Meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu 22. des. 1963 undir fyrirsögninni „Í stríði á Fagradalsfjalli„:
„Þarna í víkinni við kambinn er hrönn af vikri,“ sagði Magnús. „Allt kemur þetta úr Surtsey. Það eru meiri ósköpin sem hún gýs frá sér. Það er eins og það sé dálítið móberg i vikrinum.“„
En hvað er þetta?“ spurði ég og benti á stóra, rauða belgi, sem lágu í fjörunni.
„Þetta eru rússablöðrur,“ svaraði hann. „Þeir nota þær á reknetin.“
„Ætlarðu ekki að hirða þær?“
„Nei, það fæst ekkert fyrir þær.“
„Eigum við þá ekki að stinga á þeim og hleypa loftinu út?“
„Nei, það fer allt vestur í þessari átt. Það er nóg samt.“
Við stóðum í fjörunni fyrir neðan túnið og töluðum við Magnús Hafliðason á Hrauni, þann garp. Ég hafði komið hingað áður fyrir tveimur árum og átt samtal við Magnús sjötugan, en ætlaði nú að ganga með honum á Fagradalsfjall og skjóta rjúpur í jólamatinn; ætlaði þó að vísu ekki að skjóta sjálfur því eg er í Rjúpnafélagi Jónasar Hallgrímssonar, en langaði að sjá hvernig þessi nafntogaða skytta gengi til verks.
Og svo voru fjöllin eins og segull í desemberskuggunum; veðrið eins og á vordegi, hlýr andvari af austri, þurrt en skýjað. Þar sem við stóðum í fjörunni og horfðum út á hafið fundum við glöggt, að við þurftum ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því að hann mundi skella saman á fjallinu, öldurnar teygðu sig upp í vikurinn, engin þeirra hvít í föll, þetta var hroði. Ég rifjaði upp fyrir mér það sem Magnús hafði sagt mér um franska togarann sem hér straedaði 1931 ag spurði hann nú, hvar togarinn hefði lent. Það vatnaði yfir Skarfatanga beint út af Víkurkambinum:
„Þarna var það,“ sagði hann og benti.
„Í túnfætinum?“ spurði ég undrandi.
„Já. Það var engu líkara en þeir ætluðu að leggja honum hér í hlaðinu,“ sagði Magnús og brosti í skeggið. Svo benti hann austur fjöruna, þar sem reis allmikið fjall og gekk í sjó fram. „Þetta er Festi,“ sagði hann. „Bjarni Sæmundsson sagði að hún væri eitt sérkennilegasta fjall á landinu. Hún er laus í sér og kolbrunnin, það hrynur stanzlaust úr henni“ — benti síðan í fjöruna nær túninu: „Og þarna strandaði brezki togarinn Lois í ársbyrjun 1945, ef ég man rétt. Ég hef aldrei sagt þér frá því. í hitteð fyrra töluðum við bara um fransmanninn. Þegar hann strandaði var bræluvindur af landsunnan, en þegar Englendingurinn sigldi upp var logn þó brimið væri óskaplegt, eitt hið mesta sem ég man eftir. Hann sleit úr sér snjó, en samt virtist engin sérstök ástæða til að sigla upp í fjöru. En brimið var aftök. Það var frekar smástreymt, en sjórinn samt tekinn að falla uþp á tún með hálfföllnum sjó að, svo mikið var brimið. Kvöldið áður var ég einn heima, því dæturnar voru á barnaballi. Ég háttaði snemma og las í bók, en húsið skalf svo og nötraði að ég gat ekki lesið í köflum. Ég óttaðist um telpurnar, en þær komu heim um nóttina og einhvern veginn gátum við sofnað, þrátt fyrir veðrið. En svo blálygndi hann um hádegi næsta dag. Um níuleytið þá um kvöldið strandaði togarinn. Skömmu áður sagði ég við telpurnar: „Þið skuluð fara að hátta, þið vöktuð svo lengi fram eftir í nótt.“ Stuttu síðar kemur Ingi björg dóttir mín upp með óvanalega miklu fasi má segja, því hún er heldur róleg, og segir: „Það er eitthvert ljós að sjá í Festi, og eins og verið sé að vagga því til.“ Mér datt strax í hug að skip væri komið upp í fjöruna, gekk út og horfði austur með landi. Þá sá ég ljós og ekki um að villast að það var á skipi. Ég flýtti mér upp eftir að athuga hvað hafði gerzt og þegar ég kom á strandstaðinn heyrði ég köllin í körlunum.
Og þú hefðir átt að heyra skröltið í togaranum, þegar hann veltist á klöppinni. Áður en ég fór á strandstaðinn hafði ég gert björgunarmönnum í Grindavík aðvart, og komu þeir von bráðar. En þó logn væri, var brimið svo mikið að mér datt sem snöggvast í hug að enginn maður mundi komast heilu og höldnu gegnum rótið. Svo mikið var brimið að mannskapurinn varð að halda í tóið, því ekki var viðlit að binda það. En samt var öllum bjargað nema skipstjóranum, og voru þeir komnir heim í hús um miðnætti. Ég tel að skipstjórinn hefði átt að komast af eins og hinir, en það var eins og hann kærði sig ekki um það.
Sjórinn var mörg ár að vinna á togaranum. Við höfðum svolítið upp úr þessu strandi, gátum sótt okkur kol fram eftir vetri og kynt. Flestum finnst hlýjan góð, sama hvaðan hún kemur, en þó verð ég að segja að ég hef alltaf kunnað bezt við mig að vera dálítið þvalur.“
En ferðin að Hrauni var ekki farin í þeim tilgangi að standa í fjörunni og láta tímann ganga sér úr greipum. Við kvöddum nú frú Önnu, konu Magnúsar, sem alltaf er opinn faðmur hlýju og gestrisni þegar maður kemur í heimsókn, og lögðum af stað að Borgarhrauni. Magnús sagði okkur á leiðinni nokkur örnefni og væri tómt mál að rifja þau hér upp: Húsafell, Fiskidalsfjall, Tryppalágar, Þorbjörn — nei, ég hefði annars átt að nefna hann fyrstan, því hann heyrir frekar til leiðinni frá Keflavíkurvegi að Grindavík en þeirri sem við nú fórum. Þorbjörn er sterkt nafn, en óvanalegt á fjalli. Mér finnst fjall með því nafni hljóti að vera traust og innhverft.
Og áfram var haldið. Við skildum bílinn eftir við þjóðveginn, gengum yfir Borgarhraunið í átt til Fagradalsfjalls og fórum heldur hægt, því Magnús sagðist vera orðinn þessi veraldarinnar ræfill. Samt þótti okkur hann ganga nógu hratt, með byssu um öxl og prik í hendi, og áttum við fullt í fangi með að halda í við hann. Leiðin yfir hraunið er sæmilega greiðfær — og þó. Magnús stanzar, litast um og segir: „Þetta er nú heldur tuðrótt leið, hér hafa goðin einhvern tima reiðzt.“ Pikkaði svo með prikinu í grænan mosann og leitaði að sprungu.
„Þær liggja allar frá útsuðri í landnorður,“ sagði hann, „það eru meiri katlarnir, sem hér eru á hverju strái. Allt hefur þetta land logað á sinni tíð. Sagnir eru meira að segja til urri eldsumbrot á þessum slóðum eftir landnámsóld. Þegar snjór liggur yfir hrauninu, er víðast hvar autt yfir holunum af trekki og hlýju sem kemur neðan frá. Undir Reykjanesinu er ekkert nema holrúm og eldur, og þar hafa kyndararnir líklega nóg að gera. Þið ættuð að sjá eldgígina við Tófubrunna og Latshóla, ef þar er ekki eitthvað óhreint undir veit ég ekki hvar það ætti að vera. Og ég hef oft séð hvernig húðar yfir holurnar hér í hrauninu af þunnum vatnsklaka. Fyrir norðan Þorbjörn rýkur úr jörð, þar eru hverir. Hér rýkur þó ekki. Bezt gæti ég trúað því, að Surtur kæmi ekki að sunnan, heldur héðan að ofan.
Hann hefur bara haft sig upp þarna suður frá í þetta sinn.“ Hann leit norður um og benti með prikinu á Fagradalsfjall: „Hér var þoka í gær,“ sagði hann, „og sá ekki í loft. En nú er veðrið eins og bezt verður á kosið. Þetta má kalla heppni. Það fer fínasti farðinn af svona ferðalagi þegar veðrið er vont.“
Síðan héldum við áfram og gengum fram hjá álitlegum grasflötum, sem Magnús nefndi Tryppalágar.
„Hvað hefurðu skotið flestar rjúpur á dag?“ spurði ég.
„Sextíu,“ svaraði hann.
„En á hausti?“
„O, ég hef komizt upp í fjögur hundruð. Það er svolítið starf að bera sextíu rjúpur þessa leið,“ bætti hann við og benti á nyrztu brún Fagradalsfjalls: „Þarna er aftökustaður rjúpunnar,“ sagði hann.
„Þú étur auðvitað oft rjúpur ?“ spurði ég.
„Nei, mér þykir hún ekki góð. Það er of mikið grasbragð af henni. Svið eru betri. En beztir eru mávsungar. Þeir eru lostæti. En nú vantar líklega snjóinn. Hérna skeljaði um daginn, þegar fönn lá yfir hrauninu. Þá fórum við fimm saman og fengum tuttugu rjúpur, ég rakst af tilviljun á smáhóp og náði þeim öllum, þær voru tíu. Kristinn Stefánsson var óheppinn, hann fékk aðeins eina, þó er hann góð skytta. En Snorri læknir gat ekki komið, hann þurfti að fara utan á kongress. Mér líkar vel við þá báða, þeir eru prúðir og kurteisir eins og allir menntamenn eru nú á dögum, það er eitthvað annað en kaup mennirnir í gamla daga. Já, og svo þykir mér hangikjöt ágætt og miklu betra en rjúpur. En eigum við ekki að slá í, okkur miðar ekkert áfram með þessu móti. Áðúr var hún í stórum breiðum eins og fugl í bjargi. Þá kom hún á kvöldin niður í hraun, ef norðanátt var, en nú er eins og hún staldri ekkert við.“
Hann tók nú á rás og engu líkara en hann hlypi, ég heyrði að hann muldraði í barm sér: „Þetta er meiri gangurinn, hálftuðrótt fyrir lassa eins og mig.“
Við litum til baka. Bíllinn var horfinn úr augsýn og fram undan blasti við fjallið og hækkaði eftir því sem nær dró. Magnús hafði þungar áhyggjur af landsmálum og talaði um pólitík meðan við gengum síðasta spölihn að fjallinu. Hann sagðist strax hafa gert sér grein fyrir því að uppbótakerfið mundi steypa landinu. „En maður skilur þetta víst ekki,“ sagði hann mæðulega, „það er ljóti atvinnuvegurinn þessi stjórnmál. Þeir standa upp, kreppa hnefana, rífast, bera þungar sakir hver á annan, setjast aftur, ganga út í horn, takast í hendur, klappast á, og þá syngur hún annað bjallan hjá þeim. Og svo borgar landið brúsann.“
Nú vorum við komnir í Selskál, sem er kriki við fjallsræturnar. Þaðan er gengið upp Görnina, sem svo er kölluð. Hún sker fjallið eins og renna, og þegar upp er komið liggur hún eftir því endilöngu, slétt og greiðfær með grösum og lyngi, en vestur úr henni rís Kast, allhátt fjall og bratt í rætur.
„Það var þægilegra að komast á Skálafell,“ sagði ég á leiðinni upp Görnina.
„Jæja-já,“ sagði Magnús.
„Ég fór í jeppa.“
„Það eru ófá jeppaförin í landinu,“ svaraði hann. „Þú hefur auðvitað verið að leita að veiðibjöllueggjum?“ bætti hann við.
„Nei, ég var að horfa yfir landið.“
„Það er mörg matarholan í landinu,“ sagði hann. „En fyrst þú ert að hugsa um landið, þá er bjart í dag, og við verðum komnir upp áður en mistrið læðist yfir hraunið.“ Ég var hættur að spyrja um rjúpuna, hún skipti ekki lengur máli. „Þessi fjöll eru banaþúfa margra vaskra drengja,“ sagði hann þegar upp var komið.
„Nú hvers vegna?“ spurði ég.
Í vesturslakka Kastsins fórst flugvél Andrews, yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu. Ég kom ekki að flakinu fyrr en nokkru síðar. Í norðausturhorni Fagradalsfjalls, þar sem heitir Langhóll, fórst enskur flugbátur í stríðinu. Þangað hef ég síðar komið og skotið rjúpur í flakinu. Ekki hef ég orðið var við annað kvikt á þessum slysastöðum. Og hérna suðuraf heitir Langihryggur og gengur út úr Borgarfjalli, þar fórst enn ein flugvélin í stríðinu. Ég var með þeim fyrstu sem komu á staðinn. Það var ljót aðkoma. Það var eins og fjöllin hefðu gengið í lið með Þjóðverjunum og líkast því að þau hafi gert gyllingar til að ná sem flestum flugvélum bandamanna. En nú er farið að fyrnast yfir þessa atburði. Og sem betur fer ætti fáum að standa ógn af hálendinu, eins og tæknin er orðin, ja nema auðvitað blessaðri rjúpunni. Hún nýtur ekki góðs af tækninni, nema síður sé.“
Við báðum Magnús að segja okkur frá aðkomunni á Langahrygg. Hann sagði:
„Við Ísólfur í Ísólfsskála höfðum séð flakið tilsýndar, þar sem það lá norðaustan í hryggnum. Englendingar báðu okkur að koma með sér og við fórum í skriðdreka yfir hraunið, það var heldur svona tuðrótt. Þegar við komum að flakinu lágu tólf flugmenn, Bretar og Bandaríkjamenn, dauðir til og frá í brekkunni, brunnir eða limlestir.
Brezku hermennirnir höfðu ekki leyfi til að ganga að flakinu og biðu átekta eftir foringja sínum. En fyrst ég var kominn á staðinn vildi ég skoða brakið og vegsummerki. Ég sagði við sjálfan mig: Ef þeir reka mig burt, þá er ég farinn og læt þá um þetta. En þeir hreyfðu hvorki legg né lið til að koma í veg fyrir að ég gengi inn í brakið og virti fyrir mér þessa hörmulegu sjón. En það er bezt ég fari ekki út í að lýsa þessu nánar fyrir þér. Þú getur hvort eð er ekki birt það á prenti. Það er yfirþyrmandi. Alúminíum hafði runnið um brekkuna eins og lýsi og var nú storknað að sjá, fallhlífar lágu á víð og dreif, skór, fótur.
Líkin voru vafin inn í fallhlífarnar og flutt til byggða. Það voru þung spor. Nú er flakið horfið, fjallið byrjað að gróa upp og tíminn hefur grætt sárin. Og nú glottir aftur til.“
Þegar við gengum norður Görnina gerði hann svolitla kælu af austri. Engin rjúpa sjáanleg, enda höfðum við meiri áhuga á fjallinu, þar sem Andrews fórst með fylgdarliði sínu, og punktur var settur fyrir aftan einn kapítula styrjaldarsögunnar. Ekki vildi Magnús ganga á slysstaðinn. „Það er óartarkrókur,“ sagði hann. Við stóðum nokkra stund og blíndum á fjallið, horfðum svo niður á hraunbreiðuna fyrir neðan okkur og undruðumst hvað flugvél hershöfðingjans hefur flogið lágt, þegar slysið varð. Engir þeirra höfðu komið áður til Íslands, þeir voru ókunnugir feigð þess og fjöllum. Í sumar voru liðin 20 ár frá því slysið varð. Ég rifjaði það upp með sjálfum mér. Ég hafði alltaf haldið að flugvél Andrews hefði lent á Keili.
Þess vegna hef ég oft litið hann hornauga, en nú varð mér ljóst að ég hafði haft hann fyrir rangri sök. Þannig leiðir tíminn staðreyndirnar í ljós, og nú finnst mér Keilir fallegri og tignarlegri en nokkru sinni fyrr. Ég mundi eftir jarðarför hershöfðingjans og manna hans, við drengirnir stóðum niður við Austurvöll, ef ég man rétt, og horfðum á líkkisturnar fjórtán, þar sem þær voru bornar út úr Dómkirkjunni, hlustuðum á sorgarlögin, virtum fyrir okkur heiðursvörðinn. Þannig eltum við stríðið, það er partur af lífi okkar, óljós minning, skuggi þeirrar sólar sem nefnd er æska.
Slysið varð mánudaginn 3. maí 1943, en vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá því í íslenzkum blöðum fyrr en þremur dögum síðar. Þá hafði Morgunblaðið fengið fréttina frá Washington. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjamanna um allan heim. Skömmu áður hafði Spellmann, þáverandi biskup en nú verandi kardináli, farið svipaða för á vegum kaþólsku kirkjunnar.
Augljóst er af fyrirsögn fréttarinnar í Morgunblaðinu, að hún hefur verið öllum kunn, þegar hún loks var birt. Þar stendur: „Fjórtán (svo) manns voru í flugvjel Andrews hershöfðingja.“ Hvorki í þessari fyrstu frétt af slysinu né nánari frásögn daginn eftir er sagt frá því, hvar flugvél hershöfðingjans hafi farizt og margt annað þykir manni nú vanta í frásögnina. Sá sem komst af hét George Eisel frá Colombia. Hann var afturskytta í Liberator-flugvél hershöfðingjans og sat fastur í stélinu í 26 klukkustundir. Hann hafði oft áður komizt í hann krappan, hafði t. d. bjargazt þegar flugvél hans var skotin niður yfir Túnis og þrír félagar hans farizt. Flugvélar hans höfðu gert loftárásir á borgir í Norður-Afríku, Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu. í stuttu samtali sem Ívar Guðmundsson átti við hann segir hann m. a. um slysið:
„Við flugum meðfram ströndinni og yfir marga tanga, en svo kom að því að einn þeirra skagaði of langt upp í loftið og við rákumst á.“ Hann telur að allir mennirnir hafi dáið um leið og vélin rakst á fjallið. Hann heyrði ekki til ‘Uokkurs manns og þó missti hann aldrei meðvitund þann tíma sem hann var í flakinu.
Hann segir að skyggni hafi ekki verið nema um 12 metrar. Hann segir að eldur hafi komið upp í flugvélinni og hafi honum ekki dottið annað að í hug en hann mundi brenna inni, „en þá kom hellirigning og kæfði eldinn í flugvélarflakinu.“ Einhvern tíma hefði nú sú rigning verið talin til jartegna. Það tók leitarmennina klukkustund að ná Eisel úr stélinu, þar beið hann þyrstur og svangur. Magnús sagði okkur frá því að hann hefði heyrt, að Eisel hefði farizt nokkru síðar í flug slysi. Við gutum augum í síðasta sinn til slysabrekkunnar í Kasti, þá bætti Magnús við: „Það eru meiri vinnubrögðin þessi stríð.“
Við gengum nú upp úr Görninni, fylgdum bröttum skorningum og fikruðum okkur upp á nyrzta og hæsta hluta Fagradalsfjalls. „Ef hún er ekki við skaflana hér,“ sagði Magnús, „þá er hún hvergi.“
„Er ekki vissara að hvísla?“ spurði ég.
Hann hló. „Nei,“ sagði hann og gekk enn hraðar upp hlíðina. Ég var einnig farinn að skimast um eftir rjúpu. Og mér fannst ég sjá hana alls staðar, í mosanum, við steinana, þeir voru margir með hvítum skellum. Mér fannst þeir hía á okkur. Eins og straumkast árinnar verður að narti fisks í eftirvæntingargómum laxveiðimannsins, þannig verða hvítskellóttir steinar að rjúpum í skimandi augum skyttunnar.
„Hefurðu nokkurn tíma séð fálka hér á fjallinu?“ spurði ég.
„Já,“ sagði Magnús, „ég hef séð fálka slá rjúpu hér á fjallinu, en það er sjaldgæft.“ „Finnst þér þú ekki stundum vera í hlutverki fálkans?“ „Það getur svo sem verið. Þegar fálkinn kemur sópast rjúpan í burtu, en það hefur engin áhrif á rjúpuna, þó ég komi. Hún heldur sig bara við skaflana og….“ Prikið festist við grjóthnullung.
„Og hvað?“ spurði ég.
„Og bíður, bíður. Er það ekki það sem við gerum öll.“ Losaði prikið, hélt áfram og þagði.
„Við Ísólfur í Ísólfsskála sáum tvær arnir í haust, þegar verið var að leggja Krýsuvíkurveginn,“ sagði hann svo upp úr þurru, eins og til að breyta um umræðuefni. „Önilur hafði komið á hverjum morgni og stefnt á Krýsuvíkurberg, og einn morguninn sáum við tvær saman. Líklega hafa þær verið að leita sér að æti.“
Nú færðist brimmóða yfir landið og það fékk einhvern óræðan blámisturssvip, sem gerði það fjarlægara en áður. Það var ekki lengur fjallabjart yfir auðninni. Morguninn hafði verið rauður í skýjum, þetta var yndislegur dagur, magnaður af dul lands og sagna. Hamrabelti blöstu við norðan Kasts, þar eru Gálgaklettar. Þar voru hengdir ræningjar sem héldu til við Þorbjörn gamla.
Og enn fjölgaði hvítu skellunum á steinunum og ég fór að velta því fyrir mér hvort guð hefði svona fínan húmor eða hvort þetta grín væri bara tilviljun.
Magnús ymti að gömlum dögum. „Ég hef alltaf séð eftir árabátunum,“ sagði hann, „og veiztu af hverju? Ég komst einu sinni yfir hundrað kíló. Þá brá mér kynju við. Ég fór að hugleiða hvað hefði valdið þessum ofvexti — jú. Við höfðum fengið vélbáta og lagt niður árarnar. Það var oft glatt á hjalla á gömlu árabátunum og gaman að sigla í góðu leiði. Fiskurinn var borinn upp klappirnar fyrir neðan bæinn, þeir voru í brókum upp undir hendur og skinnstökkum og bundið yfir um mittið til þess þeir yrðu ekki brókarfullir. Þeir báru tólf þorska í einu og enginn taldi eftir sér að bera upp fiskinn. Nú bykir allt erfitt. Skiptivöll ur heitir pa.rtur af túninu fyrir neðan Hraun. Þar deildu þeir út hlutunum. En það var ekkert upp úr þessu að hafa, þó við fiskuðum 500 skippund yfir vertiðina og gerðum að öllu Sjálfir. Þetta fór bara í kaupmennina og þeir voru eins og sjórinn. Lengi tekur sjórinn við.
En nú held ég að þorskurinn sé að ganga til þurrðar, það er ekki annað að formerkja. Áður fylltist allt af fiski, þegar sílin komu. Fyrst þegar ég byrjaði að róa fengum við oft á annað hundrað fiska í 15 möskva djúp net, en nú eru þeir með þetta 30—36 möskva djúp nælonnet og fá einhverja glefsu í eitt og eitt net. Nú sést ekki fiskur á þeim slóðum þar sem við veiddum mest. En fiskifræðingarnir trúa ekki að fiskurinn sé að ganga til þurrðar, það er aðalatriðið. Kannski við getum lifað á bjartsýni þeirra.“
„Var þetta ekki sæmilegt upp úr fyrri heimsstyrjöldinni?“ spurði ég.
„Jú, það var miklu betra en síðar varð. Um 1930 súnkaði fiskurinn í verði og þá byrjaði kreppan.“
Við vorum varla komnir upp á fjallsbrúnina þegar Magnús stanzaði, bandaði til min hendi og sagði: „Þarna er ein —,“ hlóð byssuna, miðaði og — bang.
Þegar Magnús kallaði sá ég dýrið dauðamóða teygja úr skaflhvítum hálsinum, tvö augu sem störðu á okkur í 30—40 metra fjarlægð. Þau báðu ekki um líf, þessi augu, nei horfðu bara á okkur, spurðu. Og svarið kom. Þegar við komum að rjúpunni þar sem hún lá dauð í grænum mosa milli hraungrjóts, beygði Magnús sig niður og sagði: „Þetta er einhver síðgotungur, hún er enn með svartar fjaðrir.“ Svo leit hann á mig og spurði glottaralega:
„Ekki sást þú hana á undan mér?“
Það var nú lítill munur orðinn á rjúpunni og hvítskellóttum steinunum. En blóðið golpaðist ekki upp úr þeim.
Við gengum skimandi vestur fjallið, en sáum ekki fleiri rjúpur. Þessari styrjöld lyktaði með ósigri þeirrar einu rjúpu, sem á fjallinu var þennan dag. Þegar við komum á móts við Kast á heimleið fórum við aftur að tala um flugslysin, enda voru þau ofarlega í hugum okkar. Og þá sagði Magnús: „Það er eins og allt sé fyrirfram ákveðið og hnitmiðað niður. Amma mín, Guðbjörg Gísladóttir frá Lambafelli undir Austur-Eyjafjöllum, sagði mér einhverju sinni frá harðduglegum fiskiformanni, sem alltaf gat sagt hásetum sínum fyrir um, hvað þeir mundu fá til hlutar. En svo einn vetur segist hann ekkert geta sagt þeim. Hann segir að sig hafi dreymt, að hann væri í úlpu með fjórtán hnepslum, en hnapparnir allir skornir af. Annað gæti hann ekki sagt þeim. Skip hans fórst í fyrsta eða öðrum róðri með allri áhöfn, fjórtán mönnum.
Með þetta dularfulla veganesti héldum við til byggða.“ – M.
Heimild:
-Morgunblaðið, 22. des. 1963, Í stríði á Fagradaldsfjalli, bls. 1, 3 og 5.