Tag Archive for: Grindavík

Kastið

Gengið var um Fagradalsfjall með það að markmiði að finna og skoða þrjú flugvélaflök, sem þar eiga að vera.

kastid-213

Hluti braksins í Kastinu.

Gengið var frá Siglubergshálsi og gengið um Lyngbrekkur og upp með Langahrygg að austanverðu. Þaðan er gott útsýni yfir að Skála-Mælifelli. Flugvélabrak frá því á stríðsárunum liggur norðaustan í hryggnum. Tólf menn fórust, Bretar og Bandaríkjamenn. Stutta stund tók að finna brakið. Það er efst í hryggnum og í brekkunni þar fyrir neðan. Hluti braksins er í gili undir brekkunni.

Haldið var yfir að Langhól. Þar fórst önnur vél í stríðinu, Sunderland flugbátur. Ekki er ljóst með mannskaða. Brakið er norðaustan í hólnum, nokkuð ofarlega. Áður en komið vara ð barkinu var gengið fram á vatnsketil þar í hlíðinni og var þó svolítið vatn í honum. Vel gekk að finna brakið. Gengið var svo til beint á það.

Eftir að hafa skoðað svæðið var gengið upp á hæsta punkt Langhóls (391 m.y.s.).

Langhóll

Langhóll – brak.

Þar er gott útsýni yfir hinar fögru og blómlegu byggðir Suðurnesja og Útnesja. Brak af flugvél er ofarlega undir Langhól í norðaustur.
Frá Langhól var haldið í Kastið, en þar er þriðja flugvélabrakið. Það er af Liberator-flugvél Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu, en hann fórst þarna 3. maí 1943. Fjórtán fórust og einn komst lífs af í þessu slysi.
Eftir að hafa skoðað brakið í Kastinu var haldið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Átján km voru lagðir að baki.

kastid-212

Kastið í Fagradalsfjalli.

 

Tóustígur

Gengið var frá Hvassahrauni að Afstapahrauni (Arnstapahrauni) og inn í hraunið. Það virtist ógreiðfært við fyrstu sýn, en raunin var önnur. Það er vel gróið á kafla og auðvelt yfirferðar. Að austanverðu eru falleg gróin svæði strax og komið er inn í hraunið með fallegum klettamyndunum.

Tóustígur

Vinnuvélar komnar fast af fornum garði í Neðstu-tóu – Tóustígur h.m.

Sjá mátti fyrirhleðslu á einum stað. Stígur liggur þar í gegnum. Gengið var upp á línuveginn og eftir honum til vesturs uns komið var inn í Tóu tvö. Jarðvinnuvélar voru að moka hrauninu vestan hennar, u.þ.b. tveimur metrum frá Tóustígnum og hlöðnu görðunum, fornminjum, sem þar eru. Sorglegt á að horfa. (FERLIR vakti athygli MBL á aðstæðum. Það birti mynd af jarðvinnuvélunum og sagði frá nálægðinni við garðana. Vegagerð ríkisins stöðvaði framkvæmdir og þáði afsökun verktakans. Hann hafði ekki áttað sig, að sögn, á hversu nálægt hann var kominn, þrátt fyrir skráða skilmála þess efnis).

Toustigur

Tóustígur.

Gengið var til suðurs upp eftir Tóustígnum, upp í Tóu þrjú. Þar er jarðfall og hleðsla fyrir. Bændur munu hafa hýst fé þar í skjóli. Bein voru ofan við jarðfallið eftir refaveiðimenn, en þeir munu hafa borið þar út æti með það fyrir augum að veiða refinn. Greni eru þarna í hraunkantinum. Haldið var eftir stíg í Hrístóu. Hún er vel gróin að hluta. Gengið var með Seltóunni og var stígurinn þræddur til austurs í gegnum gróft hraunið uns komið var í slétt mosahraun – Dyngnahraun. Í því voru greni og mjög fallega hlaðið refabyrgi. Mjög erfitt er að koma auga á það – svo vel fellur það inn í landslagið. Sennilega er þarna fundið byrgi er Jónas Bjarnason var að reyna að lýsa fyrir FERLIR fyrir u.þ.b. tveimur árum og nokkrum sinnum hefur verið reynt að hafa uppi á. Allt finnst þetta þó að lokum.

Tóustígur

Tóustígur.

Efst suðvestan í efstu Tóunni liggur varðaður stígur til suðvesturs yfir Afstapahraunið. Stígurinn er mjög greinilegur og hefur verið fjölfarinn fyrrum. Greinilegt er að þarna hefur verið um hrísgötu að ræða, enda lagaður til umferðar. Hún hefur legið upp með vesturjaðri Afstapahrauns og beygt inn á hraunið að efstu Tóunni þar sem haunhaftið er mjóst. Með því að fara upp með gróningunum vestan hraunsins hefur meðferð hesta verið mun meðfærilegri en að fara með þá niður Tóurnar, yfir hraunhöft og torleiði þar sem hrísið var m.a. annars vegar.

Upp af Tóunum tók við hraunkantur, sem stígurinn lá í gegnum.
Þegar út úr hrauninu var komið var haldið til austurs uns komið var í hraunkrika Dyngnahrauns.

Skógarnef

Skógarnefsgreni.

Haldið var upp í krikann og stígur þræddur yfir úfið hraunið. Þegar yfir það var komið tók við gróinn Almenningur skammt vestan við Gömlu þúfu. Gengið var spölkorn norður með hraunkantinum og þá komið að Búðarvatnsstæðinu. Það reyndist því miður þurrt með öllu. Vatnsbirgðirnar voru því látnar duga. Girðing hefur legið í gegnum vatnsstæðið og beygt þar hornrétt. Eftir að hafa áð við vatnsstæðið var gengið með hraunkantinum og stefnan tekin á Hvassahraun.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var í gegnum gróið hraun, niður í gegnum Skógarnefið, sem er þarna skammt frá, og áfram í genum gróið mosahraun vestan þess. Gerð var leit að Skógarnefsskúta, en án árangurs. Gengið var um Jónshæð og niður að Öskjuholti. Staldrað var við Öskjuholtsskúta og hann skoðaður. Þá var gengið áfram til norðurs, niður með Bláberjahrygg og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 19.4 km.

Víkingaskip

„Víkingaskip“ í Afstapahrauni.

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarhraun að Latfjalli, komið við í sæluhúsi í hrauninu undir fjallinu og síðan gengið yfir í Óbrennishólma og þaðan yfir í Húshólma. Stígur í gegnum hraunið liggur ofan við sæluhúsið og með sunnanverðum Óbrennishólma. Áður fyrr hefur hann legið með ströndinni um Húshólma, en sjórinn hefur tekið hann til sín fyrir allnokkru. Stígurinn er klappaður í bergið á kafla.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1200. Í þessu gosi myndaðist feiknarmikil hraun. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun/Kapelluhraun – yfirlit.

Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum. Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni. Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Ögmundarhraun er hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi (Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun, er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs.

Reykjanesskagi

Ögmundarhraun.

Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram. Hraunið var erfitt yfirferðar fyrrum en núna liggur um það nokkuð greiðfær malarvegur. Sjálfur vegurinn er ekki friðlýstur, þó svo einhver gæti haldið það, en hraunið er friðlýst.
Krýsuvík var fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn, og stóð bærinn upphaflega allmiklu vestar. Bæinn tók af, þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið gróðurlendi jarðarinnar, líklega á fyrri hluta 12. aldar. Kirkja mun hafa verið í Krýsuvík á 13. öld. Stórbýli var áfram í Krýsuvík um aldir og undir því voru margar hjáleigur.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.
Bæði Óbrennishólma og Húshólma er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. FERLIR-128, 217, 300, 386, 545, 634 og 715.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

 

Hópsheiði

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir Svavar Sigmundsson um „Önefnið Grindavík„:
„Grindavíkur er getið í Landnámabók (Íslensk fornrit I:330). Í sömu bók eru auk þess Grindalækur í Húnavatnssýslu og Grindur í Borgarfirði.

Hópsvarða

Innsiglingavarða við Hóp í Grindavík – endurhlaðin af FERLIRsfélögum.

Í örnefnum bendir orðið grind til merkingarinnar ‘gerði’ eða ‘hlið’, eða ‘klettarið’, til dæmis Grindaskörð í Gullbringusýslu og Grindamúli í Suður-Múlasýslu, Grindarás í Austfjörðum (Íslenskt fornbréfasafn IV:205,271), Helgrindur á Snæfellsnesi og Jökulgrindur í Rangárvallasýslu. Klettarani á merkjum Þorpa og Hvalsár í Strandasýslu heitir Grind (Íslenskt fornbréfasafn IV:161). Sögn er um að grind hafi verið þar í skarði til varnar ágangi búfjár.

Svartiklettur

Svartiklettur við Hópið í Grindavík – sundmerki.

Hugsanlegt er að grind hafi átt við sundmerki* en Sundvarða er í Herdísarvíkursundi, „sem tréð með grind stendur í“ (Örnefnaskrá).
*Sundmerki er innsiglingarmerki, oft varða með tré í, eins og í Herdísarvíkursundi, og til dæmis þannig að tvær slíkar vörður átti að bera saman þar sem innsigling var örugg.“

Famangreint verður að teljast fróðlegt í ljósi allara sundmerkjanna í Grindavík. Reyndar eru núverandi sundmerki ekki svo gömul að telja megi til landnáms, en þau verður að telja merkileg í samhengi sögunnar. Engum vafa er um það orpið að Grindvíkingar hafi sótt sjó um aldir og hafa því nýtt sér sundmerki sér til leiðsagnar, sbr. Siggu og önnur kennileiti ofan byggðar. Flest þeirra eru nú orðin mosavaxin, líkt og merkið í Leiti ofan Þórkötlusstaða, en önnur þau nýrri eru þó enn augljós, s.s. sundmerkin ofan Hóps.

 

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

FERLIRsfélagar endurhlóðu efri sundvörðuna við Hóp eftir að hluti hennar hrundi í frostvetri, en nú, eftir jarðskjálftana undanfarið (2001) hefur hún sem og sú neðri þurft að lúta í lægra haldi. Þar má segja að „Snorrabúð“ sé nú stekkur. FEELIRSfélagar hafa sýnt lítinn áhuga á að endurhlaða vörðuna vegna lítils áhuga bæjarstjórnar Grindavíkur á að viðhalda gömlum hefðum byggðalagsins…

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6588

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurheiði

Jafnan, þegar heyra má spurninguna um hvaðan örnefnið Krýsuvík (Krísuvík) sé upprunnið, verður jafnan fátt um svör. Getgátur eru leiddar fram, en fáar áreiðanlegar. En hver er þá merkingin Krýsuvík og hvar er örnefnið Gullbringu að finna í sýslunni, sem hún dregur nafn sitt af?

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Við þessari spurningu svarar Svavar Sigmundsson hjá Örnefnastofnun Íslands með eftirfarandi hætti: „Alexander Jóhannesson skrifaði 1929: Über den Namen Krísuvík. Mitteilungen der Islandfreunde XVII:36-37. Ásgeir Blöndal er ekki trúaður á það sem A.J. heldur fram að nafnið sé dregið af nafni konu, sbr. fhþ. Crisa, heldur sé það tengt lögun víkurinnar og í ætt við krús (3) og krúsa; af germ. *kreu-s- ‘beygja’ og hann skrifar það Krýsuvík (Íslensk orðasifjabók, 512). Önnur Krísuvík er í landi Þorsteinsstaða í Grýtubakkahr. í S-Þing. en þar er engin Gullbringa. Ég hef skrifað eitthvað um Gullbringu á Vísindavefnum 13.3. 2002. Annað man ég ekki að nefna, en ég aðhyllist frekar skýringu Ásgeirs Blöndals en Alexanders.“

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Ef skoðaðar eru gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að „krýs“ táknar einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar mun og fyrrum, að öllum líkindum, hafa verið grunn vík neðan við þar sem nú eru tóftir „Gömlu Krýsuvíkur“, þaktar hrauni, en tóftir hinna gömlu bæjarhúsa standa þar enn, órannsakaðar að mestu.

Gullbringa

Gullbringa.

Aðrir hafa velt fyrir sér langsóttari skýringum sbr. vangaveltum Alexanders Jóhannessonar frá 1929 og jafnvel lýsingar Skugga (Jochums). Eins og fram kemur hjá Svavari þá áætlar Ásgeir Blöndal nafnið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar. Jarðfræðiathuganir á svæðinu benda til að þarna hafi fyrrum verið vík inn í landið, enda gamlir sjávarhamrar langtum ofar.

Bringur

Bringur í Mosfellssveit.

Áður en hraunið rann 1151 og fyllti víkina hefur landslagið litið öðruvísu út. Þarna hefur væntanlega verið góð landtaka undir hömrunum, gróið í kring þar sem nú standa Húshólmi og Óbrinnishólmi skammt vestar, upp úr. Stutt hefur verið í fiskimið og nægur fugl í björgum. Beit hefur og verið væn, bæði fjær og í fjöru, og nægt vatn í brunnum. Þarna hefur verið, og er reyndar enn, mjög skýlt í norðanátt og austanáttin, rigningaráttin, er ekki til vansa.

Krýsuvík

Grein Árna Óla um Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins 1932.

Gullbringunafnið er til a.m.k. á tveimur stöðum í sýslunni, og það er einnig til í Kjósasýslu, sbr. Bringur eða Gullbringur norðaustan undir Grímarsfelli, efst í Mosfellsdal. Sumir telja Gullbringunafnið komið frá lágreistu keililaga sandfelli (Gullbringu) austan Kleifarvatns, en aðrir segja það vera á hlíðinni allri austan þess, „enda glói hún sem gull er kvöldsólin fellur á hana handan Hádegishnúks (Miðdegishnúks) [á Sveifluhálsi]. Þeir, sem komið hafa að austan snemmmorguns, með morgunsólina að baki, sjá þvert á móti Sveifluhálsinn gullglóandi við þær aðstæður. Sennilega getur allt landslag á Reykjanesskganum fallið undir framangreinda skilgreiningu því kvöldsólin, og reyndar morgunsólin líka, lita jafnan umhverfið gylltum litum undir þeirra síðustu morgna og kvölds þegar aðstæður haga þannig til. Raunverulegrar (upprunalegrar) nafngiftar er því sennilega að finna annars staðar á landssvæðinu og í öðru en sólargyllingunni, enda endurspeglast hún í sömu lögmálum sínum um allt land, óháð stað eða tilteknu svæði.

Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa eftirfarandi:
„Hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512)“.

Krýsuvík eða Krísuvík?
Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og út í víkina fyrrum. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.

Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna.“ Öll tilvitnuð forn skrif fyrrum voru „krysuvik“.

Reyndar er til ein mjög líkleg skýring á nafngiftinni. Í dönsku er til orðið „krys“, sem merkti „grunn skora“, s.s. í ask. Orðið þýddi og „grunn“, t.a.m. grunn vík“, sem Krýsuvík var fyrrum. Fólk hefur gjarnan ruglað saman orðunum „krís“ og „krýs“. Hið fyrrnefna stendur fyrir deilur eða ástand, en hið síðarnefnda fyrir vog eða skoru í ask.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun – http://www.ornefni.is/d_skoda.php
-Orðabók M&M.
-Orðsifjabókin.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Fagridalur

Gengið var um Breiðdal frá Vatnsskarði?, með Háuhnúkum, framhjá Breiðdalshnúk og ætluðu Markrakagili, upp að Ing-vari, til suðurs niður í Leirdal og síðan áfram um Fagradal.

Helgafell

Helgafell.

“Fönn, fönn, fönn – íslensk fönn”, kvað við í hlíðum og dölum. Nánari kynni hlíða og dala gerast varla nánari á forvordögum. Nýársdagur var runninn upp, stillilogn, bjart yfir og litadrjúgur himinn sveipaði roða um fjöll. Það marraði taktfast í snjónum undan skósólunum – “Fönn, fönn, fönn, ekta íslensk fönn”
Í Breiðdal hefur Landnám Ingólfs verið að reyna að græða upp, m.a. utan í Breiðdalshnúk. Hnúkurinn er í suðvestanverðum dalnum, fallegur móbergsstandur. Norðan og austan við hann tekur við breiður dalur, sem einhvern tímann hefur verið ríkur af gróðri. Nú hefur þar að mestu fokið upp og leirflög standa eftir.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns – eins og eðlilegast væri miðað við hina fyrrum Dalaleið. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum. Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver hins vegar séð sig knúinn til þess að spyrna við honum þaðan.
MarkrakagilGilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt 
Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Marrkagil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).
Breiðdalur hefur áður fyrr verið gróinn “milli botns og hlíða”. Stórar grastorfur eru enn í dalnum og sjá má gróðurbörð í hlíðum hans. Slóði liggur í gegnum dalinn, yfir í Slysadal, sem áður hét Leirdalur nyrðri. Á ásnum milli dalanna er stór og mikill “útstigningur”, sem 

Örsmáa

FERLIR hefur áður nefnt Ing-var til heiðurs fyrrum ástsælum bæjarstjóra þeirra Hafnfirðinga.  Útstigningurinn, eða höfðinn, sem hefur mannshöfðusmynd, hefur líkt og stigið út úr sunnanverðum Undirhlíðum eins og hann hafi orðið leiður á undirstöðunni og ákveðið að leggja af stað á brott frá þeim upp á sitt einsdæmi – einhverra erinda. Þannig sker hann sig úr, en hlíðarnar eru þær sömu. Sama mætti segja um Alþýðuflokkinn og Samfylkinguna. Sú síðarnefnda stendur enn sem hlíðin, litlaus og lítt áhugaverð. Hið eina áhugaverða á staðum er höfðinn – Ing-var – í takt við tímann.

Breiðdalur

Strýtur í Breiðdal.

Útsýni frá Ingvari yfir Slysadali, Leirdalshöfða og að Helgafelli, Þríhnúkum, Tvíbollum, Undirhlíðum, Kerlingarskarði, Fagradalsmúla, Fagradal, Vatnshlíðarhorni og Sveifluhálsi.
Gengið var til suðurs yfir að Leirdal syðri, um frosna tjörn og freðna móa. Fagurt útsýni var inn Fagradal. Vel sást hvar hraunstraumurinn hafði komið niður hlíðarnar í honum suðvestanverðum. Um hann lá leiðin til Krýsuvíkur um Hvammahraun.
Gegnt Fagradal eru nokkrar forskallaðar strýtur. Hvaða hlutverki þær hafi átt að þjóna þarna væri fróðlegt að fá upplýsingar um. Í Fagradal er gróinn hóll, sem grunur er um að kunni að leynast tóft neðan undir? Meira síðar…
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Fagridalur

Í Fagradal.

 

Brá

Ein algengasta spurningin um efni Reykjanesskagans mun vera „Er Reykjanes það sama og Suðurnes?“ Stutta svarið er „Nei“.
Lengra svarið er: „Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes: „Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi. Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes: Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.“

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: „Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.“ Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var „hællinn“ á skaganum en það síðarnefnda „táin“, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.“
Skv. framangreindu teljast Grindvíkingar ekki til Suðurnesjamanna því Suðurnes virðast vera svæðið norðan og vestan bæjarmarkanna. Á Suðurnesjum hafa jafnan búið „kátir menn og frískir“, en í Grindavík „sjósæknir og fríðir“. Hvorutveggja á reyndar við enn í dag.
Hvað sem öllu þessu líður búa svæðin í heild yfir ótrúlegri fjölbreytni til handa fólki, sem vill og getur borið sig eftir henni. Grindavík hefur t.d. aldrei tilheyrt Suðurnesjum, en þó verið hluti að Innesjum.
Framangreint hefur ruglað margan „málsmetandi“ ráðamannininn í ríminu í gegnum tíðina.

Heimildir:
-Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
-Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbjargs (-bergs) heita „Bergsendi“ eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd „Krýsuvíkurberg“. „Ytri“ og „Innri“ voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innra syðra.

Bergsendi

Bergsendi innri (eystri)- útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
„Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, vestan Bergsenda eystri, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur (nú horfinn).

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi vestari. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.“ Þorsteinn nefnir bergið allt „Krýsivíkurberg“.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg (Heinaberg).

„Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
„Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg) – kort.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari (ytri).

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um „Ræningjasker“ og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
„Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: „Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.“ (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg fjær) – nafnlausi fossinn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.“

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Brimketill

Nokkrir svonefndir „brimkatlar“ eru við strandir Reykjanesskagans, misstórir þó. Þeir eru flestir við ströndina undir bjargbrúnum, s.s. Herdísarvíkurbergi, Krýsuvíkurbergi og Staðarbergi.  Einnig eru dæmi er um slíka katla neðan hraunstanda, s.s. neðan Skollahrauns, en sá er hinn stærsti á Skaganum.

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Brimketillinn í sjávarklettunum vestast í Staðarbergi utan við Grindavík er sennilega sá margumtalaðisti. Hann, líkt og aðrir bræður hans, hefur myndast í stöðugum öldugangi þegar brimið lemur bergið. Basaltbergið er misfast fyrir, ýmist sem hraunmulningur, berghella eða þéttar hraunrásir. Þar sem sjórinn mætir þeim síðastnefndu á hann erfiðara um vik að vinna á þéttu berginu. Við það myndast framangreindir tímabundnir „katlar“, ekki ólíkt og skessukatlar í móbergi. Í báðum tilvikum leika steinar lykilhlutverkin í samvinnu við vindinn í tilviki skessukatlanna og sjóinn í tilfelli brimkatlanna.

Brimketill

Brimketill. Hart bergið umhverfis.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þannig brýtur hafið upp hraunhelluna smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur með ofurkrafti á sjávarkletta og laust grjót og þeytir hvorutveggja upp í loft. Þar sem lausara hraunhrap er fyrir myndast sjávarhellar. Þegar þung aldan steypist inn í rásirnar myndast mikill þrýstingur með þeim afleiðingum að „þakið“ innst gefur sig. Þegar það gerist myndast nokkurs konar „strandgeysir“ þar sem aldan nær að spýjast upp innan á ströndinni með tilheyrandi strókamyndun.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi. Hér má sjá takmarkað gagn af brúnni. Annar, minni ketill sést hægra megin við enda brúarinnar, sem virðist ná athygli ferðamanna umfram „Ketilinn“ sjálfan.

Hraunið umhverfis framangreindan Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.

Brimketill

Brimketillinn vestan við brúarpallinn.

Um Brimketilinn austan Grindavíkur er til þjóðsaga. Laugin sú arna mun áður hafa heitið Oddnýjarlaug. Þjóðsaga segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.

Ísólfsskáli

Kvennagöngubásar – brimketill.

Nú hefur metnaðarfull göngubrú verið handeruð í átt að Brimkatli, en smíðin sú virðist misheppnuð. Í fyrsta lagi fæst ekki nægileg yfirsýn yfir Brimketilinn frá enda brúarinnar. Brúarendinn hefði þurt að ná lengra út til austurs. Í öðru lagi er annar minni brimketill vestan við miðja brúnna. Fjölmargir ferðamenn, sem heimsækja staðinn telja að þar sé hinn eiginlegi „Brimketill“ því þeir ná aldrei sjónhendingu að þeim eina og sanna.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Austan Ísólfsskála er tilkomumesti brimketillinn á Reykjaneskaganum. Hann er á svonefndum „Kvennagöngubásum“. Básar eru nefndir svo austan við Rangargjögur; Skálabásar, Kirkjubásar og Kvennagöngubásar allt þangað til komið er að Hraunsnesi. Þar austan við er Mölvík.

Þegar Ísólfur Guðmundsson á Ísólfsskála var spurður árið 1983 um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar svaraði hann: „Þar var kvenfólk sagt baða sig“. Að öllum líkindum hefur Ísólfur haft í huga þekktu þjóðsöguna um Oddnýjarlaugina vestar á ströndinni.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Hið réttara er að Básunum austan við Ísólfsskála var skipt upp á milli bæjarins og kirkjustaða, sem fyrrum voru að hluta til eigendur jarðarinnar. Þannig átti Kálfatjörn um tíma rekaítök í Skálalandi, í svonefndum Kirkjubásum, líkt og Garðakirkja átti rekaítök í Kirkjubásum í Krýsuvíkurlandi austan Bersenda. Rekinn skipti hlutaðeigandi miklu máli í þá daga, líkt og kveðið er á um Jónsbók og fleiri gildandi lögbókum. Kvaðir voru á jarðeigendum af kirkjujarðanna hálfu að sinna reka sínum til jafns við þá. Þannig þurfti bóndinn á Ísólfsskála að þjóna presti Kálfatjarnarsóknar og fylgast með rekanum. Kvenfólkinu á Skála var ekki ætlað það hlutverk að ganga rekann lengra en að Kvennagöngubásum, enda þótt Skálabóndi ætti allan reka frá þeim að Dágon á Seltatöngum, en þangað var öðrum ekki ætlað gangandi en karlmönnum.

Brimketillinn í Kvennagöngubásum er hinn tilkomumesti og þangað hafa meðlimir Sjósundsfélaga farið til að njóta hinna tilkomumiklu náttúrulegu aðstæðna.

Hraunið umhverfis Kvennagöngubása er talið hafa runnið um 1151 en Staðarbergshraunið vestan Grindavíkur er talið hafa runnið um 1221.

Ó.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill. Festarfjall, Fiskidalsfjall og Húsafell fjær.

Skógfellavegur

Skógfellavegur er hluti gamallar þjóðleiðar milli Voga og Grindavíkur og dregur nafn sitt af Litla- og Stóra-Skógfelli sem standa stutt frá veginum. Á leiðinni, nærri Grindavík skiptist vegurinn og liggur annar í austurátt og nefnist Sandakravegur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – vörðukort (ÁH).

Skógfellavegur er auðfundinn. Hann er varðaður með 99 vörðum, misjafnlega vönduðum, og sumstaðar má sjá djúp hófför í hraunklöppum. Það tíðkaðist einnig áður fyrr að grjóti væri kastað úr vegstæði þegar farið var um leiðina. Úrkast má sjá víða á leiðinni. Vegurinn er stikaður og hver stika gps merkt og skráð hjá Neyðarlínunni.
Leiðin einkennist af hraunbreiðum, bæði úfnum og sléttum, mosagrónum og gróðursnauðum. Leiðin er skemmtilega fjölbreytt og gaman að ímynda sér alla ferðalangana sem þar hafa farið um síðustu 900 árin eða svo.
Leiðin er um 16 km. og tekur um 4-6 tíma í göngu.

Sandakravegur liggur nú, líkt og Skógfellavegurinn, að hluta undir nýrunnu hrauni, eða allt að landamerkjum Voga hjá „Stóra steininum við Gömlu götuna“. Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aðeins fálega varðaður. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að hann hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það aðallega heimilisfólkið í Ísólfsskála og gestir þess sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni.

Skógfellavegur – leiðarlýsing frá 2020

Skógfellavegur

Skógfellavegur – hnitsetning.

Gengið var um Skógfellaveg frá Vogum til Grindavíkur. Þessi gamla þjóðleið milli byggðalaganna var einnig nefnd Vogavegur. Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, sem hann liggur framhjá að austanverðu, Litla- og Stóra Skógfelli. Þau eru við götuna um miðja vegu til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur. Sumir telja það þann hluta leiðar, sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra- Skógfelli, en þar eru vegamót. Aðrir telja Sandakraveginn hafa legið með Fagradalsfjalli með Görninni og Kastinu um Nauthólaflatir skammt vestan Dalsels og þaðan um sléttar sandflatir niður í Mosa um Grindavíkurgjá og á Skógfellaveginn skammt ofan við Brandsgjá. Þannig er leiðin sýnd á kortum eftir aldamótin 1900.
Gangan inn á Skjógfellaveginn hófst við skilti skammt ofan Reykjanesbrautar, skammt austan við Háabjalla. Bílastæði eru skammt austan við skiltið. Gatan er nokkuð óljós framan af en úr því rætist fljótlega. Leiðin hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhópi á Suðurnesjum.

Skógfellavegur

Skógfellav. – hnitsetning.

Skammt sunnan við Reykjanesbrautina er gengið fram á sprungu sem heitir Hrafnagjá. Þarna við Skógfellaveginn lætur hún lítið yfir sér en þegar austar dregur er hún mjög falleg og tilkomumikil og þar er gjábarmurinn hæstur og snýr á móti suðri. Í gjárveggnum er hrafnslaupyr. Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Stóru-Vatnsleysu. Þar í er svonefnt Magnúsarsæti með áletrunum. Þegar götunni er fylgt áfram er komið að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og liggur gatan yfir austurhluta þess. Skammt austan götunnar, áður en komið er upp á bjallann, eru litlar seltóftir, Nýjasel, undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni, auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til norðurs. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Þarna liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjaðri Skógfellahraunsins.
Áhugavert er að gera smá lykkju á leiðina austur með gjánni og skoða Pétursborg sem stendur á barmi Huldugjár. Fjárborgin stendur nokkurn spöl austan vegarins yfir gjána. Pétursborg er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904) en hann er sagður hafa hlaðið borgina.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða við Aragjá.

Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós á kafla en hefur verið stikuð en gatan er skýrari þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjábarminum. Þegar líður á verður gatan greinilegri og næsta gjá á leiðinni sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar er varða sem heitir Aragjárvarða en gjáin þarna við vörðuna heitir Brandsgjá.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – „Stóri (landamerkja)steinninn við Gömlu götuna“.

Eftirfarandi er frásögn um atvik sem henti á þessum stað: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála (1862-1955) á leið heim úr Hafnarfirði og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn og ætlaði síðan inn á Sandakraveginn og niður að Ísólfsskála. Veður versnaði er leið á daginn og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan hestinum og þeir hrösuðu ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt hestana utan við klifið og svo fór að bæði hrossin þurfti að aflífa á staðnum. Síðan heitir þarna Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og var á Keflavíkurspítala í nokkra mánuði eftir slysið.

Landamerki

Leiðrétt landamerki Voga og Grindavíkur m.v. landamerkjalýsingu.

Þegar komið er upp fyrir Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.
Á hægri hönd eru Krókar, hraunhólar með kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegna er erfitt að greina hana frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur, þakinn mosa, og heitir sá Mosdalir eða Mosadalir. Við austurrætur Litla-Skógfells þarf að klöngrast yfir smá haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið viði vaxið endur fyrir löngu. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við.
SkógfellavegurFrá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mosagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hesthófa.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – Litla-Skógfell framundan.

Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól. Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna yfir er fallegur, djúpmarkaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæðin og er stutt ganga frá fellinu yfir í gígana og þaðan yfir á Grindavíkurveginn. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgígum, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gatan er slétt og sendin á kafla. Heitir þar Sprengisandur. Þegar komið er framhjá Hagafelli, þar sem í eru Gálgaklettar, að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spöl neðar greinst leiðin til „allra átta” um gamalgróið hraun niður til bæja. Í Gálgaklettum eru þeir þjófar sagðir hengdir, sem handamaðir voru á Baðsvöllum, en höfðu hafst við í Þjófgjá í Þorbjarnarfelli og herjað á Grindvíkinga.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Skógfellavegur

Útsýni af Skógfellavegi að Stóra-Skógfelli, Sýlingarfelli og Þorbirni.