Tag Archive for: Grindavík

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því Fagradalsleid-21ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.
Stapi (eða móbergsstapi) er sérstök gerð eldfjalla sem myndast í eldgosi undir jökli eða íshellu. Gosefnin hlaðast upp í því rými sem bráðnar undan hita gossins. Fyrst um sinn hleðst upp gjóska og bólstraberg en þegar gosið hefur hlaðið sig upp fyrir mörk jökulsins og gosrásin einangrast frá vatninu hefst hraungos. Þegar jökullinn hverfur stendur eftir reisulegt kringlótt fjall með bröttum hamrabrúnum og lítilli dyngju á annars flötum toppi.
Að minnsta kosti fjörutíu stapar eru á Íslandi. Þeir mynduðust á kuldaskeiðum ísaldar en ekki er vitað til þess að slíkur hafi myndast undir núverandi jöklum landsins.
Móberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli.
Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli Fagradalsfjall - Langhollmeð bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.

Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnar jöklanir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ. Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita.

Moberg - kort II

Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.
Reykjanesskagi er skagi sunnan Faxaflóa og er í laginu eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandi Íslands. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).
Gróft séð er skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraunum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma.

Gos-21

Skaginn er frekar gróðursnauður en þó má finna þar ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð. Jarðfræðilega er svæðið mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.
Helstu fjöll á Reykjanesskaga vestanverðum eru Langahlíð (sem blasir við frá Reykjavík), Vatnshlíð (austan við Kleifarvatn), Sveifluháls og Núpshlíðarháls (sem einnig heita Austurháls og Vesturháls) og er norðurendi þess síðarnefnda Trölladyngja og Grænadyngja, Keilir, Fagradalsfjall, Þorbjörn (Þorbjarnarfell) og Festarfjall. Mörg fleiri mætti nefna, en þau eru smærri.
Jöklar þekja stóran hluta jarðar á ísöldum. Ísöld er jarðsögulegt tímabil þar sem þykkar jökulbreiður hylja stór landsvæði. Slík tímabil geta staðið í nokkrar milljónir ára og valdið miklum breytingum á yfirborði meginlanda.
Allnokkrar ísaldir hafa sett svip á sögu jarðarinnar. Sú elsta er kennd við svokallaðan forkambrískan tíma fyrir meira en 570 milljónum ára.
Síðasta tímabil mikilla Dalahraun - loftmynd IIjökulframrása er kallað Pleistósen tímabilið og er almennt talið hafa hafist fyrir um 2,6 milljónum ára og lokið fyrir 10 þúsund árum. Sumir telja að síðustu ísöld sé ekki lokið enn heldur sé nú hlýskeið ísaldar (líkt og tiltölulega hlýr vetrardagur).

Minna kuldakast og tímabil sem einkenndist af framrás jökla hefur verið nefnt litla ísöld, en hún hófst á 16. öld og var viðvarandi næstu þrjár aldir. Litla ísöld náði hámarki árið 1750 en þá voru jöklar í mestu framrás síðan á hinni Kvarteru ísöld.
Ekki er vitað með vissu hvað veldur ísöldum en meðal þess sem getur haft áhrif eru geislun sólar, Milankovic-sveifla sem er reglubundin breyting á afstöðu sólar og jarðar, breytingar á kerfi hafsstrauma og mikil tíðni eldgosa.
Eldgos kallast sá þáttur eldvirkni, þegar bergkvika brýtur sér leið upp úr jarðskorpunni, og gosið þá annaðhvort í formi hrauns eða ösku.
Jökull er massi íss sem ekki nær að bráðna milli árstíða. Þeir eru stærsta forðabúr jarðarinnar af ferskvatni og hegða sér líkt og hægfara ár sem hreyfist undan þyngdaraflinu. Stærsti jökull jarðar er á Suðurskautslandinu. Jöklar fyrirfinnast í öllum heimsálfunum. Jöklafræði nefnist sú fræðigrein sem rannsakar sérstaklega jökla.
Jöklar flokkast annars vegar til þíðjökla, sem eru nálægt frostmarki vatns, eða gaddjökla, sem ætíð eru neðan frostmarks vatns.
Skriðjöklar kallast þeir hlutar jökuls, sem renna hægt (þ.e. skíða) út frá meginjöklinum.

Heimild:
-Wikipedia.org

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Hraunssel

Grindavíkurbær, Saltfisksetrið og FERLIR buðu upp á þjóðháttakynningu um seljabúskap á vettvangi. Mæting var við Ísólfsskála, u.þ.b. 7 km austur frá Grindavík á Krýsuvíkurleið. Gangan var liður í Menningar- og viðburðadagskrá Grindavíkur.
GönguleiðinFrá Ísólfsskála var haldið að Méltunnuklifi. Um það lá hin forna þjóðleið til Krýsuvíkur. Þaðan var gengið eftir nýlegri slóða á gömlu leiðinni um Leggbrjótshraun og inn með vestanverðum Núpshlíðarhálsi í Hraunsel millum Þrengsla.
Leiðin var greiðfær og tók um 3-4 klst með fræðslustoppum á völdum stöðum. Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík og að öllum líkindum einnig frá Ísólfsskála, enda selstaðan í hans landi. Þarna eru þrjár selstöður auk eldri selstöðu og tilheyrandi mannvirki.. Selstaðan er með yngstu seljum á Reykjanesskaganum, en hún mun líklega hafa lagst af árið 1914. Í selinu má sjá heillegar tóftir selsmannvirkjanna; baðstofu, búr og eldhús. Í selinu var áð og nesti borðað.
Leiðsögn var um seljabúskapinn og það sem fyrir augu bar á leiðinni. Í bakaleiðini var gengið yfir Skolahraun eftir selstígnum, niður með austanverðu Sandfelli og eftir Höfðasandi að gömlu Krýsuvíkurleiðinni um Méltunnuklif.
Lítið hefur verið skrifað um sel og seljabúskap hér á landi og mjög lítið á Reykjanesskaganum öllum, þrátt fyrir að enn megi sjá þar fjöldamargar sýnilegar selstöður (eða 250 talsins). Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur nútímafólkið beint við þá gömlu búskaparhætti, sem tíðkuðust um aldir eða allt fram á öndverða 20. öldina.
HraunFéð var yfirleitt haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í seljum voru smalinn auk selráðsmatseljunnar. Þar voru gerðir ostar, skyr, smjör og sýra úr mjólkinni. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.
Merki jarðarinnar Hrauns eru samkvæmt landamerkjabréfi dagsettu 17.06.1890 og þinglýstu hinn 20.06.1890, sem hér segir: „… úr miðjum ,,markabás” í fjöru er mark á klöpp er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þórkötlustaðir, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selvallafjall upp af Sogaselsdal, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkjum jarðarinnar Krísuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar Ísólfsskála, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru …“

 

Hraunssel

Samkvæmt þessu má segja að Hraunssel sé á hornmörkum Hrauns og Ísólfsskála. Selstöður voru reyndar mjög gjarnan á landamerkjum, einkum frá fyrstu tíð. Ekki er ólíklegt að þessir bæir hafi samnýtt selstöðuna um tíma því hvergi er að finna selstöðu frá Ísólfsskála, sem verður að teljast óvenjulegt því um fjárríka jörð var jafnan um að ræða. Skýringarinnar gæti verið að leita lengra aftur, eða allt frá því að Hraun var kirkjustaður. Þá átti Skálholtsstóll jörðina og hún verið nýtt sem hjáleiga frá Hrauni. Lítið er til af skráðum heimildum frá þessum tíma (á tímabilinu frá 12. til 17. aldar).
Samkvæmt Landnámu nam Molda-Gnúpur Hrólfsson land í Grindavík og hafa verið að því færð rök að það hafi verið í lok landnámsaldar eða á fjórða tug tíundu aldar. Ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu þrjár aldirnar. Hrauns er þó getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270. Skálholtsstaður eignaðist jörðina á 15. öld. Árið 1673 bjó þar Hávarður Ólafsson, sem gerði samning við Brynjólf biskup Sveinsson um að hann fengi að halda hluta kirkjunnar í reka á fjörum og greiddi í staðinn eina vætt fisks. Tilefni þessa samkomulags hefur ugglaust verið það að ekki hafi verið hjá því komist að hýsa jörðina að nýju. Heimildir frá 18. öld benda til að Hraun hafi á þeim tíma verið lök jörð og landskuld af jörðinni var aðeins hálft þriðja hundrað árið 1703.
Stekkur í HraunsseliÍ upphafi átjándu aldar var heimræði frá jörðinni árið um kring, en lending voveifleg samkvæmt Jarðabókinni 1703.
Árið 1703 voru á bænum auk bóndans og konu hans og tveggja barna ungra fjögur vinnuhjú. Á búinu voru 4 kýr, 30 sauðfjár og þrjú hross. Jörðin var þá í eigu Skálholtsstóls skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, bls. 9. Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Það gæti einnig skýrt fleiri en eina, eða allt að þrjár, selstöður í Hraunsseli.
Kirkja var á Hrauni allt frá miðöldum fram yfir 1600, en ekki er ljóst hvenær kirkja komst þar á. Í Fitjaannál 1602 segir frá því, að farist hafi með farmskipi Skálholtsstaðar utan við Þórkötlustaði 24 manneskjur og voru flestar jarðaðar í bænhúsinu á Hrauni. Kirkjan virðist hafa aflagst um það leyti.
Þegar kemur fram á 19. öld er sú breyting á orðin að Hraun er eitt mesta myndarbýlið í Grindavík og þar bjó sama fjölskyldan mestan hluta aldarinnar, sem var óvenjulegt í Grindavík.
SelstígurinnUm eða rétt eftir 1822 kom á jörðina Jón Jónsson og er hann í öllum heimildum talinn eigandi jarðarinnar. Hann var gildur bóndi. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Eru það fyrstu timburhúsin í hreppnum.
Í sóknarlýsingu 1840-1841 segir um Hraun: ,,Selstaða lángt frá en sæmilega góð.”
Í bókinni Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi (1982) segir að meðal hlunninda að Hrauni árið 1932 séu reki og útræði.
Í sóknarlýsingu Geirs Bachmann um afréttarland Grindavíkur segir á bls. 144 um Grindavíkursókn: ,,Ekkert er hér afréttarland…” með þessu á presturinn við, að allt land innan sóknarmarkanna og þar með einnig hreppamarkanna sé háð einkaeignarrétti, en ekki fyrirfinnist upprekstrarland í óskiptri sameign bænda. Hann bætir því við að allt sauðfé sé rekið í selið og þar smalað á hverju máli. Þar sem eru sel, þar er land ekki afréttur í neinum skilningi.
Um landamerki
Ísólfsskála segir í landamerkjabréf dags. 20.06.1890, þinglýst 20.06.1890: „…, úr fjöru við festargnípu við svonefndan Skálasand liggja mörkin til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, þaðan til austurs sem sjónhending ræður á miðja suðuröxl á Borgarfjalli, þaðan sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum jarðarinnar Krýsuvík, þaðan til suðurs eftir löngugörn meðfram sömu landamerkjum að Dágon kletti á kampinum fyrir vestan Selatanga, þaðan sama sjónhending fram í stórstraumsfjöruborð, einkennismerki markasteinsins er L.M……“

Hraunssel

Hraunssel.

Hér er landeigendur sammála um hornmarkið við Hraunssel og má leiða að því líkum að það hafi jafnan verið þrætulaust, enda enginn ágreiningur með Hrauns- og Ísólfsskálabændum um landamerki þeirra. Ágreiningur hefur hins vegar verið með Ísólfsskála- og Krýsuvíkurbændum um mörkin.
Um Hraun segir í Jarðabókinni 1703: ‚‚Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ Í örnefnalýsingu fyrir Ísólfsskála segir:
 „Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur sem Hraunssel heita.“
Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir: „
Norðan við Höfðann, aðskilið af mjóu skarði, er Sandfell. Um þetta skarð liggur gata, sem lá um sunnanvert Þráinsskallahraun (Skolahraun) austur í svonefnd Þrengsli, en það er grasræma eða lægð, sem myndast milli Núpshlíðar að austan og hraunsins að vestan. í Þrengslum þessum eru rústir eftir Hraunssel. Þar var haft í seli endur fyrir löngu frá Hrauni.“
Gamla KrýsuvíkurleiðinÍ annarri örnefnalýsinu fyrir Hraun segir:
Á einum stað að sunnanverðu nær hraunið upp að fjalli og heitir þar Þrengsli. Þar fyrir sunnan eru tættur af gömlu seli frá Hrauni og heitir þar Hraunsel.“
Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatns-leysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla.“
Hraunssel voru skoðuð árið 2001: „Eftir að hafa skoðað stekkinn í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóftir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tóft, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Tóftin er orðin jarðlæg og mosi tekinn að vaxa í henni. Ekki er hægt að greina húsaskipan. Sunnan við hlaðna stekkinn er annar mun eldri. Verður því þetta seinna sel nefnt Hraunssel eldra, en þau sem ofar eru, undir hlíðinni, nefnd Hraunssel yngri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Stök hús eru norðan við selið, sennilega kúaskjól að hluta.
Yngra selið geymir einar heillegustu tóftir á Reykjanesskaganum, enda heimildir um að það hafi að öllum líkindum verið síðast selja til að leggjast af. Veggir standa heilir og grónir. Grjóthleðslur sjást í veggjum. Stekkurinn er skammt vestar og sjást hleðslur hans og lögun mjög vel. Vatn er í grunnu gili sunnan við selið.
Eftir að hafa lýst minjunum og rifjað upp verklag í seli var selstígurinn fetaður til vesturs yfir Skolahraunið….
Gangan tók 4 klst. Frábært veður.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

 

Litla-Skógfell

Stefnan var tekin á Skógfellaveginn, gamla þjóðleið milli Voga og Grindavíkur. Vegarkaflinn er u.þ.b. 16 km langur, en greiðfær og augljós, enda er hann bæði varðaður alla leiðina og auk þess hefur hann verið stikaður í seinni tíð.
Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, er m.a. fjallað um Skógfellaveginn. VarðaÞar segir: „Í lægðinni við Stapahornið og ofanvið Reykjanesbrautina [nú ofan gangna undir brautina] sjáum við fyrst móta fyrir Skógfellavegi sem var fyrrum þjóðleið til Grindavíkur. Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur, Vogavegur (það nafn notuðu Grindvíkingar), Sandakravegur, Sandakadalsvegur og Sandhálsavegur. Af Suðurlandi og víða var öldum áður sótt skreið til Suðurnesja og menn fóru þangað í fiskiver. Á þeim tímum var Sandakravegur notaður enda djúpt markaður í klappir en með breyttum atvinnuháttum lagðist hann af.

Háibjalli

Háibjalli.

Á kortum og í örnefnaskrám er getið um Sandakraveg eða Sandakradalsveg. Leiðin er sögð kljúfa sig út úr Skógfellsvegi á brún Stóru-Aragjár (sjá hér á eftir), sveigja til suðausturs upp að Fagradal og Fagradalsfjalli að vestanverðu og síðan áfram suður úr milli hrauns og hlíðar. Það hefur engin þjóðleið fundist á þessum slóðum en fyrir neðan Stóra-Skógfell greinist Skógfellaleiðin í tvær og liggur önnur í átt að syðri hluta Fagradalsfjalls, þ.e. Kasti. Þarna er hinn eini sanni Sandakravegur eða í það minnsta hluti hans. Til þess að ákvarða götur sem gamlar þjóðleiðir verða að finnast um þær heimildir svo og að sjást á þeim einhver mannanna verk eins og vörður, útkast eða för á klöppum.

Skófellavegur

Björn Gunnlaugsson skráði Sandakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn stikaður frá vesturenda Vogastapa (Innri-Njarðvík) yfir Skógfellahraun að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls og síðan áfram suður úr. Lengi vel var talið að vegurinn lægi áfram frá Litla-Skógfelli eða sunnan þess vestur til Seltjarnar og svo þaðan í Njarðvík og hans var leitað á þeim slóðum en fannst ekki. Fyrir fáuum árum fannst loks vestasti hluti Sandakravegar eða sá spotti sem liggur frá Snorrastaðatjörnum og upp undir vegamót Grindavíkurvegar en þar hverfur hann í uppblástur og rask.
Þeir sem fóru um Sandakraveg á leið til Suðurnesja áðu við Snorrastaðatjarnir en ekki Seltjörn og héldu síðan yfir Bjallana og inn á Gamla-Stapaveg nálægt eða við Mörguvörður. Skógfellaleið hefur nú verið stikuð og liggur austan við Litla-Skógfell og Stóra-Skógfell sem er í Grindavíkurlandi. Skógfellaleiðin lagðist af um 1918 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur en enn má rekja sig eftir vörðunum alla leið „upp eftir“ eins og hér var og er málvenja að segja. Skógfellaleiðin eins og hún er í dag sést fyrst á landakorti frá árinu 1910.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar.

Við upphaf Skógfellavegar við Stapahornið er Lágibjalli eða Litlibjalli og í framhaldi af honum til suðvesturs er Háibjalli. Hann er sá austasti af fimm slíkum sem ganga út úr Vogastapa til suðvesturs. Við Háabjalla er nokkur skógrækt. Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík hóf skógrækt sunnan undir Háabjalla árið 1949 en ári áður höfðu bændur í Vogum gefið félaginu 15 hektara lands undir starfsemina. Upp úr 1960 tók Skógræktarfélag Suðurnesja við ræktuninni og loks var reiturinn afhentur Skógræktarfélagi Íslands. Nú tilheyrir þessi 60 ára trjáreitur Skógræktar og landgræðslufélaginu Skógfelli sem stofnað var af hreppsbúum árið 1998.“
Í lýsingu Skógfellavegar segir: „Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Vogum, Strönd og Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, Litla-Skógfelli og Stóra-Skógfelli sem standa rétt við götuna með nokkru millibili um miðja vegu til Grindavíkur.
SkógfellavegurNafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur, þ.e. sá hluti sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra-Skógfelli en þar eru vegamót. Sandakravegur heldur svo áfram í átt að Kasti í Fagradalsfjalli en Skógfellavegur til Grindavíkur. [Við Sundhnúk greinist Skógfellavegur hins vegar í þrjár leiðir; niður að Hrauni, að Þórkötlustöðum og að Járngerðarstöðum.]
Í sóknarlýsingu séra Péturs Jónssonar á Kálfatjörn frá árinu 1840 segir: „Norðan við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætir ofan Stapans, 3 tjarnir, sem heita Snorrastaðatjarnir.“ Séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík segir í sinni lýsingu: „Yfir þau [hraunin út frá Grindavík] liggja 4 aðalvegir, þrír þeirra til Keflavíkurkaupstaðar og einn til Hafnanna. Sá norðasti kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun (bær í Grindavík), fram hjá Fiskidalsfjalli og Skógfellunum, sem öll er að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Á korti frá árinu 1910 er Sandakravegur sagður liggja frá Vogum til Grindavíkur en út úr þeirri leið við Stóru-Aragjá er merkt önnur leið, nafnlaus, og liggur sú til Fagradalsfjalls og áfram. Á nýrri kortum heitir gamla þjóðleiðin til Grindavíkur Skógfellavegur en nafnið Sandakravegur hefur færst yfir á slóðann nafnlausa (sem reyndar finnst ekki) sem fyrr er getið um. Allt um það þá er nafnið Skógfellavegur fullgilt í dag og hefur skapað sér sess í tugi ára meðal Suðurnesjamanna og útivistarfólks. Vegurinn lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður frá Stapanum til Grindavíkur.
VarðaSamkvæmt nákvæmum athugunum er engin gömul þjóðleið á svæðinu frá Stóru-Aragjá og að Fagradalsfjalli og því síður leiðarvörður og hefur þessi misskilningur um götu (Sandakraveg) þarna því miður fest rætur. Víst getur þó verið að þarna um hafi menn stytt sér leið yfir sumartímann og þá þeir sem voru á leið austur í sveitir frá Suðurnesjum og öfugt. Þeir sem reyna að greina þjóðleiðir í hraununum frá öðrum götum, t.d. smala- eða kindagötum, þurfa að finna nokkur mannaverk á slóðinni, t.d. hófför í klöppum, úrkast eða nokkrar vörður. Engin mannaverk – líklega ekki þjóðleið.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – skilti.

Við hefjum gönguna um Skógfellaveg rétt ofan við Reykjanesbrautuina við austasta hluta Stapans en þar er vegvísir á götuna. Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar og því var það þarft verk að stika þennan hluta leiðarinnar svo gatan tapaðist ekki alfarið. Við fylgjum stikunum og komum fljótlega að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og um það austarlega liggur gatan en holtið er suðaustur af Snorrastaðatjörnum. Undir Nýjaselsbjalla austan götunnar eru litlar seltóftir undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn sitt af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni en þeir verða okkur ekki til trafala, enda auðeldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til strandar. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir hana er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Á þessum slóðum liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjarðri Skógfellahrauns.
SandakravegurinnVið gerum smá lykkju á leið okkar, förum spölkorn með gjánni og skoðum Pétursborg, sem stendur á barmi Huldugjár. Borgin er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.
Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokuð óljós á kafla en greinileg þar sem hæun liggur yfri Aragjá. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjárbarminum.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá (Aragjá).

Þegar líður á gönguna verður gatan greinilegri og næsta gjá sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar stendur myndarleg varða sem heitir Aragjárvarða. Þarna við vörðuna heitir gjáin Brandsgjá en saga hennar er eftirfarandi: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson (1862-1955) bóndi á Ísólfsskála á leið heim úr Hafnarfirði með tvo hesta og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn um kl. 17:00 eftir að hafa heimsótt Bensa vins sinn í Vogum og ætlaði síðan inn á Sandakraveg og niður á Ísólfsskála. Veður versnaði þegar leið á kvöldið og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan trússhestinum og hann hrapaði ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt Móskjóna utan við klifið og fór að aflífa þurfti hestinn í gjánni, síðan heitir þar Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og varð örkulma. Í kjölfar þessa hörmulega slyss brugðu þau hjónin búi.
BrandsgjáFyrir ofan Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.
Á hægri hönd eru Krókar, hraunhólar, eða kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegan greinum við hana ekki frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur þakinn mosa og heitir sá Msoadalur eða Mosadalir.
Við austurrætur Litla-Skógfells þurfum við að klöngrast yfir haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar“ um skriðugrjót og grasteyginga.  Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus. Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið við vaxið endur fyrir löngu. Nú er hafi trjárækt við Litla-Skógfell á vegum skógræktarfélagsins Skógfells í Vogum. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustarndarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við. [Hér er komið í land Þórkötlustaðabænda.]

Skógfellastígur

Varða við Skógfellaveg.

Frá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn“ framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mósagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hestahófa.
Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól.
„Eins og fyrr segir gengur Sandakravegur út úr Skógfellaleið rétt neðan Stóra-Skógfells og stefnir á Kastið og Syðri-Sandhól en hólinn stendur við rætur þess að vestan.
BirkigróningarLeiðin þarna á milli er um 3 km. Sandakravegur virðist hafa lagst af að mestu löngu áður en hætt var að nota Skógfellaleiðina. Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála notaði þó Sandakaraveginn eftir aldamótin 1900 og líklega hefur Ísólfsskálafólkið verið einu vegfarendurnir á þeim tíma enda breytt þjóðlíf með breyttum samgöngum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Mikil umferð hefur verið um þessa götu fyrrum því djúp hófför sjást í klöppum og hún hefur verið vörðuð þó vörðurnar séu nú hrundar. Ef til vill hafa þær verið eyðilagðar af mannavöldum til þess að fólk villtist ekki af Skógfellaleið yfri á Sandakraveg. Þarna gæti verið komin skýring á nafnbreytingunni því líklegt er að sú leið sem mest var farin í upphafi, þ.e. Sandakravegurinn, hafi verið aðalleið austanmanna milli Fagradalsfjalls og Stapans. Leiðin sem lá til Grindavíkur hefur frekar verið aukavegur út frá alfaraleið en skipt svo um hlutverk við Sandakraveginn á seinni tímum.

Varða

Sandhólar er örnefni vestan Fagradalsfjalls og austanmenn hafa lagt á hraunið við Syðri-Sandhól. Eki er ólíklegt að fleiri örnefni tengd sandi, s.s. Sandakrar, hafi verið á þessum slóðum.“
Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna er fallegur, djúpt markaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæð og er stutt ganga frá fellinu í gígana og þá um leið yfir á Grindavíkurveg. Á henni er Arnarsetur, gígur Arnarseturshrauns frá árinu 1226. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska, s.s. Sandhól og Kast. Görnin er handan Kasts.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgíginn, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðalgígurinn og stendir hann norðan við Hagafel. Þegar komið er fram hjá Hagafelli að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spölkorn neðar greinist leiðin til „allra átta“ um gamalgróin hraun niður til bæja.
Göngferð eftir Skógfellaveginum tekur 5-6 stundir með hvíldum og trúlega er skemmtilegra að ganga hann frá suðri til norðurs því útsýni er á víðáttumeira og spannar lengri tíma ferðarinnar.“
JökulsorfnarFramangreind lýsing er ágæt, en sem göngulýsingu má bæta hana verulega. Í fyrsta lagi er „betra“ að ganga Skógfellaleiðina eins og henni er lýst hér að framan – frá Vogum til Grindavíkur. Tilbreytingalausasti og langdregnasti kaflinn er í raun Vogakaflinn. Leiðin er grjótþakin og liggur í ótal hlykki um móa og gróið Þráinnskjaldarhraunið. Tilbreytingin felst í gjánum, sem hver tekur við af annarri; fyrst Huldugjá (Huldugjárvarðan) með Pétursborg ofanvert, þá Litla-Aragjá (varða) og Stóra-Aragjá (Brandsgjá) (Aragjárvarða). Reyndar eru vörðurnar tvær ofan við Brandsgjá (Stóru-Aragjá). Milli gjánna er hvalbak, ummerki elsta bergsins (um 200.000 ára) á svæðinu er annars má sjá á Stapanum neðra. Á því má sjá jökulrispur ísaldarskeiðsins.
GullkollurVið vörðu (þar sem gatan beygir til suðurs) má, ef grant er skoðað, sjá gamla götu. Hún er torséð, en þegar komið er að brún Nyrðri-Mosadalagjár svolítið norðar, smá sjá hvar gata hefur legið niður með gjánni og síðan hlykkjast um Mosadal[i] að Syðri-Mosadalagjá. Syðst við gjárvegginn þar er gata upp á gjárbraminn. Þar beygir hún til norðausturs, inn á svonefnda Aura. Þar er varða. Um Aurana hefur leiðin legið inn í Fagradal og áfram suður með vestanverðu Fagradalsfjalli. Þarna getur verið kominn misskilningurinn um Sandakraveginn á þessum slóðum, en að öllum líkindum hefur hér verið um undantekningalegan stytting að ræða hjá kunnugum eins og fram kemur í lýsingu SG. Bæði í Mosadal og ofan við Syðri-Mosadalagjá er leiðin hins vegar ótrúlega greið inn að Nauthólum í Fagradal. Gæti það hafa valdið því að einhver hefur viljað færa álitlegan veginn þangað og ekki vitað betur um raunverulega legu hans inn á milli Skógfellanna.
Þegar Skógfellavegurinn (Sandakravegurinn) er skoðaður milli Skógfellanna má annars vegar sjá vel markaða götu í slétta hraunhelluna og hins vegar engin ummerki eftir slíkt. Ástæðan eru „vörðuskógurinn“. Vörður þessar voru endurhlaðnar af vinnuskólaunglingum fyrir u.þ.b. 10-12 árum síðan. 

Skógfellavegurinn

Svo virðist sem vinnugleði hafi gripið hópinn á stundum. Sumar vörðurnar eru ekki hlaðnar við hina gömlu götu, heldur mun vestar. Síðan hefur fólk fetað leiðina með vörðunum og markað nýja. Hin forna þjóðleið liggur nú á köflum í grámosanum úrleiðis. Þörf væri á að marka gömlu götuna í mosann með það fyrir augum að endurheimta hana þar sem hún er raunverulega mörkuð í hraunhelluna. Um er að ræða dýrmætar minjar, sem helst mega ekki fara forgörðum vegna athyglis- og/eða áhugaleysis hlutaðeigandi yfirvalda.
Á merktum stikum við Skógfellaveginn (Sandakraveginn) er t.d. komið að gatnamótum, annars vegar Skógfellavegar og hins vegar Sandakravegar. Í raun eru gatnamótin nokkru norðar. Það sést vel á hinum grópuðu götum. Af ummerkjum að dæma er ljóst að Sandakravegurinn hefur verið meginleiðin, allt frá Vogum, og áfram áleiðis að Ísólfsskála (Selatöngum). Sunnan gatnamótanna hverfa grópanirnar og því má ætla að sú leið hafi verið áfangi inn á meginleiðina gömlu.
SkógfellavegurHandan, í austri, er Kastið. Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar 4. maí árið 1943, kl. 16:20. Flugvélin var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl ofan við Keflavík. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Hlutar flugvélarinnar eru á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Flugvélin skall á hlíðinni ca. 1/5 neðan við efstu brún. Þar má sjá leifar, s.s. bráðið ál utan um grjótmola, en hlíðin öll er skriða með litlum steinhnullungum. Þarna neðan við og til hliðanna má sjá ýmsa vélarhluta.

Um borð í vél þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.

Kastið

Á slysstað í Kastinu.

Eftirminnilegar ljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.
Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.

Slysavettvangur

Flugvélin hafði verið að koma frá Bretlandi. Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Flugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs. Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.

Andrews

Andrews – minnismerki.

Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., „Hap“ Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.
Árið 2001 var haldin minningarathöfn þarna á staðnum. Til stendur að setja þar upp minnismerki um atburðinn.

Undir hlíðum Litla-Skógfells má sjá breiður af brönugrasi. Birkið hefur tekið við sér að nýju eftir sauðfjárfriðun svæðisins svo segja má að lengi lifi í gömlum glæðum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – kort ÓSÁ.

Undir Sundhnúkagígaröðinni sunnan Stóra-Skógfells tekur við Sprengisandur. Dalahraun er austar. Vatnshæðin (-heiðin) er sunnar. Um er að ræða dyngjuhæðir vestan Fiskidalsfjalls og Húsafjalls. Sunnan Sprengisands eru þrenn gatnamót; leið að Hrauni, leið að Þórkötlustöðum og leið að Járngerðarstöðum, hver önnur álitlegri. Þó má segja, án allrar hlutdrægni, að leiðin niður að Þórkötlustöðum er bæði sú greiðasta og fallegasta á leiðinni.

Heiðarvarðan, ein af þremur innsiglingavörðum inn í Hópið blasir við neðanvert. Hún hafði fallið að hluta, en FERLIRsfélagar endurreistu hana fyrir nokkur árum.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007

Skógfellavegur

Skógfella- og Sandakravegur.

Hafnir

Í bók Guðna Jónssonar, Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII, er m.a. fjallað um „Brúðarránið“ svonefnda. Erlendur Marteinsson er heimildarmaður og segir hann frá því þegar séra Oddur V. Gíslason, nam konu þá er hann elskaði, á brott frá Kirkjuvogi í Höfnum og flúði með hana til Reykjavíkur einn fagran haustdag árið 1870. Í frásögnum hefur brúðarrán þetta verið sagt hafa verið það „mesta“ er um getur hér á landi. Frásögnin er svona:
Oddur„Síra Oddur V. Gíslason var bráðgáfaður maður og þar eftir skemmtilegur í allri umgengni. Einnig lá honum allt í augum upp á veraldlega vísu. Var hann hugvits – og hugsjónarnaður, en ekki að sama skapi heppinn með áform sín. Eitt af því, sem hann gerði tilraun með, líklega fyrstur manna hér á landi, var að gera þorskalifur að verðmætri vöru, bræða úr henni lýsi. Sigldi hann til Englands í þeim tilgangi að læra lýsisbræðslu, en setti sig síðan niður suður í Höfnum, því þar var þá einn mestur merktarmaður Vilhjálmur Kristinn Hákonarson bóndi í Kirkjuvogi. Þar settist Oddur að. Vilhjálmur átti dóttur þá, er Anna hét. Var hún forkunnar fríð og myndarleg og eftir því góð stúlka. Brátt felldu þau Oddur og Anna hugi saman, og kom svo, að þau bundust heitorði með samþykki foreldra hennar.
Nokkur síðar sigldi Oddur öðru sinni til frekari ráðagerða við Englendinga. Hafði hann nú í hyggju að kom aupp postulínsvinnslu á Reykjanesi, og gat hann komið svo málum sínum við enska menn, að þeir lögðu fram fé nokkurt, og var gerð tilraun með postulínsbræðslu. En hvað sem olli, fór tilraun þessi út um þúfur og varð engum að notum. Þá er svo var komið, tók Vilhjálmur karl að snúast á móti ráðahag Odds og Önnu. Hann var þannig gerður, að hann kunni betur við að sjá arð af því, sem í var lagt, og mat menn mjög eftir því, hvernig þeim gekk að afla fjár, eins og einkennt hefir ríkismenn bæði fyrr og síðar. Þar við bættist, að Oddur fór um sinn að blóta Bakkus meira en góðu hófi mundi gegna. En tryggð Önnu helzt óbreytt eftir sem áður.

Kirkjuvogur

Nú líður svo nokkur tími, að tvísýnt þótti um, hvort Oddur og Anna fengju að njótast sökum ofríkis föður hennar. Þá var það einn fagran haustdag í byrjun jólaföstu, að Vilhjálmur bóndi í Kirkjuvogi lá fyrir dýr suður á Reykjanesi. En er rökkva tók, verður fólk í Kirkjuvogi vart við það, að Anna er horfin og sjást engin merki um burtför hennar, nema föt hennar utast og innst fundust úti á kirkjulofti. Er Önnu nú leitað á bæjum þar í Höfnum, en enginn hafði orðið hennar var. Þá er hennar leitað með sjónum og í útihúsum, ef vera kynni, að hún hefði gripið til örþrifaráða, en leitin bar engan árangur. En um kvöldið á vöku kemur Gunnar bóndi Halldórsson í Kirkjuvogi heim, en hann hafði legið fyrir dýr inni í Ósabotnum um daginn. Hann segir þau tíðindi, að ekki muni þurfa að óttast um Önnu, því að Oddur muni vera kominn með hana inn í Voga. Segist hann hafa mætt tveim mönnum á heiðinni, sem að vísu hafi verið búnir sem karlmenn, ern þar muni Anna þó verið hafa reyndar. Eru nú sendir þrír eða fjórir menn á eftir þeim Oddi.
VarðaEn er þeir koma inn á heiði, hita þeir mann með söðulhest. Þeir spyrja hann erinda, en hann segist vera að bíða eftir Oddi Gíslasyni, hann sé að sækja kvenmann suður í Hafnir og eigi hún að ríða hestinum. Sjá nú hvorir tveggju, að þeir eru gabbaðir, og snúa hvorur sína leið. En af Oddi og Önnu er það að segja, að þau fara rakleitt inn í Njarðvíkur til Björns bónda í Þórukoti. Flýtur þar í vörinni sexmannafar með allri áhöfn. Er ekki að orðlengja það, að undin eru upp segl og siglt til Reykjavíkur um nóttina.
Oddur hafði svo ráð fyrir gert, að maður væri sendur þegar í stað úr Njarðvíkum suður að Kirkjuvogi til þess að segja foreldrum Önnu, hvað komið var. Til ferðar þessarar var valinn Björn nokkur Auðunsson, hávaðamaður og svakafenginn nokkuð. Hann kemur að Kirkjuvogi, 
er búið var að loka dyrum. Guðar hann því á glugga, kallar inn og segir: „Þið þurfið ekki að spyrja um hana Önnu. Hún er komin til Reykjavíkur með Oddi V. Gíslasyni“.
KirkjuvogskirkjaVilhjálmur bóndi, sem var nú kominn heim og var í mjög æstu skapi, tók fregn þessari svo, að hann þreif til byssu sinnar og gerði sig líklegan til skjóta út um gluggan á sendimanninn. Hin góða og hægláta kona hans, Þórunn Brynjólfsdóttir prests á Útskálum, gat þó afstýrt þessu tiltæki manns síns. En Vilhjálmur lagðist í rúm sitt og lá síðan lengi vetrar og varð raunar aldrei samur maður eftir þetta, svo stórt var skap hans. Það skal þó tekið fram, að Oddur sættist fullum sáttum við tengdaforeldra sína, og Anna fékk fullan arf, þegar þar að kom, en sú var venja á þeim tímum, ef börn gerðu stórlega á móti vilja foreldra sinna, að svipta þau arfi.
Þau Oddur og Anna giftust á gamlársdag 1870, og var Oddur síðar prestur í Grindavík og þjóðkunnur maður fyrir baráttu sína fyrir slysavörnum á sjó og rit sín og leiðbeiningar um þau efni. Síðar fluttist hann til Vesturheims, stundaði þar prestsstörf og lækningar og andaðist í Winnipeg 1911. Eignuðust þau hjón mörg börn og efnileg.
Að lokum vil ég bæta því við, að atburður sá, sem hér er sagt frá, er mér í fersku minni, þó að ég væri þá aðeins 6 ára drengur í Merkinesi í Höfnum. En Þau Odd og Önnu þekkti ég persónulega að öllu góðu.“

(Handrit Guðlaugs E. Einarssonar í Hafnarfirði veturinn 1934-35 eftir frásögn Erlends Marteinssonar frá Merkinesi, síðar að Kirkjuvegi 10 í Hafnarfirði).

Heimild:
-Guðni Jónsson, Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII, 1934-35, bls. 126-129.
Hafnir

Kistufell
Fregnir höfðu borist af a.m.k. tveimur álitlegum og áður ómeðvituðum götum í Kistu í Brennisteinsfjöllum.
Stefnan var því tekin síðdegis upp úr Fagradal, út (austur) með hraunbrúninni ofan hans og inn á slétt helluhraun Eldborgar. Kistan blasti við í langri fjarlægð, mitt á milli Kistufells í norðri og Eldborgar í suðri. Þátttakendur voru léttbyrgðir, enda farið hratt yfir. Þarna hefðu reiðhjól komið sér vel til að flýta för því hraunhellan var næsta slétt alla leið upp að fjallsrótum Kistu.
Síðdegissólin var byrjuð að gylla fjöllin, sem færðust óðfluga nær. Þessi nálgun Brennisteinsfjalla er ein sú tilkomumesta; fallegt útsýni með rauðleitum eldborgum nánast alla leiðina, ólík hraunsvæði á báðar hendur, „svartur“ helluhraunsdregill Kistuhrauns fyrir fótum undirvert og heiðblár himininn ofanvert. Brennisteinsfjallasvæðið hefur hingað til ekki verið aflögufært með vatn, en á þessari leið eru vatnsstæðin í grónum hraunbollum allnokkur.
Brennisteinsfjöllin eru með áhugaverðari útivistarsvæðum landsins. Sem dæmi um áhugaleysið, sem þeim hefur verið sýnd, má benda á kort af svæðinu, en á þeim virðast fjöllin vera eyðimörk. Fjölbreytni jarðmyndana, gróðurbreytingar og formfegurð náttúrunnar eru þó óvíða meiri en einmitt þarna. Þá hefur jafnan verið haldið fram að Brennisteinsfjöll væru erfið yfirferðar vegna vatnsskorts, en það er nú öðru nær. Auðvelt er að nálgast vatn í fjöllunum, hvort sem um er að ræða ofan jarðar eða neðan.
Í þessari ferð uppgötvuðust m.a. tvær rásir með nokkrum jarðföllum, önnur nálægt 3 km löng úr vestari Kistugígnum og hin til hliðar við meginrás Kistufells hrauntraðarinnar. Reyndar eru hrauntraðir Kistufellsgígsins tvær. Sú vestari er vel gróin, en stutt, en sú austari er mikilfengleg eftir að hún opnast á hraunsléttunni norðvestan fellsins. Af stærðinni að dæma má ljóst vera að þarna hafi farið um mikill hraunmassi í fljótandi formi. En meira um það síðar.
Auk þessa uppgötvuðust nokkur op á mismunandi stórum hellum. Allt var þetta skráð samviskusamlega og fært í „hellaskrána“, sem nú telur rúmlega 400 hella á Reykjanesskaganum.
Eftir þessa ferð í Brennisteinsfjöll er ljóst að fjallgarðurinn beggja vegna er líkur götóttum osti. Ef vel er gáð má finna op niður í rásir hvar sem stigið er niður. Stærstar eru rásirnar norðvestan Kistufells, en þar eru hellarnir líka stystir, en umfangsmiklir. Lengstar eru rásirnar úr vestanverðum Kistugígnum, eða um 3 km eins og áður sagði. Rásin er hins vegar á svæði, sem hvað „afskekktast“ er í Brennisteinsfjöllum. Hliðarrásin í meginrás Kistufellsgígs er geysistór, en ókönnuð. Vatn er á gólfi hennar fremst svo vaða þarf inn í hana. Engin op er að sjá á henni norðan meginopsins.
Skemmtilegasta atvikið, og það er sannfærði leiðangursmenn um að þarna hefðu verið menn fyrrum, var innan við eitt af stærstu opum Kistuhraunshellanna (3 km). Undir hellisveggnum var rautt bitabox, bambusstafur og nokkrar stuttar fjalir. Þegar bitaboxið var opnað komu í ljós nokkrir litlir timburstafir, sérhver merktur með tölustöfum sem og tveir tússpennar (sjá mynd). Líklega hafa einhverjir verið að merkja jarðföllin í rásinni og annaðhvort gleymt kassanum og öðru, sem þarna var, eða ákveðið að geyma það þarna. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um tilganginn og annað er laut að framkvæmdinni. Við boxið var lítil þrýhyrnd seglveifa. Skammt ofar í rásinni var hið gerðalegasta vatnsstæði.
 Rásinni var fylgt upp hraunið, alla leið að rótum Kistuhrauns. Á henni eru fjölmörg op og víða hrun í rásum svo ekki er hægt að tala um samfelldan helli frá fyrsta jarðfalli til upphafsins, en rásin er í heildina a.m.k. 3 km sem fyrr er á um kveðið.
Þegar upp í vestanverða Kistu var komið var punktur tekinn á Snjólf. Fyrst var þó talin ástæða til að koma við í eldborginni norðan undir hlíðum Háborgarinnar (þeirrar er trjónir hæst), austan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum, sem lætur minna fyrir sér fara, en hefur gefið hvað mest fóður af sér.
Frá brún eldborgar sést vel til Vestmannaeyja og Eyjafellsjökuls í austri og Hálsanna (Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) í vestri. Í raun má segja að þarna sé eitt stórbrotnasta útsýni sem hugsast getur (í góðu skyggni).
Þá var kíkt á og niður í Lýðveldishelli. Rásin ofanverð er bæði heilleg og auðvel uppgöngu. Í heild er hellirinn um 200 metrar. Skammt austan við opið er annað op á annarri samhliða rás. Hún var ekki skoðuð að þessu sinni, heldur var stefnan tekin á Snjólf. Opið er þarna skammt norðar. Það lætur lítið yfir sér, er bæði lágt og lítið. En þegar farið er undir hraunbrúnina að sunnanverðu og vent til austurs koma í ljós fallegar rásir, bæði til austurs og norðvesturs. Dropsteinar eru á gólfum, einkum í vestlægari rásinni. Einn er t.a.m. ca. 40cm hár og nokkrir aðrir standa þar þétt við hann. Dropsteinshellar eru sjaldgæfir í Brennisteinsfjöllum og því er þessi litli, en netti, hellir kærkominn – þar sem hann er. Hraunstrá eru í loftum.
Leitað var að tveimur opum í Kistu, sem spurnir höfðu borist af. Annað reyndist nánast efsti hlutinn af fyrrgreindri 3 km rás úr vestari hluta Kistu og hitt reyndist vera nánast efsti hluti af rás úr austari hluta Kistu. Hið síðarnefnda var op niður í stóra rás, en stutta (vegna hruns). Rásinni var fylgt spölkorn til norðvesturs og má telja nokkur lítil op á henni. Hún er þó í heildina fremur stutt (á Brennisteinsfjallamælikvarða).

Þegar rás var rakin upp til rótar vestari Kistugígs komu í ljós nokkur op. Eitt af þeim efri var sérstaklega áhugavert. Greinilegt var að enginn hafði farið þangað inn áður. Einstaklega fagurrauðir separ voru í loftum og rásin reyndist öll hin rauðasta. Þessi hluti var nefndur „Fagurrauður“. Hann er skammt neðan við KIS-04, en ekki er samgangur þarna á milli. Fagurrauður gæti því verð rás til hliðar við KIS-04. Þegar sá hellir var skoðaður komu í ljós einir tilkomumestu „hraunsveppir“ er um getur.
Stefnan var tekin á Kistufellshella. Til að komast þangað var að fara yfir norðaustanvert Kistuhraunið og síðan yfir vestari hrauntröð Kistufellsgígsins. Hún er vel gróin. Kistufellshellarnir eru í geysistórum jarðföllum, sem þó mynda hvergi ákveðna heild. Um er að ræða grágrýtishella, stóra, en án sérstakra myndana. Mikið hrun er í mörgum þeirra. Áhugaverðastur af þeim er Jökulgeimur, íshellirinn, en ekki var farið niður í hann að þessu sinni. Sennilega er myndun hans komin af því að opið snýr mót norðri svo sólin nær ekki að skína inn um það og verma innvolsið. Snjóskafl var enn við opið – og það í júlí.
Leitað var tveggja opa á sléttri hraunhellu skammt frá austari hrauntröð Kistufellsgígsins. Þessi op, tveggja ferfaðma að stærð með ca. 15-20 metra niðurhali, fundust í einni FERLIRsferðinni fyrir nokkrum árum (fyrir tíma GPS-tækjanotkunar), en þrátt fyrir leit á líklegum stöðum endurfundust þau ekki að þessu sinni.
Hrauntröðinni var fylgt til vesturs. Í fyrstu er hún lítil og gróin í botninn, en skyndilega stækkar hún til muna. Austan stækkunarinnar fundust nokkur op á myndarlegum rásum. Ein þeirra var sérstaklega áhugaverð. Þar var tekinn GPS-punktur. Hliðarrás opnast og innan við opið er stór og mikil rás. Vatn er á gólfi svo henni var ekki fylgt inn eftir að þessu sinni. En það mun verða gert innan ekki langs tíma.
Í BrennisteinsfjöllumLjóst er að hliðarrásinar hafa loks runnið saman þar sem megin hrauntröðin opnast. Þar hefur farið um gríðarlegur hraunkvikumassi. Hraunbrú er yfir tröðina nálægt þar sem hún opnast og nokkur hellisop má sjá við brúarskil neðar. Forvitnilegt er að horfa eftir endaþarmi rásarinnar þar sem Kistuhraunið (sem er nýrra) hefur náð að renna að henni og færa hluta þess undir sig.
Þokuslæðingur hafði færst yfir Fjöllin og gerði hið smæsta dulúðlegt við hina minnstu ásýnd. Haldið var niður eftir hinu slétta Kistuhrauni uns komi var að brún Fagradals. Fótur var þræddur niður mosavaxna suðurhlíða hans og gamalli götu síðan fylgt að upphafsstap.
Á göngunni mátti greina grópaðan götustubb á einum stað í Kistuhrauni. Gæti þar verið um að ræða hina gömlu leið Stakkavíkurbræðra með rjúpnafeng sinn til sölu í Hafnarfirði er Þorkell og Eggert Kristmundssynir lýstu á sínum tíma. Þá var farið upp með Eldborginni, er blasir við, og niður Fagradalsmúla. Þessi götustubbur er einmitt á þeirri leið.
Segja má með góðri samvisku að enginn hafi í raun komið í Brennisteinsfjöll hafi hann ekki farið um Fagradal og Kistuhraun.
Gangan tók 6 klst og 60 mín. Meðalhraðinn var 3.2, en á göngu 3.9. Samtals voru gengnir 21.5 km, sem verður að teljast nokkuð gott á 7 klst. Frábært veður – og birtan einstök.

Hellir

Sandfellshæð

Hér er ætlunin að geta tveggja merkilegra jarðfræðifyrirbrigða skammt vestan Eldvarpa ofan við Grindavík. Annað er Sandfellshæðargígurinn og hitt er gígurinn austan við Lágafell sunnan Þórðarfells. Hvorutveggja eru verðug skoðunnar, enda aðgengileg þeim er áhuga hafa.

Sandfellshæð - dyngjan

Nútímahraun nefnast þau hraun sem upp hafa komið eftir að jökla leysti á Reykjanes-skaganum, líklega fyrir 12-13 þúsund árum. Venja er að skipta hraununum í tvo flokka eftir uppruna og útliti: Dyngjuhraun, sem eru dæmigerð helluhraun úr þunnum hraunlögum, slétt, reipótt og með ávölum hraunhólum, oft með alldjúpum sprungum í kollinum. Bergið er gráleitt og með brúnleita veðrunarkápu, oft grófkornótt. Hraunin dreifast gjarnan yfir stór svæði því kvikan er heit og þunnfljótandi þegar hún kemur upp.
Yst á skaganum eru þrjár stórar dyngjur. Sú ysta er fyrrnefnd Sandfellshæð og þrátt fyrir að hraun hennar þeki uppundir 150 km2 og eru tæpir 6 km3 er gígur hennar aðeins 90 metrar yfir sjávarmáli. Þráinsskjöldur byggir síðan upp Vogaheiðina. Þriðju dyngjuna er að finna uppundir Sveifluhálsi og er hún kennd við Hrútagjá en hraun hennar runnu til sjávar á milli Afstapahrauns og Straums. Dyngja þessi er mun minni en hinar tvær og einnig snöggtum yngri.
Nokkrar minni dyngjur er einnig að finna á Reykjanesi og má þar til nefna Háleyjarbungu og Skálafell enn utar á Reykjanesi.
Gígur við LágafellSprunguhraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum eru úr mun seigari kviku en dyngjuhraunin og mynda því þykk hraun með mikinn gjallkarga. Þau eru því úfin og ill yfirferðar og hraunjaðar þeirra hár og brattur. Nefnast slík hraun apalhraun. Frá einstaka eldvarpi geta þó báðar hraungerðirnar runnið í einu og sama gosinu. Apalhraunin renna gjarnan frá gosrásinni eftir hraunám sem nefnast hrauntraðir að gosi loknu en helluhraunin eftir rásum undir storknuðu yfirborðinu. Þau síðarnefndu eru því mun auðugri af hellum. Sprunguhraunin eru flest yngri en dyngjuhraunin og nokkur þeirra hafa runnið eftir að land var numið.
Eldvörpin eru mjög fjölbreytt að gerð og lögun, en mun meira af lausum gosefnum koma upp í þeim en dyngjunum og heildar magn gosefna einstakra gosa er oftast langt innan við 1 km3. Erfitt er að gera sér grein fyrir Eldvörpfjölda þeirra eldvarpa sem gosið hafa á nútíma en Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kortlagt hraun frá meira en 150 uppkomustöðum en þeir hljóta að vera fleiri því einhverjir hafa lent undir yngri hraunum. Gosin verða í hrinum innan hverrar gosreinar. Glöggt dæmi um það er gos sem hófst út á Reykjanestá 1226, sem síðan breiddist norðaustur eftir skaganum allt til Arnarseturs sem er rétt austan Grindavíkurvegar. Sömu sögu má segja þegar Ögmundarhraun rann 1151.
Reykjanes er framhald Reykjaneshryggjarins á landi. Flest sjávargos á sögulegum tíma hafa verið undan Reykjanesi. Stórbrotin jarðfræði, meðal annars gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjarbunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna. Óvíða annars staðar en á Reykjanestá má sjá eins glögg merki gliðnunar Mið-Atlantshafshryggjarins.
Umhverfisstofnun hefur bent á að Reykjanesið, þ.m.t. framkvæmdasvæði Hitaveitu Suðurnesja, hefur lengi verið á Sand-700Náttúruminjaskrá eða allt frá árinu 1981. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er enn í Eldvörpum.
Stapafell, Sandfell, Súlur og Þórðarfell (allt nálæg fjöll) myndaðust undir ís eða í sjó. Í þeim er mikið bólstraberg. Ástæður fyrir myndun bólstrabergs eru lítt kannaðar en talið er, að mismunur hitastigs hrauns og vatns og þrýstingur í vatninu hafi áhrif á myndun þess. Sprungur liggja víða á svæðinu, m.a. í gegnum Stapafell.  Búið er að fjarlægja slatta af fjallinu til mannvirkjagerðar, m.a. Keflavíkurflugvallar.
Rauðamelur er fyrrum sjávargrandi, sem liggur austur úr Stapafelli, myndaður úr efni úr fellinu. Hann varð til við hærri sand-500sjávarstöðu, þegar sjór braut úr því. Síðan flæddu hraun. Þau eru úr Sandfellshæðinni.
Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.
Haugsvörðugjá er ein gjánna skammt vestan Sandfellshæðar. Uppi á bakkanum vestan megin gjárinnar eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
Sandfellshaed-2Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára. Hóllinn er nú í mosagrónu apalhrauni. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk þó á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum. Allt þetta má enn sjá með opnum augum á réttum stað.
Gígurinn austan Lágafells er dæmi um einstakt eldvarp. Frá honum liggur tilkomumikil hrauntröð, eins sú fallegasta á landinu – og er þá mikið sagt.

Heimild m.a.:
-Kristján Sæmundsson.
-Ægir Sigurðsson.

Sand-800

Kistufellsgígur

Ætlunin var að leita að hyldýpum þeim er fundust og týndust aftur norðvestan Kistufells í Brennisteinsfjöllum. Opin eru skammt suðaustan við sjálfstæð eldvörp. Þau eru a.m.k. tvö, lítil umleikis, en undir sléttri hraunhellunni virtist einungis vera svart myrkrið.

Kistufell (neðst t.h.) og hrauntraðir

Gengið var upp Kerlingargil á Lönguhlíð, haldið upp rofsléttu og inn í „eldvörp“ norðvestan mikillar hrauntraðar frá Kistufellsgígnum. Þaðan reyndist vera hið ágætasta útsýni að Kistufelli og Kistufellshellunum.
Forsagan er sú að þegar FERLIRsfélagi var á gangi á þessum slóðum á óhefðbundinni leið inn að Kistufelli fyrir u.þ.b. hálfum áratug síðan kom hann að litlu opi, u.þ.b. 2 metrar í þvermál. Opið var á sléttri hraunhellu eldra hrauns milli Kistufellshraunanna, norðvestan gígsins, milli hrauntraðanna tveggja, heldur þó nær þeirri austari. Þegar hann lagðist á magann og horfði niður í myrkrið sá hann að hvorki sáust veggir né botn. Kalt loft kom upp um opið, enda snemmsumar. Skammt frá þessu opi var annað, svolítið minna, einnig á sléttu helluhrauni. Þar undir sást ekki heldur til botns. Og þar sem ferðalangurinn var einungis á leið inn að Kistufellsgígnum hafði hann þá engan sérstakan áhuga á götunum – hvorki merkti þau með vörðum né lagði staðsetninguna sérstaklega á minnið – og hélt því ferð sinni áfram. Það var ekki fyrr en seinna að ferðalagið rifjaðist upp og götin þóttu einkar athyglisverð. Sérstök ferð var síðar farin með Birni Hróarssyni, jarð- og hellafræðingi, sömu leið með það fyrir augum að endurfinna götin. Þau fundust ekki, en hins vegar fannst vænlegt op nokkru norðvestar, fullt af snjó.

Kerlingargil

Gangan upp um Kerlingargil tók um 50 mín. Um er að ræða auðvelda leið upp á Lönguhlíðar. Gengið er í urð lækjarfarvegs alveg upp í „fóðurkistuna“ efra. Ljós rák leysingarvatnsins, sem nú var löngu uppþornað, á steinunum rekja leiðina. Í þeim farvegi er grjótið fast fyrir og traust undir fót. Ef hins vegar staldrað var við miðleiðis og lagt við hlustir mátti heyra steinvölur skoppa niður hlíðarnar áleiðis að gilbotninum. Þarna voru greinilega stöðugar umhverfisbreytingar í gangi, með góðri aðstoð veðra, vatns og vinda.

Þegar upp úr gilinu var komið tók við flatlend „vatnsfóður“skál. Myndarleg varða trjónir efst á brúninni. Ástæða er til að leggja hana á minnið. Hún verður einkar hjálpleg þegar ganga þarf til baka því þá verður hún eina virkilega kennileitið og getur sparað verulegan tíma.
Hrauntröð KistufellsgígsSkálinni var fylgt upp með hamrabrúnum og síðan haldið upp fyrir þær. Þá tók við berangurslegur klapparmói. Einkennisplanta efribrúna Lönguhlíða upp að Brennisteinsfjöllum er smjörvíðirinn. Aðgengilegast er að rekja fóðurskál gilsins áfram upp á brúnirnar ofan við Urðalágar, en það nafn á tveimur grunntjörnum undir klapparholti. Ofar tekur við urðarangur. Báðar tjarnirnar voru nú þurrskroppa með vatn og þurrtíglar byrjaðir að myndast í moldarbotnum þeirra.
Hér efra tók söngur lóunnar að vekja sérstaka athygli, en þögnin hafði einkennt neðrihlutann. Rjúpnavængur, eggjaskurn og fleira gáfu til kynna hver sökudólgurinn væri. Hann lét þó ekki á sér kræla að þessu sinni.
Hrauntröðsendi KistufellsgígsinsÞá var komið að góðgætinu; hraunleifum Kistufellshrauns. Þær birtust sem útvörður sem dagað hafði upp – þvert á leiðina. Þegar meðfylgjandi loftmynd var skoðuð mátti sjá hvar mikil hrauntröð hafði komið úr Kistufellsgígnum, runnið til norðurs, en síðan beygt til norðvesturs. Á leið hans hafði tröð myndast til vesturs, en meginstraumurinn eftir sem áður fylgt meginhrauntröðinni lengra til norðvesturs. Þar við endimörk klofnaði hraunstraumurinn. Suðaustari hrauntröðin endar í myndarlegri hraunskál, gróinni líkt og tröðin í heild. 

Í norðvestari hrauntröðinni má sjá hvar endi hennar hefur aðskilist með hraunbrú eins og umhverfis og líkist hann stakri gígskál. Þarna hefur fyrrum verið minni rás á milli, en lokast.
Um 30 metrum suðaustan við austari hrauntröðina er gat í hraunið, um 10 metra djúpt og um 5 metrar í þvermál. Ekki verður komist niður í gatið nema með aðstoð kaðalstiga, kaðals eða 6 m stiga. Hægt væri að láta stigann nema við brún neðra og forfæra hann síðan niður á við. Ómögulegt er að svo komnu máli að segja til um hvað þar kann að leynast.

KistufellsgatiðHaldið var áfram yfir þennan annars meginhraunstraum Kistufellsgígsins yfir á eldra og sléttara helluhraun. Gengið var um fyrrnefnda hraunhelluna, en segja verður eins og er að þar er saman að líkja nálinni og heystaknum. Í minni ferðalangsins „gekk hann fram á opinn, án þess að sjá þau úr fjarlægð“.
Þótt svæðið sé ekki yfirþyrmandi þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða það allt. Það verður gert enn á ný í sumar.
Þegar haldið var til baka lagðist loka skyndilega yfir svæðið. Hún lagðist þó aldrei yfir gönguleiðina. Þéttur þokuveggurinn lá með henni, svo þykkur að þegar göngustaf var stungið inn í hann, hvarf endinn sjónum. Handan veggjarins réði birtan ríkjum og framundan mátti sjá vörðuna ofan Kerlingargils. Stefnan var tekin á hana og brúnum fylgt að gilinu.
Þegar holan var borin undir Björn kom í ljós að hann hafði þegar klifrað niður í hana. „En það þarf járnkarla og verkfæri til að færa til grjót neðst í holunni til að komast inn í rásina“, að hans sögn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

 

Kringlumýri

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um svæðið norðvestan, vestan og suðvestan Hettu: „Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum.
refagildra-76Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið. Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn.“
Þegar FERLIR var nýlega að feta stíga, götur og vegi á sunnanverðum Sveifluhálsinum [Eystri Móháls] [Austurháls] var staðnæmst á Hettuvegi sunnan undir Hettu. Bjart var í verði og útsýni yfir Kringlumýri og Drumbdali var með ágætum. Fé undi sér vel í Kringlumýrinni, enda einkar grösugur dalur. Stórt vatnsstæði er í gömlum gíg syðst í honum (Kringlumýrartjörn). Lækir runnu frá Hettuhlíðum beggja megin mýrinnar áleiðis niður í Bleikingsdal og áfram niður í Ögmundarhraun.
Fagraskjol-21Af fyrri reynslu mátti ætla að þessi grösugi og safaríki dalur hefði verið nytjaður fyrrum. Norðaustan í dalnum er aflíðandi hæð. Á henni virtust vera grónar tóftir, svona úr fjarlægð séð. Tóftarhóllinn var grænni en umhverfið. Líklegt mátti ætla ef þarna hefði verið selstaða fyrrum hefði hún verið frá Húshólmabæjunum (hinni fornu Krýsuvík) því aðkoman að Kringlumýrinni virtist ákjósanlegust þaðan, þ.e. upp og niður með vestanverðum Sveifluhálsi og áfram um gróninga (nú hraun eftir 1151) að bæjunum neðanundir og ofan við ströndina. Ekki er útilokað að selstaðan hafi verið frá Krýsuvíkurbænum austan Bæjarfells því aðkoman frá honum ef farið er suður fyrir Sveifluháls er svipuð og ef verið hefði frá fyrrnefndu bæjunum. Þá væri sennilegast að þar hefðu kýr verið hafðar í seli fremur en fé því bæði var bithaginn góður að gæðum og afmarkaður, auk þess sem aðgangur var að nægu vatni allt árið um kring.
Kringlumyri-28Vegna hæðamismunarins á mýrinni og veginum var mögulegt selstæði ekki kannað í það sinnið.
Daginn eftir var hins vegar haldið inn í Kringlumýrina. Gengið var um Steinabrekkustíg og Drumbdalastíg frá hinum fornu Gestsstöðum í Krýsuvík. Á leiðinni voru leifar útihúss í Steinabrekkum skoðaðar, hlaðin refagildra mynduð, kíkt á Fagraskjól ofan Skugga og þegar komið var efst í austanverða Drumbdali var fjárgata rakin ofarlega í hlíðinni inn að Kringlumýrartjörn. Þaðan var gengið að meintri selstöðu. Ekki þurfti að staldra lengi við á selshólnum til að sjá móta fyrir rými og hlöðnum grjótveggjum, sennilega stekk eða fjósi. Augljóst virtist að þarna hafði fyrir alllöngu verið mannvirki, nú næstum algróið. Hús var austur/vestur, sennilega lítill skáli. Stekkurinn eða fjósið var þvert á hann, eða suður/norður.
Kringlumyri-29Ýmislegt gaf til kynna að þarna hafi fyrrum, líklega um og eftir 1000, verið kúasel. Aðstæður voru ákjósanlegar, bæði vatn og góðir bithagar, takmarkað rými og auðvelt um gæslu. Brekkur eru á alla vegu nema skarð til suðvesturs, niður með vestanverðum hlíðum hálsarins. Þar gæti selsstígurinn enn verið greinilegur, en skoðun þar bíður betri tíma.
Aðkoma og afstaða selsins er mjög svipuð og sjá má í Helgadal ofan við Hafnarfjörð. Þar er áætlað að kúasel hafi verið frá því skömmu eftir landnám hér á landi.
Selsstöðunnar í Kringlumýri er hvergi getið í heimildum né í fornleifaskráningu af svæðinu. Hún væri því vel frekari rannsóknarinnar virði. Hvort sem þarna hafi verið kúasel eða fjársel breytir í rauninni litlu um gildi fundarins því næsta öruggt má telja að selstaðan kunni verið mjög forn, mögulega frá hinum fornu bæjarleifum í Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Vegarlengdin þangað er um 6.5 km.
Þetta mun vera sjöunda selstaðan, sem staðsett hefur verið í landi Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnaskráning fyrir Krýsuvík – Gísli Sigurðsson.

Kringlumýri

Horft niður á Kringlumýri af Hettustíg.

Seltún

Gengið var um forna stíga, götur og vegi á Sveifluhálsi. Allmörg örnefni eru tengd þessum leiðum yfir og eftir hálsinum.
Badstofa-26Til nýjunga verður hins vegar að teljast nýlega merktur og stikaður Hettuvegur frá Ketilsstíg inn á Smérbrekkustíg og Krýsuvíkurleið um Rauðuskriðu. Ekki er vitað til þess að þessi leið hafi verið farin áður en hún  var merkt sérstaklega með nafninu „Hettuvegur“ því sá vegur er sunnan og vestan undir Hettu en ekki norðan hennar, eins hann hefur nú verið merktur. Ferðamenn á leið til eða frá Krýsuvík hefðu heldur aldrei farið að klifra upp hæðir og klungrast niður í dali til að komast þennan kafla þegar þeir gátu farið afliggjandi götu sömu leið. Að þessu sinni var gengið um Drumbdalaleið, Steinabrekkustíg, Hettuveg, Smjörbrekkustíg og Ketilsstíg.
Á göngunni uppgötvaðist a.m.k. ein áður óþekkt leið, sem hefur greinilega verið farin talsvert fyrrum.
Hattur 26Í örnefnalýsingum er þessara leiða getið. Gísli Sigurðsson skrifar m.a. um svæðið: „Spölkorn vestar er allhár melhóll Bleikhóll nefnist hann af lit sínum. Yrpuhóll er nokkru vestar og ber einnig nafn af lit sínum. Bleikhóll er gulbleikur, Yrphóll brúnn eða jarpleitur. Þá kemur hryggur lítill fram úr hálsinum og bak við eða vestan við hann er Seltún. Þar eru Seltúnshverir. Þar rennur Seltúnslækur en upptök sín á hann í Seltúnsgili. Seltúnshvammur er austan lækjarins og Seltúnsbrekka og upp liggur í hlykkjum og bugðum Ketilsstígurinn. Að líkindum hefur Seltúnssel verið hér í hvamminum. Á vesturbakka lækjarins stóð Brennisteinsnámahúsið. Það var gott og vandað hús í upphafi. En um 1920 var það nær eingöngu notað sem fjárhús. Seltúnsfjárrétt var við það.

Hetta-26

Í brekkunni vestan við gilið voru Brennisteinsnámurnar voru þær virkjaðar um aldabil, en með löngum hvíldum á milli. Hér uppi í brekkunni voru hverir og hétu ýmsum nöfnum, svo sem Hattshverir. Pínir eða Pínisströkkur. Hann kom upp eftir jarðskjálfta og lét mikið í honum, eins og í eimpípu gufuskips. Hann hvarf líka við jarðskjálfta og kom þá upp Fúlipollur. Dalhitur og Hechelshver getur Jónas Hallgrímsson um og svo er var Beygingahver. En um alla brekkuna voru hveraaugu. Niður undan Pínir var Pínisbrekka. Niður undan brekkunni voru Seltúnsbörðin. Á einu barðinu var brennisteinshrúga, sem ekki hafði verið flutt burt er síðasta ferðin í Námur þessar var farin. Hér litlu vestar var Engjafell og þar var Engjafellshver.

Hettuvegur-26

Neðan undir Engjafelli eru Vaðlarnir. Þá er komið að Vaðlalæknum. Upp með honum er farið og er þá komið í Hveradali. Þar var námagröftur í Hveradalanámum. Má enn sjá dálitla hrúgu brennisteins í Hveradalabrekkunni, sem ekki hefur verið hirt þegar námavinnslan hætti. Upp Námahvamminn lá Námastígurinn frá fyrrnefndri hrúgu upp þangað sem brennisteinninn var tekinn. Hér voru líka Smjörbrekkur. Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð. Upp frá Hveradölum til suðurs var brött brekka, Baðstofubrekka, en þar uppi voru klettar með sérkennilegri lögun. Eru þeir nefndir Baðstofa af lögun sinni, en þeir eru eins og burstir tvær og gnæfa við himinn. Á flötum fremst í dölunum hafa nú risið Krýsuvíkurhúsin. Þar eru vermigróðurhús og íbúðarhús. Þar fram undan er Gestsstaðavatn. Kringum það eru svo Gestsstaðamelar. Þess er vert að geta, að Gestsstaðavatn, Grænavatn, Augun og Stampar eru allt sprengigígar, eftir því sem jarðfræðingar telja. Hveradalalækurinn eystri rennur sem fyrr er frá sagt niður í Vaðlana og nefnist þar eftir þeim. Annar Hveradalalækur vestri kemur úr Hveradölum og rennur fram milli melanna. Lækur þessi er aðaluppistaðan í Krýsulæk vestri.
Fram undan melnum vestan lækjarins munu hinir fornu Gestsstaðir hafa staðið, sér þar móta fyrir rústum tveggja bygginga. Vestan þessa mela er lítill lækur og mætti nefna hann Gestsstaðalæk. Gestsstaðamói liggur fram undan rústunum, fram á mýrina. Vestur héðan frá læknum litla liggur stígur um Steinabrekkur og nefnist Steinabrekkustígur.

Smerbrekkustigur-26

Alllangt hér vestur með hálsinum er svo komið að móbergskletti, sem nefnist Skuggi mun vera gamalt fjárskjól. Uppi á Hálsinum er fjárbirgi, sem einhverntíma hefur verið reft yfir. Fagraskjól nefnist það. Nokkru vestar er komið að öðrum klettum nefnast Svörtuklettar. Niður undan þeim er komið á Alfaraleiðina frá Krýsuvík til Grindavíkur. En þarna eru líka Vegamót, því héðan liggur upp á hálsinn Drumbsdalastígur, sem var kirkjustígur Vigdísarvallamanna. Einbúi er klettur enn vestar, en hjá honum sveigir vegurinn fyrir vesturenda Sveifluháls og sér hér inn í Drumbsdali. Framundan eru móbergsklettar, nefnast Borgarhólar og eru á vinstri hlið við leiðina. Hér sér enn til gamla troðningsins og hér eru vörðubrot að sjálfsögðu mikið gömul. Fram undan Borgarhólum er Borgin, Fjárborgin eða Borgarhólafjárréttin, því bæði var þetta fjárskjól og einnig var rekið að þarna fé úr Vesturheiðinni.“

Kringlumyri-26

Ennfremur: „Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatni.
Folaldadalir

Í vestur eru tveir hnúkar. Annar að sunnan heitir Hattur kúflaga en framan í honum eru Krýsuvíkurnámurnar og Seltún. Beint framundan er Hetta. Hattsmýri liggur milli hnúka þessara, en klofnar um Hattsmýrargil. Vestan undir Hettu er Hettuskarð og Hettuskarðsvegur eða Hettuskarðsstígur. Nokkrir nafnlausir tindar eru hér fyrir vestan og vestan þeirra er komið á Drumbsdalastíg. Á sunnanverðum hálsinum er Stóri-Drumbur, en norðar er Litli-Drumbur og milli þeirra Drumbsdalir. Hér fram undan eru Borgarhólar og Borgin. Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.“

Drumbalastigur-26

Einnig: „Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum. Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið. 

Hetta-27

Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn. Síðan fellur lækurinn norður af og um móbergshjalla, þar sem hann hefur grafið sig niður í móbergið og myndað polla hylji, súlur og boga í margs konar myndum. Lækurinn fellur svo fram og rennur út á hraunið og eftir því og er að fylla gjótur þess og bolla. Þegar hingað er komið blasir við í vesturátt Mælifell Krýsuvíkur-Mælifell eða Innra-Mælifell. Austur úr Mælifelli gengur lágur Mælifellsháls. Austanundir Mælifelli eru Klettavellir. En frá hálsinum milli Mælifells og Borgarhóla liggur Mælifellsdalur. Sunnan í Mælifelli er Mælifellstorfa mið af sjó. Vestur úr Mælifelli gengur Mælifellsás, en framan í því að suðvestan liggur Alfaraleiðin, krækir fyrir hornið og liggur þar framhjá Ögmundardys.“

Maelifell

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af svæðinu segir m.a.: „Austur af Latsfjalli, norðan vegarins um hraunið, er fell það, sem heitir Krýsuvíkur-Mælifell, og suður af því, við suðurenda Sveifluháls, eru Borgarhólar. Norðaustur frá Borgarhólum fer svo hálsinn að myndast. Nokkuð þar austur með hálsrótunum er smáhnúkur einstakur, sem heitir Einbúi. Þar norður af er annar klettur, sem heitir Skuggi. Þar upp af er hár hnúkur á hálsinum, sem heitir Drumbur. Þar niður undan eru svo Drumbsdalir. Hér liggur yfir hálsinn vegurinn frá Vigdísarvöllum, er síðar getur, til Krýsuvíkur. Þessi vegur heitir Drumbsdalavegur. Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur, sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur.“

Sveifluhals-26

Ennfremur: „Í Hverafjalli eru margir smádalir með hverum, bæði vatnshverum og brennisteinshverum, og heitir það svæði Hveradalir. Nokkuð suður og vestur frá Hatti er hæsti hnúkurinn þarna, og heitir hann Hetta. Er líkast, að hér sé komin allstórvaxin risafjölskylda. Framan undir Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsum, og er það nafn nú glatað. Austan undir Hatti er hvammur sá, sem heitir Seltúnshvammur. Er komið niður í hann, þegar Ketilstígur er farinn, er síðar getur. Í hvamminum er Seltúnið. Þar eru nokkrir leirhverir, sumir dauðir, en í öðrum kraumar. Úr gili milli Hatts og Seltúns kemur Seltúnslækur, sem rennur um alldjúpt gil á jafnsléttu, Selgil. Þarna eru Seltúnshverir. Framan við Seltúnið eru Brennisteinshúsarústir. Eru þær á Seltúnsbarði, sem er sunnan gilsins. Þar höfðu enskir menn brennisteinstöku á 19. öld. Voru þeir líka í Brennisteinsfjöllum. Þegar kemur niður úr Seltúninu niður á láglendið, er leiðin til Krýsuvíkur um Vaðla.

Sveifluhals-27

Hér hefur gleymzt, að neðan undir Hettu Vigdísarvallamegin er Hettumýri). Norður af Hatti er á hálsinum vatn það, sem heitir Arnarvatn, og norðan þess er hár hnúkur, Arnarnípa. Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er kringlóttur, djúpur dalur eða skál niður í fjallið. Graslendi er í botni hans. Þetta er móbergsfjall, og liggur stígurinn í fullan hálfhring upp Ketilinn, hærra og hærra. Snarbrattar og sléttar skriður eru niður í botn, þegar upp kemur, sést, að hér er hálsinn klofinn norður að svonefndum Miðdegishnúk, sem er upp af Kaldrana, sem fyrr er getið. Þessi klofningur er sanddalir, sem heita Folaldadalir.“
Frábært veður. Gangan tók 4. klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík, Ari Gíslason skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík. Gísli Sigurðsson skráði.

Smérbrekkustígur

Smérbrekkustígur norðan Hettu.

Krýsuvíkurkirkja

Kristján Eldjárn skrifaði eftirfarandi í Kirkjuritið  1953 um Björn Jóhannesson og endurreisn Krýsuvíkurkirkju:
Bjorn johannessin-1„Hinn 22. nóv. 1964, andaðist Björn Jóhannesson fyrrv. forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, tæplega sjötugur að aldri. Allmörg undanfarin ár bafði hann dregið sig í hlé frá þeim félagsmálastörfum, sem setja svip sinn mest á ævidag hans, og olli því sjúkdómur sá, er nú hefur snögglega dregið hann til dauða. En Björn sat þó ekki auðum höndum þessi síðustu ár sín. Hann átti sér merkilegt hugðarmál, sem honum auðnaðist að koma heilu í höfn, áður en var allur allur, og sá minnisvarði mun að öllu skaplegu lengi standa brautu nær og lofa sinn mann. Meðal þeirra stórbýla landsins, sem breyttir þjóðfélagshættir hafa dæmt úr leik og dregizt hafa upp fyrir augunum á þessari kynslóð, er Krýsuvík í Gullbringusýslu. Húsin féllu hvert á fætur öðru og lífið fjaraði út, uns ekkert stóð nema gamla kirkjan og í henni hírðist lengi gamall maður, síðasti Krýsuvíkingurinn, og þrjózkaðist við að hlýða tímans kalli, unz þar kom, hann var ekki að spurður. Lauk þar með langri sögu, en eftir stóð kirkjan ein, opin og öndverð, illa til reika en traust að stofni til, og umhverfis hana lágar þústir yfir gröfum þeirra, sem í kirkjugarðinum hvíla. Fór þá eins og oft vill verða, að margir hneyksluðust og létu þung orð falla um niðurníðslu kirkjunnar, en sá var einn, sem sá og skildi, að lítið stoðar að tala og skrifa og ætla öðrum. Það var Björn Jóhannesson. Hann tók málið í sínar hendur og gerði það ekki endasleppt.
Hinn 18. maí 1954 skrifaði Björn bæjarráði Hafnarfjarðar og gerði grein fyrir, hvernig komið væri hag gömlu kirkjunnar í Krýsuvík, benti á hve illa þetta lágreista guðshús væri nú leikið, en sýndi um leið fram á, að það væri þó ekki ver farið en svo, að með dálitlu átaki mætti færa það í sitt upphaflega lag. Í bréfi sínu segir Björn meðal annars: „Það mun margur álíta, að rétt væri að rífa þetta gamla kirkjuskrifli og slétta kirkjugarðinn, en ég tel, að það væri mjög misráðið. Þetta eru þær einu minjar, sem eftir eru af gömlu Krýsuvík, og þá um leið þær merkustu, og ég tel, að komandi kynslóðir hefðu gott af því að fá innsýn í hina lágreistu sali fortíðarinnar og sjá, hvað forfeðurnir urðu að gera sér að góðu og urðu að mætum og dugandi mönnum samt. Eg álít, að við Íslendingar höfum verið allt of kærulausir með að viðhalda ýmsum gömlum minjum, og eftir því sem þeim fækkar, þurfum við að vera fastheldnari með þær og sjá um, að þær fari ekki forgörðum, venjulegast fyrir trassaskap og sinnuleysi. Hvað vildum við ekki nú gefa fyrir ýmislegt, sem eyðilagzt hefur af þessum sökum?
Krysuvikurkirkja 1964-21En um það tjáir ekki að tala, heldur að reyna að bjarga því, sem bjargað verður“. Síðan biður Björn um, að sér verði leyft að hefjast handa um viðgerð kirkjunnar og að eigandi Krýsuvíkur, Hafnarfjarðarbær, veiti sér umráðarétt yfir henni og kirkjugarðinum að minnsta kosti tíu ár, sem hann kveðst vilja nota til að gera við kirkjuna, bænum að kostnaðarlausu, en síðan muni hann afhenda bænum hana aftur eða fyrr, ef þannig semdist. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar brást vel og viturlega við þessari málaleitan Björns og lét allt vera svo sem hann vildi. Tók hann þá til óspilltra málanna um endurbyggingu kirkjunnar og vann að því ötullega á næstu árum. Kostnaðinn af því bar hann að langmestu leyti sjálfur, en naut þó góðrar fyrirgreiðslu nokkurra manna, og ber þar um fram allt að nefna Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði, sem tók að sér að gera við kirkjuna sjálfa. Sagði Björn, að án liðlegheita og ósérplægni Sigurbents hefði sér orðið óhægt um að koma viðgerð kirkjunnar í kring. Skal það sízt efað, svo erfitt sem það er á vorum veltitímum að fá nokkurn mann til þess að vinna að dútli eins og þessu.
síðastliðnu sumri, hinn 31. maí var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins að viðstöddum þeim mannfjölda, sem rúmast getur í hinu litla guðshúsi. Þetta var sérkennileg stund, kirkjuvígsla á eyðistað, en Björn Jóhannesson hafði þá trú, að kirkjan yrði ekki aðeins minjagripur, þegar fram líða stundir, heldur yrði hún aftur sóknarkirkja þeirra manna, sem í framtíðinni myndu setjast að í Krýsuvík, þegar aftur verða not fyrir þau náttúrugæði staðarins, sem enginn verður um sinn til að nytja. En hvað sem menn kunna að halda um þessa trú Björns, munu þó allir þeir, sem staddir voru í Krýsuvík þennan sumardag hafa verið sammála um, að hér var gott málefni til lykta leitt.
krysuvikurkirkja 1940-21Krýsuvíkurkirkja er ekki stór eða vegleg, enda byggð fyrr fámennan söfnuð í afskekktri sveit, og ekki er hún heldur mjög gömul, smíðuð 1857, vafalítið af Beinteini Stefánssyni, smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar, en hún er eigi að síður sögulegur minnisvarði og þokkaleg í öllu sínu látleysi. Víst mun einhverjum hafa fundizt fátt um, þegar Björn fór að láta hressa við hið vanrækta hús á eyðistað. Það er gamla sagan. Þegar verkinu er lokið, gleymast úrtöluraddirnar og allir verða ánægðir. Þessi varð reynsla Björns Jóhannessonar. Hann hafði sett sér mark, að gera við Krýsuvíkurkirkju og búa hana um nauðsynjum á tíu árum. Nú var sá tími liðinn, enda var kirkjan hér, risin upp úr sinni niðurlægingu, og allir kepptust um að votta Birni virðingu sína og þakka framtak hans. Vígsludagur kirkjunnar var sigurdagur í lífi hans.
Endurreisn Krýsuvíkurkirkju var langt komið, þegar Björn Jóhannesson kom fyrst að máli við mig um málefni hennar fyrir nokkrum árum. Eftir það höfðum við töluvert samband okkar á milli, og ég fór alloft með honum til Krýsuvíkur. Sú var hugmynd hans, að réttast væri að fela Þjóðminjasafni Íslands framtíðarforsjá kirkjunnar, og  hreyfði hann því máli við bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Kom þar, að bæjarstjórnin ákvað að fela safninu kirkjuna ásamt vænni landspildu umhverfis hana, en Björn gaf allt sem hann hafði til hennar lagt. Er gjafabréf bæjarstjórnar dagsett í Hafnarfirði hinn 18. september 1964, og síðan er Krýsuvíkurkirkja á  fornleifaskrá og eitt þeirra húsa, sem vernduð verða á vegum hins  opinbera sem menningarsögulegar byggingar.
Á fögrum haustdegi, hinn 19. september, vorum við Björn í síðasta sinni saman í Krýsuvík. Gerðum við þá úttekt á öllu, sem í kirkjunni er, en Björn afhenti mér skrá þar sem nákvæmlega er tilgreint hvað hver og einn hafði til hennar gefið, en flest af því er að vísu frá honum  sjálfum. Þarna var ekkert hálfverk á, og mikil var gleði Björns að sjá þetta mikla áhugamál sitt komið heilt í þá höfn, sem hann hafði dreymt um. Honum var það mikið gleðiefni að verða þess var, hve margir lögðu leið sína heim að kirkjunni, eftir að opnaður var hinn nýi Grindavíkurvegur, sem liggur hjá garði í Krýsuvík. Þótti honum það sem staðfesting þess, að kirkjan sem hann hafði reist úr rúst, ætti enn erindi við lífið og hann hefði barizt fyrir réttum mál stað. Hugði hann gott til að fylgjast með mannaferðum heim að Krýsuvík á komandi árum, ef þess yrði auðið. En hann vissi líka, að kallið gat komið snögglega, eins og nú er komið á daginn, og það var honum því fró og fullnæging að honum hafði auðnazt að ná settu marki, og hann var þakklátur öllum, sem höfðu stutt hann til þess á einhvern hátt.
Ókunnugt er mér hvað upphaflega kveikti áhuga Björns fyrir málstað Krýsuvíkurkirkju, því að ekki var hann bundinn staðnum tryggðaböndum ættar og uppruna. En fágætur var sá áhugi, sem hann sýndi þessu málefni, og sá kærleikur, sem hann lagði þar í hvert handtak, og af dæmi hans mætti mikinn lærdóm draga. En efst er mér í huga þakklæti til Björns fyrir hið merkilega framtak. Hann var í fyllsta skilningi björgunarmaður Krýsuvíkurkirkju, og það er honum að þakka, að land vort er þannig einu menningarsögulegu húsi ríkara. Þau eru fá, mannaverkin á hinni nýju Grindavíkurleið. Þeirra merkast er hin gamla kirkjan, og minning Björns mun lifa með henni.“

Eftirfarandi viðtal við Björn Jóhannesson um endurreisn Krýsuvíkurkirkju birtist í Vísi 1964:

Krýsuvíkurkirkja endurreist.
Bjorn johannesson-22Fyrir nokkrum dögum birtum við fregn um það, að maður nokkur hér í borg að nafni Björn Jóhannesson hefði ráðizt í það að endursmíða og endurreisa kirkjan í Krýsuvík. Menn spurðu hvað vekti fyrir honum með þessu. Verk hans var lofsamlegt, það geta þeir bezt borið um, sem komið hafa suður í Krýsuvík á sfðustu áratugum og séð, hvernig hið gamla kirkjuhús þar var útleikið, Í stuttu máli í hinni verstu niðurníðslu. En hins vegar finnst þar enginn söfnuður, til skamms tíma var þar allt í eyði, nú vinna þar örfáir Hafnfirðingar við gróðurhúsarækt.
Við skulum lofa honum sjálfum að svara þessu, eins og hann orðaði það við fréttamann Vísis er heimsótti hann að heimili hans, Snorrabraut 83.
— Ég vildi endurreisa Krýsuvíkurkirkju fyrir framtíðina sagði hann. Það má vera, að mönnum finnist einkennilegt að byrja á kirkjunni áður en söfnuðurinn er til. En Krýsuvík er framtíðarstaður, einn mesti framtíðarstaður á landinu. Að hinu væri fremur að finna, að áður en áratugur er liðinn verður þessi kirkja orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Helzt hefði þurft að stækka hana um leið og hún var endurreist. Framtíðarmöguleikarnir í Krýsuvík eru geysilegir, bæði í jarðrækt og jarðhita.
— En hverjar voru hvatirnar til að takast þetta verk á hendur upp á eigin spýtur? — Ætterni? — Uppruni?
— Nei, ég er ekki ættaður úr Krýsuvík, heldur húnvetnskur, en fluttist kornungur til Hafnarfjarðar með foreldrum mínum. Faðir minn var Jóhannes Sveinsson, sem lengi var ökumaður, var með hestvagn í flutningum í Hafnarfirði og til Reykjavíkur. Ég var líka í slíkum flutningum fyrst í stað, síðan fór ég út í ýmislegt annað, meðal annars útgerð, starfaði lengi með Ásgeiri Stefánssyni. Einnig var ég kosinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þannig kynntist ég Krýsuvík, þegar Hafnarfjarðarbær keypti jörðina af Einari Benediktssyni. Hann var með jörðina á vegum einhvers ensks fyrirtækis, sem vann þar brennistein. Sjálfur hélt hann eftir Herdísarvík fyrir sig eins og allir þekkja.
— En nú eruð þér fluttur til Reykjavíkur
— Já, ég veiktist, og varð að draga mig út úr flestu, en þá fékk ég áhuga á Krýsuvíkurkirkju. Ég hafði engar sérstakar taugar til staðarins, en þegar ég kom í Krýsuvík og sá niðurlægingu þessa húss, sem áður hafði verið guðshús, sveið mér það og mig greip löngun til að bæta úr því. Ég skrifaði vinum mínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og beiddist leyfis til að mega gera kirkjuna upp og það leyfi var auðfengið.

Gamalt höfuðból.
Krysuvik 1810-22Við sitjum inni í bókaherbergi Björns á Snorrabrautinni.
Hér eru raðir bóka með sögnum og þjóðlegum fróðleik með veggjum, sýnilegt að húsráðandi hér hefur hugleitt liðna tíma, starf og ættir forfeðranna lítur í gráa forneskju. Og hér nefur hann kynnt sér sögu Krýsuvíkur af ýmsum ritum. Talið berst fljótlega að fyrri tímabilum blómlegrar byggðar, þegar þar var höfuðbólið Krýsuvík og fjöldi minni bæja og kota, sumir bændurnir bláfátækir, aðrir gátu með gætni og hyggindum orðið bjargálna. Hér er lifað á fjárrækt, Krýsuvík var meðal stærstu og beztu sauðjarða á landinu, fjárgæzla þó erfið. Í Krýsuvíkurbjargi var jafnan auðug eggjataka og margir æfðir sigmenn í byggðarlaginu. Og svo var sjórinn stundaður frá Herdísarvík, sem tilheyrði Krýsuvík.
Síðasti stórbóndinn í Krýsuvík var Árni Gíslason áður sýslumaður á Kirkjubæjarklaustri, bróðir séra Skúla þjóðsagnasafnarans fræga á Breiðabólstað. Árni flutti til Krýsuvíkur úr Skaftafellssýslu og flutti þá með sér á annað þúsund fjár. Hann varð fyrir miklum skakkaföllum í byrjun búskapar í Krýsuvík, en náði sér þó aftur á strik. Hann andaðist rétt fyrir aldamótin. Þá voru mjög erfiðir tímar fyrir landbúnaðinn, fjársalan til Bretlands hætt og almennur vinnufólksflótti að sjávarsíðunni. Eftir það bar Krýsuvík aldrei sitt barr og niðurlæging staðarins hófst nokkru síðar, kringum 1930 lagðist hann að mestu í eyði, einangrunin hafin, enginn þjóðvegur fyrr en seinna, — þegar Krýsuvíkurvegur var lagður var það orðið of seint, allt komið í eyði. Síðast bjó einsetumaður í Krýsuvík, Magnús Ólafsson. Og híbýli hans voru einmitt gamla kirkjan. Þá var búið að rífa úr henni allt. kirkjubekki, predikunarstól, altari, sumir kirkjumunir teknir til geymslu, annað glatað.

Reist upphaflega fyrir 107 árum.
krysuvik 1910-22Og svo snýst talið að sjálfri kirkjunni. Í Krýsuvík hefur verið kirkja frá því um 1200. En þessi kirkjubygging er frá 1857 Þá voru um 70 manns í sókninni. Hún var þá útkirkja frá Selvogi. Hún var reist ur rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-70. Þá koma Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Í niðurníðslu.
Krysuvik 1923-22Síðast bjó einsetumaðurinn Magnús Ólafsson sem fyrr segir í gömlu kirkjunni. Þegar hann veiktist og var fluttur burt kringum stríðsbyrjun lá Krýsuvík eftir mannlaus. Þá varð niðurlæging kirkjunnar mest. Var þá ömurlegt að skoða hana, gluggar brotnuðu úr henni, dyrnar opnuðust og stórgripir leituðu sér skjóls inni í henni. Þannig stóð í nærri tvo áratugi. Hvarvetna hef ég mætt áhuga og góðvild til þessa starfs og rekizt á margar skemmtilegar tilviljanir. Bezt af öllu var að ég fékk í lið með mér afbragðs smið, Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vildi til að hann er einmitt dóttursonur smiðsins sem reisti kirkjuna 1857. Afi hans smiðurinn var Beinteinn Stefánsson, sem bjó undir Arnarfelli í Krýsuvík. Dóttir hans var Sigríður móðir Sigurbents.

Gamlir kirkjugripir.
Svo voru til nokkrir gamlir kirkjugripir Krýsuvíkurkirkju, sem teknir höfðu verið til varðveizlu 1929 og settir á Þjððminjasafnið þegar kirkjan var lögð niður. Þá er að nefna kirkjuklukkuna. Hún hafði verið flutt til Grindavíkur og var í kirkjunni þar. Ég var að vísu hálf kvíðinn að fara að nefna það við sóknarprestinn, en sá kvíði var ástæðulaus. Hann skildi það fullkomlega að  Krýsuvíkurkirkja ætti að fá sína gömlu klukku, því að rétt skal vera rétt. Svo fór ég til Grindavíkur og klukkan var tekin niður. Nú klingir hún yfir eyðibyggðinni í Krýsuvík. Aðra klukku fékk ég að gjöf hjá Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði. Það var minni klukka, sem hafði verið skipsklukka og á henni stóð grafið heitið Enganes. Hún lá ónotuð hjá fríkirkjusöfnuðinum og þeir vissu ekki hvaðan hún var komin.

Enganes-klukkan.
En ég komst líka að því fyrir tilviljun. Ég var að endurlesa æviminningar Thor Jensen, sem Valtýr skrifaði og þar blasir þá við mér öll saga litlu klukkunnar, botnvörpuskipsins Enganess, sem kom frá Englandi til Vídalíns-útgerðar í Hafnarfirði, en enski klukkusmiðurinn hafði misritað nafnið Enganes. Síðast strandaði Enganes í Grindavík haustið 1898. Og nú verður samhringt með Enganesklukkunni í Krýsuvík.
Þá hafði Krýsuvíkurkirkja átt gamla og mjög sérkennilega og fallega ljðsastjaka úr tini, sem munu vera frá miðri 17. öld. Þeir voru komnir á Þjóðminjasafnið, svo að ég lét gera afsteypu af þeim í kopar. Hins vegar lagði Þjóðminjasafnið til gamla altaristöflu af útlendri gerð af Kvöldmáltíðinni.
Þannig hefur Krýsuvíkurkirkja verið endurreist. Það var byrjað á kirkjunni, en ég er í engum vafa um það, að söfnuðurinn kemur á eftir, sagði Björn Jóhannesson að lokum.“

Heimild:
-Kirkjuritið, Kristján Eldjárn, Björn Jóhannesson og Krýsuvíkurkirkja, 31. árg. 1953, 1. tbl.,bls. 49-53.
-Vísir, 24. júní 1964, bls. 9 og 13.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur.