Tag Archive for: Grindavík

Spákonuvatn

Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor í líffræði við Kennaraháskóla Íslands og formaður stjórnar Reykjanesfólkvangs 2002-20, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 2006 undir yfirskriftinni „Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin“:

Hrefna Sigurjónsdóttir

Hrefna Sigurjónsdóttir.

„Reykjanesfólkvangur var auglýstur sem friðland þegar hann var stofnaður fyrir rúmum 30 árum. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að taka frá land þar sem landsmenn, og þá einkum höfuðborgarbúar, gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Sveitarfélögin sem stóðu að stofnun fólkvangsins, sem er um 300 ferkílómetrar að stærð, eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Grindavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Reykjanesbær. Grindavík og Hafnarfjörður eiga mestallt landið. Fulltrúar meirihlutans í hverju sveitarfélagi mynda stóm og hefur fulltrúi Reykjavíkur alltaf verið formaður. í auglýsingunni er kveðið á um að nýting jarðvarma sé undanþegin friðlýsingu og einnig að eignarréttur ráði þegar um framkvæmdir sé að ræða, en þó með því skilyrði að Náttúruverndarráð (nú Umhverfisstofnun) úrskurði að ekki sé um of mikið jarðrask að ræða.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – loftmynd.

Undirrituð tók við stjórn fólkvangsins seint á árinu 2002 sem fulltrúi R-listans. Þótt ég hafi farið töluvert um Reykjanesið fyrir þann tíma þekkti ég svæðið illa. Ég vissi ekki hver mörk fólkvangsins væru. Ég hafði komið nokkrum sinnum í Krýsuvík og skoðað hverina og kirkjuna og einu sinni keyrt um Vigdísarvelli. Einnig hafði ég komið á Selatanga. Nú, tæpum 4 árum seinna, þekki ég fólkvanginn mun betur og fullyrði að þarna er um að ræða fjársjóð sem við eigum að vernda fyrir komandi kynslóðir sem útivistarsvæði og miðstöð fræðslu.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Mig grunar að flestir höfuðborgarbúar séu í svipuðum sporum og ég var. Þeir þekkja ekki svæðið! Það eru væntanlega ýmsar ástæður fyrir þessari fákunnáttu en í mínum huga hefðu sveitarfélögin getað staðið sig betur í því að vekja athygli á svæðinu og byggja það upp sem útivistarsvæði.

Tíminn hefur verið nægur. Hvað veldur? í skýrslu um fólkvanginn, sem Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur vann fyrir stjórnina, er samankominn mikill fróðleikur. Höfundur bendir m.a. á að fulltrúar í stjórninni hafa svo til aldrei verið áhrifamenn í sveitarfélögunum og að fjárveitingar hafa alltaf verið skammarlega litlar.

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhugaðir borteigar.

Starfsemin hefur verið sú sama ár eftir ár og því miður hefur lítið miðað í að gera átak í málefnum fólkvangsins.

Núverandi stóm hefur hug á að hefja slíkt átak. Haldið var málþing í september 2005 um stöðu og framtíð svæðisins, opnuð var heimasíða og sótt hefur verið um hærri fjárframlög til sveitarfélaganna. Stefnt er að því að ráða landvörð næsta sumar. En hvað framtíðin ber í skauti sér er óljóst því eftir kosningar verður ný stjórn skipuð. Að mínu mati er þetta ekki gott stjórnarfyrirkomulag. Vonandi verður breyting þar á. Ein hugmynd er að stofna einskonar þjóðvang þar sem ríki og sveitarfélög ynnu saman og fagaðilar sætu í stóm. Eitt er víst – þegar á reynir eru völd þessarar stjórnar afar lítil.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Skilningur á gildi svæðisins sem friðlýsts lands virðist vera takmarkaður. Slæm umgengni er til marks um það. Vélhjóla- og jeppamenn sækja stíft inn í fólkvanginn og hafa valdið miklum skemmdum. Þessi ólöglega umferð um allar trissur er orðin gífurlegt vandamál og eykst jafnt og þétt samfara auknum innflutningi slíkra ökutækja. Stórn fólkvangsins hefur verið á einu máli um að akstur slíkra tækja fari ekki saman við það markmið að fólkvangurinn skuli vera griðland fyrir göngufólk og þá sem koma til að njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar. Ofbeit hefur lengi verið vandamál og sú aðferð að loka féð innan beitarhólfa í fólkvanginum, sem landeigendur hafa gert í samvinnu við Landgræðsluna, hugnaðist sjórninni ekki. Engu að síður var það framkvæmt. Skort hefur á að gömul mannvirki séu fjarlægð en slíkt er á ábyrgð landeigenda. Skilti freista skyttna og síðastliðið sumar gáfu landeigendur heimsfrægum leikstjóra leyfi til að brenna gróður í einu fallegasta fjallinu. Og svo tekur steininn úr nú þegar fyrirætlanir Hitaveitu Suðurnesja um tilraunaboranir og nýtingu mjög víða um fólkvanginn eru ljósar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Reyndar fengu þeir leyfi árið 2000 til tilraunaborana við Trölladyngju, hafa borað þar eina holu og eru nýbyrjaðir á annarri við Sogin. Markmiðið er að stofna til allt að fjögurra 100 MW virkjana á miðju nesinu til að afla raforku fyrir álver. Enda þótt ákvæði um nýtingu jarðvarma hafi verið sett í friðlýsinguna getur engum heilvita manni að hafa dottið í hug að unnt væri að leggja allt svæðið undir í þeim tilgangi. Þegar ég skoða svona áform þá setur að mér hroll.

Hvernig stendur á því að okkur Íslendingum þykir ekki vænna um landið okkar?

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhuguð háspennulínulega u Sveifluháls.

Vilja menn sjá virkjanir, raflínur og verksmiðjur um allt? Eða eru ráðamenn að taka ákvarðanir sem almenningur er kannski ekki sammála? Sumar skoðanakannanir benda til að svo sé. Það er kominn tími til að fólk láti heyra í sér. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess að snúa við blaðinu og átta sig á því að falleg og stórkostleg náttúra er auðlind sem okkur ber að vernda. Um leið þarf að tryggja að fólk hafi tækifæri til að njóta náttúrunnar og fræðast um undur hennar. Ljóst er að ýmis atvinnutækifæri felast í slíkri nýtingu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 1.-2. Tölublað (2006), Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin, Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 58.

Sog

Í Sogum.

 

Húsatóftir

Í bókinni „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók„, sem gefin var út árið 1975, skrifuð af Gísla Brynjólfssyni, má lesa eftirfarandi um horfnu þurrabúðirnar í landi Húsatófta; Vindheima, Blómsturvalla, Dalbæjar og Hamra:

Vindheimar

Húsatóftir

Vindheimar.

Það var árið 1911, að Árni Jónsson á Húsatóftum seldi Magnúsi syni sínum í hendur þriðjunginn af sínum patri í Tóftum.
Á einum þriðja reisti hann sjáfstætt býli, sem hann nefndi Vindheima, og bjó þar með Vilborgu konu sinni og tveim börnum þeirra til vorsins 1919, að þau hjón fluttust til Reykjavíkur ásamt syni sínum Sigurði, mállausum.
En það er af Vindheimum að segja, að eftir að Árni fluttist þaðan 1919, að næsta ár er Jódís dóttir hans talin þar til heimilis með ungum syni sínum, Árna Vilberg.
Síðan stendur húsið autt – og þó.

Húsatóftir

Vindheimar – tóftir.

Austur í Járngerðarstaðahverfi er Templarahúsið sameiginleg miðstöð hverfanna þriggja fyrir mannfagnaði hvers konar. En þangað er klukkutíma gangur úr Staðarhverfi, Og ósjaldan um hraun að klöngrast, sé Rásin óvæð. Staðhverfingar bregða því á það ráð um sinn að fá Vindheimahúsið léð til samkomuhalds.
Að lokinni álfabrennu á þrettándanum og dansi kringum hana uppi á barðinu austur af Stað, er hlaupið við fót heim að Vindheimum. Ljós eru tendruð, nikkan tekin á kné og danssporin stigin af ungum og öldnum.

Húsatóftir

Vindheimar (Kristinn Reyr).

Á stundum er polkinn eða rællinn svo heillandi á Vindheimaballi, að pörin leiðast ekki til síns heima, fyrr en mál er að skinnklæðast, hrinda fram skipi og róa út á mið í skímu komandi dags.
Fleira verður og til tíðinda á Vindheimum þau ár. Þangað kemur ekki ómerkari „list um landið“ en sjálfur Ingimundur fiðla. Segist ætla að halda samkomu, fyrst húsið sé falt – aðgangur 10 aura, takk. Auglýsingin berst eins og eldur í sinu frá manni til manns, bæ frá bæ. Og snillingurinn stillir sína strengi og strýkur þá töfraboga. Hann syngur sumpart með eða leikur aðrar listir fyrir troðfullu Vindheimahúsi.

Húsatóftir

Vindheimar – sjávargatan. Bærinn (tóftirnar) efst t.h.

Líkt og himneskur sendiboði með sakramenti snillinnar inn í fásinnið eitt vökubjart vor.
Að öðru leyti eru Vindheimar í eyði til 1925, að þangað flytur Sveinn Ásmundsson með ráðskonu, Gíslínu Jónsdóttur. Þau voru þar í eitt ar.
Tvær vetrarvertíðir – 1924 og 1925, reri Gísli silfursmiður Gíslason skipi sínu frá Húsatóftum og hafði bækistöð á Vindheimum.
Næst er getið um fólk á Vindheimum árin 1933 og 1934. Þá búa þar hjónin Benedikt Benediktsson og Anna Jónsdóttir. Þau fluttust til Reykjavíkur.
Þar með er sögu Vindheima lokið.

Dalbær

Húsatóftir

Dalbær.

Á árunum 1906 til 1964 voru byggð ekki færri en fimm tómthús í landi Húsatófta. Ber það í raun og veru ljósan vott um það, hve atvinnuástandið í plássinu var gott og hve björtum augum menn litu á framtíðarmöguleikana í Staðarhverfinu allt fram á fjórða áratuginn.
Fyrsta þurrabúiðin, sem hér verður nefnd, – Dalbær – reist árið 1906 af þeim Ingvari Hólmsteinssyni og Eydísi Þorsteinsdóttur. Dalbæ fylgdi tæpl. tveggja dagslátta land, tún og garður, sem gaf 15 tunnur af kartöflum árið 1916.

Húsatóftir

Dalbær – tóftir.

Þau Ingvar og Eydís eignuðust fjögur börn, sem upp komust; Guðrún, húsfreyja í Merki, Eydís á heima í Keflavík, en tveir synir dóu á besta aldri. Eyjólfur andaðist 31 árs úr lungnabólgu austur á Eskifirði 13. ágúst 1923 og Sveinn drukknaði 28 ára gamall þegar Björgvin fórst á Jángerðastaðasundi með allri áhöfn 14, mars 1926.
Ingvar Hólmsteinsson lést 14, sept. 1917, en Eydís ekkja hans bjó áfram í dalbæ næstu sjö árin. Þá fluttist hún til Guðrúnar dóttur sinnar í Merki þar sem hún var til dauðadags. Hún andaðist 30. des. 1936 og var þá komin yfir hálfnírætt.

Húsatóftir

Dalbær – tóftir.

Eftir Eydísi komu að Dalbæ Gunnsteinn Einarsson frá Húsatóftum með sinni ungu konu, Elsie Jónsdóttur, Helgasonar frá Hömrum. Þau byggðu steinhús það sem enn stendur í Dalbæ og mega heita þar síðustu ábúendur. Þau fluttust inn í Járngerðarstaðahverfi 1946. Guðsteinn Einarsson tók við hreppstjórastarfinu af föður sínum og hafði það á hendi til dauðadags. Einnig var hann oddviti hreppsnefndar um tíma. Hann var fróður um sögu Grindavíkur og minnugur á liðna atburði, eins og ritgerð hans í bókinni „Frá Suðurnesjum“ ber með sér.
Eftirlifandi ekkja Guðsteins er Sigrún Guðmundsdóttir frá Ísólfsskála. Hún varð hreppstjóri að manni sínum látnum og er eina konan á Íslandi, sem gegnt hefur því embætti.

Blómsturvellir

Húsatóftir

Blómsturvellir.

Til forna var hjáleiga frá Stað, nefnd Blómsturvellir. Þegar úttekt var gerð á Grindavíkurhöndlun árið 1783, átti þar heima Jón nokkur Knútsson, en ekki er af honum önnur vitneskja en sú, að hann skuldaði versluninni 3 ríkisdali og 64 1/2 skilding. Og Blómsturvellir þeir fóru í eyði um aldamótin 1800 vegna sandágangs. Svo liðu rúmlega hundrað ár.
Þá gerðist það, að reist var þurrabúð með þessu fallega nafni í landi Húsatófta. Hún er fysrt nefnd í manntali árið 1914. Þá eru þeir einir taldir þar til heimilis bræðurnir Ólafur og Árni, synir Vilborgar og Árna á Húsatóftum. Þeir drukknuðu báðir með Magnúsi bróður sínum þann 8. apríl 1915.
Næsta ár er enginn talinn eiga heima á Blómsturvöllum.

Húsatóftir

Blómsturvellir (Kristinn Reyr).

En árið eftir, 1916, flytjast þau hjónin, ágústa systir þeirra bræðra og Pétur Jónsson frá Hópi, Grindavík, í Þessa þurrabúð ásamt sínu sínum Kristni, þá á öðru ári. Þau hófu búskap að Hæðarenda í Járngerðarstaðahverfi, fluttust skömmu síðar í Akrakot, en komu nú þaðan út í Hverfi, eins og kallað var, og tóku Blómsturvellina á leigu.
En með afsalsbréfum, dagsettum 17. nóvember 1917, gefur Árni Jónsson á Vindheimum dóttur sinni, Ágústu, Blómsturvallalóðina, 900 ferfaðma – en selur Pétri húsið, sem á henni stendur fyrir 810 krónur.

Húsatóftir

Blómsturvellir – útihús.

Næstu árin er Pétur formaður á áraskipi, sem hann gerir út á vetrarvertíð. Hann fluttist með fjölskyldu sína til Keflavíkur árið 1922.
Stóð húsið autt um skeið, en var síðan rifið og efniviður þess fluttur sjóleiðina með mótorbát til Keflavíkur. En ekki varð úr, að húsið yrði endurbyggt þar.
Eftir það er ekki talin byggð á Blómsturvöllum, í fagurnefndu þurrabúð úr landi Húsatófta.
En líta má nánar á grunn Blómsturvallahússins.
Hann var 4.60×5.20 metrar að meðtalinni veggjaþykkt 40 cm eða um 24 fermetrar. Auk þess anddyri eða viðbyggður skúr 3.30×3.30 – rúmir 10 fermetrar.
Að sögn var húsið úr timbri, alþiljað að innan í kross.

Húsatóftir

Blómsturvellir – tóftir.

Á lofti voru geymd skinnklæði. Í anddyri stóð olíufat með drykkjarvatni, er borið var í fötum úr brunni í Dalbæjartúni. Úr anddyri var gengið í eldhús – en þar inni eldavél. borð og skápar. En úr eldhúsinu mátti fara hringinn um herbergin þrjú. Eitt þeirravar stofa með kommóðu í horni, borði og stólum. Á vetrarvertíð bættust fjölskyldunni nokkrir vermenn – nefndir útgerðarmenn í daglegu tali. Og urðu þá tveir að deila með sér rekkju.
Um haustnætur var Blómsturvallakjallarinn – sem enn má greina rústir af, næstum fullur af eldilviði til vetrarins. matmæli voru einnig geymd þar.

Hamrar

Húsatóftir

Hamrar.

Svo lét sr. Brynjólfur magnússon um mælt í líkræðunni yfir Jóni vitaverði helgasyni, að hann hefði tekið sér það allnærri að fara frá Reykjanesi, „en þó bar hann harm sinn vel og í hljóði“.
Og eflaust hefur honum gengið betur að sefa særða lund sína vegna þess, að hann fékk ærið verk að vinna við að byggja yfir sína stóru fjölskyldu og koma sér fyrir á nýjum stað. Jón fékk útmælda 900 ferfaðma lóð hjá Einari á Húsatóftum og byggði sér þar lítið, pappaklætt timburhús og kallaði á Hömrum. Það var aðeins 28 fermetrar að falatarmáli. Fyrsta árið voru þar 11 manns í heimili. En hjartarúmið á Hömrum var nóg, ekki stóð á því. Aldrei leið Jóni betur, segir sr. Brynfólfur, „en er hann hafði hóp vina sinna kringum sig og var þá jafnan fremstur í gleðinni og skemmtilegur viðræðum“.

Húsatóftir

Hamrar – útihús.

Á Hömrum voru litlar sen engar landsnytjar utan kartöflugarður. Þó hafði Jón oftast nokkrar kindur en ekki aðrar skepnur. En hann stundaði sjóinn af kappi, var formaður á skipi, sem hann átti með öðrum, og aflaði vel og mun afkoman því hafa verið eftir hætti allgóð, a.m.k. eftir að börnin fóru að komast upp.
Árið 1930 fékk Jón Stað til ábúðar og fluttist þangað. Eftir hann kom enginn að Hömrum og eru þau Agnes og Jón því einu húsráðendur í þessari þurrabúð á Húsatóftum.

Heimild:
-Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók, 1975, Gísli Brynjólfsson, bls. 92-110.

Grindavík

Grindavík 2024.

 

Fagradalsfjall

Gengið var vestur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu, upp Brattháls undir Lyngbrekkum og beygt áleiðis til norðurs austan hans. Þaðan var gangið upp á Langahrygg og skoðað flugvélaflak, sem þar er efst í öxlinni. Gengið var áfram til norðurs að Stóra-Hrút, haldið til vesturs sunnan hans, í átt að Geldingadal. Horft var niður í dalinn og síðan haldið áleiðis til norðurs upp á Langhól, hæstu bungu Fagradalsfjalls (385 m.y.s.). Efst undir Langhól eru leifar flugvélaflaks.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og umhverfi.

Gengið var niður af Langhól til norðausturs, skammt austan við fallegan þverskorinn gíg nyrst í fjallinu og gengið niður að Dalsseli. Frá því var haldið um Nauthólaflatir og Fagradal til suðurs, gengið milli fjallsins og Sandhóls-innri, um Kastið, skoðað flugvélaflak þar og síðan niður af því að sunnanverðu, haldið framhjá Sandhól og síðan um Borgarhraun framhjá Borgarfjalli til baka. Á leiðinni var komið við í Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsfjárborgin skoðuð áður en komið var að upphafsstað.
Fagradalsfjall er vestasta fjall Reykjanesfjallgarðsins. Er það raunverulega fjölbreytileg lítil háslétta, með nokkrum hnjúkum, einkum að vestanverðu, móbergsstapi.

Langhóll

Á slysstað á Langhól.

Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu. Fylgt var slóðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum. Vísan var eftirfarandi:

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera allra meina bót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra. Þá mætti ekki saurga vatnið, enda fékk sá sem það gerir, bágt fyrir.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn í Drykkjarsteinsdal.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála (f:1921)ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson íHerdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – gígur.

Sumsstaðar er jeppaslóðinn kominn yfir veginn. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.
Haldið var áfram upp með austanverðum Bratthálsi og Lyngbrekkum og stefnan tekin upp með Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill. Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli. Stóri-Hrútur hægra megin (fjær).

Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stórahrút. Stórihrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stórahrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.

Langihryggur

Langihryggur – brak.

Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.
Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.

Dalssel

Í Dalsseli.

Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni. Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.

Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir.

Kastið

Kastið.

Eftir göngu til suðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli var komið að Kastinu. Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943. Um borð í vél þessari var m.a. hershöfðinginn Frank M. Andrews, sem bíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnileg ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Frank. M. Andrews var æðstur í herafla Bandaríkjanna í Evrópu er hann fórst á Fagradalsfjalli eftir að flugmaðurinn hafði villst af leið í aðflugi til Reykjavíkur. „He was born on February 3, 1884 in Nashville, Tennessee and was killed in an aircraft accident in Iceland on May 3,1943. He was buried in Section 3 of Arlington National Cemetery. Andrews Air Force Base in Maryland is named in his honor. His death in a B-24 Liberator on May 3, 1943 was an enormous loss.“
AndrewsGengið var greiða leið niður af Kastinu að sunnanverðu. Skammt sunnar og austar með fjallinu er Selskálin. Hún er nú að mestu fokin burt. Sunnan hennar er Einbúi, stór hóll. Sunnan hans sést móta fyrir gamalli götu, sem kastað hefur hefur verið upp úr. Við hana er hlaðið gerði. Þaðan var haldið að Borgarhraunsrétt undir hraunbrúninni sunnan Borgarfells og síðan áfram að Borgarhraunsborginni. Gamla gatan frá Siglubergshálsi liggur að Drykkjarsteinsdal. Borgin er norðan hennar og er allstór. Gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar. Frá Borgarhraunsborg var örstutt eftir inn á slóðann frá Drykkjarsteinsdal niður að Ísólfsskála.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 55 mín.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Trölladyngja

       Árni Óla skrifar um „Trölladyngju og nágrenni“ í í Lesbók Morgunblaðsins árið 1944:

Trölladyngja
„Þar sem jeg ólst upp hefði það þótt meira en lítil skömm, og talið bera vott um sjerstaka fáfræði og heimsku, ef einhver kunni ekki nöfn á öllum þeim fjöllum og kennileitum, sem blöstu við frá bæ hans. Frá Reykjavík blasir við víður, margbreytilegur og fagur fjallahringur. En hversu margir eru þeir Reykvíkingar sem kunna skil á nöfnum allra þeirri fjalla er hjeðan sjást“.

Trölladyngja

Trölladyngja.

-Jeg býst við því að þeir sjeu sorglega fáir. Og sumir þekkja víst ekki með nafni önnur fjöll en Esjuna, og máske Keili, vegna þess hvað hann blasir vel við og menn komast trauðlega hjá því að veita honum athygli. Hjer skal nú ekki reynt að bæta úr þessu, en geta má hins, að fyrir nokkrum árum ljet Ferðafjelag Íslands setja upp útsýnisskjöld á Valhúsahæð, og eru þar áletraðar upplýsingar um örnefni á flestum þeim stöðum, er þaðan sjást. Undanfarin ár hefir ekki verið greiður aðgangur að þessum útsýnisskildi, en nú fer það að lagast, og er þess þá að vænta, að margir leggi þangað leið sína, til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir ef til vill fyrirverða sig fyrir að leita hjá öðrum, vegna þess að enn eimir eftir af þeim hugsunarhætti, að vanvirða sje að vera svo fáfróður að þekkja ekki næsta umhverfi.

Trölladyngjusvæðið

Trölladyngjusvæðið – loftmynd.

Ef maður er staddur eitthvert góðviðriskvöld á Skólavörðuhæð, Rauðarárholti eða Öskjuhlíð, og horfir til suðvesturs og vesturs, blasa þar við mörg lág fjöll. Mest ber á Keili, en vestur undan honum sjer á Keilisbræður og Fagradalsfjall. Sunnan við Keili sjest fjallaþyrping og undir þeim margir reykir af jarðhita. Þarna er Trölladyngja og Mávahlíðar og bera saman, þótt nokkurt bil sje á milli þeirra. Þar fyrir sunnan sjest Sveifluháls, sem nær frá Vatnsskarði suður með öllu Kleifarvatni og  lengra vestur.
Rjett fyrir vestan Trölladyngju er annað fjall, sem nefnist Grænadyngja. Það sjest ekki héðan. Á milli Dyngjanna er skarð, sem nefnist Sog. Vestur af Grænudyngju er Núpshlíðarháls og er hann jafn langur Sveifluhálsi og honum áþekkur um hæð. En ofan á honum eru tveir hryggir með mörgum tindum og skörðum.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot og eru þar langar gígaraðir beggja vegna. Yfirleitt er allur þessi fjallaklasi gamlar og stórfenglegar eldstöðvar. Austan undir rana, sem gengur suður úr Trölladyngju eru stórir goskatlar, 20—30 talsins. —
Skammt þar frá er sjerstakur eldgígur einn, rauðleitur og brattur, um 70 fet á hæð. Rjett við Sog er ótölulegur fjöldi eldgíga og eru sumir stórir, allt að 600 metrum ummáls eða meira. Í Mávahlíðum eru líka sundur tættir gígar. Úr öllum þessum gosstöðvum hafa komið ægileg hraun, sem runnið hafa ýmist norðaustur eða suðvestur, norður að sjó milli Vatnsleysu og Hafnarfjarðar, og suður að sjó milli Selatanga og Ísólfsskála. Er víða hraun ofan á hrauni. Yngstu hraunin eru ekki gömul, því að þarna hefir gosið nokkrum sinnum síðan á landnámsöld.

Höskuldarvellir


Höskuldarvellir.

Eru til nokkrar heimildir í annálum um gosin. Árið 1151 „var eldur í Trölladyngju, húsrið og manndauði“. Annað gos var 1188. Þriðja gosið 1360 og „rak þá vikurinn allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi“. Á árunum 1389—’90 voru ógurleg eldgos hjer á landi. Þá brann Hekla, Síðujökull, Trölladyngja- og fleiri fjöll; segir Espholin að Trölladyngja hafi brunnið suður í sjó og að Selvogi, en það er sýnilega rangt, því að hraun frá Trölladyngju hafa ekki komist að Selvogi, þar sem hár fjallgarður er á milli. Seinustu sagnir um gos í Trölladyngju eru frá árunum 1510.

Að morgni sunnudagsins 16. júlí lagði á stað frá Reykjavík hópur manna, sem ætlaði að ganga að Keili og Trölladyngju. Var farið hjeðan í bíl vestur á Vatnsleysuströnd, vestur undir Stóru-Vatnsleysu. Þaðan var svo gangan hafin beina stefnu á Keili, en þangað er 10—12 km. leið yfir Strandarheiði.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Þegar litið er á uppdrátt herforingjaráðsins af þessum slóðum, verður ekki betur sjeð, en hjer sje allt gróðurlaust, hraun og sandar yfir allt og varla neins staðar grænan blett að finna.
En þessu er ekki þann veg farið.  Strandarheiðin er talsvert gróin, og hvergi nærri jafn ömurleg eins og hún sýnist vera á kortinu. Þar er alls konar lyng, fjalldrapi, vallgresi, heiðarblóm margskonar. Þar eru grænar lautir, og í sprungum er víða fjölbreyttur gróður. Eru þarna góðir sauðfjárhagar. Leiðin suður að Keili er öll á fótinn, jafnt og þjett. Hvergi eru brekkur, heldur jafn aflíðandi, og verður maður þess varla var hvað landið hækkar, en þó er hæð þess orðin um 170 metrar þegar suður og vestur undir Keili kemur.

Sogin


FERLIRsfélagi á hverasvæðinu neðan við Sogin.

Ekki er dauflegt þarna í heiðinni, síður en svo. Þar ómar allt um kring söngur heiðarfugla, sem hafa valið sjer bústaði í móunum. Þar eru lóur og spóar, steindeplar og sólskríkjur. Þar eru líka kjóar, og mávar og hrafnar eru þar á flökti að leita sjer ætis. Við gengum fram á lóuhreiður með 3 eggjum. Hún hefir orðið seint fyrir.
Skammt þar frá flögraði rjúpa og barmaði sjer, hefir annað hvort átt þar helunguð egg í hreiðri eða litla unga. Þetta er ekki sagt til þess að gera heiðina að einhverjum dásemdastað. En það er sagt vegna þess, að manni hlýnar ósjálfrátt um hjartarætur þegar maður hittir gróið land, þar sem maður hjelt áður að væri eyðimörk, engum byggileg nema refum og minkum. Og vel á minnst, minkur var þarna uppi á háheiði, og smaug niður í holu þegar að honum var komið. Sennilega hefir hann lifað þarna í vor á eggjum og fugli og máske líka gert sjer dagamun með því að ráðast á unglömb.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum.

Austan að Strandarheiði heitir Afstapahraun. Það hefir komið upp í eldgígum fram hjá Núpshlíðarhálsi. Rennur það fyrst í mjóum straum milli Keilis og Oddafells, sem er langur og hár melur (220 m.) vestan við Dyngjurnar. En þegar kemur norður með Oddafelli, breiðir það úr sjer og norðan við melinn sveigir það austur og fellur saman við Dyngjuhraun, og ná þau þaðan fram til sjávar.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það er gaman að ganga með hraungarðinum að vestan. Eru þar víða grösugar dældir og bollar, en hraungarðurinn úfinn og grettur á aðra hönd, með alls konar furðumyndum, sprungum, gjótum, hellum og ranghölum. Mikill grámosi er í hrauninu, en gróður enginn. Er það mjög illt yfirferðar, og geta menn misstigið sig þar illilega og lent í huldum sprungum og gjótum. Við fundum veg yfir það, ef veg skyldi kalla, og komumst yfir á rindann, sem gengur norður úr Oddafelli. Blasti þá við einkennileg sjón í þessari auðn, víðir, grænir og eggsljettir vellir. sem náðu utan úr kverkinni milli Afstapahrauns og Dyngjuhrauns, up p að Trölladyngju og suður milli hennar og Oddafells. Þarna var fjöldi hesta og sauðfjár á beit. Var því einna líkast sem þarna hefði opnast fyrir okkur hinn fagri og gróðursæli Árdalur, sem Jón lærði kvað um. Þessi grassljetta heitir Höskuldarvellir, umgirt hrauni, fjöllum, eldgígum og gufuhverum.


Syðst í skarðinu milli Trölladyngju og Oddafells sáum við reyki mikla og stefndum þangað. Þar hefir dálítil hrauntunga runnið fram niður að völlunum og rýkur víða upp úr hrauninu. Hitinn er á allstóru svæði og þótt ekki sjáist rjúka er mosinn í hrauninu alls staðar volgur. Í miðri hrauntungunni er kringlótt jarðfall og þar er hitinn einna mestur. Eru tveir leirhverir í botni jarðfallsins, annar með stálgráum leir, en hinn með hvítum. En út úr brúnum jarðfallsins koma gufur og virðist hitinn þar meiri heldur en í sjálfum gígnum. Í gegn um gufuhvininn heyrast dynkir nokkrir með stuttu millibili. Stafa þeir sjálfsagt frá einhverjum hver sem er inni í hrauninu og sjest ekki.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Sje haldið vestur með fjallinu, slitnar hraunið og koma þar aftur grænir vellir, þó ekki jafn víðlendir og Höskuldarvellir. Þeir heita Seljavellir og hefir þar verið haft í seli til forna. Annað sel hefir verið við rætur Trölladyngju. Hjet það, Sogasel og dró nafn sitt af grafningnum þar fyrir vestan. Ekki sá jeg tættur þess, en þær mun þó unnt að finna.
Vestur af Seljavöllum tekur enn við hraun, og úti í því er Hverinn eini. Er það sjóðandi leirhver og leggur þaðan megna brennisteinsfýlu.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eggert Ólafsson segir um þennan hver, að hann hafi allt af verið, að flytja sig, en nú mun hann lengi hafa verið á sama stað. Er hann í jarðfalli og eru í botni þess hraunbjörg, sundursoðin af hveragufum, en á milli þeirra er bláleit leðja sem sýður og bullar og hvín. Rjett fyrir norðan hverinn er hverahrúðursbreiða, og mundi þá hverinn hafa verið þar áður. Um þennan hver var því trúað áður að þar hefðist við furðufuglar, sem kallaðir voru hverafuglar. Er þeim svo lýst, að þeir hafi verið kolsvartir, fiðurlausir og með litla vængi. Hverafugla er víða getið, en hvergi í leirhver, nema á þessum eina stað.

Sogin

Sogin.

Á Trölladyngju eru tveir háir hnúkar úr móbergi og eru þeir mjög ólíkir, því að sá vestari er brattur og hvass, en hinn breiður og kollóttur. Eru þeir alla vega sorfnir og nagaðir af frosti, vatni og vindi, stallalausir og eins og þeir hafi verið steyptir upphaflega. Er furða hvað gróður hefir náð að festa þar rætur, því að grænar tungur teygja sig upp eftir þeim. Eins er nokkur gróður fyrir vestan þá og upp með Soginu. Þar rekst maður á rennandi vatn, en það er sjaldgæft á Reykjanesskaga.
Dálítill lækur kemur hoppandi niður úr Soginu og á hann upptök sín í vatni, sem er á bak við Grænudyngju og heitir Djúpavatn. Þar er og tjörn dálítið norðar. Er þessa getið hjer vegna þess hvað það er sjaldgæft að hitta vatn á þessum útskaga. Lækurinn er eflaust teljandi vatnsfall í vorleysingum. Má sjá það á því, að hann hefir rutt sjer farveg norður endilanga Höskuldarvöllu, en nú var svo lítið í honum, að hann komst aðeins niður úr hlíðinni og hvarf þar í hraunið. Í honum er tært og svalandi vatn.

Sogasel

Sogasel.

Norðan undir Trölladyngju koma heitar gufur upp úr hrauninu á nokkrum stöðum, og þar fyrir norðan, austast á völlunum, eru nokkrir leirhverir. Hjer er því um allstórt jarðhitasvæði að ræða, en engin not er hægt að hafa af þeim hita. Það er tæplega að ferðamenn geti soðið mat sinn þarna eins og er. En sjálfsagt væri hægt að handsama þarna hitaorku, ef borað væri niður úr hrauninu. Þó mun það eiga langt í land vegna þess hvað staðurinn er afskekktur.

Sogasel

Sogasel undir Trölladyngju – fornleifar.

En hitt þykir mjer líklegt, að fólk muni fara að venja komur sínar á þessar slóðir, þegar fram líða stundir, og dvelja þar dögum saman í tjöldum. Hefir staðurinn öll skilyrði til þess að vera eftirsóttur af dvalargestum. Þarna er stórbrotið landslag og fjölbreytni í náttúru óvenju mikil, hrikaleg hraun og klungur, fögur og há fjöll með víðu útsýni. grænar brekkur og grónir vellir, lækur í gili og mjúkur mosi til að hafa í hvílubeði í tjaldi. Og svo eru þarna stórkostlegar gosstöðvar, sem nábúum er varla vansalaust að hafa ekki kynst, svo mjög sem þær hafa sett svip á Reykjanesskaga, og eru auk þess eitt hið mesta náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur.
Jeg fullyrði, að það er meira gaman að því að skoða Trölladyngju, fjöllin þar og umhverfið, heldur en sjálft Reykjanes.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 29. tölublað (20.08.1944), Árni Óla; Trölladyngja, bls. 369-373.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Hraun

Gengið var um Klappartúnið og kíkt á tóttir gamla Klapparbæjarins. Veður var frábært – logn og hlýtt. Mikið fuglalíf. Mörg hreiður. Sólin glampaði á Festarfjall og Skála-Mælifell í austri.

Klöpp

Gamla-Klöpp.

Tekið var hús á Helga Andersen á Þórkötlustöðum. Þegar hann var spurður hvar hlaðni brunnurinn við Valhöll, sem stendur gegnt bænum, hafi verið, sté hann út, gekk yfir á götuna og staðnæmdist þar gegnt hliðinu. “Hér er hann undir”, sagði Helgi. Tækifærið var notað og mynd tekin af Helga á staðnum. Brunnurinn, sem er mjög gamall, var hlaðinn, en fylltur upp og rutt yfir hann þegar gatan var lögð framan við Valhöll. Þá var litið á gömlu hlöðuna, en þegar hún var gerð skömmu eftir aldarmótin 1900 komu í ljós fornar hleðslur er taldar að væru af fornaldarbæ. Veggur hlöðunnar, sem nú er geymsla, liggur ofan á einni hleðslunni. Framan við hlöðudyrnar var myndarlegt steinrekankeri.

Þórkötlustaðahverfi

Helgi Andersen stendur á brunninum fyrrum. Valhöll í baksýn.

Beini var afþakkaður á Þórkötlustöðum að þessu sinni, en þess í stað haldið niður fyrir bæinn þar sem Birgir Guðmundsson frá Hópi var að stússast í kringum kofaskryfli, sem hann hafði erft að hluta til eftir föður sinn, Guðmund Þorsteinsson. “Ég ríf þetta úrsérgengna drasl fljótlega”, sagði hann eftir að hafa heilsað. “Þetta eru ekkert nema útgjöld. Hugsaður þér. Maður er látinn borga fasteignagjöld af þessu drasli. Mér er alveg sama hvað þeir segja. Það er betra að rífa draslið strax í stað þess að láta það fjúka um allt í næsta suðaustanroki”. Hann virtist ekki par ánægður þrátt fyrir að vera nýbúinn að erfa tugi milljóna króna (peningar gera menn heldur ekki ánægða – einungis léttara um vik).

Heródes

Heródes.

Litið var á álagasteininn Heródes, en fólkið í Vesturbænum, sem hann stendur fyrir neðan, hafði nú snyrt í kringum steininn og mold komin þar í stað múrbrots. Erfiðara að skoða rúnirnar á steininum á eftir, en fólkið virðist vera meðvitað um mikilvægi steinsins. Hann má hvorki hreyfna né skemma, ella…
Óskar á Hofi var útivið. Hann sagðist ekki vita hvort hóllinn í túninu austan við Hof væri dys Þórkötlu (aðkomumaður), en henni gæti svo sem alveg eins hafa verið holað þar niður eins og hvar annars staðar.
Litið var út á Þórkötlustaðanes, en ætlunin var að skoða betur fiskigarðana ofar á Nesinu. Þeir eru þarna svo til um allt – þvers og kruss. Á milli þeirra er stór hringlaga garður utan um nokkuð víða kvos. Á garðinum er hlið. Þarna gæti hafa verið rétt fyrir tíma Þórkötlustaðahverfisréttarinnar. Þegar verið var að skoða garðana kom þar gangandi bæjarstjóri, Ólafur Örn, og frú með einn ferfættan í bandi. Staldrað var við í góða veðrinu, litið yfir sviðið og spjallað – Höfn, Arnarhvol og Þórshamar.

Heródes

Letur á Heródesi.

Loks var haldið út í Járngerðarstaðahverfi og hús tekið á Pétri Guðjónssyni, en FERLIR hafði lofað að heimsækja hann. Rætt var góða stund um umhverfi Grindarvíkur, reiðleiðir um Vatnaheiði og Kastið, vatnsstæði efst á heiðinni, sem á eftir að skoða, o.fl. o.fl. Pétur sagði þurrkgarðana uppi á Nesinu hafa verið notaða löngu fyrir hans tíð. Pabbi hans hefði aldrei minnst á þá, en hann hafi vitað af þeim þarna því fé þeirra hafi gengið um hraunið og krakkarnir hefðu þurft að eltast við það á milli garðanna.
Pétur afhenti frásögn Jóhanns Pétursonar, vitavarðar, af slysatvikinu er hann varð undir einum veggnum við húsaúrbætur sínar í Þórshamri. Við það hafi Jóhann hrygg- og lærbrotnað, en náð að skríða út og komast að hól þar skammt frá. Í hólnum var vatn, en þar lá hann í frosti og snjó hátt á annan sólarhring án þess að geta hreyft sig frekar, eða þangað til hundur á ferð með manni kom auga á hann og kallaði á húsbónda sinn. Jóhann var síðan borinn upp í hverfi og síðan fluttur á spítala. Hann náði sér aldrei alveg eftir slysið.

Þórsmörk

Þórsmörk í Þórkötlustaðanesi.

Strýthólahraun.

Gengið var að gömlu hliði, sem enn sést móta fyrir, á Hraunsgarði vestan við Hraun. Um hann lá Hraunsgatan vestur yfir í Þórkötlustaðahverfi og síðan áfram út á Þórkötlustaðanes, en Hraunsmenn nýttu Nesið fyrrum m.a. til útgerðar. Þeir réru t.a.m. þaðan fyrir tíma útgerðar Þórkötlustaðabænda og héldu því áfram eftir að byggt var í Nesinu.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Enn má sjá hluta að gömlu hlöðnu görðunum á Hrauni, en fyrir þá fékk Jón bóndi Dannebrogsorðuna á sínum tíma. Norðan vegarins er hóll og á honum hleðsla; Hraunsdysin. Þar segja kunnugir að hafi verið dysjaður drengur er „Tyrkir“ drápu er þeir stigu á land í Hrólfsvíkinni 1627. Sagan segir að strákur hafi reynt að komast undan á rauðri meri, eltur af tveimur tyrkjum. Merin hafi náð að sparka í og drepa annan þeirra, en hinn hefði náð stráksa af baki og vegið hann. Sumir hafa sagst hafa séð honum bregða fyrir á dysinni, einkum eftir að rökkva tekur.

Slok

Slok – Brennivínshóll.

Garðinum var fylgt til suðurs og var þá komið inn í Slokahraun vestan við túngarðinn. Í hrauninu eru margir og miklir þurrkgarðar. Haldið var á Sögunarhól þar sem bændur unnu rekavið og áfram yfir á „Brennivínshól“. (Við hann földu Grindjánar vínföng sín í þá gömlu daga. Fóru þeir þangað, einkum að kvöldlagi, til að fá að vera í friði með drykkjuna fyrir spúsum sínum, því ólíklegt var að þær leggðu í úfið hraunið til að leita þeirra). Eftir stutta leit fannst ein faska, rúmlega hálffull. Á henni var handunninn merkimiði er á stóð m.a.: Grindarvigsbrennevin – 1889 – með kongen´s fuldmagt – Einarsbutik – den enesete ene, upp á dönsku, enda Grindavík danskur bær á þeim tíma eins og aðrir bæir á landinu. Vínbragð var af innihaldinu. Hvort sem það var vegna innihaldsins eða einhvers annars, virtust sumir þátttakenda sjá hvíta vofu á Hraunsdysinni í fjarnorðri.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Gengið var áfram vestur yfir hraunið, í gegnum mikla þurrkgarða, sem þar eru, vent til hægri og stefnt að tóttum Hraunskots, innan garðs. Mikill hlaðinn garður umlykur Þórkötlustaðabæina að austan- og norðanverðu. Hann hefur staðið af sér öll veður, en jarðskjálftar hafa hrist úr honum af og til. Það hefur þó verið lagfært jafnóðum. Hluti garðsins sunnan Hraunkots er öðruvísi fallega hlaðinn og úr annars konar grjóti en afgangurinn. Grjótið hefur verið tekið úr eldra hrauni, sem hið yngra rann yfir, en það kemur þarna undan hraunkantinum á kafla.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóttir og fallegar hleðslur eru í Hraunkoti. Heimtröðin er sérstaklega verkleg, sbr. meðfylgjandi mynd. Gengið var yfir á Klappartúnið og það síðan til vesturs, að tóttum gamla Klapparbæjarins. Þaðan var haldið suður austustu sjávargötuna af þremur í Þórkötlustaðahverfi, niður að Buðlungavör, litið á skiptivöllinn og síðan haldið upp að göngum Klapparbæjarins utan girðingar, fast við fjárhús Stakkavíkurmanna í Buðlungu. Göngin eru þarna nokkuð heilleg, en þau komu í ljós eftir eftir að gamalt bárujárnshús hafði verið fjarlægt frá þeim fyrir nokkru.

Þórkötlustaðir

Einland í Grindavík.

Gengið var upp að Einlandi, litið á gömlu tóttirnar norðan hússins og skyggnst yfir að tóttum Móa, sem eru þarna upp á túninu. Loks var litið á hugsanlega staðsetningu Þórkötlustaðabrunnarins undir veginum gegnt Valhöll áður en hús var tekið á Helga Andersen í Miðbæ og hans hustru. Hún bauð upp á útistandandi kaffi í veðurblíðunni á meðan Helgi sagði frá því er hann fékk því áorkað að öskudagurinn var gerður að frídegi öskukarla í Grindavík, líkt og sjómannadagurinn varð frídagur sjómanna.

Að kaffidrykkju lokinni var kíkt á Heródes, álagastein við Vesturbæ. Snyrt hafði verið umhverfis hann og því erfiðara en áður að berja rúnarletrið á austurhlið hans augum.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Gengið var upp að Þórkötludys á túninu austan við Hof, rifjuð upp þjóðsagan og tengsl fundin við fyrrum gegna tíð. Sagan segir að Þórkatla hafi mælst svo fyrir um að hún yrði dysjuð þar sem hún sæi yfir Bótina og jafnframt að engin skyldi farast á rétt siglu sundinu. Þarna sér vel yfir Þórkötlustaðabótina.
Staðnæmst var við staðsetningu gamla barnskólahússins við verbúðina, gengið framhjá hlöðnu réttinni og staðnæmst gegnt þeim stað er foreldrar Guðbergs Bergssonar, skáls, bjuggu fyrrum, Hjarðarholti. Húsið var síðar flutt vestur í Járngerðarstaðahverfi. Ofar er Auðsholt. Verbúðin var nefnd Bjarnarhöfn. Í suðausturhluta þess hús sem hefur verið tengt saman og kallast nú Bjarnarborg (verbúð HÞ). „Marel Guðmundsson byggði þar hús yfir fjölskyldu sína 1930.

Brautarholt

Brautarholt.

Eftir að hann dó úr berklum var húsið rifið af lánadrottni Marels (Einari kaupmanni í Garðhúsum). Síðar var sett þak á steyptan grunn hússins og gert að barnaskóla. Þar var hafður barnaskóli í Þórkötlustaðahverfi þar til nýr barnaskóli tók til starfa í Járngerðarstaðahverfi árið 1948. Brautarholt er norðan Hraðfrystihúss Þórkötlustaða. Húsið var byggt árið 1934. „Þetta hús byggðu hjónin Júlíus Daníelsson og Sigríður Þorleifsdóttir 1934 og bjuggu þar til 1956“. Húsið var byggt sem íbúðarhús en síðar var þar vog fyrir Hraðfrystihúsið.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var suður götuna út á Þórkötlustaðanes, en á leiðinni var staðnæmst í Kóngum, hraunslengju, sem aðskilur austurhverfið frá gömlu útgerðaraðstöðuna ofan við gömlu bryggjuna skammt sunnar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – minjar á Kóngum.

(Þarna hefur lengi verið kjörlendi sandfuglsins. Mjög erfitt er að koma auga á hann. Til að finna hreiður hans er helst að leita spora eftir fuglinn. Eftir stutta leit fundust spor. Grafið var í sandinn og þá komu tvö gulleit egg í ljós – egg sandfuglsins. Þess var vel gætt að skilja við þau án þess að ummerki sæjust).
Þá var gengið um gamla útgerðarstaðinn ofan við bryggjuna í Þórkötlustaðanesi, litið á bæjarstæði Hafnar, Arnarhvols og Þórshamars, lifrabræðsluna, ískofana, salthúsin, sökklana undir beitningaskúrana, spilið, stýrikengina, staðsetningu gamla brunnsins og bryggjuna. Rifjuð var upp útgerðarsagan eins og hún kemur fyrir í lýsingu Péturs Guðjónssonar í nýjasta Sjómannablaði Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var til suðurs austan Flæðitjarnarinnar. Þá var komið að manngerðum hól. Í honum er fornt fjárskjól og austan í honum er gömul tótt. Gerði liggur umhverfis skjólið. Sunnar eru hlaðin fjárhús og gerði. Enn sunnar er skrautgarður Þórshamarsfólksins, en allt í kring eru garðar og tóttir. Litið var inn í Þórshamar og sagan um Jóhann Pétursson, vitavörð, rifjuð upp, einkum er hann slasaðist við breytingar á húsinu, komst út við illan leik og lá þar vel á annan sólarhring í kulda og snjó áður en honum var bjargað. Enok og frú bjuggu áður í Þórshamri.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Gengið var til suðurs inn í Strýthólahraun. Í suðaustri mátti sjá Leiftrunarhól og Strýthóla austari og vestari í suðri. Í hrauninu eru þurrkgarðar og fiskbyrgi líkt og við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar í Nesinu eru einnig margir þurrkgarðar.
Haldið var áfram eftir veginum, framhjá vitanum, sem byggður var skömmu eftir aldarmótin 1900, og rifjuð upp saga af ströndum og mannsköðum við Nesið. Skilti, uppsett af Slysavarnarfélaginu, eru þar við með helstu upplýsingum.
Gengið var framhjá vörðufæti Siggu og áfram út að Nesi, en þar stóð húsið Nes. Enn má sjá þar sjóbúð, bátarétt og fleiri mannvirki.

Sigga

Sigga.

Litið var á Goðatóttina við gömlu bæjar- og útihúsin á Hópi og skyggnst yfir túnið, en þar má sjá, ef vel er að gáð, jarðlæga tótt og bogadregna garða. Ofar á túninu, upp undir Sjónarhól, eru einnig tóttir, sem vert væri að rannsaka. Gamla leiðin á milli hverfa lá rétt ofan við Sjónarhól.
Gangan endaði við Íþróttahúsið þremur tímum frá upphafsreit.
Eða eins og bæjarstjórinn sagði dimmum rómi: „Það er gott að ganga um Grindavík“, og leit á lúinn hund sinn (sjá mynd).

Þórkötlustaðanes

Á Þórkötlustaðanesi.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um „Þróun byggðar í Grindavík“ í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

„Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Skógfellavegur

Gengið var inn trönusvæðið austan Grindavíkurvegar.

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Í stað þess að fylgja veginum til austurs um svæðið var gengið beint áfram yfir úfið Skógfellahraunið til austurs. Það er erfitt yfirferðar og í rauninni leggjabrjótur, enda var gengið fram á löngu dauðan stakan legg lengst inni í hrauninu, sem einhver hafði misst þarna á leið sinni þar um. Svipast var um eftir öðrum beinum, en engin fundust. Það verður því að draga þá ályktun að viðkomandi hafi komist yfir það á a.m.k. öðrum fætinum. Loks var komið að fínum slóða til suðurs inn í hraunið. Honum var fylgt í átt að Litla-Skógfelli. Miðsvæðis við slóðann er stórbrotið hraun utan í kjarrivöxnum brekkum. Í því eru margir bollar og smáop, en hvergi rásir eða hellar, einungis smáskútar. Vottaði fyrir hleðslu á einum stað.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Þegar komið var upp á vestari öxlina á Litla-Skógfelli sást vel tilgangur slóðans – leitin að malarnámu. Rótað hafði verið upp á öxlinni og greinilega verið að kanna hvort Litla-Skógfell væri vænlegt til malartekju. (Þess skal getið til að taka af allan vafa að Litla-Skógfell er í óskiptu landi Þórkötlustaðahverfis og ekki er vitað til þess að eigendur þess hafi samþykkt malartekju þarna, hvað þá slóðagerðina, sem einnig er á þess landi).
Haldið var áfram til suðurs að Skógfellastígnum, sem liggur þarna á milli Skógfellanna á sléttu helluhrauni. Stígurinn er klappaður í helluna (sbr. mynd) á löngum kafla. Blankalogn og glaðvær lóukórssöngur í kvöldkyrrðinni við sólarspil. Slóðinn liggur áfram til suðurs inn í hraunið, í átt að Kastinu.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða.

Gengið var til vesturs um helluhraunið og þá komið aftur að hraunbrún Skógfellshrauns. Kanturinn með hlíðinni er vel gróinn og liggur stígur á milli hennar og hraunsins. Til vesturs mátti sjá slétt mosahraun og virtist þar vel greiðfært yfir hraunið. Ekki sást móta fyrir stíg, en þykkur mosi er þarna yfir. Ef taka ætti mið af svæðinu ofan við hlíðina og hugsanlegu framhaldi af leið vestur yfir hraunið þá væri hún einhvers staðar þarna, en hún væri þá beint framhald af Sandakraveginum til suðvesturs.
Ákveðið var að ganga slóðann til baka. Nyrst við hann er borhola.
Gangan tók 3 klst. Veður var frábært – logn, stilla og sól.

Skógfellavegur

Varða við Skógfellastíg. Litla Skógfell framundan.

Staðhverfingabók

Í bókinni „Mannlífi mikilla sæva – Staðhverfingabók„,  er m.a. lýst hungurástandi því sem ríkti í Grindavík og á Suðurnesjum um miðja 18. öld – á tímum einokunarverslunar Dana.

Tyrkjabyrgi

Eitt byrgjanna.

Ekki verður, í ljósi þess, hjá því komist að skoða tilvist „Tyrkjabyrgjanna“ svonefndu í Sundvörðuhrauni neðan Eldvarpa, en þau virðast fyrst og fremst hafa verið byggð sem fiskbyrgi – og þá mögulegar vistgeymslur til að bregðast við ríkjandi tímabundnu ástandi. Ekki er vitað um aldur þeirra, en hafa ber í huga að fyrr á öldum voru allflestir Grindvíkingar leiguliðar og þurftu því á stundum nauðráð til bjargar. Byrgin gleymdust, en voru uppgötvuð sem minjar í lok 19. aldar. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindvíkingar á árabátum Skálholtsstóls hafi stungið undan einum og einum fiski, borið hann upp í hraunið og hlaðið þar byrgi sem geymslur með það fyrir augum að geta sótt hann þangað síðar þegar hungur svarf að fjölskyldunni. Síðar, með breyttum breytanda, urðu byrgin óþörf og gleymdust, enda úr alfaraleið. Byrgin bera öll einkenni fiskibyrgjanna í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni vestan Hrauns, við Nótarhól austan Ísólfsskála og á Selatöngum.

Einokunin
„Með tilskipun 20. apríl 1602 gaf konungur þegnum sínum einkaleyfi til verslunar á Íslandi. Með því hófst Einokunarverslun Dana hér á landi, sem stóð í 185 ár. Versluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingaeyrar. Kom Grindavík, ásamt Keflavík og fjórum öðrum höfnum, í hlut höfuðstaðarins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Þótt Danir ættu að taka við versluninni að fullu árið 1602 var svo ekki í raun. Til þess skorti bæði kapítal, skipakost og mannafla. Hlutu þeir því að semja um það við Þjóðverja að annast verslunina að svo miklu leyti, sem þeir ekki komust yfir hana sjálfir. Stóð svo a.m.k. 2 fyrstu áratugi einokunar. Á þessum tíma átti Skálholtsstóll nánast allar jarðir í Grindavík og nágrenni.

Aðeins tvær ýsur

Húsatóptir

Minjar konungsverslunarinnar við Húsatóptir.

Hér skal brugðið upp einni mynda, sem lýsir nokkuð vel ástandinu og afkomunni í Grindavík þegar harðindin, aflaleysið og verslunaráþjánin fylktu liði gegn þessari örbjarga þjóð með þeim afleiðingum, að á árunum 1756 og ’57 dóu 2500 manns í Skálholtumdæmi.
Árið 1756 voru búsettir í Grindavík 28 fjölskyldur eða 196 manns, segir í umfjöllun Guðmundar sýslumanns Brynjólfssonar þann 12. febrúar, um ástandið á Suðurnesjum; „sem ei hafa annað af að lifa en litla mjólk vel flestir en sumir aldeilis ekkert nema það hjá öðrum skrármegandi betla. Hér fyrir utan er heill hóp margt sjófólk í þessa sveit komið matarlítið, sem ei verður matur lánaður, svo fyrir því bíður ei annað en vísast aftur til baka heim í sveitir, hvað þessa hreppa innbyggjurum, sem sjálfu því, er hin mesta skaða von. Og orsakast þessi bágindi mest af fiskleysi og stórri óveðurháttu, sem lengi hefur viðhaldist og enn nú yfir dynur.

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

Því er vor þénustusamleg begjæring til hr. sýslumannsins, að hann láti þess hrepps innbyggjara fá hjálp og styrk til lífs uppihalds í soddan nauðsynjum frá Básendabúðum ei síður en aðra utan districtsmenn þar eð vér byggjum Grindarvíkurhafna matvöru fyrirliggjandi í nefndum búðum og þykjumst því eiga þar frekara tilkall en þeir, hvað ef ekki nægir, óskum vér í undirgefni að hann komi hingað hið snarasta og opni hér kaupmannshúsin til frekari hjálpar þeim nauðlítandi, sem ómögulega geta sótt mjöl eður brauð til Bátsenda, því vér meinum hér fyrirliggja um eða yfir 10 tunnur matar.“
Átta dögum síðar – þ. 19. febrúar er sýslumaður kominn til Járngerðarstaða; „Kemur þar allt hið sama fram og hér að framan er lýst. Í sveitina hafa aðeins fengist 14 tunnur matar frá Bátsendum. Hins vegar telja þeir sig vita „nokkurn mat fyrirliggja í Companiniens handelshúsum hér í Grindavík“. Það sé því lífsnauðsyn, að þau sömu séu af sýslumanninum, sem næsta yfirvaldi með fyrstu hentugleikum, opnuð nauðlíðandi fólki í sveit þessari til lífsbjargar svo ei af hungri út af deyi eða ófært verði sér næringar leita á sjónum, hvar af sjófólksins heimavísan hangir, oss og því til óbætanlegs skaða“.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Aðspurði sýslumaðurinn samankomna þingmenn hvort þeir vissu engin önnur ráð, meðöl eður útvegi þessu nauðlíðandi fólki til lífsbjargar en Companiens handels húsa opnan í Grindavík, hvar til einlæglega og sameiginlega svaraða var: NEI“.
„Svo og undirréttast sannferðulega, að næstliðinn dag hafi nær alskipa róið í sveit þessari, og allan dag í temmilegum makindum úti verið, djúpt og grunnt að leita. Hafi þó einasta tvær ýsur á land komið en varla orðið vart við aðra drætti. Sanni þessa best, hve algjört fiskleysið sé.“

Ein tunna bygg, en brennivín nóg

Húsatóftir

Húsatóftir – leifar konungsverslunarinnar.

En hvort sem Grindavíkurverslunin hefur verið opnuð á þessari vertíð og eitthvað hefur verið gert til að seðja sárasta hungur útróðrarmanna eða ekki, þá er svo mikið víst, að vorið fyrir var þar ekki um auðugan garð að gresja, hvað matvöruna snerti, aðeins tvær tunnur af skonroki og ein af af bygggrjónum. Hins vegar voru vínbirgðirnar 878 pottar af kornbrennivíni, 92 pottar af öðru víni, 4 tunnur af öli og 68 pottar af mjöð.“

Sjá meira um „Tyrkjabyrgin“ HÉR og HÉR.

Heimild:
-Mannlíf mikilla sæva – Staðhverfingabók, séra Gísli Brynjólfsson, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1975-, bls. 107-113.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Grindavík

Áhugasömum og leitandi er hér með upplýstar um helsta ágæti Grindavíkur.
Bærinn hefur upp á fjölmargt að bjóða. Sagan er svo til við hvert fótmál og minjar allsstaðar. Saga jarðfræðinnar (tiltölulega nýleg landssköpun) er hvergi eins áberandi og útivistar- og gönguleiðir með þeim fjölbreyttustu á öllu landinu.

Grindavík

Grindavík framundan.

Áhugaverðir staðir eru allt umhverfis og í bænum. Má í því sambandi nefna að vestanverðu Junkaragerðið ofan við Stórubót, Gerðisréttina, Virkið, Staðarbótina, Staðarbótarflórgólfið, Stóra-Gerði, Kóngsklöppina, Hvirfla, Staðarbrunninn, fiskibyrgin ofan við Húsatóttir, „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni og „Brauðhellinn“ í Eldvörpum. Miðsvæðis eru þyrnirunnar er uxu er blóð heiðinna manna og kristinna blönduðust, Fornuvör, Einarsverslunina, Járngerðardysina eða gröftinn í gegnum eiðið – inn í Hópið. Ekki má gleyma gömlu kirkjunni og Flagghúsinu.

Að austanverðu eru minjarnar í Þórkötlustaðanesinu og fiskigarðarnir, byrgin í Strýthólahrauni, þurrkgarðarnir í Slokahrauni, dysin ofan við Hraun, Gamlibrunnur, kapellan frá því um 1400, Húshellir sá sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur, Hraunsvörina o.fl. o.fl.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Að norðanverðu eru merkar minjar vegagerðarinnar, s.s. við Hesthúsabrekkuna, Baðsvallaselin, steinbyrgin við Bláalónsafleggjarann, í Arnarsetri (á Gíghæð), Innra-Njarðvíkurselið við Seltjörn ásamt hlöðnum mannvirkjum, uppgerður Skipsstígurinn að hluta á bak við Lágafell o.fl. o.fl. Þá eru ótaldir Gálgaklettarnir í Hagafelli og Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli, Hópsselið utan í Selshálsi og jafnvel Hraunselið utan í Núpshlíðarhálsi sem og Baðsvallaselin og Selsvallaselin,sem voru lengst af aðalsel Grindvíkinga. Hraunsselið er merkilegt fyrir það að það var síðasta selið, sem aflagt var á Reykjanesi, eða árið 1914.

Þá eru í landi Grindavíkur ýmsir aðrir merkilegir staðir, s.s. Selatangar, sem eru heimur út af fyrir sig, með sjóbúðum, þurrkbyrgjum, viðveruhellum, Smíðahelli, 5 hlöðnum refagildrum og hlöðnu fjárskjóli. Að ekki sé talað um Óbrennishólma með tveimur fjárborgum, líklega þeim elstu á landinu, hlöðnum garði, sem Ögmundarhraun rann að um 1150, leifar af fornum garði o.fl.

Ferlir

FERLIR í Bálkahelli.

Húshólmi er með, auk tótta gömlu Krýsuvíkurkirkju, tóttir gamla bæjarins, forns skála, sem hraunið stöðvaðist við, miklar garðhleðslur, sjúbúð, fjárborg, stekk, selsstíg og gerðis utan í hraunkantinum. Utan í Borgarhól er gömul fjárborg skammt frá veginum. Ofan við Selöldu eru tóttir Fitja, fjárhúss á Strákum, tóttir bæjarins Eyri og tóttir Krýsuvíkursels. Utar á heiðinni er Jónsbúð og fallega hlaðið hús. Í Krýsuvíkurhrauni er m.a. Arngrímshellir (Gvendarhellir), en hans er getið í þjóðsögunni af Grákollu. Þar hjá eru Bálkahellir og mikið fjárskjól í Fjárskjólshrauni. Þá eru dysjar Herdísar og Krýsu þar ofar, auk fjölmargra annarra mannvirkja.

Gíghæð

Vegavinnubyrgi á Gíghæð.

Ofan Ögmundarhrauns eru rúningsrétt í Stóra-Hamradal, fallega hlaðinn fjárhellir sunnan Vigdísarvalla, auk Vigdísarvalla sjálfra. Á öllu þessu svæði eru fjölmargar gönguleiðir, bæði fornar og nýjar. Má í því sambandi nefna Prestastíginn frá Höfnum, Skipsstíginn frá Njarðvíkum, Sandakraveginn yfir að Skála, Drumbsdalaveginn yfir að Krýsuvík, Skógfellaveginn frá Vogum o.fl. Þá eru svæðin sunnan Vigdísarvalla mjög fýsileg, s.s. Bleikingsdalur og hraunið ofanvert, auk svæðisins í kringum Lat. Í hrauninu undir honum er fallega hlaðið sæluhús.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs innar.

Fagradalsfjallið hefur upp á fjölmargt að bjóða. Þar er mjög fallegt umhverfi inni í og utan með fjallinu. Gígurinn nyrst í því er einstakur, auk þess sem útsýni yfir Merardali, Þráinsskjöld og upp á Selsvelli er hvergi fallegra í góðu veðri.

Í Geldingadal á Ísólfur á Skála að hafa verið dysjaður að eigin ósk „því þar vildi hann hvíla þar sem sauðir hans undur hag sínum svo vel“. Sunnan Borgarfjalls er t.d. Borgarhraunsborgin, gamalt mannvirki frá Viðeyjarklaustri, auk hleðsla utan í hraunköntum. Þar er og fallega hlaðinn Borgarhraunsréttin utan í hraunkanti. Uppi við Nautshóla, í Fagradal, er Dalssel, eitt seljanna frá Grindavík, a.m.k. um tíma. Jarðfræðiskoðun er hvergi betri en í Eldvörpum, í Arnarsetri, á Núpshlíðarenda, í gígum Ögmundarhrauns og sunnan við Stóra-Skógfell. Í Fagradalsfjalli eru leifar þriggja flugslysa frá stríðsárunum.

Vigdísavellir

Fjárskjól við Vigdísavelli.

Framangreint er einungis brot af því sem Grindvíkingar hafa að bjóða ferðafólki. Þar er fleira en BARA Bláa lónið, þótt margir standi í þeirri trú. Saltfisetur grindjána er t.d. eitt af því merkilegra, sem gert hefur verið í ferðamennsku á liðnum árum.

Grindavík

Grindavík 2023.

Grindavík hefur upp á allt að bjóða, sem áhugasamt útivistarfólk hefur áhuga á. Það er í næsta nágrenni við mesta fjölbýlissvæði landsins.
Grindvíkingar eru glaðvært og frásagnasafaríkt fólk, sem gaman er að sækja heim.

-ÓSÁ tók saman.

Þorbjörn

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).