Tag Archive for: Grindavík

Jónsbásar

Gengið var frá dys Járngerðar á Járngerðarstöðum, um virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót, um Junkaragerði Grindvíkinga, að Jónsbás þar sem Anlaby, fórst í janúar árið 1902, yfir í Arfadal, upp í Baðstofu og um Blettahraun til baka. Hér var um að ræða eina af tímamótaferðum FERLIRs, þá 800. að tölu um Reykjanesskagann. Venjulega eru tilteknir staðir heiðraðir í slíkum tímamótaferðum. Að þessu sinni, sem og stundum fyrr, varð Grindavík fyrir valinu.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Grindavík er merkilegur bær – þar er hægt að dvelja löngum stundum við að skoða merkilega staði og endurupplifa gagnmerka atburði í gegnum aldirnar.
Landnámsmaður í Grindavík var Molda-Gnúpur Hrólfsson. Þar hafa orðið merkisatburðir Íslandssögunnar, s.s. Tyrkjaránið og Grindavíkurstríðið. Auk þess endurspeglar Grindavík atvinnu- og búsetusögu landsins frá upphafi til núdagsins. Og andrúmsloftið er hvergi ferskara.
Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans. Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Hverfin er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem hún bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar. En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann á henni ekki mjög fögur:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

„Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.”
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2500 manns, þar af búa u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.
Gangan byrjaði við leiði Járngerðar, sem er nú að mestu undir veginum við Hlið. Þegar komið var að dysinni lá þar utan í henni stór, svartur, fjörgamalt hunslíki. Fylgdi það hópnum síðan eftir, en þegar komið var til baka hvarf það jafnskjótt og það birtist.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Eitt horn dysjarinnar stendur þó út undan veginum. Skv. gamalli lýsingu var dysin hæst að suðvestanverðu, en hallaði undan til austurs (undir veginn). Hornið er svona til að minna á fyrrum tilvist þjóðsögunnar á þessum stað. Sú gamla hefur sannarlega mátt muna tímanna tvenna. En nú er Járngerður notuð sem hraðahindrun fyrir sjálfrennireiðar. Áður fyrr var borin miklu mun meiri virðing fyrir henni, bæði lifandi og látinni. Virðingin að henni lifandi var svo sterkt að rituð var þjóðsaga um hana þar sem hún er leggur á Járngerðarstaðasundið að þar skyldu tuttugu skip farast eftir að hafa horft upp á eiginmann sinn drukkna á sund

inu. Virðingin að henni látinni var að hún skuli hafa verið dysjuð við gömlu sjávargötuna frá Járngerðastöðum er lá niður í Fornuvör, aðalvör hverfisins.

Stóra-bót

Stóra-Bót; leifar virkisins.

Þá leið gengu sjómenn til skips, stöldruðu við og dvöldu jafnan við dysina og fóru með bænir svo áhrínisorð Járngerðar myndu ekki duga til. a.m.k. hvað þá snerti. En eins og gamli maðurinn sagði; „virðingin fyrir hinu liðna, er mótast af framkomnum lifandi kynslóðar, virðist verulegum takmörkunum háð.“
Lönguklettar voru tiltölulega langt klettabelti úr frá skerjóttri ströndinni við Flúðir. Þanghóll er þar áberandi og mun þangi hafa verið safnað á hann í fyrri tíð, á meðan það var enn notað til eldiviðar.
Neðan við kampinn má sjá Stokkavör, Akurhúsakamp, Kvíahúsakamp, Fornuvör, Sjálfkvíarklöpp og Draugalón.
Við Litlubót er Stakibakki, Hvítisandur, Kampur og Eystri- og Ytri-Hestaklettur. Fjörunar eru nefndar Flúðir einu nafni, sem fyrr segir, og vestast á þeim eru þrjú örnefi; Stakabakkagrjót, Önnulónstangi og Flúðagjá.
Alls eru Flúðirnar tæpur kílómetri á lengd, en þar hafa þó orðið einna flest strönd á einum stað á þessum slóðum. Í desember 1899 strandaði þar norsk flutningaskip, sem Rapit hét, og árið eftir togari Vídalínsútgerðarinnar, Engines. Mannbjörg varð í bæði skiptin.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Í janúarmánuði 1911 strandaði svo breski togarinn Varonil á Flúðunum, og var það strand í senn sorglegt og grátbroslegt. Strandið sjálft virðist hafa orðið með þeim hætti, að skipið “togaði í land”, en talið var, að varpan væri úti, er það kenndi grunns. Þá gerðu skipverjar sömu mistök og landar þeirra á Clan fjórum áratugum síðar, settu út björgunarbáta og drukknuðu þeir þrí menn, sem í þá komust. Aðrir skipverjar afréðu þá að vera um kyrrt í skipinu, og var þeim bjargað morguninn eftir.
Næsta strand á Flúðunum varð 4. apríl 1926, er togarinn Ása strandaði þar á heimleið úr sinni fyrstu veiðiför, og tíu árum síðar, 6. september 1936, strandaði enski línuveiðarinn Tracadiro á svipuðum slóðum. Mannbjörg varð í bæði skiptin. Í fjöru má vel sjá vélina og ketilinn úr Ásu neðan og austan við Stórubót. Nú var hvoru tveggja t.a.m. vel sýnilegt.

Ofan við Stórubót er Rásin, en um hana fellur sjór upp í Gerðavallabrunna á stórstraumi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Stórubót, á Hellum, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns breiða þar sem atlaga Grindavíkurstríðsins svonefnda fór fram í júnímánuði 1532. Varð sá atburður til að marka þáttaskil í verslunarsögu landsins sem og skapa skörp átök milli öflugustu þjóða Evrópu á þeim tíma.
Lítið eitt vestar, þar sem heita Gerðisvellir, eru rústir af vegghleðlsum. Frá þeim er frásögn í einni af þjóðsögunum þar sem Junkarar eiga að hafa hafst við og Grindvíkingar eldað við þá grátt silfur lengi vel. Garðar gerðisins sjást vel sem og móta fyrir tóftum innan þess.
Hásteinar eru vestan við Hásteina. Austar eru Hellan og þá Malarendar. Stórhóll er á Hellunni. Miðbótarklettur er sker utan við Malaraenda. Hóllinn Skyggnir er vestann við Bótina. Á honum er Skyggnisrétt.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt. Rásin og Grindavík fjær.

Sandvík er fremur skerjótt og lón á milli skerjanna. Þar strandaði Resolut í austanstormi og brimi í október 1917, sen skipverjar björguðust allir og komu gangandi heim að Járngerðarstöðum morgunin eftir.
Katrínarvík er vestan við Markhól. Það er eitt örfárra örnefna á gervallri strandlengjunni frá Valahnúk í vestri til Seljabótar í austri, sem dregið er af mannsnafni, sem ekki er vitað, af hvaða Katrínu víkin tekur nafn.
Markhóll er áberandi við ströndina áður en komið er að Jónsbás og Jónsbásaklettum. Á milli eru Hvalvík og Hvalvíkurklettar. Markhóll er landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða og skilur um leið Staðarhverfi og Járngerðarstaðahverfi. Ofan og austan við Markhól er gamla gatan út að Staðarhverfi vel greinileg. A.m.k. ein heil varða er við leiðina, en hægt er að fylgja henni frá vestanverðum Gerðavallabrunnum og áleiðis út að Arfadal.
Á klettóttri ströndinni má sjá Jónsbásakletta, Karfabása og Vörðunes, sem er austan við Vörðunestanga. Á Jónsbásaklettum strandaði breski togarinn Anlaby snemma í janúar 1902, og fórust allir, sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförðina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899 þar sem þrír Íslendingar létust.
Klettarnir við Jónsbás skörtuðu bleikum, gulum, brúnum og fjólubláum lit í bland við græna. Stórbrotin umgjörð við fagurblátt hafið og svarta klettana.
Af Anlabystrandinu spunnust margar sögur í Grindavík, og benda flestir til þess, að atburðurinn hafi þótt í meira lagi vofveiflegur. Segir sagan m.a. að stígvél hafi fundist ofan fjörunnar er benti til þess að einhver hafi komist lífs af, en þoka var kvöldið áður og varð hún til þess að Staðarmenn gengu ekki rekann þá eins og venjulega. Vildu sumir þess vegna kenna sér um að hafa ekki bjargað mannslífum það sinnið.

Jónsbás

Jónsbásaklettar.

Víkin neðan við Húsatóftir heitir Arfadalur, en kölluð Dalur í daglegu tali. Nafngiftin gefur til kynna, hverjum augum menn hafa litið þann gróður, sem þarna þreifst. Víkin, sem gengur inn í landið á milli Vörðunestanga og Gerðistanga, heitir að rétu Arfadalsvík, en var oftast nefnd Staðarvik og leiðin inn í hana Staðarsund. Um sundið fóru kaupskip þau, er til Grindavíkur sigldu á fyrri tíð, og lögðust þá við festar vestan til á Arfadalsvík.
Garðafjara er í Arfadalsvík. Þar útan við eru tvö sker, sem Flæðiklettar heita. Þar þurfti mjög að gæta að sauðfé, þá stórstreymt var, því flæðihætta var mikil og náði féð sjaldnast að synda til lands. Á Flæðiklettum var rostungur eitt sinn veiddur seint á 19. öld, og um 1890 strandaði þar franska skútan Bris. Var það strand mörgum Grindvíkingi minnisstætt vegna koníaksbirgða, sem í skipinu voru. Sumir vildu þegja þunnu hljóði um þann þátt málsins, en aðrir æmtu þegar á var minnst.
Gengið var upp í Baðstofu, gjá ofarlega við Húsatóftir.
Þá var Blettahraunið gengið til austurs, til baka að Járngerðarstaðarhverfi.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-http://nemendur.khi.is/svavagna/Ritgerd%20um%20Grindavik.htm

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir
Grindavíkurbær og Saltfisksetur Íslands hafa gefið út  Örnefna- og minjakort fyrir einstök svæði bæjarins með stuðningi Pokasjóðs. Þegar hafa komið út kort fyrir Járngerðarstaðahverfi (sögusvið Tyrkjaránsins Kort1627), Þórkötlustaðahverfi, Þórkötlustaðanes, Staðarhverfi og Hóp. Unnið er að sambærilegum kortum fyrir Hraun og Stórubót (sögusvið Grindavíkurstríðsins 1532).
Kortin eru unnin með hliðsjón af örnefnalýsingum sem og bestu upplýsingum elstu núlifandi manna og kvenna í Grindavík. Á þeim er getið um helstu örnefni á svæðunum og reynt að draga upp allar sýnilegar minjar frá fyrri tíð. Þá hefur verið reynt að endurvekja eldri minjar, sem nú eru horfnar.
Útgefnum kortum hefur verið komið fyrir á sérstökum upplýsingaskiltum á sérhverjum stað. Þar er fjallað nánar um búsetu- og atvinnusöguna og tengsl minjanna og örnefnanna við hvorutveggja.
Kortin fást í Saltfisksetri Íslands.

Grinndavík

Grindavík – sögu og minjakort.

Lyngfell

 Ætlunin var að ganga eftir hluta af svonefndum Sandakravegi, þ.e. frá Kasti, yfir Dalahraun og áleiðis að Skógfellavegi, sem liggur þar millum Stóra- og Litla Skógfells á leiðinni frá Grindavík í Voga.
Sandakravegur var forn þjóðleið vermanna sem komu af Suðurlandi um Krýsuvíkurveg á leið í Voga eða norður á nes. Beinvarðan? - Kast framundanLeiðin lá frá Slögu norður með Borgarfjalli, með brún Litla-Borgarhrauns undir hlíðum Borgarfjalls, um Nátthagakrika sunnan Einbúa og að Kasti, sem er suðvestasti hluti Fagradalsfjalls. Þaðan lá gatan yfir hraunið inn á Skógfellaveg og síðan norður í Voga. Að þessu sinni var gengið frá Móklettum norðan við Lyngfell og Festisfjall, yfir Beinvörðuhraun, framhjá Beinvörðunni að Kasti. Nú voru þátttakendur vel varðir allra veðra Cintamani-fatnaði, en eins og ljóst má vera urðu ferðalangar fyrrum úti á þessum leiðum eða bara dóu, eins og gengur. Til er frásögn erlends ferðamanns á leið til Krýsuvíkur. Kom hann að látinni konu, sem legið hafði lengi óhreyfð við þjóðleiðina. Hvers vegna ættu ferðalangar að taka með sér löngu látið fólk, sem það þekkti ekkert. Einfaldara var að hylja það með grjóti, en sjá má slíkar grjóthrúgur á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. við Sandakraveginn, Fógetastíginn í Gálgahrauni, Garðsstíginn, Sandgerðisgötuna og Undirhlíðaleiðina, svo einhverjar séu nefndar. Við Garðagötuna er t.a.m. Mæðgnadysin og við kirkjugötuna frá Hraunsholti að Görðum er Völvuleiði. Að vísu var erfiðara að greina kennimerki við aðstæður, sem nú voru til staðar, en jafnan að vorlagi er grónar dysjar verða fyrr grænni en aðrar náttúrulegar „þúfur“ við alfaraleiðirnar. Hrossadysjarnar í Slysadal á Dalaleiðinni eru þó jafnan ágætt dæmi þessa allt árið um kring. Þá má og telja líklegt að dysjarnar í Kerlingardal austan við Deildarháls milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur eigi sér slíkt upphaf.
SandhóllSandakravegur er enn í dag djúpt markaður í harða hraunhelluna eftir hófa, klaufir og fætur liðinna kynslóða um aldir. Nú átti að feta í fótspor þessara forfeðra og -mæðra, ganga þetta spölkorn eftir veginum frá Sandhól við Kast yfir á Skógfellaveginn milli Stóra- og Litla-Skógfells. Síðan var ætlunin að kanna hvort önnur leið, jafngreiðfær, gæti legið af Sandakraveginum austan við Skeifu með stefnu til suðurs, stystu leið að gatnamótum Sandakravegar og Kýsuvíkurvegar við Slögu eð Litla-háls.
Nú er búið að stika Sandakraveginn. Þegar byrjað var við stiku nr. 70 komu fljótlega í ljós nokkrar afvegaleiðanir. Í fyrsta lagi var stikum nr. 71 og 72 ofaukið. Eftir að komið var í skarð á hraunbrúninni lágu tvær stikur til vinstri, en af vörðunum að dæma áttu þær að liggja samhliða þeim beint áfram og síðan til vinstri. Þessar stikur voru augljós villa og voru því lagfærðar. Þá voru stikur látnar í framhaldinu fylgja seinni tíma mosaslóð, en vörðubrot í svo til beina stefnu á myndarlega vörðu á hraunhól gátu fyrrum legu vegarins til kynna.
Þegar gangan hófst við, eða réttara sagt skammt norðan við Sandhól, komu í ljós tvær sandbrunabungur (Sandhólinn hærri) er gengið höfðu út undan Kasti. Þegar hraunið rann að Fagradalsfjalli, og þar með Kasti, hefur það nánast náð að umlykja hólana. Sandhóllinn hefur fengið nafn, bæði vegna þess hversu áberandi kennileiti hann er þarna í hrauninu og auk þess hefur hann verið þörf „vegstika“ á leið um veginn.
Skjól við SandakravegSkammt norðvestar er farið um fyrrnefnt skarð. Skammt sunnan þess er skjól í vegg hrauntraðar. Opið snýr til vesturs, en í austurenda þess hefur verið fyrirhleðsla, nú að hluta til fallin. Þarna hefur verið bæði hið ágætasta skjól fyrir tvo menn og útsýni yfir veginn framundan, tilvaldið til að staldra við í og bíða eftir þeim, sem hægara fóru.
Þá tóku við tiltölulega slétt mosahraun. Vörður og vörðubrot gefa veginn glögglega til kynna. Á lágum hraunhól er varða. Frá henni má bæði sjó vörðu neðan við hraunbrúnina í suðaustri og aðra á hraunbrún í norðvestri. Þegar komið er udnir síðanefndu hraunbrúnina sást, áður en varðan kemur í ljós, tvær ílangar þunnar hraunhellur, sem reistar hafa verið upp á endann, og púkkað með. Ofar liggur vegurinn um skarð og síðan um mosahraun áður en komið er inn í stóran helluhraunsdal. Frá fyrstu skrefum þar til þess síðasta er Sandakravegurinn klappaður í hraunhelluna. Norðvestan hennar er varða á hraunbrún, en frá henni hallar vegurinn áleiðis niður að Skógfellavegi. Hann hvarfur að vísu á stuttum köflum undir mosa, en auðvelt er að finna hann aftur ef hallað er að Litla-Skógfelli. Þar sem vegirnir mætast liggja þeir samhliða á kafla uns þeir falla saman í einn veg.
Sandakravegurinn hefur verið fjölfarinn um langan tíma, ummerkin sýna það. Einungis austasti kaflinn er minna markaður, líkt og Skógfellavegurinn er sunnan við gatnamótin.
Varða við SandakravegSkógfellahraunið er um 3000 ára gamalt. Sandakravegurinn milli Stóra-Skógfells og langleiðina að Sandhól er markaður á sama hátt í slétta klöpp Dalahrauns. Af ummerkjum að dæma virðist þarna vera um sömu götuna að ræða. Hún gæti því hafa hafa verið nefnd öðru nafni fyrrum og verið aðalþjóðleiðin á umferð milli Suðurstrandarinnar og Útnesjanna. Skýringar á því að syðsti hluti Skógfellavegar er ógreinilegri gæti verið sú að tíð og langvarandi eldsumbrot á því svæði hafi lagt af ferðir þangað, yfirborð svæðisins er apal- og brunahraun auk þess sem ösku- og gjóskulög gætu hafa lagst yfir eldri eldri leið, sem þar var.
Hinar fornu götur, Skógfellavegur og Sandakravegur eru því mjög merkilegar fornleifar, sem ástæða er til að varðveita. Reyndar má telja þessar tvær götur meðal merkustu fornleifa landsins.
Sesselja Guðmundsdóttir þekkir vel til örnefna og minja í Vatnsleysustrandarhreppslandi sem og víðar. Um Sandakraveg sagði hún m.a. þetta: „Í upphafi heyrði ég Einar Egils hjá Útivist tala um Sandakraveginn fyrir tugum ára. Ég sá hann fyrst fyrir ca. 15 árum, en fann ekki nyrsta hluta hans fyrr en fyrir ca. 4 árum. Það sem ruglaði flesta í upphafi var að kort sögðu hann á röngum stað, t.d. kort frá 1910 og með því byrjar villan. Ásgeir Sæmundsson (1915-1992) frá Minni-Vogum talar um þennan veg á segulbandsupptöku (segir hann mjög klappaðan), sem ég á, og Ísólfur á Skála líka.
Greinin hans Gísla pól í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1972 nefnir þennan veg og kort Hraunhellurnar við SandakravegBjörns Gunnlaugssonar setja hann inn á réttan stað og sóknarlýsingar frá 1840. Þær lýsa honum nokkuð vel. Lárus á Brunnastöðum sem og gamlir malar sunnar í hreppnum könnuðust aldrei við veg frá Stóru-Aragjá og upp að Nauthólaflötum.“
Vitneskja um „fornar“ eða „gamlar“ götur á Reykjanesskaganum eru tiltölulega nýjar. Þeirra er ekki getið í fornum heimildum, enda hafa að öllum líkindum þótt svo sjálfsagðar að ekki tæki að fjalla um þær sérstaklega. Fyrstu „ferðamennirnir“ hér á landi fóru flestir alfaraleiðirnar milli áhugaverðra náttúrustaða. Einn þeirra staða var t.a.m. hverasvæðið í Krýsuvík. Að öðru leyti þótti Reykjanesskaginn líkastur auðn, líkt og Sveinn Pálsson lýsti í ferðabók sinni seint á 19. öld; „hér er ekkert merkilegt að sjá…“, auk þess sem hann sagði Gullbringusýslu „ljóta á að líta“.
Þrátt fyrir heimildarleysið hafa landsmenn ferðast af nauðsyn milli tiltekinna staða með ströndinni og stranda á millum um aldir – eða allt frá landnámi á 9. öld, eða jafnvel lengur. Þegar meiri festa komst á samfélagsmyndina og tilteknir staðir urðu ráðandi forðabúr svæðisins og aðrir ákveðnir stjórnsýslustaðir komust á fastar og hefðbundnar ferðir starfsfólks að og frá þeim, sem og fólks er sótti þangað varning, stundum í löngum lestum, s.s. að Seltöngum og í aðrar verstöðvar og verslunarstaði.

Varða við Sandakraveg

Yfirleitt var reynt að velja greiðfærustu leiðirnar á milli staða, jafnvel þótt lengri væru en þær beinustu. Reynt var að krækja framhjá úfnum og torfærum hraunum, sléttlendi frekar valið fyrir fótgangandi tvífætlinga og gróðurræmur fyrir fjórfætlinga. Vel var gætt að því að „halda hæð“ svo ekki væri verið að fara að óþörfu upp og niður hæðirog lægðir. Slíkt krafðist orku, en mikilvægt var að lá fyrirliggjandi orkuöflun nýtast sem best í ferðinni hverju sinni. Hver fylgdi öðrum. Smám saman mynduðust mjóar götur í harða hraunhelluna þar sem umferðin var mest og samfeldust. Hafa ber í huga að ný hraun voru að renna um Skagann fram á ofanverða 12. öld og hiti hefur verið í þeim allt fram á framverða 13. öld. Helluhraunið milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur er gott dæmi um breytta þjóðleið vegna eldgosa á nútíma. Einnig Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (Kapelluhraun), auk hraunanna ofan við Grindavík (Sundhnúkahraun, Illahraun og Afstapahraun sem og Eldvarpahraunin síðustu).
Eftir að þær mörgu „gömlu“ götur á Reykjanesskaganum hafa verið skoðaðar hefur vaknað grunur um að hlutar sumra þeirra séu hluti af mun eldri, almennari og lengri leiðum – gleymdum götum, sem legið hafa frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin. Þar hefur t.a.m. Krýsuvíkurleiðir, sem á seinni aldarmisserum hafa verið skráðar sérstaklega vegna tengsla, vitneskju eða áhuga manna á þeim, einungis verið hliðarstígar af almennari leiðum sem og margar aðrar götur, þ.á.m. Þórustaðastígurinn, Breiðagerðisstígurinn, Hrauntungustígurinn, Skógargatan o.fl.. Líklegt er, miðað við ummerki, að Krýsuvíkurleið með Suðurströndinni hafi verið ein aðalleiðanna frá og til sveitanna Sunnanlands.

Varða við Sandakraveg

Svo hefur einnig verið um Sandakraveg, hluta Skógfellastígs, götu um Brúnir sunnan Keilis, götur með Hálsunum, götu að og frá Selsvöllum svo og götu um Lambafell og Mosa sem annar hluti að vestanverðri Alfaraleiðinni til Reykjavíkur, heimkynna allsherjagoðans, og síðan Álftaness, aðseturs yfirvaldsins. Þessar götur eru hvað mest klappaðar í hraunhelluna. Sumar sjást nú einungis að hluta eða á köflum og líklegt má telja að elstu göturnar liggi utan þeirra leiða er síðar voru farnar með fé eða til almennra ferðalaga milli svæða.
Þegar haldið var til suðurs um Dalahraunið virtust nokkrar leiðir greiðfærar, a.m.k. langleiðina, en þegar komið var að úfinni hraunbrúninni að austanverðu varð þar torfæri. Ekki er útilokað að þarna kunni að leynast leið upp yfir brúnina því telja verður líklegt að þeir, sem þekktu vel til staðhátta og fóru oft þarna á millum, hafi gjarnan valið stystu leiðina til að spara tíma. Eftir þessa ferð er þó ljóst að stysta leiðin er ekki alltaf sú orkusparnaðasta og að þeir, sem um götunar fóru, reyndu jafnan að gæta samræmis og meta hvort væri þarfsamara.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst. og 4 mín.

Uppréttar hraunhellur við Sandakraveg - Stóra Skgógfell framundan

Húsatóftir

FERLIR fann fyrir allnokkru hlaðna refagildru ofan við Húsatóptir við Grindavík. Þegar svæðið var skoðað betur fyrir skemmstu komu í ljós tvær aðrar til viðbótar og líklegt má telja að þar kunni að leynast fleiri slíkar.

Húsatóptir

Húsatóptir – refagildra.

Auk refagildranna ofan við Húsatóptir eru fleiri hlaðnar refagildrur við Grindavík, s.s. í Básum ofan við Staðarberg, í Sundvörðuhrauni skammt ofan Húsatófta og við Sandleyni ofan við Hraun.
Hinar hlöðnu refagildrur eru leifar gamalla veiðiaðferða, áður en skotvopnið, eitrið og dýrabogar komu til sögunnar – sumir telja hugmyndina hafa komið hingað með landnámsmönnum því slíkar gildrur tíðkuðust þá t.a.m. í Noregi. Skrifaðar heimildir eru um þær frá árunum 1781-1798.
Refagildra er sjaldan getið í örnefnaskrám. Þó má sjá þess merki, s.s. í örnefalýsingu fyrir Tannastaði: „Stekkjarhóll er til landnorðurs frá bænum. Á honum eru tvær fuglaþúfur og var þar áður refagildra undir nyrðri þúfunni. Sunnan undir þúfunni var stekkjað um 1840 og eru glöggar tóftir síðan. En litlu norðar eru mjög gamlar tóftir eða vottur þeirra, sem vel gætu verið frá fornöld.“
Refagildra
Í fornleifafræðiorðasafni Fornleifafræðistofnunar Íslands segir um gildrur þessar: tófugildra – Gildra til að veiða í refi. [skýr.] Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni. [enska] fox trap
Fyrir nokkrum áratugum þótti það í frásögu færandi, og jafnvel einstakt, að til væri hlaðin refagildra er líklegt þótti að gæti verið með sama lagi og slíkar gildrur voru gerðar í Noregi og síðan hér á landi að þeirra fyrirmynd. Var einkum vitnað til slíkra fornminja er til væru á Norðausturlandi, einkum Merrakkasléttu.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Ef Reykjanesið – hið jafnumkunnugulega og ómerkilega til langs tíma – er skoðað gaumgæflega má þar finna ótal slíkar hlaðnar refagildrur. A.m.k. 80 slíkar hafa opinberast ásjónum leitenda s.l. misseri – þær síðustu hér tilgreindar ofan Húsatófta.
Í örnefnalýsingum fyrir Húsatóptir er engin lýsing á refagildrum. Sennilega hafa þær þótt svo sjálfsagðar sem raun ber vitni. Í einni lýsingu er þó talað um Baðstofugreni norðan Baðstofu, auk annarra grenja fjær bænum, s.s. við Sandfell og Rauðhól.
Hinar hlöðnu refagildrur, sem skoðaðar hafa verið, voru jafnan þannig; hlaðið var “grunnlag”; annað hvort í lægð (“láfótan lægðirnar smjó”), á barmi gjár, við bakka eða á annarri líklegri leið rebba (sem jafnan er stundvís sem klukkan). Gildran sjálf var þannig; hlaðinn gangur (ca. 1 m langur, 10 cm breiður og 20 cm hár). Þá var reft yfir með steinum eða hellum svo rebbi gæti ekki lyft af sér okinu þegar á reyndi. Oft var vel hlaðið ofan á og til hliða, enda af nógu grjóti af að taka.

Refagildra

Refagildra – teikning.

Virkni: Þegar gangur og yfirhleðsla höfðu verið fullkomnuð var tekin fram “fallhellan” ógurlega (ekki ómerkilegri en nafna hennar í frönsku fallöxinni. Tveimur öflugum steinum var komið fyrir sitt hvoru megin framan við opið. Fallhellan var “krossbundin” og þráður lagður í “hæl” innan í gildrunni. Hnútnum var haganlega fyrir komið. Í hinn endann var hnýtt hluti rjúpu eða af örðu agni. Þegar refurinn greip agnið og togaði í það hljóp lykkjan af hælnum. Við það féll fallhellan niður og refurinn var innikróaður. Hann reyndi að fra til baka,e n fallhellan hindraði hann í því. Þá reyndi hann að lyfta okinu af sér, en þunginn kom í veg fyrir að það tækis. Smám saman þvarr rebba kraftur og hann lagðist niður, beið og dó síðan – smám saman – úr hungri. Þá var hann sóttur í gildruna, skottið sniðið af og hræinu hent. Að vísu var skinninu haldið til haga um skeið (dæmi eru um að því sem og skottinu hafi verið jafnað við vermæti “skagfirsks gæðings” fyrrum), en það breyttist smám saman uns lítið varð að öngvu – nema áhuganum.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

„Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar og Gildrumelar og getur sumsstaðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Sennilegt er, að grjótgildrur þessar hafi verið algengasta veiðitækið á refi hérlendis áður en byssur urðu algengar. Dýrabogar hafa þó þekkst lengi, enda er minnst á boga í kvæðinu um Hrafnahrekkinn og notaði veiðimaðurinn hann samhliða gildrunni, en trúlega hafa þeir fyrst orðið algengir á síðustu öld. Erlendis voru stærri veiðidýr, svo sem hreindýr, úlfar og birnir veidd í fallgryfjur, en eiginlegar fallgryfjur eru vart þekktar hérlendis. Thedór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni Á refaslóðum, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð. Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift.

Tyrkjabyrgi

Refagildra við „Tyrkjabyrgin“ ofan Húsatófta.

Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. Í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. Aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa hlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.
Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu öld að minnsta kosti.

Refagildra

Refagildra.

Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum ámiðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna, en einnig voru ar í notkun nýjar refagildrur af nokkuð annarri gerð.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Sigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra. Bárust svör allvíða að af landinu og reydust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þaim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…
Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og hjá Grindavík er rúst af gildru.

Refagildra

Refagildra innan dyra.

Greinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur,s em ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.

Gömlu Hafnir

Refagildra.

Gildran á Húsafelli er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum oggengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.
Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þanngi hangið uppi. Í tittinn var síðan bunið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftr tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður.

Refagildra

Refagildra – Reykjavíkurpósturinn 1847.

Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mútulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.

Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skroðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. Enm í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju áhinum enda bandins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast ofyast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.“

Heimildir:
-Síðari hlutinn eru af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.
-Fornleifafræðistofnun Íslands – Fornleifafræðiorðasafn.

Húsatóptir

Húsatóptir – refagildra.

Blasíusbás

Blasíus hét helgur maður austur í Armeníu, læknir upphaflega en síðan biskup í borginni Sebasteu (sem heitir nú Sivas og tilheyrir Tyrklandi). Hann dó píslarvættisdauða árið 316 e.Kr. Á ensku er Blasíus nefndur Saint Blaise, á ítölsku San Biagio o.s.frv. Af helgum mönnum eins og honum voru snemma skrifaðar sögur á latínu. Sögu hans var snúið á norrænt mál þegar á 12. öld og er varðveitt í íslenskum handritum. Í Blasíussögu er sagt frá ævi Blasíusar og endalokum, miklum píslum en líka kraftaverkum.

BlasíusEn guðs vottur Blasíus biskup var höggvinn hinn 3. dag febrúaris mánaðar, en sá er hinn næsti eftir Kyndilmessu, er hann fór af jörðu til himins, frá mönnum til engla, frá heimi þessum guði til handa, píndur mörgum píslum, í myrkvastofu settur, stöngum barður og staglfestur, ullarkömbum slitinn og á vatn færður, en að nestlokum sverði höggvinn (Blasíus saga, bls. 269).

Stöku sinnum er minnst á Blasíus í íslenskum ritum. Í Þorlákssögu helga er greint frá jartein sem gerðist á Stór-Reykjavíkursvæðinu, nánar tiltekið á bænum Bútsstöðum (eða Bússtöðum) sem Bústaðavegur hefur síðar verið kenndur við. Smalamaður kom heim frá dagsverki sínu, mælti eitt orð en missti þá málið og gat engu stunið upp í sjö daga. Bóndi hans hét þá á Blasíus en það dugði ekki til. Var þá heitið á Þorlák biskup að auki og þá báða saman og fékk þá smalamaður loks málið (Biskupa sögur II. Íslenzk fornrit XVI (2002), bls. 284).

Kirkjan í Reykjavík fyrr á öldum var kölluð Jónskirkja postula í Vík, eftir guðspjallamanninum og postulanum Jóhannesi (sem lengi framan af var kallaður Jón á íslensku). Heilagur Blasíus virðist hafa verið í hávegum hafður í þessari kirkju. Líkneski af Blasíusi stóð í kirkjunni frá fornu fari og þegar ný kirkja var reist og vígð 1505 var það gert á messudegi Blasíusar, 3. febrúar. (Saga Dómkirkjunnar e. Þóri Stephensen (http://www.domkirkjan.is/AI007.html)).

Kirkjan á Stað í Grindavík var einnig helguð Blasíusi og ekki langt frá var boði í hafi kenndur við hann, Blasíusboði í Reykjanesröst. Hann var sagður „hættulegur jafnvel stærri skipum í þoku og brimi, þar á honum er yfrið grunnt um fjöru; samt munu þar fáir hafa farist“ (Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknarlýsingar (2007), bls. 40).

Blasíusarbás

Blasíus þessi kemur víðar fyrir í sögu íslenskra örnefna. Á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi nefndist hóll í túninu skammt vestan við bæinn Blasíus en engin skýring er á nafninu. Á Ásgarði í Grímsnesi var völlur í túni kallaður Blasíusvöllur. Þessi nöfn gætu tengst eitthvað dagsetningu Blasíusmessu 3. febrúar eða áheitum á dýrlinginn. Um Blasíus er sagt að hann væri verndari nautasmala og svínahirða, ullarkembumanna og -kvenna, spunamanna og -‘kvenna, og allra tóvinnumanna og -kvenna, vefara, skóara, steinhöggvara og skipasmiða, en gott að heita á hann gegn hálsbólgu, kíghósta og alls konar hálskvillum, barkadrepi og tannpínu, gegn villidýrum og þrumuveðri, og fyrir veikum börnum, svínum og geitum og öllum búpeningi (Guðbrandur Jónsson, Hverjir og hvers vegna, Skírnir CVII, 1933, bls. 53).

Kunnasta örnefnið á Íslandi kennt við Blasíus er sennilega Blasíusbás í landi Staðar í Grindavík. Í örnefnaskrá segir um hann: „Inn í bergið á milli Valborgarkeldu og Skarfaseturs skerst skeifulaga bás og slær bláma á bergveggi hans. Heitir hann Blásíðubás og svo hafa [heimildarmenn] alltaf heyrt hann nefndan“ (Örnefnaskrá Staðar). Í bók eftir séra Gísla Brynjólfsson segir um Blásíðubás: „Eldra nafn er Blasiusarbás. Í honum átti Skálholtsirkja allan reka áður fyrr. Þetta er falleg og sérkennileg náttúrusmíð, ágætt dæmi um átök hraunsins og hafsins, sem molar bergið og hleður því í stórgrýtta urð í sjávarmálinu“ (Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók (1975), bls. 31–32).

Brak úr ClamÞarna kemur fram að nafnið sé nú Blásíðubás en ekki Blasíusbás. Fyrir nafnbreytingunni er góð og gild ástæða. Eftir siðaskipti var mikið til hætt að heita á kaþólska dýrlinga og þegar fennt var yfir nafn Blasíusar var örnefnið Blasíusbás orðið óskiljanlegt. Það var því endurtúlkað sem Blásíðubás og hefur tekið yfir örnefnið eða a.m.k. lifað samhliða því. Önnur örnefni kennd við Blasíus sýna þó svo ekki verður um villst að tíðkast hefur að nefna kennileiti eftir dýrlingnum. Athyglisvert er að örnefnin eru öll á suðvesturhorni landsins og aðrar heimildir benda til þess að Blasíus hafi einkum verið kunnur í þessum landshluta. Áður er minnst á tengsl við kirkjuna í Reykjavík og á Stað og bæta má við að Blasíus var aðaldýrlingur kirkjunnar á Laugarvatni og aukadýrlingur víðar, bæði í Árnessýslu og í Borgarfirði (Margareth Cormack, The Saints in Iceland (1994), bls. 85).

Reykjanesviti

Nefna má að fleiri básar við sjó á Suðurnesjum eru kenndir við kirkjunnar menn. Þannig er Lárentíusbás skammt frá Höfnum, sennilega kenndur við Lárentíus Kálfsson, íslenskan biskup sem uppi var á 13. og 14. öld. Það hefur þótt vita á gott að kenna staði við helga menn. Blasíus tengdist sjósókn líka sérstaklega á þann hátt að á Blasíusmessu, 3. febrúar, hófst vetrarvertíð á Suðurlandi. „Þá streymdu vermenn úr flestum héruðum landsins til verstöðvanna á Suðurnesjum og réðu sig í skipsrúm til 11. maí. En þá voru vertíðarlok“ (Jón Eyþórsson, Um daginn og veginn, (1969), bls. 192).

Blasíusmessa var líka haldin hátíðleg í Færeyjum. Þar var dagurinn einnig nefndur Blámessa. Væri veður stillt og gott á Blámessu í Færeyjum vissi það á blautt vor. Sjómenn máttu ekki nefna nafn Blasíusar á báti því þá var hætta á hvassviðri. Blásius eða Blásus er til sem mannsnafn í Færeyjum (Axel Tórgarð, Dagar og nøvn í almanakkanum (1994), bls. 24).

Viðbót: Í Fornbréfasafni Íslands, bindi XV, bls. 630, er getið um Blasinsdal eða Blaciusdal í landi Innra-Hólms á Akranesi. Heimildin er úr Gíslamáldaga frá síðari hluta 16. aldar.

Heimild:
-Hallgrímur J. Ámundason (maí 2010).
-http://www.arnastofnun.is/page/ornefnapistlar_blasius.

Blasíubás

Blasíubás.

Húshólmi

„Austan við Grindavík, í miðju Ögmundarhrauni skammt austan Selatanga, er að finna afar merkilegar fornminjar, svonefndan Húshólma, þar sem glögglega má sjá fornar rústir, hús og garða en talið er að þær geti verið frá fyrstu tíð landnáms. Líklega hefur þar verið búseta fram á miðja 12. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á rústunum en þær eru friðlýstar.

Hush

Þær litlu rannsóknir sem þar hafa verið gerðar benda til þess að þorpið geti verið með elstu þekktu mannvistarleifum á landinu.
„Sennilega eru þetta almerkilegstu fornminjar á landinu. Ég hef reynt að vekja athygli Fornleifaverndar ríkisins á þessu. En þeir virðast álíta að fornminjar séu best geymdar niðurgrafnar. Þetta er stórmerkilegt svæði, að sjá garðana og tóttir gömlu kirkjunnar sem líklega hefur staðið þarna fram á 15. öld. Bærinn fór í eyði um 1150 og þetta hlýtur að vera einstakt tækifæri fyrir fornleifafræðinga að geta flétt ofan sögunni frá miðri 12. öld og niður,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík í samtali við Víkurfréttir. Aðspurður telur hann fjárskort helst hafa hamlað því að ráðist yrði í fornleifauppgröft í Húshólma auk þess sem önnur svæði hafi verið ofar á forgangslistanum. „En þetta hlýtur að teljast afskaplega forvitnilegt svæði. Það veit enginn hversu stór hluti þorpsins fór undir hraunið,“ segir Ólafur.
HusholmTalið er að hraunið hafi runnið yfir allnokkra byggð en skyldi eftir óbrennishólma í miðju hraunrennslinu. Í dag má sjá þar leyfar nokkurra húsa og hefur eitt þeira líklega verið kirkjan en örnefnið Kirkjulág bendir eindregið til þess. Sjá má hleðslur fornra garða, fjárborgar, lítillar réttar eða stekks og fleira.
Ómar Smári Ármannson hefur tekið saman ýmsar heimildir um þetta svæði sem lesa má um á vefnum ferlir.is. Hann telur ekki ólíklegt að rannsóknir á Húshólma „gætu haft áhrif á hina stöðluðu ímynd af landnámi hér á landi,“ eins og hann kemst að orði í einum pistla sinna. „Það er jafnframt ein helsta skýringin á því hvers vegna ekki hafa þegar verið hafnar skipulegar rannsóknir á svæðinu,“ segir Ómar Smári ennfremur.
Svæðið hefur oft verið nefnt Gamla Krýsuvík en elstu skráðar heimildir um minjarnar eru frá byrjun 17. aldar. Í Óbrennishólma, sem er skammt norðvestar í Ögmundarhrauni eru einnig minjar stórrar fjárborgar, tóft og garðar sem hraunið stöðvaðist við.
Á þessum loftmyndum Oddgeir Karlssonar sést glögglega hvernig hraunið hefur runnið allt í kringum kirkjustæðið forna. Engin veit í rauninni hversu stór byggðin var og hve mikið af henni fór undir hraunið. Né heldur hvaða fólk bjó þarna. Sagan bíður eftir því að vera rannsökuð.“
Við þetta má bæta að gerðar hafa verið skýrslur um svæðið sem og tillögur um rannsóknir, aðgengi, merkingar og upplýsingar á vettvangi – fyrir daufum eyrum hingað til a.m.k.

Heimild:
http://www.grindavik.is/v/5049

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.

Brennisteinsnám

Brennisteinsfjöll draga nafn sitt af brennisteinssvæði því sem áður var unninn úr brennisteinn. Enn má sjá þar leifar námunnar sem og minjar eftir námumennina. Einnig á leið þeirra til og frá námusvæðinu, s.s. undir Kerlingarskarði við Grindarskörð (norðar) eða Bollaskörð, eins og þau voru einnig nefnd. Nefndir bollar eru ofan skarðanna þriggja, sem jafnan voru fær um hlíðarnarnar. Þverskarð er syðst þeirra.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar gengið er áleiðis upp í Kerlingarskarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman – og væri þar enn ef einhver hefði ekki séð einhvern verðmæti í honum og/eða notagildi.
Ofan skarðsins blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum þar. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna.

Brennisteinsnámur

Ofninn í brennisteinsnámunum.

Þegar haldið er inn í brennissteinsnámurnar sunnan í Brennisteinsfjöllum er þægilegast að halda til suðurs vestan Draugahlíða, yfir litlar gígaþústir, framhjá útdauðu hverasvæði á vinstri hönd og síðan suður eftir miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónar stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Þegar gengið er á ská niður gróna hlíð má fljótlega sjá nokkuð stóra tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni.
Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hefur hrunið yfir ofninn, en með því að skafa jarðveginn ofan af kemur hann í ljós.

Brennisteinsnámur

Tóft brennisteinsmanna í Námuhvammi.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fyrst fluttur út frá Íslandi á 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“
Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsnám

Tóft húss námumanna undir Kerlingarskarði.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. síðan tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.”

Selvogsgata

Gata um Kerlingarskarð.

Þar með lauk áhuga manna á brennisteinsvinnslu hér á landi. Eftir standa námusvæðin, þ.á.m. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík, um þennan sérstaka þátt í atvinnu- og útflutningssögu landsins. Líkt og ofninn, námurnar og minjar námumanna eru enn sýnilegar í Brennisteinsfjöllum má enn sjá minjar brennisteinsnámsins við Seltún og í Baðstofu í Krýsuvík – ef vel er að gáð. Vonandi ber landsmönnum gæfa til að varðveita þessi svæði – þrátt fyrir stóriðju og „knýjandi“ orkuþörf, sem verður óþörf innan skammrar fram framtíðar.
Augljóst þykir að landsmenn hafa þörf fyrir nútímaþægindi, s.s. rafmagn. Stóriðja er hins vegar tilbúin skammtímahagvaxtarvon. Þessi skammtímahagvaxtarvon er líklegasta og greiðasta leiðin að eyðileggingu hinnar ómetanlegu náttúru og hins óafturkræfa umhverfis til lengri tíma litið.
Landsfólk þarf að gera þá kröfu til stjórnmálamanna, am.k. þeirra, sem vænta má að hafi eitthvert vit í kollinum (hvort sem um er að ræða karla eða konur), að þeir gefi sér tíma, afli nauðsynlegra upplýsinga, meti síðan valkosti og taki „réttmæta“ ákvörðun, líkt og dómarar þurfa að gera í „mannefnalegum“ málum. Það er „kýrskýrt“ (GÁS) að hinum síðastnefndu hefur oftlega mistekist að lesa skynsamlega út úr raunverulegu meginmáli einstakra viðfangsefna þeirra (kannski vegna tímaleysis eða „færibandslegra, kerfis-, laga- eða reglugerðalegra krafna“ (forskrifta)) og niðurstöðurnar verið eftir því. Ákvörðunar um náttúruna og umhverfið má aldrei vega með sama viðmiði.
Auðvitað er niðurlagið raunamædd ræða – en nauðsynleg áminning samt sem áður. Staðreyndir segja að meðan 80% fólks er sama um hvað sem er (nema sjálft sig) er 20% fólks hugsandi um hið sama (um annað en sjálft sig).
Framangreint niðurlag er ekki gagnrýni eða vanmat – einungis „föðurleg“ ábending til nálægrar framtíðar (og hefur vonandi skapað rými fyrir enn eina upplýsandi ljósmynd/uppdrátt).

Heimildir m.a.:
-http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html
-Saga Hafnarfjarðar.

Brennisteinsnám

Gata á námusvæðinu.

Hraunssel

Gengið var upp frá Mjöltunnuklifi ofan við Ísólfsskálaveg af hinni fornu leið millum Krýsuvíkur og Grindavíkur áleiðis að Hraunsseli undir Núpshlíðarhálsi.
Fyrrum lá selsstígurinn upp með Lyngbrekkum Gnupurúr Drykkjarsteinsdal, Leirdal, ofan Skála-Mælifells og síðan til austurs milli Höfða og Sandfells yfir Grákvíguhraun að Neðri-Þrengslum gegnt Framfelli. Þaðan var stutt í selið. Ef farin var gamla þjóðleiðin um klifið þurfti að fara yfir Leggjabrjótshraun. Vagnvegur var gerður yfir það snemma á þriðja áratug síðustu aldar að boði Hlínar Johnsen, bústýru í Herdísarvík og Krýsuvík. Síðar var vegurinn ruddur með jarðýtu, en hina gömlu göngu- og reiðleið má sjá á köflum norðan hans, einkum á móts við brúnavörður, en þær munu upphaflega hafa varðað þá leið.
Ef haldið er upp með vestanverðum (G)núpshlíðarhálsi er fljótlega komið að Gnúpi; stórum móbergskletti undir hálsinum. Ef að er gáð má sjá að steinninn sá hefur áður staðið á stalli ofar í hálsinum, en einhvern tímann og af einhverri ástæðu fallið af honum og komið „standandi“ niður.

Framfell

Gnúpur er stærsti steinninn undir Gnúpshlíðarhálsi og því hefur verið talið sjálfsagt í virðingarskyni að fornefna hann hálsinum öllum. Rétt er að minna á að Molda-Gnúpur var fyrsti landsnámsmaðurinn á þessu svæði ef marka má Landnámu og Íslendinga-bók. Festi hann búsetu um 930. Telja margir að það hafi verið á svæði undir (G)núpshlíðarjálsi þar sem nú heitir Húshólmi (eða þar í kring).
Haldið var upp með vestanverðum hálsinum, framhjá Lynghvammi, yfir Öxlina og framhjá Framfelli, í gegnum Þrengslin og inn á Hraunsselstúnið.
Í túninu eru greinilegar grónar tóftir tveggja selstaða. Telja má líklegt að þær séu frá Hraunsbæjunum, sem lengst af voru tvíbýli. Syðsta tófin er dæmigerð seinni tíma sel; þrjú rými í reglulegri röð. Vestast er eldhúsið, baðstofan í miðjunni og búrið austast, næst hlíðinni.

Selsvallafj

Miðtóftin er tvískipt; baðstofa og búr austar. Eldhúsið er sjálfstætt skammt norðan hennar. Enn norðar eru leifar af skjóli.
Vestan þessara tófta eru leifar eldra sels. Það hefur verið dæmigert sem slíkt; þrískipt. Enn vestar má sjá hlaðinn stekk. Norðar eru leifar stekkst, sem tilheyrt hefur gamla selinu.
Í örnefnaskrá Gísla Hafliðasonar, bónda, á Hrauni og Guðmundar Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála, sem Ari Gíslason skráði, má lesa eftirfarandi:
„Nú byrjum við aftur austur við Núpshlíð, og má vel vera, að eitthvað af því, sem hér verður fyrst talið, sé í landi Ísólfsskála. Núpshlíðin hefur fyrr verið nefnt, og rís hún upp norður af Ögmundarhrauni. Framhald af henni til norðausturs er Núpshlíðarháls, sem hér verður á merkjum móti Krýsuvík. Syðst í Núpshlíð liggur vegurinn til Krýsuvíkur gegnum lægð í hlíðina.

Hraunsse-2

Innan við veginn, inn með hlíðinni, er grasivaxinn hvammur með lynggróðri, og heitir hann Lynghvammur. Hann er beint á móti há-höfðanum, er síðar getur. Krossgil er að austan í hálsinum, en það er að mestu leyti í Krísuvíkurlandi. Vestur af hlíðinni tekur við hraunbreiða nokkur, sem heitir Grákvíguhraun. En norðar er það hraun nú nefnt Skolahraun. Eldra nafn á því mun vera Þráinsskallahraun. Vestan við Grákvíguhraun er Höfðinn, sem er nokkuð hár. Suður úr honum er Méltunnuklifið, er getið var hjá Ísólfsskála. Vestur af Höfðanum er annar hraunstraumur, sem heitir Leggjarbrjótshraun. Í því er nafnlaus mosahóll.

Hraunsse-3

Norðan við Höfðann, aðskilið af mjóu skarði, er Sandfell. Um þetta skarð liggur gata, sem lá um sunnanvert Þráinsskallahraun (Skolahraun) austur í svonefnd Þrengsli, en það er grasræma eða lægð, sem myndast milli Núpshlíðar að austan og hraunsins að vestan. í Þrengslum þessum eru rústir eftir Hraunssel. Þar var haft í seli endur fyrir löngu frá Hrauni. Sandfellið er stórt fell. Hér nokkru norðar slítur hraunhaft þrengslin í sundur, og heitir þar norðar Selsvallafjall, og Selsvellir er gróið landsvæði þar, fallegt um að sjá.“
Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar segir um þetta svæði sem og svæðið vestan við Núpshlíðarhálsinn: „Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.

Hraunsse-5

Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.
Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir).

 

Hraunssel-6

Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.
Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.
Austan við Einihlíðar er hraun sem heitir Leggjarbrjótshraun. Austan við það er allhátt fjall sem heitir Höfði og þar norðan við aðskilið af smáskarði er Sandfell. Um þetta skarð og austan við Sandfell er reiðgatan frá Grindavík til Selsvalla. Austan við Höfða er hraun og heitir það Grákvíguhraun. Það nær austur að Núpshlíðarhálsi. Norðar heitir það Skolahraun (eldra nafn Þráinsskallahraun) og nær þessi hraunfláki alla leið inn að Hafnarfirði. Í þessu hrauni suðaustur af Keili er Driffell.
Austan við þetta hraun er mikill fjallarani og skilur hann land á milli Krýsuvíkur, Ísólfsskála Hraunsse-4og Hrauns. Er hann ýmist nefndur Núpshlíðarháls eða Vesturháls.
Selsvellir eru grasi grónir vellir vestur undan Vesturhálsi. Heitir fjallið þar upp af Selsvallafjall. Á einum stað að sunnanverðu nær hraunið upp að fjalli og heitir þar Þrengsli. Þar fyrir sunnan eru tættur af gömlu seli frá Hrauni og heitir þar Hraunsel. Nyrsti hluti Selsvalla heitir Kúalágar og þar var hver sem hét Hverinn eini en hann tók af í jarðskjálftum 1910. Þar upp af er hæsti hluti Vesturháls og heitir Trölladyngja (venjulega nefnt Dyngja). Norðaustan við Kúalágar eru Grænavatnseggjar og þar upp á fjallinu er Grænavatn í djúpri kvos. Á Selsvöllum er lækur nefndur Selsvallalækur. Hálsinn á milli Kúalága og Höskuldarvalla heitir Bergsháls.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
Örnefnalýsingar fyrir Hraun (ÖÍ).

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

 

Keflavík

Í þremur tölublöðum Faxa árin 1947 og 1948 eru birtir „Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum“ eftir Mörtu V. Jónsdóttur:

„Það hafa löngum farið litlar sögur af Rosmhvalanesi eða Suðurnesjum, eins og Skaginn er kallaður í daglegu tali, eða því fólki, er þar hefur búið fyrr og síðar. Þó mun mörg sagan, ef geymst hefði, hafa borið Suðurnesjabúum vitni um snilli sjómennsku, drengskap og áræði, þrek og þorí hinum mörgu mannraunum liðinna alda. Svo munu þeir er bezt þekkja liðna kynslóð geta mælt. En það er eins og örlögin hafi frá upphafi byggðar séð um, að þaðan væri engra fregna að leita.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Tvisvar hafa verið ritaðir annálar á Suðurnesjum á fyrri öldum svo vitað sé. Báðir hafa þessir annálar glatast.
Sennilegt er, að íbúar Skagans hafi snemma dregið björg í bú, ekki einungis handa sér og sínum, heldur einnig handa öðrum. Hefur þar af myndast visir til verzlunar. Og einhverja góða og gilda ástæðu hefur Steinunn gamla landnámskona haft, þegar hún keypti landið af Ingólfi frænda sínum. Mætti geta þess til, að hún hafi þá þegar verið búin að sjá, hver gullkista lá úti fyrir ströndinni, er hún fór þangað til bús.
Það er sennilegt, að Keflavík hafi snemma á öldum orðið aðsetur verzlunar og viðskipta. Hefur lega staðarins valdið þvi, þar sem á báðar hliðar eru hin aflasælu fiskimið á vestanverðum Faxaflóa og jafnvel á sjálfri Keflavíkurhöfn oft og einatt uppgripa afli.

Höfnin í Keflavík, er liggur fyrir opnu hafi mót austri, var reyndar aldrei talin örugg  höfn, þótt akkerisbotn væri góður og dýpi nóg (14 faðmar), var skipum er þar lágu, hætta búin, er austan-suðaustan stormur geisaði. Var og talið allt fram á ofanverða 19. öld, að engri björgun yrði við komið, ef skip ræki upp að Berginu, enda urðu þar skipsakaðar nokkrir.
Aðrar hafnir á Skaganum voru áður fyrri Grindavík (Staðarsund), Þórshöfn norðan Ósbotna og Bátsendar sunnan við Stafnes. En allar þessar hafnir hurfu úr sögunni um og eftir aldamótin 1800 og varð Keflavík þá einvöld á Skaganum.
Keflavík
Svo sem kunnugt er, ráku Englendingar, Þjóðverjar og Hollendingar verzlun og fiskiveiðar hér við land fyrr á öldum. Koma þessar þjóðir, einkum Englendingar og Þjóðverjar, því mikið við sögu Skagans.
Nýi annáll getur þess, að enskt skip hafi komið til Suðurlands 1412. Mun það vera elzta heimild um siglingar Englendinga hingað til lands. Sumarið 1415 er aftur getið 6 enskra skipa, er lágu í Hafnarfirði og verzluðu við landsmenn. Eitt þeirra „reyfaði“ skreið á Rosmhvalanesi og sést af því, að þeir hafa verzlað við suðurhafnirnar og er harla líklegt, að Keflavík hafi verið ein þeirra.
Aðalhöfn Englendinga við Faxaflóa, var Hafnarfjörður. En Hamborgarkaupmenn, er líka vildu fleyta rjómann af verzlun við Íslendinga, urðu Englendingum þungir í skauti og var oft æði róstursamt þeirra í milli.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar frá 15. öld.

Árið 1518 var orusta háð í Hafnarfirði milli Englendinga og Hamborgarmanna. Höfðu hinir síðarnefndu dregið saman mikið lið. Er sagt, að þá hafi komið til móts við þá 48 þýzkir menn sunnan frá Vatnsleysu, Keflavík, Bátsendum og Þórshöfn. Á þessu sést greinilega, að Þjóðverjar hafa þá verið búnir að leggja undir sig hafnirnar á Suðurnesjum.
Í orustu þessari sigruðu Þjóðverjar og náðu þá yfirráðum í Hafnarfirði. Hafa þeir eftir það orðið svo til einráðir á Faxaflóa.
Englendingar höfðu eftir þetta aðsetursstað í Grindavík um nokkurt skeið. En þetta var stundarfriður. Árið 1532 réðust Þjóðverjar að enskum kaupmanni, er þá verzlaði í Grindavík og hafði gjört sér vígi ‘á Járngerðarstöðum. Drápu Þjóðverjar kaupmanninn og allt lið hans. Hafa það án efa verið erfiðir dagar fyrir alþýðu manna að búa við sífelldar óeirðir og ójöfnuð útlendra manna. Þó hefur þjóðin orðið að þola margfalt meira, er konungsverzlun Dana varð hér einvöld árið 1602. Að visu hafa aðrar þjóðir verzlað við landsmenn eftir sem áður á laun, en eftir því sem lengur leið, urðu verzlunarsamböndin sterkari og böl landsmanna ægilegra.

Staður

Grindavíkurhöfn og Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá 1751.

Á einokunartímabilinu var hverri höfn úthlutað vissu umdæmi, var hverjum manni innan þess umdæmis, skylt að verzla við sinn verzlunarstað. Ef út af þessu var brugðið og upp komst, voru harðar refsingar dæmdar þeim, er framið hafði þá óhæfu að verzla við aðra en sinn kaupmann.
Alræmd varð sagan um Hólmfast Guðmundsson, bláfátækan búðarsetumann í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd. Hafnarfjarðarkaupmaður taldi hverfi þetta til síns umdæmis. Voru þó mörkin ekki glögg og oft um deild. Hólmfasti hafði orðið á sú skyssa að selja Keflavíkurkaupmanni 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd. Hefur ef til vill fengið betra verð. Mál út af þessu tiltæki Hólmfasts var tekið fyrir á Kálfatjarnarþingi sumarið 1699 og var hann dæmdur sekur. Ekkert átti hann til að borga með sektina, nema bát sinn, er talinn var svo ónýtur að hann væri ekki gjaldgengur. Var Hólmfastur því húðstrýktur á þinginu að viðstöddum amtmanni, HafnarfjarSarkaupmanni og öllum þeim, er þingið sóttu. Sætti hann þar hinni grimmilegustu meðferð. Á þessu sama Kálfatjarnarþingi lét sá hinn sami, Hafnarfjarðarkaupmaður, alþýðu gefa sér vitnisburð mjög lofsamlegan um verzlun og viðskifti þeirra í milli. Er augljóst, að alþýða manna hefur þá verið svo þrautpínd, að enginn hefur þorað að hreyfa andmælum, er þeir gáfu honum slíkan vitnisburð. En tíðum hafa Íslendingar verið langminnugir og svo mun hafa verið um þá menn, er þoldu óréttinn á þessu Kálfatjarnarþingi.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á Vatnsleysuströndinni, einmitt á þeim sama stað er atburður þessi gjörðist, lifði sagan um Hólmfast á vorum alþýðu fram undir síðustu aldamót og varð fastur liður í þeim sæg rökkursagna, er fullorðna fólkið sagði börnum og unglingum.
Nálega tveim öldum síðar en atburður þessi gjörðist, heyrði ég söguna sagða eina slíka rökkurstund. Maður sá, er söguna sagði, kunni frá mörgu að greina. Hann hafði alið allan sinn aldur á Vatnsleysuströnd og var af góðum ættum á Suðurnesjum hið næsta. Hann sagði, að Hólmfastur hefði eftir atburð þennan flutzt út í Njarðvíkur. Hefði bóndinn í Innri-Njarðvík tekið hann í sína umsjá og hefði Hólmfastur dvalið þar til æviloka. Sögumaður endaði með þessum orðum: „Þessari sögu megum við aldrei gleyma“.
Þótt þessi gerð sögunnar séu munnmæli ein, eru líkur fyrir því, að rétt sé hermt. Í manntalinu 1703, eða 4 árum síðar en atburður þessi gjörðist, búa á einni Innri-Njarðvíkurhjáleigunni: Hólmfastur Guðmundsson 56 ára, Solveig Sigurðardóttir kona hans 38 ára og Þorsteinn sonur þeirra II ára gamall. Býli þetta er nafnlaust í manntalinu, en lítill vafi er á því, að nafn Hólmfasts hefur festst við býlið. Mun það vera sama býlið, sem enn í dag heitir Hólmfastskot.

Skip 1600-1700

Skip – 1600-1700.

Um aldamótin 1700 var svo þrengt orðið kosti landsmanna, að ekki þótti viðunandi. Var Lárus Gottrúp lögmaður fenginn til utanfarar með erindisbréf, eða bænaskrá til konungs, er fjallaði um hörmungar landsmanna og harðdrægni kaupmanna. Lögmaður sigldi með Keflavíkurskipi og með honum kona hans og barn þeirra ásamt þjónustufolki.
Þegar lögmaðurinn var kominn suður til Keilavíkur, ásamt fólki sínu, albúinn til ferðar, heimtaði kaupmaður, að hann legði fram mat til fararinnar. Lögmaður ætlaði þá að kaupa kjöt og smjör af bændum þar syðra, því sjálfur hafði hann bú á Þingeyrum og voru auðvitað engin tök á að nálgast mat þaðan, en skipið lá albúið til siglingar á Keflavíkurhöfn.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Er kaupmaður vissi um fyrirætlanir lögmanns, fyrirbauð hann bændum að selja lögmanni og hótaði þeim stórum refsingum, ef þeir voguðu slíkt. Þorðu bændur þá ekki að selja fyrr en lögmaður hafði heitið þeim, að taka alla sökina á sig. Keypti lögmaður svo af bændum það, er hann þurfti og sigldi með skipinu. Þetta gerðist sumarið 1701. Er þetta glöggt dæmi um verzlunarhætti og átök milli landsmanna og kaupmanna. Svo er sagt að Hamborgarar hafi fyrst sett verzlunarbúðir sínar á hólma nokkurn skammt frá landi í Keflavík (Jón Aðils – Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602—1787). Það er mjög ólíklegt, að hólmi þessi hafi verið í Keflavíkurhöfn. Dýpi hafnarinnar er mikið og hvergi sker eða grynningar, sem gefa til kynna, að land hafi staðið þar upp tir sjó. Engin munnmæli eru til þar syðra um sokkinn eða eyddan hólma. Hefði þó verið eðlilegt, að sögn um slík umbrot hefði varðveitzt. En fyrir framan Leiruna, næstu byggð fyrir utan Keflavík, er hólmi, er var aðsetur þýskra endur fyrir löngu.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Árið 1840 ritaði séra Sigurður Sivertsen, prestur á Útskálum, lýsingu á prestakalli sínu. Þar segir svo um Leiruhólma: „ — Hann var áður grasi vaxinn, sem ennþá sér vott til. Höfðu þar þýskir haft fyrr meir verzlunarbúðir sínar á sumrum og lagt skipum sínum: hafa rúsir eftir þá allt til skamms tíma sést“. Gæti hólmi þessi, sem Íslendingar nefna ennþá Leiruhólma, hafa orðið í munni útlendings að Keflavíkurhólma, einkum ef þeir hafa þá samtímis verzlað á Keflavíkurhöfn. Eru mörg dæmi þess, að útlendingar breyttu staðanöfnum hér eftir geðþótta.
Skúli landfógeti Magniísson segir í hinni merku ritgerð sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu, er hann samdi árin 1783—85, að Vatnsnesvík hafi verið verzlunarstaður til forna „— en sennilega áður en verzlun hófst í Keflavík“. Á þessum stað, sunnanvert við Vatnsneskletta, eru nú hafnarmannvirki Keflavíkur.
Árið 1787 var verzlunin hér á landi gefin frjáls, en einungis við alla þegna Danakonungs. Konungsverzlun Dana, sem hér hafði setið að völdum frá 1602, seldi þá, og næstu ár, verzlanir sínar. Danskir kaupmenn, sennilega margir þeirra er verið höfðu verzlunarfulhrúar fyrir konungsverzlunina, keyptu þá verzlanirnar og ráku þær áfram. Munu verzlunarhættir lítið hafa breytzt fyrst í stað, en smátt og smátt hefur farið að rofa til, enda risu þá upp fleiri verzlanir við hverja höfn.

Keflavík
Kaupmaður sá, er keypti Keflavíkurverzlun, hét Christian Adolph Jacobæus, þá kaupmaður í Keflavík. Kaupverð verzlunarhúsa, lóðar og varnings var 10265 ríkisdalir 17% skildingur í „kurant“-mynt. Christian Adolph var fæddur í Keflavík 1767 og hefur ungur tekið við verzlunarforstöðu eftir föður sinn, Holgeir gamla Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Keflavík.
Haustið 1785 kom Jacobæus upp frá Danmörku með Hafnarfjarðarskipi og var þá veikur af bólusótt. Hafði hann farið utan um vorið í verzlunarerindum, en tekið sóttina um það leyti, er hann lagði í haf. Barst bólan eftir þetta um landið og varð af mikið mannfall.

Keflavík

Keflavík 1800.

C. A. Jacobæus kvæntist 1794 danskri konu, Reginu Magdalenu, er var fædd í Kaupmannahöfn 1769. Þau áttu mörg börn, þar á meðal Holgeir Jacobæus, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn og Sophiu, er átti Ebbesen verzlunarstjóra í Rvík.
Jacobæus stofnaði verzlun í Reykjavík 1795, ásamt Ludvigsen stórkaupmanni í Kaupmannahöfn. Var hann annar elzti kaupmaður í Reykjavík. Hefur hann þá átt mikinn húsakost í Keflavík, því hann lét flytja tvö af Keflavíkurhúsum sínum til Reykjavíkur og byggja þau þar, við Hafnarstræti. Var annað húsið sölubúð og íbúð sitt í hvorum enda; hitt var vörugeymsluhús, stórt og mikið, og eflaust vel byggt, því það hús stóð hér í Reykjavík til 1935 og var síðast alllengi notað fyrir bílaviðgerðarverkstæði.

Peter Duus

Peter Duus.

Jacobæus bjó eftir sem áður í Keflavík, en hafði verzlunarstjóra í Reykjavík, þar á meðal Ebbesen tengdason sinn og Peda Duus, er löngu síðar varð kaupmaður í Keflavík og kemur þar mikið við sögu.
Aðra verzlun átti Jacobæus í Hafnarfirði. Sú verzlun varð síðar Linnetsverzlun, er lengi starfaði í Hafnarfirði og var góðfræg. Hans Linnet var fyrst verzlunarstjóri Jacobæusar í Hafnarfirði, en keypti svo verzlunina 1836. Kona hans var Regina Magdalena Secrup, systurdóttir C.A. Jacobæusar í Keflavík. Eiga því niðjar þeirra Linnetshjóna ætt sína að rekja til Holgeirs Jacobæusar hins síðasta kóngskaupmanns í Keflavík. C. A. Jacobæus hefur haft umfangsmikla verzlun í Keflavík. Það sýnir meðal annars, hve margt fólk var á heimili hans.
Árið 1790 voru þar 38 manns. Jacobæus var þá ókvæntur, en danskur beykir Hoeg að nafni, kona hans einnig dönsk og dóttir þeirra, er var matreiðslukona, munu hafa séð um kaupmannsheimilið. Vinnufólkið mun hafa búið í öðru húsi, enda var þar einnig önnur ráðskona, er Ingveldur hét Einarsdóttir.
Þar var einn „undirassistent“, einn búðardrengur, einn afhendingarmaður, einn smiður. Það var Jóri Sighvatsson, er síðar varð útvegsmaður og merkisbóndi í Höskuldarkoti við Ytri Njarðvík. Fjórtán vinnumenn, sjö vinnukonur og fjögur börn, er vinnufólkið átti, auk þess einn gamall maður örvasa og þrír danskir vetursetumenn. Næstu ár fór fólki heldur fækkandi, og 1801 voru ekki nema 14 manns í heimili.
KeflavíkEftir Chr. A. Jacobæus, varð Holger sonur hans kaupmaður í Keflavík 1836. Kona hans, Charlotte Marie, var dönsk. Þau áttu 15 börn. Voru 10 þeirra á lífi, er þau fluttu af landi brott 1843 og 1844. Þessar fjölskyldur bjuggu allar í sama húsinu, hver eftir aðra, en það er gamla Duushúsið, er svo mun vera nefnt enn í dag.
Séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum, hefur ritað smákafla um þá Jacobæusarfeðga inn í húsvitjunarbók prestakallsins 1827—1847 við árið 1837. Hann segir svo um Holger Jacobæus: „Foreldrar kaupmanns Jacobæusar var kaupmaður Chresten Jacobæus og Md Regina Magdalena, bjuggu þau hjón fyrr í Keflavík, átti hann þar kaupstað; líka höndlun í Hafnarf. og Rvík og var einn sé merkasti maður á sinni tíð. Faðir hans var Holgeir gamli Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Rvík. Holger yngri fékk Keflavík keypta af föðurnum eða til láns, en varð að láta af hendi aftur. Varð hann þá factor hins nýorðna eiganda kaupm. J. J. Benediktsen. Varð þó seinna að láta þá forþénustu lausa og sigldi árið 1843 til Færeyja hvar hann fékk forþénustu í brauði Clausens í Ólafsvík. Kona hans og börn sigldu ári seinna og áttu þau saman 15 börn en hann hafði eignlengi mjög örðuga lífsútkomu. Þau hjón eignast 1 son áður, Karl að nafni“.
Jens Jakob Benediktssen varð eigandi Keflavíkurverzlunar 1841, en bjó þar aldrei. Hann var sonur Boga sagnfræðings á Staðarfelli Benediktssonar, átti verzlanir á Ísafirði, Grundarfirði og Vestmannaeyjum, en bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Verzlunarstjóri hans í Keflavík, eftir að Jacobæus hvarf burtu, var Marteinn Smith, er síðar var kaupmaður og konsúll í Reykjavík og var giftur Ragnheiði systur Jens Jakobs. Þau fluttu til Keflavíkur 1844 og bjuggu þar 4 ár. En 1848 fluttu þau til Kaupmannahafnar og seldi Smith þá Duus kaupmanni Keflavíkurverzlun.“

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1947, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 9.
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 4-5.
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 3-4.

Keflavík

Hverinn eini

Ætlunin var að skoða bæði skjól, sem útilegumenn kunna að hafa hafst við í sunnan Selsvalla á 17. öld sem og „helli“, sem þeir dvöldust í norðan Selsvalla. Hvorutveggja er til í skráðum heimildum og hefur að geyma mannvistarleifar. Í leiðinni var og ætlunin að skoða hinar gömlu götur er liggja að og frá Selsvöllum, selsrústirnar á völlunum og Hverinn eina, en upplýsingar liggja fyrir um brennisteinsnám þar á 17. öld.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Þegar á upphafsstað var komið sást hvar vegur hafði verið lagður upp hraunhlíðina ofan við núverandi borholusvæði undir Sogunum. Vélarhljóð bárust ofan úr Sogunum. Hvorutveggja, augnstungan í hlíðinni og hávaðinn í annars órsökuðu umhverfinu þar fyrir ofan, særðu hjörtu þeirra sem hafa haft samúð með landinu, sem fóstrað hefur fóður forfeðrana frá upphafi.
Gengið var suður með vestanverðum hlíðum Núpshlíðarháls og inn á Selsvelli, framhjá virku jarðhitasvæði undir Trölladyngju og fallegu smávatni í jarðfalli. Þarna hafði áður verið hinn ágætasti jarðvatnsvarmi, líkt og í Grjótagjá við Mývatn. Við norðanverða Selsvelli birtist Kúadalur fyrst sjónum manna, síðan nyrðri Selsvallalækurinn og Moshóll á hægri hönd, fallegur gígur, sem margir framkvæmdarmenn hafa haft augastað á, þ.e. efnislega. Hóllinn geymir einn fallegasta gjallgíg landsins.
Gengið var inn með ónafngreindum fjöllum austanverðra Selsvalla, að rústunum undir Selsvallafjalli. Þær eru allnokkrar. Ekki er með öllu útilokað að sú stærsta hafi á einhverju tímaskeiði geymt kot eða bæ, enda hefur þarna verið álitleg beit og vænlegar sláttulendur. Suðvestar eru rústir seljanna á Selsvöllum. Áður hafði virst sem gata lægi þar frá eldri rústunum niður að þeim nýrri, en þegar betur var að gáð kom í ljós að þarna var um að ræða eldri farvegi Selsvallalækjarins syðri. Hann kemur þarna niður úr gili og hefur leikið sér vítt og breytt um vellina á löngum tíma. Sjá má ummerki eftir lækinn til vesturs en síðan til norðurs á nokkrum stöðum.

Selsvellir

Tóft á Selsvöllum.

Rústirnar á suðvestanverðum Selsvöllum er enn samar við sig; Vogaréttin á sínum stað og hinn fallegi stekkur sunnar. Þarna eru tóftir þriggja selja. Eitt þeirra mun hafa verið frá Stað, en hin voru einnig frá Grindavíkurstórbýlunum tveimur; Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Stekkirnir eru jafn margir selstöðunum. Sá þriðji er vestan vallanna, skammt norðan selstóftanna.
Undir hraunhól er op. Ferðin var m.a. farin til að kanna þar inn undir. Við eftirgrennslan kom í ljós að lágur skúti lá þarna undir seltóftina er stóð henni næst. Talsverður jarðvegur hefur sest að á botninum og ekki var að sjá neinar mannvistarleifar í skútanum.
Annar skúti, svipaður, var sunnan við hraunhólinn. Ekki voru mannvistarleifar heldur í honum. Útilegumenn héldu til á þessum slóðum á 17. öld. Þeir áttu að hafa verið þrír saman. Í báðum skútunum var nægilegt svefnrými fyrir þá alla þrjá.
Gömlu alfaraleiðinni (selsgötunni) var fylgt til vesturs. Hún greinist miðja vegu í hrauninu milli Selsvalla og Hraunsels-Vatnsfells, en á því er vatnstæði. Sumsstaðar er gatan grópuð djúpt í klöppina.
Í´“Útilegumönnum og auðum tóftum“ segir m.a. að “um aldamótin 1700 var hörmungatíð hér á landi. Þjóðin var orðin mergsogin af alls konar álögum og langvarandi kúgun einokunarverslunarinnar. Hún mátti því ekki við neinu. En verstu árin voru tugtímabilið 1693-1703.
Hekla byrjaði að gjósa. Jarðskjálftar fylgdu í kjölfarið. Fiskur brást algjörlega. Kom því mikið los á fólk, og voru rán og stuldir í öllum sveitum, en þó mest sunnanlands. Hafís rak að landinu. Voru þá hafþök svo að segja hringinn í kringum landið. Í Faxaflóa lá ísinn fram yfir vertíðarlok. Fjárfellir var víða um land og útigangshross hrundu niður. Fólk féll úr hungri. Árið 1703 létust 30 á Suðurnesjum. Allt var etið sem tönn á festi. Fólkið við sjóinn lifði á fjörugrösum og þangi, en í sveitum við fjallagrös, rætur og söl. Sumir átu hesta, skinn og skóbætur steiktar. Fundust og þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna.

Selsvellir

Leitað að mögulegu útilegumannaskjóli.

Var þá þjófaöld mikil, stuldir og rán, svo að menn gátu trautt haldið sínu. Veturinn 1701 voru til dæmis hýddir og markaðir nær 20 þjófar í Árnessýslu. Fóru þá þjófar að leggjast út víða um land. Er getið um tvo útileguþjófa á Suðurnesjum; annar var hengdur, en hinn slapp.
Þannig var þá ástandið á Íslandi þegar sagan hefst af útileguþjófunum á Reykjanesi. Maður er nefndur Jón Þórðarson frá Eystri-Hrepp. 1701 tók hann sig upp og fór á vergang. Fyrst slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Oddsson og síðan landshornamaður, Jón Þorláksson og var úr Landeyjum. Fóru þeir alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík, en áður höfðu þeir stolið á 14 bæjum á leið sinni.

Í Flekkuvík náðu þeir í 8 hákarlslykkjur, þrjá fiska, eina duggarasokka, kýrlær og hálstrefil. Með þennan feng og það sem þeim hafði áður áskotnast fóru þeir upp um heiði og allt suður um Selsvöllu og voru ákveðnir í því að leggjast út og lifa á stuldum. Var nú komið fram á vor og tíðarfar gott, svo að allt var á gróanda og fé þar um allan afréttinn. Munu þeir hafa búist við því að geta náð í nóg sauðakjöt til matar sér.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Skammt sunnan Selsvöllu fundu þeir skúta nokkurn og hreiðruðu þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sest þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðarmenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litist ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi með þeim óhappalaust.
Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessi betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefur verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, að þeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sest þarna að, fór þar um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju felira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumenninir þarna og rændu auk þess á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefir Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldarmenn væru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna.
Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp, en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að allir skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til þess að hræða þá og láta þá halda að allir væru þeir vopnaðir byssum, þótt byssunar væru ekki nema tvær. Skaut svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en maninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir því næst fluttir til Bessastaða.
Jón Eyjólfsson vicelögmaður í Nesi var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og kom það í hans hlut að rannsaka má útilegumannanna.

Keilir

Keilir.

Þingaði Jón í málum þeirra í Kópavogi, en dómsmálabækur Jóns frá þeim árum eru nú glataðar, og er því ekki hægt að vita, hvað fleira hefir komið þar fram en hermt er í annálum og Alþingisbókum. En séra Eyjólfur á Völlum, sonur Jóns vicelögmanns, hefir sagt allskilmerkilega frá þessu, og mátti hann manna best um það vita, því að hann átti þá heima í Nesi við Seltjörn hjá föður sínum.
Degi áður en Jón kvæði upp dóm yfir þeim félögum, braust Jón Þorláksson úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur, en með hverjum hætti það hefir verið er ekki vitað. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí, og síðan voru þeir fluttir til Alþingis. Höfðu þeir þá ekki verið nema 3 daga í haldi á Bessastöðum. Auk þeirra þjófnaða, sem að framan getur, sannaðist á þá, að þeir hefðu stolið 65 sauðum og eigi minna en 7 fjórðungum af smjöri auk “aðskiljanlegra hluta ætra og óætra”.
Jónarnir báðir voru hengdir, en Gísla Oddsyni vægðu þeir, vegna þess hve ungur hann var og hann hafði aldrei verið dæmdur fyrr. Þarna mátti því sjá á sólkskinsdegi tvo útilegumenn af Reykjanesi, hangandi í gálgum á Alþingi, einum helgasta stað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.“
Stefnan var tekin til norðurs yfir frosið mosahraunið. Þetta er hraunssvæði, sem að öllu jöfnu er ekki gengið, enda þykkur mosi víðast hvar á hraunþekjunni. Margir smáskútar er þarna í hrauninu, en enginn þeirra sýnilega með mannvistarleifum í.
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá Hverinum eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.

Hverinn eini

Vatnsstæði við Hverinn eina.

Stefnan var tekin á Þórustaðastíginn er liggur þarna í gegnum hraunið frá suðurenda Driffells og yfir að suðurenda Moshóls við norðanverða Selsvelli. Við hann var gerð leit að hugsanlegum skútum, en engir fundust með mannvistarleifum í. Jarðfall hefur hrunið niður norðan Moshóls og þar skammt norðar er gat niður í jörðina. Hvorutveggja var skoðað gaumgæfilega. Gatið skilaði einum árangri, en nánari skoðun á jarðfallinu gæti hugsanlega skilað einhverri niðurstöðu. Gróið er í botninn og steinar, sem ekki hafa ratað þangað að sjálfsdáðum, eru í jöðrum. Þetta þarf að skoða nánar við tækifæri.

Þá var stefnan tekin eftir selsstígnum norðan Selsvalla að Hvernum eina. Fréttir höfðu borist um það á göngunni að einhverju sinni hefði Hverinn eini verið notaður til brennisteinsnáms.
Í Landfræðissögu Íslands, bindi II, bls. 84-94, fjallar Þorvaldur Thoroddsen um Gísla Magnússon sýslumann Rangvellinga frá 1659. Gísli var einnig nefndur Vísi-Gísli sökum kunnáttu sinnar. Hann var hinn fyrsti lærði náttúrufræðingur á Íslandi og fór vítt um landið til þess að rannsaka steina og málma. Árið 1647 fékk Gísli á alþingi einkaleyfi til brennisteinsnáms.
Á bls. 87-88 segir „ Í bréfi dagsettu á Bessastöðum 4. sept. 1619 (það ár getur reyndar ekki staðiðst þar sem Gísli var ekki fæddur fyrr enn 1621, ártalið hlýtur að vera einhverntíma í kringum 1650) ritar Gísli Magnússon Birni syni sínum, er þá var við nám í Kaupmannahöfn, á þessa leið: „Þann brennistein, sem hér er að fá, hefi ég látið upptaka í sumar, sem er fáeinar lestir, svo sem fyrir lítið skip barlestarkorn; ég hefi látið leita í öllum Suðurfjöllum, ég hefi látið leita hjá Keilir og Móhálsum og var þar ei nema á 12 hesta að fá, item hefi ég látið leita á Reykjum í þeim öllum fjöllum, einnig í Henglafjöllum …“
Jóhanna og Viktor úr Vogunum, sem voru með í göngunni töldu víst að þar sem Gísli segist hafa látið leita „hjá Keilir“ og fengið einhver brennistein, geta verið í Hvernum eina, enda um fáa eða enga aðra staði er að ræða. Ummerki í hvernum eru líka þess eðlis, eins og brotist hafi verið niður eftir æðinni. Þar með er Hverinn eini ekki eingöngu náttúruminjar heldur einnig orðin sögulegar minjar.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Þegar komið var að Hvernum eina sást vel hvernig svæðið umhverfis hans hafði verið nýtt í framangreindum tilgangi. Verkamenn höfðu brotið sér leið niður eftir brennisteinskjarnanum og kastað „hratinu“ til hliðar og framan við hverinn.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun. Bændur áttu brennisteinsnámurnar og unnu í þeim en vinnslan fór þó aðeins fram hluta af ári þar sem vinnuaflið var bundið við landbúnaðarstörf mikinn hluta ársins og hefur það væntanlega komið í veg fyrir að hægt væri að gera brennisteinsvinnslu að arðvænlegum iðnaði.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“

Hverinn eini

Hverinn eini.

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.
Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Einn slíkan ofan má finna í Brennisteinsfjöllum. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík.
Vitað er með vissu að síðast var numinn brennisteinn í Hvernum eina snemma árs 2006. Þá var og gerð tilraun til að baka þar hverabrauð með misjöfnum árangri. Í það skiptið var þó bætt um betur og braut etið þar jöfnum höndum með smérbræðingi.
Gufuhver sá er sagður var einn sá stærsti hér á landi og mun hafa sést vel frá höfuðborginni um tíma, en dó um 1918, var norðan við Hverinn eina. Svæðið allt ber vott um hverinn og er hið ágætasta minnismerki um það sem einu sinni var, en dó. Öllu ásættanlegra er að horfa á, finna og skynja það sem hefur dáið af sjálfsdáðum en allt það sem deytt er vísvitandi af fáfróðri mannskepnunni.
Loks var haldið eftir fyrrnefndum selsstíg norður með austanverðu Oddafelli og stefnan tekin á upphafsstað.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Árni Óla – Frásagnir – þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum – 1955.
-Landfræðissaga Íslands, bindi II, bls. 84-94, frá 1659.
-www.idan.is

Melhóll

Melhóll við Selsvelli.