Tag Archive for: Grindavík

Hraun

Meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu 22. des. 1963 undir fyrirsögninni „Í stríði á Fagradalsfjalli„:

„Þarna í víkinni við kambinn er hrönn af vikri,“ sagði Magnús. „Allt kemur þetta úr Surtsey. Það eru meiri ósköpin sem hún gýs frá sér. Það er eins og það sé dálítið móberg i vikrinum.“„

Langholl-221

En hvað er þetta?“ spurði ég og benti á stóra, rauða belgi, sem lágu í fjörunni.
„Þetta eru rússablöðrur,“ svaraði hann. „Þeir nota þær á reknetin.“
„Ætlarðu ekki að hirða þær?“
„Nei, það fæst ekkert fyrir þær.“
„Eigum við þá ekki að stinga á þeim og hleypa loftinu út?“
„Nei, það fer allt vestur í þessari átt. Það er nóg samt.“

 

Við stóðum í fjörunni fyrir neðan túnið og töluðum við Magnús Hafliðason á Hrauni, þann garp. Ég hafði komið hingað áður fyrir tveimur árum og átt samtal við Magnús sjötugan, en ætlaði nú að ganga með honum á Fagradalsfjall og skjóta rjúpur í jólamatinn; ætlaði þó að vísu ekki að skjóta sjálfur því eg er í Rjúpnafélagi Jónasar Hallgrímssonar, en langaði að sjá hvernig þessi nafntogaða skytta gengi til verks.
Lois-221Og svo voru fjöllin eins og segull í desemberskuggunum; veðrið eins og á vordegi, hlýr andvari af austri, þurrt en skýjað. Þar sem við stóðum í fjörunni og horfðum út á hafið fundum við glöggt, að við þurftum ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því að hann mundi skella saman á fjallinu, öldurnar teygðu sig upp í vikurinn, engin þeirra hvít í föll, þetta var hroði. Ég rifjaði upp fyrir mér það sem Magnús hafði sagt mér um franska togarann sem hér straedaði 1931 ag spurði hann nú, hvar togarinn hefði lent. Það vatnaði yfir Skarfatanga beint út af Víkurkambinum:
„Þarna var það,“ sagði hann og benti.
„Í túnfætinum?“ spurði ég undrandi.
magnus Haflidason-21„Já. Það var engu líkara en þeir ætluðu að leggja honum hér í hlaðinu,“ sagði Magnús og brosti í skeggið. Svo benti hann austur fjöruna, þar sem reis allmikið fjall og gekk í sjó fram. „Þetta er Festi,“ sagði hann. „Bjarni Sæmundsson sagði að hún væri eitt sérkennilegasta fjall á landinu. Hún er laus í sér og kolbrunnin, það hrynur stanzlaust úr henni“ — benti síðan í fjöruna nær túninu:  „Og þarna strandaði brezki togarinn Lois í ársbyrjun 1945, ef ég man rétt. Ég hef aldrei sagt þér frá því. í hitteð fyrra töluðum við bara um fransmanninn. Þegar hann strandaði var bræluvindur af landsunnan, en þegar Englendingurinn sigldi upp var logn þó brimið væri óskaplegt, eitt hið mesta sem ég man eftir. Hann sleit úr sér snjó, en samt virtist engin sérstök ástæða til að sigla upp í fjöru. En brimið var aftök. Það var frekar smástreymt, en sjórinn samt tekinn að falla uþp á tún með hálfföllnum sjó að, svo mikið var brimið. Kvöldið áður var ég einn heima, því dæturnar voru á barnaballi. Ég háttaði snemma og las í bók, en húsið skalf svo og nötraði að ég gat ekki lesið í köflum. Ég óttaðist um telpurnar, en þær komu heim um nóttina og einhvern veginn gátum við sofnað, þrátt fyrir veðrið. En svo blálygndi hann um hádegi næsta dag. Um níuleytið þá um kvöldið strandaði togarinn. Skömmu áður sagði ég við telpurnar: „Þið skuluð fara að hátta, þið vöktuð svo lengi fram eftir í nótt.“ Stuttu síðar kemur Ingi björg dóttir mín upp með óvanalega miklu fasi má segja, því hún er heldur róleg, og segir: „Það er eitthvert ljós að sjá í Festi, og eins og verið sé að vagga því til.“ Mér datt strax í hug að skip væri komið upp í fjöruna, gekk út og horfði austur með landi. Þá sá ég ljós og ekki um að villast að það var á skipi. Ég flýtti mér upp eftir að athuga hvað hafði gerzt og þegar ég kom á strandstaðinn heyrði ég köllin í körlunum.
Langihryggur-221Og þú hefðir átt að heyra skröltið í togaranum, þegar hann veltist á klöppinni. Áður en ég fór á strandstaðinn hafði ég gert björgunarmönnum í Grindavík aðvart, og komu þeir von bráðar. En þó logn væri, var brimið svo mikið að mér datt sem snöggvast í hug að enginn maður mundi komast heilu og höldnu gegnum rótið. Svo mikið var brimið að mannskapurinn varð að halda í tóið, því ekki var viðlit að binda það. En samt var öllum bjargað nema skipstjóranum, og voru þeir komnir heim í hús um miðnætti. Ég tel að skipstjórinn hefði átt að komast af eins og hinir, en það var eins og hann kærði sig ekki um það.
Sjórinn var mörg ár að vinna á togaranum. Við höfðum svolítið upp úr þessu strandi, gátum sótt okkur kol fram eftir vetri og kynt. Flestum finnst hlýjan góð, sama hvaðan hún kemur, en þó verð ég að segja að ég hef alltaf kunnað bezt við mig að vera dálítið þvalur.“
Langihryggur-222En ferðin að Hrauni var ekki farin í þeim tilgangi að standa í fjörunni og láta tímann ganga sér úr greipum. Við kvöddum nú frú Önnu, konu Magnúsar, sem alltaf er opinn faðmur hlýju og gestrisni þegar maður kemur í heimsókn, og lögðum af stað að Borgarhrauni. Magnús sagði okkur á leiðinni nokkur örnefni og væri tómt mál að rifja þau hér upp: Húsafell, Fiskidalsfjall, Tryppalágar, Þorbjörn — nei, ég hefði annars átt að nefna hann fyrstan, því hann heyrir frekar til leiðinni frá Keflavíkurvegi að Grindavík en þeirri sem við nú fórum. Þorbjörn er sterkt nafn, en óvanalegt á fjalli. Mér finnst fjall með því nafni hljóti að vera traust og innhverft.
Og áfram var haldið. Við skildum bílinn eftir við þjóðveginn, gengum yfir Borgarhraunið í átt til Fagradalsfjalls og fórum heldur hægt, því Magnús sagðist vera orðinn þessi veraldarinnar ræfill. Samt þótti okkur hann ganga nógu hratt, með byssu um öxl og prik í hendi, og áttum við fullt í fangi með að halda í við hann. Leiðin yfir hraunið er sæmilega greiðfær — og þó. Magnús stanzar, litast um og segir: „Þetta er nú heldur tuðrótt leið, hér hafa goðin einhvern tima reiðzt.“ Pikkaði svo með prikinu í grænan mosann og leitaði að sprungu.
Kastid-221„Þær liggja allar frá útsuðri í landnorður,“ sagði hann, „það eru meiri katlarnir, sem hér eru á hverju strái. Allt hefur þetta land logað á sinni tíð. Sagnir eru meira að segja til urri eldsumbrot á þessum slóðum eftir landnámsóld. Þegar snjór liggur yfir hrauninu, er víðast hvar autt yfir holunum af trekki og hlýju sem kemur neðan frá. Undir Reykjanesinu er ekkert nema holrúm og eldur, og þar hafa kyndararnir líklega nóg að gera. Þið ættuð að sjá eldgígina við Tófubrunna og Latshóla, ef þar er ekki eitthvað óhreint undir veit ég ekki hvar það ætti að vera. Og ég hef oft séð hvernig húðar yfir holurnar hér í hrauninu af þunnum vatnsklaka. Fyrir norðan Þorbjörn rýkur úr jörð, þar eru hverir. Hér rýkur þó ekki. Bezt gæti ég trúað því, að Surtur kæmi ekki að sunnan, heldur héðan að ofan.

 

Kastid-223

Hann hefur bara haft sig upp þarna suður frá í þetta sinn.“ Hann leit norður um og benti með prikinu á Fagradalsfjall: „Hér var þoka í gær,“ sagði hann, „og sá ekki í loft. En nú er veðrið eins og bezt verður á kosið. Þetta má kalla heppni. Það fer fínasti farðinn af svona ferðalagi þegar veðrið er vont.“
Síðan héldum við áfram og gengum fram hjá álitlegum grasflötum, sem Magnús nefndi Tryppalágar.
„Hvað hefurðu skotið flestar rjúpur á dag?“ spurði ég.
„Sextíu,“ svaraði hann.
„En á hausti?“
„O, ég hef komizt upp í fjögur hundruð. Það er svolítið starf að bera sextíu rjúpur þessa leið,“ bætti hann við og benti á nyrztu brún Fagradalsfjalls: „Þarna er aftökustaður rjúpunnar,“ sagði hann.
„Þú étur auðvitað oft rjúpur ?“ spurði ég.
„Nei, mér þykir hún ekki góð. Það er of mikið grasbragð af henni. Svið eru betri. En beztir eru mávsungar. Þeir eru lostæti. En nú vantar líklega snjóinn. Hérna skeljaði um daginn, þegar fönn lá yfir hrauninu. Þá fórum við fimm saman og fengum tuttugu rjúpur, ég rakst af tilviljun á smáhóp og náði þeim öllum, þær voru tíu. Kristinn Stefánsson var óheppinn, hann fékk aðeins eina, þó er hann góð skytta. En Snorri læknir gat ekki komið, hann þurfti að fara utan á kongress. Mér líkar vel við þá báða, þeir eru prúðir og kurteisir eins og allir menntamenn eru nú á dögum, það er eitthvað annað en kaup mennirnir í gamla daga. Já, og svo þykir mér hangikjöt ágætt og miklu betra en rjúpur. En eigum við ekki að slá í, okkur miðar ekkert áfram með þessu móti. Áðúr var hún í stórum breiðum eins og fugl í bjargi. Þá kom hún á kvöldin niður í hraun, ef norðanátt var, en nú er eins og hún staldri ekkert við.“
Rjupa-221Hann tók nú á rás og engu líkara en hann hlypi, ég heyrði að hann muldraði í barm sér: „Þetta er meiri gangurinn, hálftuðrótt fyrir lassa eins og mig.“
Við litum til baka. Bíllinn var horfinn úr augsýn og fram undan blasti við fjallið og hækkaði eftir því sem nær dró. Magnús hafði þungar áhyggjur af landsmálum og talaði um pólitík meðan við gengum síðasta spölihn að fjallinu. Hann sagðist strax hafa gert sér grein fyrir því að uppbótakerfið mundi steypa landinu. „En maður skilur þetta víst ekki,“ sagði hann mæðulega, „það er ljóti atvinnuvegurinn þessi stjórnmál. Þeir standa upp, kreppa hnefana, rífast, bera þungar sakir hver á annan, setjast aftur, ganga út í horn, takast í hendur, klappast á, og þá syngur hún annað bjallan hjá þeim. Og svo borgar landið brúsann.“
Fagradalsfjall-225Nú vorum við komnir í Selskál, sem er kriki við fjallsræturnar. Þaðan er gengið upp Görnina, sem svo er kölluð. Hún sker fjallið eins og renna, og þegar upp er komið liggur hún eftir því endilöngu, slétt og greiðfær með grösum og lyngi, en vestur úr henni rís Kast, allhátt fjall og bratt í rætur.
„Það var þægilegra að komast á Skálafell,“ sagði ég á leiðinni upp Görnina.
„Jæja-já,“ sagði Magnús.
„Ég fór í jeppa.“
„Það eru ófá jeppaförin í landinu,“ svaraði hann. „Þú hefur auðvitað verið að leita að veiðibjöllueggjum?“ bætti hann við.
„Nei, ég var að horfa yfir landið.“
„Það er mörg matarholan í landinu,“ sagði hann. „En fyrst þú ert að hugsa um landið, þá er bjart í dag, og við verðum komnir upp áður en mistrið læðist yfir hraunið.“ Ég var hættur að spyrja um rjúpuna, hún skipti ekki lengur máli. „Þessi fjöll eru banaþúfa margra vaskra drengja,“ sagði hann þegar upp var komið.
„Nú hvers vegna?“ spurði ég.
Magnus Haflidason-22Í vesturslakka Kastsins fórst flugvél Andrews, yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu. Ég kom ekki að flakinu fyrr en nokkru síðar. Í norðausturhorni Fagradalsfjalls, þar sem heitir Langhóll, fórst enskur flugbátur í stríðinu. Þangað hef ég síðar komið og skotið rjúpur í flakinu. Ekki hef ég orðið var við annað kvikt á þessum slysastöðum. Og hérna suðuraf heitir Langihryggur og gengur út úr Borgarfjalli, þar fórst enn ein flugvélin í stríðinu. Ég var með þeim fyrstu sem komu á staðinn. Það var ljót aðkoma. Það var eins og fjöllin hefðu gengið í lið með Þjóðverjunum og líkast því að þau hafi gert gyllingar til að ná sem flestum flugvélum bandamanna. En nú er farið að fyrnast yfir þessa atburði. Og sem betur fer ætti fáum að standa ógn af hálendinu, eins og tæknin er orðin, ja nema auðvitað blessaðri rjúpunni. Hún nýtur ekki góðs af tækninni, nema síður sé.“
Við báðum Magnús að segja okkur frá aðkomunni á Langahrygg. Hann sagði:

Langihryggur

Á slysstað í Langahrygg.

„Við Ísólfur í Ísólfsskála höfðum séð flakið tilsýndar, þar sem það lá norðaustan í hryggnum. Englendingar báðu okkur að koma með sér og við fórum í skriðdreka yfir hraunið, það var heldur svona tuðrótt. Þegar við komum að flakinu lágu tólf flugmenn, Bretar og Bandaríkjamenn, dauðir til og frá í brekkunni, brunnir eða limlestir.
Brezku hermennirnir höfðu ekki leyfi til að ganga að flakinu og biðu átekta eftir foringja sínum. En fyrst ég var kominn á staðinn vildi ég skoða brakið og vegsummerki. Ég sagði við sjálfan mig: Ef þeir reka mig burt, þá er ég farinn og læt þá um þetta. En þeir hreyfðu hvorki legg né lið til að koma í veg fyrir að ég gengi inn í brakið og virti fyrir mér þessa hörmulegu sjón. En það er bezt ég fari ekki út í að lýsa þessu nánar fyrir þér. Þú getur hvort eð er ekki birt það á prenti. Það er yfirþyrmandi. Alúminíum hafði runnið um brekkuna eins og lýsi og var nú storknað að sjá, fallhlífar lágu á víð og dreif, skór, Kastid-229fótur.
Líkin voru vafin inn í fallhlífarnar og flutt til byggða. Það voru þung spor. Nú er flakið horfið, fjallið byrjað að gróa upp og tíminn hefur grætt sárin. Og nú glottir aftur til.“
Þegar við gengum norður Görnina gerði hann svolitla kælu af austri. Engin rjúpa sjáanleg, enda höfðum við meiri áhuga á fjallinu, þar sem Andrews fórst með fylgdarliði sínu, og punktur var settur fyrir aftan einn kapítula styrjaldarsögunnar. Ekki vildi Magnús ganga á slysstaðinn. „Það er óartarkrókur,“ sagði hann. Við stóðum nokkra stund og blíndum á fjallið, horfðum svo niður á hraunbreiðuna fyrir neðan okkur og undruðumst hvað flugvél hershöfðingjans hefur flogið lágt, þegar slysið varð. Engir þeirra höfðu komið áður til Íslands, þeir voru ókunnugir feigð þess og fjöllum. Í sumar voru liðin 20 ár frá því slysið varð. Ég rifjaði það upp með sjálfum mér. Ég hafði alltaf haldið að flugvél Andrews hefði lent á Keili.
Þess vegna hef ég oft litið hann hornauga, en nú varð mér ljóst að ég hafði haft hann fyrir rangri sök. Þannig leiðir tíminn staðreyndirnar í ljós, og nú finnst mér Andrews-221Keilir fallegri og tignarlegri en nokkru sinni fyrr. Ég mundi eftir jarðarför hershöfðingjans og manna hans, við drengirnir stóðum niður við Austurvöll, ef ég man rétt, og horfðum á líkkisturnar fjórtán, þar sem þær voru bornar út úr Dómkirkjunni, hlustuðum á sorgarlögin, virtum fyrir okkur heiðursvörðinn. Þannig eltum við stríðið, það er partur af lífi okkar, óljós minning, skuggi þeirrar sólar sem nefnd er æska.
Slysið varð mánudaginn 3. maí 1943, en vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá því í íslenzkum blöðum fyrr en þremur dögum síðar. Þá hafði Morgunblaðið fengið fréttina frá Washington. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjamanna um allan heim. Skömmu áður hafði Spellmann, þáverandi biskup en nú verandi kardináli, farið svipaða för á vegum kaþólsku kirkjunnar.

Andrews-memorial

Augljóst er af fyrirsögn fréttarinnar í Morgunblaðinu, að hún hefur verið öllum kunn, þegar hún loks var birt. Þar stendur: „Fjórtán (svo) manns voru í flugvjel Andrews hershöfðingja.“ Hvorki í þessari fyrstu frétt af slysinu né nánari frásögn daginn eftir er sagt frá því, hvar flugvél hershöfðingjans hafi farizt og margt annað þykir manni nú vanta í frásögnina. Sá sem komst af hét George Eisel frá Colombia. Hann var afturskytta í Liberator-flugvél hershöfðingjans og sat fastur í stélinu í 26 klukkustundir. Hann hafði oft áður komizt í hann krappan, hafði t. d. bjargazt þegar flugvél hans var skotin niður yfir Túnis og þrír félagar hans farizt. Flugvélar hans höfðu gert loftárásir á borgir í Norður-Afríku, Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu. í stuttu samtali sem Ívar Guðmundsson átti við hann segir hann m. a. um slysið:
„Við flugum meðfram ströndinni og yfir marga tanga, en svo kom að því að einn þeirra skagaði of langt upp í loftið og við rákumst á.“ Hann telur að allir mennirnir hafi dáið um leið og vélin rakst á fjallið. Hann heyrði ekki til ‘Uokkurs manns og þó missti hann aldrei meðvitund þann tíma sem hann var í flakinu.

Kastid-331

Hann segir að skyggni hafi ekki verið nema um 12 metrar. Hann segir að eldur hafi komið upp í flugvélinni og hafi honum ekki dottið annað að í hug en hann mundi  brenna inni, „en þá kom hellirigning og kæfði eldinn í flugvélarflakinu.“ Einhvern tíma hefði nú sú rigning verið talin til jartegna. Það tók leitarmennina klukkustund að ná Eisel úr stélinu, þar beið hann þyrstur og svangur. Magnús sagði okkur frá því að hann hefði heyrt, að Eisel hefði farizt nokkru síðar í flug slysi. Við gutum augum í síðasta sinn til slysabrekkunnar í Kasti, þá bætti Magnús við: „Það eru meiri vinnubrögðin þessi stríð.“
Við gengum nú upp úr Görninni, fylgdum bröttum skorningum og fikruðum okkur upp á nyrzta og hæsta hluta Fagradalsfjalls. „Ef hún er ekki við skaflana hér,“ sagði Magnús, „þá er hún hvergi.“
„Er ekki vissara að hvísla?“ spurði ég.
Hann hló. „Nei,“ sagði hann og gekk enn hraðar upp hlíðina. Ég var einnig farinn að skimast um eftir rjúpu. Og mér fannst ég sjá hana alls staðar, í mosanum, við steinana, þeir voru margir með hvítum skellum. Mér fannst þeir hía á okkur. Eins og straumkast árinnar verður að narti fisks í eftirvæntingargómum laxveiðimannsins, þannig verða hvítskellóttir steinar að rjúpum í skimandi augum skyttunnar.
„Hefurðu nokkurn tíma séð fálka hér á fjallinu?“ spurði ég.
„Já,“ sagði Magnús, „ég hef séð fálka slá rjúpu hér á fjallinu, en það er sjaldgæft.“ „Finnst þér þú ekki stundum vera í hlutverki fálkans?“ „Það getur svo sem verið. Þegar fálkinn kemur sópast rjúpan í burtu, en það hefur engin áhrif á rjúpuna, þó ég komi. Hún heldur sig bara við skaflana og….“ Prikið festist við grjóthnullung.
„Og hvað?“ spurði ég.
„Og bíður, bíður. Er það ekki það sem við gerum öll.“ Losaði prikið, hélt áfram og þagði.
„Við Ísólfur í Ísólfsskála sáum tvær arnir í haust, þegar verið var að leggja Krýsuvíkurveginn,“ sagði hann svo upp úr þurru, eins og til að breyta um umræðuefni. „Önilur hafði komið á hverjum morgni og stefnt á Krýsuvíkurberg, og einn morguninn sáum við tvær saman. Líklega hafa þær verið að leita sér að æti.“
Kastid-frett-229Nú færðist brimmóða yfir landið og það fékk einhvern óræðan blámisturssvip, sem gerði það fjarlægara en áður. Það var ekki lengur fjallabjart yfir auðninni. Morguninn hafði verið rauður í skýjum, þetta var yndislegur dagur, magnaður af dul lands og sagna. Hamrabelti blöstu við norðan Kasts, þar eru Gálgaklettar. Þar voru hengdir ræningjar sem héldu til við Þorbjörn gamla.
Og enn fjölgaði hvítu skellunum á steinunum og ég fór að velta því fyrir mér hvort guð hefði svona fínan húmor eða hvort þetta grín væri bara tilviljun.
Magnús ymti að gömlum dögum. „Ég hef alltaf séð eftir árabátunum,“ sagði hann, „og veiztu af hverju? Ég komst einu sinni yfir hundrað kíló. Þá brá mér kynju við. Ég fór að hugleiða hvað hefði valdið þessum ofvexti — jú. Við höfðum fengið vélbáta og lagt niður árarnar. Það var oft glatt á hjalla á gömlu árabátunum og gaman að sigla í góðu leiði. Fiskurinn var borinn upp klappirnar fyrir neðan bæinn, þeir voru í brókum upp undir hendur og skinnstökkum og bundið yfir um mittið til þess þeir yrðu ekki brókarfullir. Þeir báru tólf þorska í einu og enginn taldi eftir sér að bera upp fiskinn. Nú bykir allt erfitt. Skiptivöll ur heitir pa.rtur af túninu fyrir neðan Hraun. Þar deildu þeir út hlutunum. En það var ekkert upp úr þessu að hafa, þó við fiskuðum 500 skippund yfir vertiðina og gerðum að öllu Sjálfir. Þetta fór bara í kaupmennina og þeir voru eins og sjórinn. Lengi tekur sjórinn við.
En nú held ég að þorskurinn sé að ganga til þurrðar, það er ekki annað að formerkja. Áður fylltist allt af fiski, þegar sílin komu. Fyrst þegar ég byrjaði að róa fengum við oft á annað hundrað fiska í 15 möskva djúp net, en nú eru þeir með þetta 30—36 möskva djúp nælonnet og fá einhverja glefsu í eitt og eitt net. Nú sést ekki fiskur á þeim slóðum þar sem við veiddum mest. En fiskifræðingarnir trúa ekki að fiskurinn sé að ganga til þurrðar, það er aðalatriðið. Kannski við getum lifað á bjartsýni þeirra.“
„Var þetta ekki sæmilegt upp úr fyrri heimsstyrjöldinni?“ spurði ég.
„Jú, það var miklu betra en síðar varð. Um 1930 súnkaði fiskurinn í verði og þá byrjaði kreppan.“
Við vorum varla komnir upp á fjallsbrúnina þegar Magnús stanzaði, bandaði til min hendi og sagði: „Þarna er ein —,“ hlóð byssuna, miðaði og — bang.
Þegar Magnús kallaði sá ég dýrið dauðamóða teygja úr skaflhvítum hálsinum, tvö augu sem störðu á okkur í 30—40 metra fjarlægð. Þau báðu ekki um líf, þessi augu, nei horfðu Kastid-frett-3bara á okkur, spurðu. Og svarið kom. Þegar við komum að rjúpunni þar sem hún lá dauð í grænum mosa milli hraungrjóts, beygði Magnús sig niður og sagði: „Þetta er einhver síðgotungur, hún er enn með svartar fjaðrir.“ Svo leit hann á mig og spurði glottaralega:
„Ekki sást þú hana á undan mér?“
Það var nú lítill munur orðinn á rjúpunni og hvítskellóttum steinunum. En blóðið golpaðist ekki upp úr þeim.
Við gengum skimandi vestur fjallið, en sáum ekki fleiri rjúpur. Þessari styrjöld lyktaði með ósigri þeirrar einu rjúpu, sem á fjallinu var þennan dag. Þegar við komum á móts við Kast á heimleið fórum við aftur að tala um flugslysin, enda voru þau ofarlega í hugum okkar. Og þá sagði Magnús: „Það er eins og allt sé fyrirfram ákveðið og hnitmiðað niður. Amma mín, Guðbjörg Gísladóttir frá Lambafelli undir Austur-Eyjafjöllum, sagði mér einhverju sinni frá harðduglegum fiskiformanni, sem alltaf gat sagt hásetum sínum fyrir um, hvað þeir mundu fá til hlutar. En svo einn vetur segist hann ekkert geta sagt þeim. Hann segir að sig hafi dreymt, að hann væri í úlpu með fjórtán hnepslum, en hnapparnir allir skornir af. Annað gæti hann ekki sagt þeim. Skip hans fórst í fyrsta eða öðrum róðri með allri áhöfn, fjórtán mönnum.
Með þetta dularfulla veganesti héldum við til byggða.“ –
M.

Heimild:
-Morgunblaðið, 22. des. 1963, Í stríði á Fagradaldsfjalli, bls. 1, 3 og 5.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason – Fæddur 21. nóvember 1891, dáinn 17. desember 1983.

Húshólmi

Fyrir u.þ.b. fimm árum tók Minjastofnun Íslands að sér að útbúa og setja upp minjaskilti í og við Húshólma f.h. Grindavíkurbæjar – á kostnað bæjarins. Húshólmi geymir einar merkustu mannvistarleifar Grindavíkur – sem og Íslands alls.

Húshólmi

Húshólmi – fremra skiltið liggur enn niðri, eftir fimm ára aðkomu.

Sett voru upp fjögur skilti við aðkomuna að Húshólma sunnan Suðurstrandarvegar. Eitt þeirra lýsir minjasvæðinu, tvö segja frá jarðfræði svæðisins og það fjórða frá fuglalífinu.

Húshólmi

Húshólmi – skilti.

Við uppganginn að Húshólmastíg við jaðar Ögmundarhrauns að austanverðu var sett upp eitt skilti.
Vestast í Húshólma átti að setja upp tvö skilti. Annað skiltið, er getur minjanna inni í hrauninnu skammt vestar, var sett upp. Hitt, er segir frá görðunum, sem rannsakaðir voru fyrrum og gáfu til kynna að þeir væru eldri en norræna landnámið, sem jafnan hefur verið miðað við varðandi upphaf byggðar hér á landi, fór aldrei upp, heldur var stjakað á staura og komið fyrir í holum við hraunkantinn þar sem gengið að að hinum fornu skálum, er hraunið hlífði ~1151. Þarna hefur skiltið legið óhreyft, jarðlægt, í 5 ár.
Fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast ekki hafa hinn minnsta áhuga á að koma síðastnefnda skiltinu sómasamlega fyrir á þessu merkasta minjasvæði bæjarfélagins og Minjastofnun hefur lítið gert til að fullkomna verkið það, er stofnunin tók að sér fyrir fimm árum.

Húshólmi

Húshólmi – jarðlæga skiltið.

Þess má einnig geta, að fjórir steinsteypustöplar, sem burðast var með inn í hólmann í hjólbörum fyrir fimm árum, og áttu að bera leiðbeiningaskilti til handa aðkomandi göngufólki að minjasvæðinu, standa enn einir og yfirgefnir á þeim tveimur stöðum, er þeim var komið fyrir á – hingað til án nokkurs tilgangs.
Segja má, með fullri virðingu fyrir starfsfólki Minjastofnunar og Grindavíkurbæjar, að framkvæmdin, eins og hún stendur núna, fimm árum eftir að hún hófst, er báðum aðilum til lítils sóma.

Fjallandi um skiltin þá tók framangreind stofnun að sér auk þess skiltagerð á Selatöngum. Burtséð frá óvaranleika skiltanna þar, sem hafa nú þegar nánast fokið út í veður og vind, má geta þess að upplýsingarnar á báðum skiltunum er verulega ábótavant.  T.d. eru augljósar vitleysur á báðum stöðunum, sem eru til verulegra vansa áhugasömum þegar á hólminn er komið.

Í FERLIRsferð um miðjan ágúst 2022 var framangreint enn óbreytt.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Sloki

FERLIR hefur tekið saman myndir af nokkrum fiskibyrgjum og fiskigörðum á Reykjanesskaganum. Um eru að ræða merkar minjar frá fyrri tíð – órjúfandi hluti sjósóknar allt fram á miðja 20. öld.
HÉR má sjá myndasafnið.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Ísólfsskáli

Tvær örnefnalýsingar eru til af „Ísólfsskála„, auk tveggja spurningalista er fylgdu í kjölfarið. Fyrri lýsingin er höfð eftir Guðmundi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála og hin síðari af Lofti Jónssyni frá Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Báðar athugasemdirnar við lýsingarnar eru skráðar eftir Ísólfi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála árið 1982:

Guðmundur GuðmundssonÍsólfsskáli; örnefni – Ari Gíslason skráði eftir Guðmundir Guðmundssyni.
„Ísólfsskáli er næst austasta jörð í Grindavíkurhreppi og sú austasta, sem er í byggð 1954. Bærinn stendur niður við sjó, sunnan við allháa hæð, sem heitir Slaga.

Verður fyrst byrjað með sjó austast og haldið vestur eftir. Nokkuð fyrir austan bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar. Þar eru merkin móti Krýsuvík í klett, sem heitir Dagon. Áður voru þeir tveir, og deildu menn um, hver væri sá rétti. Nú er annar hruninn og óþekkjanlegur. En þrætueplið var ekki stærra en það, að hvalur gat rétt fest sig þar. Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890.

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Hraunið hér upp af og heim undir tún heitir Ögmundarhraun. Er það mikill hluti hrauns þess, sem sagt var frá við Krýsuvík. Um það liggja margir troðningar, en hraun þetta er mjög úfið. Má þar víða sjá hófaförin mörkuð í klappirnar. En merkin móti Krýsuvík eru úr Dagon upp í austanverðan Núpshlíðarháls.

Vestur af Dagon er sandur með sjó fram og melhóll er þar, sem nefndur er Hóll.

Nótarhellir

Nótarhellir.

Þá er að geta Nótarhellis, sem er vestast á Selatöngum. Þar innar tekur svo við svæði, sem nefnt er Katlahraun. Er það fullkomið réttnefni á landssvæði þessu, sem allt er fullt af kötlum og hraunbollum, djúpum með grasi í botni. Milli þeirra eru háir drangar, en gjóturnar djúpar á milli.

Mölvík

Mölvík.

Vestar er svo vik inn í landið, sem heitir Mölvík. Vík þessi er með möl í botni. Þá tekur við berg með sjó, sem heitir ekki sérstakt, það er 1-2 mannhæðir, en svo ganga inn í það vik, básar og víkur. Þar vestar er svo Vondanef, og vestur og fram af því er Veiðibjöllunef. Þar hækkar hraunið og breytir um svip. Austar er það lágt og nokkuð sandborið. Þar vestar er bás, sem heitir Heimastibás. Hraun er þar vestur með, þar til kemur nafnlaus bás, svo er Rangagjögur. Austur og upp af honum er hóll, sem heitir Hattur. Enn vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er vík, sem heitir Hattvík. Vestan við Hattvík tekur við skerjagarður, sem brýtur á um flóð, og heitir hann Trantar. Þar vestur af er sker, sem heitir Gvendarsker. Milli Tranta og Gvendarskers er mjó vör, sem breikkar þegar inn kemur, og heitir hún Gvendarvör.

Nótarhóll

Nótarhóll – byrgi.

Upp af Gvendarvör er hóll, sem heitir Nótarhóll, og miðið á vörina er, að austurhorn Gvendarskers á að jaðra við Nótarhólinn, þar til vörin opnast inn og hægt er að slá undan. Á Nótarhól var byrgi. Fram af Nótarhól var annar hóll með sama nafni. En hann er nú horfinn í sjó.

Lambastapi

Lambastapi.

Niður undan túninu er legan og ströndin kölluð Bót. En hæð vestur af túni með hömrum í hlíðum en grasi á kolli heitir Bjalli. Efst á Bjallanum er nú komið tún. Annars myndar Bjallinn klettahrygg norðan túns og að nokkru að austan. Þetta er mjög gamalt hraun. Þar vestur af er berg og allhár hnúkur, Lambastapi. Þar neðar er svo vík, sem heitir Lambastapavík. Þar er smáreki.

 

Festarfjall

Festi – Festarfjall. 

Á Selatöngum var sundmerkið þannig, að Dagon átti að bera í Litlabólið í Núpshlíð. Vestur af Lambastapa er berg og ekki undirlendi. Undir því bergi er nefnt Skálasandur. Vestar er stuðlabergsgangur, sem heitir Festi. Þaðan á Þórir haustmyrkur að hafa numið land austur í Selvog, og nú eru hér merki móti Hrauni.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1915-1930; Sæmundur G. Guðmundsson. Gamli bærinn neðst t.h.

Nú tökum við aðra umferð og byrjum enn austan frá. Upp af Selatöngum er hraunið nafna- og auðkennalítið, frekar jafnlent, þó ekki sé það slétt. Merkin eru hér línan úr Dagon í Trölladyngjurætur að vestanverðu, en Trölladyngja er útbrunnið eld-fjall. Hraun á ekki svo langt til norðurs. Núpshlíðarháls , sem reyndar vafi er, hvort Hraun á í. Hlíðin sunnan í hálsinum heitir Núpshlíð. Þar uppi er hið forna Vigdísarvallaland. Á móti þar austast er fjallshlíðin nefnd Skalli, og er það í Vigdísarvallalandi.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vestur af því er smárauf nefnd Litlaból, lítið fjárból, er blasir vel við frá Selatöngum, enda innsiglingamið þar á leguna. Þar upp af er lægðin nefnd Dalur og upp, og ofan eða austanvert við há-Núpshlíð heitir Langagörn. Hún liggur meðfram dalnum alla leið að Vigdísarvöllum, breytir þar um útlit og nefnist innst Litli-Hamradalur. Vel má vera, að öll Langagörn sé í Krýsuvíkurlandi, en ég set hana hér, því annars glatast hún. Vestar og hærra en Litlabót er Stórabót. Það er móhella. Þar austur og upp af er Skálagörn, skora, er liggur til norðurs. Þar er vinkilbeygja á gamla veginum.

Grákvíguhraun

Grákvíguhraun.

Vestan við Núpshlíð er hraunspilda, sem heitir Grákvíguhraun og nær vestur að allmikilli hæð, sem nefnd er Höfði. Við suðurenda hans er vegurinn allknappur og heitir þar Méltunnuklif. Er sagt, að þar hafi eitt sinn farið méltunna af hesti og niður fyrir.

Fram af Núpshlíð eru tveir hólar nefndir Moshólar, og vestan þeirra er eins og fyrr segir Grákvíguhraunið. Höfðinn fyrrnefndi nær svo, með mismunandi nöfnum, fram í Bjallan fyrir ofan bæinn á Skála. Suður af Méltunnuklifinu er Skála-Mælifell, ekki mikið um sig, en nokkuð hátt. Sunnan þess er svo hraunið fyrrnefnda, en vestan þess er djúpt skarð, sem heitir Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg. Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið hér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði. Nú er verið að græða lágarnar upp. Upp og vestur af Lágunum rís Lyngfjall, lítið um sig, en nokkuð hátt. Þar vestur af er Festarfjall, sem fyrr er getið. Suður af Lyngfjallinu er Lambastapinn fyrrnefndi, og uppi á honum er Lambastapabrekka.

Móklettar

Móklettar – áletrun á landamerkjum.

Sunnan í Festarfjalli er Festin fyrrnefnda, en norðan undir því eru móbergsstrýtur og hnúkar, sem heita Móklettar. Þeir eru sjávarmegin við veginn. Austan undir Lyngfjalli er smáhæð og hóll, sem heitir Litliháls. Norður frá Skála-Mælifelli er Skyggnir, hæð alláberandi (á korti nefnd Méltunnuklif).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Norðanvert við Slöguna er Drykkjasteinn. Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum. Norðan í, vestur af Skyggni, er svonefndur Litli-Leirdalur. En lægðin, sem Drykkjarsteinn er í, heitir Drykkjarsteinsdalur.

Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli.

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Síðan sama sjónhending austur Selvallafjall að merkjum Krýsuvíkur og þá suður að Dagon. Þetta segir þar, en Gísli á Hrauni sagði, að línan væri úr Móklettum og beint í skarðið á Núpshlíð, þar sem vegurinn liggur gegnum, og skakkar það allmiklu. En ég hygg, að merkjabókin hafi hér rétt fyrir sér. Læt ég svo lokið talningu Ísólfsskálaörnefna.“

Ísólfsskáli – athugasemdir:
Jónína Hafsteinsdóttir skráði eftirfarandi svör við spurningum um örnefni í skrá Ara Gíslasonar eftir Ísólfi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála. Skráð var í Örnefnastofnun 20. okt. l982.

Selatangar

Selatangar.

„Selatangar: Selveiði var stundum við þá og útgerð í gamla daga.
-Dágon (ekki Dagon): Ísólfur veit ekki, hvernig stendur á því nafni. Dágon var hraundrangi niðri við sjó, en er nú dottinn. Hann var suður af vestustu sjóbúð á Selatöngum. Ekkert sérstakt var við hann, sem skýrt gæti nafnið.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

-Ögmundarhraun: Ögmundur nokkur lagði hug á dóttur bóndans í Krýsuvík. Bóndi lagði fyrir hann að ryðja veg yfir hraunið, og skyldi hann þá fá stúlkuna. En er verkinu var lokið, lét bóndi drepa Ögmund.
-Nótarhellir er syðst og austast í Katlahrauni. Þar var sagt, að nætur hefðu verið þurrkaðar og gerðar upp.
-Veiðibjöllunef: Þegar mikið var um loðnu í Mölvík, sat veiðibjallan mikið á nefinu.
-Rangagjögur er dálítíð fyrir austan Ísólfsskála. Þetta er sprunga, sem liggur frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs, liggur í kross. Þetta er stór og mikil gjá, sem sjórinn gengur í.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Hattur.

-Hattur er klettur uppí á hrauninu, og er gras á honum.
-Trantar eru austan við Gvendarvör. Hraun hefur runnið fram í sjó, en klettadrangar standa upp úr.
-Gvendarsker og Gvendarvör: Ísólfur hefur heyrt sagt, að Guðmundur einhver hafi farizt á skerinu, en veit ekki um það nánar.
-Grákvíguhraun er vestan undir Höfða. Þar eru hraunsteinar með gráum mosa, gráir tilsýndar, og mun nafnið dregið þar af.
-Skollanef: Skollahraun er suður af því; þar var og er enn greni.
-Moshólar eru gamlir, útbrunnir gígar, en ekki meiri mosi á þeim en gengur og gerist. Ekki er vitað um nein not af mosanum.
-Núphlíðarháls (ekkí Núps-) nær frá gamla veginum, sem lá til Krýsuvíkur og inn að Krossgili. Krossgil er vestanverðu í Stóra-Hamradal, er í Vesturhálsi.
-Langagörn er ekki öll í landi Krýsuvíkur. Landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur eru eftir Löngugörn.“

Loftur JónssonÍsólfsskáli; örnefni – Loftur Jónsson skráði.
„Austan við Hraunsvík stendur bærinn Ísólfsskáli. Bærinn stendur niður við sjó framan við Bjalla, hamrahæð suðvestur af Slögu.
Fyrir botni Hraunsvíkur er fjallið Festi. Í áberandi stuðlabergsgangi austarlega í fjallinu eru landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Heitir þar Festin. Þaðan eru merkin í móbergsstrýtur og hnúka norðan undir Festi. Þar eru tákn um landamerkin klöppuð á hellu norðan við veginn. Þeir heita Móklettar.
Ef farið er austur ströndina frá Festi tekur fyrst við Skálasandur, þangað er illfært nema um fjöru vestan frá. Lambastapi er allhár grágrýtishnúkur með grastorfu í toppinn og þar austan við er smáhækkandi alda sem myndar fell austast og heitir Slaga. Þar sem Skálasandur endar að austan eru tveir melhólar upp á brúninni á milli Skálasandsbergs og Lambastapa. Þeir heita Lambastapahryggir. Fyrir austan Lambastapa kemur smávik sem heitir Lambastapavik og þar upp af er Lambastapabrekka. Frá vikinu og austur í Skálabót er lágt berg sem heitir Hjálmarsbjalli og er eins og smátota fram í sjóinn. Skálabót er víkin þar austur af og þaðan var róið áður fyrr.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – loftmynd.

Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.

Austast í Skálabót eru klapparflúðir sem heita Vötnin. Þar kemur fram ósalt vatn um fjöru. Skammt austur af Vötnunum eru sléttar klappir; Gvendarklöpp og beint suður af henni er Gvendarsker. Þar heitir lendingin Gvendarvör. Þar var lent þegar gott var í sjó. Miðið á vörina er að austurhorn Gvendarskers á að jaðra við Nótarhól þar til vörin opnast inn og hægt er að slá undan.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir loftmynd. ÓSÁ

Nótarhóll er hóll upp af Gvendarvör, vestan við hraunið. Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum. Norðvestur af Nótarhól er smágerði sem kallað er Hestagerði. Í fjörinni austur af Nótarhól eru tveir svartir klettar sem heita Svörtuklettar. Suður af þeim er skerjagarður sem brýtur á um flóð. Þar heita Trantar. Austan Tranta er Hattvík, smámalarvík. Rangagjögur er lón inn í landið og fellur sjórinn um rifna klöpp. Þar austur af er klettur upp á kampinum með grastó í toppinn sem heitir Hattur .

Ísólfsskáli

Brimketill við Kvennagöngubása.

Þar austur af er smábás sem heitir Skálabás. Þar austur af er hraunnef í sjó fram og austur af því eru Kvennagöngubásar. Heimastibás er vestasti básinn. Hraunsnes skagar í sjó fram þar fyrir austan. Þar er talið hálfnuð leið frá Ísólfsskála að Selatöngum en þessi leið er talin um það bil klukkustundar gangur. Veiðibjöllunef, öðru nafni Vondanef, er þar fyrir austan og er það í vesturmörkum á Mölvík. Víkin er með möl í botni og vestast í henni er berg með sjó, ein til tvær mannhæðir á hæð. Inn í það ganga vik, básar og víkur. Hraunið þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun. Hraunið er fullt af kötlum og djúpum hraunbollum með grasi í botni. Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram. Þar sem Katlahraun endar tekur við Bjallinn á Selatöngum. Það er frekar lágur bergstandur og nær í sjó að vestan en gengur síðan upp í landið. Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar.

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur sem eru nú friðlýstar.
Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum en er nú hruninn. Hann skipti löndum og reka á milli Ísólfsskála og Vigdísarvalla. Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunnefi.

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Austan undir hraunnefinu eru fjórir hellar og var einn þeirra smíðahellir og sést þar enn steinskál sem notuð var til kælingar. Fyrir norðaustan Dágon eru smátjarnir, kallaðar Brunnar. Vörin er að sjá á milli Dágons og Skiptivallar. Sundmerkið í vörina er þannig að Dágon átti að bera í Litlaból í Núphlíð. Hraunið þarna á milli fjalls og fjöru heitir Ögmundarhraun.
Ef farið er aftur vestast í landareignina þá eru móklettar vestast (norðaustan í Festi). Austan þeirra er Borgarhraun og austan þess rís Borgarfjall sem er syðsti hluti Fagradalsfjalls. Landamerki Hrauns og Ísólfsskála eru frá Móklettum og í miðja suðuröxl Borgarfjalls. Suður frá Móklettum er Lyngfell og austur úr því er Litliháls. Þar austur af er Litla-Borgarhraun og þar í er hlaðin hringmynduð fjárborg sem kölluð er Borgin.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – örnefni.

Melar  er kallað fyrir ofan Skálasandsberg og ná þeir upp að Lyngfelli. Framan undan Lyngfelli er undirlendi með grastorfum á víð og dreif og heitir það Lágar. Lágarnar er nú verið að græða upp og eru að mestu orðnar grasivaxnar. Vestan við veginn þar er sprunginn hóll sem heitir Klofhóll.
Bjallinn  er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður.

Slaga

Slaga.

Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista. Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar. Austan og uppi á Slögu fyrir norðan Innri-Stórusteina eru sjö grastorfur sem heita Sláttutorfur.
Skálamælifell er austur af Slögu og skarðið þar á milli heitir Mælifellsskarð. Þar eru tvö vatnsstæði sem sjaldan þorna. Grasbrekkur austan Skálamælifells heita Fyrstabrekka, Önnurbrekka og Þriðjabrekka. Og síðan tekur við Bjallinn í Klifinu. Við endann á Bjallanum í Klifinu að austan er gjá og nær hún langleiðina suður á Vondanef.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Méltunnuklif er norð-norðaustan í Skálamælifelli. Þar er gamli vegurinn í nokkuð brattri og þröngri brekku og segir sagan að þar hafi farið mjöltunna af hesti og niður fyrir. Leggjabrjótshraun er hraunið norðaustur undir Skálamælifelli en sunnan þess og austur um er Ögmundarhraun. Moshólar eru eldgígar úr brunnu hraungjalli austur frá Skálamælifelli. Þar liggur nú akvegur um. Aust-norðaustur frá Moshólum er Núphlíð. Er það suðurhlíð Núphlíðarháls. Skálagörn er jarðsig suð-suðvestan í Núphlíð og liggur frá jafnsléttu að gamla veginum norðan Núphlíðar. Móklettur eða hella í hlíðinni að vestan heitir Stóraból. Skalli er hnúkur sem gengur í suður úr Núphlíð og er hann á mörkum Vigdísarvalla og Ísólfsskála. Vestan Skalla er kvos þvert yfir Núphlíð sem heitir Langagörn (Vallagörn). Vestan undan Löngugörn fremst er klettur sem heitir Litlaból. Vestan Skalla er kvos sem heitir Dalur og þar fyrir norðan kemur Vallagörn eða Langagörn sem nær norður fyrir Litla-Hamradal.

Ísólfsskáli

Rekagatan – Ísólfsskáli fjær.

Eystri-Tangagata liggur frá Skalla og yfir hraunið fram á Selatanga en Vestri-Tangagata frá Skálagörn og fram á Selatanga. Framan undir Núphlíð hét Mýrdalur áður en hraun rann þar yfir allt. Frá Festi og allt austur í Selvog á Þórir haustmyrkur að hafa numið land.
Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drekkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpum skálum en litlum um sig og þar stóð oftast vatn í sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.
Stóri-Leirdalur er norðaustan undir Slögu. Norðan við hann er Lyngbrekka og Langihryggur. Litli-Leirdalur er þar austur af og norðan við Skálamælifell og vestan við Skyggni sem er klettahæð. Fyrir austan Skyggni (öðru nafni Brattháls) er Bratthálskrókur og þar norður af er Einihlíðarkrókur og síðan Einihlíðar sem ná inn að Sandfelli.

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell.

Á milli Brattháls og Höfða heitir Leggjabrjótshraun. Fyrir austan Leggjabrjótshraun er fjall sem heitir Höfði. Norð-norðaustan af Einihlíðum er Sandfell. Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel (fremst. Inn með Núphlíðarhálsinum að vestan eru tættur sem Hraunssel heita. Og þar skammt norður af nær hraunið upp að hálsinum og heitir þar Þrengsli og síðan taka við Selsvellir og Selsvallafjall. Núphlíðarháls nær frá gömlu götunni í Núphlíð og fremst í Krossgil. Krossgil er fremst í Stóra-Hamradal og þar fyrir austan er Lyngkrókur.
Að kunnugra manna sögn þá er Leggjabrjótshraun vestan við Höfða en Grákvíguhraun á milli Höfða og Núphlíðarháls. Á korti er Leggjabrjótshraun sagt austan Höfða og er það sennilegra því þar er hraunið úfið og illt yfirferðar en vestan Höfða er það tiltölulega slétt.“ – Grindavík 07.10 ‘80, Loftur Jónsson [sign.].

Ísólfsskáli; athugasemdir:

Ísólfsskáli

„Hér eru tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Sennilega eru spurningarnar samdar með örnefnalýsingu Lofts Jónssonar í huga því sum örnefnin sem spurt er um koma aðeins fyrir þar (t.d. Skiptivöllur) eða notaður er ritháttur sem kemur aðeins fyrir þar (Lyngfell, en Lyngfjall hjá AG). Um er að ræða tvær spurningaskrár og fyrir kemur að nokkurn veginn sama spurningin er borin upp tvisvar. [HJÁ 15/10/2004.]
l. Er vitað um tilefni nafnanna Skálasandur, Skálabót, Skálabás o. s. frv.
Svar: Kennt við Ísólfsskála, sem oft er í daglegu tali nefndur Skáli.
2. Er vitað, hvers vegna Skiptivöllur var nefndur svo?
Sv.: Fiski var skipt í hluti á þessum stað eftir löndun.
3. Er Lyngfell hátt?
Sv.: Nei.
4. Er Hattur (5l) einnig þekktur undir nafninu Grettistak eða er það alrangt? Eru Hattarnir tveir?
Sv.: Hattur er nefndur Grettistak á landakorti (ekki talið rétt). Þeir eru tveir, annar vestan undir Slögu og hinn hjá Rangagjögri.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Bólið.

5. Hvernig er Ból?
Sv.: Hellisskúti þar sem fé var geymt í.
6. Verpir hrafn á/í Hrafnshreiðri?
Sv.: Ekki nú.
7. Er Leggjabrjótshraun erfitt yfirferðar?
Sv.: Ekki svo mjög auk þess er vegur lagður yfir það

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

8. Er vitað, hvers vegna Slaga er nefnd svo?
Sv.: Nei.
9. Er Festarfjall oft nefnt Festi?
Sv.: Já.
l0. Koma fram í lýsingunum öll örnefni, sem þekkt eru í landareigninni? Eru öll örnefnin, sem skráð eru í lýsingunum, innan landareignarinnar?
Sv.: Óvíst.
Gott væri að fá svör við sem flestum eftirfarandi spurninga:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Refagildra í Skollahrauni.

1) Hverjir voru heimildarmenn að lýsingunni?
Sv.: ?
2) Er eitthvað vitað um menn þá, sem eftirtalin örnefni eru kennd við: Hjálmarsbjalli, Gvendarklöpp, Gvendarsker, Gvendarvör og Ögmundarhraun?
Sv.: Hjálmarsbjalli: Hjálmar Guðmundsson. Gvendarklöpp: Sagt var að einhver Guðmundur hefði farist í vörinni. Ögmundur var nafn þess manns, sem fyrst lagði slóða yfir hraunið og var síðan veginn austast í hrauninu.
3) Eru Trantar þröng leið á milli skerja?
Sv.: Hátt brunahraun í sjó fram.
4) Verpa veiðibjöllur í Veiðibjöllunefi?
Sv.: Nei.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Kvennagöngubásar.

5) Er nokkuð vitað um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar?
Sv.: Þar var kvenfólk sagt baða sig.
6) Af hverju ætli Skiptivöllur heiti svo?
Sv.: Fiski var skift þar í hluta.
7) Sjást stundum selir við Selatanga?
Sv.: Já oft.
8) Vex lyng í Lyngfelli, Lyngbrekku og Lyngkrók?
Sv.: Já þar er lyng.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

9) Er vitað, hvers vegna Ból heitir svo?
Sv.: Ból var oft nefnt þar sem fé var geymt.
10) Voru Sláttutorfur slegnar?
Sv.: Já.
11) Eru Moshólar mosavaxnir?
Sv.: Já.
12) Af hverju ætli Leirdalir heiti svo? (Er jarðvegurinn leirborinn og gróður lítill sem enginn?)
Sv.: Já.
13) Vex einir í Einihlíðum?
Sv.: Já.

Hraunssel

Hraunssel.

14) Er Hraunssel í landi Ísólfsskála?
Sv.: Já.
15) Einihlíða- eða Einihlíðarkrókur?
Sv.: Einihlíðarkrókur.
16) Af hverju ætli Krossgil dragi nafn?
Sv.: Tvö gil sem mynda kross.“ – Virðingarfyllst, Ísólfur Guðmundsson [sign.]

Hjónin Valur Helgason og Harpa Guðmundsdóttir hafa átt sumarbústað á jörðinni í um 27 ár. Í viðtali við Val kom í ljós að Hjálmar, bróðir Guðmundar á Skála, hafi um tíma búið í húsi undir Hjálmarsbjalla. Benti hann FERLIR á tóftirnar, sem nú eru að mestu komnar undir kampinn. Var þar kominn skýringin á örnefninu „Hjálmarsbjalli“.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Ísólfsskála; heimildarmaður: Guðmundur Guðmundsson, bóndi, Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði.
-Ísólfsskáli; örnefni – Jónína Hafsteinsdóttir skráði eftirfarandi svör við spurningum um örnefni í skrá Ara Gíslasonar eftir Ísólfi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála. Skráð var í Örnefnastofnun 20. okt. l982.
-Örnefnalýsing fyrir Ísólfsskála; Loftur Jónsson skráði.
-Ísólfsskáli; örnefni – Hér eru tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Sennilega eru spurningarnar samdar með örnefnalýsingu Lofts Jónssonar í huga því sum örnefnin sem spurt er um koma aðeins fyrir þar (t.d. Skiptivöllur) eða notaður er ritháttur sem kemur aðeins fyrir þar (Lyngfell, en Lyngfjall hjá AG).

 

 

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi – og – garðar við Nótarhól.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Ísólfsskáli

 

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1990 fjallar Ólafur E. Einarsson um „Ísólfsskála„:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1990.

„Næsti bær við Krýsuvíkurlönd að vestanverðu er ísólfsskáli. Bærinn stendur undir lágu hamrabelti í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Í jarðamatsbók er jörðin talin vera 16 hundruð að dýrleika. Veglengd frá Þórkötlustöðum til ísólfsskála er um það bil 25 km og liggur upp svokallaða Hálsa, kringum Festarfjall og niður að sjó á hægri hönd. Hlunnindi jarðarinnar eru talin vera trjáreki og selalátur undir Festarfjalli. En eins og öllum mun nú ljóst vega slík hlunnindi ekki þungt nú þótt góð þættu fyrr á öldum. Landrými er mikið á Ísólfsskála en ákaflega hrjóstrugt og illt yfirferðar, hraun og sandur. Það má raunar teljast furðulegt að hægt skuli vera að búa þar góðu búi á landbúnaði eingöngu og einhvern veginn fínnst manni margir staðir ákjósanlegri til landbúnaðar. Þarf ekki að líta nema fáeina kílómetra í austurátt til að sannfærast um það.
ÍsólfsskáliÍ mínu ungdæmi bjuggu á Ísólfsskála hjónin Agnes og Guðmundur Guðmundsson, mikil ágætishjón. Í þá daga var það talin holl og góð skemmtun að fara um helgar þegar vel viðraði í útreiðartúra frá Grindavík til Krýsuvíkur. Var þá stundum komið við í heimleið á Ísólfsskála, þar sem vel var tekið á móti gestum. Á þeim árum stundaði Ísólfsskálabóndinn venjulega sjóróðra á vetrarvertíðum frá Þórkötlustöðum í Grindavík, og þá að venju hjá bróður sínum, Hjálmari á Þórkötlustöðum, miklum og aflasælum dugnaðarformanni. Það var að vísu ekkert óvanalegt í þá daga að bændur stunduðu sjóróðra á vetrarvertíðum til að afla búum sínum fiskmetis, sem allsstaðar var talið sjálfsagt og nauðsynlegt. En það er hollt fyrir nútímamenn að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar þurftu oft mikið á sig að leggja. Guðmundur þurfti mjög oft að ganga frá Ísólfsskála til skips, vegalengd sem er um 25 kílómetrar, eins og áður er getið. Hvernig skyldi ungum mönnum lítast á að gera slíkt í dag.
Þau Ísólfsskálahjón, Agnes og Guðmundur, bjuggu góðu búi, þótt aðstæður væru oft þröngar frá náttúrunnar hendi. Fjölskyldan var stór, enda börnin mörg. Ég þekkti flest þeirra vel. Sum voru um tíma á heimili foreldra minna og önnur unnu undir minni stjórn í fyrirtæki föður míns. Öll voru þau öndvegismanneskjur, dugandi, heilbrigð og ráðvönd.
Ísólfsskáli
Ísólfur sonur þeirra ágætu hjóna er nú eigandi jarðarinnar ásamt konu sinni Herte, sem er af þýskum ættum. Þau búa þar myndarbúi.
Það er með ólíkindum, hversu búskapur á Ísólfsskála hefur dafnað vel á liðnum árum og lýsir það best dugnaði þeirra hjóna Hertu og Ísólfs. Bæði hafa þau starfað við búskapinn svo að segja myrkranna á milli.
Þess má geta, að Ísólfur er afbragðs grenjaskytta.
Það er athyglisvert hversu búskapurinn hefur blessast vel hjá þessu dugnaðarfólki, þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi.“ – Ólafur E. Einarsson

Í Víkurfréttum 1993 segir:  „Fjárbúskapur að Ísólfsskála til rannsóknar – Áttu bara hey til hálfs mánaðar„:

Ísólfsskáli
„Ákvörðun hvað verður um sauðfjárbúið að Ísólfsskála verður tekin á morgun, 12. mars. Lögregla og forðagæslumaður Grindavíkur könnuðu aðstæður að Ísólfsskála í síðustu viku í framhaldi af bréfi Dýraverndunarfélags Íslands til sýslumannsins í Gullbringusýslu. Þar var krafist að búreksturinn að Ísólfsskála yrði kannaður.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni í Grindavík sagði í samtali við Víkurfréttir að forðagæslumaður teldi ekkert vera að búfénaði að Ísólfsskála. Áður hefur komið fram hér í blaðinu getsakir um að ástand fjársins væri ekki gott, en það virðist ekki hafa verið á rökum reist samkvæmt þessu. Hins vegar þarf að laga göt á fjárhúsi og einnig þyrfti að útvega fóður fyrir búfénaðinn, þar sem heybirgðir voru eingöngu til hálfs mánaðar þegar könnun fór fram í síðustu viku.

Ísólfsskáli

Auglýsing í Morgunblaðinu 1996.

Á morgun verður það lögreglustjóra að taka ákvörðun um framhald búfjárhalds að Ísólfsskála ef ekki hefur orðið breyting til batnaðar sem aðilar geta sætt sig við. Þess má geta að Ísólfsskáli er eina búið á Suðurnesjum, þar sem ábúandinn hefur einu framfærslu sína af fjárbúskap. Þess má einnig geta að bóndinn, sem hefur legið á sjúkrahúsi, hefur gert ráðstafanir til úrbóta.“

Auglýsing í Morgunblaðinu 01.03.1996 segir að jörðin Ísólfsskáli sé til sölu.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 13. tbl. 31.03.1990, Á Ísólfsskála – Ólafur E. Einarsson, bls. 6.
-Víkurfréttir. 10. tbl. 11.03.1993, Fjárbúskapur að Ísólfsskála til rannsóknar – Áttu bara hey til hálfs mánaðar, bls. 9.
-Ísólfsskáli til sölu – Morgunblaðið 01.03.1996, bls. 21 D.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli 1920.

Dalssel

Á Vísindavefnum er spurt: „Hvað er vitað um örnefnin Fagridalur og Fagradalsfjall á Reykjanesskaga?“
Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, svaraði eftirfarandi:

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – herforingjakort frá 1910. Fagridalur efst t.v.

„Fagradalsörnefni hafa verið mikið í umræðunni undanfarið í kjölfar eldgoss í Geldingadölum, en lítið hefur þó farið fyrir sjálfum Fagradal sem er norðan undir Fagradalsfjalli. Honum hefur verið lýst sem uppblásnu landi eða aurmelum, en svæðið hefur í seinni tíð einfaldlega verið kallað Aurar af heimamönnum ef marka má örnefnalýsingar, þótt Fagradalsnafnið lifi góðu lífi á ýmsum kortum.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

Örnefnið Fagridalur á sér langa sögu. Þess er getið í gömlu skjali sem var skrifað upp eftir afgömlum og rotnum blöðum úr bréfabók Gísla Jónssonar sem líklegast er frá því um 1500 — en nafnið gæti hæglega verið eldra. Í skjalinu er fjallað um landamerki milli Voga og Grindavíkur og talið að Vogar eigi land neðan frá að Kálfsfelli og upp að Vatnskötlum fyrir innan Fagradal. Markalínan milli hreppanna tveggja hefur annars löngum verið umdeild og Fagridalur komið þar við sögu. Í upphafi 18. aldar var til að mynda uppi ágreiningur um selstöðu í dalnum og vildu hvorir tveggja, Stóru-Vogamenn og Járngerðarstaðamenn, eigna sér hana fyrir búpening sinn. Það gæti bent til að þar hafi enn verið einhverjar gróðurtorfur og þótt vænlegt til sumarbeitar, en mörg örnefni með forliðnum Fagri-/Fagra- vísa einmitt til grænku og góðra nytja — ekki síst ef samanburðurinn er kolsvört hraun eða örfoka svæði. Tóftir selsins sem rifist var um, Dalssels, eru enn sýnilegar. Í heimildum frá árinu 1840 er dalurinn sagður stórgrýttur af skriðum og graslítill, þó er tekið fram að hann hafi fyrrum verið fagur.

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þótt Fagridalur sé ekki í alfaraleið, og formlega séð hafi nafnið verið fallið úr notkun staðkunnugra um miðja 20. öld, hefur hann sett ótvírætt mark á önnur örnefni í kring. Fagradalsfjall er kennt við dalinn og sömuleiðis hefur nafni hans verið skeytt framan við nöfn tveggja fella sem eru kölluð Fagradals-Vatnsfell og Fagradals-Hagafell — til aðgreiningar frá öðrum samnefndum fellum sem eru austar og kennd við Hraunssel. Þetta eitt og sér bendir til að Fagridalur hafi verið vel þekktur og miðlægur í vitund þeirra sem þekktu til landslags á svæðinu, kannski ekki síst vegna landamerkjadeilna, selstöðunnar og götu sem tengdi byggðir á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga og lá um dalinn.
Nýlega hefur enn eitt örnefni bæst í afsprengjahóp Fagradals, Fagradalshraun, sem dregur þó nafn sitt ekki beint af dalnum (enda rennur það ekki um hann) heldur fremur af Fagradalsfjalli og eldstöðvarkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu.“

Fagridalur

Í Fagridal.

Þess má geta í Örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir Hraun er þess getið að selið í Fagradal [Dalssel] sé í landi Þórkötlustaða, en ekki Járngerðarstaða, sbr:
„Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.“
Við þetta má bæta að Aurar og Fagridalur eru sitthvað. Fagridalur var gróinn og er það enn að hluta, líkt og nafnið bendir til, en Aurarnir eru norðvestan dalsins, suðaustan við Kálffell (sem er þó annað er sýnt er á kortinu. Það Kálffell er efst í Vogaheiðinni og hýsir m.a. Oddshelli og fjárskjólin honum tengdum). Aurar eru afurð lækjar er rann niður um norðanverðan Fagradal og myndaði þá neðan dalsins. Dalsselið frá Þórkötlustöðum var á bakka lækjarins, sem nú hefur þornað upp.

Sjá meira um Fagradal og „Fagradalshraun“ HÉR.

Heimildir:
Diplomatarium Islandicum/Íslenzkt fornbréfasafn, 7. bindi, Reykjavík 1902-1907.
„Fagradalshraun og Fagrahraun urðu fyrir valinu.“
Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Sögufélag 2007.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. bindi. Kaupmannahöfn 1923-24.
Sesselja G. Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla Keflavíkurvegarins). 2. útg. aukin og endurskoðuð. Lionsklúbburinn Keilir 2007.
Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Ara Gíslason. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Loft Jónsson. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81912

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – Fagridalur efst til vinstri.

Þórkötlustaðarétt

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2017 fjallar Ómar Smári m.a. um „Réttir í Grindavík„:

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017.

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017.

„Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923). Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímana tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu. (Rétt er að geta þess að Þórkötlustaðahverfið í Grindavík er eitt hið fegursta með því nafni á gjörvöllu landinu, að mati staðfæddra).

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni og Efra-Leiti, auk þess sem einstaka grjót kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur einhver hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Efnið í endubótina var fengið í landi eigenda Þórkötlustaða, að þeim forspurðum. Réttin hefur þó ávallt þótt góð til síns brúks.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til, ofan við réttina, greiddist heldur úr þrengslunum. Fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson hefur upplýst um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir (árið 2007) og er þá allt meðtalið.

Þórkötlæustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Frægt er útvarpsviðtalið við nefndan Dagbjart; „stórbóndann í Grindavík“:
Spyrjandi: „Hvað áttu margt fjár, Dagbjartur?“
Dagbjartur: „Ég á einar fimm..“.
Spyrjandi greip fram í: „Fimmhundruð. Það þykir nú allnokkuð“.
Dagbjartur sagði ekki orð. Hið rétta var að Dagbjartur átti þá einungis fimm ær þá stundina.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.
Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.
Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.

Þórkötlustaðarétt

Dagbjartur Einarsson í Þórkötlustaðarrétt.

Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en yngsta gosið ofan við Grindavík rann árið 1226. Það náði þó ekki niður að Þórkötlustöðum. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.“ – Ómar Smári.

Viðbót;
Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

„Sigurður Guðjón Gíslason fæddist á Hrauni 5. maí 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð 30. júní 2010.

Foreldrar voru Gísli Hafliðason útvegsbóndi, f. á Hrauni 11. maí 1891, d. 21. mars 1956 og Margrét Jónsdóttir húsfreyja, f. á Einlandi 15. nóvember 1891, d. 9. maí 1967. Bróðir Sigurðar var Þorvaldur, f. 3. febrúar 1919, d. 11. maí 1984.

Sigurður kvæntist 18. október 1960 Hrefnu Ragnarsdóttur, f. í Reykjavík 10. maí 1931, dóttur hjónanna Jóns Ragnars Jónassonar, skipasmiðs og Jóhönnu Eiríksdóttur, húsfreyju. Þau eru bæði látin.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Sigurður og Hrefna eignuðust þrjú börn. Þau eru: Gísli Grétar, f. 13. desember 1955, sonur hans er Sigurður Guðjón, f. 21. apríl 1982. Unnusta Gísla er Margrét Hinriksdóttir. Hörður, f. 5. febrúar 1967, kvæntur Valgerði Valmundsdóttir, börn þeirra eru Hrefna, f. 14. ágúst 1990 og Hafliði, f. 28. september 2000. Margrét, f. 16. október 1968, synir hennar eru Axel Örn, f. 15. febrúar 1993 og Vignir Þór, f. 1. júní 1996. Fóstursonur var Ragnar Jóhann Alfreðsson, f. 16. nóvember 1953, d. 11. júní 1987, sonur hans er Þorvaldur, f. 17. maí 1981. Barnabarnabörn eru tvö.

Sigurður starfaði lengst af sem sjómaður, útgerðarmaður og bóndi í Grindavík.“

Hraun

Hraun – minja- og örnefnakort af Hrauni; unnið í samráði við Sigurð Gíslason…

Er minnugur orða Sigurðar stuttu fyrir andlátið; „Ómar, ef þú hefðir ekki skráð örnefnin og sögulegar minjarnar á Hrauni hefði ég tekið það nánast allt með mér í gröfina“…

FERLIRsfélagar þakka Sigurði samfylgdina – og virða minningu hans.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017, Réttir í Grindavík, Ómar Smári Ármannsson, bls. 67-69.
-Morgunblaðið 9. júlí 2010, minningargrein, Sigurður Guðjón Gíslason.

Þórkötlustaðarétt

Í Þórkötlustaðarétt.

Staðarhverfi

Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 er grein séra Gísla Brynjólfssonar undir fyrirsögninni „Úttekt á Stað„:

Gervallt segir fjær og nær:
sjáið sigur lífsins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta gæti verið bæði lag og texti í söng þessa dags, fyrsta fardags vorsins 1965, —þriðja júní. Vor og sól og siguröfl gróandans hvarvetna að taka völdin á landinu okkar kalda, sem ljómar í gullnum geislum morgunsins, er „glófaxið steypist um haga og tún„. Sjá „Lífið hefur dauðann deytt„.

Túnakort

Staðarhverfi – túnakort 1918.

En þótt undarlegt sé, er það samt svo, þegar maður er staddur hér, á hinu gamla prestssetri, Stað í Grindavík, þennan vormorgun, þá finnst manni það vera dauðinn, sem hafi svo óeðlilega mikil völd mitt í ríki lífsins og ljóssins, því að þessi bær er nú af öllum yfirgefinn nema hinum framliðnu.
Kirkjan er löngu ofan tekin og reist á öðrum stað. Presturinn er fluttur burtu fyrir mörgum áratugum. Bóndinn er dáinn og enginn kominn til að taka við jörð og búi. En kirkjugarðurinn er enn í notkun.
Og þegar dauðinn hefur barið að dyrum á einhverju heimili í söfnuði Grindvíkinga, og hinn látni hefur verið kvaddur í kirkjunni austur í Járngerðarstaðahverfi, þá er kistunni ekið um klungróttan hraunveginn út að Stað, þar sem grafreiturinn bíður og sendin mold Suðurnesja tekur hana í sinn opna faðm.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Þetta er fallegur kirkjugarður, vel girtur og vel hirtur svo sem sæmir þessu efnaða myndarplássi — Grindavík. Vestan til í honum miðjum — trúega á þeim stað þar sem kirkjan stóð; hefur verið reistur klukkuturn.

Staður

Staður í Staðarhverfi 1960.

Hann ljómar rauður og hvítur í sól morgunsins. Niður úr honum hangir klukkustrengurinn. — Nei, það er bezt að taka ekki í hann. Það væri synd gegn heilögum anda vorsins og lífsins ao rjúfa kyrrð þessa dags með líkhringingu. Það yrði næsta hjáróma hljómur í þeirri symfoniu gleðinnar og gróskunnar, sem maður finnur að fyllir loftið. En skaðlaust er nú að skoða þessa líkaböng Grindvíkinga. Skyldi þetta vera einhver forngripur? Eða skyldi hún bara vera skipklukka úr einhverju strandinu? Jú, ekki ber á öðru. Klukkan hefur þessa áletrun: — S.S. Anlaby — 1898 — Hull.

Hún er úr brezkum togara, sem strandaði hér við svokallaða Jónsbásarkletta í ársbyrjun 1902. Frá því segir Guðsteinn hreppstjóri Einarsson í bókinni „Frá Suðurnesjum“, á þessa leið: „Þetta strand mátti heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Anlaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem verið hefir hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá nokkuð mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. Var grunur á, að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið um verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, en hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki „löngu seinna, og fyrir þá tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirði. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu för hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.

Staður

Staður fyrrum.

Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna.
Svo sem oft vill verða í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta.

Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Draumurinn var á þá leið að henni þótti vera knúið dyra og einhver fara fram, sem kallað var, en koma aftur og segja, að hópur manna sé úti, sem vilji fá að tala við hana. Hún fór fram og þarna stóðu, að hún hélt, 9 eða 10 menn. Þeir báru upp erindið, og var það að fá hjá henni gistingu. Eitthvað leizt henni illa á að hýsa svona stóran hóp manna og færðist undan því, en þeir sóttu fast á og sögðu á þá leið, að þeir yrðu að fá gistingu á Stað. Þá þóttist hún segja, að hún vissi ekki, hvernig hún hefði rúm handa þeirn öllum, en þeir þá svarað, að hún þyrfti ekki að hugsa um þau, því hann Einar mundi sjá um það. Ekki var draumur þessi lengri, en þótti passa við strandið, því Einar Jónsson, hreppstjóri á Húsatóftum, sá um alla björgun og einnig um útför mannanna.

Staður

Staður 1925.

Úr skipinu rak tíu lík á rúmri viku. Þá var lítið um húsrými, og voru líkin öll flutt í Staðarkirkju og lögð þar til á bekkjum í kórnum. Um leið og þau voru þvegin, var leitað eftir öllum merkjum, tattoveringu, hringum og öllu, sem sérkenndi og var það gert samkvæmt beiðni. Þegar sjö lík voru rekin og búið að ganga frá þeim, eins og áður er lýst, vildi það til snemma morguns, að maður kom til Einars hreppstjóra. Sá hét Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari, að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, þannig, að hann hefði vaknað á milli.

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

Draumurinn var þannig, að Bjarna þótti maður koma til sín og biðja sig að fara til Einars hreppstjóra og segja honum, að hann vilji fá aftur það, sem tekið hafi verið frá sér, og að hann sé norðast í kórnum. Bjarni vissi ekkert, hvað um gæti verið að ræða, en setti drauminn þó í samband við hina drukknuðu menn. Einar hreppstjóri tók draum þennan bókstaflega, því einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum að norðanverðu, og var hann látinn á það aftur.
Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og send höfðu verið merki og lýsingar á líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði, væri skipstjórinn; sjálfur, Carl Nilson“.

Við látum þessa fróðlegu og skilmerki legu frásögn hins kunnuga manns nægja um hinztu för Sænska Carls á Íslandsmið.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið, „rautt og hvítt“, h.m.

Við látum hugsunina um hann ekki tefja okkur frá úttektargerðinni eða draga skugga upp á heiðríkju þessa bjarta dags. Á þessari stund á það ekki við að vera með neinar slíkar umþenkingar. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér.

Útihúsin hér á Stað eru mjög fornfáleg og farin að láta á sjá. Hér hafa ekki verið hafðar aðrar skepnur en sauðfé síðustu árin. Það borgar sig bezt, því að hér er féð létt á fóðrum. Snjór liggur hér aldrei á, svo að alltaf næst til jarðar og aldrei bregzt beit í fjörunni þar sem sjálft Atlantshafið fellur á strönd Reykjanesskaga — og ber þarann upp í stórar hrannir. Ærnar eru á beit á grænu túninu og una sér vel með lömbum sínum, sem eru farin að verða bústin, enda þau yngstu nokkurra daga gömul. Við göngum í húsin og lítum inn í hvern kofa. Inni í einum þeirra er hvít ær með lambi sínu. Þegar við komum í dyrnar stappar hún dálítið frekjulega niður öðrum framfæti og segir: Menn! Hvað eruð þið að gera hér? Þið vilduð ekki búa á þessum Stað og skilduð okkur sauðkindurnar einar eftir. Hvaða erindi eigið þið hingað nú? Viljið þið ekki bara gera svo vel að láta okkur í friði.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarréttum.

Við finnum það, að þessi kind hefur mikið til síns máls, svo að við treystum okkur ekki til að taka upp neinar rökræður við hana um rétt okkar til þessa Staðar, sem mennirnir hafa yfirgefið — gengið frá eftir 1000 ára búskap.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Aðrar skepnur en ærnar og lömbin fyrirfinnast hér ekki. Jú annars. Ekki er vert að fullyrða of mikið strax. Nú koma í ljós fram undan kirkjugarðinum tvö följörp hross og veifa svörtum töglum sínum til að verjast flugum loftsins í sólarhitanum. Einhver spyr: Hver á þessi hross? En það veit enginn hver á þau. Hér vekja hestar ekki neina interessu. Þeir eru víst bara til af gömlum vana, því að útreiðarmanían hefur ekki enn haldið innreið sína í Grindavík. Fiskur og fé eru þær lífverur, sem fólkið sinnir, enda eru það þær, sem ásamt fáum kúm hafa haldið lífinu í því frá upphafi byggðar hér.
Já. Fiskurinn og sjórinn — sjórinn og Suðurnes — það eru eins og tvær hliðar á sama hlutnum — líka hér í Staðarhverfinu. Og það var eins og við manninn mælt; þegar hætt var að stunda sjóinn héðan var byggðin vitanlega búin að vera.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Frammi á kampinum sjáum við leifar af fornri frægð í útgerð þessa pláss — varirnar, sem eru hálforpnar grjóti, því að nú eru margir áratugir síðan skipi var ráðið þar til hlunns. Hér hefur fyrir eina tíð verið byggð bryggja með skjólgarði sjávarmegin. Auðsjáanlega allgjörvulegt mannvirki á sínum tíma.

Staðarhverfi

Bryggjan á mörkum Staðahverfis og Húsatófta.

En ekki þætti þetta beysið bólverk nú fyrir hinn glæsilega fiskiflota Grindvíkinga. Upp að þessari bryggju leggst heldur aldrei nein fleyta, því að héðan er aldrei róið á sjó. Fyrir ofan kampinn hvolfa bátarnir, sem eitt sinn sigldu stoltir á miðin í Grindavíkursjó og færðu hina miklu lífsbjörg í bú fólksins í Staðarhverfi. Undir aflabrögðunum var öll afkoma þess komin. Hér hvolfa þessi gömlu skip og bíða þess eins að fúna niður og forganga.
Svo var úttekt lokið eins og lög gera ráð fyrir.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Og nú eru fardagar löngu liðnir. Vor þessa árs að baki og sumarið, þetta blessaða bjarta sumar, næstum líka á enda runnið. Haustgrá ský hafa hellt þungum regnskúrum síðsumarsins yfir úfin hraunin kringum Grindavík, og punturinn í túninu á Stað hefur tekið á sig fölan lit sinunnar. Það var enginn bóndi á Stað í vor.
Jörðin var leigð ungum Grindvíkingi, sem stundar fjárbúskap með fiskvinnunni og íbúðarhúsið tóku Reykvíkingar á leigu — skrifstofumenn, sem ætla að fara þangað til að fá sér ferskt loft í lungun þegar kontórvinnunni er lokið. Og eins og myndin ber með sér, er þetta myndarlegt hús, með fannhvíta veggi og fagurrautt, nýmálað þak, því að félagarnir í Lions-klúbbnum í Grindavík tóku sig til og máluðu það eitt kvöld í sumar eftir vinnutíma. Það var drengilega gert í virðingarskyni við hinn helga reit og af ræktarsemi við Staðinn, sem var prestssetur Grindavíkur um aldaraðir. – G. Br.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 17.10.1965, Úttekt á Stað, séra Gísli Brynjólfsson, bls. 8-9 og 14.

Staður

Staður – nýja klukknaportið. Síðasta íbúðarhúsið „með hvannvíta veggi“ – byggt um 1930.

Ingjaldur

Í Lesbók Morgunblaðsins 1927 fjallar Árni Óla um Nilson skipstjóra á Anlaby – „Úr sögu landhelgisvarnanna„:

Hannes Hafstein

Hannes Hafstein.

„Það var rjett fyrir aldamótin, að yfirgangur erlenrka botnvörpuskipa byrjaði hjer við land fyrir alvöru. Landhelgisgæsluna hafði þá danska skipið „Heimdallur“ og gekk hann vel fram þann tíma ársins, sem hann var hjer við land. En á haustin og fyrri hluta vetrar var landið varnarlaust, að kalla mátti, fyrir ásælni og yfirgangi útlendinga. Óðu þeir þá uppi hjer eins og stigamenn og voru ósvífnari en dæmi eru til nú á dögum.
Árið 1899 var Hannes Hafstein sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Þá var það um haustið, dagana 4.- 9. október, að enskt botnvörpuskip var stöðugt að veiðum inni á Dýrafirði og var oft að toga alveg uppi í landsteinum. Dýrfirðingum þótti þetta illur vágestur. Tóku þeir því saman ráð sín og gerðu sendimann, Guðjón Friðriksson að nafni, á fund sýslumanns til þess að kæra skip þetta.
Kom Guðjón til Ísafjarðar hinn 9. október og bar mál þetta upp fyrir sýslumanni. Brá hann þegar við og fór um nóttina með sendimanni yfir til Dýrafjarðar, og komu þeir þar að morgni. Var þá skipið að veiðum fram undan Haukadal, og örskamt undan Landi.
Hannes Hafstein fjekk sjer nú bát og fór við 6. mann út að skipinu. Var veður kalt og hráslagalegt. Mennirnir, sem með honum voru hjetu: Jóhannes Guðmundsson, Bessastöðum, Guðmundur Jónsson á Bakka, Jón Þórðarson, Jón Gunnarsson og Guðjón Friðriksson, sá er áður er nefndur.
Á botnvörpuskipinu var einn Íslendingur, Valdemar Rögnvaldsson að nafni, búsettur í Keflavík. Var það mál manna, að hann hefði þekkt sýslumann áður en báturinu náði skipinu, enda þótt sýslumaður væri í yfirhöfn utan yfir einkennisbúningi sínum. Segir sagan, að hann hafi varað skipverja við því, að hætta væri á ferðum, því að þeir bjuggust til varnar með bareflum þá er báturinn nálgaðist.

Ingjaldur

Ingjaldur – landhelgisbátur.

Sýslumaður ávarpaði nú skipstjóra og vildi fá að komast upp á skipið, en hinn svaraði aðeins ónotum og skömmum. Reyndu bátverjar þá að ná í kaðal, sem hjekk útbyrðis, en tókst það ekki, og seig báturinn þannig aftur með skipinu, sem var á hægri ferð. Þegar báturinn kom aftur undir skut náðu bátverjar í vörpuvírinn og drógust svo með skipinu um stund. En er skipverjar sáu það, þutu þeir aftur í skut með ópum og óhljóðum og báru sig vígamannlega. Hannes Hafstein sýndi þá einkennisbúning sinn og krafist þess af skipstjóra, að hann ljeti sig ná uppgöngu á skipið. En skipverjar svöruðu með því, að skjóta þungri og stórri ár á bátverja, en til allrar hamingju hittu þeir engan þeirra, því að hverjum þeim, sem árin hæfði, hefði verið stórmeiðsl eða bani búinn. Síðan slökuðu skipverjar alt í einu á vörpuvírnum. Lenti þá vírinn á bátnum svo að hann stakst á stefnið og sökk.
Skipverjar skeyttu þessu engu, en fóru að draga inn vörpuna. — Máttu þeir þó sjá, að allir þeir, sem á bátnum höfðu verið, voru í bráðum lífsháska. Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í háfinn og hjeldu sjer þar. En hinir fjórir skoluðust nokkuð í burtu.

Dýrafjörður

Dýrafjörður – minnismerki um atburðinn á Dýrafirði 1899.

Voru þeir allir ósyndir nema sýslumaður, sem var syndur eins og selur og hið mesta karlmenni. Reyndi hann eftir föngum að bjarga þeim fjelögum Jóhannesi, Guðmundi og Jóni Þórðarsyni og draga þá að bátnum. Lá þá við sjálft að það mundi verða til þess að hann drukknaði þar, því að í fátinu, sem á hinum drukknandi mönnum var, drógu þeir sýslumann hvað eftir annað í kaf, og mun hann ekki hafa komist í aðra þrekraun meiri.
Skipverjar horfðu á þá fjelaga berjast við dauðann rjett utan við borðstokkinn, en það ljetu þeir ekki á sig fá. — En í landi sáu menn aðfarirnar og var skotið fram tveimur bátum til þess að reyna að bjarga þeim fjelögum. Þá er bátar þessir voru komnir miðja vega milli lands og skips, var svo að sjá, sem skipverjar iðruðust framferðis síns, því að þeir gerðu sig líklega til þess að skjóta út björgunarbáti. En þó hættu þeir við það aftur og fleygðu út kaðli og bjarghjring til hinna druknandi manna- Þá voru sokknir þeir 3, sem ekki náðu í bátinn. Þeim Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í bjarghringinn, en Hannes Hafstein náði í kaðalinn og brá honum utan um sig. Mátti ekki tæpara standa, því að um leið og hann hafði bundið sig þannig, leið yfir hann. Var hann örmagna af sjávarkulda og áreynslu og vissi ekki af sjer fyr en nokkru síðar. Höfðu skipverjar þá dregið hann og hina 2 upp á þilfar. Lágu þeir þar milli heims og heljar þangað til bátarnir komu frá landi. Með þeim fluttust þeir í land og voru bornir heim til Matthíasar Ólafssonar í Haukadal.
Þegar er skipið hafði losnað við menn þá, er björguðust, ljet það í haf og höfðu menn ekki meira af því í það sinn. Bjuggust margir við, að ekki yrði hægt að hafa hendur í hári sökudólganna, því að þeir höfðu málað yfir suma stafi í nafni og númeri skipsins. Gátu þeir sýslumaður eigi lesið annað en þetta: OYALI H 42.
Á þessum árum var hjer enginn ritsími nje talsími og bárust því fregnir seint og illa yfir landið. En hjer stóð svo á, að skip kom frá Vestfjörðum hingað til Reykjavíkur fáum dögum seinna og flutti fregnir af þessum atburði- — Hinn 26. október sigldi Tryggvi Gunnarsson bankastjóri hjeðan með „Laura“ til Kaupmannahafnar og hafði frjett um atburð þennan rjett áður en hann fór. „Laura“ kom til Kaupmannahafnar 8. nóv. og þann sama dag varð Tryggva gengið þar inn á veitingahús. Þar voru dagblöðin til sýnis og í þeim sá Tryggvi smáfrjett um það, að enskur botnvörpungur, „Royalist“ að nafni, hefði verið tekinn að ólöglegum veiðum hjá Jótlandsskaga og fluttur til Frederikshavn.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson.

Sagan um viðureign Hannesar Hafstein við botnvörpunginn á Dýrafirði, var Tryggva enn í fersku minni, þar sem hann hafði heyrt fréttina rjett áður en hann steig á skipsfjöl í Reykjavík. — Kemur honum þá undir eins til hugar: Þetta skyldi þó aldrei vera sama skipið? „OYALI“ hjet það — og mun þá eigi hafi vantað R fyrir framan og ST fyrir aftan — að málað hafi verið yfir þá stafi?
Tryggvi ljet ekki við það sitja að draga þetta tvennt saman í huga sínum. Hann símaði þegar til Ólafs Halldórssonar, sem þá var á íslensku skrifstofunni í Kaupmannahöfn, og sagði honum frá grun sínum. – Ólafur var heldur eigi sá maður, að hann hleypti þessu frá sjer, hversu ótrúleg, sem honum hefir sagan virst. — Hann sneri sjer þegar til hinna dönsku stjórnarvalda. Þá var svo komið, að Nilsson skipstjóri á „Royalist“ hafði gengið inn á sátt í Frederikshavn fyrir landhelgisbrot og var í þann veginn að fara þaðan. Stóð aðeins á því, að hann hafði eigi fengið skipsskjölin afhent. Var hann nú kyrrsettur að nýju og kom þá upp úr kafinu, að þetta var sama skipið sem valdið hafði manndrápunum á Dýrafirði 10. október þá um haustið. Voru nú þrír af skipverjunum, Nilsson skipstjóri (sænskur), Holnigrén stýrimaður og Rugaard matsveinn settir í varðhald og mál höfðað gegn þeim.
Vegir forlaganna eru órannsakanlegir. Eftir hermdarverkið á Dýrafirði lætur skipið í haf og bjóst víst enginn við því, að hægt mundi að hafa hendur í hári sökudólganna. En það er alveg eins og forsjónin hafi ætlast til þess að málið kæmist upp. Nilsson fer utan, en getur eigi stilt sig um að fara í landhelgi Danmerkur. Þar er hann tekinn. Tryggvi Gunnarsson siglir um sama leyti, en frjettir áður á skotspónum um Dýrafjarðarslysið. Af tilviljun rekst hann á frjettina um landhelgisbrotið hjá Jótlandi, og dettur það þegar í hug — sem fæstum mundi þó hafa hugkvæmst — að hjer sje sama skipið og var á Dýrafirði. Ef honum hefði eigi dottið það í hug og ef þeir Ólafur Halldórsson hefði eigi báðir brugðið eins fljótt við og þeir gerðu, mundi Nilsson hafa sloppið frá Frederikshavn. Er það undarleg atvikakeðja, sem verður þess valdandi, að sökudólgunum er náð.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Skal nú fljótt yfir sögu farið í bili. Hinn 27. mars 1900 voru þeir fjelagar þrír dæmdir í undirrjetti, Nilsson í 18 mánaða betrunarhússvinnu, 3000 kr. sekt til landsjóðs Íslands og 200 kr. sekt til ríkissjóðs Dana fyrir landhelgisbrot hjá Jótlandi um haustið. Stýrimaður var dæmdur í 3×5 daga upp á vatn og brauð, og matsveinn í 4×5 daga upp á vatn og brauð.
Svo fór málið til hæstarjettar í Danmörku. Var Nilsson þá dæmdur í tveggja ára betrunarhússvinnu; 3000 kr. skyldi hann greiða landsjóði Íslands, og ríkissjóði Dana 200 kr. Auk þess skyldi hann greiða Hannesi Hafstein 750 kr. í skaðabætur og ekkjum 2 þeirra manna, er druknuðu, annari 3600 krónur, en hinni 1100 kr. Dómur hinna var staðfestur í hæstarjetti, en Nilsson var dæmdur til þess að flytjast af landi brott eftir úttöku hegningar, vegna þess að hann var útlendingur; Svíi.
Vitum vjer nú eigi hvernig fór með hegningu Nilssons, en hitt er víst, að hann er kominn til Englands öndverðan vetur 1901 og fær þar nýtt skip til forráða. — Hjet það „Anlaby“. Sigldi hann því skipi þegar til veiða hjá Íslandsströndum.
Um miðjan jan. 1902 sáust tveir botnvörpungar undan Grindavík og voru þar að veiðum, sjálfsagt í landhelgi. Um kvöldið gerði afspyrnurok á landsunnan og dimmviðri. Æsti þá mjög sjó þar syðra, eins og vant er, þótt í hægara veðri sje. Hættu skipin þá veiðum samtímis og hjeldu til hafs.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Af afdrifum þeirra er það að segja, að eftir nokkra daga kom annað skipið til Keflavíkur og hafði þá sögu að segja, að skömmu eftir að skipin ljetu út frá Grindavík, hefði þau orðið viðskila, og hefði þeir seinast sjeð það til hins skipsins, „Anlaby“ að það stefndi frá landi og stóð einn maður í stýrishúsi. Síðan hefir það skip ekki sjest.
Daginn eftir að skipin þessi tvö ljetu í haf frá Grindavík, fór maður þaðan niður til sjávar til þess að gá að kindum. Var þá komið fram undir hádegi og komið gott veður. En er hann kom niður fyrir sjávarkambinn milli Húsatófta og Járngerðarstaða, rekst hann þar á sjórekinn mann í fjörunni. Virtist honum sem líf mundi leynast með manni þessum og að hann mundi nýkominn á land. — Var hann með belg á baki, kominn upp úr fjörumáli og lá þar hjá honum annað stígvjelið í fjörunni, og varð eigi annað sjeð, en maðurinn hefði sjálfur dregið það af sjer.

Jónsbásar

Jónsbásar – Brunnar fjær.

Maður sá, er líkið fann gerði þegar aðvart. Hreppstjórinn, Einar Jónsson á Húsatóftum skarst í leikinn. Var hinn sjórekni maður þegar fluttur til kirkju. Þangað kom maddama Helga Ketilsdóttir, systir Ólafs bónda á Kalmanstjörn, og gerði á honum tvær lífgunartilraunir. — En þær reyndust báðar árangurslausar og veitti þá maddama Helga líkinu nábjargirnar.
Þegar eftir að fyrsta líkið fannst var gangskör ger að því að leita í fjörunum og komast eftir því hvar skipið mundi vera og hvort enginn hefði komist af því lífs á land. Sú leit reyndist svo, að af skipinu fannst rekið borðstokkur, stefni og „hekk“. Nokkuru síðar fannst eitthvað rekið af kolum, en aldrei fannst neitt af innanstokksmunum skipsins nje áhöldum.
En úti í lóni, sem er rjett fram af svonefndum Brunnum fundust lík 10 manna. Voru þau slædd þar upp. Sex líkin voru allsnakin að öðru leyti en því, að eitt þeirra var með mittisól.
Talið er, að skipið muni hafa farist aðfaranótt 14. jan. sjá það, að þessir menn höfðu druknað í svefni, eða skipið farist meðan þeir lágu í hvílum sínum. En lík skipstjórans fannst ekki og hefir ekki fundist. Þá gekk sú saga, að lík hans hefði rekið og verið höfuðlaust- Var það af ýmsum tekið sem tákn þess, að forsjónin hefði viljað refsa honum fyrir framferðið á Dýrafirði. Menn eru gjarnir á að trúa slíku og því fjekk þessi saga svo byr undir vængi að hún barst um land alt. En það vitum vjer sannast um þetta að segja, að ástæðan til þess, að þessi saga kom upp, mun vera sú, að ellefta líkið sem náðist, var mjög skaddað á höfði, svo mjög, að vart mundi þekkjanlegt þeim, er manninn þekktu í lifanda lífi. En eigi var það skipstjóri.

Staður

Staður fyrrum.

Að undirlagi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu rannsakaði hreppstjóri nákvæmlega, hvort eigi væri nein merki á líkunum, ef vinir eða vandamenn gæti merkt af hver maðurirm væri.
Sýslumaður mun einnig hafa lagt svo fyrir, að sæist engin merki (tatoveringar) á einhverju líki, þá skyldi aðgæta hvort eigi mætti ráða það af öðru hver maðurinn væri, t.d. hvort ekkert væri í vasa líksins er benti á það, eða þó ekki væri annað en hringur á hönd með stöfum.
Nú vildi svo til, að af þessum ellefu líkum voru 10 með merki á handlegg eða hönd, en ellefta líkið ekki. En á hönd þess var einbugur. Vegna þess að höndin var sollin, varð honum ekki náð ,af, nema því aðeins að hann væri sagaður sundur. Var til þess fenginn maður frá Stað, Sigurður Hjeronýmusson að nafni. Fundust þá innan í hringnum stafir. Skrifaði hreppstjóri þá hjá sjer, en ætlaði jafnframt að senda hringinn til skipafjelagsins er skipið átti, svo að hann kæmist til ástvina mannsins.
Nú voru smíðaðar kistur að öllum þessum líkum og þau kistulögð. Þá var það annaðhvort nóttina á eftir, eða næstu nótt, að mann, sem býr í Bergskoti, og Bjarni Ólafsson hjet, dreymir það, að maður kemur á gluggann hjá honum. Bjarni þekkir eigi þennan mann og hefir aldrei sjeð hann fyr. Þessi maður talar til Bjarna og biður hann að sjá svo um, að hann fái aftur það, sem tekið hafi verið af sjer.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Um morguninn segir Bjarni þennan draum sinn, og þótti hann undarlegur. Var þá gestkomandi hjá honum Sigurður Hjeronýmusson, sá, er fyrr getur. Þegar hann heyrði drauminn, brá honum í brún og hugsaði með sjer eitthvað á þessa leið: „Það skyldi þó aldrei hafa verið maðurinn, sem jeg sagaði hringinn af, og nú hefir vitjað Bjarna í draumi, og er að kalla eftir hringnum?“ Þetta var þó þeim mun ólíklegra sem Bjarni hafði eigi hugmynd um hringinn. Samt sem áður fer Sigurður heim til hreppstjórans; en hvað þeim fór á milli, eða hvort sýslumanns naut líka að, vitum vjer ekki. En hitt er víst, að afráðið var það, að senda hringinn eigi af landi brott, heldur skyldi hann leggjast í kistuna hjá því líki, sem hann var af tekinn. En nú stóðu þar 11 kistur, og allar eins. Var því vandi að finna manninn, sem hringinn átti. Þá voru fengnir til þess trúverðugir menn að brjóta upp kisturnar og skila hringnum. Ekki hittu þeir á rjettu kistuna fyrst, sem ekki var von, en í þriðju kistunni lá sá rjetti. Var nú hringurinn lagður í kistuna hjá honum, kistunum öllum lokað, og síðan hefir eigi orðið vart við þennan mann.
Mennirnir þessir eru grafnir í Grindavík, allir í sömu gröf. Sú gröf sjest enn þá í Grindavík — framandi og nafnlausra sjómannagröf — en enn veit hvert mannsbarn þar syðra hvar hennar er að leita.

Staðarhverfi

Horft yfir kirkjugarðinn í Staðarhverfi.

Nú er stutt eftir af þessari sögu, en þó verður að bæta nokkru við. Það var nokkuru eftir jarðarförina, að stúlku á Stað, Margrjeti Salomonsdóttur að nafni, dreymir það, að hún er þar í rúmi sínu inni í baðstofu. Þykir henni þá maður koma upp í stigagættina. Hann ávarpar hana og segist vera kominn til þess að þakka fyrir sig og fjelaga sína. „En eitt þykir mjer verst,“ bætir hann við, „að eigi skyldi jafn mikið haft við okkur alla.“
Jeg sel það ekki dýrara en jeg keypti, að stúlkunni fannst þetta vera sá maður frá „Anlaby“, er fyrstur fannst. Var nú margt rætt um drauni þennan og fanst mönnum ólíklegt, að hann ætti við nein rök að styðjast, ef svo væri að hún ætti að eiga við sjóreknu mennina af „Anlaby“, því að enginn vissi betur en að líkum þeirra allra hefði verið gert jafn hátt undir höfði og sami sómi sýndur. En þó varð það síðar nokkuð, er menn hugsuðu sig betur um, að annað varð uppi á teningnum.
Jafnóðum sem líkin fundust, voru þau borin í kirkju. Báru ýmist 4 eða 6 menn hvert lík og um leið og þau voru borin inn úr kirkjudyrum, var klukkum hringt og sunginn sálmurinn: „Jurtagarður er herrans hjer.“ En af einhverri vangá, er eigi varð kunnugt um fyr en síðar, höfðu burðarmenn eins líksins borið það svo í kirkju að yfir því var hvorki klukkum hringt nje sálmur sunginn.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1927, Nilson Skipstjóri – Úr sögu landhelgisvarnanna, Árni Óla, bls. 17-20.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Staður

Í Morgunblaðinu 1970 er grein; “ Í Staðarkirkjugarði“ eftir séra Gísla Brynjólfsson. Þar fjallar hann um klukkuna í Staðarkirkjugarði og aðdraganda að komu hennar við strendur Grindavíkur:

Klukkan í Staðarkirkjugarði –
Þetta er klukka dauðans.“

Jónsbásar

Jónsbás.

„Það er hún, þessi gamla, kopargræna skipsklukka í litla turninum í kirkjugarðinum á Stað, sem hringir líkhringinguna út yfir leiðin í þessum grafreit Suðurnesja. Ómar hennar eru síðasta kveðja lífsins til látinna.
Hún á sína sögu, þessi klukka.
-Sú saga minnir líka á dauðann, ekki síðnur en núverandi notkun hennar. Það er dapurleg saga um mannlega villu og synd og sviplegan dauða. — Þegar maður les hina stuttorðu áletrun: S.S. ANLABY – 1896 – Hull, þá mun sumum ef til vill koma í hug þessi orð postuans í Rómverjabréfinu: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn„.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Anlaby var brezkur togari, sem strandaði dimma óveðursnótt vestan við Jónsbásskletta á Húsatóftafjöru í Grindavík 14. janúar 1902. Áhöfnin var 11 manns og fórust þeir allir. Skipstjórinn var enginn annar en hinn alræmdi landhelgisbrjótur Carl Nilsson, eða Sænski Carl, eins og sumir kölluðu hann.
Hann var skipstjóri á togaranum Royalist nr. 423 frá Hull, sem sökkti bátnum undir Hannesi Hafstein á Dýrafirði 10. október 1899 og varð þrem mönnum að bana. Fyrir það ódæði var hann síðar dæmdur í fangelsi í Danmörku. Er hann hafði lokið refsivist sinni hélt hann á Anlaby á Íslandsmið, sagður alráðinn í því að hefna ófara sinna á Íslendingum og velgja þeim undir uggum. „En hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna undir Jónsbássklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, „eins og Guðsteinn Einarsson kemst að orði í ritgerð sinni í bókinni: Frá Suðurnesjum.

Jónsbásar

Jónsbássklettar.

Daginn áður en Anlaby strandaði, var veður gott, næstum logn en dimmt í lofti. Þennan dag var Sæmundur á Járngerðarstöðum, þá 13 ára, gendur út með sjó að huga að kindum. Sá hann þá marga togara að veiðum skammt frá landi. Það var sorgleg sjón, en því miður alltof algeng á þeim árum, því lítt fengu landsmenn reist rönd við yfirgangi útlendra veiðiþjófa.
Um nóttina gerði versta veður. Næsta dag var Björn, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda á þessum sömu slóðum. Þegar hann kom út í Hvalvík, sem er skammt austan Jónsbásskletta, fann hann þar mannslík nokkru ofan við flæðarmál. Maðurinn hafði bundið sig við belg og var auðséð, að hann hafði komizt lifandi í land þótt ótrúlegt væri í slíku hafróti. Hann hafði farið úr öðru stígvélinu og lá það við hlið hans. Alls rak 10 lík af Anlaby.

Staður

Staður.

Hreppstjóri Grindvíkinga, Einar Jónsson á Húsatóftum, sendi þegar hraðboða til Hafnarfjarðar á fund Pál sýslumanns Einarssonar með tilkynningu um strandið. Skrifaði sýslumaður hreppstjóra með sendimanni til baka, bað hann bjarga því, sem ræki úr skipinu og láta leita fjörur að líkum hinna drukknuðu, og ef þau fyndust, þá að láta jarða þau að kristnum sið.
Jafnframt ráðfærði sýslumaður sig, pr. telefon, við enska consulatið í Reykjavík og hafði samráð við það um allar framkvæmdir í sambandi við strandið. Þann 20. lagði sýslumaður af stað til Grindavíkur, en sakir illviðra og annarra tálmana náði hann ekki þangað fyrr en á 3ja degi. Voru þá fundin 4 lík og næsta dag fundust önnur fjögur, segir sýslumaður í skýrslu sinni.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

Það sem rekið hafði úr skipinu var aðallega timbur, allt brotið í spón. Skipið hafð brotnað í þrennt, framstafninn og skutinn hafði rekið á land, en sjálfur skrokkurinn var spölkörn frá landi, alltaf í kafi. Og enn í dag má um stórstraumsfjöru, sjá vélina úr Anlaby standa þangi vaxna langt frammi á Húsatóftafjöru.
Allt strandið, einnig skrokkurinn, var selt á uppboði 23. janúar. Síðar, eða 17. febrúar var svo haldið annað uppboð á ýmsu rekaldi sem þá hafði borizt á land, ennfremur talsverðu af fatnaði skipverja, sem hirtur hafði verið og rækilega sótthreinsaðir af „fagmanni“ undir umsjón hreppstjóra.

Alls nam andvirði seldra muna á þessum uppboðum 728 krónum og 35 aurum. Hins vegar voru gjöldin heldur meiri, eða 743 krónur og 18 aurar svo það vantaði nœstum 15 krónur á að skipveriar á Anlaby ættu fyrir útför sinni.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Frá líkfundunum og útför skipverja greinir prestsþjónustubók Staðarsóknar á þessa leið:
Í janúr 1902 fundust níu lík af sjó rekin af botnvörpuskipinu Anlaby, sem brotnaði í spón á Húsatóftafjörum 14. janúar. Voru 4 líkin greftruð 24. janúar og fimm líkin greftruð 27. janúar. Í febrúar rak upp 10. líkið og var það greftrað 6. febrúar.“
Þá vantaði það ellefta. Hver var hann? Um það segir Guðsteinn frá Húsatóftium í fyrrnefndri ritgerð:
„Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og sendar höfðu verið lýsingar af líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði væri skipstjórinn sjálfur, Carl Nilsson.“
En þótt þessi lítt þokkaði brezk-sænski skipstjóri næði ekki að fá leg í íslenzkri mold, Sét hann sig hér ekki án vitnisburðar. Á þessum tíma var vinnukona á Stað í Grindavík, sem átti von á barni. Hennar vitjaði Sænski-Carl í draumi oftar en einu sinni. Hún mun haía skilið heimsóknir hans á þá leið að hann væri að biðja hana að koma upp nafni sínu ef hún mundi son ala.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Og svo varð. Vinnukonan á Stað fæddi dreng 31. júlí um sumarið. Þann 5. ágúst var hann vatni ausinn og hlaut nafnið Karl Nilson.
Þannig má segja að skipstjórinn á Anlaby hafi á vissan hátt „náð landi“ í Grindavík þótt hann hlyti hina votu gröf í hafrátinu við Jónsbásskletta, lítt harmaður af því fólki, sem jafnan mun líta á hann sem holdi klæddan ofstopa og yfirgang gegn varnarlausri þjóð, sem var að leita réttar síns á eigin fiski miðum og verja lífsbjörg sína. – G. Br.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

Í Þjóðviljanum 1902 segir: „Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar“:
„Enskt botnvörpuskip, Anlaby að nafni, strandaði í Grindavík fyrir skömmu, og brotnaði i spón.
Skipstjóri á „Anlaby“ var Nilsson sænski, er olli manndauðanum í Dýrafirði haustið 1899.

Staður

Staður 1925.

Hann var ný sloppinn úr betrunarhúsinu, eptir að hafa tekið þar út hegninguna, og réðst þegar, sem skipstjóri á „Anlaby“ og lagði af stað frá Hull í fyrstu veiðiferð sina, á jóladagsmorguninn.
Enginn vafi getur á því leikið, að skipshöfnin á „Anlaby“ hefir öll drukknað, enda voru tvö lík rekin í Grindavíkinni, er síðast fréttist.
Svo er að sjá, sem þeir félagar hafi verið að ólöglegum botnvörpuveiðum, því að botnvarpan var í sjó, en þá orðið of nærri landi, sakir þoku eða myrkurs, og skipið steytt á steini, og liðazt þar sundur, en skipverjar eigi fengið borgið sér til lands, sakir brims. Brottför Nilsson’s úr heimi þessum hefur því orðið all-kynleg og svaðaleg, — að drukkna þannig, er hann leitaði landsins aptur, fyrsta skipti, og var tekinn til fyrri iðju sinnar, ólöglegra landhelgisveiða.“

Fréttin var endurskrifuð í Heimskringlu sama ár.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 131. tbl. 14.06.1970, Í Staðarkirkjugarði, séra Gísli brynjólfsson, bls. 6.
-Þjóðviljinn, Þjóðviljinn ungi, 4.-5. tbl. 28.01.1902, Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar, bls. 29.
-Heimskringla, 22. tbl. 13.03.1902, Sænski Nilson drukknar, bls. 1.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.