Tag Archive for: Grindavík

Sauðabrekkur

Gengið var frá Krýsuvíkurvegi um Hrútargjárhraun yfir að Markhellu eða Markhelluhól eins og hún er stundum nefnd. Frá henni var gengið niður að Búðarvatnsstæði, upp um Sauðabrekkur að Sauðabrekkugjá og norður eftir henni um Sauðabrekkugíga á leið til baka niður hraunið. Í leiðinni var gengið framhjá Gapinu, mikilli holu í miðju hrauninu.

Markhella

Við Markhellu. Dæmigerð tilfærsla landamerkja fyrrum.

Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” „KRYSU“. Síðan lá línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti eða Klofningskletti,eins og hans er getið í sumum landamerkjalýsingum. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða.
Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns er ritað 26. maí 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Lýsing merkja er svona: “Landamerki milli Óttarstaða og Hvassahrauns byrja í Mið-Krossstapa, frá honum í Klofningsklett, sem varða er hjá, sunnanvert við Einirhól. Frá Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, frá þeim stað í Markhelluhól, sem er hornmark frá Óttarstöðum, Hvassahrauni og Krýsuvík; í hann er klappað: Ótt, Hvass, Krv.”

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Landamerkjabréf er til milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarstaða ritað 13. júní 1890, samþykkt frá öllum þremur jörðunum. Lýsing merkja er þessi:
“Merkin byrja í svonefndum Markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes, úr Markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stórgrænahól, úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu, úr henni í Skorásvörðu, úr henni í Miðkrossstapa, sem er horn mark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu sunnanvert við Einirhól, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík.”
Vatn var í Búðarvatnsstæðinu. Vestan við það er klettur, einnig nefndur Markhella eða Markhelluhóll. Stundum hefur verið áhöld um við hvorn klettinn hafi verið miðað í landamerkjalýsingum. Búðavatnsstæðið hefur áreiðanlega skipt miklu máli fyrir beit í heiðinni og ferðir um hana hér fyrrum. Margir slóðar liggja að vatnsstæðinu og vel gróið er í lægðum í kring.

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkuskjól.

Haldið var upp í Sauðabrekkur og fram á barm Sauðabrekkugjár. Honum var fylgt til norðurs, um svonefnda Sauðabrekkugíga. Um er að ræða fallega gígaröð ofan við gjána. Austar hafa verið aðrir gígar, en þunnfljótandi hraun fyllt í þá að mestu. Í einum gígnum er bæli, slétt gólf og hraunbekkur. Gluggi er í bælinu, en steinn hafði verið settur fyrir.
Ginið er hluti gamallar gjár, sem nýrra hraun hefur runnið ofan í og fyllt að mestu. Eftir stendur þessi hluti, óuppfylltur. Dýpið er um 20 metrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkur

Gígur í Sauðabrekkugígaröðinni.

Hraunsvík

Gengið var frá Hrauni til norðurs með austurhlíðum Húsafell, upp í sandnámur er áður hýstu eina af útstöðvum varnarliðsins, áfram upp Berjageira og norður með vesturhlíðum Fiskidalsfjalls. Haldið var um Stórusteina milli fjallsins og Vatnsheiðar, inn í Svartakrók og áfram upp með Hrafnshlíð.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Gengið var áfram um Tryppalágar og inn á gömlu götuna frá Ísólfsskála um Siglubergsháls milli Fiskidalsfjalls og Festisfjalls, niðurmeð Skögugili og beygt til suðurs niður á Hraunssand þar sem Dúnknahellir var m.a. barinn augu. Ofan Hraunssands að vestanverðu er Skora, Skarfaklettur sunnar, en síðan taka við Hvalvík og Hrólfsvík. Hraunsvíkin er utar.
Húsafell, Fiskidalsfjall, Hrafnshlíð og Siglubergsháls eru móbergsstapar, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti. Síðastnefndu fellsmyndirnar eru komnar úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu.

Hraunsvík

Hraunsvík – Dúknahellir.

Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skálamælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.

Festafjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.

Hraunsvík

Útsýni frá Dúnknahelli.

Þjóðsagan segir að austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Siglubergsháls

Gamla Krýsuvíkurgatan um Siglubergsháls.

Þegar gengið var áleiðis niður Siglubergsháls eftir gömlu þjóðleiðinni ofan núverandi þjóðvegar varð ekki hjá því komist að sjá hið mikla malar og sandnám, sem átt hefur sér stað utan í Fiskidalsfjalli og Húsafelli. Rifjuð var upp umsögn

Skipulagsstofnunar um svonefndan Suðurstrandarveg, þ.e. mat á umhverfisáhrifum, frá því 10. desember 2003. Þar segir m.a. að fulltrúar stjórnar Landverndar hafi kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Suðurstrandarvegar. “Svæðið sem fyrirhugaður vegur fer um er á margan hátt sérstakt og veðmætt vegna landslags, jarð- og menningarminja. Skýrslan ber með sér að framkvæmdaaðili gerir sér þetta ljóst og hann hefur lagt ríka áherslu á að finna vegstæði sem hefur sem minnst neikvæð áhrif á þessi verðmæti. Svo virðist sem ekki sé mögulegt að nota núverandi vegstæði miðað við þær tæknilegu kröfur sem gerðar eru og nýr vegur mun því óhjákvæmilega hafa nokkur sjónræn áhrif og skera samfellda hraunfláka í tvo.

Kapella

Hraunssandur og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Námustæði við Húsafell og við Fiskidalsfjall eru í dag afar mikil lýti í landinu og efnistaka virðist óskipulögð. Suðurstrandarvegur kemur til með að fara um þessar námur og það væri til bóta ef hægt væri að nýta framkvæmdir til að gera umbætur á námunum.“
Fram kemur einnig að „vakin er athygli á því að framkvæmdum loknum verði hugað að lokun vegaslóða sem liggja að efnistökustöðum til að draga úr líkum á utanvegaakstri og eftir atvikum gera þar bílastæða sem nýta má sem upphafsstað fyrir gönguferðir og útvist.“

Gengið var niður á Hraunssand um einstigi, sandströndinni fylgt til vesturs að Dúnknahelli, sem sjórinn hefur smám saman verið að skila aftur eftir að hafa fyllt hann af sandi um tíma.

Hraunsvík

Bjargfuglar.

Fíllinn verpir á syllum í berginu, en rauðnefjuð svört teistan í hellum undir Festisfjalli. Dúnknahellis er getið í frásögn af strandi spænskrar skútu við ströndina og björgun áhafnarinnar, sem leitaði skjóls í hellinum uns hjálp barst. Erfitt getur reynst að komast upp úr fjörunni því þverhnípt bjargið er ofan hennar. Merkilegar hraunmyndanir eru í bjarginu; annars vegar hart grágrýtið í lögum og hins vegar meir rauðamölin þeirra á millum. Hennar vegna gengur Ægi svo vel sem raun ber vitni að brjóta bergið smám saman undir sig.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 2 mín.

Hraunsvík

Hraunsvík.

Fjárskjólshraun

Gengið var um Fjárskjólshraun. Einn FERLIRsfélaginn hafði rekist þar á mjög fornar hleðslur fyrir fjárskjóli í hrauninu.

Fjárskjólshraunshellir

Fjárskjólshraunshellir.

Við athugun reyndist þar vera um miklar hleðslur fyrir rúmgóðum skúta, svo til alveg grónar, en vel sést móta fyrir hlöðnum innganginum, sem er alllangur. Hellirinn sjálfur hefur hýst hátt í hundrað kindur. Fyrirhleðslur eru inni í hellinum á þremur stöðum. Mold er í gólfi. Við fyrirhleðsluna, vinstra megin við innganginn er inn er komið hefur verið hleðsla er líkist bæli eða klefa. Þar gæti hugsanlega hafa verið skjól fyrir þann eða þá er sátu yfir ánum í hrauninu. Þarna hefur ekki nokkur maður stigið niður fæti alllengi. Ekki er ósennilegt að fjárskjólið sé það er hraunið hefur dregið nafn sitt af – Fjárskjólshraun. Ofan við fjárskjólið er vörðubrot.

Fjárskjólshraun

Hellisop í Fjárskjóshrauni.

Á leiðinni til baka var gengið fram á mikið gróið jarðfall. Það sér ekki fyrr ens taðið er á brún þess. Greinileg hvelfing er við nyrðri endann og u.þ.b. 6 metrar voru niður. Hægt var að komast niður í hana til hliðar og virtist þar vera mikill geimur. Til hliðar er hægt að komast niður í mannhæðarháa rás og liggur hún upp á við og beygir síðan til vinstri. Ekkert hrun var í rásinni. Henni var ekki fylgt að þessu sinni, en ætlunin er að fara þangað fljótlega aftur og kanna hana betur (sjá FERLIR-623). Rásin er á u.þ.b. 8 metra dýpi svo hún gæti lofað góðu. Ekki var að sjá að nokkur maður hafi heldur stigið fæti þarna niður – ef mark var takandi á moldinni í botninum á leið niður í rásina.
Fjárskjólshraun, sem er hluti Eldvarpahraunanna undir Geitahlíð, stundum nefnt Krýsuvíkurhraun, dregur væntanlega nafn sitt af fyrrnefndu fjárskjóli í hrauninu.
Frábært veður. Gangan og skoðunin tóku 2 klst og 2 mín.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunshelli.

Gígur

Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.

Sandfell

Sandfell.

Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Sandfelli um Hrútagjádyngju og á hellasvæðið norðan hennar.

Dyngja

Dyngjugos.

Við Sandfell er Hrútfell, sem dyngjan dregur nafn sitt af. Á toppi þess stendur hrúturinn. Hrúthólmi er vestan dyngjunnar og Hrútafell sunnar. Dyngjan sjálf er mikil um sig. Gígurinn er hringlaga og sléttur í henni vestanverðri. Út frá honum liggja myndarlegar hrauntraðir er mynduðust er hraunið rann fyrir u.þ.b. 4500 árum síðan.
Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.

Húshellir

Við Húshelli.

Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum. Gígbarmarnir rísa venjulega ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheiði (Hnúkum). Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Utan Íslands eru dyngjur sjaldgæfar nema á Hawaii-eyjum þar sem þrjár dyngjur eru enn virkar. Úr dyngjunum renna oft mikil hraun, sbr. Sandfellshæðina, Þráinsskjöld, Heiðina há og Hrútargjárdyngju.
Hrútargjárdyngja er einstaklega fallegt jarðfræðifyrirbæri. Barmar meginhraunsins hafa lyfst á gostímanum og myndað veggi og gjár með köntunum. Hrauntraðirnar eru miklar vegna hins mikla hraunmassa og hafa myndað gerðarlega og greiðfæra ganga um hraunið.
Hellunum neðan Hrútargjárdyngju er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, sjá meira HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Árni Hjartarson – JÍ 2003.

Húshellir

Í Húshelli.

Markrakagil
Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum.
Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver séð sig knúinn til þess að spyrna við honum.

Markrakagil

Markrakagil.

Gilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Markragil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).

Hraunhóll

Hraunhóll.

Námusvæði er í vestanverðum Undirhlíðum norðan Vatnsskarðs. Vestan þess, sunnan Krýsuvíkurvegar, er Hraunhóll, enn eitt jarðfræðifyrirbrigðið, sem skemmt hefur verið í gegnum tíðina. Úr honum rann Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, um 1188. Gígurinn hefur verið eyðilagður sem og allt umhverfi hans, Hraunhóll, stundum nefndur Rauðhóll, var með fallegri gígum á Reykjanesi og í rauninni stolt svæðisins. En þegar ráðist er að stolti landsins er dregið úr verðmæti þess. Skammsýni, þegar landsgæði eru annars vegar, hefur því miður verið eitt af höfuðeinkennum Íslendinga, allt frá landnámi til vorra daga.

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Með gengdarlausri eyðingu skóga kom landeyðingin, skjólið hvarf og landsmenn stóðu berrassaðir á berangri um aldir. Nú þegar ferðamennskan er að verða ein aðalatvinnugrein landsmanna standa þeir enn og aftur berrassaðir fyrir framan ferðamennina, með landið sundurkorið og með óafturkræfar námur á einum fallegustu og nærtækustu svæðunum. Þeir, sem fengið hafa að ráða ferðinni í þessum málum, eiga að verða verðlaunaðir með fálkaorðunni fyrir eindæma skammsýni í þessum efnum. Nóg um það í bili.
Haldið var suður með Sveifluhálsi, um Sandfellsklofa. Þessi leið var fyrrum farinn frá Kaldárseli til Krýsuvíkur, Undirhlíðavegur. Hún er sendin frá Vatnsskarði og upp fyrir Norðlingaháls, en þá taka við grónar brekkur og sléttur að Ketilsstíg. Svæðinu um Sandfellsklofa hefur nú verið spillt með efnistöku, auk þess sem vélhólafólk hefur sett för sín á landið.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hrauntröð.

Mikil og löng hrauntröð, sem nú er að mestu sandi orpin, liggur samhliða klofanum. Hún var elt upp í gígana, sem eru í brekkunni áður en beygt er upp að Hrútargjárdyngju. Vegurinn liggur um þá. Jarðföll taka við tröðinni, en í því efra er hægt að komast niður í Klofahelli.Hraunrennslið hefu nær eingöngu orðið úr syðstu gígunum. Stærð hraunsins nær ekki einum ferkílómetra, en raunveruleg stærð þess gæti verið mun meiri. Aldursákvörðun hefur verið gerð á gróðurleifum undir hrauninu (Jón Jónsson, 1983) og fékkst aldurinn 3010 +/-70 eða um 1060 ár f.Kr.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hellisop.

Nokkrir hellar ganga fáeina tugi metra inn frá miklum niðurföllum við suðurenda hrauntraðarinnar. Í þessum smáhellum hefur mikið hrunið, en þeir eru nafnlausir og hluti af Klofahelliskerfinu.
Inn frá litlu opi ofan við Djúpavatnsveginn. Inn frá því til norðausturs er Klofahellir. Fyrst er klöngrast niður þrönga rás, sem á stunum er á tveimur hæðum. Þar innanvið er mikil hvelfing með um fjögurra metra lofthæð og um átta metrar eru milli veggja. Aftur þrengist hellirinn nokkra vegalengd þar til komið er í “símaklefann”, en þar má rétta úr sér á ný. Inn frá símaklefanum eru um 10 m göng, en ákaflega þröng og ekki á færi allra að fara þar í gegn. Þar innan við stækkar hellirinn á ný, en endar svo í miklu hruni. Klofahellir er um 115 m langur.
Suðvestan við Klofahelli er enn einn hellir eða skúti. Heildarlengd er um 15 metrar. Í honum voru fjögur pör af skóm og fékk hellirinn því nafnið Skóhellir.

Sandfell

Sandfell – austurhliðin er snýr að Sandfellsklofa.

Sandfellið er auðvelt uppgöngu. Fallegt útsýni er af því yfir að Hraunhól, yfir Kapelluhraun og Óbrennisbrunahraun. Gengið var niður af fellinu að austanverðu og haldið yfir nokkuð slétt hraunið og sandsléttu að upphafsstað. Upp úr henni gægist ein og ein burnirót. Ósjálfrátt fara tvífætlingar að gaumgæfa hvar þeir stíga niður. Það, sem næst er, yfirsést – oftast.
Á leiðinni var gengið yfir tiltölulega litla hraunsprungu. Jarðvinnuvél hafði verið ekið af óskiljanlegri ástæðu yfir sprunguna og verið rótað með henni að hluta til yfir hana. Forvitnilegt skoðunarverkefni síðar.
Innst í Sandfellsklofa eru glögg merki þess hversu utanvegaakstur getur spillt annars fallegu landslagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Fjárskjólshraun

Gengið var niður Fjárskjólshraun og að opi Fjárskjólshraunshellis, sem fannst fyrir skömmu í grónu jarðfalli í hrauninu. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess.

Fjárskjólshraun

Á leið í Fjárskjólshraun. Keflavík að handan.

Komið var niður í skúta undir berghellunni, en með því að fara til hægri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri.

Fjárskjóshraun

Í helli í Fjárskjóshrauni.

Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnum á einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.
Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Ekki var komist inn í meginrásina að þessu sinni. Líklega má telja svæðið í kring hellavænlegt og því vel þess virði að gefa því nánari gætur við tækifæri. Frést hefur af opi þarna nokkru austar, skammt neðan við þjóðveginn, sem á eftir að staðsetja og skoða.
Frábært veður.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunshelli.

Ögmundarstígur

Gengið var yfir Sveifluháls eftir gamalli þjóðleið frá austri til vesturs, framhjá Drumbi og áfram niður í Bleikingsdal.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Lækur rennur þar niður hraunið sunnan Vigdísarvalla, um svonefnda Suðurvelli og Klettavelli ofan við Krýsuvíur-Mælifell og niður Ögmundarhraun. Hann kemur úr hvilftunum suðvestan Hettu í Sveifluhálsi og hefur smám saman rutt á undan sér sandi og leir úr hlíðunum, líkt og Selsvallalækurinn og Sogadalslækurinn. Gróið er á bökkum læksins, því meira sem norðar dregur. Ljóst er að fé hefur nýtt sér vatnið í gegnum tíðina og launað fyrir sig með því að leggja sitt af mörkum við uppgræðsluna næst læknum. Til skamms tíma náði lækurinn niður í hraunið norðan þjóðvegarins milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála, en nú er hann kominn suður fyrir hann og ætlar greinilega alla leið áfram til sjávar, jafnvel þótt það taki tíma.
Læknum var fylgt niður að Ögmundardys, við gömlu þjóðleiðina yfir hraunið. Dysin er við austanvert hraunið, við eina stubbinn, sem enn er óbreyttur frá því sem var. Gatan var jafnan lagfærð með seinni tíma vegarlagningum (1932) og síðar.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Þjóðsagan segir að áður en gatan var rudd varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi vildi ei gefa dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
Jón Jónsson, jarðfræðingur segir aldur Ögmundarhrauns vera C14 945 ± 85, þ.e. að hraunið hafi runnið árið 1005?
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 61 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=276
-J.J. 81

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Dalssel

Gengið var til norðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli, framhjá Kastinu og inn að Nauthólum í Fagradal. Á sumum landakortum er Sandakravegurinn dreginn þessa leið og áfram til norðvesturs að Skógfellaveginum ofan við Stóru-Aragjá. Áður en haldið var áfram um Aura og Mosadal var ætlunin að huga að mögulegum Brúnavegi úr Fagradal áleiðis inn á Brúnir ofan við Kálffellsheiði. Ef vel gengi var ætlunin að koma við í Oddshelli.

Göngusvæðið

Að lokum var svo markmiðið að skoða kaflann úr Fagradal til vesturs að Stóru-Aragjá m.t.t. þess hvort þarna hafi fyrrum verið sú þjóðleið er ætlað hefur verið. Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum frá einu af síðustu jökulskeiðum ísaldar. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi. Hraunhetta hylur hæsta hluta fjallsins í norðvestri (KristjánSæmundsson og Sigmundur Einarsson, 1980) en yngri hraun frá nútíma liggja umhverfis fjallið.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).

Kastið

Kastið.

Um klukkustundar gangur er með fjallinu inn í Fagradal. Á leiðinni er gengið framhjá Sandhól, en norður með honum liggur grópuð þjóðleið yfir á Skógfellastíginn milli Skógfellanna. Þessi leið hefur gjarnan verið nefnd Sandakravegur. Kastið stendur sem fell úr úr Fagradalsfjalli. Norðan hennar er Fremstidalur, þá Miðdalur og nyrst Innstidalur. Milli þeirra síðarnefndu stendur Sandhóll-innri úti í hrauninu. Þegar komið er inn í Fagradal eru Nauthólar og Nauthólaflatir fremst. Ofan við þær er Rauðgil.  Norðaustar eru þrír hólar og er Dalssel norðan í þeim. Tóftirnar eru sunnanverðum lækjarbakka. Enn má sjá þar gróna húsatóft, kví og stekk vestast.

Sauðaskjól í Kálffelli

Þá var haldið inn á Brúnir. Varða er syðst á þeim, en síðan taka við fokmelar og grjótþýfi. Enga greinilega götu er þar að sjá. Hemphóll sést vel í norðri, en ekki var að merkja götumynd áleiðis að honum.
Haldið var niður að Kálffelli og m.a. litið á sauðaskjól og íveruhelli. Landamerki Vatnsleysustrandarhrepps og Grindavíkur liggja um Kálffellið. Í lýsingu á merkjum Vatnsleysustrandarhrepps gerð af Gunnari á Kálfatjörn 1981 kemur fram að suðausturmörk og suðurmörk hans voru eftirfarandi: „Úr Markhelluhól liggja mörkin til útsuðurs sjónhending um Hörðuvallakofa og milli Dyngna, þ.e. skarðið milli Stóru-Dyngju og Grænudyngju, síðan sömu stefnu upp og suður Vesturháls um Grænavatnseggjar og Selsvallafjall í móbergsfell nær vesturbrún hálsins, upp af Þrengslum og Hraunsseli. Fell þetta er ýmist nefnt Framfell eða Vesturfell. Þaðan liggja mörkin til útnorðurs í Hraunsvatnsfell og þaðan í Vatnskatla á Vatnsfelli norðan Fagradalsfjalls. Úr Vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla- Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna en þaðan til sjávar yst í Grynnri-Skoru á Vogastapa“.

Oddshellir

Í Oddshelli.

Oddshellir er í Brunnhól. Opið er eins og brunnop, en auk þess er hann opinn í toppinn. Um tveir metrar eru niður á gólfið. Talið er að Oddur í Grænuborg hafi átt afdrep í hellinum og af því mun nafngiftin vera dreginn. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað. Sauðhellarnir eru skammt norðan við Oddshelli. Í gígnum eru leifar af hlöðnu gerði svo og fyrirhleðsla skammt norðar. Þótt Kállfellið virðist standa hátt í heiðinni er hæð þess ekki nema 87 m.y.s.
Haldið var til suðurs niður á Aura og þeim fylgt að austurgjárbrún Mosadals. Engin ummerki eftir götu voru þar með gjárbrúninni, en varða á hól ofan hennar. Engin ummerki voru heldur á gjárbarminum (Mosadalsgjá) að vestanverðu. Ef gata hefur legið um Fagradal og Aura niður á Skógfellastíg ofan Snorrastaðatjarna þá hefur sú gata legið mun austar, eða við enda gjánna, með stefnu í suðvestanvert Kálffell, við rætur Kálffellsheiðar.
Snorrastaðatjarnir í síðdegissólinniListaverkaísmyndanir á pollum, sígrænn einir, sólbakaður mosi og kyrrð vetrardægrar í logninu voru sem viðauki á annars ágæta gönguferð. Að vísu voru þátttakendur orðnir lúnir til fótanna að henni lokinni, en upplýsing hugans er aflað var á leiðinni vó verulega á móti þreytunni og mun lifa áfram að henni úrsérgenginni.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Leiðin er um 18 km.
Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

Kálffell

Kálffell – rétt.

Spákonuvatn

Gengið var frá norðvesturhorni Trölladyngju í dýrindisveðri.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Sogasel var skoðað í Sogaselsgíg, en þar eru rústir nokkurra húsa á a.m.k. þremur stöðum frá selstíð Kálfatjarnar, auk stekkjar og réttar. Ein rústin er sýnilega elst, en jafnvel er talið að Krýsuvík hafi haft þarna í seli um tíma. Utan við gíginn er enn ein rústin.

Gengið var áleiðis upp Sogadal, skoðuð heitavatnsuppspretta í hlíðinni og síðan upp að Spákonuvatni á Núpshlíðarhálsi, niður Grænavatnseggjar og að Grænavatni. Haldið var með vatninu og kíkt eftir hugsanlegum hleðslum norðan við það, en mjög gróið er þar við vatnið.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Uppi í hlíðinni gætu verið óljósar hleðslur og einhver mannanna verk gætu einnig verið þar við vatnið. Gengið var að Selsvallafjalli og beygt til austurs með hálsinum ofan við Krókamýri. Farið var á ská niður hálsinn og vegurinn genginn með Djúpavatni þar sem áð var á Lækjarvöllum norðan við vatnið. Að því búnu var gengið með hálsinum og frammeð Fíflvallafjalli. Við enda þess er mikill gígur. Vel sést hvar Rauðamelsselstígur liggur þaðan yfir hraunið að Hrútafelli og vestur fyrir það, en sunnan við fellið er vatn, sem Lækjarvallalækurinn hefur myndað utan í grónum völlum. Loks var gengið um Hörðuvelli, niður með eldgígum og hrauntröðum uns komið var að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.