Færslur

Hermann

Í Mbl þann 5. nóvember árið 1991 mátti lesa eftirfarandi frétt undir fyrirsögninni “Kindakjöt tekið úr innsigluðum gámi í Grindavík“:

grindviskir fjarbaendur-991Kindaskrokkar sem voru innsiglaðir í frystigámi í Grindavík var stolið sl. laugardag. Skrokkarnir voru settir í frystigám eftir að slátrun var stöðvuð í iðnaðarhúsnæði í lok september.
Skrokkarnir hafa verið í frystigámi meðan beðið var úrlausnar hvað ætti að gera við þá. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja var búin að kveða upp úr með að kjötið skyldi afhent eigendum en yfirdýralæknir kærði þann úrskurð til heilbrigðisráðuneytis sem leitaði eftir umsögn Hollustuverndar og síðan var að lokum kveðið upp úr með að kjötinu skyldi fargað. Staðið hefur á fullnustu úrskurðarins og kjötið verið í frystigámi síðan til að verja það skemmdum.
Lögreglunni í Grindavík barst síðan tilkynning á laugardagskvöld að kjötið væri farið úr gáminum og kom þá í ljós að búið var að rjúfa innsiglið og kjötið, 125 skrokkar, var allt á bak og burt. Að sögn lögreglunnar er málið í rannsókn og verst hún allra frétta af því. Ekki er vitað hver eða hverjir stóðu að verknaðinum. Það er litið mjög alvarlega á það að rjúfa innsigli og það í sjálfu sér varðar við hegningarlög.”

Kjöthvarið

Hermann: “Við bara bárum kjötið yfir í bílinn”. Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, hlustar.

Í kjölfarið hófst umfangsmikil aðgerð og síðan rannsókn lögreglunnar í Keflavík, yfirheyrslur og leitir undir háværri fjölmiðlaumfjöllun – án árangurs.

Nú, tæplega 20 árum síðar hefur einn þátttakandanna, Hermann Ólafsson, upplýst rannsóknarfólk FERLIRs um málsatvik – þ.e. hvað raunverulega gerðist, í grófum dráttum. Öðrum nöfnum er haldið leyndum enn um sinn.

Kjöthvarfið

Kjöthvarfið – myndin er úr eftirlitsmyndavél.

“Þetta er viðurkenning á gömlu “glæpamáli”, upplýsti Hermann.  “Magnús heilbrigði frá heilbrigðiseftirlitinu krafðist þess að lögreglan innsiglaði [slátur]húsið. Tveimur eða þremur dögum seinna kröfðumst við að fá að setja kjötið í frystigám til að koma í veg fyrir að það eyðilegðist. Menn voru ekki alveg klárir á hvort urða ætti kjötið á þeirri stundu. Skömmu seinna kom maður á bíl frá Sorpeyðingustöðinni með nýjan gám og sagðist eiga að sækja kjötið. Við höfðum samband við lögregluna, sem sagði við manninn að enn væri ekki búið að klára málið. Við það hvarf hann á braut.

Um kvöldið fórum við þangað niðureftir og tökum úr sambandi ljósið stóra á planinu, höfðum fengið lánaðan bílinn hjá J, Econolinerinn stóra, bökkuðum honum inn á gólf, söguðum innsiglið hvasst við gáminn, bárum allt kjötið yfir í bílinn og gerðum allt klárt; lokuðum gámnum, límdum lásinn með tonnataki og límdum innsiglið á aftur.

Kjöthvarfið

Hermann: “Þetta var svo spennandi”.

R var með okkur á staðnum, en við D fórum tveir á bílnum. Ferðinni var heitið út í Garð. Þar átti kjötið að fara í gám hjá H, sem átti von á okkur.
Ég gleymi aldrei þeirri stundu er ég opnaði hurðina á húsinu með fjarstýringunni, bíllinn var svo þungur. Hann rétt hafði þetta. Ég man þetta alltaf, eins og það hefði gerst í gær.

Kjöthvarfið

Hermann: “Lögreglan yfirheyrði okkur, án árangurs”.

Við keyrðum Reykjanesleiðina úteftir. Þegar við komum út í Víkur var spennan orðin svo mikil að ég sagði við D: “Finnst þér þetta ekki gaman?”. “Jú”, svaraði D og hló.
Svo fórum við út í Garð. H átti að vera úti í Sandgerði, á afleggjaranum þar, og taka á móti okkur, en hann miskildi þetta eitthvað. Hann var a.m.k. ekki þar. Við komum kjötinu fyrir í gámnum í garði og keyrðum hina leiðina til baka. Þá fundum við H sofandi í aftursætinu á bílnum sínum þar. Ég varð svo reiður að ég stökk út og sló í þak bílsins til að vekja hann. Honum dauðbrá.

Kjöthvarfið

Hermann: “Það var búið að undirbúa þetta.”

Búið var undirbúa þetta þannig að einn okkar færi til Hveragerðis og hringdi í lögregluna úr tíkallasíma klukkan átta kvöldið eftir og tilkynnti að verið væri að stela kjötinu úr gámnum. Síðan átti hann einfaldlega að leggja á.  Í millitíðinni átti annar maður að fara upp að húsinu, þar sem gámurinn var, í myrkrinu, klippa á innsiglið, opna gáminn upp á gátt og láta sig hverfa að því búnu.

lögregla

Lögreglumenn að störfum.

Innan skamms kom svo lögreglan á staðinn, og það með ekki litlum látum. Gámurinn stóð opinn og tímafrek rannsóknin hófst.
Margir voru yfirheyrðir vegna málsins. Og auðvitað var þeirra á meðal rokið beint til mín. Allt gerðist þetta mjög hratt. 
Í framhaldinu byrjaði yfirheyrslan. Ég settist niður og lögreglumaðurinn byrjaði að vélrita án þess að spyrja mig um nokkurn skapan hlut. Ég var búinn að undirbúa mig, en nú þyrmdi yfir mig, fór að ókyrrast – vissi ekki á hverju ég átti von. Þögnin og óvissan voru yfirþyrmandi. 

Kjöthvarfið

Hermann: “Lögreglan spurði mig hvort ég ætti þátt, en ég svaraði neitandi.”

“Þú hefur ekkert komið að þessu innbroti?”, spurði lögreglumaðurinn allt í einu.
“Nei, nei”, svaraði ég – og virtist hissa. Ég hlít að hafa verið bara nokkuð sannfærandi – og bætti við: “Þetta er svo sem búið og gert; við höfum slátrað heima hingað til eins og um alllanga tíð”. 

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Þá segir hann: “Já, ég skil ekki þessi fíflalæti!”
Við þetta viðhorf létti mér óumræðanlega. Eftirleikurinn varð því tiltölulega auðveldur.
Svona var þetta. Fáir hafa hingað til vitað hvernig þetta gekk í raun og veru fyrir sig. Margar getgátur hafa hafa verið á lofti, en ónákvæmar. “Dularfulla kjöthvarfið”, átti sér stað, sem fyrr sagði, fyrirr- u.þ.b. 32 árum síðan.”

Til nánari upplýsinga um aðdraganda framangreinds mál er rétt að rifja upp tvær aðrar blaðafregnir. Sú fyrri birtist í DV þann 27. september 1991 undir fyrirsögninni „Heimaslátrun stöðvuð í Grindavík”:

Vildum spara okkur akstur til Selfoss – segir Hermann Ólafsson fjáreigandi „Við erum búnir að eiga kindur síðan við vorum smábörn og heimaslátrun hefur viðgengist síðan sögur hófust.

Kjöthvarfið

Hermann á tali við fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjón í Grindavík.

Ef við hefðum slátrað heima í fjárhúsunum hefði enginn sagt neitt en svo eru þessi læti þegar við ætlum að fara rétt að hlutunum,” sagði Hermann Ólafsson, einn fjáreigendanna í Grindavík sem slátraði fé sínu sjálfur í gær.

Þrettán „hobbíbændur” tóku sig saman og slátruðu 120 kindum í nýuppgerðu iðnaðarhúsnæði í Grindavík í gær. Þegar upp komst lét heilbrigðisfulltrúi innsigla húsnæðið. „Það var mættur bíll frá sorpeyðingarstöðinni og það átti að henda öllu kjötinu en lögreglan stöðvaði það sem betur fer og lögreglustjóri tekur væntanlega ákvörðun um það í dag hvað gert verður við kjötið.”
Hhrutar-991ermann sagði þá ekki hafa verið að fela neitt og að það hefði alltaf verið meiningin að nota allt kjötið til einkaneyslu. Þeir hefðu bara viljað spara sér 200 kílómetra akstur til Selfoss.”

Í seinni fréttinni, sem birtist í Tímanum 2. nóv. 1991 undir fyrirsögninni “Hverjir mega, hverjir ekki? segir:
“Í haust voru „hobbýbændur” í Grindavík stöðvaðir af heilbrigðisyfirvöldum við heimaslátrun í þéttbýli. Kjötið var gert upptækt, en endanleg niðurstaða málsins hefur ekki fengist ennþá. Hvort sem menn vilja tala um það í hálfum hljóðum eða upphátt, er það staðreynd að heimaslátrun er algeng, bæði til einkanota, gjafa og sölu. Þetta á við um flestar tegundir kjöts, en að öllum líkindum er mest um að stórgripum sé slátrað utan sláturhúsa. En hvaða lög og reglugerðir gilda um heimaslátrun?

Greindavíkurréttir

Hermann í Stakkavík og Birgir á Hópi í Grindavíkurréttum.

Í lögum no. 30 frá 1966 um meðferð, skoðun og mat sláturafurða segir að heimaslátrun sé bönnuð öðru vísi en til einkanota. Í heilbrigðisreglugerð no. 149 frá síðasta ári segir hins vegar að í kaupstöðum og kauptúnum sé óheimilt að slátra búfé utan sláturhúsa, enda þótt afurðir séu ætlaðar til heimilisnota eingöngu. öll heimaslátrun utan kaupstaða og kauptúna sé óheimil; ábúandi lögbýlis í strjálbýli megi þó slátra hæfilegum fjölda af eigin búfé heima á lögbýlinu, sé það eingöngu ætlað til heimilisnota á lögbýlinu. Með öllu sé óheimilt að selja slíkt kjöt eða á annan hátt dreifa því frá lögbýlinu, til dæmis til gjafa, vinnslu og frystingar.”

Þar höfum við það. Kannski var þetta bara aldrei neitt mál? Hverjir áttu kjötið? Hver var að stela frá hverjum? Kannski var bara engu stolið þegar upp var staðið!?…

Hermann upplýsti síðar í viðtali við einn FERLIRsfélagann: “Að fenginni reynslu skil ég ekki hvers vegna við gerðum ekki þá kröfu á hendur ríkinu að það bætti okkur skaðann. Kjötið var jú í vörslu þess þegar það hvarf!?…

Heimild:
-DV, 27. september 1991, bls. 40.
-DV 30. september 1991, bls. 48.
-Morgunblaðið 1. okt. 1991, bls. 7.
-Tíminn 2. nóv. 1991, bls. 1.
-Mbl. 5. nóv. 1991.
-Uppljóstrari FERLIRs, Hermann Ólafsson í Stakkavík.

Thorkotlustadahverfi-pan-991

 

Drumbdalaleið

 Gengið var frá Bala á Vigdísarvöllum inn á Drumbdalastíg (-veg/-leið) er liggur yfir sunnanverðan Sveifluháls og áleiðis að Krýsuvíkurbæjunum undir Bæjarfelli.
DrumbdalastígurTil baka var ætlunin að ganga að hinum fornu bæjartóftum Gestsstaða og um Hettustíg að Vigdísarvöllum, en vegna óvæntra uppgötvanna á leiðinni var ákveðið að breyta út af upphaflegri leiðardagskrá. Sú ákvörðun leiddi til enn óvæntari uppgötvana, sem lesa má um hér á eftir.

Drumbdalastígur, er liggur millum Stóra- og Litla-Drumbs, hefur einnig verið nefndur Sveifla sbr. kort, sem gefið var út af Bókmenntafélaginu 1831, og auk þess, skv. korti Ólafs Ólavíusar (1775), þar sem hálsinn er nefndur  Austari Móhálsar, er leiðin nefnd Móhálsastígur. Þarna var gamla kirkjugatan milli Vigdísarvalla og Krýsuvíkur. Í raun er um svolítinn misskilning að ræða er stafar að því að þeir, sem færðu upplýsingarnar á blað, höfðu ekki gengið leiðirnar sjálfir; Sveifla er sunnan undir Hettur og um hana liggur gömul þjóðleið upp frá Gestsstöðum í Krýsuvík. Við suðaustanverða Hettu eru gatnamót, annars vegar götu er liggur áfram til norðurs að Ketilsstíg og hins vegar götu er liggur til vesturs að Vigdísarvöllum, svonefndur Hettustígur.
Tóftir Vigdísarvalla - Mælifell fjærir Nú var ætlunin að sannreyna hinar ýmsu “tilgátur” um fyrrnefndan Drumbdalastíg. Gömul kort, t.d. kortið frá 1831, sýnir stíginn liggja norðan Drumbs, en nýrri kort, s.s. frá Hafnarfjarðarbæ (gildandi aðalskipulag) og Reykjanesfólkvangi, sýna stíginn liggja sunnan við Drumb (sem reyndar er algerlega út úr kú). Líkleg ástæða er sú að Drumbur hefur verið (við skrifborðið) yfirfærður á litla bróður hans norðanverðan. Þetta átti eftir að skýrast betur á leiðinni framundan. Í fyrrnefnda tilvikinu höfðu heimamenn (presturinn) greinilega lagt út leiðina, en í því síðara hefur gatan verið dregin upp eftir kortagrunni við skrifborð á bæjarskrifstofunum (eða annars staðar).
Þegar lagt var af stað frá tóftum Bala var ákveðið að ganga yfir tóftum Vigdísarvalla og hefja gönguna þar. Þrjú nýbýli risu í Krýsuvíkurlandi á 19. öldinni, öll í fyrri seljalöndum. Árið 1830 reis nýbýli á Vigdísarvöllum, kennt við þá. Í Jarðartali J. Johnsen 1847 eru taldar sjö hjáleigur með Krýsuvík og eru Vigdísarvellir og Bali meðal þeirra. Hvorug þessara hjáleiga er nefnd í Jarðarbók Árna og Páls. Bali lá syðst [vestast] á Vigdísarvöllum.
DrumbdalastígurÍ nýrri jarðarbók fyrir Ísland frá 1848 er getið um átta hjáleiga með Krýsuvík og hafa Fitjar bæst við. Fitjar voru vestast á Selöldu. Enn má finna rústir þessara kotbæja, enda eru þeir merktir inn á kort. Fitjar og Bali virðast hafa lagst í eyði eftir skamma hríð, en Vigdísarvellir héldust í byggð fram yfir aldamót, þrátt fyrir endurtekna skaða vegna jarðskjálfta. Ólíklegt er að Krýsuvíkurbændur hafi leigt úr selstöður eftir að þessi býli byggðust.”
Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík frá árinu 2001 segir að Vigdísarvellir hafi verið hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selsstaða frá Þórkötlustöðum. “Selstöðu brúkar jörðin [Þórkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar em heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sjé ljéð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þórkötlustaðalandi. Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830, en var áður selstaða. Var í eyði um 1880, en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 [Saga Grindavíkur]. Baðstofan hrundi í jarðskjálfta 28. eða 29. janúar 1905 og stórskemmdust þá öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Tóftir Bala virðast nú mest áberandi þarna undir Bæjarfelli (Grindvíkingar nefna það Bæjarháls sbr. merkingar á kortum). Ástæðan er fyrst og fremst sú að við bæinn sunnanverðan var hlaðin fráfærurétt, sem notuð var talsvert eftir að hann fór í eyði.

Drykkjarsteinn efst í Drumbdal.

Gengið var til austurs yfir að tóftum Vigdísarvallabæjarins. Þegar tóftirnar eru skoðaðar má vel sjá hvernig bæjarskipanin hefur verið; Þrjár burstir hafa verið á bænum mót suðri, en sú austasta verið án dyra. Þar var baðstofa og innan af henni afrými bændahjónana. Vestar var eldhús, innst, og framrými innan við aðalinnganginn. Vestan hans var skemma og vestast gerði með fjósi nyrst, fast við bæinn. Hugsanlega hefur verið innangengt úr bænum í fjósið. Rýmið gæti hafa hýst 3-4 kýr. Austar er matjurtargarður, sem eflaust hefur verið brúkaður eftir að búskapur lagðist af á Vigdísarvöllum.

Bali

Bali.

Aftan við bæinn eru tóftir, líklega sauðakofi. Garður umlykur heimatúnið, frá austanverðri fjallhlíð Bæjarfells (mót suðri) til austanverðs Núphlíðarhálsar. Annars er áhugavert að skoða fyrrnefnt kort Björns Gunnlaugssonar (Bókmenntafélagsins) frá árinu 1831 því þar nefndir hann hálsinn Vestari Móháls og Seifluháls Austari Móháls, þ.e. norðurhluta hans.

Drumbur

Svo virðist sem garður hafi verið innan heimatúngarðsins, en ljóst er að þar hefur verið gamall lækjarfarvegur. Lækurinn sá gerir jafnan vart við sig eftir miklar rigningar. Þótt lítill virðist vera öllu jöfnu hefur honum tekist að skapa Vigdísarvellina alla um árþúsundir, þegjandi og hljóðarlaust. Lækurinn, ónafngreindur, hefur hlaupið þarna um víða völlu, allt eftir aðstæðum á hverjum tíma. Honum hefur tekist að sigrast á þeim öllum, enda er hann um þessar mundir að undirbyggja framburð sinn í Ögmundarhrauni, sunnan Ísólfskálavegar, og gengur bara býsna vel. Ef af líkum lætur mun honum takast, smám saman, þótt lítill sé, að bera undir sig leir og jarðveg úr vesturhlíðum Sveifluhálsar; fylla upp í hraun og sprungur, allt þangað til hann mun renna fram af og blandast samdropum sínum í Atlantshafinu neðan Miðreka. Annars er “lækurinn” tveir slíkir. Annar rennur um Vigdísarvelli og hinn frá Hettuhlíðum um Bleikingsdal. Lækirnir sameinast síðan á Klettavöllum (Suðurvöllum), nokkru sunnar. Þaðan rennur hann óheftur að “endalokunum” (sunnan Ísólfsskálavegar).
Vegna mísvísandi upplýsinga um ætlaða legu Drumbdalastígs var ákveðið að láta þær allar lönd og leið, en byrja þess í stað á að nýju á upphafsstað.
Gata liggur frá framangreindum bæjarstæðum til suðausturs, yfir þýflendi, upp hlíð og áfram inn gróðursælan dal. Efst og fremst á brúnum hans er gatan djúpt mörkuð í móbergshelluna.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur um Drumbdal. Vigdísarvellir framundan.

Dalurinn innan af, hömrum girtur að austanverðu, hefur ekkert nafn. Einn þátttakendanna kom með þá tilgátu að þarna gæti verið um hinn eiginlega “Litla-Hamradal” að ræða. Hálfnafni hans, Stóri-Hamradalur, væri mun framar í austanverðum “Vestari Móhálsi”, en það dalverpi, sem nú nýtur nafngiftarinnar “Litli-Hamradalur” gæti í raun ekki státað af neinum hömrum. Sá dalur hefði stundum gengið undir nafninu Görnin. Samkvæmt upplýsingum Lofts Jónssonar í Grindavík nær görnin frá Stóra-Hamradal og að brún framan í Núpshlíð. Bílvegurinn liggur um hluta Garnarinnar. Til hennar hefur jafnan verið vísað í landamerkjalýsingum Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Segja verður eins og er að þessi fallegi dalur, Stóri-hamradalur, hömrum girtur að austanverðu, hefur án efa verðskuldað nafngift fyrrum, enda lá kirkjugatan milli Vigdísarvalla og Krýsuvíkur um hann í u.þ.b. hálfa öld.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Sunnan við “Litla-Hamradal” beygir gatan til austurs, inn í sunnanverðan Bleikingsdal, þvert yfir hann og á ská upp hann að austanverðu. Ofan hans sést gatan vel, en síður þar sem hún beygir til norðausturs enn ofar. Þegar hlíðin þar var skágengin var komið upp í Drumbsdal. Efst á brúnum voru tröllkatlar; hin ákjósanlegustu drykkjarsteinar, fullir af vatni. Frá brúninni sást bæði heim að Vigdísarvöllum og yfir að Bæjarfelli framundan. Stóri-Drumbur ber þar hæst við á hægri hönd og Litli-Drumbur á þá vinstri. Millum eru tvær smávaxnir grágrýtishólar.

Gullhamrar

Gullhamrar.

Drumbdalastígur liggur niður Sveifluhálsinn austanverðan, að sunnanverðu. Þar beygir hann áleiðis niður að Einbúa uns komið er á gömlu þjóðleiðina millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Skammt norðar á sunnanverðum hálsinum er gerði undir háum móbergsklettum; Gullhamrar. Vörðubrot má enn sjá við götuna, sem og hlaðna brú yfir moldarflag. Gatan kemur að Krýsuvíkurkirkju við réttina sunnnan í Bæjarfelli.
Hverfum nú svolítið til fyrri tíðar. Eftirfarandi er frásögn Gísla Sigurðssonar um leiðir í Krýsuvík þar sem hann lýsir Drumbdalastígnum og leiðum að honum frá Krýsuvík…
Drumbdalastígur að Vigdísarvöllum“Við höfum verið við guðsþjónustu í Krýsuvíkurkirkju. Við höfum notið góðgerða á heimili kirkjuhaldarans. Við kveðjum þá alla með virktum. Komnir fram á hlað ráðum við ráðum okkar, því um tvær leiðir er um að ræða. Við tökum þá sem liggur austur úr túni, enda verðum við samferða Norðurkotsbóndanum. Við förum ofan traðanna og yfir Dalinn í Norðurkotstraðir og eftir þeim. Norðurkotsbóndinn fer heim til sín, en við höldum austur og innar með Bæjarfelli. Erum áður en langt um líður komin að garði er liggur ofan úr fellinu og út á Rauðhólsmýrina, er garður þessi átti að liggja norðan og ofan við Litla-Nýjabæ, en verkinu lauk þarna úti í mýrinni. Þegar komið er alveg norður fyrir fellið verður fyrir okkur steinn mikill og n okkrar rústir kringum hann. Hér er Hafliðastekkur, en hvenær sá Hafliði bjó hér og hafði hér stekk er ekki að vita. Héðan stefnum við svo norður og upp mýrina austan við Skugga og þar upp á hálsinn.

Hús í selstöðunni

Við erum þá aftur stödd heima á hlaði í Krýsuvík. Og nú höldum við vestur um Dal í túninu og þar vestur úr Vesturtúngarðshliði og erum áður en varir komin á Alfaraleiðina gömlu, upp á Bæjarhálsi og höldum eins og leið liggur vestur yfir melana að Svartakletti, vestur frá honum norðan við Einbúa og þar upp á Hálsinn og erum þá komin að Stóra-Drumb.
Höldum svo norður um ofanverða Drumbsdali og yfir hálsinn hjá Litla-Drumb. Leið þessi nefnist Drumbsdalastígur. Þegar þangað kemur sveigir gatan nokkuð til norð-austurs og niður að læk. Þá er vert að staldra við. Ég var svo heppinn fyrir nokkru, að fá í hendurnar kort, sem út var gefið 1831 af Bókmenntafélaginu, eins og þar stendur “af hinu íslenska bókmenntafélagi”. Þegar ég leit á þetta kort og tók að lesa örnefni og fleira, hvað er það þá sem ég rekst á? Ekkert minna en að leiðin sem við erum að fara um, þegar kemur norður fyrir Litla-Drumb. Hún nefnist S V E I F L A: Og þá höfum við fundið hvers vegna Austurhálsinn er kenndur við, en eins og þið vitið nefnist hann SVEIFLUHÁLS: Vil ég einnig minna á að hálsarnir hér eru á korti Ólafs Ólavíusar (1775), kallaðir Móhálsar og leiðin hér, kirkjugatan frá Vigdísarvöllum er þar nefnd MÓHÁLSASTÍGUR. Einnig eru hálsarnir nefndir Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) eins og áður greinir.
Stekkur í Við höldum svo niður af hálsinum að Kringlumýrarlæk og austur með honum að vaði yfir hann. En áður en við höldum áfram er ómaksins vert að koma við þar sem lækurinn fellur vestur af og niður. Þar fellur hann um móbergsklappir. Hefur hann, þó lítill sé, grafið gil í móbergið og skilið þar eftir sig þvílíkan skúlptúr að aðdáunarvert er. Brestur mig orð til að lýsa hvílíka fegurð þar er að finna. En sjón er sögu ríkari og komið þið með með og skoðið listaverk þessa litla lækjar.
Við höldum svo niður af Hálsinum í dalinn milli Móhálsanna og yfir að Vigdísarvöllum. Það er af Vigdísarvöllum að segja, að um aldir var þar selstöð frá Þorkötlustöðum í Grindavík. Var selstaðan látin í té fyrir skipsuppsátur á Þorkötlustöðum. 1834 segja kirkjubækur fyrst frá því, að þar sé ábúandi, leiguliði frá Krýsuvík. Bali aftur á móti er ekki byggður fyrr en 1845 og er í byggð fram til 1870. En Vigdísarvellir voru í byggð fram um aldamótin síðustu. Um æði margar gönguleiðir er að ræða frá Vigdísarvöllum.”
Eins og segir fyrr í þessum texta var ákveðið að ganga til baka eftir mögulegum Drumbdalastíg. Af fyrri heimildum að dæma virtist hann hafa legið um “víða völlu”.
Til að gera langa göngu stutta kom í ljós að Drumbdalastígur liggur svo til beinustu leið milli Vigdísarvallabæjanna og Krýsuvíkur; allnokkuð fjarri hinum “opinberu leiðarmerkingum”.
Tóftir BalaÁ ferðalaginu uppgötvuðust óvæntar tóftir; að öllum líkindum ummerki eftir Þórkötlustaðaselið, allt til 1830. Um var að ræða hlaðinn stekk, hús og kví. Ummerkin, hver af öðrum, staðfestu grunsemdirnar. Selstaðan er staðsett á einstaklega skjólsælum stað og þarna hefur lækurinn líklega runnið fyrrum. Vigdísarvellirnir sjálfir hafa verið hinir ágætustu bithagar og með tilvist selsins er komin skýring á hlöðnu fjárskjóli þarna skammt frá. Bleikingsvellirnir suðaustanverðir hafa auk þess verið einstaklega góðir bithagar, auk þess sem svæðið allt hefur verið hið ákjósanlegast fyrir smalann.

Reykjanesskaginn býður upp á ótrúlega möguleika, ekki einungis í jarðvarmaorkuframleiðslu til skammrar framtíðar heldur og til nýtingarmöguleika ósnotinnar náttúru til langrar framtíðar.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir (Bali). Horft af Bæjarhálsi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Hingað til hafa ferðamenn, sem hingað koma, einkum verið að sækjast eftir ósnortinni náttúru. Það eitt gefur tilefni til að ætla hversu eftirsóknarverð og “dýrmæt” ósnortin náttúra mun verða eftir s.s. eina öld – þ.e. þegar barnabörn okkar munu vera að vaxa úr grasi og þurfa á atvinnutækifærum að halda.
Um þessar mundir eru gróðaöflin því miður allsráðandi. Takmarkið er að gera sér mat úr öllu mögulegu, kaupa á kostakjörum og selja með margföldum gróða. Hvernig og á hvers kostnað sá gróði er fengin virðist ekki skipta neinu máli – enda fáir að velta slíku fyrir sér.
Nauðsynlegt er að horfa svolítið fram á veginn, yfir næstu hæðir og hálsa – jafnvel til langrar framtíðar!
Frábært veður. Gangan tók
4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:

-Handrit Gísla Sigurðssonar – Landslag og leiðir – Útvarpið – Gönguleiðir út frá Krýsuvík.
-hafnarfjordur.is
-reykjanesfolkvangur.is
-kort – Björn Gunnlaugasson – 1931.
-Lýsing – Olafur Olavius.
-Orri Vésteinsson.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Eldgos við Sundhnúk ofan Grindavíkur 18. des. 2023.

Eldgos hófst við Sundhnúk í Sundhnúkaröðinni ofan Grindavíkur klukkan 22:17 þann 18. desember 2023.

Eldgos

Sundhnúkur – eldgos.

Undanfari gossins var stutt skjálftahrina við Sundhnjúkagíga sem hófst skyndilega um kvöldið, klukkan 21:00. Almannavarnir lýstu þegar yfir neyðarástandi. Grindavíkursvæðið hafði verið rýmt.
Á öðrum tímanum var áætluð lengd sprungunnar um 4 km. Hún liggur nokkurn veginn á gamalli sprungu eldra hrauns skammt austan Sundhnúkagígaraðarinnar. Suðurendi hennar var í u.þ.b. 3 km ofan Grindavíkur.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Hraunið úr Sundhnúk og gígaröðinni norðan hans er talið vera yngra en 3000 ára og eldra en 2000 ára. Þá myndaðist Sundhnúkahraun. Eldra hraunið, sem myndaði Dalahraun, kom upp í gígaröðnni skammt austar, og nú gýs á, er talið vera yngra en 8000 ára og eldra en 3000 ára.
Ljóst er að draga muni hratt úr virkni á svo langri sprungu sem raunin er og virknin færast að mestu um miðbik hennar millum Sýlingafells og Stóra-Skógfells. Líklegt er að gosið verði lítið og skammvinnt.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Fornleifar hafa farið undir nýja hraunið þar sem Skógfella- og Sandakravegur lágu um svæðið millum Grindavíkur og Voga annars vegar og Ísólfsskála hins vegar, sjá m.a. HÉR. Fornar götur hafa ekki hingað til verið í fyrirrúmi við skráningu fornleifa þrátt fyrir ákvæði þess efnis í fyrrum Þjóðminjalögum og núverandi Minjalögum.

Reukjanesskaginn

Reykjaneskagi – vörðukort.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá lýsingar, fróðleik, frásagnir, myndir og uppdrætti af öllum fornum þjóðleiðum á Reykjanesskagnum. Þú þarft einungis að skrifa áhugaefnið í leitina efst á vefsíðunni…

Sjá auk þess myndir af fyrsta degi eldgossins HÉR. Einnig má sjá myndir frá eldgosum við Litla-Hrút, í Geldingadölum og í Meradal.

Eldgos

Sundhnúkur – eldgos.

Leiðarendi

Leiðarendi er sá hellir á Reykjanesskaganum, sem einna styst er að frá þjóðvegi – og jafnframt einn sá margbreytilegasti á svæðinu, enda hefur umferð um hann síðustu misserin verið mikil – og fer vaxandi. Hellirinn er, líkt og aðrir hrauhellar á Íslandi, í einni af hinum fjölmörgu hraunbreiðum landsins er geyma steingerða ævintýraheima þar sem glóandi hraunelvur hafa runnið neðanjarðar og skilið eftir sig ranghala og hvelfingar. Í hraunhellunum er að finna einstakar jarðmyndanir, – dropasteina, hraunspena, straumfægða veggi og litríkar útfellingar.
Leiðarendi - opAllt þetta hefur Leiðarendi í Stórabollahrauni enn upp á að bjóða, nú 16 árum eftir að hann var fyrst kannaður. Hellirinn er 750 m langur, greiðfær og aðgengilegur, aðeins 36 km frá Grindavík og að honum er einungis 150 m. gangur, í mosagrónu hrauni, út frá við Bláfjallavegi.
Snjór þakti jörð, svo rækilega að hann hafði slétttað sérhverja misfellu í hrauninu. Það tók því nokkra stund að moka sig niður og inn eftir hellisloftinu innan við meginopið. Að því búnu varð eftirleikurinn auðveldur. Hátt í eitt hundrað þátttakendur skriðu inn eftir snjórásinni og niður í hellinn.
Stórabollahraunið er u.þ.b. 2000 ára gamall og hafa dropsteinar og aðrar myndanir lítið breyst allan þann tíma. Ástæða er enn og aftur til að brýna sérstaklega fyrir þátttakendum að raska engu og taka ekkert nema ljósmyndir. Yfir hrauninu er m.a. Tvíbollahraun, sem rann um 950 e.Kr. Auðvelt er að sjá skilin því síðarnefnda hraunið er apalhraun á þessu svæði, en Stórabollahraun rann lengstum sem helluhraun, líkt og Hellnahraunin eldra og yngra, sem einnig áttu för um þessar slóðir á mismunandi tímum. Stórbollahraunið hefur runnið í Leiðarenda á tveimur stöðum. Hellnahraun yngra umlykur m.a. Skúlatún, þýfkenndan grasigróin hól í miðju hrauninu. Það kemur eins og

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum, var mikið og fór víða, enda bæði mjög slétt og þunnt.
Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sömu goshrinu. Nákvæmasta tímasetning á Yngra Hellnahrauninu (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) er sú að það hafi runnið á árunum 938-983 (Haukur, Sigmundur og Árný – 1991).
Eldra-Hellnahraunið mun hafa myndað stíflu fyrir dal þann er Ástjörn dvelur nú í sem og Hvaleyrarvatn. Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra- Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra – Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum. (Sjá meira undir  Fróðleikur). (Reyndir hraunamenn geta nú orðið lesið aldursmörkin, þ.e. út frá því hvaða hraun rann á á undan hinu – með ákveðin viðmið að leiðarljósi).
og áfram inn undir þaki hellisrásarinnar...Í stórvirki Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings, “Íslenskir hellar”, bls. 209, er m.a. fjallað um Leiðarenda. Þar segir t.a.m.: ” Stóri-Bolli er austastur bollanna við Grindasköðr og þeirra stærstur eins og nafnið bendir til. Stóri-Bolli er um 150 metrar í þvermál og opinn til noðurs en gígbarmarnir til beggja hliða eru um 50 metra háir. Hraunið hefur fallið til norðurs og þekur svæðið norður að Undirhlíðum og Helgafelli en er mjög hulið yngri hraunum. Erfitt er að áætla stærð hraunsins þar sem svo mikill hluti þess er hulinn yngri hraunum en það gæti þó verið allt að 20 ferkílómetrar að flatarmáli.”
Um Leiðarenda segir meistari Björn: “Leiðarendi er um 900 metra langur hellir og hin mesta draumaveröld. Hellirinn gengur til beggja átta út frá niðurfalli og tengjast leiðirnar þannig að hellirinn liggur í hring (eins og merkilegur uppdráttur í bókinni sýnir). Hellirinn kvíslast og hefur þak vestari rásarinnar brotnað niður. Nokkru neðan niðurfallsins sameinast kvíslarnar á ný og þaðan liggja mikil og falleg göng til norðurs. Það er mjög sérstakt að fara í hellaferð innúr niðurfalli og koma svo út klukustundum síðar hinum megin niðurfallsins. Hreint ævintýri fyrir þá sem eru að gera slíkt í fyrsta skipti.
Leidarendi-222Hellisgöngin eru víðast hvar lítt hrunin og hellirininn auðveldur yfirferðar þótt auðvitað þurfi aðeins að bogra á einstaka stað og klungrast á öðrum. Sérstaklega lækkar verulega til lofts nyrst í hellinum. Töluvert er um skraut, dropsteina, hraunstrá og storkuborð auk þess sem hraunið tekur á sig hinar ýmsu myndir. Á einum stað má til dæmis sjá fyrirbæri í lofti hellisins sem hellamenn kalla  “Ljósakrónuna” og svo mætti áfram telja. Þá er beinagrind af sauðkind innarlega í hellinum og má með ólíkindum telja hve langt kindin sú hefur ráfað inn dimman hellinn. Var hún e.tv. að forðast eitthvað?
Hellismunninn er skammt frá hraunjarðri Tvíbollahrauns sem raunar hefur runnið inn í Leiðarenda á tveimur stöðum syðst og vestast í hellinum enda liggur hann þar undir Tvíbollahraun. Tvíbollahraun rann á fyrstu árunum eftir landnám. Ef til vill kom kindin sú sem bar beinin í Leiðarenda til landsins með víkingaskipi. Og ef til vill gleymdi hún sér og lokaðist inni þegar Tvíbollahraun rann. 

Nafngiftin - kindin í botni Leiðarenda

Þegar svo ógnarheitur hraunkanturinn nálgaðist hljóp kindin ef til vill inn í kaldan hellinn til að forðast lætin og hitann og þar bar hún beinin. Atburðarrás þessi verður raunar að teljast harla ólíkleg en verður þó ekki afsönnuð fyrr en beinin verða aldursgreind. Fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar. Leiðarendi var kortlagður í desember 1992 og júlí 1993″.
Innst í syðsta hluta Leiðarenda er stór “hrauntjörn”. Þar lækkar hellirinn, en  hækka um leið því hrauntjörnin hefur brætt sig niður í undirstöðu(grann)bergið uns hluti hennar fann sér áframhald, sem varla verður rekjanlegt nema með mikilli fyrirhöfn. Það mætti þó vel reyna þegar betri tími gefst til.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Eitt af sérkennum Leiðarenda eru þunnar hraunflögur á kafla. Þær hafa fallið af veggjum og úr lofti. Þær gefa til kynna mismunandi hraunstrauma í gegnum rásina, hverja á fætur annarri. Má líkja þeim við endurteknar samfarir fullorðinnar hraunrásar við nýja strauma.
Ljósakrónan fyrrnefnda er í tengirás Leiðarenda við efri hellisrásina, sem flestir ættu að forðast. Komið hefur fyrir að þeir, sem þangað hafa fetað sporið og síðan haldið í gegnum hrun er rásin leiddi þá í gegnum, hafi ekki fundið leiðina til baka. Eftir hræðsluköst og formælingar hefur svolítil vonardagsskíma birst þeim úr annarri átt og þeir þá getað skriðið sér til lífs að jarðfallinu fyrrnefnda. Hins vegar má segja með sanni að einn heillegasti og fallegasti hluti Leiðarenda er í þessari rás, líkt og sjá má í bók Björns; “Íslenskir Hellar” (fæst í öllum betri bókabúðum og er sérhverjum hellaáhugamanni og öðrum leitandi bráðnauðsynleg leiðsögn).
Ljósakrónan í LeiðarendaVið frásögnina af sauðkindinni, sem Björn lýsir og varð tilefni nafngiftarinnar, má bæta að öllum líkindum hefur sú arma mær verið að leita skjóls vegna einhvers, t.d. snjóa eða náttúruhamfara. Hafa ber í huga að mörg dýr geta gengið fram og til baka um niðmyrkra ranghala án ljóss. Það hefur hellaleitar-hundurinn Brá t.a.m. sannað margsinnis. Það hefur því verið eitthvað annað en eðlilegheitin, sem varð sauðkindinni að aldurtila, s.s. eiturgufur hraunkvikunnar er lagðist yfir hraunrásina umrætt sinn. Ef svo hefur verið má ætla að hér á landi hafi verið urmull sauðfjár – og það fyrir aðkomu norrænna landnámsmanna hingað í kringum 874 +/-02.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Einhverjir hafa þá verið hér fyrir (sem flestum er reyndar orðið ljóst – nema kannski starfsfólki Þjóðminjasafnsins.) Ef til vill munu órækar minjar Skúlatúns og minjar í Húshólma /Óbrinnishólma í Ögmundarhrauni  hjálpa til að varpa ljósi á þá birtingarmynd?!
Taka verður undir með ákveðna og meðvitaða rödd Björns þar sem hann segir að; “fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar.”
Þótt Leiðarendi sé bæði aðgengilegur og áhugaverður þarf að gæta vel að því að skemma ekkert er getur haft þar varanlegt gildi fyrir komandi kynslóðir.
Frábært veður (að og frá hellinum). Ferðin tók 3 klst og 3 mín.
Leidarendi-223

Húshólmi

Gengið var um Húshólma og síðan frá Hólmasundi um Miðreka og yfir að Selatöngum. Í Ögmundarhrauni eru ein merkustu minjasvæði landsins og ætlunin að skoða a.m.k. tvö þeirra.
Auðvelt var að ganga niður mosavaxið Ögmundarhraun því mosinn var frosinn. Þegar komið var niður í Húshólma var stefnan hiklaust tekin að hinum fornu minjum vestan hans. Þar er talið að Krýsuvík hafi verið fyrra sinni.
Forn skáli í ÖgmundarhrauniBúseta í Krýsuvík undir Bæjarfelli, var frá 12. öld þegar talið er að bærinn hafi verið  fluttur frá Húshólma,  til ársins 1942. Krýsuvík var talin höfuðból, enda stærsta jörð á Reykjanesskaga. Jörðin náði að sjó frá Selatöngum austur að sýslumörkum. Byggðin náði hámarki á miðöldum en 1860 var t.a.m. búskapur á 13 býlum. Eftir aldamótin 1900 fór fólki að fækka og kotin fóru í eyði. Það eina sem minnir á höfuðbólið Krýsuvík og hjáleigurnar er Krýsuvíkurkirkja sem stendur austast á bæjarhólnum. Umhverfis hólinn eru tóftir Hnausa, Lækjar, Norðurkots, Snorrakots og Suðurkots.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Ögmundarhraunið, sem umlykur minjarnar við Húshólma, er talið hafa runnið 1151 (-1188). Ljóst er að hraunið hefur ekki myndast í einu lagi hefur smám saman í allnokkrum spýjum með mismunandi bergsamsetningu. Það átti glögglega eftir að koma í ljós þegar gengið var um Miðrekana.
Í Lesbók Mbl 17. sept. 1961 er m.a. fjallað um Ögmundarhraun: “Áður en það var rutt, varð að fara vestur fyrir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomu
nni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkurm er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa á móti honum; tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungrjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun. (Úr sóknarlýsingu 1840).”

Verkhús við vestustu sjóbúðina á SelatöngumÍ Lesbók Mbl. 31. jan. 1954 er grein eftir Árna Óla; “Svona var lífið fyrir einum mannsaldri”. Í henni fjallar hann m.a. frásögn Stefáns Filipssonar um Ögmundarhraun: “Ögmundarhraun, lítið fyrir vestan Krýsuvík, runnið vestan úr Almenningi, sem allur er líka hraun, en þó grasi og skógi vaxið – er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits; gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niðursokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað maður veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra. Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, n.l. Hæslvík nú nefnd. Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært hraun alt um kring bema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt samalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborga rústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.
Hólmasund - Krýsuvíkurbjarg fjærVestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langr frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hjer um bil 100 árum, eð máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson, Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti iena á eins lit, og bætti hann ei fyr að fala hana af sysur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðgu, Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbjargi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákoll aleins er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Teur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af breginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir. Og jafnótt og hún losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám hans. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár.

Í Arngrímshelli

Þetta hef jeg af sögusögn og gef það eit út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst (Arngrímur þessi var Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti. Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvufjöru undir Krýsuvíkurbjargi “og með honum kalrmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr breginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekkia ð öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðam breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust” (Vallaannáll). Öðrum annálunm ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannaátt segir: – “Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins”).

Krýsuvík

Bærinn Lækur í Krýsuvík – Garðhús nær.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmdunrur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, hélt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glæergluggum, sængurhúsi afþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn íhellinn, hlóð af honum þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt um kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki…” 

Minjar í Ögmundarhrauni

Húshólmi er merkur minjastaður suður af   Krýsuvíkur Mælifelli, í austurjaðri Ögmundarhrauns, nær sjávarhömrunum. Þar hefur hraunið runnið til hvorrar handar við óbrennishólma sem nefndur er Hólmastaður í gömlum heimildum. Þar er m.a. fornt bæjarstæði, skálatóftir, garðhleðsla og gerði, en í hrauninu vestan Húshólma er Kirkjulág og fleiri minjar. Samkvæmt gamalli munnmælasögu stóð Krýsuvíkurkirkja í Kirkjulág og stóð uppi löngu eftir að hraunflóðið eyddi bænum.  Óbrennishólmi er spölkorn suður af Latstöglum sem ganga vestur úr Latsfjalli. Þetta er gróinn hólmi sem sker sig á sérkennilegan hátt úr grófu apalhrauninu. Þar eru fornar búsetuminjar, tvær fjárborgir og vegghleðslur. Önnur fjárborgin virðist vera mjög forn hringlaga hleðsla, en hin nokkuð yngri.
Áður hefur nokkrum sinnum verið fjallað um minjarnar í og við Húshólma og í Óbrennishólma hér á vefsíðunni, auk þess sem Ferðamálafélag Grindavíkur hefur gefið út bækling þar sem rifjaðar eru upp heimildir og minjar skýrðar heilstætt á svæðinu. Annars er táknrænt að staldra við hjá þessum fornu minjum því við þær er staur frá Fornleifavörslunni – án orða. Um er að ræða friðlýstar fonleifar, en hið litla vesæla skilti við þær er löngu afmáð.
Á MiðrekumEftir að hafa staldrað við ofan við Hólmasund var stefnan tekin vestur með ströndinni. Þessi u.þ.b. 6 km kafli er torfarin.
Í fyrstu er um úfið hraun að fara með stuttum helluhraunspöllum, en síðan tekur við sjóbakað apalhraun, laust í sér og seinfarið. Að vísu opnast u.þ.b. 500 m kafli ofan við sjálfa Miðrekana, neðan við Brúnavörður, en síðan verður aftur með það sama – ófæra hefði einhver óvanur látið hafa eftir sér, en með rólegheitum má ýmist þræða ofanverða ströndina eða fjöruna, einkum síðasta spölinn, áður en komið er í Eystri-Látur. Víða má lesa myndunarsögu bergsins út úr jarðlögum þar sem brimið hefur brotið allt mélinu smærra og hreinsað ofan af heilu bergflekunum. Víða á leiðinni eru einstaklega sérkennilegar myndanir og þótt ekki væri fyrir annað en þær verður svona ferð alveg þess virði. Auk þess er óvænt rekavonin á leiðinni, einkum ofan við Miðreka, góð ábót á ágóðan. Í þessari ferð var t.d. gengið fram á brak af björgunarbát, sem rak þar upp fyrir ári og varð að engu. Björgunarhringurinn var þó enn heill og var honum komið í Saltfisksetrið að ferð lokinni.
Austasta sjóbúðin á SelatöngumSelatangar er gömul verstöð suður af   Núpshlíð og vestan við Ögmundarhraun.Vestan við Selatanga eru Borgir eða Katlahraun, fallegar hraunlægðir með allskonar hraunmyndunum. Frá bílastæðinu er um hálftíma gangur í austur að fjölda verbúðartófta, hlaðinna fiskibyrgja og fiskgarða úr grjóti. Talið er að um 100 manns hafi stundað útræði frá Selatöngum þegar mest var. Vermenn hættu að stunda róður frá Selatöngum um 1884, en ábúendur í Krýsuvík og Ísólfsskála stunduðu útræði frá Selatöngum fram á fyrstu áratugi 20.aldar.  
Eftirfarandi umfjöllun Ólafs Einarssonar um Selatanga, “Útræði á Selatöngum”, birtist í Ferðablaði Lesbókar Mbl 25. nóv. 1989 (Ólafur var frá Garðshúsum í Grindavík): “Ef draga má ályktanir af því, að skoðanir fil. dr. Sveinbjarnar Rafnssonar séu réttar eða nálægt sanni, má áætla að útróðrar frá Selatöngum hafi hafist seint á 15. öld eða nálægt aldamótunum 1600. Má þá slá því föstu að stöðugt útræði hafi verið þaðan um nærfellt þriggja alda skeið. Ekki er nokkur leið að sannreyna með nokkurri nákvæmni hvenær sjóróðrar hafi hafist þaðan. Afur á móti er fullkomin heimild fyrir því, að þeir hafi verið stundaður þaðan allar götur fram til ársins 1884 [reyndar var róið frá Selatöngum frá á byrjun 20. aldar].
Þurkkbyrgi á Selatöngum (t.h.)Í bók Ólafs Þorvaldssonar “Harðsporum” segir: “Útræði mun hafa að mestu lagst niður á Selatöngum á síðari hluta nítjándu aldar og munu síðustu útgerðarmenn þar hafa verið Beinteinn smiður í Arnarfelli og Sveinn ríki á Læk”.
Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd skýrði Lúðvíki Kristjánssyni frá því á sínum tíma, að faðir hans, Einar, hafi verið þar við sjóróðra og að seinasta vertíð hans hafi verið 1884, en að þar með hafi líka sjóróðrar frá Selatöngum lagst niður [róið var þó lengur þaðan, bæði frá Krýsuvíkurbæjum og Ísólfsskála sbr. aðrar frásagnir]. Einar faðir Þórarins fæddist og ólst upp í Nýjabæ í Krýsuvík og koma að sjálfsögðu tengslin við sjóróðrana þaðan.
Rölti maður um það svæði á Selatöngum, sem vitað er að voru höfuðstöðvar þeirra, kemur greinilega í ljós að útræðið hefur verið talsvert. Má sjá það á þeim gróðri sem þar hefur myndast, þar sem annars er svartnættisgróðurleysi. Það er auðvitað slógið úr fiskinum, sem myndað hefur gróðurinn. Mörg fiskbyrgi eru þatrna tiltölulega vel á sig komin, en mannabústaðir gamlir, hrörlegir og niður fallnir. Gætu þeir varla kallast mannabústaðir í dag.
Hér má sjá viðgerð á austasta verkhúsinuHvað sem um þennan stað má segja, þá er það víst að á löngu tímabili var þar dregin nokkur björg í bú þeirra Krýsvíkinga. En aðstæðurnar hafa verið mjög erfiðar og mikið strit samfara veiðiskap og flutningum.
Varla er hægt að skrifa um útræðið frá Selatöngum, sem mun hafa hafist fljótlega eftir að Húshólmasund eyðilagðist með öllu í hamförunum þegar Ögmundarhraun rann, án þess að rifja upp eða lýsa þeim miklu reimleikum sem sagt er að þar hafi átt sér stað.
Draugur sá, sem magir kváðust hafa séð, var nefndur Tanga-Tómas og er hann sagður hafa gert mörgum búðarmönnum ýmsar skráveifur eða smáglettur.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Á Arnarfelli í Krýsuvík bjó þá maður er Beinteinn hét, þrautreyndur í sjóróðrum frá Selatöngum, sem getið er hér að framan. Einu sinni var hann heylítill og flutti sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar, einnig var ætlun hans að huga að reka. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu kveikur hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr til en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssu sína og skaut út úr dyrum. Sótti Tanga-Tómas þá svo fast að honum að hann hélst ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Eftir mikil átök við drauginn og illviðrið komst Beinteinn loks heim til sín um morguninn og var þá mjög þrekaður.
Það kom fyrir á Selatöngum einhverju sinni að unglingspiltur var orðinn mötustuttur. Buðust þá hásetar, á skipum þeim sem þar reru, til að gefa honum mötu til vertíðarloka ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu. Strákur kvað:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Ara, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein, Einara tvo, Ingibjörn, Rafn,
Vilhjálmi Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn
sjálfur Guð annist þá.

Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó enn talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.”

Vestasta verbúðin á Selatöngum

Þór Magnússon skrifaði um “Þjóðminjar” í Lesbók Mbl þann 27. júní 1976 fjallaði hann um “Verbúðarrústir á Selatöngum”: “Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið líttþekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram. Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selataöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selataöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum [nú er hann að sjálfsögðu greiðfær öllum bílum]. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til aðhvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Dagon (Raufarklettur), landamerkjasteinn á SelatöngumUppsátur sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjarðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”
Í forverkefnisskýrslunni „Plokkfiskur” – Íslensk strandmenning sem grunnur fyrir ferðaþjónustu í framtíðinni, sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu, Siglingastofnun Íslands og Húsafriðunarnefnd ríkisins í júlí 2004, er m.a. fjallað um strandminjasvæðið á Seltaöngum. “Aðrar mjög áhugaverðar strandminjar eru Selatangar, suð-austur af Grindavík. Þetta svæði mun líka hafa verið miðstöð fyrir árstíðabundnar veiðar og hér eru rústir, hellar og aðrar minjar. Talið er að þarna hafi verið verstöðvar af svipaðri stærðargráðu og gömlu verstöðvarnar á Snæfellsnesi; Dritvík og Djúpalónssandur þar sem oft gistu hundruðir vermanna. Okkur skilst að áhugasamur einkaaðili hafi gert svæðið aðgengilegt fyrir almenning og sett upp upplýsingaskilti, gangstíga og gefið út bækling. Bæði Óttarsstaðir og Selatangar eru dæmi um aðgengilega sögustaði á Íslandi sem hafa mikla möguleika í ferðaþjónustu. Það ætti að koma af stað vinnuhópi, með það að markmiði að gera yfirlit yfir slíka staði á landinu öllu, forgangsraða þeim og meta ástand þeirra og möguleika innan ferðaþjónustu.”
Vestasta sjóbúðin á Selatöngum

Ekki var vart við Tanga-Tómas í þessari ferð, eins og svo jafnan áður. Á skilti við Selatanga er texti er segir að þaðan hafi síðast verið róið 1884. Þá eru myndir af tilgátuhúsum á Töngunum. Þar voru þrjár búðir, en ólíklegt verður að telja, af ummerkjum að dæma, að útlit þeirra hafi verið með slíkum hætti.
Dagon er nú varla svipur hjá sjón. Hann sést þó enn neðst í fjörunni á Selatöngum (þríkolla). Á síðustu árum hefur Ægir farið ómjúkum öldum um hann. “Kletturinn” er þó enn ábending um að vestasta sjóbúðin og tilheyrandi mannvirki hafa tilheyrt Ísólfsskála. Líklegt má því telja, ef Beinteinn frá Arnarfelli hefur hafst við í sjóbúð á Selatöngum, að þar hafi hann verið í austustu búðinni, enda heillegust þeirra, sem enn má sjá á Töngunum.
Aflraunasteinarnir á Selatöngum voru nú horfnir undir sand og grjót, enda ströndin búið við mikla ágjöf í hinum hörðu rokum liðins vetrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Mbl 17. sept. 1961.
-Lesbók Mbl. 31. jan. 1954.
-Lesbók Mbl 25. nóv. 1989.
-Lesbók Mbl 27. júní 1976.

Á Selatöngum

Á Selatöngum.

 

https://ferlir.is/husholmi-ii/https://ferlir.is/husholmi-i/

 

Fagridalur

Á landakorti LÍ frá árinu 1977 sést dregin gata er fylgir Skógfellavegi frá Grindavík að Stóra-Skógfelli. Í stað þess að halda áfram að Litla-Skógfelli og síðan áleiðis í Voga, eins og þekkt er, er gatan dregin til norðausturs frá Stóra-Skógfellshorni og upp að Nauthólaflötum í Fagradal og áfram í Dalssel (sjá meira um Dalssel). Þessi gata er merkt sem “vörðuð leið”. Annað hvort er um misskilning að ræða eða þarna hafi fyrrum legið gata frá Skógfellavegi og upp í Dalssel, selstígur Þórkötlunga á meðan þeir nýttu Dalsselið.
Leiðbeiningum fylgtÍ von um að enn gætu vörðubrot sést þarna er gæfu leiðina til kynna var haldið inn á svæðið frá 
Arnarsetri, austur með norðanverðu Stóra-Skógfelli og áfram inn á Skógfellahraunið. Þar var stefnan tekin til norðausturs, áleiðis að Fagradal.
Þrátt fyrir erfið gönguskilyrði í byrjun (snjór þakti jörð) lék veðrið við þátttakendur – logn og blíða í fjallasal. Snjóhlífar og -þrúgur auðvelduðu sumum gönguna til muna.
Í Arnarsetri hefur verið gerð bragarbót. Í stað mikils magns efnis, sem tekið var á sínum tíma við endurbætur á Grindavíkurveginum, hefur nú verið ekið þangað efni af framkvæmdarsvæði Bláa lónsins, bæði með það fyrir augum að nota svæðið sem efnistipp og um leið að endurheimta fyrri ásýnd þess. Ef haldið verður skipulega áfram með verkið má vænta þess að gígsvæðið sjálft hafi nánast fengið fyrri mynd eftir u.þ.b. tvær aldir. Hafa ber í huga að verðmæti Arnarseturssvæðisins á eftir að margfaldast á næstu áratugum og hundruðum.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

Eftir að hafa fetað snævi þakið hraunssvæðið varlega, yfir hugsanlegar sprungur og gjár, þurfti að komast upp með Stóra-Skógfelli, sem hafði dregið að sér fannfergið. Við vörðu á norðausturhorni fellsins, við Skógfellastíginn, var áð og lagt á ráðin.
Meint gata af Skógfellavegi suðaustan við Stóra-Skógfell með stefnu í Fagradal gat auðveldlega legið þar inn í “dal” þann er Sandakravegurinn liggur um millum Sandhóls og Skógfellavegs. Dalur þessi er mosavaxin hraunslétta (helluhraun), sem runnið hefur eftir að Skógfellahraunið rann. Það hraun hefur fyllt upp í sprungur, misfellur og jafnvel inn í eldri gíga á svæðinu. Dalurinn heitir Mosdalur. Ofan hans er fyrrnefndur Fagirdalur. H
raunið hefur það verið nefnt Dalaraun og þaðekki af ástæðulausu. Í  ljósi þessa er enn áhugaverðara að skoða ummerki hinna fornu gatna yfir hraunið – því víða eru þær djúpt markaðar í hraunhelluna. Það eitt gefur til kynna hina miklu umferð um þær á u.þ.b. 600 ára tímabili, eða allt til 1910 er ferðir fólks um þær voru að leggjast af.
Á áningarstaðnum var tilvalið að rifað upp ferðalýsingu um Skógfellastíginn er birtist í Lesbók Mbl árið 2000: “Þ
essi grein um Skógfellaveg birtist í Lesbók Mbl í septembermánuði árið 2000: “Á Suðvesturlandi eru margar áhugaverðar þjóðleiðir og hafa nokkrar þeirra öðlast fastan sess í huga útivistarfólks sem skemmtigönguleiðir svi sem Leggjabrjótur milli Þingvalla og Hvalfjarðar, Selvogsgata milli Hafnarfjarðar og Selvogs og Síldarmannagötur er nýlega voru varðaðar. Á Reykjanesskaga eru þjóðleiðir sem ekki eru eins nafnkunnar og áðurnefndar leiðir, en munu þó örugglega draga til sín göngufólk í vaxandi mæli.
Stóra-SkógfellNokkrar þeirra liggja til Grindavíkur og skal hér kynnt ein þeirra, en það er Skógfellavegur, gömul leið úr Vogum sem jafnframt er framhald þjóðleiðarinnar frá Hafnarfirði er nefnist Almenningsvegur.
Skógfellavegurinn er kenndur við tvö fell sem eru við leiðina og heita Litla- og Stóra-Skógfell er bendir til þess að svæðið hafi verið skógi vaxið fyrrum, en í nágrenni Litla-Skógfells er þó kjarrgróður með birkihríslum og víði. Grindvíkingar hafa líklega notað Skógfellaveginn sem alfararleið um stuttan tíma, en hann lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður milli Vogastapa og Grindavíkur. Af leiðinni liggur Sandakravegur neðan Stóra-Skógfells að Fagradalsfjalli og síðan austur á bóginn, en nafnið hefur upprunalega verið notað um alla leiðina frá Stapa.
Hér er greint frá Útivistargöngu um hluta þessarar leiðar s.l. sunnudag 3. september… frá Vogum. Landið sýnist ekki svipmikið á þessum slóðum, en þó leynist þarna margt og ekki síst þegar lengra dregur. Snorrastaðatjarnir eru suðvestan og vestan við leiðina og grilltum við aðeins í þær og einnig skátaskála sem reistur var nærri tjörnunum fyrir nokkrum árum. Ofan við tjarnirnar er Háibjalli, en hann og hæsta umhverfi er á náttúruminjaskrá og þar er nokkur skógrækt, en allt þetta blasti betur við ofan af Litla-Skógfelli sem gengið var um síðar.

Varða á leiðinni

Fyrsta spölinn mótar af og til fyrir gömlum götum, en vörður eru fáar og strjálar, en það átti eftir að breytast þegar lengra kom, en það sem einkennir leiðina eru gjár. Gjárnar eru ekki farartálmi og auðvelt að komast um þær, en sú fyrsta sem varð á vegi okkar nefnist Huldugjá, en austur með henni blasti við okkur fjárborg, sem heitir Pétursborg, en ekki var hún skoðuð nánar í þetta sinn. Skammt var að Litlu-Aragjá og gerðum við þar stuttan stans við stóra vörðu á gjárbarmi, en kaffistopp höfðum við hjá næstu gjá, Stóru-Aragjá sem á þessum slóðum nefnist Brandsgjá. Hún heitir eftir Brandi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála er var þarna á ferð á jólaföstu árið 1911, en lenti í ófærð og missti hestana ofan í gjána og þurfti að aflífa þá á staðnum. Brand kól á fótum og var á Keflavíkurspítala einhverja mánuðu eftir slysið. Við litum á gjárnar þarna og víðar og reyndust þær mjög djúpar þó vel sæist til botns svo ekki er að undra þó illa geti farið ef lent er utan leiðar að vetrarlagi og snjór gefur sig yfir gjánum.

Gígur við leiðina

Eftir góða áningu við Stóru-Aragjá var haldið áfram, enda auðvelt og vel vörðuð leið eftir helluhrauni, en þar og víðar eru hófaför vel mörkuð í klöppina. Litla-Skógefll er ekki hátt, aðeins 85 m.y.s. en það freistaði uppgöngu og hélt allur hópurinn upp norðvesturhornið og niður af því sunnanmegin. Af fellinu blasir við mestur hluti leiðarinnar, utan þess sem Stóra-Skógfell skyggir á í suðri, en á milli fellana er þétt röð varða.
Stóra-Skógfell er um 100 m hærra en Litla-Skógfell, en þó freistaði það ekki til uppgöngu í þetta sinn, utan eins þátttakaanda sem raunar gekk á öll fell sem urðu á vegi okkar og dásamaði hann mjög útsýnið.
SléttlendiðÞegar suður fyrir Stóra-Skógfell kom blasti við Sundhnúkagígaröðin sem mun vera um 8 km löng en frá henni rann hraunið hjá Grindavík fyrir um 2000 árum. Athygli okkar vakti sérkennileg hraunpípa utan í einum gígnum og vantaði lítið upp á að skríða mætti þar í gegn, en ekki hefði það farið vel með fatnað. Á þessums lóðum var okkar göngu um Skógfellaveg lokið þar sem áætlaður lokaáfangi göngunnar var Bláa lónið. Leið okkar lá inn á stikaða leið er tilheyrir Reykjaveginum, um Svartsengi norðan Svartsengisfells. Þar við gamlan steyptan pall, líklega undirstöðu danspalls. Rifjuðu nokkrir úr hópnum upp minningar frá útisamkomum er þar voru haldnar um skeið á vegum Grindvíkinga. Eftir tæpra 6 klukkustunda göngu vorum við loks komin að Bláa lóninu nýja sem fellur ótrúlega vel inn í hraunið, en bað í því er kærkominn endapunktur á goðri gönguferð.”

Sandhóll-innri

Þá var stefnan tekinn upp í “dalinn” og honum fylgt til norðausturs. Varða sást á hraunnibbu áður en komið var inn á Sandakraveginn. Í rauninni var ekkert eðlilegra en framhalda göngunni eftir sléttu helluhrauninu áleiðis í Fagradal. Til að gera langa göngusögu stutta má segja að þessi leið er svo greiðfær að hægt væri að aka eftir henni á óbreyttum jeppa. Úfið hraun birtist framundan, en vestan þess lá slétt hraunlæna inn að Aurum vestan Nauthólaflata. Frá hraunjaðrinum var leiðin greið inn í Fagradal og að Dalsseli.

Sandakravegur

Sandakravegur – varða.

Á stöku stað var að sjá hellu ofan á hellu, en verksummerkin gætu þess vegna hafa verið eftir refaskyttur, er sóttu inn í hraunið. Ekki var að sjá að þeim hafi tekist að útrýma skolla á svæðinu því fótspor eftir hann sáust víða á leiðinni, ekki síst við Stóra-Skógfell. Augljóst má vera að víða leynast greni á þessu svæði, enda lágrennanlegar hraunrásir margar.
Þótt ekki hafi verið hægt að sjá augljóslega varðaða leið frá Stóra-Skógfelli áleiðis í Fagradal verður að telja víst að hún hefur verið farin, enda bæði stysta og greiðfærasta leiðin milli Járngerðarstaða og Dalssels. Til stendur að fara inn á svæðið þegar snjóa leysir og gaumgæfa það betur með hliðsjón af framangreindu.
Eitt stendur þó upp úr – umhverfið og útsýnið er stórbrotið.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimild m.a.:
-Kort frá Landmælingum Íslands 1977.
-Lesbók Mbl 16. sept. 2000 – Kristján M. Baldursson.

Fagradalsfjall frá Skógfellastíg

Fagridalur

Gengið var inn á Dalaleið, hina gömlu þjóðleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, í Fagradal, gatan rakin upp hlíðina og upp á og yfir næstum óendanlega Vatnshlíðina. Götunni var síðan fylgt þvert yfir Hvammahaunið auk þess skoðaður var hugsanlegur stígur vestar í hrauninu. Þar liggur kindagata/fjárgata um þykkt mosahraunið. Loks var gengið til baka með ofanverðri Vatnshlíðinni og niður Vatnshlíðarhorn þar sem gamla gatan austan við Sveifluháls var skoðuð og henni fylgt spölkorn í átt að Breiðdal. Við hana eru tóftir tveggja “smáhýsa”, sem ekki er gott að segja hvaða tilgangi hafi þjónað.

Gata upp úr Fagradal

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um Nesið. Flestar leiðirnar tengdu byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík.
Dalaleiðin lá upp frá Kaldárseli um Kúastíg, sem enn er áberandi suðaustan sumarbúða KFUMogK, suður með Undirhlíðum, upp Kýrskarð, upp fyrir norðurhorn Gvendarselshæða, suður með þeim austanverðum og um Slysadali, Leirdal (áður hétu dalirnir báðir Leirdalir), framhjá vatnsstæðinu syðst undir Lönguhlíðum með stefnu inn Fagradal. Ef vel er að gáð má sjá mjög grónar tóftir norðvestan Leirdals og norðaustan Fagradals.
Hraunkarl Erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þær hafa gegnt nema að undangenginni nákvæmri rannsókn. Í fjarlægð lítur svæðið út eins og bæjarhóll undir brattri hlíðinni.
Þeir, sem farið hafa þessa svonefndu Dalaleið um Fagradag hafa eflaust farið inn dalinn að norðanverðu. Þar er hann vel gróinn í vöngum, einkum á kjálkum. Dalurinn er aflíðandi og því auðveldur uppgöngu. Hrauntunga liggur ofan í dalinn, kominn alla leið úr Kistufellsgígunum. Fjárgata ligur með hraunkantinum að sunnanverðu. Uppi í dalsendanum sést gatan mjög vel þar sem hún liggur skáhallt upp hraunhlíðina til suðurs. Þegar gatan er gengin er ljóst að ekki hefur hún nú verið fjölfarin hestagata. Líklegt þykir að gatan hafi mest verið sótt af fé og tiltölulega fáu fólki, enda er hún miklu mun lengri en Undirhlíðavegurinn frá Kaldárseli með vestanverðum Undirhlíðum og Sveifluhálsi, upp á Ketilsstíg.
Uppi á brún greinist leiðin, annars vegar til suðurs og hins vegar til suðvesturs um veðurbarða og grýtta “hásléttuna”. Vörður eru ofan brúnar að norðvestanverðu. Ein þeirra, sem næst er, er landmælingavarða. Sú, sem nær er brúninni hefur líklega, líkt og aðrar vestar með henni, verið hlaðnar af fólki, sem afrekað hefur göngu þangað upp, fundist mikið til koma og viljað skilja eftir “minningu” um afrekið. Fólk ætti frekar að skilja eftir miða eða jafnvel geymsluþolinn mat fyrir aðra, sem á eftir koma. Vörður voru leiðarmerki hér fyrrum og höfðu því ákveðinn tilgang. Með nýjum vörðum brenglast sú mynd, sem upphaflega var máluð á þjóðleiðum sem þessari.
Gata Til að spara tíma var stefnan tekin beint, ofan gilja á frosnum mosanum (sem var eins og teppi undir fótum), á suðurbrún hásléttunnar þar sem útsýnið var stórbrotið yfir Hvammahraunið og Krýsuvíkurfjöllin. Á leiðinni lét hraunkarl á sér kræla. Reyndar kom mjög á óvart að hann reyndist vera hraunkona. Dalaleiðin sást þaðan þar sem hún lá um mjósta hraunhaftið í Hvammahrauni, yfir í óbrennishólman, sem þar er. Hún var rakin í gegnum hraunið. Innkoman er breið og leiðin skiptist stuttu síðar í tvennt, en kemur saman að nýju við endann hinum megin. Báðar eru þær ógreiðfærar og líklega verið 98,8% notuð af fé og því fáu fólki – og þá nánast eingöngu að sumarlagi.
Ólíklegt er að farið hafi verið með hesta þarna yfir hraunið. Óbrennishólminn er að mestu úr sandi, en þómá sjá móberg og brotaberg á stangli. Hann er sennilegast hluti af gömlu gosi, líklega frá þarsíðasta ísaldarskeiði, á sömu sprungurein og fæddi Gullbringu og sandfjöllin sunnan hennar (vestan Kálfadala).
Að sunnanverðu var vatn í grónum bolla og hægt var að fylgja götunni áfram með hraunkantinum að Gullbringu. Þar greinist hún í tvennt; annars vegar til vinstri upp sandbrúnir austan “hólsins” og hins vegar niður með honum að norðanverðu.
Miðvert Hvammahraunið var skoðað svolítið betur vegna hagstæðra aðstæðna (mosinn var frosinn). Fjárgata sást liggja yfir hraunið nokkru vestan leiðarinnar og eflaust er fleiri slíkar að finna víðsvegar um hraunið. Lílklegt þykir að fleiri götur leynist þarna yfir hraunið og þá vestar. Það verður skoðað betur síðar.
Gengið var að vestanverðri hraunbrúninni í norðanverðum Hvömmum. Sjá mátti hvar hraunið hafði runnið niður hlíðarnar. Þunnfljótandi hraun var austar í hlíðinum og undir úfnu apalhrauninu í dölunum, en grófara hraun vestar. Hið þunnfljótandi hraun hefur líklega komið úr Kistufellsgígunum, en grófara hraunið úr eldborginnii víðfeðmnu norðvestan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum. Sjá mátti þessa lagskiptingu sumsstaðar ofan Vatnshlíðar.
Fagridalur Götu var fylgt upp með hraunbrúninni og á hásléttuna. Gatan var greinileg drjúgan spöl eða þangað til komið var niður í ílanga hvylft í hlíðina. Hún var vel gróin bæði efra og neðra (nær Kelifarvatni). Fjárgata lá í henni milli hinna grónu svæða. Þá sást gatan vel þar sem hún lá upp hlíðina að norðanverðu. Henni var fylgt áfram norður yfir hásléttuna, en ekki leið á löngu að hún hvarf sjónum þar sem rann saman gata og vindsorfið grjót.
Framundan og ofanvert (hægra megin) var varða, vandlega hlaðin hringlaga, en nýleg. Ofan hennar (austar) var varða á klapparhól, sem skoðuð hafði verið á suðurleiðinni. Í norðri sást til vörðu, sem og tveggja ofan brúnar norðvestar. Engin gata fylgdi með vörðunum svo spurning er í hvaða tilgangi þær hafi verið hlaðnar. Allar virtust þær tiltölulega nýlegar. Ein varðan gaf þó augljóslega til kynna hellisop í grunnri rás.
Þunnfljótandi helluhraun (það eldra sennilega frá Kistufellsgígunum) hafði runnið þarna niður eftir og síðan fram af brún Vatnshlíðar á mjög afmörkuðu svæði. Neðan frá er það hinn tilkomumesti hraunfoss á að líta.
Rjúpa sást á stangli, en einungis ein í hóp. Ofan við Vatnshlíðarhornið er nýlega hlaðin varða og önnur nær brúninni, við uppgönguna (eða niðurgönguna eins og í þessu tilviki). Landmælingavarðan ofan Fagradalsgötunnar sást í norðaustri.
Farið var fetið niður Vatnshlíðarhornið, skref fyrir skref, enda eins gott að fara varlega. Frosið var undir og yfirborðið laust í sér. Feykivindur úr norðri bætti um betur. Ekki þurfti mikið til að komast á skrið í miklum brattanum. Allt gekk þetta nú vel, sem betur fer.
Tóft Niðri var skoðaður grunnur, sem talinn er hafa verið af gamla veitingahúsinu norðan við Kleifarvatn. Það var í rekstri áður en vegurinn var lagður undir Helluna á fimmta áratug 20. aldar. Gamla þjóðleiðin sést enn ofan (norðan við grunninn), en húsið hefur kúrt undir fyrrum Vatnsskarði, í skjóli fyrir norðanáttinni. Vatnsskarð það sem nú er nefnt hefur áður að öllum líkindum heitir Markrakagil. Það færðist að einhverjum ástæðum nokkru norðar með Undirhlíðum. Ástæðurnar eru taldar hafa verið landamerkjalegs eðlis.
Ofan við grunninn eru a.m.k. fimm litlar tóftir af einhverju, sem ekki er vitað hvað var. Fróðlegt væri að fá einhvern sérfræðinginn til að skoða aðstæður. Ekki er þó raunhæft að ætla að tóftir þessar hafi tengst veitingarekstrinum og þá verið geymslur. Þjóðleiðin gamla var þá aflögð og kominn akvegur nokkru austar með hlíðunum, á þeim stað sem hann er nú.
Þegar gengið var yfir “hásléttuna” og götur þar skoðaðar, var stungið upp á því að nefna “Dalaleiðina” miklu fremur “Dalaleiðirnar” því við nákæma skoðun virtust þær mun fleiri en ein. Auk þess mun seint koma fram staðreyndir um hvar hún hafi í rauninni legið, ef hún hefur þá yfirleitt legið á einhverjum einum tilteknum stað.
Eftir að hafa elt fjárgötur í svo langan tíma var einungis eitt framundan – ofnbakaðar kótilettur.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

Hraunssandur

Gengið var frá Ísólfsskála og fyrir endann á Bjalla, klifið niður Lambastapa og haldið út með ströndinni undir Skálabergi, gengið eftir Skálasandi og Festarfjalli yfir á Hraunssand.

Festisfjall

Undirbúningurinn.

Aðeins er vitað um eina konu, eiginkonu Brands á Skála, sem gengið hefur þessa leið þurrum fótum og þótti mikið afrek. Dæmi er um að vaskir piltar hafi synt út fyrir Lambastapa er þeir voru að stytta sér leið að Skála. Það voru þeir Guðbergur Bergsson og Hinrik bróðir hans. Eftir þessa ferð bættist enn eitt Skálabarnið við; Erling Einarsson og eiginkona hans.

Svæðið er einstakt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri, fuglalíf í bergi og hellum (teistan) er mikið og umhverfið stórbrotið. Berggangar sjást á nokkrum stöðum sem og bólstrabergs og móbergsmyndanir. Í daglegu tali var þetta svæði nefnt “Undir Festi”. Hrun er af og til úr fellinu svo hjálmar eru þarna þarfaþing.

Festisfjall

Festarfjall – undirbúningurinn.

Þjóðsaga er til um Festarfjall, en í henni segir að “austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.”
Undir Festarfjalli eru nokkrir skútar og sjávarhellar. Einn þeirra er sýnum stærstur. Inni í honum verpir teista og má sjá hana þar í flokkum þegar vel stendur á.

Festisfjall

Sjávarhellir undir Lyngfelli.

Á Hraunsandi var fyrrum unninn sandur og möl, enda má enn sjá leifar malarnámsins ofan við bergið. Fyrirtækið hét Ægissandur og töldu margir það daga nafn sitt af sandströndinni fyrir neðan.
Dunknahellir er undir berginu. Hellirinn hverfur af og til vegna sandburðar, en stutt er síðan hann opnaðist aftur. Nú er komið myndarlegt loftgat í hellinn.
Á kafla er stógrýtt undir bjarginu, en sandur á milli bergganga og -nefja, sem sjórinn leikur við, jafnvel í lágsjávuðu. Það getur því þurft lag til að komast yfir þá og jafnframt þarf að gæta þess vel að lokast ekki inni í básum á milli þeirra. Á leiðinni þurfti að klifra yfir tvær nípur er skaga út úr berginu; Eystri- og Vestarinípu. Að sögn Sigga á Hrauni eru landamerki Hrauns og Ísólfsskála um Eystrinípu. Oft væri ófært neðan við þær, allt eftir því hvernig stæði á sandinum.

Festisfjall

Sjávarhellir undir Festarfjalli.

“Í kringum 1890 fannst þarna á Hraunssandinum rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir, hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En með því að engan mann hafði rekið úr því, var frekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp. Í þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hælsvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar verðrið fór að versna.

Lambastapi

Lambastapi.

Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morguninn eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rakaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu. Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið af þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt að sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð.

Dunkshellir

Horft út um Dunkshelli.

Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina. Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.
Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg rís alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einum stað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.

Festisfjall

Festisfjall – berggangar.

Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nípa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Eystri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selasker og eru fram undan Eystri-Nípu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.
Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórkötlustaðahverfinu voru á sjó. Eftir hádegi kom “fransari” siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu það vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og þar í strand.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Hafliði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þess franska skips eða siglingu þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum. Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar “fransari” sigldi að báti, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti.

Festarfjall

Lyngfell – forn setlög.

Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum. Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í land, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutabót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu. Þess vegna var farið að veita siglingunni athygli, þegar svo skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf fyrir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.
Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafði hann sagt, að aldrei muni hann hafa verið fljótari uppá Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.

Festisfjall

Festisfjall – Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, að störfum.

Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flytji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, en ekki hafi unnist tími til að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.”
Þessi leið, sem farin var, er ekki fyrir ókunnuga. Hún getur verið mjög varasöm, bæði vegna hruns úr berginu og ekki síður vegna óvæntra uppátækja Ægis. Hann á það til að rísa snögglega og óvænt upp og fyrir þá sem ekki þekkja kauða gæti það kostað ýmsar skrokkskjóður eða þaðan af verra.
Eftir gönguna var gengið fram á slökkviliðsstjórann í Grindavík á Klappartúninu með fornleifaskrá fyrir Þórkötlustaðahverfi undir höndum. Þegar að var gáð stóð þar á einum stað um dys Þórkötlu; “Á túninu austan við bæinn er hóll; Þórkötludys. Ekki er nákvæmlega vitað hvar hún er”. Einn göngumanna er jafnframt einn af eigendum Klappar svo þarna bar vel í veiði – Þórkatla gamla hvílir þá eftir allt saman í hól þar í túninu. En skráning þessi var þó tekin með fyrirvara, sjá FERLIR-826.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Guðsteinn Einarsson – “Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar”.
-www.reykjanesbaer.is/bokasafn

Hraunssandur

Klifrað niður á Hraunssand.

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi um Hrútagjá og Hrútagjárdyngju, kíkt í Kokið, farið um mikla hrauntröð út úr henni að norðanverðu, um hellasvæði norðvestan hennar og síðan norður með austanverðum Almenningum með viðkomu í Gininu og fjárskjóli með fyrirhleðslum og fallega hlaðinni fjárborg við Brunntorfur.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Dyngjan sjálf, fallega löguð, er nokkuð vestar og frá henni liggja myndarlegar hrauntraðir. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Samsetning hraunsins samkv. rannsóknum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, að meðaltali er Plagioklas um 48,4% og Pyroxen um 32,7%. Ólivín er 11,4% og málmur um 7,3%.
Á leiðinni í gegnum dyngjuna, skammt suðvestan hennar var komið að djúpum sprungum, greinilega gasuppstreymi út frá gígnum. Var þeim gefið nafnið Kokið. Föngulegur hópur hellaáhugamanna var með í för og var tilefni ferðarinnar m.a. að skoða niður í þessar “gjár”. Hér er um að ræða 15-20 m djúpa “sprungu” í hrauninu. Ekki er ólíkt því að horfa niður í kok á einhverri furðuskepnu og horfa þarna niður í sprunguna. Búið var að skoða hluta hennar áður með takmörkuðum búnaði, en nú var ætlunin að láta fagmennina líta á fyrirbærið.

Húshellir

Við Húshelli.

Sprungan er þröng og því best að skilja bjórvömbina eftir heima. Þrír hellamanna nudduðu sér niður og telst Kokið því fullkannað. Svo virðist sem bráðið hraun hafi runnið í sprungunni, því nokkuð er um hraunfossa, rennslistauma og 8-10cm hraunskán sem þekur allt yfirborð sprungunar. Hraunskánin myndast jafnt á lofti sem veggjum. Sprungan hefur framhald bæði að ofan og neðan, en vegna ofvaxtar hellamannanna varð ekkert úr frekari landvinningum.
Húshellir er í hraunbrekkunni norðan dyngjunnar. Hleðsla í hellinum hefur verið ráðgáta. Hins vegar kann að vera skýring á henni. Í gömlum sögnum segir af útilegumönnum á Selsvöllum, sennilega á 17. öld.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í heimildinni segir að útilegumennirnir hafi haldið til við Vellina, nálægt Hvernum eina, en herjað á Vatnsleysuströnd. M.a. hafi þeir stolið frá bóndanum í Flekkuvík. Eftir að þeir hafi flutt sig “norður með fjöllunum, í helli sem þar er”, hafi þeir áreitt og rænt ferðalanga. Yfirvaldið hafi safnað liði, handtekið þá og fært til Bessastaða þar sem dæmt var í máli þeirra. Stórhöfðastígur liggur þarna niður með. Hann sést vel vestan við Hrútargjárdyngju og áfram niður með henni norðvestanverðri, niður með Fjallinu eina og síðan áfram yfir hraunið austan við Sauðabrekkur, niður í Brunntorfur nálægt Bláfjallavegamótum og áfram yfir hraunið að horni Stórhöfða. Stígurinn sést þarna vel á kafla, en mosi og lyng hefur þakið hann að mestu í grónu hrauninu vestan við Fjallið eina.
Önnur skýring á hleðslunum getur verið sú að þar hafi menn á leið um gömlu þjóðleiðina viljað getað leitað skjóls undan verðum. Einnig að menn hafi haldið þar til við refaveiðar, en þarna ekki langt frá er hestshræ (beinin). Bein eru í hellinum og væri fróðlegt að reyna að finna út af hvaða skepnu þau hafi verið.

Húshellir

Í Húshelli.

Þetta er einn möguleikinn á tilvist hleðslanna í Húshelli, en taka þarf honum með þeim fyrirvara að annað kunni einnig að koma þarna til greina. T.d. vantar þarna eldstæði eða önnur merki um að menn hafi haldið til þarna um einhvern tíma.
Önnur saga segir að yfirvaldið hafi lokað helli útilegumannanna eftir handtökuna til að koma í veg fyrir að aðrir settust þar að. Einnig gæti þarna hafa verið athvarf fyrir þá er stunduðu hreindýraveiðar á Reykjanesinu (síðasta dýrið drepið á Hellisheiði 1901 eða 1904) eða annan veiðiskap. T.d. er hlaðin refagildra í Hrútagjáryngjunni. En þetta eru bara vangaveltur – gaman að velta þessu fyrir sér.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er í alfaraleið og er nokkur hundruð metra langur. Eftir að hafa gengið á sléttu helluhrauninu, hoppað yfir sprungur og sokkið í mosa, var komið að Gininu. Það fannst nokkur áður er FERLIRsfélagar voru að koma þarammani niður frá gígaröð norðan við Sauðabrekkur. Blasti opið skyndilega við þeim í annars sléttu hrauninu. Ginið er magnaður hellir og er án efa mest “töff” hellafundur síðan Eldhraunshellarnir fundurst að mati hellaramanna. Ginið er um 10-15m djúpt, trektlaga og snjór er í botni þess. Á yfirborði er ekki að sjá greinileg ummerki um gjall eða klepra, og því stendur þetta gat út í auðninni eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Því miður vannst ekki tími til að skoða Ginið að fullu, en til að það sé hægt þarf að hafa klifurbúnað og góðan tíma. (Sjá aðar FERLIRslýsingu þar sem Ginið var sigrað).

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hraunspilda milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd nefnist Almenningur. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit. Síðan um aldamót 19. og 20 . aldar hefur hraunið lítið verið breitt enda hefur það gróið nokkuð á ný. Norðan í honum er hlaðið fjárskjól í skútum. Norðvestan þeirra er Þorbjarnarstaðaborgin við Brunntorfur. Hún var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna um aldamótin 1900, en stendur enn nokkuð heilleg rúmlega aldargömul. Sennilega hefur fjárskjólið einnig tilheyrt Þorbjarnastaðafólkinu og sennilega verið ástæðan fyrir gerð borgarinnar. Svo virðist sem hún hafi átt að verða topphlaðin, líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi, en heimilsfaðirinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Jarðfræði Hafnarfjarðar – flensborg.is
-speleo.is

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Sýlingafell

Gengið var um Svartsengi og með Svartsengisfelli að Sundhnúk. Sást vel hvernig hraunið hefur komi upp úr suðuröxl Svartsengisfels og runnið bæði til austurs og vesturs.
Vesturræman sést mjög vel frá Orkuverinu í Svartsengi þar sem það kemur sem foss niður vesturhlíð fellsins, ekki ólíkt því sem gerðist í Kálfadölum norðan Vegghamra.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan Sundhnúks er Sundhnúkagígaröðin að segja má ósnert. Gígarnir mynda röð út frá Sundhnúk og er hið mikla hraun vestan við þá runnið úr þeim, niður í Svartsengi. Auðvelt er að ganga upp að Gálgaklettum sunnan Sundhnúks. Gálgakletta er getið í þjóðsögunni um Ræningjana í Ræningjagjá (Þjófagjá) í Þorbjarnarfelli, handtöku þeirra á Baðsvöllum norðan fellsins og aftöku þeirra í klettunum. Þá var gengið upp á Svartsengisfell, er nefnist Sýlingafell frá sjó.

Svartengisfjall

Sólstafir ofan Svartsengisfjalls.

Þaðan er ágætt útsýni yfir umhverfið, m.a. yfir að Gálgaklettum og Hagafelli í suðri og Húsafell, Fiskidalsfjall, Festisfjall, Hrafnshlíð (Siglubergsháls) og Fagradalsfjall í austri. Í toppi fjallsins er allstór gígur. Haldið var niður norðurhlíð Svartsengisfells ofan við Svartsengi þar sem fjölmennir dansleikir voru haldnir hér áður fyrr. Sagan segir að engið heiti eftir Svarti, hrúti Molda-Gnúps, þess er fyrstur nam land í Grindavík (að því að talið er).

Sundhnúksröðin er á náttúruminjaskrá, þ.e. Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól í vestur að hraunkantinum sunnan Þorbjarnarfells, með honum vestur og norður fyrir fellið, að háspennulínu sem er u.þ.b. 200 m vestan þjóðvegar.

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Mörkin fylgja síðan línunni til norðurs að stað 2 km norðan Arnarseturs og þaðan austur í horn landamerkjalínu við norðausturhorn Litla-Skógfells, síðan beina línu sem hugsast dregin til norðausturs í Kálffell. Þaðan liggja mörkin í Fagradals-Vatnsfell og því næst um beina línu sem dregin er til suðvesturs um Fagradalsfjall, Sandhól, Vatnsheiði og að lokum í Melhól. Í heildina er tæplega 9 km löng gígaröð kennd við Sundhnúk.
Fallegar hrauntraðir eru í suðvesturhlíð Hagafells, en Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni.

Vatnshæð

Vatnsstæði í Vatnsheiði.

Skammt austar er Vatnsheiðin, þrjár dyngjur, en úr þeim rann t.d. það hraun er nú myndar Þórkötlustaðanesið/Hópsnesið. Í því miðju er stór og mikil hrauntröð. Ein dyngjanna, sú syðsta, opnaðist er jarðýtu var ekið um hann. Nefnist opið nú K9. Stiga þarf til að komast niður um gígopið, en fróðlegt væri að fara þangað niður og skoða hvað er í boði þar niðri.
Arnarseturshraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Suðvesturlandið einkennist af Reykjanesskaganum, en það er hér sem Atlantshafshryggurinn gengur á land. Mikið af hraunum eru á Reykjanesskaganum, sem bera vott um hina miklu eldvirkni. Atlantshafshryggurinn gengur í gegnum mitt landið og heitir hér Reykjaneshryggur, en fyrir norðan land nefnist hann Kolbeinseyjarhryggur. Þetta undur heimsins hefur mótað Ísland, ýtt Ameríku frá Afríku og um leið myndað Atlantshafið. Ísland stendur á flekaskilum en vesturhluti landsins tilheyrir Ameríkuflekanum, en austurhlutinn Evrasíuflekanum. Sumir vilja halda því fram að Grindvíkingar fylgi Evrópuhlutanum, en Keflvíkingar fylgi Ameríkuhlutanum.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Í Svartsengi, þarna skammt frá, er orkuver Hitaveitu Suðurnesja á háhitasvæði sem nýtir heitan jarðsjó. Í þessum jarðsjó er mikið um efnaupplausnir sem tæra málma og því er honum ekki veitt beint inn á veitukerfin, heldur látin hita upp ferskt vatn fyrir veituna í varmaskiptum. Við þetta fellur til mikill jarðsjór sem streymir út í hraunið og myndar Bláa Lónið, sem frægt er sem heilsubað fyrir fólk með húðsjúkdóma. Svífandi kísilagnir og fleiri efni eru ástæða þess að vatnið litast blátt.

Sprungur

FERLIRsfélagar á ferð um sprungusvæði Reykjanesskagans.

Á Reykjanesi er einnig annað háhitasvæði sem er vestur undir Skálafelli og svokölluðum Stömpum sem brunnu fyrir yfir 1000 árum. Bjarmar jarðeldsins lýstu upp haf og land, en talið er að slíkt muni gerast aftur þó ekki sé hægt að segja til um tímsetningu.

Í ferðinni gaf Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, ágætt yfirlit yfir jarðsögu Svartsengis, tilurð og þróun orkuvers Hitaveitunnar. Fram kom m.a. í máli hans að undir hraununum er gífurlegt vatnsmagn, undir því er mikið magn sjávar er seitlast hefur inn undir bergið. Ferska vatnið flýtur ofan á og því hefur verið dælt upp til neyslu og heitavatnsnotkunar. Gufan, um 240 °C heit, sem kemur fram er vatnið minnkar og leitar jafnvægis, er notuð til að hita kalda vatnið. Hún kemur um 160°C heit inn í orkuverið þar sem súrefnið og óæskileg efni eru unnin úr vatninu áður en það er leitt hæfilega heitt inn í hús neytenda á Suðurnesjum.

Svartsengi

Svartsengisvirkjun.

Æðar og sprungur í jarðskorpunni eru nokkurs konar svitaholur jarðar og út um þær leitar gufa og glóandi hraun er þannig stendur á. Eina slíka “svitaholu” má sjá í toppi Svartengisfells og aðrar í Sundhnúkagígaröðinni, þarna skammt frá.
Fram kom í máli Alberts að við uppbyggingu orkuversins hafi mikil reynsla orðið til, m.ö.o. mörg mistök verið gerð er takast þurfti á við ný og óvænt vandamál, en án þeirra hefði ekki orðið nein þróun. Neysluvatnsnýtingin hafi þróast í heitavatnsnýtingu, hún í raforkunýtingu og heilsunýtingu og enn biðu ónýttir möguleikar, s.s. varðandi nýtingu umframorku og affalls, t.d. til líftækniðnaðar, vetnisiðnaðar og súrefnisiðnaðar. Affallsvarma væri t.d. hæg að nota til að hita upp golfvöll eða annað er þurfa þykir.

Svartengi

Svartsengi.

Miklu máli skiptir að menn séu frjóir í hugsun er kemur að hugsanlegri nýtingu þess ónýtta. Ljóst væri að við Reykjanesvirkjunina væri um 100 sinnum meiri vandamál að etja en þá sem fyrir er í Svartsengi, m.a. vegna útfellinga og sjávarseltu.
Albert taldi miklar framfarir hafa orðið í viðhorfi virkjunaraðila til umhverfismála. Nú væri jafnan reynt að samræma sjónarmið verndunar og nýtingar s.s. kostur væri. Umhverfi orkuversins bæri þess glöggt merki.
“Með Alberti fer maðr með reynslu”, hefði Molda-Gnúpur sagt ef hann hefði verið uppi nú á dögum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Portfolio Items