Tag Archive for: Grindavík

Ferlir

Tveir fræknir FERLIRsfélagagar tóku að sér að kanna bestu hugsanlegar leiðir að FERLIR, m.a. til að undirbúa væntanlega för þangað með HERFÍsmönnum.

Ferlir

Í Ferli.

Skv. kortamælingum virtist vera jafn langt á svæðið frá öllum hugsanlegum nálgunarstöðum. En með því að fara upp Mosaskarð og síðan velja þaðan hentuga um tvo Óbrennishólma leið virtist nokkuð greiðfært að opinu. Gangan frá skarðinu tók um eina og hálfa klukkustund og tiltölulega greiðfært. Einnig er ætlunin að skoða hið nýfundna hellakerfi, auk þess sem næsta nágrenni FERLIRs verður gaumgæft.

Ferlir

Í Ferli.

Félagarnir skoðuðu hellinn, en ljóst er að í honum eru lágar rásir, sem virðast opnast inn í stærri rásir. Þær þarf að skoða nánar. Mikil litadýrð er í hellinum og virðist hann mjög viðkæmur fyrir ágangi, einkum vegna hins þunna glerjungslags, sem þekur svo til allar rásir.
Fleiri myndir úr hellinum munu birtast á næstunni (sjá HÉR).

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

Hverasvæði

Farið var í ferð um Reykjanesið frá Njarðvíkum til Grindavíkur undir leiðsögn Þorvaldar Arnar Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Ferðin var liður í námi leiðsögumannsefna um Reykjanesið.

Keflavík

Grófin – Skessuhellir.

Byrjað var í Grófinni í Keflavík. Undir berginu að norðanverðu útskýrði Ægir bergið og myndun þess. Það er að mestu blágrýti og grágrýti. Þétt setlög liggja ofan á berginu. Þarna er myndarlegur fyrrum sjávarskúti til skjóls. Þorvaldur útskýrði og kynnti m.a. fjörukál, þúfusteinbrjót og geldingarhnapp til sögunnar. Sú litadýrð virðist meiri en ella á annars gróðursnauðum sæbörðum bergveggjum Reykjanessins en víðast hvar annars staðar á landinu.
Haldið var yfir í Helguvík. Þar má sjá í útsprengdum hömrum þykk hraun- og berglögin og sumsstaðar rauðleitan bruna á milli þeirra, eingum að norðanverðu.
Ægir útskýrði þunn jarðlögin undir jarðveginum á svæðinu, t.d. í kringum Rósarselsvötn. Þau eru lek, en hafa þéttst með tímanum þannig að vatnið helst þar á yfirborðinu, a.m.k. á vatnasvæðinu.

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Á Pattersonsvæðinu var leitað að “lífstöðugrjóti”. Í því eru skeljar er gos undir jökli fyrir u.þ.b. 2500 árum hafði tekið með sér af sjávarbotni og má finna þær í hörðum setlögunum, sem þarna eru. Nokkur falleg sýni fundust.
Þorvaldur benti á að víða væri víðir að koma upp á skaganum, en það bendir til þess að hann hafi verið þar allvíða áður en gróðureyðingin varð.
Í Höfnum var farið niður á gamla hafnargarðinn og fuglalífið skoðað. Mátti m.a. berja augum fargestina tildru og rauðbristing, kríu, skarf, æðarfugl, auk fagurlitaða gula fléttu (fuglaglæðu) á steinum, að ekki sé talað um þang og þara.
Reykjanesið sjálft utan Hafna er sandorpið dyngjuhraun. Hraunreipi, sem einhvern tímann hefur einkennt yfirborðið er nú afsorfið. Annars gefur gróðurleysið svæðinu hið fallegasta yfirbragð.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Stóra-Sandvíkin er melgresisparadís. Melgresið hefur bundið sandinn og myndað háa skjólgóða sandhóla næst sjónum og ofan hans. Þarna munu hafa verið upptök þess sands, sem kom af sjó og fyrrum fauk um Hafnaheiðina og lagðist síðan yfir Hafnir. Það var því góð hugmynd að byrja á því að hefta sandfokið í “uppsprettunni” að mati Þorvaldar. Í Sandvíkurfjörunni mátti m.a. sjá hornsvamp, fjöruarfa, blálilju, klóþang (með einni bólu), bóluþang (með tveimur samhliða bólum og svolítið þynnra), söl og þangskegg, auk skelja og kuðunga. “Dýnamatiskt umhverfi” að mati Þorvaldar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Í Stömpum var gengið upp í einn þeirra. Skoðað var hvaða gróðurtegundir gígurinn hafði að bjóða upp á. Reyndust þar vera um 20 talsins, svona fljótt á litið. Í jaðri gígsins er lítið op og má finna uppstreymið út úr því. Innan við opið er fallegur dropasteinn. Með skóflu væri eflaust hægt, þó ekki væri annað, að kíkja innfyrir og sjá hvar þar kann að leynast. Stamparnir eru taldir hafa myndast um 1211 sem uppkoma á hrauni, sem síðan rann frá gígunum eftir hrauntröðum og loks um “víðan völl”. (Norðan undir Stömpum er skráðar heimildir um sel, sem á eftir að staðsetja, en það getur reynst erfitt sökum sandfoksins. Selsins er getið í fornleifaskráningu svæðisins). Stamparanir eru gjall- og klepragígar og því háir, brattir og lausir í sér, sem er einkennandi fyrir slíka gíga. Eldra-Stampahraunið er um 1500 ára gamalt, en Yngra-Stampahraunið er talið vera frá 1211.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Haldið var framhjá Forsetahól á leið út að Reykjanesvita. Ægir sagði frá tilvist nafnsins (til í tveimur útgáfum), sagði frá myndun Bæjarfells og Vatnsfells (vatnið, sem fellið dregur nafn sitt af er hægra megin við veginn áður en beygt er áleiðis að fellunum), en þau munu vera úr bólstrabergi eins og Forsetahóll (Litlafell).
Niður við sjávarkambinn norðan Valahnjúka útskýrði Ægir bergmyndanirnar. Undir kambinum mátti sjá lögin “ljóslifandi”. Undir er sandlag. Efsta lag þess hefur hitnað er nýtt hraun lagðist yfir og soðnað þannig að það varð hart. Ofan á hraunlaginu er síðan nýrra hraunlag.

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Þessa skiptingu mátti ljóslega sjá í Valahnjúkum og Börnunum beint framundan kambinum. Neðst (þ.e. það sem sjáanlegt er) er hart setlag, þá grágrýti og loks sundurlausari hraunlög, sem sjórinn á tiltöllega auðvelt með að mala niður. Karlinn er utar, harður eins og steinn, en Kerlingin er horfin í hafið. Valhnúkur er úr móbergi, en allráðandi er brotaberg, bólstraverg og grágrýtisinnskot.
Fyrsti viti landsins var byggður á honum árið 1878, en sjórinn er nú búinn að brjóta hnúkinn þar sem vitastæðið var. Undir kambinum að austanverðu má sjá fallega hlaðna aðdráttargötuna.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Við Gunnuhver voru jarðhitaeinkennin útskýrð. Tíminn var einnig notaður til að skoða grunninn undan húsi Höyers, sem þar bjó um tíma, tóftir útihúsa hans og garðhleðslur. Við Gunnuhver vex m.a. Njaðurtunga.
Þegar haldið var frá Gunnuhver mátti sjá Sýrfell á vinstri hönd. Vestan þess er fallegur hraungígur á öxl. Nefnist hann Hreiður. Yngra Sýrfellshraunið (1500 ára gamalt) er talið hafa komið úr gígnum. Löng hrauntröð er út frá því til suðurs, vnstra megin þjóðvegarins. Skálafell og Háleyjabunga eru á hægri hönd. Í hinu fyrrnefnda er gígur og gosrás til hliðar við hann (Skálabarmshellir) og í hinu síðarnefnda er fallegur og stór sprengigígur.

Reykjanesviti

Gata að grjótnámunni við Reykjanesvita.

Á leiðinni til Grindavíkur er ekið yfir Skálafellshraunið á “smábleðli”. Þá tekur Klofningshraunið við, en það mun hafa komið úr Eldvörpum (Eldvarparhraun – H15). Það er helluhraun, tiltölulega slétt, en margbrotið.
Brimketillinn er þarna á leiðinni, á sjávarbakkanum, öðru nafni Oddnýjarlaug. Um er að ræða fallegt náttúrfyrirbæri.
Sandgellshæðin er um 13000-14000 ára. Ú þeirri dyngju er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum.
Staðnæmst var við Grænubergsgjá og lýsti Ægir tilkomu hennar (vesturausturstefnan) á sprungusvæðinu. Í gjánni er ferskvatn og hefur hann séð ála í henni, sem hann taldi hafa verið “handfærða” þangað. Álar “stofnuðu” ekki heimili á Íslandi, heldur langt suður í höfum.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er talinn hafa myndast seint á síðasta ísaldarskeiði, en hann er sennilega eldri að stofni til, eða frá næst síðasta ísaldarskeiði. Í honum eru tvö misgengi eða gjár og hefur toppur hans sigið á milli þeirra. Sprungurnar liggja til norðurs eða þvert á brotabeltið (rekabeltið). Fjallið er hlðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Utan á fajallinu er kápa úr jökulbergi.
Norðan Lágafells (vestan Þorbjörns) er Illahraun og Illahraunsgíga. Talið er að hraunið hafi runnið á tímabilinu frá 1211 til 1226. Hraunið hefur runnið úr a.m.k. 5 gígum. Nyrsti gígurinn er sýnum stærstur.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Bent var á “undirlendi” Svartsengisfjalls sem ágætt dæmi um vallendismyndun. Vatn og lækir bera jarðveg úr hlíðum fjallsins niður á láglendið þar sem það myndar flatir er gróa síðan upp, sbr. einnig Höskuldarvelli, Sóleyjarkrika, Selsvelli og Baðsvelli.

Ekið var um Sundhnúkahraun og um Arnarseturshraun. Hið síðarnefnda er hellaríkt. Þar hafa fundist allnokkrir hellar, s.s. Dollan, Hnappurinn (Geirdalur) og Kubbur) og fleiri eiga eflaust eftir að finnast. Hellar myndast yfirleitt í þunnfljótandi hraunum.

Hnappur

Í Hnappnum.

Arnarseturshraun er talið vera frá 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 metra langri gígröð um 500 m austan við Grindavíkurveginn.
Þegar komið er að sigdalnum við Seltjörn eftir að Arnarseturshrauni sleppir er farið yfir tvö hraunlög; fyrst smábleðil af Sandfellshæðarhrauni og síðan grágrýtissvæði frá Grímsholti. Misgengisstapar eru beggja vegna; á aðra hönd bjallarnir (Háibjalli, Kálfgarðsbjalli o.fl.) og á hina misgengin í heiðinni (Nýjaselsbjalli, Huldugjá, Aragjá o.fl.).
Þegar nálgast tók Njarðvík lýsti Þorvaldur uppgræðslutilraunum norðan Reykjanesbrautar og einkennum mólendissvæðisins þar. Lauk lýsingum þeirra svo með vangaveltum um hið vanþróaða umræðustig um vægi náttúruverndar á svæðinu.
Frábært veður.

Reykjanes

Sjávarhellir á Reykjanesi.

Keflavík

Ekið var eftir slóða niður í Litlahraun og að Bergsendum, austast á Krýsuvíkurbjargi. “En það sólskin um mýrar og móa, merki vorsins um haga og tún, gróandi tún”.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Áður hafði verið ekið framhjá tóttum “Gvendarhellis (Gvendarstekks)” suðvestast í hrauninu.
Frá Bergsendum blasti neðsti hluti bergsins vestan Keflavíkur við. Gengið var eftir forna stígnum niður Endana og áfram austur hraunið. “Forðast skaltu götunnar glymjandi hó, en gæfunnar leitar í kyrrð og ró”.
Eftir u.þ.b. fimm mínútna göngu var gengið á brattann og komið upp á efri brún bjargsins. Þar beint fyrir ofan er op Krýsuvíkurhellis. Greinilegt var að einhvern tímann hafði verið hlaðið byrgi skammt ofan við opið, en þak þess var fallið niður. Þá hafði nýlega brotnað úr opinu sjálfu og það stækkað nokkuð.

Hellirinn sjálfur, tvískiptur, er meistarasmíð. Hann hefur verið mikill geymir, en er nú víða hruninn. Þó má vel sjá hversu hraunrásin hefur verið mikil. Þegar komið er niður í hellinn að vestanverðu verður beinagrind af kind þar fyrir.

Krúsvíkurhellir

Við op Krýsuvíkurhellis.

Neðar er mikið súluverk og göng og op upp og niður. Þau voru vandlega þrædd og skoðuð. Austan megin er hins vegar gólfið sléttara og hellirinn rúmbetri. Þar hefur verið hlaðið skjól eða byrgi og er hellirinn talsvert „sótugur“ þeim megin. Þrædd voru göng til suðurs í átt að gamla bjarginu. Eftir um 30 metra göngu um gönginn var komið að gati á bjarginu og blasti þá við útsýni yfir svo til allt neðra bjargið. Hægt er fyrir ólofthrædda að klifra upp eða niður úr gatinu, en sjálft er það vel rúmt.

Keflavík

Hellnastígur milli Bergsenda og Keflavíkur.

Grösugar brekkur eru neðan undir gatinu. Auðvelt hefur t.d. verið fyrir smala að athafna sig þarna og fylgjast með ánum á beit fyrir neðan. Einnig í þessum hluta virtist vera talsvert sót.
Ofar er jarðfall og úr henni liggur hraunrásin lengra upp hraunið. Ákveðið var að bíða með frekari skoðun á þeim hluta þangað til síðar.

Gönguleiðin frá Bergsendum að Keflavík er einkar falleg. Bæði er fallegt útsýni vestur með Krýsuvíkurbjargi, auk þess sem hraunið á þessari leið er sérstaklega stórbrotið. Keflavíkin sjálf er verðug skoðunar. Einstigi liggur niður í hana.

Keflavík

Keflavík.

Í botninn er gras næst klettunum, en utar eru sjóbarið grágrýti. Þegar staðið er úti á grjótinu sést vel stór gataklettur austar á bjarginu. Vestan við víkina sést enn hluti gamla bjargsins, en uppi á því trjóna Geldingasteinar. Toppar bjargsins eru grasi vaxnir, en mjög auðvelt er að ganga að þeim undir bjarginu og upp með þeim að vestanverðu.
“Ef virðist þér örðugt og víðsjálft um geim, veldu þér götuna sem liggur heim”.
Frábært veður.

Herdísarvíkurberg

Gatketill.

Hólmur

Vegna mikillar aldursbreiddar í hópnum var ákveðið að nota vel hið frábæra veður og fara skemmtilegan hring og skoða það sem fyrir augu bæri.

Hólmur

Hólmur – eldhús.

Í stað þess að fylgja FERLIR-323 upp á Þráinsskjöld var ákveðið að halda að Hólmi við Suðurlandsveg og líta á Hólmshelli í bæjartúninu. Norðan hans er forn stekkur og austan opsins er gömlu bæjartóttirnar á Hólmi hinum forna. Sjást þær vel sem og hlaðnir garðar beggja vegna hans. Þá sést gamli túngarðurinn sunnan túnsins enn mjög vel. Vestan við hellisopið er fallega hlaðið hús, sem enn stendur svo til heilt. Þetta er fyrrum eldhúsið á Hólmi, síðar notað sem reykkofi (Valur).
Kíkt var ofan í Raufarhólshelli í Þrengslunum og síðan haldið að Herdísarvík. Byrjað var á því að leita að norðurenda Breiðabásshellis. Op fannst upp í Mosaskarði. Um er að ræða djúpa og að öllum líkindum mjög greiðfæra hraunrás. Ætlunin er að fara þangað fljótlega með góð ljós og kanna hellinn.

Hólmur

Hólmur – kirkjugarður.

Þá var leitað að fjárborgunum tveimur, sem sagt er frá í gömlum heimildum, niður við Herdísarvík. Þær fundust báðar svo og gamla réttin. Skoðaðir voru garðarnir, Austurgarður, Miðgarður og Vesturgarður áður en haldið var að Krýsuvíkurhrauni. Þar var skoðað hlaðið byrgi og aðhald skammt fyrir innan það. Þegar komið var á móts við Lambafell var rally í gangi á veginum svo ákveðið var að ganga upp á Sveifluháls og skoða merkilega gatakletta, sem þar eru á tilteknum stað. Litbrigðin í fjöllunum og klettunum á þessu svæði eru ólýsanleg við bestu birtuskilyrði.
Frábært veður.

Sveifluháls

Örnefni á Sveifluhálsi – ÓSÁ.

Sogaselsgígur

Á uppstigningardag gekk FERLIR um Trölladyngjusvæðið, eitt fallegasta útivistarsvæði landsins.

Sogin

Í Sogum.

Gengið var til suðurs austan Höskuldarvalla og upp í Sogagíg sunnan í Trölladyngju. Þar eru fyrir tóttir þriggja selja, m.a. frá Kálfatjörn, ein í miðjum gígnum, önnur með austanverðum gígnum og þriðja með honum norðanverðum. Hin síðarnefndu hafa verið nokkuð stór, a.m.k. telur norðurselið sex tóttir og stekk á bak við þær. Stekkur er einnig sunnan í gígnum og annar stór (gæti verið lítil rétt) í honum vestanverðum. Gengið var upp með Sogalæk og yfir hann skammt sunnar. Lækurinn, sem virtist ekki stór, hefur í gegnum tíðina flutt milljónir rúmmetra af mold og leir úr hlíðunum niður á Höskuldarvelli þar sem nú eru sléttir grasvellir.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Undir bakka sunnan læksins er mjög gömul tótt er gæti hafa verið gamalt sel. Allt í kring eru grösugar brekkur sem og á milli Trölladyngju og Grænudyngju. Einnig inn með og ofan við þá síðarnefndu. Í hlíðunum eru djúpir gýgar og ofar í þeim heitir hverir. Haldið var á brattann og komið upp fyrir Spákonuvatn, sem er í stórum gýg utan í vestanverðum Núpshlíðarhálsinum. Frá því blasir Oddafellið og Keilir við í norðri og Litlihrútur, Hraunsels-Vatnsfell og Fagradalsfjall í vestri. Innar á háslinum taka við Grænavatnseggjar, fallega klettamyndanir og tröllabollar.

Grænavatn

Grænavatn.

Handan þeirra, í dalverpi, er Grænavatn, nokkuð stórt vatn í fallegu umhverfi. Suðvestan þess eru grasigrónir bakkar. Norðan vatnsins gnæfir formfagurt fjall, sem gefur ágætt tilefni til myndasmíða. Löstur á umhverfinu eru áberandi hjólför í hlíðum þess eftir jeppa fótafúinna.
Frá sunnanverðu Grænavatni var gengið upp á fjallseggina (Grænavatnseggjar) austan þess og eftir henni mjórri til norðurs.

 

Áð var undir háum kletti er slútti vel fram fyrir sig efst í hlíðinni. Blasti Djúpavatn við niður undan því að austanverðu sem og Sveifluhálsinn allur.

GrænavatnseggjarSást vel yfir Móhálsadalinn, Ketilstíginn og Arnarnípuna í austri og Bleikingsvelli og Krýsuvíkur-Mælifell í suðri.Vestan fjalleggjarinnar skammt norðar sást vel yfir litadýrð Soganna með Dyngjurnar í bakgrunni. Gengið var austan og ofan við litrík Sogin að Fíflavallafjalli og áfram ofan við Hörðuvallaklofa. Þaðan var haldið upp og norður eftir graslægð, er blasir við framundan, í austanverðri Grænudyngju. Þetta er mjög falleg gönguleið með fjallið á vinstri hönd og fallega, háa og slétta, kletta á þá hægri.

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þegar upp er komið blasa við hraunin og handan þeirra höfðuborgarsvæðið.
Haldið var niður dalinn á milli Trölladyngju og Grænudyngju, áfram norður yfir mosabreiðurnar og að Lambafelli. Norðan fellsins opnast Lambafellsklofinn, há og mjó gjá, upp í gegnum fjallið. Gengið var í gegnum gjána, upp á Lambafell og áfram suður af því með Eldborg að upphafsreit.
Gangan tók 4 klst. Um er að ræða stórbrotna, en jafnframt mjög fallega, gönguleið.
Frábært veður.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Fjárskjólshraunshellir

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið. Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring..

Krýsuvík

Krýsuvík – Augun.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna. Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestari-læk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu. Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt. Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.
Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.
Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var fyrst stíflaður á nokkrum stöðum í tengslum við brennisteinsnámið og síðar vegna borna og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.
Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.
Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði.

Arngrímshellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir) í Krýsuvíkurhrauni

Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur. Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni.

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum.

Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Litlahraun

Litlahraun – fjárhústóft.

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg. Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – tóft.

Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt. Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja. Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb. Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.
Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.
Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

Austurengjahver

Við Austurengjahver.

Fálkageiraskarð

“Stórkostlegasti hellir, sem ég hef séð. Sáuð þið litadýrðina, skærgult, rautt, blátt, grænt og allt þar á milli. Ekki rykkorn á gólfinu, Óendanlegur. Hef ekki séð gulan björgunarbát í helli áður. Það tekur a.m.k. viku að skoða hann allan”. Þetta voru viðbrögð FERLIRs félaga og félaga úr HERFÍ eftir að hafa fundið helli í Brennisteinsfjöllum eftir langa göngu og allnokkra leit. Áður höfðu þeir fundið nokkra hella til viðbótar, reyndar heilt hellakerfi, en það reyndist einungis sýnishorn af því sem koma skyldi.

Fálkageiraskarð

Efst í Fálkageiraskarði.

Gengið var upp Fálkageiraskarð (Falskageiraskarð skv. örnefnalýsinigu) með það fyrir augum að kanna hvort um væri að ræða hellagöt á ókönnuðu svæði í Brennisteinsfjöllum. Áætlaðir voru þrír tímar í göngu og síðan tvo tíma í leit á svæðinu því ganga þurfti til baka sömu leið. Hálfa klukkustund tók að ganga upp skarðið, en það er í sjálfu sér ekki erfitt uppgöngu. Leiðin upp er þakin fjölskúðugum plöntum, og utan í því er fallegur hraunhóll, sem (þegar upp var komið) kom í ljós að hafði runnið í þunnfljótandi hraunæð fram af brúninni og storknað jafnóðum utan í og neðan við bergbrúnina.  Síðan hafði brotnað út hömrunum efst og þeir fjarlægst hraunstandinn, sem stendur þarna einn og tignarlegur. Efst í skarðinu er hár klettadrangur, Fálkaklettur. Undir honum eru grasbrekkur og jafnframt fyrir ofan þegar komið er upp.

Fálkageiraskarð

Standur efst í Fálkageiraskarði – Fálkaklettur.

Ofan við skarðið tók við langt misgengi. Því var fylgt, haldið yfir apalhraun að ísaldarskyldi. Suðaustur úr honum lá þriggja metra breiður stígur áleiðis niður að Mosaskarði. Sennilega er hér um að ræða hluta leiðarinnar, sem Stakkavíkurbræður gengu þaðan yfir að Fagradalsmúla og niður í Hafnarfjörð með rjúpur á vetrum, sbr. frásagnir Eggerts og Þorkels undir viðtöl hér á vefsíðunni. Gengið var yfir ísaldarskjöldinn og síðan úfin apal- og helluhraun uns komið var í hraunið, sem átti að skoða. Strax fundust nokkur op. Rásirnar voru hverri annarri fegurri. Þunnfljótandi hraunlag hafði slétt út gólfin og myndað þunna skán á því. Afhellar voru hingað og þangað. Ein rásin lá þvert á meginrás og úr henni nokkrar aðrar. Fallegir bálkar með veggjum og litardýrð. Gljáfægðir separ í loftum.

Ferlir

Í Ferli.

Tvær hraunsúlur héldu loftinu uppi á einum stað og svona mætti lengi telja. Nokkrar 100 metra rásir voru þarna og fjölmargar styttri eða hringrásir. Þarna væri hægt að vera klukkustunum, eða jafnvel dögum saman og alltaf finna eitthv nýtt. GPS-punkar voru teknir af þremur opanna.
Á leiðinni til baka var haldið ofar í hlíðina og strikið þvert á hana því einn FERLIRsfélagi hafði veitt athygli gati þar á leiðinni upp eftir. Um er að ræða sæmilegt jarðfall. Sjá má lýsingarinnar á innihaldinu í upphafinu hér að framan. Hægt er að far niður rásina og þar greinist hún í margar nokkrar aðrar.

Ferlir

Í Ferli.

Fremst er bergið bláglerjað, hárrauð þverrás gengur inn úr henni og hægt er að ganga í hringi um ýmsa ganga. Ofar virðist rásin ekki mjög merkileg. Hún virðist enda eftir um 100 metra, en þegar betur er að gætt er rás upp undir lofti. Þegar skriðið er eftir henni opnast “konfektkassi” hellaháhugamanna í öllum litum og litbrigðum. Tvær fallegar súlur eru í rásinni. Allar rásir eru heilar og varla steinn á gólfi. Hliðarrásir ganga inn úr hverjum gangi, stundu í allar áttir. Sá litur, sem sker sig mest úr er skærgulur, en jafnframt má sjá silfurliðar berg. Þegar þessi hluti verður skoðaður þarf að hafa spotta er merkilínu.

Ferlir

Storknun í Ferli.

Varið var tveimur klukkustundum í skoðun á hellinum, en sýnt er að gefa þarf sér góðan tíma til að skoða hann allan.
Stungið var upp á nafni á hellinn og gengur hann framvegis undir vinnuheitinu FERLIR (beygist eins og HELLIR).
Gengið var niður með ísaldaskyldinum og austan misgengisins, en síðan var bjargbrúninni fylgt að Fálkageiraskarði. Blankalogn var svo auðvelt var að fylgjast með fýlnum í berginu og tilburðum hans. Sauðamergur, geldingahnappur, ljónslappi og burknategundir eru dæmi um jurtir í gilinu.

Ferlir

Í Ferli.

Skammt ofan við jökulskjöldinn fyrrnefnda fannst skarlatbikar (cladonic borealis), en hann vex á jarðvegi og mosa, oft yfir klettum og er algengur um land allt, en askhirslurnar, skærrauðar, sem voru á þessari einu litlu plöntu víðáttunni, eru fremur sjaldséðar.
Áætluð er fljótlega fer með HERFÍ á hellasvæðið. Þá verður farið með allan nauðsynlegan búnað og ljós, sem og það markmið að reyna áætla umfang þess nýfundna hellis. Mjög erfitt er að að koma auga á opið, auk þess sem það er á einu fáfarnasta svæði landsins. Slík svæði eru „veiðilendur“ FERLIRs.
Það var vel við hæfi að ferð nr. 666 tengdust undirheimunum.
Gangan tók 8 klst og 12 mín, eins og áætlað var. Fábært veður – sól og blíða.
Sjá MEIRA.

Ferlir

Jarðmyndanir í hellinum Ferlir.

Staðarhverfi

Grindavík hefur upp á fjölmargt að bjóða. Sagan er svo til við hvert fótmál og minjar allsstaðar. Saga jarðfræðinnar (tiltölulega ný, en síendurtekin landssköpun) er hvergi eins áberandi og í nágrenni Grindavíkur og útivistar- og gönguleiðir eru þær fjölbreyttustu á öllu landinu.

Grindavík

Grindavík – brim.

Má í því sambandi nefna að vestanverðu Junkaragerðið ofan við Stórubót, Gerðisréttina, Virkið, Staðarbótina, Staðarbótarflórgólfið, Stóra-Gerði, Kóngsklöppina, Staðarbrunninn, fiskibyrgin ofan við Húsatóttir og „Tyrkjabyrgin“ við Sundv. Miðsvæðis bendir í dag ekkert á þyrnirunnan, Einarsverslunina eða gröftinn í gegnum eiðið inn í Hópið. Að austanverðu eru minjarnar í Þórkötlustaðanesinu og fiskigarðarnir, þurrkgarðarnir í Slokahrauni, dysin ofan við Hraun, Gamlibrunnur, kapellan frá því um 1400, Húshellir sá sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur, Hraunsvörina o.fl.

Hraunssel

Hraunssel.

Að norðanverðu eru merkar minjar vegagerðarinnar, s.s. við Hesthúsabrekkuna, steinbyrgin við Bláalónsafleggjarann, í Arnarsetri, sunnan Selsvalla og víðar, Innra-Njarðvíkurselið við Seltjörn ásamt hlöðnum mannvirkjum, uppgerður Skipsstígurinn að hluta á bak við Lágafell o.fl. o.fl. Þá eru ótaldir Gálgaklettarnir og Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli, Hópsselið utan í Selshálsi, Baðsvallaselið í hraunkantinum á Baðsvöllum og jafnvel Hraunselið utan í Núpshlíðarhálsi. Selið er merkilegt fyrir það að það var síðasta selið, sem aflagt var í Grindavík, eða árið 1914.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Þá eru í landi Grindavíkur ýmsir aðrir merkilegir staðir, s.s. Selatangar, sem eru heimur út af fyrir sig, með sjóbúðum, þurrkbyrgjum, viðveruhellum, Smíðahelli, 5 hlöðnum refagildrum og hlöðnu fjárskjóli.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg/virki.

Að ekki sé talað um Óbrennishólma með tveimur fjárborgum, líklega þeim elstu á landinu, hlöðnum garði, sem Ögmundarhraun rann að um 1150, leifar af fornum garði o.fl. Húshólmi er með, auk tótta gömlu Krýsuvíkurkirkju, tóttir gamla bæjarins, forns skála, sem hraunið stöðvaðist við, miklar garðhleðslur, sjúbúð, fjárborg, stekk, selsstíg og gerðis utan í hraunkantinum. Utan í Borgarhól er gömul fjárborg skammt frá veginum. Ofan við Selöldu eru tóttir Fitja, fjárhúss á Strákum, tóttir bæjarins Eyri og tóttir Krýsuvíkursels. Utar á heiðinni er Jónsbúð og fallega hlaðið hús. Í Krýsuvíkurhrauni er m.a. Arngrímshellir, en hans er getið í þjóðsögunni af Grákollu. Þá eru dysjar Herdísar og Krýsu þar ofar, auk fjölmargra annarra mannvirkja. Ofan Ögmundarhrauns eru rúningsrétt í Stóra-Hamradal, fallega hlaðinn fjárhellir sunnan Vigdísarvalla, auk Vigdísarvallabæjarins.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegur.

Á öllu þessu svæði eru fjölmargar gönguleiðir, bæði fornar og nýjar. Má í því sambandi nefna Prestastíginn frá Höfnum, Skipsstíginn frá Njarðvíkum, Sandakraveginn yfir að Skála, Drumbsdalaveginn yfir á Krýsuvík, Skógfellaveginn frá Vogum o.fl. Þá eru svæðin sunnan Vigdísarvalla mjög fýsileg, s.s. Bleikingsdalur og hraunið ofanvert, auk svæðisins í kringum Lat. Í hrauninu undir honum er fallega hlaðið sæluhús. Fagradalsfjallið hefur upp á fjölmargt að bjóða. Þar er mjög fallegt umhverfi inni í og utan með fjallinu. Gígurinn nyrst í því er einstakur, auk þess sem útsýni yfir Merardali, Þráinsskjöld og upp á Selsvelli er hvergi fallegra í góðu veðri.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Í Geldingadal á Ísólfur á Skála að hafa verið dysjaður. Sunnan Borgarfjalls er t.d. Borgarhraunsborgin, gamalt mannvirki frá Viðeyjarklaustri, auk hleðslna utan í hraunköntum. Þar er og fallega hlaðin Borgarhraunsréttin utan í hraunkanti. Uppi við Nautshóla, í Fagradal, er Dalssel, eitt seljanna frá Grindavík, a.m.k. um tíma. Jarðfræðiskoðun er hvegi betri en í Eldvörpum, í Arnarsetri, á Núpshlíðarenda, í gígum Ögmundarhrauns og sunnan við Stóra-Skógfell.
Framangreint er sett fram til að minna á hið fjölbreytilega umhverfi, er einungis brot af því sem Grindvíkingar hafið að bjóða fólki. Þrátt fyrir það hefur einungis verið lögð áhersla á lítið brot af öðru, s.s. Bláa lónið, Saltfiskssafn og hvalaskoðun. Það á að sjálfsögðu einnig rétt á sér, en ekki má gleyma hinu, sem skiptir, þegar á heildina er litið, ekki minna máli ef vel er á haldið. Grindavík hefur upp á allt að bjóða, sem áhugasamt útivistarfólk sækist eftir.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

https://ferlir.is/grindavik-innsiglingin/https://ferlir.is/grindavikurvegir/

https://ferlir.is/hof-i-grindavik/https://ferlir.is/fram-af-grindavikurslod-gisli-brynjolfsson/

https://ferlir.is/grindavik-tyrkjaranid-2/https://

ferlir.is/grindavikurstridid-undanfari/

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi vestast í Hrútagjárdyngju. Rétt eftir að lagt var af stað fannst hlaðin refagildra neðan við hraunkant. Gengið var yfir mosahraun í norður. Þá var komið inn á gamla leið er liggur niður norðvestanverðan hraunkant dyngjunnar og með honum í báðar áttir. Reykjavegurinn liggur einnig þarna um.

Húshellir

Í Húshelli.

Áður en farið var ofan dyngjunnar blasti við mikill hraunbolli í austri. Gæti verið einn aðalgígur sjálfrar Hrútagjárdyngju. Fallegur staður. Þar vestan afvar komið að tveimur holum ofan í jörðina, gömlum gígrásum. Þær eru 5-6 metra djúpar. Hægt er að fara ofan í þá vestari. Það var gert og kíkt inn. Þröngur gangur gæti legið þar inn undir hraunið. Hellarannsóknarfélaginu verður eftirlátið að skoða það nánar. Vinnuheiti þessarar holu verður “Kokið”.

Híðið

Í Híðinu.

Skoðað var í Híðið, um 140 metra langan helli, sem er í Hrútadyngjuhrauni skammt sunnan við fjallið, í hæðinni sem þar er. Inngangurinn er lágur. Þegar inn er komið þarf að fara til vinstri. Þar er lágt gat, en fyrir innan það tekur meginrásin við. Mjög fallegir dropasteinar og strá eru í hellinum. Fara þarf varlega þarna um til að skemma ekki neitt. Híðið er með fallegustu hraunhellum landsins. Leggja þarf hverja leið vel á minnið til að minka líkur á að villast í hellinum. Ekki var farið alla leið í botn að þessu sinni því talsvert er um að skríða þurfi hér og þar.

Í suður frá Híðinu er Húshellirinn. Inngangur hans er í vestanverðri fallinnar hraunbólu. Þegar inn er komið blasir við mikill geymur og eru gangar í allar áttir. Á miðju gólfinu er hlaðið hús, ca. 2×2 metrar í ummál. Bein eru í einum gangnanna, þeim er liggur í suður. Ekki er vitað af hverju beinin kunna að vera.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Ekki er heldur vitað hvers vegna húsið var hlaðið í hellinum. Þarna gætu hreindýraveiðimenn hafa haft aðstöðu um tíma, eða einhverjir aðrir, einhverra hluta vegna. Húsið er sennilega hlaðið til að halda hita á þeim er þar gistu svo og forðast vatn er lekur úr loftum eftir rigningar. Botn hússins hefur verið fóðraður með mosa.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Maístjarnan er í vestur frá Húshelli. Opið snýr á móti suðaustri. Á milli þessarra hella er a.m.k. þrír aðrir hellar, þar af tveir nokkur hundruð metra langir. Annað opið er á milli Húshellis og Maístjörnunnar, en hitt er norður af Húshelli. Þegar komið er niður blasir “augað” við, hringlaga slétt op, rúmlega meters langt. Innan opsins er komið í hraunrás er liggur þvert á opið. Að ofanverðu eru margir dropasteinar á gólfi. Ofan þeirra er þverrás, mjög falleg. Þegar gengið er niður rásina og litið aftur sést í þrjú op. Leggja þarf rétta opið á minnið.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Mikil litadýrð er í hellinum, fallegir dropasteinar og ýmis jarðfræðifyrirbrigði. Í Maístjörnunni eru svo til öll fyrirbrigði er prýða hraunhella á Íslandi. Skammt neðan við opið var farið niður eftir hraunrás. Á hana kemur þverrás, um 60 cm neðar en hin. Haldið var áfram og var þá komið í geymi, en engin rás virðist vera úr honum. Haldið var spölkorn til baka, að þverrásinni, og síðan til vinstri upp eftir henni. Hún þrengist en ef haldið er áfram er komið að opi Maístjörnunnar, utan við “augað”. Hægt er að fara fram og aftur um hellinn eftir ýmsum rásum, en gæta þarf vel að því að villast ekki í göngunum.
Neyðarútgöngudyrahellirinn var skoðaður, en hann er um 90 metra langur, víð hraunrás er liggur í hálfboga og opnast síðan að nýju.
Frábært veður.

Neyðarútgöngudyrahellir

Neyðarútgöngudyrahellir.

Gíghæð

Gamli Grindarvíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 til 1918. Hann var greiddur að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af Grindvíkingum. Þeir fjármögnuðu sinn hlut aðallega með lifrarpeningum.
Sigurður Gíslason
Verkstjórinn við vegagerðina var Sigurgeir Gíslason frá Hafnarfirði, reyndur vegagerðarmaður. Hann segir m.a. í skýrslu sinni 11. nóv. 1917 að vegurinn hafi alls verið 16 km og 120 m frá Vogastapa að verslunarhúsum við Járngerðarstaðavík í Grindavík. Við vinnuna voru 35-48 menn að jafnaði frá vori að hausti með 13-16 hesta. Í skýrslum hans er getið um alla þá er unnu við vegagerðina og hvað þeir fengu í kaup.
Meðfram veginum, frá Seltjörn að Grindavík, eru fjölmargar minjar vegavinnuframkvæmdanna, þ.e. búðir og skjól vegavinnumanna. Því miður var svæðið meðfram Grindavíkurveginum illa leikið þegar nýi vegurinn var lagður.
Ekki er ólíklegt að þá hafi margar minjar hreinlega verið eyðilagðar af vangá. Hér á eftir verða taldir upp gamlir Gatastaðir, sem vert er að skoða þegar farin er nútímaleiðin til Grindavíkur.
Við gatnamót Keflavíkurvegar og Grindavíkurvegar og Vogastapa mátti þangað til nýlega sjá hlaðin gerði vegavinnumannanna. Framkvæmdir, sem unnar voru þar á þessu ári og því síðasta, eyðilögðu þessar minjar.
1. Sunnan Seltjarnar liggur vegur að Stapafelli. Á milli hans og tjarnarinnar er hlaðin rétt upp á hæð svo og gerði. Handan vegarins eru tóttir sels, Innra-Njarðvíkursels. Selið var jafnframt notað sem búðir vegavinnumanna um tíma.

Gíghæð

Gíghæð – vegavinnubúðir.

2. Austan Grindavíkurvegar, nokkuð sunnan gatnamótanna að Seltjörn, er gömul rudd gata inn í hraunið. Lúpínubreiða er við vegabrúnina þar sem gatan byrjar. Hún liggur að búðum um 50 metrum inn í hrauninu. Þar eru hluti af hlöðnum húsum, skjól og rutt svæði fyrir tjaldbúðir. Skammt sunnan götunnar, nær veginum, er hlaðinn hringur, sennilega skjól fyrir tjöld.
3. Skammt sunnar, á hægri hönd eru þrír hlaðnir skjólgarðar utan í hraunhól, u.þ.b. 30 metrum frá veginum.
4. Á vinstri hönd er stigi yfir girðingu, sem liggur samhliða Grindavíkurveginum. Stígur er frá stiganum, varðaður, að helli. Hlaðið er fyrir opið, en dyragat á. Inni í hellinum eru hleðslur. Hann liggur til vesturs, undir veginn, og er um 160 metra langur. Hellirinn var notaður sem skjól fyrir vegavinnumenn, en einnig mun hann hafa verið notaður sem skjól bruggerðarmanna um tíma.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

5. Á hægri hönd, örskömmu sunnar, eru klettar um 10 metrum frá veginum. Utan í öðrum hólnum er hlaðið hús, heillegt. Inni í því er skúti.
6. Þegar komið er framhjá gatnamótum vegar að Arnarsetri er jarðfall vinstra megin vegar, rétt fyrir innan girðinguna. Norðan í því er Dátahellir. Í hellinum fundust bein og fataleifar, hnífur, beltissilgja o.fl. af bandarískum dáta, sem hvarf þarna í hrauninu. Beinagrindin af honum var þarna fyrir innan stein, sem nemur við hellismunnann.

Dátahellir

Dátahellir.

7. Skammt þar frá, sömu megin, einnig rétt fyrir innan girðinguna, er hlaðið hús, hesthús vegagerðarmanna, ofan í hraunrás. Stígur liggur frá því til suðurs og beygir síðan til austurs, að öðru hlöðnu, heillegu húsi, smiðju. Þá blasa við tvö önnur hlaðin hús, svo til heil. Annað er hesthús. Austan við þau er rutt skeifulaga svæði. Það hefur annað hvort verið notað undir tjald eða verið notað til járninga.
8. Handan vegarins er bílastæði. Í vesturjarðri þess er djúp hola, sem myndaðist er unnið var við nýja veginn.

Grindavíkurvegur

Gamli Grindavíkurvegurinn – uppdráttur ÓSÁ.

9. Í brekkunni á vinstri hönd eru hleðslur, sennilega skjól fyrir hesta.
10. Á hægri hönd, rétt áður en komið er að gatnamótum vegar að Bláa Lóninu, er stór hleðsla skammt frá veginum. Við hana er önnur hleðsla.
11. Þegar komið er framhjá gatnamótunum og aðeins upp á hæðina eru hlaðin hús, hálffallinn, innan við 10 metra frá veginum. Þó er þarna heill hlaðinn veggur og rutt svæði.
12. Hlaðinn hringur er skammt sunnar, hægra megin vegar, ca. 15 metrar frá vegi. Þetta er líkast til skjól.
13. Hlaðinn stallur er vinstra megin vegarins, ca. 10 mertum frá, rétt áður en komið er út úr hrauninu við slóðan að Svartsengisfjalli.
14. Upp úr Svartsengi, þar sem grastungan nær lengst til norðurs, liggur stígur upp í hraunið og áfram í átt að búðunum vestan við Arnarsetrið. Hlaðið er í stíginn á nokkrum stöðum. Líklega er um að ræða stíg vegagerðarmanna áður en vegurinn náði að Svartsengi, en byrjað var á honum að norðanverðu, á Stapanum. Þarna fyrir ofan er klettur, nefndur September, en tekið var mið af honum þegar verkið var látið falla niður eitt haustið.

Hópssel

Hópssel.

15. Rétt áður en komið er að Selshálsi er tótt í hlíðinni á vinstri hönd, innan við 10 metra frá veginum. Þetta er tótt Hópssels, en Hóp átti land þangað. Skammt þar sunnan af sést móta fyrir stekk í hlíðinni.
16. Hægra megin vegarins, vestan í Selshálsi, sést móta fyrir tótt í lægð. Líklega er um að ræða hluta af Hópsseli, þ.e. stekkurinn.

Baðsvallasel

Baðsvellir – seltóft.

17. Á Baðsvöllum var sel frá Járngerðarstöðum. Tóttir selsins sjást í vesturjaðri hraunsins norðan Þorbjarnarfells. Einnig er tótt austar á völlunum, við vatnsstæði, sem þar er. Vegna ofbeitar var Baðsvallarselið flutt upp á Selsvelli, þar sem Grindarvíkurbæirnir höfðu lengi í seli, bæði austan á völlunum og suðvestan í þeim. Enn sést móta vel fyrir tóttum seljanna á Selsvöllum.

18. Þegar komið er upp á Selsháls sjást Gálgaklettar vel á vinstri hönd. Þar segir þjóðsagan að hreppsstjóri hafi hengt þjófa eftir að hafa fangað þá við laugar norðan Þorbjarnarfells.

Gaujahellir

Gaujahellir.

19. Á hægri hönd er Þorbjarnarfell. Efst í því er Ræningjagjá. Þar áttu þjófarnir að hafa hafst við á milli þess að þeir herjuðu á bæina fyrir neðan. Uppi á fjallinu eru einnig stríðsminjar.
20. Brekkan, niður að bænum, kallast Hesthúsabrekka. Vinstra megin hennar, áður en komið er að vatnsgeyminum, eru hraunhólar. Þar höfðu vegagerðarmenn búðir sínar áður en vegagerðinni lauk.
Sunnan vatnsgeymisins er Gaujahellir, Jónshellir öðru nafni (einnig nefndur Grindavíkurhellir). Hann lá áður alla leið þangað sem félagsheimilið Festi er nú. Hellirinn er sagður hafa verið notaður sem brugghellir um tíma. Saga er af mönnum, sem lokuðust inni í hellinum í jarðskjálfta, en komust út eftir endurtekna skjálfta.

 

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegurinn í dag.