byrja í svonefndum Markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes, úr Markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stórgrænahól, úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu, úr henni í Skorásvörðu, úr henni í Miðkrossstapa, sem er horn mark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu sunnanvert við Einirhól, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík.”
Vatn var í Búðarvatnsstæðinu. Vestan við það er klettur, einnig nefndur Markhella eða Markhelluhóll. Stundum hefur verið áhöld um við hvorn klettinn hafi verið miðað í landamerkjalýsingum. Búðavatnsstæðið hefur áreiðanlega skipt miklu máli fyrir beit í heiðinni og ferðir um hana hér fyrrum. Margir slóðar liggja að vatnsstæðinu og vel gróið er í lægðum í kring.

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkuskjól.

Haldið var upp í Sauðabrekkur og fram á barm Sauðabrekkugjár. Honum var fylgt til norðurs, um svonefnda Sauðabrekkugíga. Um er að ræða fallega gígaröð ofan við gjána. Austar hafa verið aðrir gígar, en þunnfljótandi hraun fyllt í þá að mestu. Í einum gígnum er bæli, slétt gólf og hraunbekkur. Gluggi er í bælinu, en steinn hafði verið settur fyrir.
Ginið er hluti gamallar gjár, sem nýrra hraun hefur runnið ofan í og fyllt að mestu. Eftir stendur þessi hluti, óuppfylltur. Dýpið er um 20 metrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkur

Gígur í Sauðabrekkugígaröðinni.

Ginið
Gengið var að Gininu. Með FERLIRsfólki í för var þjálfað sigfólk frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Ásdís Dögg Ómarsdóttir og Jón Árni Árnason.
Ginið reyndist um 20 metra djúpt og mestanpartinn lóðréttir klettaveggir. Sjálft gatið er um fjórir metrar á breidd og um átta metrar á lengd. Opið er í jarði þunnfljótandi helluhrauns, sem hefur runnið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði. Það hraun virðist vera mun nýrra en hraunið allt um kring og gæti jafnvel hafa runnið á sögulegum tíma.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Stutt er í gjallgígana norðan Sauðabrekkugjár, sem mynda gígaröð í beina línu út frá gígunum ofan við gjárbarminn. Í einum gíganna, sem er holur að innan, hefur gólfið verið flórað, hlaðið er að hluta til fyrir munnann og hella lögð fyrir gluggaop (Sjá Sauðabrekkugjá).
Íshella var á botni Ginsins. Steinar hafa brætt sig um tvo metra niður í helluna og mynda holur ofan í hana. Þegar komið var niður er auðveldara að sjá hvers konar fyrirbæri þarna er um að ræða. Ginið er fyrrum gjá, sem hefur verið geysistór á þessum kafla. Hún er í sömu stefnu og aðrar gjá á svæðinu, s.s. Fjallgjá og Sauðabrekkugjá. Nýja þunnfljótandi hraunið hefur runnið ofan í gjána og fyllt hana. Sennilega hafa barmar gjárinnar risið einna hæsta þarna svo hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta.

Ginið

Ginið – loftmynd.

Til norðurs liggur rás undir hraunið. Hún ber keim af fyrrum sprungu. Eftir u.þ.b. átta metra endar gjáin í brekku. Ef farið er upp brekkuna tekur við mjó hraunrás, 6-8 metra löng, svo til beint upp á við. Þessi hluti var ekki kannaður með góðum luktum svo erfitt er að átta sig hvert framhaldið kann að vera. En ummerkin bera þess öll merki að þarna hafi verið gömul hraunfyllt sprunga. Sérstakur heimur út af fyrir sig og sennilega fágætt aðgengilegt jarðfræðifyrirbæri sem slíkt. Hraunið í sprungunni var frauðkennt, ekki þó gjall, og var tekið sýnishorn af því.
Þau Ásdís Dögg og Jón Árni, fulltrúar Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, eru að öllum líkindum fyrstu manneskjunar, sem fara þarna niður og kanna fyrirbærið.
Veður var stillt, blankalogn, og falleg kvöldsólin roðagyllti vesturhimininn.

Ginið

Ginið.

Húshellir

Eftirfarandi er tekið af vef Hellarannsóknarfélagsins eftir ferð í Ginið:

Ginið

Ginið.

„Eftir fund Ginsins hafa félagar í HERFÍ iðað í skinninu og beðið þess að berja undrið augum. Af þessu varð í dag.
Föngulegur hópur hellaáhugamanna, undir leiðsögn FERLIRs, þrammaði um Hrútagjárdyngjuna með það eitt að markmiði að skoða 2 „nýja“ hella og einn vel þekktan. Fyrsta stoppið var við sprungu sem liggur rétt sunnan við Dyngjuna sjálfa. Hér er á ferð þröng sprunga (engar bjórvambir leifðar í þessum) sem liggur um 10-15m niður í hraunið. Það merkilega við þessa sprungu er að bráðið hraun hefur fundið sér farveg í sprungunni og myndað fossa, kvikutauma og 8-10cm kvikuhúð um alla sprunguna. Þessi kvikuhúð er sumstaðar laus eða að losna og er því nauðsynlegt að vera með hjálm og passa vel upp á hrun. James, Jakob og Fernando skriðu niður og fullkönnuðu alla afkima hellisins. Hann heldur áfram bæði að ofan og neðan, en vegna þess að við erum allir komnir á gamals aldur og búnir að ná fullri stærð þá tókst okkur ekki að troða ofvöxnum líkömum okkar áfram.

Húshellir

Í Húshelli.

Á leiðinni í Ginið stoppuðum við í Húshelli. Eftir að hafa skoðað hleðslunar í Húshelli og beinin héldum við yfir hraunið og út í auðnina. Hraunið hér er slétt helluhraun, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við okkur og öskraði á okkur „komið niður“. Þó við höfum verið allar að vilja gerðir þá gafst ekki tími til að skoða undrið því við höfðum aðeins 30 mín eftir af dagsbirtu og héldum því fljótlega niður að bílunum. Hellirinn er um 15 m djúpur og snjór er í botninum. Varla sést marka fyrir gjalli eða kleprum á yfirborði og því er hér um að ræða 15 m niðurfall sem birtist í hrauninu eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Þetta op verður næsta viðfangsefni HERFÍ – jafnvel þó að ekkert sé þarna niðri er þetta eflaust „töff“ hellafundur.“

Ginið

Ginið.

Ginið

Farið var í Ginið. Um er að ræða um 15 metra djúpt op í hrauninu suðaustan við Sauðabrekkur og Sauðabrekkugjá. Ofan við brekkurnar að norðanverðu er falleg gígaröð með klepragígum. Mikil litadýrð er í þeim. Í einum þeirra er skjól þar sem gólfið hefur verið flórað og hella sett fyrir gluggaop. Skammt norðanfrá skjólinu eru hleðslur eftir refaveiðimenn.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Ginið er í tvískiptu hrauni. Annars vegar er um að ræða nokkuð gróið hraun og hins vegar slétt helluhraun. Ljóst er að þarna hefur áður verið mikil gjá í eldra hrauni, en nýrra hraun, tiltölulega afmarkað, sennilega úr Sauðabrekkugígum, hefur runnið til suðausturs og m.a. fyllt gjána að huta. Þetta hefur verið efsti hluti gjárinnar þannig að hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta hennar nema að litlu leyti. Fallegar klepramyndanir eru í veggjunum. En ekki var vitað um það sem neðar var. Sennilega hefur maður aldrei stigið fæti þar niður á botn eða kannað hvað dýpið kynni að geyma.
Ákveðið var, a.m.k. fyrst um sinn, að segja ekkert um hvar það er að finna svo hér verður einungis sagt frá hluta þess. Ætlunin er að fara þangað aftur fljótlega.

Ginið

Ginið.

Hraunið hér er slétt helluhraun, sem fyrr segir, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við og öskraði á okkur „komið niður“. Um er að ræða um 15 metra dýpi. Lofthræddir ættu ekki að standa á barminum. Ekki verður komist niður nema síga þangað á böndum. Efitt gæti reynst að komast upp aftur. Gengið var tryggilega frá öllum festum.
Til að gera langa sögu stutta kom í ljós jökull á botninum. Stórbrotið er að horfa niður í Ginið, en ennþá mikilfenglegra er að horfa upp úr því. Við austurendann er hægt að komast inn í sprunguna. Í henni má sjá hvernig hraunið hefur runnið niður í hana og fyllt upp í holrúm. Hér er því um merkilegt jarfræðifyrirbæri að ræða. Hægt væri að komast áfram inn eftir sprungunni, en það var látið ógert að þessu sinni.
Erfitt er að finna Ginið fyrr en staðið er á barminum. Varhugavert væri að vera þarna í snjóalögum, því sá sem færi þarna niður óviljugur kæmi aldrei upp aftur.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 11. mín, en sigið tók drjúgan tíma (enda enginn að flýta sér).

Ginið

Ginið.