Tag Archive for: Grindavík

Járngerðarstaðir

Sr. Gísli Brynjólfsson skrifaði um „Grindavíkurhverfin“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1967:
„Fljótlega eftir að fólk tók sér bólfestu í Grindavík, hafa þar byggst einar sex sjálfstæðar jarðir auk Ísólfsskála, sem er drjúgan spöl austan við aðalbyggðina.
thorkotlustadahverfi-229Í rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270 er getið bæði um Járngerðarstaði og Þorkötlustaði. Í landi þriggja þessara jarða hafa svo verið reistar hjáleigur, grasbýli og tómthús, með mjög takmarkaðar landsnytjar enda afkoman svo að segja að öllu leyti byggð á sjónum. Hefur fjöldi þeirra sjálfsagt verið nokkuð misjafn, þeim hefur fjölgað þegar vel fiskaðist, en fækkað svo aftur á móti á aflaleysisárum. Þess vegna mynduðust fljótt 3 hverfi í Grindavík og var nokkurt jafnvægi í byggðinni fram á síðustu ár eins og eftirfarandi tölur sýna:

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðabæirnir um 1960.

Í manntalinu 1703 er getið um 2 tugi lausamanna og marga, sem voru á sveitarframfæri. Auk þeirra, sem áttu lögheimili í plássinu safnaðist svo til Grindavíkur mikill fjöldi útróðrarmanna á vertíðinni eins og gerist enn í dag. Frá Grindavík reru skip Skálholtsstóls eins og úr fleiri verstöðvum, enda átti Skálholtskirkja allar jarðirnar nema Húsatættur. Sú jörð var konungseign. Árni Magnússon getur þess, að frá Þorkötlustöðum rói áttrætt skip Skálholtsstaðar, annað frá Hópi og 3—4 frá Járngerðarstöðum, en á Hrauni lagðist útgerð stólsins niður eftir að „skipið forgekk“ árið 1700. Þann vetur voru veður ofsaleg, segir Espólín, — urðu skiptapar miklir, fleiri en 20 á Suðurnesjum og í Gullbringusýslu. Á þeim týndist hálft annað hundrað manna og 129 af þeim á föstudaginn seinastan í Góu, á einni eykt. Þá hafa verið daprir dagar í Grindavík.
Þegar rituð verður saga Grindavíkur, kemur eflaust sitthvað í leitirnar, sem bregður ljósi á tilveruna í þessari verstöð, þótt lítt hafi hún sjálfsagt verið frábrugðin því sem tíðkaðist í sambærilegum plássum annars staðar. Einni slíkri mynd af landinu og lífinu í Grindavik er brugðið upp í Ferðabók Mackenzie’s er hann kemur þangað á ferð sinni um Suðurnes í ágúst 1810.
stadur-229Honum sýnist landið auðar og ömurlegar eyðimerkur hrauna og sanda, þar sem hvergi sér stingandi strá. Hvergi bregður fyrir neinu, sem gleður augað eða léttir lundina. Loks nálgast þeir byggðina, nokkra kofa á ströndinni. Út úr þeim kemur fólkið — karlar, konur og krakkar, skriðu út úr þessum hreysum eins og maurar úr þúfum. Það glápir á gestina í forundran „enda vorum við fyrstu útlendingarnir á þessum slóðum. Mackenzie hafði meðmælabréf til Mr. Jóns Jónssonar. Spurðu þeir uppi mann með því nafni og fengu honum bréfið. Mr. Jón er síðhærður gráskeggur og þegar hann er búinn að setja upp gleraugun og fer að lesa bréfið, minnir hann helzt á yfirbiskup í rétttrúnaðarkirkjunni.
— En þetta er ekki sá rétti Jón heldur er þeim vísað á annan Jón, — eina mílu í burtu. Þegar þangað var komið, var sá Jón ekki heima, en birtist samt von bráðar og bauð þeim í bæinn, sem þeim var mjög á móti skapi að þiggja og notuðu fyrsta tækifæri til að komast aftur út undir bert loft.

Staður

Staður í Staðarhverfi um 1960.

Kringum tjald þeirra félaga safnaðist fólkið — um 30 manns á öllum aldri, gerðist all-nærgöngult, að því er þeim fannst, og fór ekki fyrr en komið var fram á nótt og regnið og rokið rak það heim. Sökum óþrifnaðar og af ótta við sjúkdóma, vildu þeir ferðalangarnir hafa sem minnst saman við íbúana að sælda.
Það er allt annað en glæsileg mynd, sem þessi erlendi ferðalangur dregur upp af Grindvíkingum, háttum þeirra og híbýlum. Ekki er ótrúlegt, að hann hefði gefið þeim annan og betri vitnisburð, hefði hann kynnzt þeim í starfi þeirra og stríði við Ægi, sjósókn þeirra og siglingum, farið með þeim í einn róður þegar mátulega golaði, kynnst útsjón og áræði farsælla formanna og dugmikilla háseta. Enginn maður í atvinnulífi Íslendinga hefur verið jafn mikilsvirtur og góður, aflasæll formaður. Hann hafði enn meiri völd og virðingu skipshafnar sinnar heldur en húsbóndi á sveitabæ naut hjá hjúum sínum, enda aðstaðan að sumu leyti önnur, þar sem líf hásetanna var ósjaldan í hendi hans.
Hraun-229Hraun var eitt fjölmennasta heimilið í Grindavík á þessum árum. Voru þar 17 manns heimilisfastir. Þar bjó Jón hreppstjóri og dannebrogsmaður Jónsson, 78 ára, frá Járngerðarstöðum. Hann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Sigríður Jónsdóttir frá Ásólfsstöðum í Eystrihrepp. Var hún 15 árum eldri heldur en bóndi hennar. Þau voru barnlaus. Sigríður dó á jóladaginn 1839 „af innvortis sjúkdómi“. Næstu tvö árin var Kristin systir Jóns fyrir búi hans, en 1841 fluttist til hans 25 ára gömul stúlka austan undan Eyjafjöllum, Guðbjörg Gísladóttir, fædd á Lambafelli 10. marz 1815. Fyrsta ár sitt á Hrauni var Guðbjörg talin þar vinnukona, því næst bústýra, en haustið 1842 þ. 7. október, Járngerðarstaðarhverfi. gaf sr. Geir Backmann þau Jón hreppstjóra saman í Staðarkirkju. Þá var brúðguminn 54 ára, en brúðurin 27 ára.

Hraun

Hraun í Grindavík um 2000.

Þau Hraunshjón eignuðust þrjú börn: Jón, dó vikugamall, Sigríður, fædd 29. janúar 1851. Hún giftist Hafliða Magnússyni. Bjuggu þau á Hrauni og eignuðast mörg börn. Guðbjörg, fædd 30. jan. 1859, giftist Gísla Hermannssyni frá Buðlungu. Þau bjuggu einnig á Hrauni. Jón á Hrauni var hinn merkasti maður. Bær hans var hinn allra reisulegasti í sókninni, segir sr. Geir í sóknarlýsingu sinni. Hann lét byggja þrjú mikil timburhús, slétta túnið og byggja um það grjótgarð mikinn, grafa afardjúpan brunn, sem úr fékkst all-gott vatn, en vatnsskortur var einn aðalókostur jarðarinnar. Sá var annar, að þaðan var ekki útræði á vetrum og höfðu Hraunsmenn uppsátur á Þorkötlustaðanesi. „En nú er velnefndur hreppstjóri að láta búa til vör fyrir sunnan túnið, vinnur þar að með mikilli atorku og víst þó töluverðum kostnaði að hverju sem verður“ (sóknarlýsing). Hann andaðist á Hrauni, tæplega sjötugur 3. maí 1894.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 15. október 1967, bls. 10-11 og 13.

Grindavík

Grindavík 1963.

Eldborg

Gengið var upp á Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, niður hrauntröð suðaustur úr megingígnum, beygt að Litlu-Eldborg, horft niður um gígopið og síðan gengið niður mikla hrauntröð til suðurs í Krýsuvíkurhraun.

Eldborgarrétt

Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).

Eftir að hafa fylgt tröðinni nokkurn spöl, var gengið yfir hraunið til austurs og síðan norðurs, uns komið var í aðra stóra hrauntröð úr gígunum. Hún var gengin upp að rótum. Svæði þetta er einstaklega áhugavert út frá jarðfræðilegum sjónarmiðum, en ekki síst náttúrulegum því í hrauninu hafa fest rætur hinar margvíslegustu plöntur, auk gamburmosans. Hraunin hafa jafnan verið nefnd undir samheitinu Krýsuvíkurhraun, en í rauninni er um nokkur aðskilin hraun að ræða, sem hvert hefur runnið yfir annað, að hluta til eða í heild.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Á hraunakortum af Krýsuvíkurhrauninu en ljóst er að mjög margir hraunstraumar eru settir undir örnefnið Krýsuvíkurhraun. Sjá má hvernig hraunstraumar hafa runnið niður hlíðarnar, s.s. í Sláttudal, en ofan við þær eru einstaklega fallegir eldgígar, sem fáir hafa barið augum. Þeir eru í góðu göngufæri frá Herdísarvíkurveginum, t.d. upp frá Sláttudal eða upp frá Sýslusteini skammt austar.

Eldborgir eru venjulega túlkaðar í eintölu og eru undir Geitahlíð. Stóra-Eldborg er t.a.m. nokkrir gígar þótt einn þeirra sé sýnum myndarlegastur og reistastur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar staðið er upp á suðuröxl Geitahlíðar sjást gígarnir mjög vel sem og hraunið niður undir þeim. Þetta eru formfagrir gjallgígar á suðvesturenda gígaraðar, sem skildi eftir hraun alla leið til sjávar. Hraunið frá Litlu-Eldborg er talsvert minna. Norðausturhluti gígaraðarinnar sést vel frá Æsubúðum.

Geitahlíð, sem fóstrar eldborgirnar á öxlum sínum, er grágrýtisdyngja. Í suðurhlíðum, ofan við Stóru-Eldborg, er Hvítskeggshvammur, en Æsubúðir efst á hlíðinni.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Við þær er gígur fjallsins, alldjúpur. Hvítskeggsvammi og Æsubúðum tengist þjóðsaga af kaupmönnum, sem í búðunum höfðu verslunarstað fyrrum. Við Hvítskeggshvamm bundu þeir skip sín og “mátti til langs tíma sjá festarkeng þar í klöppunum”. Líklegt er að þá hafi ströndin náð upp að fjöllunum, s.s. Herdísarvíkurfjalli, sem telja má líklegt. Ströndin neðan við fjallgarðinn er nýrra hraun, sem runnið hefur neðan af björgunum og fyllt upp og mótað landið neðan við þau. Ofan Stóru-Eldborgar liggur gamla þjóðleiðin milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls og Kerlingadal, þar fyrir eru dysjar Herdísar og Krýsu.
Eldborgir undir Geitahlíð eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar 1987, sbr. Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Þar s egir m.a. um friðlýsinguna:

Stóra Eldborg

Stóra Eldborg.

”Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni. Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
Að norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á útliti gíganna. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði umhverfis eldstöðvarnar.”
Eldborg myndast þegar þunnfljótandi kvika kemur upp um kringlótt gosop í fremur stuttum gosum og án kvikustrókavirkni (flæðigos). Umhverfis gosopið hlaðast upp brattir gígveggir úr hraunslettum. Hraunið frá þeim er ýmist hellu- eða apalhraun. Dæmi: Eldborg á Mýrum og þessar eldborgir í Krýsuvík.

Eldborg

Hraun við Eldborgir – kort Jóns Jónssonar.

Hraungos eða flæðigos nefnast þau gos sem nær eingöngu mynda hraun. Slík gos mynda ýmist eldborgir eða dyngjur. Eldborgir myndast við eitt, fremur stutt, flæðigos þegar þunnfljótandi gasrík hraunkvika flæðir upp um eldrás sem verður pípulaga er líður á gosið. Kvikan kraumar í gígskálinni og sýður upp úr henni með nokkru millibili. Við það flæðir kvikan yfir barmana og hlaðast þannig upp mjög reglulegir gígveggir úr nokkurra cm þykkum hraunskánum. Gígveggirnir eru brattir ofan til (40°- 60°) og mynda efst þunna egg og eru þeir aðaleinkenni eldborganna. Eldborgir eru mjög sjaldgæfar utan Íslands.

Þrátt fyrir friðlýsinguna hefur Litlu-Eldborg verið raskað með efnistöku. Svæðið sunnan Stóru-Eldborgar er í sárum eftir stórvirkar vinnuvélar og skammsýni mannanna. Þegar stigið er upp á leifarnar af gígopinu blasir það við, alldjúpt. Stiga eða band þarf til að komast niður. Barmarnir eru allsléttir.

Eldborgarhraun

Eldborgarhraunin.

Gengið var niður stóra hrauntröð vestast í Krýsuvíkurhrauni. Hraunin nefnast því einu nafni, sem fyrr sagði, en hraunið frá Litlu-Eldborg hefur runnið yfir hraunið frá Stóru-Eldborg og er síðarnefnda hraunið því eldra hraun. Annars greinir menn oft um aldur hrauna. Þannig hefur Ögmundarhraun t.d. verið sagt vera frá 1151, en þó hefur að verið aldursgreint frá árinu 1005 með geislakolsmælingum (C14 945 ± 85 ).
Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hraunanna. Ofar eru þau úfin, en gróin á milli og eftir því sem neðar og austar dregur. Þau hafa runnið fram af gömlu bjargbrúninni, sem sést neðan við svonefnda Klofninga. Ofan brúnarinnar er t.d. Krýsuvíkurhellir og Bálkahellir ofar. Fleiri hellar og rásir eru í hrauninu, en það hefur verið lítt kannað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Litla-Eldborg

Leifar gígs Litlu-Eldborgar.

Sveifluháls

Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Nokkrir þekktir móbergstindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur.

Á SveifluhálsiMóberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnir jöklarnir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ.
Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Á SveifluhálsiSurtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.

Í Eimreiðinni árið 1900 birtist grein eftir Þorvald Thoroddsen um móberg á Íslandi. Hér kemur úrdráttur úr greininni er tekur einkum mið af jarðfræði Reykjanesskagans:
Á Sveifluhálsi„Í síðasta hefti Eimreiðarinnar hefir herra cand. mag. Helgi Pétursson skrifað grein, sem hann kallar »Nýjungar í jarðfræði Íslands«, og er aðalefni ritgjörðarinnar hugleiðingar um myndun móbergsins á Íslandi. Með því að grein þessi er stutt og höf. hefir farið nokkuð fljótt yfir sögu, leyfi ég mér að rita nokkur orð til skýringar. Þó get ég ekki, í alþýðlegu tímariti, skrifað eins ýtarlega um þetta mál, eins og þarf, ef það á að skýrast fullkomlega frá öllum hliðum.
Eins og flestum mun kunnugt, nær móberg og þussaberg yfir afarmikið svæði á Íslandi og tekur yfir alt miðbik landsins, að sunnan frá Faxaflóa austur fyrir Öræfasveit, að norðan frá Fnjóskadal austur í Þistilfjörð. Móbergið myndar þannig belti yfir landið þvert; það er mjög mismunandi að gerð og afarþykt, nokkur þúsund fet Á Sveifluhálsisumstaðar. Allir aðrir hlutar landsins eru aðallega myndaðir úr blágrýti (basalti) í þykkum hamrabeltum, sem bezt sjást í dalafjöllum og við sjóinn. Þessi blágrýtislög hallast víðast inn á við, inn undir móbergsbeltið. Í blágrýtis-héruðunum eru víða smáblettir af móbergi, og sumstaðar eru allþykk móbergs- og þussabergslög milli blágrýtislaga, og það sumstaðar djúpt í fjöllum, svo mörg hundruð feta blágrýtisberg liggur ofan á móberginu. Þó eru þessi móbergs-millilög tiltölulega lítil í samanburði við móbergið um miðbik landsins; þar eru aftur blágrýtislög innan um, en þeirra gætir minna, af því móbergið er þar í meirihluta. Af þessu sést, að móbergið er myndað á ýmsum tímum, þó miðbeltið sé auðsjáanlega yngra en hinar stóru blágrýtismyndanir.
Á SveifluhálsiÞetta er líka eðlilegt. Ísland er því nær alt myndað af eldgosum; blágrýtið er gamalt hraun, móbergið eldfjallaaska og gjall og sérhvert eldgos framleiðir hvorttveggja; bráðið hraungrjót rennur úr gígunum og mulið grjót kastast í loft upp, dettur niður og myndar móbergslög. Við öll eldfjöll um víða veröld eru hraun og móbergslög á víxl, en það er mismunandi og komið undir atvikum af hverju er meira á hverjum stað. Í Utah og víðar sunnan og vestan til í Bandarikjum eru 2000 feta þykkar móbergsmyndanir, er ná yfir afarstórt svæði, og móbergs- og hraunlög sjást um alla jörðina, þar sem eldgos hafa orðið, sum ný, sum frá ýmsum tímabilum jarðsögunnar.

Á Sveifluhálsi

Móberg kalla Íslendingar berg það, sem í útlöndum heitir »tuff«, en þussaberg það, sem menn annarsstaðar kalla »breccia«. Í móberginu eru yfirleitt sömu steinefni eins og í blágrýtinu, smámulin og orðin að dusti, en gleraðir og eldbrunnir hraunmolar innan um, stundum vikur, gjall og steinkúlur (bombur), alt þetta rusl loðir saman og er orðið að linu eða hörðu bergi; stundum er móbergið lagskift, stundum er engin skifting sjáanleg. Í hinu íslenzka móbergi eru óteljandi korn af gulleitu eða mórauðu steingleri, sem kallað er »palagonit< og af svörtu gleri (tachylyt); oft er þetta alt bráðið saman við öskuna og gjallið, og alt orðið einn eldbrunninn sori. Þussabergið er samsett af sömu efnum eins og móbergið, en í því eru stórir hraunsteinar á víð og dreif, hornóttir og ólögulegir. Í móberginu eru mjög víða uppskotnir gangar, hraunæðar með ótal greinum, sem hafa brotist gegnum bergið og kvíslast innan um það; í því eru enn fremur blágrýtislög, hnúðar og kleppar með skásettum og hringsettum (koncentriskum) súlum með bráðnu steingleri utan á; sumstaðar er svo mikið af þessu í móberginu, að blágrýtið verður aðalefnið, en móbergið að eins þunt tengiefni, svo sem t. d. í Botnsssúlum, og þar er ísnúið dólerít ofan á, og eins er í mörgum öðrum fjöllum um alt móbergssvæðið. Móbergið ber svo augljóslega með sér, að það er myndað af eldi, að ég gat ekki hugsað mér, að það dyldist nokkrum manni, sem skoðað hefir eitthvert móbergsfell. Ég varð því alveg hissa er ég sá, að höf. byrjar ritgjörð sína með því sannanalaust að fullyrða, að móbergið á Íslandi sé að miklu leyti fornar jökulurðir. Annað mál er það, að vel getur verið, að jökulurðir séu milli Á Sveifluhálsimóbergslaga og hraunlaga; á það munum vér síðar minnast. Um miðbik Íslands, í móbergshéruðunum, eru víðáttumikil grágrýtishraun (dólerít) af svipaðri gerð eins og grjótið í holtunum kringum Reykjavík, þau eru rispuð og ísnúin og auðséð, að jöklar hafa gengið yfir þau; hraun þessi hafa flest hagað sér eftir landslagi því, sem nú er, og runnið sumstaðar ofan dali (t. d. Flókadal), niður af Mosfellsheiði, kringum fellin í Mosfellssveit og í sjó fram, niður hlíðar og skörð á Reykjanesfjallgarði og Snæfellsnesfjallgarði. Það liggur í augum uppi, að þessi miklu hraun hafa ekki runnið öll í einu, heldur en aðrar nýrri hraunbreiður, enda sést það víða, að breytingar hafa orðið á landslagi frá því fyrstu dóleríthraunin runnu, en litlar eftir að hin síðustu mynduðust; það er t. d. algengt að dóleríthamrar eru í efstu brúnum þverbrattra fjalla, en ekkert dóleríthraun fyrir neðan, og hlýtur því mikið að hafa breytst síðan þau hraun mynduðust. Þetta sést á mörgum ritgjörðum mínum og jarðfræðisuppdráttum.
H. P. virðist ætla, að ég haldi öll dóleríthraun jafngömul, en slíkt hefir mér aldrei dottið í hug. Eftir að hin eldri dóleríthraun runnu hafa allvíða myndast ofan á þeim þykk móbergslög, t. d. við Laxárdal hjá Mývatni, við Kálfstinda og víðar; en langoftast liggja þó dóleríthraunin ofan á móberginu.
í móberginu eru hér og hvar hnullungalög (Conglomerat) með vatns- eða jökulnúnu grjóti, leir og sandi; þó þau séu víða allþykk, eru þau þó þunn og hverfandi í samanburði við móbergið alt. Slík hnullungalög hefi ég fundið kringum Suðurlandsundirlendið, við Mýrar, á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og víðar.

Á Sveifluhálsi

Móbergsmyndanirnar íslenzku eru mjög margbrotnar og eflaust myndaðar á ýmsan hátt og á ýmsum tímum, og vita jarðffæðingar enn nauðalítið um það, hvernig þær eru til orðnar; til þess þarf enn langar og miklar rannsóknir og samvinnu milli jarðffæðinga af ýmsu tægi; til þess þarf eldfjallafróða menn, jökulfróða og bergfræðinga; að rannsaka þetta alt til hlítar er einskis eins manns meðfæri. Þó er móbergið aðeins einn lítill liður í jarðfræði Íslands.
Á ferðum mínum varð ég að fást við margbrotin störf, kanna öræfi, landslag og fjallahæðir, undirbúa jarðfræðisuppdrætti, rannsaka jökla, eldfjöll, hraun og hveri, blágrýti, líparít, móberg, surtarbrand, sævarmenjar o. m. fl., til þess að fá yfirlit yfir þetta alt saman og búa svo í haginn fyrir eftirkomendurna. Rannsókn jarðlagaskipunar í hinum einstöku fjöllum tekur mikinn tíma, og gat
ég því miklu sjaldnar, en ég vildi, fengist við slíkt; þetta verður að bíða betri tíma og vona ég, að aðrir taki fyrir sig að kanna einstök svæði og einstaka liði í jarðfræði Íslands, eins og H. P. nú er byrjaður á, þar sem hann sérstaklega hefir lagt fyrir sig rannsókn jökulurða og ísmenja. Á þann hátt getum vér á endanum fengið fullkomna þekkingu um myndun og byggingu vors víðáttumikla og hrjóstruga föðurlands. Athuganir mínar um móbergið og aðrar jarðmyndanir Íslands hefi ég skrásett í ýmsum ritgjörðum, en sjaldan dregið ályktanir af þeim, nema þegar þær hafa verið mjög margar af sama tægi, því annars áleit ég, að þær hefðu ekki nægilegt sönnunarafl, fyr en fleiri bættust við.

Á Sveifluhálsi

Hér er ekki rúm til þess að geta um ýms málefni, er snerta jarðfræði móbergsins; en svo mikið er víst, að aldur ýmsra móbergslaga er mismunandi og að það er til orðið á öllum tímabilum, frá   því   snemma á hinum »tertíera« tíma fram á vora daga; en varla er enn byrjað að greiða sundur hinar einstöku deildir. Sumstaðar hefir eflaust myndast móberg og hraun milli ísalda. Það væri undarlegt, ef eldfjöll þá hefðu hætt að gjósa, og eins meðan jökull lá yfir öllu eða mestöllu landi, og hefir aska sú blandast saman við frammokstur jöklanna. I öðrum löndum hafa menn fundið rök fyrir nokkrum ístímabilum með tiltölulega hlýju loftslagi á milli, og svo hefir eflaust líka verið á Íslandi, enda hefir enginn efast um það.

Í framangreindri grein Helga Péturssonar „Nýjungar í jarðfræði Íslands“ í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.: „Helzta nýjungin er skjótt aö segja sú, að móbergið á Íslandi er að nokkru leyti, eða ef til vill að miklu leyti, fornar jökulurðir, nú orðnar að einum  steini  og  talsvert umbreyttar á ýmsan hátt. Oss hefur kent verið um móbergið, að það hafi í upphafi verið eldfjallaaska, en innanum ýmislega lagaðir basaltmolar og hraunmolar«. Að því er mér skilst, hafa þó verið miklir erfiðleikar á að skýra nánar, hvernig sumt móberg hafi farið að myndast við gos. En ýms einkenni þessara móbergstegunda, sem erfiðleikana gera, verða auðskilin, þegar það er séð, að þetta grjót er í raun réttri undan jöklum, og má rekja þetta ýtarlega, þó að ekki verði það hér gert.

Á Sveifluhálsi

Frá tveim hliðum má skoða þetta mál. Að öðru leytinu sjáum vér, að bergtegund ein er alls annars eðlis, en talið hefur verið, og skal lítið farið út í það hér. En um hitt ætla ég að fara nokkrum orðum, hvers vér getum orðið vísari af þessari bergtegund, þegar hún er rétt þýdd.
Vitringur einn hefur komist svo að orði, að atburðirnir semji sína eigin sögu um leið og þeir verða, og á það ekki sízt heima í sögu jarðarinnar; hraunin segja frá eldgosum, einkennilega skafið og rispað grjót frá skriðjöklum o. s. frv. Hlutverk jarðfræðinganna er nú bæði að taka sem bezt eftir, hvernig jörðin fer að skrásetja sögu sína, og eins að finna og þýða rétt þau skjöl og skilríki, sem til eru.
Þar sem er móbergsmyndanin íslenzka, má nú svo að orði komast, að vér höfum auðugt skjalasafn, er lýtur að ýmsum atburðum í jarðsögu landsins, ekki ómerkum. En lykilinn að þessu safni hefur vantað, og þar af leiðandi hlýtur því yfirliti yfir jarðfræði íslands, sem fengist hefur enn sem komið er, að vera talsvert áfátt, ámóta og vera mundi þekkingu vorri á sögu þjóðarinnar, ef sagnfræðingarnir hefðu ekki haft neina vitneskju um Sturlungaöldina t. a. m. Nú er þessi lykill fundinn, og þó að lítið sé að gert um rannsóknir á þessu skjalasafni enn, þá er samt svo mikið séð, að stórum verðum vér að breyta skoðunum vorum á íarðfræði lands vors, og að ísland er ólíkt öllum öðrum löndum — að því er ég bezt veit —, hvað ísaldarmenjarnar snertir.

Á Sveifluhálsi

Enginn þeirra jarðfræðinga, sem ferðast hafa á Íslandi, minnist á, að hann hafi séð ísnúna steina í móberginu; en í tölu þessara manna hafa þó verið nafnkendir ísaldarfræðingar eins og t.a.m. dr. K. Keilhack frá Berlín. En Keilhack virðist hafa komist lengst í áttina að þessari uppgötvun, eins og nú skal greina. Keilhack fann fyrstur eitthvað af þessu hnullungabergi 1883 og getur þess, að sér hafi þótt það mjög sviplíkt íslenzkum jökulurðum. Ekki leyfir hann sér þó að ætla, að þetta séu jökulurðir mjög fornar, heldur álítur hann, að hnullungaberg þetta sé árgrjót frá tertieröldinni. Dr. Thóroddsen rannsakar þessi svæði 10 árum seinna en Keilhack, og ber þeim á milli um aldur þessara laga:
»Þessi jarðmyndun hefir myndast af rennandi vatni og er ekki ólíklegt, að hér á landi, sem í öðrum löndum, hafi úrkoma verið mjög mikil rétt á undan ísöldinni; af því varð vatnsrennsli miklu meira en áður og þá hafa hnullungalög þessi orðið til«. (Thóroddsen: s. st).
Ég hef ekki séð þetta hnullungaberg og þori því ekki að segja neitt með vissu um, hvað það muni vera; en síðan í sumar eð var, er ég fann ísnúna steina í móberginu, hefur mér dottið í hug, að eitthvað muni búa undir þeirri líkingu, er Keilhack sýndist vera milli þessa hnullungabergs og jökulurða, og að því muni ef till vill vera ísnúnir steinar. En ef svo væri, og hefði Keilhack komið auga á þessa steina, væri líklega margt óskráð af því, sem nú má lesa um jarðfræði íslands, eða á annan veg ritað.
Á SveifluhálsiÍ einu af síðustu ritum þess manns, sem vér eigum fyrst og fremst að þakka það, sem vér vitum um jarðfræði Íslands, stendur, að hann — og þá auðvitað heldur ekki aðrir — »hafi hvergi fundið jökulurðir eða ísrákaðar klappir undir ísnúnu hraununum«.
(Thóroddsen: Explorations in Iceland during the years 1881 — 98. From »The Geographical Journal« for March and May 1899, bls. 23).
Ég nefni þetta atriði vegna þess, að á því byggir dr. Thóroddsen mikilsvarðandi ályktanir í jarðfræði landsins. »Hraun þessi, sem runnið hafa rétt fyrir ísöld, sýna bezt, að aðallögun yfirborðsins hefur þá verið svipuð eins og nú, og flestir dalir myndaðir áður en ísöldin gekk yfir«. (Thóroddsen: Jarðskjálftar o. s. frv., bls. 13). Og á líkum ástæðum byggjast þessi orð: »Seint á »tertiera« tímabilinu er líklegt, að Suðurlandsundirlendið hafi myndast« (s. st, bls. 21).
Á SveifluhálsiÞað er enginn efi á því, að grjótið í fjöllunum, sem að Suðurlands-undirlendinu liggja, brotunum úr hálendinu, er forðum náði frá Reykjanessfjallgarði austur undir Eyjafjöll (Thóroddsen), er eldra heldur en undirlendið sjálft. Nú er það eins víst og að hraun hafa runnið úr Heklu, að ýms af þessum fjöllum eru að nokkru leyti bygð upp af hörðnuðum jökulurðum. Má nefna Hellisheiði, Hagafjall og Búrfell. Með öðrum orðum: Suðurlandsundirlendið, langstærsta dældin á landi voru, er ekki eldra en ísöldin.
En undirlendið er heldur ekki yngra en ísöldiu; hraun, sem hafa runnið ofan á það, eru fáguð og rispuð af jöklum. Hraun þessi geta ekki hafa runnið meðan land alt var undir ís, og verður þá niðurstaðan sú, að Suðurlandsundirlendið sé til orðið milli »ísalda«.
Á SveifluhálsiSíðan dóleríthraunin runnu hafa ekki orðið stórvægilegar breytingar á landslagi (Thóroddsen), en þareð landið hefur stórum breyzt eftir þá ísöld, sem fór á undan dólerítgosunum, liggur sú ályktun beint við, að sá tími, sem landið var >íslaust«, — en var alhulið jöklum áður og síðan, — hafi verið miklu lengri en sá tími, sem liðinn er frá því, að jöklarnir hurfu af Suðurlandsundirlendinu síðast.
Er þetta mjög vægt í farið. Því að nokkrar, eða jafnvel miklar, líkur eru til, að fyrir þetta »millijöklatímabil« hafi landið bæði verið stærra, en það er nú, og landslag mjög ólíkt. Þar sem svo er til orða tekið, að landið hafi verið »íslaust«, þá verður að geta þess, að engin sönnun er fengin fyrir því, að að alls ekki hafi verið jöklar til á Íslandi á þessu tímabili; en öll líkindi eru til, að miklu minna hafi verið um jökla, en nú er á landinu.
Þetta byggist á því, að ísnúin Norlingahálsdóleríthraun liggja sumstaðar inn undir Vatnajökul, að því er dr. Thóroddsen segir; en þessi ísnúnu hraun, sem, eins og rannsóknir Thóroddsens hafa sýnt, taka yfir svo stór svæði á landinu, eru ekki runnin fyrir ísöld, heldur milli »ísalda«, eins og áður er að vikið.
Það er alkunnugt jarðfræðingum, að Suðurlandsundirlendið hefur verið í sjó, um það er jökullinn (þ. e. síðasti jökullinn) var að hverfa og síðar. En hitt hafa menn ekki haft neina vitneskju um, að sjór hefur gengið upp á undirlendið áður en þessi síðasti jökull kom yfir.
Hingað til hafa náttúrufræðingar, eins og við er að búast, einkum veitt eftirtekt eldfjallamyndunum lands vors. Vonandi er að upp frá þessu snúi menn sér ekki síður að ísaldamenjunum, sem landið er að nokkru leyti hlaðið úr, og er það nú þegar séð, að slík athugun muni geta kent oss ýmislegt merkilegt um myndunarsögu Íslands — og líklega stærri svæða.“

Heimild m.a.:
-wikipedia.org
-Eimreiðin, Þorvaldur Thoroddsen, 3. tbl. 01.09.1900, bls. 161-169.
-Eimreiðin, Helgi Pétursson, 2. tbl. 01.01.1900, bls. 52-60.

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

Reykjanes

Í Alþýðublaðinu árið 1926 er fjallað um vegi og vegagerð á Reykjanesi:
„Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Reykjanesvegir-221Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna. Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni- vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um.
Reykjanesvegir-222Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni. Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla leiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi.

Reykjanesvegur

Vagnvegurinn millum Reykjaness og Grindavíkur forðum.

Sá hlutinn, sem nær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927. Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. —

Reykjanes

Reykjanesvegur áleiðis að Kerlingabás.

Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 20. ágúst 1926, bls. 2.

Reykjanesvegir

Gamli-Reykjanesvegurinn til Grindavík; loftmynd 1954.

Grindavík

Eldgos hófst af miklum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu Stóra-Skógfelli ofan Grindavíkur um klukkan 23.14 þann 20. nóv. 2024. Starfsmenn HS Orku urðu fyrst varir við merki í borholum um yfirvofandi eldgos rétt áður en það hófst. Starfsmenn voru á svæðinu og fluttu þeir sig strax upp á Reykjanes.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrstu fréttir af hraunrennsli benda til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggi sunnanvert í Stóra-Skógfelli, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík, heldur hefur hann leitað lengra til vesturs en áður hefur verið – að bílastæði Bláa lónsins. Þar mætir hraunstraumurinn annars vegar hárri hraunbrún Illahrauns að sunnanverðu og Arnarseturshraunsbrúninni að austan. Eini möguleikinn er að meint hrauntunga teygi sig í átt að Lat, syðsta gíg hinna eldri Eldvarpahrauna.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Gosmökkurinn var mikill í upphafi goss. Sást hann greinilega í kvöld- og næturskímunni. Sprunga opnaðist á annars miðri gosrásinni á um 2.5-3.0 km kafla milli Sundhnúks og austur fyrir sunnanvert Stóra-Skógfell. Umfangs hraunsins gæti orðið um 6 ferkílómetrar. Væntanlega mun draga úr gosinu fljótlega. Fyrsta sólahrringinn kom upp tæplega helmingur þeirrar kviku sem hafði áður safnast upp undir svæðinu.

Þetta er tíunda hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021. Þrjú hinna fyrstu áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst og þetta nýjasta 20. nóv., sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Líklegt er að þessi hrina verði litlu langlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á hólminn er komið.
Náttúruöflin eru ólíkindatól. Þótt þetta eldgos, líkt og hin fyrri, hafi virst óálitlegt tilsýndar, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og óvænta möguleika. Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum sex við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgs 20. nóv. 2024.

Járngerðarstaðarétt

Um tíma var fjárrétt við Járngerðarstaði í Grindavík. Hennar er hvergi getið í skráðum heimildum.

Járngerðarstaðarétt

Járngerðarstaðarétt.

Réttin sést á loftmynd frá 1954, en um 1960 er hún horfin að mestu. Fjárréttin var þar sem nú er vesturgafl Þorbjarnar h/f, þ.e. þar sem hlaðin er braut upp á efri hæð hússins. Ekki er ólíklegt að grjótið úr réttinni hafi verið notað í hleðslu brautarinnar eða það farið í nálægar bryggjuframkvæmdir.

Járngerðarstaðarétt

Járngerðarstaðarétt, annars vegar 1954 (t.v.) og 2021.

Hraunsfjara

Eftirfarandi frásögn af „Síðasta strandinu í Grindavík“ birtist í Faxa 1947:
„Á þrettándakvöld sl. barst hið alþjóðlega neyðarkall — S O S — á öldum ljósvakans að eyrum þeirra dyggu þjóna, sem hlusta nótt og nýtan dag eftir þörfum þeirra, er afskektastir eru allra og oft í lois-222bráðri hættu — sjómannanna, sem oft og og einatt eiga líf sitt undir því einu komið að hlustað sé í lítil og veikbyggð tæki annað hvort í landi eða á öðrum skipum, sem betur eru sett. Menn þeir, sem annast tæki þessi, eru venjulega sérmenntaðir loftskeytamenn. Oft hafa þeir verið litnir öfundar- og stundum jafnvel fyrirlitningaraugum utan af dekkinu, sökum þess að þeir geta starfsins vegna gjarna verið vel til fara jafnvel fínir, eru venjulega inni í dúnhita og geta skemmt sér að músik og ýmsu öðru, þó að aðrir þræli í náttmyrkri og vetrarhörkum við ömurlegustu skilyrði.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Stétt loftskeytamanna hefur þó getið sér frægðarorð og bjargað mörgum mannslífum. Í þetta sinn var það brezki botnvörpungurinn Lois, sem var í nauðum staddur. Hann var að koma frá Englandi og hefur sjálfsagt ætlað vestur fyrir land, á hin auðugu fiskimið, sem mjög eru sótt af erlendum fiskiskipum. En dimmviðri var á og hríð annað slagið. Auk þess kann að vera að áttavitinn hafi truflazt af segulmagni fjallanna í Reykjanessfjallgarðinum, en slíkt hefur oft komið fyrir áður. En hvernig sem á því stóð, þá stóð skipið allt í einu í stórgrýttri fjörunni. Brimið ólmaðist óskaplega og stormurinn stundi við Festarfjall.

Selatangar

Við Selatanga.

Í skeyti því, er skipstjórinn sendi Slysavarnarfélagi Íslands, hélt hann sig vera 15 mílum vestan við Selvogsvita. Þá hefðu þeir lent á Selatöngum, sem eru alllangt frá mannabyggðum og auk þess er landtaka þar mun verri, svo að hæpið hefði verið að nokkur skipsmannanna hefði haldið lífi, ef staðarákvörðunin hefði reynzt rétt. Reyndin var sú að skipið var 4 mílum vestar, eða vestanhallt í Hrólfsvík, sem er nokkur hundruð metrum austan við Hraun í Grindavík. Það reyndist þeirra lán í óláninu.
Um svipað leyti og skeytið barst til Slysavarnarfélags Íslands varð strandsins vart frá Hrauni.

Þorbjörn

Þorbjörn – merki.

Var þegar í stað hringt til Sigurðar Þorleifssonar, formanns Slysavarnarfélagsins „Þorbjörn“ í Grindavík, en það var um kl. 9,30 um kvöldið og honum tilkynnt strandið. Þegar var hafizt handa um að hóa mannskap saman og koma björgunartækjum á strandstaðinn. Gekk þetta hvorttveggja mjög greiðlega og um kl. 10 var komið á strandstaðinn og undirbúningur að björgunarstarfinu hafinn. Skipið lá þá þversum í brimgarðinum um 100 m. frá flæðarmáli. SSA-stormur var og mjög mikið brim, svo að skipið barðist harkalega við stórgrýti og flúðir. Fljótlega mun hafa laskazt sú hliðin, er að landi sneri, og daginn eftír er menn komust um borð var síðan sem sagt úr.

Fljótlega tókst að koma á sambandi milli skips og björgunarsveitarinnar. Árni G. Magnússon, skytta sveitarinnar, hæfði með fyrsta skoti. „Rakettan“ flaug gegnum loftið með granna línu í eftirdragi.

Hraun

Hraun.

Skyttan hæfði skipið miðskipa undir loftnetið, eða svo haganlega, sem á varð kosið. Skipverjar drógu nú til sín sverari línur, dráttartaugar og líflínu, sem þeir komu fyrir í framreiðanum. Síðan hófst hin vasklega björgun. Tugum saman stóðu Grindvíkingar á ströndinni og unnu sem einn maður með hröðum og vissum handtökum. Hver maður á sínum stað og sigurverkið var í fullum gangi. Björgunarstóllinn var dreginn út til skipsins og þaðan kom hann með hvern skipverjann á fætur öðrum. Sökum þess hve skipið valt mikið varð að hafa líftaugina fremur slaka, svo að strandmennirnir drógust í sjóinn á leið til lands. Flestir þeirra voru þó allbrattir er í land kom. Einn þeirra hafði þó fengið taugaáfall og nokkra fleiri varð að styðja að bíl, sem flutti þá heim að Hrauni, en þar var kominn Karl G. Magnússon héraðslæknir.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Klukkan 11,30 voru allir skipverjarnir komnir á land, nema skipstjórinn, sem var þá staddur í „brúnni“. Allt að 10 mínútur var beðið eftir honum. Þegar hann loks fór fram á þilfarið virtist hann hrasa en komst þó um síðir að vantinum Og upp á borðstokkinn og mun hafa ætlað að teygja sig eftir stólnum, en þá reið ólag undir skipið og stríkkaði við það á líflínunni, svo að skipstjórinn tapaði jafnvægi og féll í hafið — líkið rak að landi eftir tvo eða þrjá daga. Strandmennirnir 15, sem björguðust, dvöldu að Hrauni hjá bræðrunum Gísla og Magnúsi Hafliðasonum um einn sólarhring við góða aðhlynningu.

Lois

Unnið að björgn áhafnar Lois.

Allflestir karlmenn úr Grindavík voru komnir á strandstaðinn og telur Sigurður Þorleifsson, að þessi vel heppnaða björgun sé árangur ákaflega góðra samtaka og skipulags við framkvæmd þessa ábyrgðarmikla starfs — þar sem hvert handtak getur verið lífsábyrgð.
Slysavarnarsveitin „Þorbjörn“ telur nú um 200 félagsmenn og konur. Sveitin er löngu landfræg fyrir frækilegar bjarganir úr sjávarháska. Grindvíkingar hafa vanizt hörðum fangbrögðum Ægis. Þrálátt og þróttmikið brimið hefur þjálfað þetta lið í einbeitingu mannlegs máttar til varnar og sóknar gegn hamslausri náttúrunni, þegar hún vill gerast ágeng við líf eða limi.
Það er sigurfögnuður hjá þjóðinni allri, þegar slík afreksverk eru unnin.
J.T.

Heimild:
-Faxi – 7. árg. 1947, bls. 1-2.

Hraun

Hraun.

Grindavík

Nokkur minnismerki er að finna í Grindavík og umdæmi Grindavíkur.

Ingibjörg Jónsdóttir (1879-1969)

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Ingibjörg Jónsdóttir.

Grindvíkingar reistu minnisvarðann til heiðurs Ingibjörgu Jónsdóttur skólastjóra fyrir félags- og menningarstörf 1879-1969.
Ingibjargarstígur er til heiðurs Ingibjörgu Jónsdóttur, eins stofnanda og síðar formanns Kvenfélags Grindavíkur til áratuga og brautryðjanda í skógrækt í Grindavík. Hún hafði forgöngu um að tré yrðu gróðursett norðan við Þorbjörn. Hún gerði það eftir sextugsafmæli sitt en þá stofnuðu kvenfélagskonur í Grindavík sjóð henni til heiðurs og mátti hún ráðstafa honum að vild. Skógrækt varð fyrir valinu. Fyrstu trjáplönturnar gróðursetti Ingibjörg 29. maí 1957. Af því tilefni fór Ingbjörg með eftirfarandi erindi úr kvæði eftir Jónas Hallgrímsson:

,,Veit þá enginn að eyjan hvíta
á sér enn vor ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista
hlýða réttu, góðs að bíða?
Fagur er dalur og fyllist skógi
og frjálsir menn, þegar aldir renna.
Skáldið hnígur og margir í moldu
með honum búa, en þessu trúið!”

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Ingibjörg Jónsdóttir.

,,Voru 1200 plöntur gróðursettar næstu daga; birki, greni og bergfura. Margir unnu að þessari fyrstu gróðursetningu, konur karlar og börn” segir meðal annars í Sögu Grindavíkur. Ingibjörg nefndi skóginn Selskóg, en gamlar seltóftir voru á svæðinu. Síðan þá hefur skógurinn vaxið og dafnað enda hafa skólabörn sett þar niður trjáplöntur í gegnum árin. Nú er þar myndarlegur skógur og fallegt útivistarsvæði. Í Selskógi er minnisvarði um Ingibjörgu.

Minnismerki um Ingibjörgu Jónsdóttir í norðurhlíð Þorbjarnarfells, miðja vegu Baðsvallaskógar, ofan göngustígs er liggur í gegnum skógarsvæðið.

Oddur V. Gíslason (1836-1911)

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.

Á minnisvarðanum er eftirfarandi áletrun:
„Séra Oddur Vigfús Gíslason – Fæddur 8.4.1836. Kvæntist Önnu Vilhjálmsdóttur úr Kotvogi í Höfnum 31.12.1870. Lauk embættisprófi í guðfræði 1860.
Fyrst prestur að Lundi í Borgarfirði 1875-1878.
Sóknarprestur að Stað í Grindavík og Höfnum 1878-1894.
Fluttist þá til Vesturheims og andaðist þar 10.1.1911.
Hann var hugsjóna- og framkvæmdamaður, brautryðjandi um slysavarnir á Íslandi.
Lagði grunninn að barnafræðslunni í Grindavík árið 1889.

Minnismerkið er reist af söfnuðunum í Grindavík og Höfnum ásamt ættingjum og Slysavarnarfélagi Íslands árið 1990.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík og er eftir Gest Þorgrímsson (1990).

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1991 er frásögn um þegar “minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason” var afhjúpaður í Staðarkirkjugarði.

“Minnisvarði um Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1879-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum.
Minnisvarðinn er gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann er reistur að frumkvæði sóknarnefndar Grindavíkur og Hafna auk ættingja sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands.
Oddur beitti sér fyrir fræðslumálum í Grindavík og var á undan sinni samtíð um nýjungar. Þá stofnaði Oddur bjargráðanefndir um land allt sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.

Við athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni Önnu Vilhjálmsdóttur frá Kirkjuvogi í Höfnum á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni.”

Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Horft hefur verið til Odds sem frumkvöðuls sjóslysavarna á Íslandi.

Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Sigvaldi Kaldalóns.

Bjó og starfaði í Grindavík 1929-1945 og samdi þar mörg sín þekktustu sönglög.

Minnisvarðinn stendur við Kvennó, Kvenfélagshúsið í Grindavík.
Aðrir minnisvarðar um Sigvalda Kaldalóns eru í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp og í Flatey á Breiðafirði.

Minnisvarði um týnda menn

Minnisvarðin er stuðlabergsstandur. Á hann er letrað:

,,Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað, muni geta gert oss viðskilja við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú drottni vorum. Róm 8:38-39.”

Á minnisvarðann eru festir skildir með nöfnum þeirra sem týnst hafa.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; minnismerki um týnda menn.

Minnisvarðann reistu samtök sjómanna og útvegsmanna í Grindavík á Sjómannadaginn 10. júní 1990 og stendur hann í kirkjugarðinum á Stað.

Minnisvarði um drukknaða – Vonin

,,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera”. Jes 30.15.

Vonin er listaverk sem stendur á háum stalli í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Ragnar Kjartansson (1923-1988), myndhöggvari og leirlistamaður, vann listaverkið fyrir kvenfélag Grindavíkur og var það steypt í brons í London 1979.

Kvenfélagið í Grindavík hóf söfnun fyrir verkinu 1952 en tilefni hennar var hörmulegt sjóslys það ár þegar bátur fórst með fimm mönnum við Hópsnes. Ragnar lagði fram þrjár tillögur að listaverkinu á sínum tíma og voru þær sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Ein þeirra var valin og það er sú sem styttan sýnir. Grindvíkingar voru mjög ánægðir með verkið.

Listaverkið er helgað minningu drukknaðra í Grindavík.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Vonin.

Verk Ragnars er kröftugt og reisulegt. Það talar mjög skýrt til þess er virðir það fyrir sér. Yfir því er kyrrð og festa, þolgæði og æðruleysi. Tregafull andlit en þó er vonin enn til staðar því horft er fram. Sjómannskona einbeitt og alvörufull á svip með barn í fangi og annað sér við hlið. Hún horfir til hafs og við hægri hlið hennar er bjarghringur sem hún heldur um. Stúlkubarnið í fangi móðurinnar horfir öruggum augum til himins en drengurinn starir fram harmi lostinn og heldur á vænum fiski í vinstri hönd.

Vonin hefur ekki látið undan.

Í þolinmæði og trausti liggur styrkur Grindvíkinga.

Minnisvarðinn er eftir Ragnar Kjartansson og gerður árin 1978-79 og stendur við Mánagötu í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík.

Tyrkjaránið – árásin á Grindavík

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Tyrkjaránið.

Í júní mánuði á því herrans árið 1627 lá dönsk kaupmannsdugga í höfn í Grindavík og verslun var í fullum gangi. Bar þá svo við að óvænt birtist þar annað skip, sýnu stærra. Af því komu í heimsókn í dugguna menn sem mæltu á þýska tungu og sögðust vera menn Danakonungs og í birgðaleit. Ekki brást kaupmaður vel við því og fóru þeir þýðversku aftur til skips síns.
Nokkrir Grindvíkingar réru út í hið stærra skipið fyrir forvitni sakir en þegar um borð kom blasti við hópur manna, klæddir litskrúðugum fötum, þeldökkir flestir og gráir fyrir járnum.
Heimamönnum varð fljótt ljóst að Hund-Tyrkinn frá Afríkuströndum var kominn og það ekki í neinni kurteisisheimsókn. Aðkomumenn sendu bát að duggunni og létu þar greipar sópa áður en þeir héldu í land og fóru um plássið eins og logi yfir akur.
Á bænum Járngerðarstöðum beið húsfreyjan með öðrum milli vonar og ótta eftir heimsókn sjóræningjanna Sumir heimamanna földu eigur sínar eða leituðu í fylgsni en húsfreyjan beið þess sem verða vildi. Vágestirnir rændu bæinn og hófu svo að reka fólkið til strandar. Húsfreyja sýndi mikinn mótþróa en var tekin og borin af stað. Bræður hennar þrír reyndu að koma henni til hjálpar en þeim var öllum misþyrmt illa.
Erlendu hrottarnir héldu svo til skips með bæði ránsfeng sinn og fólk það sem þeir höfðu hertekið. Tveimur mönnum var snúið aftur til lands fyrir aldurs sakir en 15 manna hópur var hrakinn niður í lestar skipsins.

Stefánshöfði

Grindavík – minnismerki; Stefánshöfði.

Í Grindavík hefur síðan gengið sú munnmælasaga að þar sem ræningjarnir og heimamenn börðust og blóð þeirra blandast hafi sprottið upp þyrnijurt. Þessa jurt má enn þann dag í dag finna á þrem stöðum í Grindavík.

Þessi steindi gluggi stendur við hlið Grindavíkurkirkju.

Minnismerki – Stefánshöfði

Stefánshöfði er vestan við Kleifarvatn. Höfðinn er nefndur eftir Stefáni Stefánssyni f. 5.12.1878, d. 22.12.1944, eða Stebba guide, en ösku hans var dreift í vatnið árið 1944. Skjöldur á klettavegg Stefánshöfða við Krýsuvíkurveginn.

Þorbjörn 70 ára – 1953-2023

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Þorbjörn 70 ára.

Neðan við skrifstofuhús Þorbjarnar HF í Grindavík, við gatnamót Mánagötu og Seljabótar, er minnismerki. Við það er skilti, sem á stendur eftirfarandi:

Á þessu ári 2023 eru 70 ár síðan fyrirtækið Þorbjörn HF var stofnað. Við fögnum því með því að reisa þetta listaverk sem við nefnum Saltarann. Listaverkið er til að heiðra starfsfólkið okkar fyrr og síðar. Það er líka til að heiðra viðskiptavini okkar hér heima og erlendi.
Styttan er tákn afls og áræðis. að er spænskur listamaður að nafni Eskerri sem gerir verkið. Einn af okkar gtryggustu viðskiptavinum á Spáni Giraldo í Baskalandi fékk fyrsta verkið og hefur sent okkur áritun, sem er rituð á fótstall styttunnar. Þar segir á spænsku: „Olas Hielo, Sal, Sangre entre el Sudor Y A Final un Tesoro“ sem gæti þýtt á íslensku: Öldur – Ís – Salt – Blóð í svitanum og að lokum fjársjóður. Þar er líka þetta orðatiltæki á basnesku: „Gure Odol Gazituaren Gogoan“ sem gæti þýtt á íslensku: Í huga okkar salta blóðs.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991, Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason afhjúpaður, bls. 18.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Oddur_V._G%C3%ADslason
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Vonin.

Grindavík

Sunnudagskvöldið 10. nóvember voru ljósin tendruð á „Ljósi vonar“, ljósaverki sem sett verður upp neðan við Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga. Verkið sýnir geithafurinn sem sjá má í bæjarmerki Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – bæjarmerki.

Hugmyndin að baki „Ljósi vonar“ er að endurspegla þá bjartsýni og seiglu sem Grindvíkingar hafa ávallt sýnt, jafnvel á erfiðum tímum. Verkið er því tákn samfélagsins í Grindavík í fortíð, nútíð og framtíð.

Það er táknrænt að verkinu hafi verið gefið nafnið „Ljós vonar“, þar sem vonin hefur lengi lýst Grindvíkingum í lífsins ólgusjó. Vonin hefur veitt okkur hugrekki til að horfast í augu við mótlæti og trú á að nýr dagur rísi, þótt skýin séu dökk. Í krafti vonarinnar hafa Grindvíkingar sótt mátt og jafnvel nýjan tilgang til að halda áfram. „Ljós vonar“ verður þannig táknmynd þess að ávallt er hægt að finna leið í myrkrinu og sigrast á hindrunum með bjartsýni.

Geithafurinn í bæjarmerki Grindavíkurbæjar

Grindavík

Grindavík – ljós vonar.

Geitur í Grindavík eiga sér sína sögu. Í Landnámu segir frá þvi að Molda-Gnúpur hafi numið land í Grindavík. Birni, einum sona hans, dreymdi eitt sinn að til hans kæmi bergbúi og bauð honum samning sem hann samþykkti. Eftir það birtist geithafur í hjörð hans og auðgaðist þá skjótt hans fé. Varð hann í kjölfarið vellauðugur og í kjölfarið nefndur Hafur-Björn. Menn þóttust sjá að landvættir allir fylgdu Hafur-Birni til þings. Á sama tíma fylgdu vættir bræðrum hans, þeim Þorsteini og Þórði, til fiskjar.

Síðar táknaði geithafurinn velmegun Hafur-Bjarnar og varð að tákni Grindavíkurbæjar en bæjarmerki Grindavíkurbæjar er frá 1986 og er hannað af Kristínu Þorkelsdóttur.

Um fjögurra metra hátt með 2.200 LED ljósum

Grindavík

Grindavík – Ljós vonar.

Ljósaverkið mun fyrst um sinn standa við Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga, en áætlað er að finna verkinu varanlegan stað í framtíðinni. Verkið er um fjögurra metra hátt og lýst upp með um 2.200 LED-ljósum.
Verkið var hannað var í samstarfi Grindavíkurbæjar, MK-illuminatium og Garðlistar.

Sjá myndasafn sex eldgosa ofan Grindavíkur HÉR.

Heimild:
-https://www.grindavik.is/v/27400

Grindavík

Frá Grindavík 10. nóv. 2024.

Stóri-Hamradalur

Gengið var um Stóra-Hamradal og upp í Litla-Hamradal þar norður af. Upp úr honum var gengið til norðvesturs upp á Núpshlíðarháls og síðan eftir hálsinum ofan við Hraunssel, um Selsvallafjall og Grænavatnseggjar ofan við Grænavatn og niður að Spákonuvatni, Sogadal og staðnæmst við Sogagíg við rætur Trölladyngju ofan Höskuldarvalla.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Í Stóra-Hamradal er hár hamraveggur, misgengi. Dalurinn hefur sigið, en ofan af brúnum gjárveggjarins hefur síðan runnið nýrra þunnfljótandi hraun úr gígunum ofan við Tófubruna. Sumsstaðar hefur það smurt veggina líkt og að vandaða múrhúðun sé um að ræða. Undir gjánni sunnarlega er hlaðin rúningsrétt.
Litli-Hamradalur virðist ekki jafn tilkomumikill og stóri bróðir hans, en dalurinn er allsléttur og getur verið mjög litskrúðugur í bjartviðri, einkum eftir rigningar. Gengið var á Núpshlíðarhálsinn upp úr norðurenda dalsins. Þegar komið var upp á brún blasti Höfði í suðvestri, Sandfell í vestri og Hraunssels-Vatnsfell í norðvestri.

Hraunssel

Hraunssel.

Niður undir hálsinum lá Hraunsselið, vel gróið. Út frá því liggja greinilegar gamlar götur, sem spillt hefur verið í seinni tíð með utanvegaakstri.
Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík. Ofarlega í hlíðinni eru falleg litbrigði kulnaðra hverasvæða. Eftir að hafa staldrað við í grónum brekkunum ofan við selið var haldið áfram norður eftir hálsinum og útsýnið nýtt til hins ítrasta.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunsels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norðar kemur slétt graslendi Selsvalla í ljós. Af Selsvallafjalli má, ef vel er að gáð, sjá tóftir Grindavíkurseljanna suðvestanvert á völlunum sem og undir hlíðinni á þeim austanverðum. Selsvellir mynduðust með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Syðst á austanverðum völlunum er svonefndar Kúalágar.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar. Spölkorn vestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu vestan Selsvalla að norðanverðu, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann að hluta með umferð ökutækja. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, löngu eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt.

Grænavatn

Grænavatn.

Frá Grænavatnseggjum er frábært útsýni niður að Grænavatni á hægri hönd og að Trölladyngju og Grænudyngju til norðurs. Dyngjurnar eru móbergshnjúkar (393 og 375 m.y.s). Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum. Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Spákonuvatn birtist í einum gígnum á vinstri hönd. Fallegt útsýni er frá því yfir að Keili og umhverfi hans. Gengið var niður hin litskrúðugu Sog, um Sogadal og litið í Sogagíg þar sem selstóftir Sogasels voru skoðaðar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://www.os.is/jardhiti/
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.

Dyngjur-3

Dyngjur.