Tag Archive for: Hafnarfjörður

Straumssel

Almenningsskógur er gamalt heiti hraunasvæðisins suður og vestur af Straumsvík. Þetta var úthagi Hraunajarðanna sem voru í eigu kirkjunnar en komust í konungseign við siðaskiptin 1550. Þessar jarðir voru allar seldar um og eftir 1830 og eftir það voru þær í eigu bænda þar til búskapur lagðist að mestu af u.þ.b. 100 árum seinna.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

Á meðan jarðirnar voru í eigu kirkjunnar og konungs gátu íbúar á suðvesturhorni landsins nýtt Almenningsskóg til beitar og þeir fóru þangað til að höggva skóg til kolagerðar. Þegar litla ísöld gekk í garð upp úr 1450 tók að kólna verulega á Íslandi og víðar í norðurhöfum og hratt gekk á skóglendi þar sem viðar- og skógarhögg jókst til muna. Þegar fram í sótti var ekki mikið um stærri tré því þau voru tekin fyrst og með tímanum var lítið annað eftir en nýgræðingur og hverskonar runnagróður, sem var jafnan nefndur einu nafni hrís.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Gegndarlaust hrístaka og skógarhögg gekk nærri gróðrinum í Almenningi og var svo komið um 1700 að varla var lengur hægt að tala um að hrís væri nægjanlegt og skógurinn sem svo hafði verið kallaður var að mestu eyddur. Samt sem áður var haldið áfram að ganga á takmörkuð gæði landsins með sauðfjárbeit og kolagerð. Fyrir kom að tré og runnar voru rifin upp með rótum, sérstaklega næst bæjum en ekki síður upp til fjalla þar sem mest hætta var á uppblæstri. Hirðstjóri konungs lagði álögur á alla bændur sem bjuggu nærri Bessastöðum og þurftu þeir að skaffa einn til tvo hríshesta á ári hverju og stærri jarðirnar þurftu auk þess að útvega einn eða tvo stórviði árlega.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Meginhluti hraunmassans ofan Hraunabæjanna er kominn frá Hrútagjárdyngju, nefndur Almenningur og tilheyrði í eina tíð Hraunabæjunum sem voru með fram strandlengjunni milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Almenningu var beitiland þessara jarða og þar áttu þær skógarítak og sóttu sér eldivið um margra alda skeið. Samkvæmt því sem næst verður komist máttu flestir íbúar Álftaneshrepps hins forna sækja sér hrís í Almenningsskóga á meðan jarðirnar tilheyrðu kaþólsku kirkjunni og seinna Danakonungi. Þessar jarðir voru seldar um og eftir 1830 og þar með féll almannarétturinn til þeirra sem eignuðust jarðirnar, eða svo töldu þeir sem keyptu jarðirnar af ríkisvaldinu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur (Fornaselsstígur) í Hraunum..

Almenningsnafnið hélst samt sem áður áfram og vísar til þess tíma þegar svo til hver sem var gat nýtt hlunnindin. Bændur og búalið sótti sér skógarvið til húsbygginga á meðan skógurinn gaf eitthvað af sér en eftir að kólna fór verulega á landinu um og eftir 1600 gekk hratt á stærstu trén. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu Jarðabókartal sitt árið 1703 var mjög farið að sneiðast um skógarvið og hrísrif orðið býsna erfitt í Almenningi enda kvörtuðu bændur mjög undan kröfum hirðstjóra konungs á Bessastöðum um skil á stórviði og hrísknippum til yfirvaldsins.

Straumssel

Gengið um Straumssel.

Þegar Hraunajarðirnar voru seldar hver af annarri úr konungseign voru heimalönd þeirra skilgreind og miðuðust við landsvæði sem náði þó nokkuð suður fyrir selin. Eigendur jarðanna lögðu ríka áherslu á að verja heimalönd sín og bönnuðu hverskonar nytjar svo sem veiði, hrísrif og beit í úthaganum í löndum sínum.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Ekki fóru allir eftir þessu og töldu sumir að sú hefð að sækja hrís í Almenning og að beita sauðfé þar væri ofar eignarréttinum. Gengu klögumál á víxl þar til sýslumaður kynnti vilja konungs í þessu efni. Landsmenn áttu að leggjast á eitt um að verja þá skóga sem eftir voru í landinu en ekki halda áfram að eyða þeim. Skógarhögg og hrísrif mátti aðeins stunda samkvæmt sérstöku leyfi og undir eftirliti umsjónarmanna skógarhöggs sem konungur lét skipa víða um land.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Guðmundur Guðmundsson bóndi var skipaður umsjónarmaður skógarhöggs í Álftaneshreppi um miðja 19. öld. Guðmundur bjó ásamt Katrínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni í Straumsseli og átti fremur auðvelt með að fylgjast með því sem fram fór í Almenningi. Sýslumaður undirritaði reglur um skógarhögg í vitna viðurvist á manntalsþingi í Görðum og skipaði Guðmund í embættið á sama tíma.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Guðmundur keypti Straum og hálfa Óttarsstaði árið 1849 með gögnum og gæðum og ítökum og öllum herlegheitum sem jörðunum fylgdu og höfðu og fylgt til sjós og lands. Guðmundur kaus að byggja sér bú í Straumsseli og lýsa staðinn lögbýli. Straumur var í ábúð og leiguliðinn mótmælti því harðlega að Guðmundur gerði Straumssel að lögbýli sínu. Áður hafði Guðmundur átt Lambhaga og hluta Þorbjarnarstaða en seldi hvoru tveggja 31. maí 1848 til Eyjólfs Péturssonar. Guðmundur fékk sínu framgengt en sat ekki Straumssel lengi heldur byggði það leiguliðum og settist að á Setbergi.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri.

Guðmundur skógarvörður varð ekki langlífur. Hann lést 44 ára gamall árið 1855 að Setbergi. Guðmundur Tjörvi sonur hans var aðeins fimm ára gamall, en tók eignir föður síns í arf eftir. Katrín móðir Guðmundar Tjörva og ekkja Guðmundar skógarvarðar giftist stuttu seinna Guðmundi Símonarsyni og bjuggu þau fyrst á Setbergi. Þau tóku við búskap í Straumi þegar jörðin losnaði úr ábúð og bjuggu myndarbúi fram undir aldamótin 1900. Að þeim látnum tók Guðmundur Tjörvi við jörðinni, en hann hafði í raun réttri verið bóndi þar um árabil enda móðir hans og fósturfaðir komin nokkuð við aldur er þau féllu frá.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga.

Guðmundur Tjörvi var dugnaðarbóndi, sem átti um hundrað fjár og stækkaði túnin umhverfis Straum. Hann fór í mikla útgræðslu, byggði fjárhús í Fjárhússkarði við Brunntjörn, hljóð Tjörvagerði nálægt Þýskubúð og Gerðið suður af Straumsseli. Þegar ellin fór að gera vart við sig ákvað hann að bregða búi þar sem hann átti enga afkomendur og systur hans höfðu ekki heldur komið neinum börnum á legg, enda gengu þær ekki allar heilar til skógar. Hann seldi Bjarna Bjarnasyni Straum árið 1918. Tveimur árum seinna keypti Bjarni Þorbjarnarstaði ásamt Stóra- og Litla Lambhaga til að eiga möguleika á að fá nægan heyfeng fyrir bústofn sinn.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Þegar gamli Straumsbærinn brann árið 1925 var ráðist í að reisa nýtt og veglegt hús úr steinsteypu. Þetta var með stærri húsum á landinu og var það tilbúið árið 1926 og stendur enn. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið sem er í svipuðum stíl og Korpúlfsstaðir og Héraðsskólahúsið á Laugavatni.

Bjarni var íþróttakennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar frá 1912 en tók við skólastjórn 1915. Hélt hann þeirri stöðu til 1929 er hann var skipaður skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni. Bjarni var maður framfara og var annálaður dugnaðarforkur. Hann átti eina af fyrstu bifreiðunum sem komu til landsins og ók daglega milli Straums og Hafnarfjarðar. Bjarni átti drjúgan þátt í að ákveðið var að byggja veglegt steinsteypt skólahús í Hraungerðistúninu við Hamarskotslæk árið 1927 þar sem Barnaskólinn (Menntasetrið við Lækinn var til húsa þar til hann flutti í nýtt hús á Hörðuvöllum.

Straumur

Straumur.

Þegar Bjarni var fluttur alfarinn austur að Laugarvatni reyndi hann að selja Straum, Lambhaga og Þorbjarnarstaði. Það gekk ekki og er sennilegasta ástæðan sú að kreppa skall á um þessar mundir og á sama tíma voru búskaparhættir að breytast verulega hér á landi.

Straumur

Straumur 1930.

Bjarni ákvað því að halda búskapnum í Straumi óbreyttum um sinn og fékk bústjóra til að flytja í Straum og annast búreksturinn. Þegar mæðuveiki kom upp á suðvesturhorni landsins um 1937-38 varð að fella bústofn Bjarna og þar með var engin þörf lengur fyrir bústjóra. Þorbjörg Þorkelsdóttir eiginkona Bjarna leigði KFUK í Reykjavík Straumshúsið fyrir lágt verð sumarið 1938. Næstu árin fékk KFUK húsið til afnota og hélst þessi tilhögun til ársins 1946. Straumur var sumardvalarstaður fyrir stúlkur á vegum KFUK en Vindáshlíð tók við þessu hlutverki árið 1949.

Kapelluhraun

Skógrækt ríkisins fór illa með lfyrrum land Straums í Kapelluhrauni.

Bjarni leitaði stöðugt að kaupanda að Straumi, Þorbjarnarstöðum og Lambhaga en lítið þokaðist, enda voru Hraunin farin í eyði áður en fyrri heimsstyrjöldin brast á. Hann leitaði til ýmissa aðila, þar á meðal Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra sem þótti koma til greina að Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina, en vildi lítið sem ekkert greiða fyrir hana.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Sumarið 1944 var bundist fastmælum að Skógrækt ríkisins keypti nokkurn hluta af löndum Straums og Þorbjarnarstaða, en staðreyndin var sú að Bjarni gaf því sem næst þennan hluta jarðar sinnar. Samkvæmt frétt sem birtist í Vísi 14. desember 1944 var um kjarri vaxin hraun að ræða sem ætlunin var að kaupa fyrst og fremst til þess að sjá hversu miklum þroska trjágróður gæti náð á þessum stað. Reykjanesskaginn var illa farinn vegna óhóflegrar beitar og voru miklar vonir bundnar við að auka mætti gróður til verulegra muna með því að friða landið að hluta eða öllu leyti.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Vorið 1948 var gengið frá jarðakaupum Skógræktar ríkisins á 600 ha landi í Almenningi úr landi Straums og Þorbjarnarstaða. Sama vor plöntuðu starfsmenn Skógræktarinnar út 1000 sitkagreniplöntum í Almenningi í upplandi Þorbjarnarstaða í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli nærri Fornaseli (ofan við Brunntorfur). Vorið 1954 var landsvæðið girt af með 6 km langri girðingu til að vernda barrtrén sem búið var að gróðursetja og til að sjá hvernig sjálfgræðslu lands í hrauninu miðaði ef það væri beitarfriðað.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Bjarni Bjarnason afsalaði Skógrækt ríkisins landinu sem hann seldi árinu áður með bréfi sem var dagsett 16. febrúar 1949. Þar segir: ,,…Þann hluta …sem liggur milli þjóðveganna til Krýsuvíkur og Keflavíkur, frá norðurbrún Nýjahrauns og að landamerkjum Straums og Óttarsstaða, með gögnum og gæðum og án allra kvaða. – Undanskilið gjöfinni er norðausturhorn landsins (neðsti hluti Nýjahrauns), frá vörðu vestarlega á Rauðamelshólum og línum dregnum frá henni, annars vegar hornrétt á Krýsuvíkurveg, en hins vegar í beina stefnu á Reykjanesbraut á hábrún Nýjahrauns, ofan Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga.

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Sama dag seldi Bjarni landspilduna sem hann undanskildi til Hákons Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins. Spildan markaðist af ,,Reykjanesbraut að vestan, að norðan af landamerkjum Hvaleyrar og áðurnefndra jarða, og að öðru leyti af línum dregnum úr vörðu á Rauðamelshólum, eins og nánar er tiltekið í afsali mínu til Skógræktar ríkisins, dagsettu í dag.”
Hákon Bjarnason gaf Landgræðslusjóði þessa landspildu til eignar 7. febrúar 1967, að undanskildu túni Þorbjarnarstaða og 100 metra spildu í allar áttir frá túngarðinum.

Árið 1955 gerði Hafnarfjarðarbær makaskiptasamning við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Þann 7. apríl 1994 afsalaði Landgræðslusjóður öllu landi sínu í Straumi til Hafnarfjarðar en það var 223,6 ha að stærð. Ríkissjóður, fyrir hönd Skógræktar ríkisins, seldi Íslenska álfélaginu Straumi, austan Reykjanesbrautar, u.þ.b. 220 ha, 30. nóvember 2001. Undanskilið var í sölunni land Tjarnarhóls, Gerðis og Þorbjarnarstaða.

Brunntorfur

Skógrækt í Brunntorfum.

Vorið 1956 tóku nokkrir einstaklingar við skógræktarsvæðinu í Almenningi og var litið á þetta sem tilraunareit. Landsvæðið sem var lagt undir verkefnið spannaði 140 ha. hrauns, annarsvegar ágætlega gróið beitiland í Almenningi og hinsvegar brunahraun sem var hluti Nýjahrauns sem rann um 1151. Hafist var handa við að girða landið og hófst útplöntun um 1960. Þeir sem tóku stærsta hluta svæðisins í fóstur voru Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor, Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskólans og Marteinn Björnsson. Fengu þeir plöntur og áburð frá Skógrækt ríkisins en önnuðust sjálfir útplöntun með fjölskyldum sínum og vinum. Á næstu árum bættust Kristinn Skæringsson frá Landgræðslu ríkisins og Arngrímur Ísberg í hópinn. Þessir menn kölluðu sig Landvinningarflokkinn sín á milli.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gróskumikill barrskógur er nú á þessu 50 ha landi og víða orðinn svo þéttur að full ástæða er til að ráðast í grisjunarvinnu. Sjálfsánar furur og greni er víða að sjá og landið nánast sjalfbært að þessu leyti. Kjarrlendi í Almenningi hefur jafnframt tekið verulega við sér eftir að sauðfjárbeit var að mestu útrýmt á þessum slóðum. Víðáttumiklir birki- og víðiflákar breiða úr sér og inn á milli má finna stór birkitré. Allvíða eru einirunnar en lynggróður og mosi þekja stærsta hluta Almennings. Þetta er fyrirtaks útivistarsvæði og spennandi gönguland með miklu meiri gróðri en hægt er að ímynda sér og ótrúlega margbreytilegum hraundröngum, klettum, hæðum, hólum, flatlendi, kötlum, gjótum og jarðföllum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Minjar frá þeirri tíð þegar búskapur var stundaður á Hraunabýlunum finnast út um allan Almenning. Gjásel, Fornasel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru í Almenningi miðjum og allt um kring eru grjóthleðslur sem voru fyrrum stekkir, kvíar, fyrirhlaðnir fjárhellar og skjól, eða skotbyrgi, réttir, vörður og hvaðeina sem tilheyrði gamla bændasamfélaginu. Þessutan liggja þarna þvers og kruss fornar götur, alfaraleiðir og innansveitarleiðir, smalaslóðar og fjárgötur sem enn markar fyrir þó svo að gróðurinn sé í óða önn að fela forðum gengin spor.

Heimild m.a.:
http://www.hraunavinir.net/almenningur/#more-1075

Straumssel

Straumssel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Setbergssel

Kershellir er við Selvogsveg (Suðurferðavegs) norðan við Sléttuhlíðarhorn í jarðfalli á fremur stuttri hraunrás. Hraunið er úr Búrfelli fyrir um 7400 árum. Á svæðinu eru einnig nokkrir styttri hellar.

Hamarskotshellir

Hamarskotshellir.

Kershellir er nyrstur og austastur þeirra. Inn af honum er svonefndur Hvatshellir. Suðvestar er Selhellir. Hann er opinn í báða enda og nefnist syðri hlutinn Selhellir en nyrðri hlutinn var nefndur Kethellir í Jarðarbók Árna Magnússonar og Bjarna Vídalín. Hleðsla í miðjum hellinum náði áður fyrr upp í loft, en er núna fallin að stórum hluta. Neðstur og nyrstur er svonefndur Sauðahellir, sem var notaður um tíma fyrir sauðfé, en þótti ekki alveg nógu góður til slíkra nota. Skammt frá honum er vallgróinn stekkur og austan hans er nátthaginn í jarðfalli. Þessir hellar voru í eina tíð nefndir einu nafni Kershellar, en einnig sundurgreindir með mismunandi nöfnum eftir því hverskonar not voru höfð af þeim í gegnum tíðina.

Ketshellir-222Hellarnir voru hluti af búskaparsamfélaginu um aldir og m.a. nýttir sem fjárskjól og áningastaðir ferðalanga sem áttu leið um Selvogsgötuna. Selhellirinn, sem er á landamerkjum Setbergs og Garðakirkjulands, var eins og nafnið gefur til kynna hluti af seljum Setbergs og Hamarskots um aldir. Enginn veit nákvæmlega hvernig Kershellir var notaður en ekki er ólíklegt að hann hafi verið einhverskonar mannabústaður í skamman tíma þó líklegra sé að hann hafi nýst sem geymsluhellir. Í honum er hlaðinn garður sem myndar hálfboga en það er með öllu óljóst til hvers þessi grjótveggur var gerður á sínum tíma.

Kershellir-223

Sumarið 1906 komu fjórir ungir piltar úr Reykjavík suður að Sléttuhlíðarhorni eftir þriggja tíma göngu og glöddust mjög þegar þeir fundu helli í jarðfalli, sem reyndist ágætlega stór. Þetta voru Sigurjón Þorkelsson, seinna kaupmaður í versluninni Vísi, Helgi Jónasson frá Brennu og Matthías Þorsteinsson, en þeir unnu allir saman í Edinborgarverslun. Fjórði pilturinn var Skafti Davíðsson trésmiður. Þeir höfðu stofnað fótgöngufélagið Hvat, en nafnið gaf til kynna að þeir einsettu sér að ganga hvatlega og skoða sitt nánasta umhverfi um helgar þegar þeir áttu frí frá vinnu. Þeir höfðu áður skunað á Þingvöll og skoðað þar hella í hrauninu og töldu sig hafa fundið nýjan og áður óþekktan helli við Selvogsveginn og létu þá fregn berast um bæinn. Þann 1. júlí 1906 birtist stutt grein í Æskunni þar sem sagt var frá því að Hvatsfélagar hefðu fundið stóran helli suður af Hafnarfirði einn sunnudag er þeir voru þar á göngu fyrr um sumarið. Hvatspiltar fóru aftur suður í Sléttuhlíð sunnudaginn 2. september með ljós og mælivað til að mæla og rannsaka hellinn gaumgæfilega. Komust þeir að því að út frá honum voru afhellar mismunandi stórir.

Kershellir-224

Þessi fundur hleypti mörgum kappi í kinn og héldu ýmsir áhugamenn um hella af stað til að rannsaka þetta fyrirbæri. Hvatsfélagareignuðu sér hellinn og  máluðu meira að segja nafn hellisins með bronsmálningu á einn hraunvegginn í stóra afhellinum. Meðal þeirra sem slógust í för með Hvatspiltum var séra Friðrik Friðriksson, upphafsmaður Kristilegs félags ungra manna í Reykjavík. Ritaði hann tvær greinar um hellinn og birtist önnur þeirra í Fjallkonunni  7. september 1906. Þar lýsti Friðrik hellinum og byggði á frásögn piltanna:
„Hann er 152 fe
t á lengd, 40 fet á breidd, þar sem hún er mest, og á að giska 6-7 álnir á hæð, þar sem hæst er, allsstaðar má ganga uppréttur. Grjótgarður er hlaðinn 59 fet inn af munnanum, sá garður liggur þvert yfir hellinn og á parti í boga fyrir munna á afhelli nokkru vinstra megin; er hann eins og bás, höggvinn út í bergið, og er 27 fet að lengd og 1 ½ alin á hæð, þar sem hann er hæstur. Ekki var unnt að sjá, að fé hefði verið geymt þar inni.

Hvatshellir-222

Hinir ungu menn könnuðu nú vandlega hellisveggina, og urðu þeir þá varir við smugu mjóa, er lá inn í vegginn hægramegin, nálægt hellismunnanum. Er þeir lýstu inn í hana, þótti þeim sem rúm mundi vera þar fyrir innan og skriðu því inn gegnum glufuna og komu þá inn í lítinn afhelli, vel mannhæðar háan, og var heldur stórgrýtt gólfið. Inn úr honum lá svo önnur glufa, er skríða þurfti í gegn á fjórum fótum. Fyrir innan hana varð fyrir þeim hellir, nær kringlóttur að lögun eða sporöskjulagaður. Hann er 10 fet á hæð þar sem mest er, og breiddin 20 fet, en lengdin nokkru meiri. Eftir gólfinu er hraunbálkur all mikill og lægðir báðu megin.

Hvatshellir-223Hægra megin varð enn fyrir þeim lítil glufa niður við gólfið, og fóru tveir þar inn og fundu þá, að þeir voru komnir í stóran helli og langan, en eigi gátu þeir vel glöggvað sig á honum, því ljósfæri þeirra brást. Leituðu þeir nú síðan til útgöngu og þótti þeim skemmtiferð sín góð orðin.“
Séra Friðrik fór ásamt Hvatspiltum suður að Sléttuhlíðarhorni til að kanna innsta hellinn nokkru seinna . Höfðu þeir meðferðis ljósker ásamt stuttum og digrum 8 aura kertum frá Zimsen. Þeir voru ennfremur með mælivað og 60 faðma snæri. Mældu þeir innsta hellinn sem reyndist vera 61 fet á lengd  og allur nokkuð jafnbreiður 8-10 fet. Síðan kemur lýsing séra Friðriks:

Hvatshellir

Í Hvatshelli – sagan rifjuð upp.

„Hæðin var um 4 fet minnst og liðugt 5 fet mest. Innst inni er hann íhvolfur og er hvelfing yfir honum öllum, skreytt dropasteins útflúri. Hellirinn er ekki ósvipaður hvelfdum gangi í kjallarakirkju, gólfið er slétt og fast og lítð sem ekkert þar lausagrjót inni. Svo er hann fallegur, að erfiðleikarnir við inngönguna í gegnum 3 glufurnar og stórgrýtið í framhellunum gleymist þegar inn er komið. Lengd alls hellisins frá botni þess innsta og aftast í þann fremsta er rétt að segja 300 fet. Í innri hellunum eru engin merki þess að menn hafi þar fyrr inn komið.
Við vorum hálfan annan tíma að skoða hellana og var sá tími helst of stuttur til þess að geta séð allt til hlítar. Hellinn kallaði ég Hvatshelli eftir félaginu,  er fann hann, og þykir mér félagið eiga þá sæmd skilið fyrir göngudugnað sinn og eftirtekt.
Hvatshellir-224Séra Friðrik nefndi innsta afhellinn Hvatshelli, þann sem honum fannst líkjast kjallarakirkju, enda segir munnmælasaga að hann hafi stundum haldið látlausa helgistund í hellinum næstu árin. Allavega fór það svo að ungu mennirnir sem töldu sig hafa fundið afhellana máluðu nafnið Hvatshellir í innstu hvelfingunni. Vel má vera að þeir hafi fyrstir manna komið inn í þessa afhella, en Kershellirinn sem er fremstur var fyrir löngu þekktur eins og hleðslurnar sem þeir fundu í honum gefa glögglega til kynna.
Þessi fundur þótti allmerkilegur í ljósi þess að erlendir menn höfðu farið um landið og leitað að hellum sem þeir töldu sig síðan finna, þó svo að heimamenn á hverjum stað hefði greinilega vísað þeim á þá. Séra Friðrik hvatti ungt fólk til að gera sér ferð til að skoða hellana og lýsti leiðinni suður í Sléttuhlíðina með eftirfarandi hætti: Hvatshellir liggur nálægt Selvogsvegi, upp með Setbergshlíðinni skammt frá vörðu þeirri sem er mælingamenn Herforingjaráðsins hafa hlaðið og merkt er tölunni 27. Sú varða er á vinstri hönd, er upp eftir veginum dregur, og spölkorn þar fyrir ofan er til hægri handar fallegur grasgróinn hvammur. Í honum er hellismunninn.“

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Leiðalýsing séra Friðriks kom Reykvíkingum sérkennilega fyrir sjónir eins og greint var frá í blaðinu Reykjavík. Göngumaður sem skrifaði undir leyninafninu Gangleri gerði sér ferð suðureftir til að skoða hellinn ásamt félögum sínum. Þeir villtust á leiðinni og fóru allmarga aukakróka áður en þeir  komust á Selvogsveginn. Seint og um síðir komu þeir að hellunum norðan Sléttuhlíðarhorns og hittu þar þrjá sveitamenn, eins og Gangleri kallaði þá í grein sinni. Þeir spurðu sveitamennina um nýja hellinn og sögðu þremenningarnir að þarna væri ekki nýr hellir heldur þrír hellar þétt við gömlu götuna og hver framundan öðrum. Þeir hefðu, áður en þessir landkönnunarmenn úr Reykjavík komu til sögunnar, verið kallaðir einu nafni Kershellar. Þeir hétu svo af því að það var engu líka en að ker eða skálar væru niður í jarðveginn, sem hellismunnarnir  lægju úr og það væri einna gleggst á þessum nýskírða helli. Því til sönnunar að þessir hellar væru fullkunnir áður, væri það að þeir væru taldir ráða landamerkjum milli Setbergslands og Garðakirkju.

Hvatshellir-225

Margir fundu sig knúna til að leggja orð í belg eftir að séra Friðrik gaf innhellinum nafnið Hvatshellir, en svo virðist sem fæstir þeirra sem gerðu sér ferð að hellunum hafi fundið afhellana. Nokkur brögð voru að því að fólk skoðaði einvörðungu Selhellinn og fannst lítið til hans koma enda hafði hann verið notaður sem fjárhellir eftir að hætt var að hafa þar í seli seint á 19. öld og fullur af sauðataði. Botn hellisins er núna þakinn leirkenndri mold sem verður leðjukennd þegar hún blotnar. Jón Þorkelsson var einn þeirra sem ritaði greinarkorn í Fjallkonuna um hellafundinn og taldi hann augljóslega að um Selhellinn væri að ræða.

Setbergssel

Setbergssel. Helgafell fjær.

„Hellir sá í Garðahrauni [hellirinn er í efsta hluta Gráhelluhrauns], er félagar úr göngumannafélagsins „Hvats“ komu í hér í sumar, hefur orðið að blaðamáli.
Kölluðust félagar þessir hafa fundið hér nýjan helli og skírðu hann „Hvatshelli“. Síðan hefur „Reykjavíkin“ skýrt frá því eftir kunngum manni, að hellir þessi hafi verið kunnur nú í manna minni, hafi verið haldinn landamerki milli Garða og Setbergs og verið kallaður Kershellir. Þar við bætir og ritstjóri „Reykjavíkur“ því að hann hafi þekkt þennan helli fram undir mannsaldur. En hér mun vera óhætt að bæta því við að hellir þessi hefur verið þekktur um frá ómuna tíð og hefur að vísu um 350 árin síðustu verið haldinn landamerki milli Setbergs og Garða.

Setberg

Setberg 1772 – Joseph Banks.

Er til enn vitnisburður um landamerki þessi frá 2. janúar 1625, úgefinn af Þorvaldi Jónssyni og samþykktur og staðfestur af Magnúsi Þórarinssyni og Sveini Ögmundssyni. Segir Þorvaldur þar svo frá: „að minn faðir Jón Jónsson bjó 15 ár á þráttnefndri jörðu (Setbergi); byggði þá mínum föður jörðina Setberg þann sálugi mann Ormur bóndi Jónsson, hvar eð sat í Reykjavík og tilgreindi bóndinn Ormur þessi takmörk úr miðjum Flóðum, og upp miðjan Flóðhálsinn; sjóndeiling úr miðjum fyrirsögðum hálsi og í hvíta steininn, sá er stendur í Tjarnholtunum og þaðan sjóndeiling í miðjan Ketshellir. Úr Ketshellir og í mitt hraunið og þaðan úr miðju hrauni og ofan í Gráhellu og ofan í Lækjarbotna. Innan þessara takmarka bauð og bífalaði bóndinn Ormur mínum föður allt að yrkja og sér í nyt að færa og aldrei hefi ég þar nokkra efan á heyrt. Og var ég á fyrrsagðir jörðu minni ómagavist hjá mínum föður í fáu 15 ár hann þar bjó; en ég hefi nú áttatíu vetur og einn, er þessi vitnisburður var útgefinn ‚, eftir hverjum ég má sverja með góðri samvisku.

Ketshellir

Tröllið í „Síðasta bænum í dalnum“ við Ketshelli.

Við þetta má síðan bæta því að Ólafur Þorvaldsson, sem fæddist á Ási við Hafnarfjörð og var bóndi í Herdísarvík um tíma þar til Einar Benediktsson tók við jörðinni, ritaði ágætar leiðalýsingar um þjóðleiðir í námunda Hafnarfjarðar, sem birtust í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1943-48, sem kom út 1949. Í leiðarlýsingu hans á Grindarskarðavegi (Selvogsleið) ritar hann: „Ofarlega í hraunbelti því sem áður getur og yfir er farið áður en upp á móts við Klifsholt kemur er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð.
Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt, og vildi gólfið blotna þegar fé kom brynjað inn. Laust eftir síðustu aldamót [1900] fundu menn úr félagi, sem nefndi sig „Hvat“ og í voru nokkrir ungir fjallgöngu- og landkönnunarmenn í Reykjavík, helli skammt ofar og norðar [hann er austar, en einnig máf inna lítinn hellir norðan við fjárhellinn]en Kershelli. Op þessa hellis er mjög lítið en drjúgur splölur, þröngur og krókóttur, þar til í aðalhellinn kemur og er ekki farandi ljóslaust. Aðalhellirinn er hvelfing, bogmynduð, nokkru meira en manngengt í miðju, en gólfið slétt hellugólf. Þeir, sem námu helli þennan, svo að sögur fari af, nefndu hann eftir félagi þeirra og kölluðu Hvatshelli. Nafnið máluðu þeir svomeð gullnum stöfum á innanverða hvelfingu eða gólf (ég man ekki hvort heldur).“
Þess má geta að íslen
ska kvikmyndin „Síðasti bærinn í dalnum“ var að hluta til tekinn í Ketshelli.

Heimildir:
-Jónatan Garðason.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, Ólafur Þorvaldsson, Grindarskarðavegur (Selvogsleið), bls. 96-107
-Reykjavík, 7. árg. 1906, bls. 162
-Fjallkonan  7. september 1906, bls. 161
-Þjóðólfur, 56. árg 1906, bls. 164
-Æskan, 9. árg. 1905-1906, bls. 93
-Frjáls verslun, 4. árg. 1942, bls. 4
-Þjóðhvellur, 1. árg. 1906-1908, bls. 1

Munnleg heimild:
-Þórður Reykdal.
-Friðþjófur Einarsson, Setbergi.

Kershellir-221

Fiskaklettur

Á skilti framan við Fiskaklett í íbúðarbyggðinni við norðurhöfnina í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi texta á skilti, sem þar er:

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2024.

„Þegar Hafnarfjarðarhraun rann frá Búrfelli í miklum jarðhræringum fyrir um 7000 árum myndaðist norðurströnd Hafnarfjarðar þar sem hraunið rann til sjávar. Þessar hamfarir urðu, ásamt öðru, til þess að höfnin myndaðist og varð frá náttúrunnar hendi ein besta höfn landsins og sú besta á Suður- og Vesturlandi um aldir. Fiskaklettur var í raun ysti oddi hraunsins við höfnina þar sem hann lá út í sjó og við hann var mjög aðdjúpt. Fiskigöngur áttu það til að lóna við klettinn og myndaðist þannig við hann allgóður veiðistaður en þaðan dregur hann nafn sitt.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – uppdráttur H.E. Minor frá 1778.

Á árunum 1776-78 teiknaði sjóliðsforinginn H.E. Minor uppdrátt af Hafnarfirði sem sýndi hús bæjarins ásamt þeim kennileitum og örnefnum sem markverðust þóttu. Þar er Fiskaklettur merktur vestan við verslunarhúsin þar sem hann afmarkar höfnina frá norðri og vestri að vissu leyti. Árið 1900 voru tveir vitar reistir í Hafnarfirði, annar uppi á hrauninu ofan við bæinn en hinn niðri við höfnina, austan Fiskakletts. Árið 1913 var neðri vitinn færður upp á Fiskaklett en sá efri hækkaður nokkuð þar sem hin nýbyggða Fríkirkja skyggði á hann. Neðri vitinn var þá breytt í svokallaðan blossavita.

Hafnarfjörður

Vitinn á Fiskakletti.

Fram undir aldamótin 1900 hafði hver kaupmaður eða útgerðarmaður komið sér upp litlum bryggjum á sínum svæðum við höfnina en árið 1909, þegar fyrsta hafnarreglugerðin fyrir Hafnarfjarðarhöfn tók gildi, hófst skipulag og vinna að almennilegri hafnargerð í fyrsta sinn. Fyrsta skref framkvæmdanna var hafskipabryggjan sem tekin var í notkun árið 1913 en þróun hafnarinnar og framkvæmdir hér voru miklar allt frá stofnun hennar. Miklar landfyllingar voru gerðar, bólvirki hlaðin, bryggjur stækkaðar, þeim breytt og þær færðar til, auk þess sem fiskverkunar- og vöruhús af öllum stærðum og gerðum voru byggð á svæðinu á næstu árum og áratugum.

Hafnarfjörður

Fiskaklettur t.v. – útvörður.

Það var svo um 1960 að nýr viðlegukantur var útbúinn þegar rúmlega 170 m. langt stálþil var sett niður við norðurhöfnina og í kjölfarið enn meiri landfylling í átt að hafnargarðinum. Það var þá sem Fiskaklettur komst endanlega á þurrt. Alla tíð var þó passað upp á að hrófla ekki við honum. Þegar norðurhöfninni var breytt úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði var kletturinn friðaður í deiliskipulagi sem sögulegur staður.“

Fiskaklettur

Fiskaklettur – skilti.

Ásfjall

Þegar farið er yfir Fornleifaskráningar fyrir Hafnarfjörð er ljóst að þar er margt miskráð eða jafnvel rangt.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Tökum dæmi: Í Fornleifaskráningunni fyrir Ásland má lesa eftirfarandi um skráða fjárborg í norðurhlíðum Ásfjalls, skammt ofan húsa nr. 8-10 við Brekkuás. Þar segir m.a.;
Sérheiti: Borgin.
Tegund: Hleðsla.
Hlutverk: Fjárborg.
Hættumat: Engin hætta.
Ástand: Illgreinanleg/hrunin.
Aldur: 1550-1900.
Lengd: 17.2m.
Breidd: 14.4m.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Vegghæð: 0 – 0.4m.
Breidd veggja: 1.2m.
Lýsing: Fjárborgin er hrunin. Ytra lag hennar er enn greinanlegt en er ógreinilegra innan í henni. Inngangur hefur að öllum líkindum verið í NV horni. Veggjahæð er frá 0 – 0.4m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1.2m.
Heimildir: Katrín Gunnarsdóttir. (2005). Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði. Hafnarfjörður: Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Örnefnaskrá – Ás.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur úr fornleifaskráningunni 2005.

Í tilvísaðri Fornleifaskráningu í landi Áss, Hafnarfirði, árið 2005 er getið um „Borgina“; „Fjárborgin er miðja vegu milli hesthúshverfis við Kaldárselsveg og nýrar íbúðabyggðar“ og vísað í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás. Gísli minnist hins vegar ekkert á þessa „fjárborg“ í sinni lýsingu, ekki frekar en hin skotbyrgin 6 á fjallinu.

Þegar „Borgin“ er skoðuð er augljóst að um herminjar er að ræða. Hleðslunum er hrófað upp án röðunar og innan þeirra eru hlaðin skjól. Ekkert gras er í eða við fjárborgina, sem er jú sterk vísbending. Mannvirkinu svipar mjög til skotbyrgisins á Flóðahjalla þarna skammt norðar. Hlutverk þess hefur auðsýnilega átt að vera varðstöð gegn mögulegri ógn úr norðri.

Mikilvægt er að skrá fornleifar og ekki síður að skráningin sé rétt.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Selalda

Í Gráskinnu segir af “Tyrkjum á leið vestur með landi, utarlega á móts við Krýsuvíkurberg, í svonefndri Hælsvík. Þar upp af er stígur, nefndur Ræningjastígur, en nokkru vestar eru seltættur gamlar“.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Tyrkir lágu í logni á víkinni. Þrír af þeim drápu tvo kvenmenn, er þeir gengu á land, en þær voru í selinu. En á meðan þetta gerðist kom smali frá Krýsuvík með féð og tóku þá þrír af Tyrkjunum á rás á eftir honum og eltu hann heim á tún í Krýsuvík, en þegar þangað kom, komu heimamenn á móts við smalann og drápu Tyrkjana þrjá við svonefndan Ræningjahól í Krýsuvíkurtúni, sem hefur nafn sitt af þessu. Þrjár þúfur austanvert við hólinn í túninu er kallaður Ræningjaleiði og eru Tyrkir þar heygðir. Af Hælisvík fóru Tyrkir til Grindavíkur, samanber Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá. Öll sjást örnefnin enn í dag”. Frásögn þessari tengjast síðan frásagnir af Séra Eiríki og viðureign hans við Tyrkina umrætt sinn þar sem hann atti þeim hverjum gegn öðrum uns þeir lágu dauðir eftir.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

Byrjað var á því að skoða selið ofan við Krýsuvíkurbjarg austast í Selöldu, skammt frá tóftum bæjarins Eyri. Enn má sjá tóftir þess norðan og austan við bæjartóftirnar. Ræningjastígurinn upp bergið var fær þangað til fyrir skömmu að brotnaði neðst úr honum. Gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsréttinni. Dysjarnar sjást utan í nefndum hól sunnan Krýsuvíkurkirkju. Sunnan við hann eru tóftir Suðurkots.
Gangan tók 2 klst og 12 mín í frábæru veðri.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Sogin

„Reykjanesfólkvangur“ hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; „Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang„.
Þar segir m.a. að „Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.“

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er „Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. „Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi„:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: „Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins“. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

„Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.“

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

„Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.“

Í „Lögum um náttúruvernd“ segir m.a. um landverði: „Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.“

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: „Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.“

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur „Reykjanesskagafólkvangs“ skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Spákonuvatn

Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor í líffræði við Kennaraháskóla Íslands og formaður stjórnar Reykjanesfólkvangs 2002-20, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 2006 undir yfirskriftinni „Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin“:

Hrefna Sigurjónsdóttir

Hrefna Sigurjónsdóttir.

„Reykjanesfólkvangur var auglýstur sem friðland þegar hann var stofnaður fyrir rúmum 30 árum. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að taka frá land þar sem landsmenn, og þá einkum höfuðborgarbúar, gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Sveitarfélögin sem stóðu að stofnun fólkvangsins, sem er um 300 ferkílómetrar að stærð, eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Grindavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Reykjanesbær. Grindavík og Hafnarfjörður eiga mestallt landið. Fulltrúar meirihlutans í hverju sveitarfélagi mynda stóm og hefur fulltrúi Reykjavíkur alltaf verið formaður. í auglýsingunni er kveðið á um að nýting jarðvarma sé undanþegin friðlýsingu og einnig að eignarréttur ráði þegar um framkvæmdir sé að ræða, en þó með því skilyrði að Náttúruverndarráð (nú Umhverfisstofnun) úrskurði að ekki sé um of mikið jarðrask að ræða.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – loftmynd.

Undirrituð tók við stjórn fólkvangsins seint á árinu 2002 sem fulltrúi R-listans. Þótt ég hafi farið töluvert um Reykjanesið fyrir þann tíma þekkti ég svæðið illa. Ég vissi ekki hver mörk fólkvangsins væru. Ég hafði komið nokkrum sinnum í Krýsuvík og skoðað hverina og kirkjuna og einu sinni keyrt um Vigdísarvelli. Einnig hafði ég komið á Selatanga. Nú, tæpum 4 árum seinna, þekki ég fólkvanginn mun betur og fullyrði að þarna er um að ræða fjársjóð sem við eigum að vernda fyrir komandi kynslóðir sem útivistarsvæði og miðstöð fræðslu.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Mig grunar að flestir höfuðborgarbúar séu í svipuðum sporum og ég var. Þeir þekkja ekki svæðið! Það eru væntanlega ýmsar ástæður fyrir þessari fákunnáttu en í mínum huga hefðu sveitarfélögin getað staðið sig betur í því að vekja athygli á svæðinu og byggja það upp sem útivistarsvæði.

Tíminn hefur verið nægur. Hvað veldur? í skýrslu um fólkvanginn, sem Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur vann fyrir stjórnina, er samankominn mikill fróðleikur. Höfundur bendir m.a. á að fulltrúar í stjórninni hafa svo til aldrei verið áhrifamenn í sveitarfélögunum og að fjárveitingar hafa alltaf verið skammarlega litlar.

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhugaðir borteigar.

Starfsemin hefur verið sú sama ár eftir ár og því miður hefur lítið miðað í að gera átak í málefnum fólkvangsins.

Núverandi stóm hefur hug á að hefja slíkt átak. Haldið var málþing í september 2005 um stöðu og framtíð svæðisins, opnuð var heimasíða og sótt hefur verið um hærri fjárframlög til sveitarfélaganna. Stefnt er að því að ráða landvörð næsta sumar. En hvað framtíðin ber í skauti sér er óljóst því eftir kosningar verður ný stjórn skipuð. Að mínu mati er þetta ekki gott stjórnarfyrirkomulag. Vonandi verður breyting þar á. Ein hugmynd er að stofna einskonar þjóðvang þar sem ríki og sveitarfélög ynnu saman og fagaðilar sætu í stóm. Eitt er víst – þegar á reynir eru völd þessarar stjórnar afar lítil.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Skilningur á gildi svæðisins sem friðlýsts lands virðist vera takmarkaður. Slæm umgengni er til marks um það. Vélhjóla- og jeppamenn sækja stíft inn í fólkvanginn og hafa valdið miklum skemmdum. Þessi ólöglega umferð um allar trissur er orðin gífurlegt vandamál og eykst jafnt og þétt samfara auknum innflutningi slíkra ökutækja. Stórn fólkvangsins hefur verið á einu máli um að akstur slíkra tækja fari ekki saman við það markmið að fólkvangurinn skuli vera griðland fyrir göngufólk og þá sem koma til að njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar. Ofbeit hefur lengi verið vandamál og sú aðferð að loka féð innan beitarhólfa í fólkvanginum, sem landeigendur hafa gert í samvinnu við Landgræðsluna, hugnaðist sjórninni ekki. Engu að síður var það framkvæmt. Skort hefur á að gömul mannvirki séu fjarlægð en slíkt er á ábyrgð landeigenda. Skilti freista skyttna og síðastliðið sumar gáfu landeigendur heimsfrægum leikstjóra leyfi til að brenna gróður í einu fallegasta fjallinu. Og svo tekur steininn úr nú þegar fyrirætlanir Hitaveitu Suðurnesja um tilraunaboranir og nýtingu mjög víða um fólkvanginn eru ljósar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Reyndar fengu þeir leyfi árið 2000 til tilraunaborana við Trölladyngju, hafa borað þar eina holu og eru nýbyrjaðir á annarri við Sogin. Markmiðið er að stofna til allt að fjögurra 100 MW virkjana á miðju nesinu til að afla raforku fyrir álver. Enda þótt ákvæði um nýtingu jarðvarma hafi verið sett í friðlýsinguna getur engum heilvita manni að hafa dottið í hug að unnt væri að leggja allt svæðið undir í þeim tilgangi. Þegar ég skoða svona áform þá setur að mér hroll.

Hvernig stendur á því að okkur Íslendingum þykir ekki vænna um landið okkar?

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhuguð háspennulínulega u Sveifluháls.

Vilja menn sjá virkjanir, raflínur og verksmiðjur um allt? Eða eru ráðamenn að taka ákvarðanir sem almenningur er kannski ekki sammála? Sumar skoðanakannanir benda til að svo sé. Það er kominn tími til að fólk láti heyra í sér. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess að snúa við blaðinu og átta sig á því að falleg og stórkostleg náttúra er auðlind sem okkur ber að vernda. Um leið þarf að tryggja að fólk hafi tækifæri til að njóta náttúrunnar og fræðast um undur hennar. Ljóst er að ýmis atvinnutækifæri felast í slíkri nýtingu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 1.-2. Tölublað (2006), Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin, Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 58.

Sog

Í Sogum.

 

Helgafell

Eftirfarandi grein birtist í Mbl 4. febrúar árið 2001 um „Helgafell við Kaldárbotna„.
Kaldárbotnar„Helgafell í landi Hafnarfjarðar lætur frekar lítið yfir sér, en upp á það eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af því kom einnig Regínu Hreinsdóttur á óvart.
VIÐ hefjum gönguna við vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Nokkrar skemmtilegar uppgönguleiðir eru á Helgafellið bæði að sunnan- og norðanverðu. Auðveldast er þó að ganga upp að norðaustanverðu, þar sem brattinn er minnstur og það gerum við í þetta skipti. Fyrir þá sem ekki hyggja á fjallgöngu er einnig vel þess virði að ganga kringum fellið og heilsa upp á riddarann, móbergsstrýtuna sunnan á háfjallinu.
Kynjamyndir í Riddarinnmóbergi Fellið er skriðurunnið þar sem uppgangan hefst en ofar hefur lausagrjótið sópast burt og í ljós koma ýmsar kynjamyndir sem vindurinn hefur verið að dunda sér við að sverfa í móbergið, síðan jökla leysti. Þarna er hægt að gleyma sér lengi dags við að dást að listasmíð náttúrunnar, allskonar öldumynstri, skálum, örþunnum eggjum og andlitsdráttum trölla og álfa ef vel er að gáð. Landslagið er sumstaðar svo framandi að allt í einu læðist kannski að manni að einhvern veginn hafi maður í ógáti lent á tunglinu.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Hraunflæmið sem blasir við allt í kring vekur einnig ósjálfrátt til umhugsunar um hversu kraftmikil öfl eru að verki í náttúrunni. Síðasti hluti leiðarinnar er brattastur og nokkuð skriðurunninn og betra er að hafa varann á sér svo manni skriki ekki fótur í lausagrjótinu.

Músarhellir og farfuglar
TröllAf toppi fellsins sér vel til allra átta. Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluhálsinn, Keilir og Búrfellsgjá eru meðal kunnugra kennileita sem standa upp úr hrauninu auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið.
Þegar við höfum horft nægju okkar að þessu sinni, og skrifað í gestabókina, höldum við aftur sömu leið til baka. Þegar niður er komið er upplagt að koma við í Valabóli norðaustan í Valahnúkum, en þar er skjólsæl vin í eyðimörkinni sem Bandalag íslenskra farfugla hóf að rækta upp 1942.

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Innan uppgræðslusvæðisins er hellirinn Músarhellir sem notaður var af gangnamönnum allt til aldamótanna 1900 og þar gerðu farfuglar sér hreiður, ef svo mætti að orði komast og notuðu sem gististað á ferðum
sínum. Þetta er einnig vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Selvogsgötuna.

Kyrrðin áhrifamikil
VeðrunEftir skruðninginn í smásteinum í göngunni á Helgafellið verður kyrrðin sem ríkir í Valabóli enn áhrifameiri. Þar er eins og löngu liðnir atburðir liggi í loftinu og blærinn reyni að hvísla að manni gleymdum sögum. Ef við ákveðum ekki hér og nú að gerast útilegumenn og setjast að í þessum sælureit, skulum við halda förinni áfram meðfram Valahnúkunum. Þá getum við annars vegar valið að fara sömu megin við vatnsbólið og við komum eða tekið stefnuna á Helgadal þar sem við gætum rekist á hraunhella sem gaman er að skoða. Það er svo um að gera að nota heimferðina til að spá í hvaða uppgönguleið ætti að velja á Helgafellið í næsta skipti.“

Heimildir:
-Gönguleiðir á Íslandi, Reykjanesskagi. Einar Þ. Guðjohnsen 1996.
-Árbók 1984, Ferðafélag Íslands.
-Mbl 4. febrúar 2001, blaðsíða 3.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Kaldársel

Hafnarfjörður á einkar fallega og fjölbreytilega landskosti.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg.

Í bænum sjálfum eru bæði sögulegir staðir og minjar, sem varðveittar hafa verið, bæði meðvitað og ómeðvitað. Má í því sambandi nefna letursteinana á Hvaleyrarhöfða, garðana ofan við Langeyri, fiskireitinn uppi á Hrauni, stekkinn í Stekkjarhrauni, fjárskjólið utan í Gráhellu í Gráhelluhrauni og fjárborgina á Höfða við Kaldársel. Hins vegar er fjölmargt, sem ganga þarf í, segja frá á aðgengilegum stað, kortleggja og merkja síðan á vettvangi. Að hluta til hefur það verið gert í Hraununum við Straum, en óvíða annars staðar. Í hrauninu ofan við Hraunbæina eru nokkur sel, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðasel, Lónakotssel og Brennisel með tilheyrandi mannvirkjum, hlöðnum fjárhellum, stekkjum, kvíum, gerðum og nátthögum. Stígar liggja að öllum þessarra mannvirkja og þau eru í mjög stuttu og aðgengilegu göngufæri frá byggð. Þannig er ekki nema u.þ.b. 20 mínútna gangur í Straumssel. Með Óttarstaðaselsstíg eru t.d. nokkur mjög falleg fjárskjól, en öll ómerkt. Við Hvaleyrarvatn er Hvaleyrarsel og í Kaldárseli var Kaldársel. Enn má sjá móta fyrir tóttum selsins.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól.

Mannvirki eru allt í kringum Hvaleyrarvatn og svo er einnig um Kaldársel, s.s. fjárborgin, fjárhellarnir, nátthaginn og gerðin. Gamla vatnsleiðslan er dæmi um mannvirki, sem áhugavert er að skoða.
Þá eru hellarnir nálægt Helgadal ekki síðri, s.s. 90 metra hellirinn, 100 metra hellirinn, Fosshellir og Rauðshellir. Mikið er gengið um svæðið nálægt Valahnjúkum, s.s. í Valaból, og um Helgafell. Á því svæði eru einnig mjög áhugaverðar jarðmyndanir, ekki síst sunnan Helgafells.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Gvendarsel er í Gvendarselshæð, en gígarnir utan í hæðinni eru líklega með áhuguverðustu skoðunarstöðum áhugafólks um jarðfræði. Fallegur fjárhellir er í Óbrennishólum, en hann mun væntanlega fljótlega hverfa undir malarnámið verði ekkert að gert. Mikilvægt er að merkja gömlu Selvogsgötuna frá tilteknum upphafsstað, s.s. í Lækjarbotnum við gömlu stífluna. Svæðið norðan og sunnan Sléttuhlíðar býður upp á mikla möguleika, en þar eru m.a. Kershellir, Hvatshellir, Ketshellir og fjárhellar Setbergssels og Hamarkotssels. Við Krýsuvíkurveginn er stutt í Hrauntunguna, en þar er fallega hlaðið fjárskjól í jarðfalli, og Þorbjarnarstaðafjárborgina. Sveifluhálsinn er útivistarmöguleiki út af fyrir sig, sem ástæða er að mæla með. Margir þekkja möguleikana í kringum Kleifarvatn og Hveradal.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Þar var sel frá Krýsuvík. Þá er orðið aðkallandi að merkja staði í Krýsuvík, s.s gömlu bæina í kringum Bæjarfellið, t.d. Snorrakot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ, Stóra-Nýjabæ, Suðurkot, Arnarfell, og niður við Selöldu. Arngrímshellir er í Krýsuvíkurhrauni, en frá honum er sagt í þjóðsögunni um Grákollu. Þar skammt frá er Bálkahellir og Krýsuvíkurhellir neðar. Dysjar Herdísar og Krýsu eru undir Stóru-Eldborg og dys Ögmundar er í Ögmundarhrauni. Minjarnar í Húshólma og Óbrennishólma eru líklega með þeim merkilegustu hérlendis. Í Húshóma má sjá leifar eftir fornan skála, gömlu Krýsuvíkurkirkju, gamals bæjar, forns garðs, sjóbúð, stekk og gerði, sem hraunið hefur runnið að. Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, líklega með þeim elstu á landinu, auk garðlags, sem hraunið hefur runnið að, og leifar af fornum garði.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Undir Selöldu eru tóttir Krýsuvíkursels og bæjanna Eyri og Fitja. Í Strákum er hlaðið fjárhús. Á Krýsuvíkurheiði er Jónsbúð og fallega hlaðið sæluhús sunnan í henni. Fjárborg er vestan í Borgarholti og Hafliðastekkur utan í Bæjarfelli. Gestsstaðir eru líklega næst elstur bæja í Krýsuvík, utan Kaldrana. Merkja þarf tóttir Gestsstaða, sem eru undir hæðunum sunnan við Krýsuvíkurskóla. Aukþess er forn tótt utan í Sveifluhálsi nokkru sunnar.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Flestir aka framhjá tóttum Kaldrana, án þess að veita þeim gaum, en þær liggja undir hæðinni austan við gatnamótin að Hverahlíð. Fjölmargir stígar og gamlar þjóðleiðir liggja um þetta svæði, s.s. Drumbsdalavegur yfir að Vigdísarvöllum, Sveifluvegur, Hettuvegur og Ketilsstígur, Vatnshlíðarstígur um Hvammahraun og Austurvegur um Deildarháls að Herdísarvík. Þá eru leiðir um Almenninga ekki síðri, auk Markhelluhóls og Búðarvatnsstæðisins. Í Sauðarbrekkum eru mjög fallegir gjallgígar og er einn þeirra holur að innan. Hann hefur að öllum líkindum verið notaður sem íverustaður um tíma. Ofar, á Hrútardyngjusvæðinu, eru á annan tug langra manngengna hraunhella, sem eru sértaklega fallegir, en vandmeðfarnir.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Að sumu þarf að gera gangskör að, s.s. að finna og merkja Góðholu og Kaldadý, vegna upphafs vatnsveituframkvæmda í bænum. Hingað til hefur skógrækt þótt merkisfyrirbæri og óþarfi er að gera lítið úr henni. En hins vegar er mikilvægt að gæta þess að skógræktin skemmi ekki minjar og gönguleiðir, eins og farið er að bera á. Þá þarf að huga að merkilegum svæðum, en sum þeirra hafa verið skemmd að undanförnu. Nýjasta dæmið er Alliansreiturinn við Hrafnistu. Honum var mokað á brott á hluta úr degi fyrir skömmu. Vert er að minnast Hraunsréttarinnar, sem var fjarlægð á svo til einum degi. Svo var einnig með eystri fjárborgina í Kaldárseli. Hrauntungusel er í jaðri iðnaðarsvæðisins við Molduhraun. Búið er að moka hluta að því í burtu, en eftir stendur hluti tóttar utan í Hádegishól.

Alfararleiðin á milli Innesja og Útnesja var með þeim fjölfarnari á öldum áður. Hún er sæmilega vörðuð í dag frá Þorbjarnarstöðum og vestur um Hvassahraun (Rjúpnadalshraun) og ennþá vel greinileg. Hins vegar er með hana eins og svo margt annað. Tiltölulega fáir vita um tilvist hennar. Svo er einnig með veginn undir járnbrautina, sem stóð til að leggja yfir Garðahraun. Gamla þjóðleiðin um Engidal á bak við Fjarðarkaup er einnig að glatast, en hún er enn vel greinileg.
Hafnarfjörður hefur alla burði til að gera sögu sína, minjar og möguleika opinbera bæjarbúum og öðru áhugasömu fólki.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

https://ferlir.is/hafnarfjordur-2/https://ferlir.is/hafnarfjordur-verslun-og-utgerd/

Ás

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skerst inn úr sunnaverðum Faxaflóa, og eru takmörk fjarðarins Hvaleyrarhöfði að sunnan, en Bali eða Dysjar að norðan. Hafnarfjarðar er fyrst getið í Hauksbókartexta Landnámu, en þar segir svo um brottför Hrafna-Flóka og förunauta hans frá Íslandi:

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

“Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og á Herjólf, – hann kom í Herjólfshöfn. Flóki kom í Hafnarfjörð, – þeir fundu hval á eyri einniút frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri – þar fundust þeir Herjólfur.” Menn hafa leitt að því getum, að Herjólfshöfn, sem segir frá í Landnámu, sé Hvaleyrartjörn, en hún var höfnin í Hafnarfirði, sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.
Í landnámu segir, að Hafnarfjörður hafi verið í landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarssonar. Ásbjörn nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, allt Álftanes og bjó á Skúlastöðum.

Garðar

Garðar.

Enginn veit lengur, hvar sú jörð var, en giskað hefur verið á, að hún hafi verið, þar sem nú eru Garðar á Álftanesi. Að öðru leyti fer fáum sögum af Hafnarfirði, frá því að land byggðist og allt fram til upphafs 15. aldar. Hans er hvergi geti í fornöld í sambandi við verslun og siglingar, og er sennilegt, að strjálbýlt hafi verið við fjörðinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, enda voru fiskveiðar lítið stundaðar hér á landi á því tímabili miðað við það, sem síðar varð. Það er athyglisvert, að Hafnarfjarðar er þá fyrst getið að marki í heimildum, þegar fiskafurðir verða aðalútflutningsvara landsmanna í stað landbúnaðarafurða. Þessi umskipti urðu um 1400. Þá varð skreið eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga í stað vaðmáls.

Herjólfshöfn

Herjólfshöfn í Hafnarfirði.

Sökum legu sinna og ágætra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi varð Hafnarfjörður ein helsta verslunar- og fiskveiðihöfn landsins laust eftir 1400. Hafnarfjarðar var fyrst getið í sambandi við verslun 1391. Þá kom þangað kaupskip frá Noregi, og þremur árum síðar lagði norskt skip úr höfn í Hafnarfirði. Þeirra eru einu dæmin, sem kunn eru, um siglingar til Hafnarfjarðar á 14. öld. Ljóst er, að Hafnarfjörður var ekki jafnþekkt verslunarhöfn á þessum tíma og síðar varð, enda voru siglingar hingað til lands mjög stopular á 14. öld, og sum árin féll sigling alveg niður.
Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar fiskveiðar og verslun hér við land, og þá hófst nýtt tímabil í sögu Hafnarfjarðar. Fyrsta enska kaupskipið, sem sögur fara af, kom til Hafnarfjarðar árið 1413.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Þegar Englendingar hófu siglingar hingað til lands um 1412, varð gjörbreyting til batnaðar á verslunarháttum, og fyrir vikið versluðu Íslendingar mikið við þá, en Danakonugur reyndi hins vegar að halda versluninni við Ísland í sama horfi og áður, þ.e. að einskorða hana við Björgvin í Noregi.
Þegar fram sótti, voru Englendingar ekki sérlega vel þokkaðir meðal Íslendinga, því þeir þóttu yfirgangssamir og áttu það til að ræna skreið landsmanna. Sló í brýnu með Englendingum og Íslendingum á ofanverðir 15. öld, e.t.v. oftar en einu sinni.

Flensborgarhöfn

Flensborgarhöfn – minningaskjöldur við minnismerki um Hansaverslunina.

Í kringum 1468 hófu Hansamenn siglingar til Íslands, Í fyrst komu skip þeirra frá Björgvin, en fljótlega hófust siglingar frá ýmsum þýskum Hansaborgum, svo sem Lýbiku, Hamborg og Brimum. Hörð samkeppni var milli Englendinga og Þjóðverja um bestu verslunarstaðina og þá einkum Hafnarfjörð. Kunn eru átökin þar 1475 og atlagan að Básendum 1490 (sjá Grindavíkurstríðið) eru urðu upphafið að endalokum á verslun Englendinga hér á landi.

Þýskabúð

Þýskabúð við Straumsvík.

Þjóðverjar virðast hafa hrakið Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum um og eftir 1480 og þegar kom fram á fyrri hluta 16. aldar höfðu þeir náð undirtökunum á verslunni hér á landi.
Hafnarfjörður var aðalhöfn Hamborgaramanna hér á landi á ofanverði 15. öld og alla 16. öld, enda engrar íslenskrar hafnar getið jafnoft í verslunarskjölum Hambogarkaupmanna og Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki við Flensborgarhöfn um veru Þjóðverja í Hafnarfirði fyrrum.

Á fyrri hluta 16. aldar færðust þýsku kaupmennirnir í aukana. Þá fóru þeir að hafa vetursetu hér á landi og ráku umfangsmikla útgerð á Suðurnesjum í trássi við bann konungs. Nú hóf konungsvaldið tilraunir til að hnekkja veldi Þjóðverja. Fyrsta skrefið í þá átt var að hirðstjóri konungs, Otti Stígsson, gerði árið 1543 upptæka alla báta þeirra á Suðurnesjum og aðrar eignir. Vorið 1550 handtóku þeir umboðsmann hirðstjórans, Kristján skrifara, en létu hann lausan í Hafnarfirði um sumarið, þegar hirðstjóri kom til landsins.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, önnur útgáfa.

Um þessar mundir fylgdu Danakonungur þeirri stefnu að koma versluninni til Íslands í hendur danskra kaupmanna. Friðrik 2. Tók upp þá nýbreytni að selja einstakar hafnir á leigu. Við þessa ráðstöfun jókst vald konngs yfir versluninni og þetta var undanfari þess, að Danir tækju hana alfarið í sínar hendur. Kristján 4. Danakonungur gaf út tilskipun um einokunarverslun Dana hér á landi árið 1602. Þá varð úr sögunni hið beina verslunarsamband milli Íslands og Þýskalands og um leið Hafnarfjarðar og Hamborgar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – verslun Einar Þorgilssonar.

Verslunarstaðurinn í Hafnarfirði hét Fornubúðir og var á Háagranda, ysta tanga Hvaleyrargranda, gegnt Óseyri. Á fyrri hluta einokunartímabilsins, 1602 – 1787, var Hafnarfjörður helsti verslunarstaður á landinu.

HafnarfjörðurÁ árunum 1684-1732 var í gildi svokölluð umdæmaverslun. Landinu var skipt í mörg verslunarumdæmi, og var landsmönnum bannað að versla utan þess umdæmis, sem þeir voru búsettir í, að viðlögðum algerum eignamissi og þrælkun í járnum á Brimarhólmi. Kaupsvæði Hafnarfjarðar náði yfir Kálfatjarnar-, Garða- og Bessastaðasóknir, og voru íbúar þar árið 1702 samtals 980.
Árið 1774 tók konungur við versluninni, og breytist þá ýmislegt Íslendingum í hag.

-Úr Saga Hafnarfjarðar – Ásgeir Guðmundsson – 1983.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður nútímans.