Tag Archive for: Gjáarrétt

Vífilsstaðasel

Gengið var upp á Víkurholt frá sauðahelli undir Kolanefi, um Ljóskollulág og Vífilsstaðasel, niður að Grunnavatni syðra, upp á Þverhjalla að Vatnsendaborg, niður að Hnífhól og að Gjárétt í Búrfellsgjá með viðkomu á Garðaflötum.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824-1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti og systir langömmu eins þátttakendans, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: “Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.” Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum.

Urriðahraun

Urriðahraun – fjárbyrgi.

Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða.
Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflötina, sem nú er til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði síns við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur og klæðaburður mannsins þótti sérstakur. “Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði. “
Gengið var skáhallt upp Ljóskollulág og upp á Víkurholtið. Þaðan er gott útsýni yfir Grunnuvötnin og Hjallana. Í gróinni lægð í holtinu hvíla tóftir Vífilsstaðasels. Stekkur er uppi á holtinu norðan þeirra.
Gengið var niður að Grunnuvötnum syðri, með þeim og áfram upp á Þverhjalla þar sem staðnæmst var við Vatnsendaborgina. Niður við Grunnuvötn sást risaspor í snjónum. Sporið var um 60 cm langt, en annars teljast spor eftir risa vart til tíðinda í FERLIRsferðum því svo víða búa þau á Reykjanesinu.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Skammt sunnan við Vatnsendaborgina er varða á brúninni. Hún er í beina stefnu í Arnarbælissvörðuna og Hnífhól, sem eru landamerki Garðabæjar og Kópavogs (Vífilsstaða/Garðabæjar hins forna og Vatnsenda). Borgin sjálf er heilleg að hluta.
Gengið var niður Hjallamisgengið, sem er merkilegt jarðfræðifyrirbæri, áleiðis yfir að Hnífhól.
Hjallamisgengið er hæst um 65 metra hátt og um 5 kílómetra langt. Það er hluti af mörgum misgengisþrepum sem liggja hvert upp af öðru. Brúnin myndar nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Þessi brot hafa myndast bæði áður og eftir að Búrfellshraunið rann. Hreyfingar eru stöðugt á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2,8 millimetrar á ári.
Regnboginn breiddi úr sér yfir Hjallamisgenginu. Framundan blasti Búrfellið við. Úr eldvarpinu rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar.

Garðaflatir

Garðaflatir – tóft.

Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einungis einu sinni. Það var flæðigos. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Búrfellsgjáin sjálf er 3,5 km hrauntröð.
Komið var við á Garðaflötum. Norðaustan við flatirnar eru tóftir. Nú sást vel stór tóft norðan við syðstu tóftina. Út frá henni liggur garður til vesturs. Allar eru tóftirnar orðnar jarðlægar og því sennilega mjög komnar við aldur, en þeirra er ekki getið í örnefnalýsingum.

Búrfellsgjá

Í Búrfellsgjá.

Gengið var að Búrfellsgjá. Þar er Gjárétt, stundum nefnd Gjáarrétt. Hún var hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Rétt er ekki nefnd svo vegna þess að hún er rétt hjá. Þar var fé réttað, þ.e. því skipt réttilega milli löglegra eigenda miðað við rétt tilkall þeirra til fjárins skv. réttum mörkum (eða svip. Fjárglöggir bændur þekktu vel hverjum hvaða á tilheyrði, enda hver þeirra með ólíkt útlit líkt og mannfólkið. Sauðir líktust t.d. oftlega eigendum sínum).
Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt. Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson).

Gjárrétt

Gjárrétt í Búrfellsgjá.

Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“ Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt.

Gjáarrétt

Gjárrétt – teikning.

Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964. Hraunréttinina dunduðu Hafnfirðingarnir hins vegar við að færa smám saman á kerrum sínum í bæinn og hlóðu úr henni garða og mishleðslur hingað og þangað. Nú stendur ekki einn einasti steinn eftir í þeirri gömlu rétt.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.gustarar.is/gustur
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Vífilsstaðasel

Hér verður lýst fjórum leiðum í Gjáarrétt, sem er neðst í Búrfellsgjá. Leiðirnar eru: Selsleið, Hlíðarleið, Hjallaleið og Kolhólaleið. Upplýsingarnar eru úr bókinni Áfangar, ferðabók hestamannsins (1986).

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Hafa ber í huga að framangreindar götur hafa og verið nefndar öðrum nöfnum, bæði að hluta og í heild. Áður en farið er í tilvitnaða frásögn má hér sjá aðrar lýsingar, sem skýrast síðar.
„Austan [Reykjanes]brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt. Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Jónshellar

Jónshellar.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.“
Í enn annarri lýsingu segir um þessar götur við Gjáarrétt: „Í Búrfellsgjá, við mannvirkin, má sjá a.m.k. þrjár fornar götur. Ein liggur upp úr gjánni að norðanverðu gegnt réttinni, önnur upp úr gjánni sunnanverðri skammt austan við Gerðið og sú þriðja til vesturs við mörk Selgjár. Sú síðastnefnda mun hafa heitið Gjáarréttargata (Gjáarrréttarstígur) og lá áleiðis niður að Urriðakoti annars vegar og Vífilsstöðum hins vegar. Hinar göturnar hafa verið leiðir annars vegar heim að Vatnsenda og Elliðavatni og hins vegar niður að Setbergi og í Hafnarfjörð. Fjórða gatan hefur legið upp Búrfellsgjá og síðan upp úr henni yfir á Selvogsgötu ofan Helgadalsmisgengisins því þær útréttir, sem Selvogsbændur urðu að fara í voru, auk Eldborgarréttar Grindvíkinga, Lögbergsréttar við Reykjavík og Ölfusréttar, Gjáarréttin í Búrfellsgjá…“

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Selsleiðinni er lýst á eftirfarandi hátt (úrdráttur): „Við hefjum ferð okkar í hesthúsahverfi Gusts í landi Smárahvamms í Kópavogi. Leið okkar liggur um Hnoðraholt. Holtið dregur nafn af Hnoðranum, en það er talsvert áberandi fuglaþúfa á holtinu norðvestanverðu þar sem það er einna hæst. Hnoðrann ber við loft og sést vel, þegar horft er til austurs úr hesthúsahverfinu sunnanverðu. Alveg við Hnoðrann eru fallegar, jökulnúnar grágrýtisklappir.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Þegar gatan er riðin upp úr hverfinu, verður fyrst fyrir á hægri hönd landspilda í brekku. Þar fyrir sunnan er Vífilsstaðaland. Landamerkjalínan milli Fífuhvamms (Smárahvamms) og Vífilsstaða var dregin frá Hnoðranum í svonefnt Norðlingavað í Arnarneslæk. Ofan við húsaþyrpinguna og sunnanvert í holtinu er steinsteypt vélbyssuvígi frá árum síðari heimstyrjaldar.

Finnsstaðir

Finnsstaðir /Finnsstekkur.

Reiðgatan (Selsleið) sveigir nú til austurs eftir holtinu. Á hægri hönd fyrir neðan okkur eru mikil tún frá Vífilsstöðum. Þetta er svokölluð Vetrarmýri. Áður en berklahælið (hvítmálaður spítalinn blasir við augum) var reist á Vífilsstöðum var þar í raun og veru aðeins kotbýli. Hornsteinninn að Vífilsstaðahæli var lagður 31. maí 1909 og fyrsti sjúklingurinn flutti þangað inn 5. september 1910. Bygging hælisins gekk með ólíkindum vel, þótt unnið væri að þeirrar tíðar hætti. Möl og annað byggingarefni var til dæmis flutt á hestvögnum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Vetrarmýri var ótrúlega blaut. Þar var ekki fært með hesta og illa fært gangandi manni. Ef til vill tekur mýrin nafn sitt af því að hún nýttist skepnum fyrst þegar fraus á vetrum. Arnarneslækur á upptök sín í mýrinni vestast.  Upp úr 1920 var byrjað að handgrafa skurði í mýrinni og þurrka hana. Árið 1922 var landið svo tætt og sléttað með svokölluðum þúfnabana. Voru Vífilsstaðir einn af fyrstu stöðunum þar sem þessi forveri nútíma dráttarvéla var notaður. 

 

Ræktunarframkvæmdir heima við Vífilsstaðahælið hófust fyrr, strax árið 1916 þegar ríkissjóður tók við rekstri hælisins úr höndum áhugamannafélags þess, er hælið reisti.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þegar mest var voru um eitt hundrað gripir í fjósi á Vífilsstöðum og heyfengur mikið á fjórða þúsund hestburði.
Þar sem reiðgatan milli Vetrarmýrar og Leirdals er lægst heitir Leirdalsop. Framundan er Smalaholt og Vífilsstaðavatn. Þar rétt við bílveginn, neðan undir Smalaholtinu, eru rústir af gömlu býli eða peningshúsum, nema hvort tveggja sé. Á korti heita þetta Finnsstaðir, en engar heimildir þekkjum við um að hér hafi byggð verið. Í Jarðabókinni frá 1703 er Finnsstaða ekki getið. Hugsanlega er að þarna hafi verið stekkur frá Vífilsstöðum.
Þá er komið upp á Vífilsstaðaháls. Þaðan er fagurt að horfa yfir Vífilsstaðavatn. Við það fá Garðbæingar neysluvatn sitt úr borholu. Nefna sumir það Vatnsbotna, en aðrir Dýjakróka.

Selgjá

Selgjá – stekkur.

Við ríðum með Kjóavöllum vestanverðum og stefnum þaðan til suðausturs. Þarna í brekkunni, utan í Sandahlíð og suðvestan Kjóavalla,  verður fyrir okkur steinsteypt mannvirki, greinilega nokkuð gamalt. Þótt mannvirki þetta sé ekki ýkja stórt sjáum við strax að ekki hefur verið spöruð í það steypan. Þegar betur er að gáð má sjá innan við þykka veggim sem skýla innganginum, ofn úr járni, rammbyggilegan eins og aðra hluta þessa mannvirkis. Raunar er þetta mannvirki leifar frá stríðsárunum síðari. Var þetta „prengjuofn“ þar sem var eytt gömlum skotfærum og sprengjum, sem Bandaríkjamenn þurftu að losa sig við.
Þá er haldið upp Básaskarð. Innar er hæðardrag. Á því eru fjárhúsarústir og eru þær frá Vatnsenda. Rústirnar vera þess merki að húsin hafi verið

Vatnsendi

Vatnsendi – fjárhús.

nokkuð stór og myndarleg. Húsunum hefur verið valinn staður nærri mörkum Vífilsstaðalands, en þó tæplega svo að bryti í bága við ákvæði Jónsbókar og yrði fellt undir ágang.
Framundan er allhá hæð með vörðu efst. Hún heitir Arnarbæli. Um hana liggur landamerkjalína Vatnsenda og Vífilsstaða. Grunnavans syðra er neðar. Á Hjallabrún stendur Vatnsendaborg. Sést hún vel af Vatnsásnum, listilega hlaðin. Mjög stórt grjót er í hleðslunni neðst, en borgin er nú því miður að hluta fallin. Dyrnar á borginni vita í norðvestur. Borgin er hringlaga og sem næst sex metrar í þvermál að innan. Meira verður rætt um fjárborg þess í lýsingunni um Hjallaleið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Línuvegur liggur þarna skammt frá. Austan við háspennumastur nr. 29 er grösugur hvammur. Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, sem nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum, líklega svefnhúsi, eldhúsi og mjólkurhúsi. Sunnanvert við aðalrústina eru tvær aðrar rústir, ef til vill kvíar og stöðull. Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er einir fimmtíu fermetrar að utanmáli. Víðistaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703, þótt undarlegt megi virðast.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Að þessu seli eins og öðrum hefur legið gata, selgata. Okkur sýnist að með góðum vilja megi fylgja selgötunni í austanverðri Vífilsstaðahlíð, ofan Grunnavatns nyrðra og niður Grunnavatnsskarð vestanvert.
Til suðurs sést grunn  en breið gjá í hrauninu fyrir neðan. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barna gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.

Selgjá

Selgjá.

Athyglisvert er að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.

Við norðurenda Selgjár er reisuleg varða. Við skulum leggja hana á minnið, því að þar hjá eru gömul og að okkar mati mjög merkileg fjárbyrgi, sem við eigum eftir að huga að síðar, sjá lýsingu á Hlíðarleið.
Framundan er Búrfellsgjá og Gjáarrétt. Við höldum í gerðið og hvílum þar, sjá Kolhólsleið.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Búrfellsgjá

Gengið var í Búrfellsgjá, að Vatnsgjá og Gjáarrétt.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Upplýsingaskilti er við göngustíginn að gjánni þar sem getið er um aldur réttarinnar, hvenær síðast var réttað í henni, helstu leiðir frá henni o.fl. Hraunréttin í Gráhelluhrauni tók við að Gáarrétt, en sú rétt er nú horfin. Gjáarétt var endurhlaðin, en er nú aftur farin að láta á sjá. Norðaustan í gjárbarminum má sjá skágötu upp úr gjánni. Þar er gamla gatan að Vatnsenda og Elliðavatni. Þá liggur gata upp úr gjánni að norðanverðu áleiðis til Vífilsstaða og Urriðakots og áfram áleiðis út á Álftanes (Görðum). Sunnan réttarinnar er Gerðið. Innst í því er hlaðið heillegt skjól fyrir fyrrum gangnamenn.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Haldið var upp Vífilstaðahlíð og að Vífilsstaðaseli. A tóftum að dæma hefur selið verið nokkuð stórt á Reykjanesvískan mælikvarða. Stekkur er á klapparholti norðan tóftanna. Gengið var norðvestur eftir Vífilstaðahlíðinni, að skotbyrgi frá stríðsárunum þar nyrst utan í öxlinni. Skammt frá er Gunnhildarvarða (Gunhill) eða Grímsvarða, sem og hún var nefnd fyrrum. Sagt er frá hvorutveggja í Örnefnalýsingu Garðabæjar. Gengið var upp Svarthamar og yfir að Hjöllum, eitt af hinum miklu misgengjum á Reykjanesskaganum, þar sem Vatnsendaborgin stendur hvar hæst með ágætu útsýni yfir Heiðmörkina og niður að Elliðavatni.

Selgjá

Selgjá – tóftir.

Frá Vatnsendaborginni var gengið framhjá Grunnuvötnum syðri og vestur með Hjöllunum, yfir í Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru tóftir allt að 11 selja frá Görðum á Álftanesi. Nyrst í gjánni er Norðurhellragjárhellir, fjárskjól. Vestan hans er fallega hlaðið op ofan við fjárskjól Þorsteinshellis eða Efri-hella. Vestan hans er enn eitt fjárskjólið.
Gengið var til austurs yfir hraunið, að gamalli fjárborg í Heiðmörkinni. Enn sést móta fyrir hringlaga borginni í hrauninu, en nokkur gróður er bæði í henni og við hana. Þá hefur grjót verið tekið úr borginni í hlaðinn hús suðvestan við hana. Erfitt er að koma auga á mannvirkin vegna þess hversu vel þau falla inn í landslagið.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var yfir veginn og að sauðahelli Urriðakotsmanna skammt frá göngustígnum undir Vífilstaðahlíð. Hlaðið er framan við skútann. Þá var strikið tekið áleiðis yfir að Seljahlíð með viðkomu í hlöðnu útihúsi í Urriðakotshrauni skammt austan við golfvöllin og við hlaðið aðhald norðvestan undir kletti þar skammt suðaustar. Haldið var vestur um Þverhlíð niður að Lækjarbotnum þar sem gangan endaði.
Góð þversogkrussganga um fallegt og minjaríkt landslag.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 21 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt

Hér er úrdráttur af lýsingu Kolhólsleiðar í Áföngum, ferðahandbók hestamannsins: „Við ríðum út úr hesthúsahverfi hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og stefnum ti austurs. Farinn er slóði. sem Tóftmyndast hefur á síðustu árum norðanvert í Hnoðraholti. Liggur hann að tveimur sérkennilegm hólum, nyrst og austast í Hnoðraholti. Hólar þessir heita Hádegishólar og eru gamalt eyktarmark frá Fífuhvammi.
Bærinn í Fífuhvammi blasti við af leiðinni að Hádegishólum. Hús voru þar að falli komin og voru rifin um mitt sumar 1982. Í Fífuhvammi hafði ekki verið búið frá því 1953. Þar var fyrrum allstórt kúabú. Voru þar tólf kýr í fjósi, sem þótti mikið. Kópavogskaupstaður keypti Fífuhvammslandið. Áður hét bærinn Hvammkot.
Nokkru fyrir sunnan og vestan Fífuhvamm, en neðan og til norðurs við Hádegishóla, voru gömul fjárhús, sem voru rifin sumarið 1983.
Farið er um Leirdal. Að austan og norðaustan takmarkast dalurinn af miklum hálsi, sem heitir Selhryggur. Um hann voru landamörk milli býlanna Breiðholts og Fífuhvamms.
Ef vel er að gáð má sjá Fífuhvammsseltóftir nokkuð uppi í hlíðinni á hægri hönd. Þetta eru gamlar fjár- og beitarhúsatóftir frá Fífuhvammi. Þar var síðast haft fé í tíð Þorláks Guðmundssonar (1834-1906). Fyrir miðjum Selhrygg að austanverðu og í landi Breiðholts hétu Selvellir. Þar var vatn og trúlega selstaða. Ekki er okkur kunnugt um hverjir hafa haft þar í seli. Í Jarðabók 1703 er hvorki talað um selstöðu í landi Hvammkots, nú Fífuhvamms, né í landi Breiðholts. Svæði þetta er komið undir byggð og verður því tæpast kannað héðan af.
Í Efri-Leirdal, í vesturtagli Vatnsendahvarfs, er Markasteinn. Í hann eru klappaðir verklegir járnkengir. Girðingarvír hefur verið strengdur í þessa kengi. Kengina festu að öllum líkindum í steininn þeir bræður í Fífuhvammi, Kristján og Guðmundur, skömmu fyrir 1940. Sáttargerð fá 1923 bendir til þess að Vífilsstaðir eigi land að steininum eða jafnvel norður fyrir hann.
StrípurVið ríðum upp á Flóttamannaveg og yfir hann til suðurs, norðaustanvert við Kjóavelli. Þaðan er fylgt ruddum bílevgi til austurs, norðan í Vatnsendahlíð og framhjá nokkrum sumarbústöðum, sem þar eru. Haldið er áfram þar til kemur á vegm sem liggur meðfram Elliðavatni vestanverðu. Vesturströnd vatnsins, norðanvert við Vatnsendahlíð, heitir Laxatangi. Áður en stífla var sett við Elliðavatn 1924-1925 vegna virkjunarframkvæmda í Ellðaánum, en þá hækkaði vatnsborðið að meðaltali um rúmlega einn metra, var þarna lítill tangi út í vatnið.
Á Hjallabrún er komið á Hjallaleið á stuttum kafla. Þegar komið er upp á Hjallabraut, sem er akvegur um þvera Heiðmörk, er Strípshtraun framundan til suðurs. Fremst í Strípshrauni austanverðu, mjög nærri bílveginum og til austurs við okkur, rís einstakur hraundrangur eða klettur, sem nefnist Strípur. Tekur hraunið nafn af honum. Um Stríp voru landamerki milli Vatnsenda og Elliðavatns.
GarðaflatirRiðið er um Heykrika og áfram að Kolhól. Þegar komið er að reiðhliði á Heiðmerkurgirðingunni verður fyrir við hliðið lítil hlaðin rétt eða aðhald í hraunbrúninni. Það gerði Guðmundur Magnússon í Engjabæ í Laugardal í Reykjavík árið 1949. Í réttinni má auðveldlega byrgja tíu hesta með því að loka með vír og grindum í girðinguna til norðurs.
Við Kolhól er Kolhólskriki. Nöfnin benda óneitanlega til þess að þar hafi verið stunduð kolagerð. Heimildir eru um mikla kolagerð í löndum Vatnsenda og Elliðavatns fyrr á öldum og jafnframt að nærri hafi verið gengið landinu.
Hinn mikilfenglegi gígur Búrfells blasir við. Við sneiðum því næst niður Búrfellsháls og niður á Garðaflatir. Flatir þessar eru allstórar og ná nokkuð norður með hraunbrún, sem liggur að Búrfellsgjá að austanverðu. Austanvert við flatirnar er mjög skammt í girðingu á vesturmörkum Heiðmerkur. Ólafur Þorvaldsson getur um útisamkomur á Garðaflötum.
Þá er haldið í Búrfellsgjá að Gjáarrétt.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.Búrfell

Búrfellsgjá

Gjáarrétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár, ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár.
GjáarréttRéttin er hlaðin úr hraungrýti enda er gnægð af því byggingarefni nærtækt. Veggir, sem enn standa, bera verklagi hleðslumanna gott vitni.
Líklegt er að Gjáarrétt hafi verið reist og gerð að fjallskilarétt árið 1840. Síra Árni Helgason prófastur í Görðum á Álftanesi (1777-1869) ritar sóknarlýsingu Garðaprestakalls árið 1942. Hann segir þar: „Rétt fyrir þennan hrepp er sett í kirkjulandinu næstliðið ár. Lengi að undanförnu var ekki skipt um slíkt; þá var og sauðfé hér miklu færra en nú er orðið.“
Í safnritinu Göngum og réttum er ekki rætt um fjallskil í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Heimildir um Gjáarrétt og fjallskil þar eru þess vegna fremur litlar.
Gjáarrétt var ef að líkum lætur fjallskilarétt, lögrétt, í liðlega áttatíu ár eða fram yfir 1920. Þá var fjallskilaréttin flutt niður í Gráhelluhraun, ofan við Hafnarfjörð, og nefndist Hraunrétt. Árið 1955 var rétt gerð við Kaldársel. Þar er skilarétt nú (1986). Eftir þetta var þó smalað til Gjáarréttar á sumrin allt fram yfir 1940.
Gjáarétt var friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar 1964.
Á uppdrættinum má sjá dikaskipan samkvæmt frumrissi Gísla Guðjónssonar og staðfest af Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti. Dilkar: 1 – Grindavík. 2. Vatnsleysuströnd. 3. Suður-Hafnarfjörður. 4. Setberg. 5. Hraunabæir. 6. Garðahverfi. 7. Vestur-Hafnarfjörður. 8. Urriðakot og Hofstaðir. 9. Vífilsstaðir. 10. Ómerkingar. 11. – Vatnsendi og fleiri bæir í Seltjarnarneshreppi. 12. Selvogur.

Gata við Gjáarrétt

Við Gjáarrétt er réttargerði. Fjársafnið var geymt í gerðinu nóttina áður en réttað var. Þar inn undir berginu er hlaðið byrgi, sem ýmsar skýringar eru á til hvers hafi verið notað. Víst er að menn notuðu þetta byrgi sem skjól meðan Gjáarrétt var fjallskilarétt. Það hefur líka verið notaðs em fjárbyrgi. Okkur kemur til hugar að byrgið gæti upphaflega verið eldra en Gjáarrétt eða frá sama tíma og seljarústirnar í Selgjá. Byrgið hefur nú látið allmikið á sjá, meðal annars var þar nokkurt hrun vorið 1982.

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Garðaflatir

Gengið var um Búrfellsgjá, sem er í rauninni ekki gjá heldur hrauntröð. Mesta breidd hennar er um 300 metrar, en mjóst er hún 20-30 metrar. Lengd gjárinnar er um 3 og ½ km.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og Gerðið.

Góður stígur liggur í gjána. Nyrst í henni er Gjáarrétt, nokkuð heilleg og fallega hlaðin. Þessi fjallaskilarétt var byggð 1839. Hún var lögrétt Garðhreppinga, Bessastaðahreppsbúa og Hafnfirðinga fram til 1920 er hún var flutt niður í Gráhelluhraun (Hraunrétt) og síðan Kaldársel. Hraunréttin er nú horfin, en hún var þar sem nú er skeiðvöllur Sörla. Við Gjárrétt hittist fólk í réttum og gerði sér síðan glaðan dag á Garðavöllum. Gleðskapurinn var slíkur að frá honum er sprottið hugtakið “gjálífi”. Presturinn á Görðum hafði það orð um hegðan fólksins þarna á þessum tíma. Ekki ósvipað útihátíðunum í dag. Austan í gjánni, gegnt réttinni má sjá fallegan gamlan veg upp úr gjánni. Sú leið var nefnd Vatnsendavegur eða Elliðavatnsvegur. Urriðakotsvegur lá að Urriðakoti. Varð það annað heiti á Gjáarréttarvegi, sem lá niður að Vífilsstöðum.

Búrfellsgjáarrétt

Búrfellsgjáarrétt.

Vestan við réttina er Réttargerðið, skeifulaga hvilft, hömrum girt. Hlaðinn garður er fyrir anddyri hennar og hlið þar á. Fjársafnið var geymt í gerðinu um nóttina áður en réttað var. Innst í gerðinu, þar sem hamraveggurinn er hæstur, er hlaðið byrgi. Að hluta til er það fjárbyrgi, en að hluta til notuðu réttarmenn byrgið sem skjól og til gistingar. Það er enn nokkuð heillegt, en farið að láta á sjá.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Frá réttinni var gengið til suðausturs upp á Garðaflatir. Þar hafði FERLIR nýlega fundið tóft og var ætlunin að skoða svæðið betur. Flatirnar tilheyrðu hinu forna landi Garðakirkju á Álftanesi. Ýmsar sagnir eru til um þær. Ein er sú að þar hafi verið hinu fornu Garðar, en þeir verið færðir er “hraunið” rann. Átti fólkið að hafa flúið með logandi lukt undan hrauninu með áheiti um að nýr bær skyldi reistur þar sem ljósið slokknaði. Þar munu vera núverandi Garðar. Önnur sögn er um að Garðar hafi haft þar vetrarbeit. Þá eru til sagnir af seljum í Búrfellsgjá og minjar staðfesta selstöðusagnir Garðabæja á ellefu stöðum í Selgjá. Ekkert er minnst á þessar tilteknu tóttir á Garðaflötum í Örnefnaskrá Garðabæjar.

Fyrst var gengið að tóttinni, sem fannst nýlega. Hún er greinileg undir hæð austan við flatirnar. Austan hennar virðist vera nokkurn vegin kringlótt gerði og norðvestur frá því forn garður. Austar í kvos undir sömu hæðum virðist vera tótt og önnur skammt norðar. Norðan við þessar tóttir virðist og vera ferningslaga tótt. Ofan hennar á holti eru hleðslur. Allt bendir til þess að þarna geti verið fornar tóttir að ræða, sem ástæða er til að skoða nánar.
Veður var ágætt – sól og logn á hreyfingu.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Geitafellsrétt

Gengin var óhefðbundin leið frá Þrengslavegi að Strandarhæð. Leiðin er greiðfær og auðveld yfirferðar. Hallar undan, einkum seinni hlutann.

Selvogsheiði

Gengið um Selvogsheiði.

Byrjað var á því að ganga að Sandfelli og áfram yfir slétt mosahraunið að Geitafelli, með því að austan og sunnanverðu uns komið var að Seljavöllum. Þaðan var haldið suðvestur með Réttargjá að gömlu hlöðnu Geitafellsréttinni. Geitafellsréttin var frádráttarrétt Ölfus- og Selvogsbúa. Réttin hefur ekki verið notuð lengi, en stendur þarna heilleg og löngum einmana undir gjáarveggnum. Umhverfið er allt hið fegursta og skjólgott undir gjáarveggnum. Skömmu áður en komið var að réttinni mátti sjá gamlar hleðslur utan í hraunhól.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Gjáarrétt).

Í auglýsingu í Ísafold 22.09.1875, bls. 143-144 er m.a. minnst á Geitafellsréttina: „Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdæminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprætingar fjárklaðans í suðrhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjareigendr þá.. sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er úr þessu lögsagnarumdæmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Gjáarrétt).

Mun almenn skoðun á réttarfénu, fyrren það er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. þ. m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s. m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar í stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar.“

Strandarhæð

Við Gapa.

Gengið var með Merarbrekkum að slysavarnarskýlinu undir Heiðinni há og kíkt á Kjallarahelli, sem er skammt ofan við það. Ekki var gengið á Svörtubjörg og komið við Eiríksvörðu að þessu sinni (hlaðin árið 1710), en þess í stað var haldið í átt að Staðarsel (Strandarseli), fráfæruseli við efri rætur þeirra. Leiðin lá framhjá hlöðnu Selvogsréttinni norðan við Hnúkana með viðkomu í Hellholti og Hellholtshellir skoðaður, Hafri, Hruni svo og nokkrir aðrir. Áður höfðu ferðalangar áð í Selvogsréttinni þar sem gangnamenn fyrrum höfðu verið svo vinsamlegir að skilja eftir svolítið af kjarngóðum hákarli, reyktum rauðmaga og brennivíni fyrir ferðalúna vegfarendur.

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

Þá var haldið niður að Eimubóli (Eimustekkur er í Eimuhelli) og Vindásseli, gengið yfir Vörðufell og skoðuð hlaðna Vörðufellsréttin (hætt að nota 1924) og Markavarðan með krossmarkinu (landamerkjavarða), auk litlu smalavarðanna, sem tengjast þjóðsögunni um endurheimtur.
Á þessu svæði eru miklar og merkilegar mannvistaleifar, ekki síst í hellum og skútum. Hafa þær væntanlega tengst seljabúskapnum í heiðinni, sem hefur skilið eftir sig miklar og merkilegar minjar.

Eimusel

Hleðslur í Eimuseli (Eimubóli).

Þarna er fjölmargt að skoða þótt ekki virðist það vera við fyrstu sýn, a.m.k. ekki séð neðan frá þjóðveginum.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Á leiðinni að Strandarhelli var komið við í Ólafarseli, sem liggur undir hraunkrikanum syðst í Vörðufellshrauni. Skammt austar liggur gömul þjóðleið. Loks var skoðað í Strandarhelli, Bjargarhelli og í Gaphelli (Gapstekk).
Gangan tók u.þ.b. 8 klst. Veður var frábært og björt júlínóttin gaf ferðinni skemmtilegt yfirbragð.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Búrfellsgjá

Gengið var um Búrfellsgjá, litið á Gjáarrétt og síðan gengið upp á Garðaflatir austan gjárinnar, norðan Búrfells.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Búrfell er eldstöð frá nútíma og þaðan hefur runnið mikið hraun sem þekur um 18 km2 lands. Búrfellsgjáin sjálf er mikil hrauntröð úr gígnum að vestanverðu, um 3,5 km löng. Hún er meðal bestu dæma um hrauntraðir frá nútíma.
Afurðir Búrfells, Búrfellshraun, tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfell er hringlaga nálægt gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraunið. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er bæði innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli hleðsla í gerði Gjáarréttarer Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára.
Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur. Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Hún er grynnri, en breiðari. Segir það nokkuð um hraunmagnið, sem um hana rann. Hæðarmismunurinn á gjánum stafar af misgenginu, sem fyrr er lýst. Á köflum eru gjárveggirnir hrauntraðarinnar í heild þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni. Niðri í Búrfellsgjánni stendur fjárrétt sem nú er friðlýst. Í Selgjánni eru minjar 11 selja frá Görðum. Norðvestan endimörk hennar eru allnokkrir hellar, m.a. fallega hlaðin fjárskjól.
Búrfell og Búrfellsgjá eru með stórkostlegustu náttúruminjum höfuðborgarsvæðisins er gígurinn Búrfell og hrauntröð hans, farvegur hraunsins úr gígnum, Búrfellsgjá. Gjáin er mögnuð gönguleið um land sem vart á sér líka. Steindepillishjónin, sem áttu sér hreiður í gjánni, voru áreiðanlega sama sinni. Söngur þeirra gaf annan tón í annars magnaða fuglahljómhviðuna.
Gjárétt er ævagömul. Hún er hlaðin úr hraungrjóti og er mjög stílhrein. Hún var lögð af sem skilarétt Hafnarfjarðar, Garðahrepps og Bessastaðahrepps um 1920 og er nú friðlýst af þjóðminjaverði.
SteindepillSkammt vestan við réttina er sex metra djúp misgengissprunga sem nefnist Vatnsgjá, og niðri í henni er uppspretta. Vatn er eðlilega mjög torfundið á þessum slóðum, allt hripar það niður í hraunið og hverfur augum vegfarenda. Skýrist þar valið á réttarstæðinu og líklega hefur fé verið haldið þar um tíma áður fyrr, sbr. söguna af Krýsuvíkur-Gvendi.
Veggir Búrfellsgjár eru fimm til tíu metra háir og víða eru hellisskútar í þeim. Greinilega má sjá hvernig hraunið hefur runnið. Taumar gjárveggjanna vitna um það.
Mjög fróðlegt er að skoða gjánna þar sem hún er þrengst, nær því efst uppi við sjálfan gíginn. Þar eru stórkostlegar hraunmyndanir, hraunið er víða lagskipt, sjá má hvernig litlir hrauntaumar hafa lekið niður vegginn og oft má finna lítil op inn í veggina og þar inni eru fallegir litir.
Tóft við GarðaflatirGjáarétt er fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár og var lögrétt fram til 1920. Smalað var til hennar fram yfir 1940. Réttin er hlaðin úr hrauni og þrátt fyrir að hún hafi verið endurgerð bera veggirnir ummerki eftir afleiðingar jarðskálfta, sem jafnan eru tíðir á svæðinu, enda stendur réttin á þéttri hraunhellu. Gjáarétt er á fornminjaskrá. Skammt norðan réttarinnar er Vatnsgjá, sem fyrr er lýst. Var hún meginvatnsból réttarinnar og selja í grenndinni. Gjáin er alldjúp gjá eða sprunga í hraunbotni gjárinnar. Hún er þröng og um 5-6 m á dýpt. Löguð hafa verið steinþrep niður í hana þar sem vatnsbólið var.
Gjárétt (eða Gjáarétt) mun hafa verið fjallskilarétt (lögrétt) til 1920 en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 kveður Árni Helgason gjárétt hafa verið hlaðna steinrétt er þjónaði sem fjallskilarétt Álftaneshrepps frá 1840.
Tóft við GarðaflatirÞað hefur verið sagt um Krýsuvíkur-Gvend að úr Krýsuvíkurhverfi hafi hann hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldist við í Gjáarrétt með fé sitt og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum og sér þar votta fyrir byrgi sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla. Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan. Í norðaustanverðri Búrfellsgjá má sjá myndarlega fyrirhleðslu við aflangan skúta. Lítið er eftir af hleðslunni, enda hafa kvikmyndagerðarmenn og aðrir farið höndum um grjótið síðan mannsmynd var á fyrirhleðslunni. Syðst í henni má þó enn sjá hlaðinn innganginn.
Tóft við GarðaflatirSagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.
Auk gamalla sagna um bústað og minjar á Garðaflötum er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”. Svo virðist sem minjarnar á Garðavöllum hafi fallið í gleymskunnar dá – a.m.k. þar til fyrir nokkrum árum.
Í umsögnum um svæðið hefur gjarnan verið sagt að „engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast.“
Lóuhreiðir við GarðaflatirSvonefndar Garðaflatir liggja við austurbrún Löngubrekka, norðvestan við Búrfell og Búrfellsháls. Hermt er að þar hafi Garðakirkja staðið fyrr á tímum. Í ritinu Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar (bls. 90) er vitnað til sagnaþátta Ólafs Þorvaldssonar, þar sem segi: „Þetta var á svonefndum Garðaflötum, sem liggja norðvestur frá Búrfelli. Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi, og tel ég líklegt, að umgetnar flatir hafi fengið nafn af jörðinni Görðum. Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. (Ólafur Þorvaldsson 1951:50-51). Kemur einnig fram í frásögn Ólafs, að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
Undir norðaustanverðum brekkubrúnum Garðaflata má sjá tóftir, m.a. húss, gerðis og garðs. Enn ofar má sjá þar tóftir tveggja minni bygginga, líklega fornra topphlaðinna fjárborga. Lóuhreiður var utan í garðinum – með fjórum eggjum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.ust.is/media/skyrslur2003/Burfell.pdf
-http://2www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun
-http://www.gardabaer.is/upload/files/Gardab_kortab_bak.pdf

Burfell

Straumssel

Víða í hraununum sunnan, austan og vestan Hafnarfjarðar eru tóftir sem minna á horfna búskaparhætti. Hlaðnar réttir, fyrirhleðslur við skúta, kvíar, fjárhellar og vörður eru hluti af þeim minjum sem mest er af í Almenningi, en svo nefnist hraunið ofan Straumsvíkur. Þar eru líka tóftir frá þeirri tíð þegar haft var í seli á nær hverjum einasta bæ og koti á landinu. Eitt þessara selja var Straumssel og þar eru myndarleg tóftarbrot.

Selin framlenging á heimajörðunum
Straumssel-221Selin höfðu stóru hlutverki að gegna í Hraunum sem annarsstaðar. Þau liggja nánast í beinni línu frá býlunum á miðjum Reykjanesskaga um 3-4 km sunnan við bæina í svonefndum Almenningi, suður af Flám og Seljahrauni. Meðal þeirra voru Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Að þessum selum lágu slóðir sem hétu ýmsum nöfnum s.s. Straumselsstígur, Hraungata og Skógarstígur. Um sauðburðinn var lambfé fyrst í stað haldið í heimatúninu, en lömbum í stekk svo þau gætu ekki sogið mæður sínar.  Síðan var féð rekið inn í stekkinn á kvöldin, lömbunum komið fyrir í lambakofa í stekknum og féð mjólkað að morgni. Gekk þetta svona til framyfir Jónsmessu, en þá voru ærnar rúnar áður en þær voru reknar í selið. Lömbum var haldið heima nokkru lengur, þar til þau voru rekin á afréttinn. Selráðskona eða matselja flutti sig um set í selið og hafði hún það hlutverk að mjólka féð og vinna matvöru úr mjólkinni.
Raudamelsrett-221Úr ærmjólkinn var framleitt smjör, ostur og skyr. Selráðskonan hafði með sér eina eða tvær unglingsstúlkur og smala, sem sat yfir ánum, daga og nætur. Hann hafði oft það hlutverk að strokka smjör á meðan hann sat yfir ánum og stundum var strokkurinn bundinn við bak hans og hann látinn eltast við féð á meðan smjörið strokkaðist Bóndinn kom síðan á þriggja daga fresti til að sækja smjör, skyr og annað sem framleitt var í selinu og færði heim á bæinn. Við selin eru stekkir eða kvíar og jafnvel náttból þar sem fénu var haldið yfir nóttina og gat þá smalinn sofið rólegur í selinu, eða fjárskúta sínum. Í Hraunum eru húsakynni selanna eins; þrjú áföst hús, mjólkurhús, baðstofa og eldhús. Stundum var fénu haldið langt fram á haust í seli og jafnvel allan veturinn þegar snjólétt var, en annars var það flutt heim eftir réttir og beitt á fjörur.

Búseta í Straumsseli
straumsselsstigur-221Almennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Leiguliðinn var Bjarni Einarsson en honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 á með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

Fjárskilaréttir

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Á haustin voru leitir því geldfé sem gengið hafði á fjörubeit um veturinn var sleppt á vorin í úthaga, bæði sauðum og gemlingum. Einnig voru lömb látin ganga sjálfala í afrétti allt sumarið og þeim þurfti að koma heim á haustin til slátrunar. Var Gjárétt í Búrfellsgjá fjallskilarétt Álftnesinga lengi vel.

Lambhagarétt

Lambhagarétt við Kleifarvatn.

Áttu allir fjáreigendur hreppsins hvort heldur voru búendur eða þurrabúðarmenn að gera fjallskil til Gjáréttar. Hraunamenn, Hafnfirðingar sunnan lækjar og Ásbóndinn fóru í svokallaða suðurleit, og höfðu náttstað í hellum við Kleifarvatn í Lambhaga.  Garðhverfingar, uppbæjarmenn, Hafnfirðingar norðan lækjar og Álftnesingar fóru í norðurleit og höfðu náttstað í Músarhelli við Valaból. Síðustu árin meðan byggð hélst í Hraunum var Guðjón Gíslason bóndi á Stóra-Lambhaga í Hraunum fjallkóngur suðurleitamanna. Þegar rétta þurfti í Hraunum var Þorbjarnarstaðarétt haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunbæina Litla- og Stóra Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot.   Rauðamelssrétt var vorrétt Hraunamanna og kallast þessu nafni þó hún hafi legið nokkuð frá melnum, en hún var skammt frá Réttargjá og voru réttir þessar aðallega notaðar til rúninga áður sem fóru oftast fram um fardagaleytið.

Hlunnindi og kvaðir
einir-221Ekki voru Hraunajarðirnar miklar hlunnindajarðir. Þó hefur kjarrskógur í Almenningi, eða Hraunaskógur, lengi talist til mestu hlunninda þessara jarða. Þar var hægt að gera kol til eldunar og stundum mátti fá þar stórvið. Kvaðir voru á jörðunum að færa nokkra hríshesta heim til Bessastaða ár hvert og jafnvel stórvið. Þessar kvaðir hafa íþyngt ábúendum jarðanna því árið 1703 kvartar Sigurður Oddleifsson ábúandi í Lónakoti við Árna Magnússon og Pál Vídalín ,,um að skógurinn í almenningum væri svo foreyddur að hann ei til treystist þar að safna kolviði til landskuldargjaldsins” til Bessastaða. Þegar birkihrís og einir eyddist voru bændur látnir rífa lyng og koma til Bessastaða. Var sortulyngið aðallega rifið því ekki mátti skerða krækiberjalyng eða bláberjalyng og enn síður beitilyngið þar eð sauðféð nærðist á því. Bændur áttu einnig að greiða afgjald til Bessastaða í dagsláttu, smjöri, fiskum, vaðmáli og mannsláni um vertíð og þurftu að fæða verkamennina að auki. Torfrista var engin, engjar voru ekki fyrir hendi og rekavon var lítil sem engin. Helstu hlunnindi voru fjörugrastekja, sölvafjara, hrognkelsatekja í lónum, selbitinn fiskur, skelfisksfjara til beitu og berjalestur.

-Jónatan Garðarsson.

Gjásel

Gjásel.